30 september, 2008

90/I


Það ætti ekki að hafa farið fram hjá þeim sem líta hingað inn við og við að gamli unglingurinn var níræður í gær. 
Hann var búinn að skipuleggja þennan merkisdag með sjálfum sér eins og hans er von og vísa; hugðist halda í austurveg að hitta gamla kunningja. Þessum fyrirætlunum hans var rústað með því að við Benedikt, Kirkjuholtsbóndi, fengum það hlutverk að tryggja að um dagamun yrði að ræða. 
Þessi fyrri hluti umfjöllunar um þennan dag fer í að segja lítillega frá fyrri hluta dagskrár sem skipulögð var, eða ekki skipulögð. 
Það var hugmynd afmælisbarnsins, að fara í bíltúr, ekki langan, heldur bara um Laugarás og næsta nágrenni. Hann hafði þá ekki mikið ferðast um svæðið undanfarin ár og ekki heldur ég eða fD, sem vorum þarna með í för.

Það skipti engum togum að haldið var í bíltúrinn sem reyndist, þegar upp var staðið, hafa tekið einn og hálfan klukkutíma. Fyrst var ekið um Vesturbyggð, framhjá Skyrklettum og upp Holtagötu, alla leið að Ásmýri. Því næst var haldið yfir Iðubrú, en snarlega stöðvað þegar sást til hegra (gráhegra?) sem sat á bakkanum hinumegin árinnar. Hann var myndaður í gríð og erg (íþróttastillingin á EOS400D). Þá var það sumarbústaðhverfið Iðumegin, með nýja sýn á Laugarás, en auðvitað voru einhverjir veiðiréttareigendur búnir að girða það af eins og herstöð. Það var keyrt um hlaðið á Iðu þar sem Magga var að dunda sér utandyra. Hún tók loforð af þeim gamla að hann kæmi í kaffi fljótlega.

Þessu næst var Höfði, þar sem staðið hafa yfir miklar byggingaframkvæmdir undanfarna mánuði sem tengja má að nokkru leyti uppgangi í íslensku efnahagslífi undanfarin ár (við þessar aðstæður fjalla ég ekki frekar um uppganginn þann hér, en mun væntanlega gera það sérstaklega innan skamms).
Það er fallegt útsýni að Laugarási frá Höfða auk þess sem sést víða um efri hluta Biskupstungna og út í Hrepp.

Haldið til baka í átt að Laugarási og Bæjarholt var næsti viðkomustaður. Þar er verið að byggja 4 einbýlishús í kreppunni. Eftir Dunkabraut lá leiðin síðan í Austurbyggð þar sem sjá má eitt ljótasta hús sem um getur (í mínum huga), en það á þó í harðri samkeppni við annað í Bæjarholtinu að því er ljótleika varðar.

Ágætis ferð og upplýsandi um það sem þó hefur gerst í Laugarási undanfarin ár. Sá aldni var reyndar orðinn nokkuð órólegur undir lok ferðar þar sem hann átti eftir að taka sig til fyrir útstáelsi kvöldsins. Um það verður fjallað í kafla með nafnið 90/II.


Allt er ljúft í Laugarási
logn þar sérhvern dag.
Sama þó úr suðri blási
sést þar aldrei ...
(æ, ég nenni ekki að klára þetta mál, enda þarf þess ekki þegar staður þessi er annars vegar.)


 

28 september, 2008

Grand finale


Það er ekki annað hægt að segja en löngu og farsælu starfi hafi lokið með stæl, eins og sagt er, á kveðjutónleikum Hilmars Arnar Agnarssonar í Skálholtskirkju í gær. Í sneisafullri kirkjunni fengu flytjendur og gestir að njóta sýnishorns af því sem sá sem kvaddur var hefur verið að vinna að í tónlistarmálum í Biskupstungum og á Suðurlandi öllu. Þá þakkaði Þrúða, í ávarpi sínu í upphafi tónleikanna, Hófý fyrir ómetanlegt framlag hennar í gegnum árin. Það var vel til fundið.

 Tónleikunum lauk ekki fyrr en úti á tröppum kirkjunnar, þar sem kórar og hljóðfæraleikarar sungu gestina út úr kirkjunni. Mér varð það á að hugsa, að ef til vill fæli sú sjálfsprottna og óæfða aðgerð í sér ákveðna túlkun á því, að nú sé kirkjan ekki lengur skjól fyrir starfsemi af þessu tagi, en sjálfsagt er það bara ekki fallega hugsað hjá mér.

Tónleikarnir sjálfir tókust sérlega vel, enda þátttakendur sér þess vel meðvitaðir að það var komið að ákveðnum leiðarlokum, í bili að minnsta kosti. Gestir, sem ég hitti, fundu vel fyrir þeirri blöndu af trega og gleði sem geislaði frá þeim sem fram komu.

Þakkir þeim sem komu og létu þannig í ljós þakklæti sitt fyrir uppbyggilegt starf Hilmars í Skálholti.

Að tónleiknum loknum eyddu þátttakendur kvöldinu saman á veitingahúsinu Klettinum.
 
Nú er nýr dagur, sem, eins og allir dagar, felur í sér fyrirheit um eitthvað annað. 

Ég tók nokkrar myndir á lokaæfingu í gærmorgun.




25 september, 2008

Tímamótatími

Þessa dagana er sannarlega nóg að snúast og þessi færsla fellur einfaldlega undir eitthvað sem kalla mætti stuld á verðmætum tíma. Fyrir utan það, að í fyrramálið hyggst ég lemja lyklaborð með hinum unglingunum í HÍ og þá er vika í skil á fyrsta verkefni í námskeiðinu því. Þá eru framundan stórtónleikar í Skálholtsdómkirkju á laugardag kl. 17.30, að afloknu brúðkaupi. Einhver einn veit hvort þar verður um að ræða síðasta sinn sem ég ljái þeirri ágætu kirkju yndisfagra tenórrödd mína (mér hafa þegar borist nokkur tilboð um þátttöku í kórum í framhaldi þess að eftir laugardaginn verður ekkert til (í það minnsta eins og staðan er nú) sem kalla má Skálholtskórinn). Tilboðin íhuga ég vissulega vandlega og læt vita þegar niðurstaða liggur fyrir.
Gamli unglingurinn nýtur þess að verða níræður á komandi mánudegi og það stefnir í að eitthvað verði gert til hátíðarbrigða, ef tekst að tala hann inn á eitthvað slíkt.

Það er einhvernveginn eins og brauðstritið sé að færast aftar í röðinni, en það verður að líta á það sem og hluta af þeirri þróun, sem smám saman gerir meira vart við sig og sem ég hef þegar íað (íjað/ýjað/ýað/í-að/ý-að) að hér að þessari eðal síðu.

Aldrei skal íað að neinu
sem enginn veit neitt um.
Því ræður hann, allt að einu
sá einn, er við tilbiðjum.

19 september, 2008

Aldurinn færist yfir

Það ber ekki á líta á fyrirsögnina, sem ég hef valið þessu sinni, sem eitthvert gamalmennavæl. Vissulega er það svo, að árunum fjölgar og ég fæ að vita af því með ýmsum hætti, yfirleitt þannig að árafjöld teljist fremur draga úr hæfileikum eða getu til að takast á við líf nútímamannsins. Ég hef vissulega nokkrum sinnum komið inn á það á þessum síðum að sú veröld sem æskan hleypur um nú til dags sé, á margan hátt fremur gölluð, en hef fundið fyrir því jafnskjótt að þeir sem yngri eru líta á það svona eins og gamalmennaraus. Hér vísa ég t.d. til umræðu minnar um aumingjavæðinguna og annað af svipuðum toga.

Fyrir nokkrum dögum komst ég að því að árin segja að kennluskylda mín lækki um 1 tíma á viku, sem þýðir, fyrir leikmenn, að í stað þess að kenna 24 kennslustundir á viku til að teljast vera í fullu starfi, þá þarf ég hér eftir að kenna 23 til að fá sömu laun. Eins og menn geta ímyndað sér, þá skiptir þetta geypilega miklu máli, eða þannig. Viðbrögð mín við uppgötvuninni snéru ekki að því, að nú þyrfti ég ekki að vinna jafn mikið til að fá sömu laun, en upplifði ég þetta sem áminningu um að núna færi að styttast í þessu, en því er ég hreint ekki tilbúinn að kyngja, eins og nærri má geta. Körin verður að bíða enn um sinn.
Svona til þess að sanna það fyrir sjálfum mér að þetta væri bara rétt að byrja, skellti ég mér í morgun, árla, í höfuðborgina til að sitja tíma í Háskóla Íslands, og þar með ljúka ákveðnum áfanga, sem ég hóf  fyrir 2 árum. Hingað til hefur mér dugað að sitja við tölvuna heima hjá mér til að fylgjast með fyrirlestrum, en í þetta sinn verð ég að aka vikulega til að drekka í mig spekina.  Þarna mætti ég, sem sagt í morgun, sprækur að vanda, til að sitja umræddan fyrirlestur í námskeiði sem kallast 'Almannatengsl'. Ég neita því ekki, að þegar æskublóminn streymdi í salinn, klyfjaður tölvunum sínum og fór að emmessenna á fullu og svara tölvupóstum og vafra um internetið, þá fann ég fyrir lítilsháttar .......(ég veit ekki einusinni hvaða orð hentar best). Svo gekk fyrirlesarinn í salinn, yngri en elsta afkvæmi mitt og hóf að segja mér hvernig almannatengslum skuli háttað og hversu mikilvæg þau eru í samtímanum. Sjálfsagt er hér um mikil og mikilvæg fræði að ræða, en einhvernveginn virkaði framsetningin flöt á mig, sem er auðvitað mitt vandamál.  Þá var það dálítið sérstök reynsla að sitja þarna í tvo klukkutíma með glósutakkahljóð frá öllum tölvunum í eyrunum. 
Unglingaranir þarna voru af sama sauðahúsi og þeir sem ég umgengst dags daglega, verðandi erfingar þjóðlegra gersema, bæði veraldlegra og menningarlegra. Mér varð hugsað til þess hvernig okkur hefur tekist að tryggja það að þessi kynslóð tileinki sér þau gildi sem þjóðin hefur löngum hreykt sér af (þar með er ég ekki að leggja mat á þessi gildi).
Nú er framundan að vinna hópverkefni með einhverju af þessu ágæta fólki, og það verður væntanlega eins og það verður.
Ég mun mæta með Dellinn minn í næsta skipti og taka þátt í takkaslættinum.

Fleira varð til að minna mig á árin sem eru að safnast upp, því Domus Medica var næst á dagskrá. Ég fjölyrði hinsvegar ekki um erindi mitt þangað að öðru leyti en því, að það var aldurstengt. 

Í ferðinni komst ég hinsvegar að því að ég bý yfir því, sem allir í réttum flokki geta nýtt sér, óháð aldri, jafnt ungabörn sem gamalmenni (hvað skyldi það nú vera?) þannig að bæjarferðin varð síður en svo til að draga niður í mér, bráðungum manninum.

Kör mun vísa leið til karar
kreppir þá að lífsneistanum.
Ekki veldur sá er varar
von er enn hjá skaparanum.

ÚFF!

17 september, 2008

Kvatt

Ég leyfi mér að birta hér fréttatilkynningu vegna tónleika í Skálholtsdómkirkju laugardaginn 27. september, n.k. kl. 17.30.

--------------------------------------------------------------------

Kveðjutónleikar í Skálholtskirkju

Hilmar Örn Agnarsson organisti og kórstjóri kvaddur

Laugardaginn 27. september kl 17.30 verður haldin mikil tónlistarveisla í Skálholtskirkju.  Hilmar Örn Agnarsson hefur nú látið af störfum sem organisti og kórstjóri í Skálholti eftir nær 20 ára farsælt starf og nú er komið að eftirminnilegri kveðjustund.

Á tónleikunum koma fram, undir stjórn Hilmars, félagar í þeim kórum, sem hann hefur stjórnað undanfarin ár, þ.e. Skálholtskórinn, Barna- og Kammerkór Biskupstungna og Kammerkór Suðurlands.  Einnig fjöldi þekktra tónlistarmanna, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar, sem tekið hafa þátt í tónleikum með kórum Hilmars.  Má þar sérstaklega nefna Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, sem sungið hefur einsöng með kórunum innanlands sem utan, söngvarana Hrólf Sæmundsson, Margréti Stefánsdótttur og Maríönnu Másdóttur, sálmabandið Lux Terrae, Hjörleif Valsson konsertmeistara og hans lið, Jóhann I Stefánsson trompetleikara, svo nokkrir séu nefndir.  Þá munu hinir ágætu organistar, Haukur Guðlaugsson, Steingrímur Þórhallsson og Guðjón Halldór Óskarsson leika á orgel kirkjunnar fyrir tónleikana, meðan gestir ganga til sætis.

Flytjendur munu allir sem einn leggja sitt af mörkum til að gleðja þá sem koma að hlusta, gleðja hvert annað og ekki síst söngstjórann, sinn góða vin og baráttumann fyrir sönguppeldi og söngmenningu í sveitum landsins.  Megi honum farnast vel á nýjum starfsvettvangi.

Aðstandendur tónleikanna óska þess, að þeir sem tök hafa á, láti upphæð sem svarar aðgangseyri að tónleikunum, (t.d. kr 2000,-) í söfnunarkassa í andyri kirkjunnar og mun ágóði tónleikanna renna óskiptur í námssjóð fyrir Hilmar Örn.  Viljum við með því sýna honum örlítinn þakklætilvott fyrir það óeigingjarna starf, sem hann hefur lagt af mörkum fyrir samfélagið hér austan fjalls undanfarna áratugi.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Kórfélagar í kórum Hilmars

------------------------------------------------------------------------------------------

Með tónum skal töfruð fram gleði

15 september, 2008

Ráð haldið til stefnu

Það er mikil þolraun að fara á ráðstefnur. Flug um langar leiðir í níðþröngum flugvélasætum, leigubílaakstur milli staða, gisting á hótelum, ferðalög á ráðstefnustað, mjaðmaskemmandi göngutúrar þar á milli og samkundur af ýmsu tagi þegar líða tekur á dag. Ég verð að viðurkenna, að ég er bara hreint úrvinda eftir ráðstefnuferðina til kóngsins K. og var því bara ekki alveg klár í gefandi starf á þessum dýrðar haustdegi, en að því var ekki spurt.

Það var heldur léttara hjá fD sem tók hús á hinum og þessum leggjum ættar sinnar þar úti. Ég naut nú reyndar líka góðs af því eftir því sem  unnt var, vegna ráðstefnuannanna.

Okkur bárust upplýsingar um það skömmu áður en lagt var af stað heim á leið, að angi af skemmtanahaldi í kringum réttadansleik hefði átt sér stað í Kvistholti og var því eðlilega ekki fullkomlega rótt, fyrr en í ljós kom að hér virðist hafa veið um að ræða fremur hófstillta samkomu; ekki sáust merki um hana umfram húsgögn sem höfðu verið flutt úr stað, gúmmískó okkar hjóna á röngum stað, en þeir höfðu greinilega verið notaðir við þann hluta skemmtanahaldsins sem fram fór á pallinum góða, og stúlkuúlpu sem hafði gleymst þegar haldið var til dansleiks.

Þessu sinni verður ekki sagt hér margt utan..

Rangt var ei til ráðstefnu að halda,
rétt var, sko, á málum haldið þar.
Ekki gerðum óskund neinum valda
og eigi sáumst út'á næsta bar.

07 september, 2008

Hraðlitun fyrir kónginn

Þegar mikið stendur til, skal mikið í lagt.
Ef mann þyrstir í fréttir er oft gagnlegt að fara í heimsókn á næsta bæ þar sem gamli unglingurinn situr og les moggann og allt annað sem læsilegt er. Ein slík heimsókn er einmitt tilefni þessarar frásagnar af höfðum þess leggs ættarinnar sem hefur tekið sér bólfestu í höfuðstað Suðurlands.
Sálfræðingurinn hefur, sem sagt, eftir því sem sagan segir, þegið boð kóngsins (líklega prinsins, þar sem það er enginn kóngur í umræddu landi, heldur drottning sem ber nafnið Margrét Þórhildur) um að koma til konunglegrar veislu í tilefni af 25 ára útskriftarafmæli. Þá segir sagan að umræddur kóngur (prins) og sálfræðingurinn hafi verið skólabræður og verði nú fagnaðarfundir innan skamms. Flest í tengslum við þetta heimboð er reyndar frekar konunglegt, og auðvitað fyllumst við aðrir, sem fjölskyldunni tilheyra stolti yfir svo góðum tengslum sem hér virðist vera um að ræða.

Ferðin er nú hafin (það liggur fyrir). Fyrst lá leiðin til Kaupmannahafnar, þar sem áð var yfir nótt, áður en flogið var suðaustur í Miðjarðarhaf. Tilgangur þess hluta ferðarinnar er augljóslega, að leggjast á ylvolga sólarströnd um vikutíma til að líta hraustlegar út í hinu fína, konunglega samkvæmi sem framundan er. 
Þegar gullinbrún höfuðin síðan lenda aftur í Khöfn eftir viku brúnkumeðferð, bíður þeirra límúsína á Kastrúp, sem flytur þau samdægurs til Árósa, þar sem konungurinn (prinsinn), að sögn, bíður þeirra með dýrindis konunglega veislu. Þeir félagar sálfræðingurinn og kóngurinn (prinsinn) munu þá væntanlega rifja upp prakkarastrikin sín frá háskólaárunum, áður en höfuð Selfossleggjar halda heim á leið, tilbúin að takast á við íslenskan vetur.

Svona er myndin sem upp hefur verið dregin að ferð þeirra heiðurshjóna frá Selfossi til Danmerkur í næstu viku. Þessi mynd er sannarlega þess eðlis að við hin gætum verið stolt af. Upplýsingarnar sem fyrir liggja um ferðina eiga að stærstum hluta rætur að rekja til frásagnar sálfræðingsins, er hann upplýsti gamla unglinginn um málið.

Því verður ekki neitað, að í mínum huga vöknuðu óhjákvæmilega nokkrara spurningar af þessu tilefni. Sú sem lét mig síst í friði, var auðvitað hversu  náin kynni sálfræðingsins og prinsins hafa verið gegnum árin. Því var það að ég gúglaði prinsinn - þann eldri auðvitað - og komst þá að því að hann er 18 árum yngri en sálfræðingurinn og fyrir 25 árum mun hann þá hafa verið 15 ára og þar með ekki líklegur til að hafa verið að ljúka umtalsverðum námsáfanga frá Árósaháskóla. Við frekari rannsókn á dagskrá prinsins í næstu viku komst ég síðan að hinu sanna:

Aarhus Universitets årsfest og 80-års jubilæum
Fredag 12. september 2008  kl. 13:30
H.K.H. Kronprinsen er til stede ved Aarhus Universitets årsfest og 80-års jubilæum i Århus.

Það sem meira er,

Officielt besøg i Bulgarien
Mandag 15. september 2008 - Onsdag 17. september 2008
Kronprinsparret aflægger officielt besøg i Bulgarien i dagene 15.-17. september.

Ég verð að viðurkenna, að saga gamla unglingsins af merkisferðinni sem hér er um að ræða felur í sér meiri dramatík og spennu en sú sem birtist með því að laumast í dagbókina hans Friðriks. 
Það er hinsvegar jafn ljóst, að hin sunnlensku höfuð munu eiga ánægjulegar stundir í hinni konunglegu veislu.

Það er svona þegar maður hefur ekkert að segja af sjálfum sér, þá er fínt að geta smjattað lítillega á öðrum höfðum.

Kátt verður í konungs rann. 
Kannski nokkra brúnku fann
 
Sigrún við að sóla sig, 
sú verður nú glæsilig.


06 september, 2008

Ber að líta á þetta sem viðvörun?


Heimsendaspádóma hefur orðið vart undafarna mánuði, í tengslum við  öreindahraðal  einn mikinn í Sviss. Því er m.a. haldið fram, að jörðin muni sogast ofan í svarthol sem á að myndast þegar öreindum verður skotið af stað í síðari hluta október n.k.


Mér datt þetta í hug þegar það sem hér má sjá birtist á pallinum góða í haustblíðunni nú áðan


Haldið er til heimsendis
þar hamingja er vís.




"Þetta líkar mér ekki....

...þegar maður er loksins búinn að læra á eitthvað kerfi þá...fer allt í vitleysu með einhverju  sem setur allt á annan endann."
Eitthvað á þennan veg orðaði fD viðbrögð sín þegar hún var búin að bregðast með jákvæðum hætti við tilboði um að hala niður IE7. Hún komst að því þegar allt var um garð gengið, með tilheyrandi rístarti, að allt, sem kallast feivorits eða sjortköts var horfið.  
Það vildi svo til, að á svipuðum tíma og þetta gerðist var ég búinn að hala niður Google Chrome vafranum í beta útgáfu. Dásama hann enn í bak og fyrir, þó svo ekki sé nú komin mikil reynsla á altt það sem hann hefur að bjóða.

Svona umræða er merki um aðeins eitt: 
Það er harla fátt að gerst þessa dagana umfram venjubundið brauðstrit. 
Það má kannski segja að um sé að ræða lognið á undan storminum, því framundan er að heiðra höfuðborg fyrrverandi herraþjóðar vorrar með heimsókn okkar Kvisthyltinga. Þar mun ég sitja ráðstefnu ESHA (ef einhver nennir að vita hvaða fyrirbæri það er, þá gúglar hann það bara), en fD mun á sama tíma taka hús á frændgarðinum, sem er orðinn umtalsverður að umfangi á þeim slóðum.

Þá stendur yfir undirbúningur að því að ráðast í framkvæmdir við síðasta ósnerta herbergi Hússins. Eins og nærri má geta þá á ég í vandræðum með að halda aftur af framkvæmdagleðinni. Ég er þó búinn að afreka það, að festa kaup á svakalegri græju (ég, eins og öllum ætti að vera ljóst, kaupi hreint ekkert annað en að besta), niðurfalli. Lítillega hafa flísar verið athugaðar, en ekki hefur nást frekari niðurstaða í það mál. 

Eins og má ímynda sér þá er margt framundan hér, ekki síður en í öðrum löndum. Nú er að hugsa málin í botna og velta vel og rækilega fyrir sér hvernig best verður staðið að öllum þáttum komandi verka, svo þau megi standa um aldur og ævi sem minnisvarðar um vel unnið verk. 


Niðurfall er náðargjöf,
sem nú er komin heim.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...