30 mars, 2008

Helgardægradvöl


Þá stefnir í að enn einni helginni ljúki og við taki næsta vinnuvika lífsins. Við Kvisthyltingar, sem enn gistum landið góða gerðum skurk í að halda lítillega upp á afmæli höfuðborgarans. Þetta fólst í höfuðborgarferð. Þar var auðvitað í leiðinni heilsað upp á barnabarnið, sem er orðið afar óþekkt. Í framhaldi af því lá leið hópsins, að undanteknu barnabarninu, á það sem heimsborgarar í höfuðborginni kalla 'Stælinn' - ég kýs frekar að kalla það AMST í ljósi nútímalegrar skammstöfunarstefnu, eða þá bara hamborgarastað. Já- við létum okkur bara duga að fara á hamborgarastað þessu sinni. Þar fengum við góðan viðurgjörning að mörgu leyti miðað við tilkostnað, utan það að nýbökuðu brauðin voru tveggja daga.
Sumir Kvisthyltingar hafa það ekki fyrir sið að taka sér góðan tíma í að borða, með þeim afleiðingum í þessu tilfelli, þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem að jafnaði telja að máltíða eigi að neyta í rólegheitum, að máltíðinni lauk töluvert áður en tími var kominn á næsta líð höfuðborgarheimsóknarinnar. Bílstjórinn (ég) ók hægt og rólega, eftir krókaleiðum í átt að Breiðholtinu, og þurfti auðvitað nokkuð oft að gefa skýringar á því hversvegna hann fór þessa leið en ekki hina.

Að lokum var rennt í hlað Sambíóanna við Álfabakka.

Þar höfðu daginn áður verið keyptir miðar á midi.is, á glóðvolga, íslenska kvikmynd: Stóra planið. Ekki vildi betur til en svo, að þegar miðarnir voru prentaðir út við brottför, reyndist dagsetningin ekki vera sú sem skyldi. Það var því rennt við í Álfabakkanum fyrr um daginn til að leiðrétta þennan misskilning; láta þá bíómenn vita af því að Kvisthyltingar höfðu ekki ætlað í bíó í gærkvöld, heldur í kvöld. Þeir breyttu dagsetningunni ljúfmannlega og allt bjargaðist að lokum, en eftir stendur sannfæring mín um að sökin á vitleysunni var hreint ekki mín, þar sem ég hafði örugglega valið réttan dag og tíma á midi.is. Þetta var án vafa kerfisvilla hjá fyrirbærinu midi.is. Ekki meira um það.

Hópurinn kom í hlað 45 mínútum áður en sýning skyldi hafin, korter yfir 7, en þá voru fréttir í sjónvarpinu í útvarpinu og þótti þátttakendum tilvalið að sitja í bílnum og bíða eftir fréttinni af fernum tvíburum í Tungunum, sem getið hafði verið í fréttayfirliti. Fréttin sú reyndist svo vera sú síðasta og harla ómyndræn að auki; rætt við tvíburamóðurina Helenu og tvíburaföðurinn Knút, auk væntanlegrar tvíburamóður, Hallberu. Allt mjög áhugavert en myndlaust.
Það kom að þeirri stund, rétt fyrir 19.30 að Kvisthyltingar héldu innreið sína í kvikmyndahúsið. Það kom þeim nokkuð á óvart (hluta þeirra í það minnsta) að þar var nánast enginn fyrir, ekki nema hálftími í sýningu á íslenskri mynd á öðrum sýningardegi. Þarna hefði þegar átt að vera komin löng röð af spenntum kvikmyndahússgestum! Jæja, þeir seinu skyldu þá bara fá lélegustu sætin. Nú var bara að stilla sér upp í röð og vera tilbúin þegar miðarífillinn fjarlægði hindranirnar og byrjaði að hleypa inn. Fljótlega tóku tveir ungir menn sér stöðu fyrir aftan mig (í kringum tvítugt) og hófu ákafar samræður sem voru í mínum eyrum ótrúleg samsuða af íslensku og ensku. Hvert skyldi nú umfjöllunarefni hafa verið? Jú ég skal ekki draga ykkur á svarinu við því: Heath Ledger - kvikmyndaleikarinn sem nýlega safnaðist til feðra sinna. Ekki treysti ég mér til að endursegja ástríðuþrungnar lýsingar á þessum frábæra leikara að öðru leyti en þessu:
"Ef ég hefði farið á Brokeback Mountain eftir að hann dó mundi ég hafa fokkins farið að skæla."
"Skæla, hvað er það?"
"Skæla? .... Gráta."
"Nú? Ekki ég."
Kvisthyltingar héldu ekki uppi sambærilegum samræðum, en skiptust þess í stað á mikilvægum (nánast hneykslunarfullum) augngotum, og héldu áfram að bíða eftir miðaríflinum.
Það fór svo, að með því að standa fremst í röðinni, þrátt fyrir að þó nokkur slatti unglingspilta hefði troðið sér fram fyrir, sem fyllti frú Dröfn baráttuanda í garð svona liðs, þá reyndust vera nokkuð mörg sæti í kvikmyndasalnum (stærsti salur kvikmyndahússins) og því um auðugan garð að gresja þegar kom að sætavali, sem var í höndum ML-ingsins.
Ef ég færi að segja hér frá myndinni væri meiri hætta en þegar er orðin, á því að þeir fáu lesendur sem enn eru að píra augun í þennan texta, gæfust upp. Ég læt það því vera, en get þess svona í lokin, að íslenska kvikmyndin Stóra planið er í góðu lagi.
BROTHÆTT ER BAKS FJALL

Já, gerum það


Já, styðjum Hannes Hólmstein Gissurarson. Hann hefur gert þjóð sinni margt gott. Hann er líklega einn af vísari vinum alþýðunnar og þar að auki einn skeleggasti, vandvirkasti og virtasti fræðimaður sem starfar við Háskóla Íslands. Svona menn eiga það sannarlega skilið þegar þeir verða fyrir ómaklegum árásum, annarsvegar frá þeim sem þeir ólu og hvöttu til dáða, og hinsvegar frá illviljandi kommúnístum, að við styðjum vel við bakið á þeim. Við förum létt með að borga inn á reikninginn dágóða upphæð og gera Hannesi þannig kleift að halda áfram sínu góða starfi, hvort það er á vettvangi fræðimennskunnar eða þá við að setja ofan í við óþæga skoðanabræður.
Styðjum Hannes

28 mars, 2008

Sjálfsmorð vestrænnar menningar?

Ég ætlaði að fara að horfa á hollensku myndina Fitnah sem birtist á LiveLeak í gær. Þá finnst hún ekki þar lengur en í staðinn er þetta:

Following threats to our staff of a very serious nature, and some ill informed reports from certain corners of the British media that could directly lead to the harm of some of our staff, Liveleak.com has been left with no other choice but to remove Fitna from our servers. This is a sad day for freedom of speech on the net but we have to place the safety and well being of our staff above all else. We would like to thank the thousands of people, from all backgrounds and religions, who gave us their support. They realised LiveLeak.com is a vehicle for many opinions and not just for the support of one.Perhaps there is still hope that this situation may produce a discussion that could benefit and educate all of us as to how we can accept one anothers culture.We stood for what we believe in, the ability to be heard, but in the end the price was too high.

Í sem allra stystu máli segjast þeir hafa neyðst til að fjarlægja myndina vegna mjög alvarlegra hótana í garð starfsfólks og að þeir setji öryggi þess ofar tjáningarfrelsinu.

Ég tel mig nú ekki vera æsingamann, en ég verð samt að vera þeirrar skoðunar að það sé ekki bara si svona ásættanlegt að við þurfum að bugta okkur og beygja í þeim menningareimi sem við byggjum, fyrir menningarheimi fólks sem hefur flutt sig af ýmsum ástæðum inn í okkar.

Ég tel einnig að sá tími færist nær að Evrópubúar bregðist við, en jafnframt held ég að þá verði það og seint. Ég held að umburðarlyndi okkar hafi leitt til þeirrar stöðu sem nú er uppi. Við verðum þá bara að taka því.

Fyrst ég gat ekki fundið myndina fann eg þennan náunga, sem ég er sammála að mörgu leyti þó ég eigi erfitt með að kyngja sumu af því sem hann lætur sér um munn fara.




WHEN IN ROME DO AS THE ROMANS DO

24 mars, 2008

Páskauppgjör

Hér á þessu landi elds og ísa, þar sem uppsveitastemningin er eins og hún getur best orðið, hafa páskarnir einkennst af allmiklum rólegheitum hið ytra, en hið innra hefur staðið yfir baráttan milli þess að drífa bévítans skattframtalið af og hins, að fresta því til síðustu stundar. Niðurstaðan hefur orðið millivegur, en með opnum möguleika á frestun.
Það hefur verið fastur liður á þessu heimili undanfarin 20 ár, á að giska, að iðka söngmennt af krafti á og í kringum páska. Fyrst á pálmasunnadag, þá á skírdagskvöld, og loks í messu á páskadag, oftast bara einni, en nú undanfarin ár að einhverju leyti líka kl 8 að morgni þessa dags.
Þetta söngstand átti sér ekki stað um þessa páska. Hvað verður síðar veit enginn. Ástæður mínar eru tiltölulega einfaldar. Ég tel þá sem fara fyrir málum á Skálholtsstað ekki hafa sýnt kórnum þann sóma sem hann hefur átt skilinn. Fyrir utan það að heilmikið ástand hefur verið með málefni organistans á staðum á síðustu misserum, þá hafa fyrirmenn á staðnum lítilsvirt starf kórsins með því að mæta ekki til tónleika sem hann hefur haldið. Ég nefni hér bara tvenna: útgáfutónleka vegna geisladisks kórsins sem voru haldnir í nóvember s.l. (það var Skálholtsstaður sem gaf diskinn út) og síðan glæsilega aðventutónleika í desember, en þá var yfirvaldinu sérstaklega boðið.
Þetta var í mínum huga dropinn sem fyllti mælinn, og bætist við ítrekað almennt sinnuleysi um velferð kórsins. Ég hef tekið mér ótímabundið frí frá þessum störfum, í það minnsta þar til sú breyting verður á Skálholtsstað sem ég sætti mig við.
Þessi síða átti ekki að verða vettvangur minn fyrir það sem neikvætt er í veröldinni, en ég verð bara í þessu tilviki að vísa til þess, að undantekningin sannar regluna. Það vona ég, í það minnsta.

22 mars, 2008

BJÓR var það heillin

Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Þá er komið að þeim tímapunkti, að ekki verður þessum leik haldið áfram lengur. Þegar þátttakendur eru farnir að leita heimilda um víðan völl og grafa upp dæmi úr fornsögum og seðlasafni Orðabókar Háskólans, þá er þetta bara orðið gott. Það virðist ljóst að sumir þeirra sem hér hafa lagt sitt af mörkum hafa líklegast misst nokkurn svefn og sálarró og því er nauðsynlegt að gefa fólki færi á að borða páskaeggin sín í rólegheitum.


Síðasta tilraun sem gerð var til að ráða gátuna hljóðar svo:


Mig minnti mig hafa lesið það fyrir löngu síðar. Sá síðan texta á þá leið í Ritmálsskrá Orðabókar Háskóla Íslands en sé nú að ég hef verið fullfljótur á mér því bjór þýðir gaflhlað. Dæmi um notkun þess má finna hér:
Setti líka nokkur hér meðfylgjandi:
þeir rufu þá kirkjuna á bak við altarið, og brutu í burtu bjórinn, Biór, gafl í húse, gafl-hlad.
hann dró biskup óþyrmsamlega út um biórinn á kórgaflinum.
Gaflhlað á baðstofu er nefnt ,,bjór`` [þe: á Vestfjörðum]. Á Vestjörðum, einkum í Arnarfirði sumstaðar, eru endernir á baðstofum kallaðir bjórar.
En vissi líka að bjór er skinn, sbr.:
Eg skal giefa þier Ostsneid, ef þú rakar Biór minn.
Skinn voru notuð til gagns á margan hátt en bundinn á fótum er ég lens með. Dettur helst í hug að um skóþveng sé að ræða. Þeir voru skornir úr skinni hér áður fyrr.
Mar 22, 2008 10:44:00 AM


Hér er Skúli frændi Sæland á ferð, en hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til ráðningar og er nú kominn furðu nálægt réttri niðurstöðu, en þetta með gaflhlaðið virkar ekki allskostar.


Hér á eftir verður þess freistað að varpa ljósi á merkingu gátunnar.


Upphaf þess máls lýtur að þeim aðstæðum sem gátan var sett fram við. Viðkomandi voru nýkomin heim úr kaupstaðarferð. Það, í sjálfu sér, var fyrsta vísbendingin því lesendur hefðu átt að átta sig á samhenginu milli kaupstaðarferðar og 'kaupstaðarlyktar', en kaupstaðarlykt fylgdi og þeim er komu úr kaupstað, ekki síst áður fyrr. Síðasta dæmið sem ég þekki er þegar Stebbi í Höfða kom heim úr kaupstað og hafði þá í fórum sínum pela af VAT69 og honum fylgdi þessi sérstaki kaupstaðarkeimur.
Gamli maðurinn hafði, sem sagt, sýnt áhuga á að vita hvernig 'Skjálfti' frá Ölvisholti smakkaðist og af þeim sökum var þessa drykkjar aflað í umræddri kaupstaðarferð. Þegar heim var komið þótti við hæfi að skoða málið nánar með því að taka tappa af einni flöskunni. Það var þá sem gátan leit dagsins ljós hjá þeim gamla. Kom hægt, en kom samt.


Skjálfti hefur nokkuð sérstakt bragð, en ég dæmi ekki um gæði hans þar sem ég er ekki mikið fyrir drykki af þessu tagi.
Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Hér ætla ég að freista þess að skýra hvað um er að ræða.


Bjór hefur í þessari gátu tvær merkingar eins og ég hef þegar nefnt í vísbendingu. Annarsvegar er auðvitað um að ræða drykkinn, en hinsvegar merkinguna skinn eða húð (leður).




Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
Maður verður kátur af bjór og bjór er sútaður (við vinnslu á húð) eða merkingin getur líka vísað til þess að fólk fer í sjúklegt þunglyndi sem afleiðingar af neyslu bjórs.


til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
það er búið til ýmislegt gagnlegt með því að elta skinn (nudda það unz það verður hvítt og mjúkt) af drykknum geta menn hinsvegar hlotið skaða eins og nærri má geta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
reiðtygi eru búin til úr leðri (hnakkar og beisli) - já, já... drykkurinn rennur um hálsinn - það getur hver maður séð.
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.
Það kannst margir við það hver áhrif fylgja því þegar áfengið í bjórnum fer að hafa áhrif á höfuðið. Að lokum var fótabúnaður áður fyrr búinn til úr skinni/leðri.
Og þar hafið þið það ágætu lesendur.
Loks þakka ég þátttakendum við lausn gátunnar góðar undirtektir.
Böl er bjór börnum

21 mars, 2008

Og ég er......

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.
Ég nenni nú ekki að bíða mikið lengur eftir því að þið, vísu lesendur, finnið út úr þessu. Ég þakka ykkur samt fyrir heiðarlegar tilraunir. Nú ætla ég að gefa ykkur tvær vísbendingar sem geta varla leitt til annars en niðurstöðu í málinu:
1. Hér er um að ræða tvennt, afar ólíkt, sem hefur sama heiti.
2. Íslensk orðabók gefur þessa skýringu á öðru heitinu:
- hörund, skinn, skinnpjatla, lélegt skinn
Baldinn er brókarlaus maður

19 mars, 2008

TUMI Í SVEITINNI

Hver er ég?

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.

Nú er nýlokið enn einni kaupstaðarferðinni fyrir páskana. Gamli maðurinn var að sjálfsögðu með í för til páskainnkaupa í búðinni einu sönnu. Í gær fékk hann í hendur endurnýjað ökuskírteini og ég tók til þess hve létt (og jafnvel unglegt) göngulagið var úr bílnum inn til sýslumanns og til baka aftur með hið nýja skírteini.
Hvað um það, þegar heim var komið úr verslunarferðinni, og hann hafði fagnað því að vera kominn aftur til síns heima (hvort sem það var vegna akstursmátans eða einhvers annars) þá lagði hann fyrir okkur gátuna sem sjá má hér fyrir ofan.
Nú spyr ég þá sem eitthvað þykjast kunna fyrir sér, og hina líka, hvort þeir geta ráðið þessa gátu. Það er skilyrði, að með ráðningunni fylgi útlistun á því hvernig hver liður hennar tengist því sem um er spurt.
Svarið verður síðan birt innan skamms (viku) og vænti ég þess að þá verði það komið.
Ljúf eru löngu sporin.

16 mars, 2008

Laugarásstemning - um miðjan mars

Enn og aftur skal því haldið á lofti að vorið nálgast hér í Laugarási umfram það sem gerist annarsstaðar. Sólin keppist við að varpa stöðugt kröftugri geislum sínum á ísi þakta storð og smátt og smátt fjölgar sinutoppunum sem teygja sig upp úr mjallarábreiðunni. Þó enn sé hitinn undir frostmarki og ískuldi innandyra þegar frú Dröfn tekur á sig rögg og fer út á pall að berja á fönninni og skilur dyrnar eftir opnar svo ég verð að fara í lopapeysu og hlýja inniskó til að krókna ekki, þá eru öll merki um betri tíð með blóm í haga til staðar.

Af þessu tilefni var ákveðið að halda í göngutúr bæði til þess að ástunda nauðsynlega líkamsrækt (Dröfn) og til að fanga fegurð Laugaráss og nágrennis á mynd með nýja Canoninum (ég). Niðurstöðurnar úr líkamsæktinni koma fram hægt og hægt (hægar en frúin vill sætta sig við orðalaust) en afrakstur myndatökunnar er nú þegar kominn inn á myndasvæðið.

Kemst þótt hægt fari.

PS-P640 - enn á ferðinni

Jæja, góðir hálsar, enn hefur undratækið PS-P640 sannað óskorað ágæti sitt með því að tengjast með óaðfinnanlegum hætti við Ástralann Þorvald, sem fékk nú að berja foreldra sína og litla bróður augum fyrsta sinni síðan í síðari hluta janúar. Þorvaldur dáðist mikið að myndgæðunum sem tækið skilaði, eins og fyrr segir, óaðfinnanlega.

Hve auðveld tengingin er, hve eðlilega samskiptin ganga fyrir sig, hve sterk og á sama tíma nákvæm sendingin er?

Já, PS-P640 hefur nú staðist allar þær kröfur sem til þess hafa verið gerðar. Ekki þarf frekar vitnanna við.

PS-P640 rúl(l)ar (upp Logitech, Creative, Starstruck og öllu þessu sem venjulega er haldið á lofti)

13 mars, 2008

Að gefa hund

Mér var gefinn hundur þegar við fluttum (til takmarkaðrar dvalar) í þessa kennarabústaðagötu hérna á Laugarvatni einhverntíma í fyrra. Samstarfsfólki mínu þótti það víst ómögulegt að ég væri eini íbúinn í götunni sem ekki ætti hund. Hann var sem sagt afhentur við hátíðlega athöfn og ég þakkaði pent fyrir, eins og sagt er. Síðan hefur þessi hundur dvalist hér í götunni og ég nota hann sem afsökun, rétt eins og nágrannarnir, til að skjótast heim í Hvarf við og við, til að viðra hann. Það tekur svo sem ekki langan tíma hverju sinni. Það fer þannig fram, að ég bind snæri í hálsólina of fer síðan út með hundinn stutta stund. Það sem gerist þar er eftirfarandi: Ég held í snærið og lyfti hundinum varlega frá jörðu. Þessu næst lyfti ég hægri höndinni (þeirri sem ég held í snærið með) vel upp fyrir höfuðið og sný 5 sinnum með sól og síðan strax 5 sinnum á móti sól. Þegar þessu er lokið læt ég hundinn síga varlega til jarðar aftur, fer með hann inn og held síðan til vinnu minnar á ný, með endurnærðan og ánægðan hund úti í Hvarfi.

Nú kunna lesendur að hafa komist að þeirri niðurstöðu að eitthvað hafi farið úrskeiðis í sálarlífi mínu að undanförnu, en það er hreint ekki svo. Hundurinn hefur ekki hlotið neitt formlegt nafn fyrr en hér og nú. Hann heitir sem sagt HUNDURINN. Hann gerir engar kröfur og geltir og ýlfrar þegar maður strýkur á honum bakið. Ég hef reyndar ekki athugað í heilt ár hvort rafhlöðurnar í honum virka enn.
-----------------------
Það hefur verið erfið vikan hjá einum starfsmanna okkar í ML þessa viku. Eiginmaðurinn lést s.l. laugardag og nú er orðið tímaspursmál hve lengi annar hundurinn hennar lifir, en hann er undirlagður af krabbameini. Hún hefur verið að hugsa sér að fá sér hvolp að undanförnu til að koma í stað þess gamla og var búin að finna einn sem hana langaði mikið í. Það gerðist síðan í dag, að frumkvæði nokkurra nemenda, að nemendum var gefinn kostur á að leggja sitt af mörkum til að hún gæti eignast hvolpinn. Nánast allir nemendur skólans tóku þátt og málið er í höfn.
Fulltrúar nemenda afhentu henni gjafabréf fyrir hvolpinum og fölskvalaus var ánægja þiggjandans og annar fulltrúinn hafði það á orði að henni hefði "aldrei liðið eins vel í hjartanu" og þegar gjöfin var afhent og viðbrögin urðu ljós.

Sælla er að gefa en þiggja.

09 mars, 2008

Sólbráð - var það

Það sem er hér fyrir neðan var skráð af innlifun fyrir svona um það bil 4 klukkustundum. Síðan þá erum við búin að kíkja á Leynimel 13 hjá Umf Bisk og skemmtum okkur alveg ágætlega. Ef ég væri Egill núna myndi ég bölva þessu Blogspot drasli í sand og ösku fyrir að hafa ekki virkað þegar til átti að taka. Það geri ég auðvitað ekki - svo yfirveguð persóna sem ég er. Ég greip til þess ráðs að taka afrit af spekinni þegar ljóst var hvert stefndi með bloggspottið - set hana nú inn í rólegheitum nokkru síðar.
Hér kemur það sem skráð var og geymt fyrr í dag:
"Manni finnst núna eins og ekki verði aftur snúið; eins og framundan sé fátt líklegra en vorkoman. Sólin nær svo hátt loft þessa dagana, að hún skín ekki endilega beint í augun í vikulegri verslunarferð í búðina einu, í farartæki gamla mannsins (hann telur afar nauðsynlegt að Súbarúinn fái hæfilega hreyfingu við og við og leggur töluvert mikla áherslu á að nýta hann í ofangreindum kaupstaðarferðum), sem er nýbúinn að endurnýja ökuskírteinið sitt eina ferðina enn. Hann er hinsvegar ekki búinn að fá nema bráðabirgðaskírteinið í hendur enn og er töluvert mikið í mun að nálgast þetta varanlega, þó svo það gildi nú ekki nema í eitt ár. Hann er sem sagt í því núna að skipuleggja hvenær hann kemst til sýslumanns.

Sólin bræðir köldustu hjörtu, en hvítt teppi vetrarins þekur sunnlenskar byggðir sem aldrei fyrr.

Eftir miklar annir á ýmsum vígstöðvum undanfarnar vikur stefnir í að við skellum okkur í leikhús Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna á þessu laugardagskvöldi. Vonir standa til að það verði ekki leiðinleg kvöldskemmtan.

Framundan blasir við enn ein vinnuvikan í þeim hafsjó vinnuvikna sem að baki eru, árum saman, en að þessari lokinni tekur við sérlega langþráð páskafrí, með páskaeggjum frá Freyju, að kröfu eiginkonunnar. Ég nenni nú ekki að fara að eyða tíma mínum í að hafa einhverja sérstaka skoðun á páskaeggjategundum, en mér skilst að ástæðu þessarar Freyjupáskaeggjaástar megi rekja til einhvers atvikst tengdu Nóapáskaeggjum í fyrra eða hitteðfyrra. Gott ef tenórinn Egill komst ekki að þeirri niðurstöðu á einhverjum tímapunkti að þau væru óæt. Freyjupáskaegg skulu þar vera. Ekki orð um það meir. (mig minnir nú samt að þau séu ekkert sérstaklega bragðgóð og að draslið inni í þeim sé af lakara taginu).

Ég vígði nýju Canon myndavélina mína og nýja flassið í gærkvöldi á árshátíð ML. Það gekk að vissu leyti ágætlega, en ég bíð þó eftir nýju, mögnuðu linsunni sem er á leiðinni til landsins.
Það er, að mínu mati nauðsynlegt að taka það skýrt fram, að ég er, þrátt fyrir þessa nýjustu viðbót í græjusafnið mitt, engan veginn neinn græjufíkill, svo því sé haldið til haga."

05 mars, 2008

Nei, líklega ekki

Þetta leit vel út í byrjun. Sá fram á langar kvöldstundir fyrir framan DELL-inn í miklum ham við að lemja inn nákvæmar lýsingar á ferðinni til Berlínar og Kaupmannahafnar. Það hefur hinsvegar reynst þrautin þyngri, þar sem annir í brauðstritinu og líkamsþjálfuninni hafa ekki orsakað neitt nema þreytu og leti á kvöldin.
Ég vil hinsvegar benda á að Guðný hefur sett saman heilmikla fræðigrein um ferðalagið á sinni síðu (ber þó að vara við því að fremur illkvittnislegar athugasemdir um hegðun okkar hjónakornanna skortir algerlega grundvöll, ef betur er að gáð), svo og Egill og Soffía. Ég er eiginlega afar feginn því að þetta smellur svona vel saman: leti mín og þreyta annarsvegar og sérlega góðar ferðalýsingar hinsvegar.

Ég er greinilega ekki búinn að fá nóg af flugferðum, því eldsnemma í fyrramálið verður stigið um borð eina ferðina enn, þessu sinni í Fokker á leið til Egilsstaða, þar sem til stendur að sitja 'námskeið' fram á föstudag. Þetta er svona vísindaferð stjórnenda í framhaldsskólum. Ég verð svo varla lentur aftur í höfuðborginni á föstudag þegar árshátíðarkvöldverður hefst í ML.

Helgin verður síðan undirlögð í af tilraun minni til að vinna upp syndir - hlustun á 4 fyrirlestra sem ég hef ekki haft tíma til að afgreiða að undanförnu. (tíma eða nennu).

Ég vona að Þorvaldur hinumegin sé búinn að ná sér eftir meint hjartaáfall og að Ísabella þrífist vel. Þá er það einnig von mín að Egill sé að taka skipulagsmálin föstum tökum í Þýskalandi, Guðný að átta sig á því hvað 'inoculation' merkir, og Brynjar sé ekki búinn að rústa Konica-Minoltunni.

Þetta er bara svona.

02 mars, 2008

Er langloka framundan?

Nú er fimm daga ferðalagi lokið. Spurning hvernig best er að vinna úr því. Hér er tillaga að kaflaskiptingu, en ef einhverjir hafa tillögur um viðbótakafla þá bara láta þeir vita:
1. Leiguíbúð og ljúfasta Reykjanesbraut I
2. Antifreeze
3. Hinn dularfulli Terminal tre
4. Ég hefði aldrei farið ef ég hefði vitað.....!
5. Renault Espace með bílstjóra (og GPS)
6. Am Kurfurstenstrasse
7. Sony Center og Berlínarmúrinn - fullkomin samsvörun
8. Sieg heil
9. Feng Shui
10. Berlín tekin með trompi
a. Berliner Dom
b. Hoenecker rifinn
c. Gamalt og nýtt
d. Raum der Stille
e. Pizza
f. Remember the Jews
g. Parísarhjól rokkar
h. Verslunar....
i. GPS
j. Hilmar Örn Agnarsson
k. Egill og Soffía
l. Brynjar Steinn og Guðný Rut
m. Það vantaði eitthvað.
n. Schönefeld - Easy Jet
o. ísí dsjet
11. Kastrup öðru sinni
12. Í svokölluðu Danaveldi
a. Tekið í mót oss
b. Afdrepið í eigin húsi
c. Börn I
d. Börn II
e. Börn III
f. Nánast ættarveldi.
13. Kastrup þriðja sinni
14. A reminder - eitthvað sem best er gleymt
15. Sallarólegt flug í norðvesturátt
16. Á klakanum aftur
17. Ljúfasta Reykjanesbraut II
15. Barnabarnið I og II
16. Heiðin heillar
17. Í Kvistholti aftur
18. .......og þaðan auðvitað beint í Hvarf

Eins og hér má sjá er frá mörgu að segja. Hvort það gerist á næstu dögum eða vikum verður að koma í ljós, en þessa ágæta ferðalagi verða gerð skil hér með einhverjum hætti.

Enn bendi ég lesendum á þann möguleika að leggja til möguleg umfjöllunarefni umfram þau sem hér hafa verið nefnd.

Þá verð ég að segja að niðurstaðan í 'Forbrydelsen' var ekki alveg nægilega sterka að mínu mati. . :)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...