12 september, 2010

Trúarleg afskipti (kannski 1)

Það hlýtur eiginlega að vera, að tilraunir til kristilegs uppeldis á mér, hafi skilað einhverju, þar sem það varð hlutskipti mitt að eiga í talsverðum samskiptum við kirkjuna lengi vel. 


Ég var ekki fyrr búinn að ljúka stúdentsprófi, en ég réði mig sem kennara í Lýðháskólanum, sem þá var tiltölulega nýtekinn til starfa, Hann átti að starfa í anda lýðháskóla á Norðurlöndunum og gerði það sannarlega fyrstu árin. Árið sem ég var þarna kennari um tvítugt, var einstaklega ánægjulegur tími og varð til þess að ég ákvað að leggja það starf fyrir mig. Þarna voru nemendur á aldrinum 16 ára til tvítugs auk þess sem skólinn tók að sér kennslu nemenda í efsta bekk grunnskólans í sveitinni. Þarna var skólastjóri sr. Heimir Steinsson. Hann nálgaðist starf sitt með afskaplega mannlegum og kreddulausum hætti og því varð þarna til afar skemmtilegt samfélag.
Það átti ekki fyrir lýðháskólanum að liggja að verða langlífur. Ástæðurnar? Það er sjálfsagt ekki auðvelt að fullyrða neitt um það, en tvennt kemur mér í hug. Annarsvegar má nefna þá tilhneigingu (félagsmálayfirvalda eða foreldra) að senda unglinga sem lent hafa á rangri braut, í skóla úti á landi. Þegar það gerist minnkar sjálfkrafa aðsókn þess markhóps sem skólinn hefur. Hin skýringin sem ég vil nefna, og ég treysti mér ekki að fullyrða um hvort var orsök eða afleiðing, er að kirkjan sóttist eftir meiri áhrifum á innihald námsins. Þetta birtist t.d. í því að efnt var til svokallaðs leiðtoganáms, sem ég veit ekki nákvæmlega í hverju fólst - væntanlega var því ætlað að þjálfa ungt fólk til að verða leiðtogar í æskulýðsstarfi kirkjunnar.


Eftir nám í höfuðborginni kom ég til baka og hóf fyrst kennslu í Reykholti í ein 7 ár. Ekki löngu eftir að við fluttum í Laugarás var ér kosinn í sóknarnefnd í Skálholtssókn og þar var ég í einhver ár. Það var á þeim tíma þegar ákveðið var að ráðast í að útbúa nýjan grafreit fyrir austan kirkjuna og að ráða nýjan organista. Eins og svo margt í Skálholti, var (og væntanlega er) staða sóknarnefndar dálítið sérkennileg. Skálholtsstaður laut stjórn sem sat fyrir sunnan, eins og sagt var. Kirkjuráð vélaði um málefni staðarins og hafði mest með það að gera hvað var gert á staðnum og hvernig. Það var með ýmsum hætti sem sóknarbörn í Skálholtssókn höfðu, eða gátu ekki haft, áhrif á það sem gert var. Ég held að megi segja, að sóknarnefnd hafi haft einhverskonar tillögurétt í flestu, en engan ákvörðunarrétt. Nefndin mátti ráðskast með mál sem harla litlu máli skiptu í heildarsamhenginu, eins og t.d. ræstingu á kirkjunni. Fyrir hönd þeirra fyrir sunnan var í Skálholti staðarráðsmaður, sem hafðu umsjón með því sem þar fór fram, sem ekki taldist til starfsemi kirkjunnar sem slíkrar.  Ég vil nú eiginlega ganga svo langt að segja, að stór hluti íbúa í Skálholtssókn hafi upplifað sig og upplifi sig enn, sem áhrifalitla í málefnum sóknarkirkju sinnar, og að þeim hafi fundist, frá því dómkirkjan reis, þeir vera hálf utangarðs. Það hafa meira að segja heyrst raddir um að réttast væri að reisa sérstaka kirkju í sókninni - en það hefur nú aldrei farið hátt eða langt, kannski vegna þess að trúarþörf íbúanna á svæðinu er virðist ekki vera sérstaklega mikil. Hvort vegur meira, trúarþörfin eða áhrifaleysið, skal ég ekki um segja.
Hvað sem því líður má segja, að andinn meðal fólksins hafi verið sá, að Skálholt tileyrði einhverjum öðrum frekar en okkur. Að mörgu leyti er þetta eðlilegt, hér er um að ræða eign þjóðarinnar allrar og einn merkasta sögustað landsins. Þrátt fyrir það er ég nú þeirrar skoðunar, að staða Skálholts væri í engu lakari en hún er, með því að hafa hleypt þeim sem búa á eða í nágrenni staðarins meira að ákvörðunum en reyndin er.  Stjórnarnefnd í höfuðborginni er ekkert endilega best til þess fallin að ákvarða um hvernig málum er best komið á staðnum.
Enn er ótalin aðkoma mín að málefnum staðarins , sem stóð frá síðari hluta níunda áratugarins þar til hrunárið 2008. 
Hvernig ég fer í það mál, verður að koma í ljós.

1 ummæli:

  1. Kirkjunn' í Skálholti kraftmenn' og biskupar stýra
    kærleikans iðkan þar telja á stundum- má rýra.
    Kirkja sú er
    (hvarflað þar hefur að mér)
    aldeilis útbrunnin týra.

    Hirðkveðill tjáir sig lítillega í framhaldi af skrifum Kvistholtsbónda um Skálholt.

    (Lagboði: Kristján í Stekkholti)

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...