30 nóvember, 2008

Afrakstur í tilefni dagsins

Ég ætla ekki að afsaka það neitt, að mér hefur ekki auðnast að heiðra þessa síðu með andagiftminni um allnokkra hríð. Ég tel mig hafa gert nokkuð vel um síðustu helgi og þar við hefur setið.

Enn stendur yfir aðgerðin 'Bað fyrir jól' og enn er ekki ljóst hvort sú verður raunin. Þetta gengur allt rólega fyrir sig og mér sýnist að viðskiptavinalitlar eða lausar byggingavöruverslanirnar hafi verið og séu duglegar að skella nýjum verðmiðum á það sem þær hafa að bjóða. Ég ætla ekki einu sinni að nefna þær tölur sem við höfum rekist á í mörgum þeirra verslunargímalda sem við höfum átt leið í.
Það er haldið áfram í vonina að aðgerðin fái farsælan endi áður en kirkjuklukkur hringja inn jólahátíð.

Framundan er hin árlega gírskipting þegar prófatími gengur í garð og Berlínarferð liggur í loftinu á aðventu - með það meginmarkmið að líta augum nýjan ættarsprota, sem ekki hefur enn birst þessari veröld.

Þá er þess að geta að þetta er svona daginn eftir dagur og læt ég mönnum eftir að túlka hvað átt er við með því, en mágkonan í efra skellti upp miklum fagnaði þegar kvöldaði í gær, í tilefni af markverðu skrefi á lífsgöngu sinnni. Það kvöldaði og svo nóttaði og það lá við að það dagaði áður en leið lá loks heim að þessu loknu.


Gamli unglingurinn var að rifja það upp áðan þegar hann tók próf til að öðlast ökuréttindi fyrir allnokkrum árafjölda síðan. Þessi atburður mun hafa átt sér stað í höfuðborginni og prófdómarinn einhver lögregluþjónn, sem dags, daglega stóð á gatnamótum og stýrði umferð með bendingum. Í þessu prófi urðu þeim gamla á mistök sem hefðu getað haft slæmar afleiðingar, en það mun hafa sloppið til. Þar sem próftakinn ók bifreiðinni um kartöflukofahverfi Reykvíkinga, skipaði prófdómarinn honum skyndilega að stöðva ökutækið, sem hann og gerði. 
'Máttu stöðva hér?' 
Próftakinn leit í kringum sig og sá ekkert sem af til kynna að þarna mætti ekki stöðva; malargata á milli kaartöflukofanna.
 'Já.'
'Nei, það máttu ekki. Það er harðbannað að stöðva bíl á gatnamótum!'

Þess vænti ég, að mönnum sé það ljóst, þegar hér er komið lestri, að ekki er nú andríkinu fyrir að fara þessu sinni. Svo verður að vera.



23 nóvember, 2008

Hroll að Páli setur


Einu sinni sem oftar átti ég leið á fund margnefnds gamla unglings í Hveratúni. Í ljósi aðdraganda jólanna og stöðu kirkjumála í nágrenninu, voru trú- og kirkjumál rædd í þaula og ekki í fyrsta skipti. Hann vísaði til minninga sinna frá því er leið hans og hans fólks lá til kirkju í Vallanesi, væntanlega á 3. áratug síðustu aldar. 
Í þann tíma  var það heilmikið mál að hafa sig til og halda til kirkju. Það þurfti að sækja hestana, leggja á þá og ríða síðan til kirkju þar sem guðsorðið var lesið yfir lýðnum, yfirleitt með hótunum um vítisvist ef skorti á trúræknina og þar með kirkjusóknina. Að lokinni messu var síðan messukaffi og loks reið fólk heim úr kirkju. Í messuferðina fór stærstur hluti dagsins. 

Fólki, þá sem nú, var annt um sálartetrið og má ímynda sér að það hafi verið því ofarlega í huga hverju það gæti átt von á ef ekki yrði af messuferð.

Þeim gamla er það ofarlega í minni hvernig prestar í þá daga hótuðu fólkinu með vítiskvölum og hefur í tengslum við það yfirleitt yfir þessa ágætu vísu nafna míns Ólafssonar, sem hann orti eftir eina svona messu:

Að heyra útmálun helvítis,
hroll að Páli setur.
Hann er á nálum öldungis
um sitt sálartetur. 

Hátíð fer að höndum



Þetta er sá tími á hverju ári undanfarin 10 ár eða svo, sem hefur snúist að stórum hluta um það, á þessum bæ, að æfa fyrir aðventutónleika í Skálholtsdómkirkju. Þessir tónleikar fóru stækkandi ár frá ári og voru orðnir fastur punktur í jólaundirbúningi fjölda fólks hér í uppsveitunum. 
Fyrir tveim árum voru haldnir þrennir tónleikar fyrir fullri kirkju, sem þýðir að um 900 manns nutu þess með okkur að eiga þessa stund með úrvals listafólki. 
Tónleikarnir á síðasta ári skáru sig úr að því leyti, fyrir okkur Kvisthyltinga í það minnsta, að tenórinn okkar fékk þar að spreyta sig ásamt Diddú. Ekki töldum við það vera slæmt. Tónleikarnir þeir mörkuðu einnig þau tímamót, að þá var það orðið ljóst, að Hilmari Erni var ekki lengur ætlaður staður á þessu forna biskupssetri. Í hönd fóru svo jól reiðinnar, þrjóskunnar og depurðarinnar í hugum margra þeirra sem störfuðu og starfað höfðu að tónlistarmálum undir stjórn Hilmars. Þá strax var það orðið ljóst í mínum huga að næsta aðventa og jól yrðu með öðrum hætti en áður.

Ég ætla ekki að reyna að setja mig inn í hugarheim þeirra sem véla með málefni Skálholtsstaðar. 
Ég veit ekki ekki allt sem þar hefur verið sagt og gert. 
Ég veit ekki hvað þar hefur verið hugsað eða vonað. 
Ég veit ekki hver sú stefna er sem þaðan á að birtast okkur á næstunni, en ég efa ekki að henni verður ætlað að efla þjónustu við guð og menn. 
Ég veit ekki hvaða augum almættið lítur þau verk sem hafa verið unnin í Skálholti undanfarin ár. Ef ég þættist vita það, bæri það vott um hroka af minni hálfu.
Það sem ég veit er það sem ég sé og heyri. Það sem mér finnst er síðan blanda af því og og þeim skoðunum og hugsunum sem ég burðast með dags daglega.



Skálholtskórinn er ekki til lengur. Hilmar Örn hefur hafið störf á öðrum vettvangi. Í Skálholti er vígslubiskup, rektor Skálholtsskóla og sóknarprestur ásamt öðru starfsfólki staðarins. Framundan er stærsta hátíð kristinna manna og ég veit ekki hvernig þetta ágæta fólk hyggst nálgast almenning með sinn árlega boðskap um fæðingu frelsarans. Ég veit ekki hvort sá boðskaður muni ná til margra þetta árið. 

Þar sem ég ek framhjá Skálholti daglega virðist mér sem Skálholt sé hnípinn staður. Þaðan finnst mér ekki geisla neinum krafti í aðdraganda jóla. Þaðan stafar engri birtu lengur, ekki í áttina til mín, í það minnsta.

Það fréttist af því að það sé verið að leita til sóknarbarna í Skálholtssókn með að mynda sönghóp fyrir jólamessurnar þrjár. Ekki veit ég hvernig gengur að manna þann hóp. Það kunna enn að vera þeir sem líta á það sem samfélagslega og trúarlega skyldu sína að verða við óskum af þessu tagi. 

Ég finn ekki til þessarar skyldu lengur. Í mínum huga eru fyrir hendi skýr mörk þess sem kalla má trú einstaklingsins, annarsvegar og þeirrar stofnunar sem hefur tekið sér það hlutverk að boða Guðs orð á jörðu og þannig viðhalda trú fólksins, hinsvegar. Trúin er til án kirkjunnar, en án trúar er engin kirkja. Sú kirkja sem missir samband við fólkið er engin kirkja. Eftir stendur þá bara fallegt hús........en tómt.

22 nóvember, 2008

Hvernig væri nú að fara að klára þetta hús?



Nú er verkið hafið, verkið sem hefur það markmið að ljúka við byggingu þess 24 ára gamla húss. Til þess að það verk geti gengið fyrir sig svo sem til er ætlast þarf að breyta lögnum til nútímaforms og 26 ára gamlar hugmyndir um baðherbergi hefur þurft að endurskoða. Það sem telja má stærstu hugmyndafræðilegu breytingarnar felast í því, annarsvegar, að í stað hefðbundins baðkars skal sett upp sturta samkvæmt nýjustu stöðlum og hinsvegar í því, að salernið hangir uppi á vegg. 
Ég ætla nú varla, í ljósi fyrri orða minna, að fá mig til gð segja frá því hvar ég uppgötvaði galdarfyrirbærið WEDI byggingaplötur
Það var reyndar í sjónvarps-þættinum I/Ú. Í framhaldi hans skellti ég mér í Vídd. Það varð síðan úr að þessar plötur eru notaðar við uppbyggingu á sturtubotninum og undir allar flísar. 
Það er auðvitað svo, að ekki hafa allir á þessum bæ verið á einu máli um hvernig frágangi á þessu mikla herbergi skuli háttað og má að hluta til rekja þessa 25 ára undirbúningssögu til þess. Nú teljast allir viðkomandi vera sáttir og það stefnir í formlega opnun í miðri kreppu. Þar með teljumst við vera búin að leggja okkar af mörkum til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.



Bót verður að baði,
það byggt var ei með hraði.
Brátt það verður brúkað
og brosandi þar.......

(þetta er algerlega úr karakter og einvörðungu til þess gert að finna rímorð)

21 nóvember, 2008

Það væri líklega margt vitlausara....

...en að fagna því huganum með mér, nú eða tjá það með áhrifaríkum hætti í viðbragða-græjunni, að nú hef ég lokið síðasta áfanganum að  svokölluðu diplóma í opinberri stjórnsýslu. Það er nú ekki bara í Perth eða Berlín sem fólk er að gera það gott þessa dagana. :) 

Ég er búinn að vera að dunda mér við þetta undanfarin ár og tel að þessi aðgerð mín hafi átt sinn þátt í því að ég lít svo á að höfuðið á mér sé síður en svo að gefa sig að ráði.

Það má spyrja um tilgang með svona löguðu. Svarið er í rauninni einfalt: Maður lærir til að læra, en ekki með það sem megintilgang að ná sér í vel launaða stöðu. 
Starfsánægja hlýtur alltaf að vega þyngra en þung budda, þegar upp er staðið. Reyni hver sem vill að mótmæla því með rökum. Nú er tækifærið.
Næst á dagskrá er að skella sér í að láta sig hlakka til afa-barnsins, prófa-tímans, jólanna og heim-komu Ástralíu-faranna, jafnvel einnig kóræfingar hjá Víxlakórnum (sérlega heppilegt nafn á kór um þessar mundir. Að öðru leyti gæti hann heiti Kreditkórinn, eða Söngkórinn Debet). Kórinn heitir reyndar ekki neinu þessara nafna, ekki enn í það minnsta. Mig grunar einhvern veginn að það verði kvenlæg viðhorf sem munu verða ofan á hér sem annarsstaðar  og sem kalla á eitthvert kvenlægt nafn (Blómakórinn, Vinakórinn, eða þ.u.l. Ég ætla nú ekki að missa  svefn yfir því.  Kórinn þessi hefur það markmið eitt að kíkja á Berlín í byrjun júní.


Tímamót á að tala um
en tönnum á að bíta með.
Það er mér ekki þvert um geð.

16 nóvember, 2008

Oma suomalainen sisar

Ég er búinn að uppgötva að ég á finnska systur og líka finnskan mág. Þau heita Astri og Gustavi Sallinen. Ég veit ekki hvað gamli unglingurinn kann að segja um þessa uppgötvun, en ekki kannast ég við að hann hafi stigið fæti á finnska grund. Þegar ég frétti af þessu voru þau nýbúin að vera á ferð í Hollandi, þar sem þau munu hafa verið að kynna sér nýjungar í blómaræktun ásamt fleiri samlöndum sínum. Þarna stóð yfir alþjóðleg blómasýning og margt skemmtilegt og fróðlegt að sjá. Mér hefur verið tjáð að meðal gesta hafi einnig, um tíma verið nokkrir Íslendingar, en þeir voru víst ekki lengi á staðnum; fóru snemma heim, eða því er haldið fram í það minnsta. 
Astri og Gustavi komu á staðinn um það leyti sem Íslendingarnir voru að tygja sig heim, og áttuðu sig víst ekki alveg á því hversvegna það var svona mikið af brotnum eggjum um alla ganga á hótelinu, klesstum tómötum og sundurtættum afskornum blómum. Þau kipptu sér vist ekkert upp við þetta, komu sér bara vel fyrir og tóku bráðlega að blanda geði við hina gestina. Sérstaklega náðu þau góðu vinfengi við nokkra Breta og Hollendinga og eiga von á þeim heim til Finnlands, til  Solvestilaani í síðari hluta febrúar á næsta ári. 
Þau skötuhjúin hlakkar víst mikið til heimsóknarinnar.

Þarna undu þau sér hið besta í Hollandi og gerðu góða samninga um laukakaup fyrir næsta ár. 


Einhver kanna að velta fyrir sér merkingu fyrirsagnarinnar hér fyrir ofan og ég er hreint ekkert hissa á því. Ég varð í það minnsta manna hissastur þegar ég las um það í sunnlenskum fjölmiðlum í vikunni að ég ætti þessa finnsku systur (fyrirsögnin merkir sum sé: hin finnska systir mín).



Ef einhver, mér skyldur, skyldi enn vera að velta því fyrir sér, hvort ég sé nú endanlega búinn að sleppa takinu á raunveruleikanum, þá skal þess getið, að þessi texti er ritaður í tilefni af því, að ofangreindir fjölmiðlar greindu frá heimsókn íslenskra blómabænda á ofangreinda blómasýningu. Móttökur munu ekki hafa verið með besta móti og voru Íslendingar þessir krafðir um endurgreiðslu vegna margnefndra ICESLAVE reikninga. Þeir brugðu þá á það ráð að segjast vera Finnar í blómasamningahugleiðingum. Mér hefur þótt gaman að velta því fyrir mér hvernig þeim tókst að setja finnskan hreim á íslenskuskotna enskuna sína.
Ég tel mig semsagt enn vera hérna megin.


Finnar í framandi landi
fundu þar blóm bæði og vin.

15 nóvember, 2008

Margs að sakna -


Ég hef nú af einhverjum ástæðum ímyndað mér það, að við þessar aðstæður, þegar kr***** er að breyta þessu þjóðfélagi í grundvallaratriðum, þá muni hverfa úr daglegri umræðu frásagnir af brjálaðri, eða botnlausri, eða bullandi samkeppinni sem við höfum notið þess að búa við á þessu landi.
Undanfarin ár spruttu upp fyrirtæki á öllum sviðum þjóðlífsins okkur neytendum til hagsbóta. Við nutum þess að geta alltaf fundið eitthvað sem var miklu ódýrara en eitthvað annað. Frásagnir af stórskostlegum verðlækkunum til að takast á við keppinautana voru daglegt brauð. Ég man t.d. svo vel eftir þeirri vellíðunakennd sem hríslaðist um mann þegar ekið var inn á Selfoss úr höfuðborgarátt og maður kom fyrst að bensínstöð Atlantsolíu sem bauð bensínið á 174.10, keyrði síðan framhjá Bensínorkunni með sitt samkeppnistilboð upp á kr. 174.20, bara til að fara svo framhjá Olís 100 metrum lengra með magnað tilboð sem hljómaði upp á hvorki meira nér minna en kr. 174.30. Eftir að hafa síðan ekið í gegnum Selfoss til að athuga með nýjasta dúndur tilboð N1 í samkeppninni komst maður svo að því, að það hljóðaði upp á kr. 174.40.  Að sjálfsögðu snéri maður alltaf við, keyrði tvo kílómetra til baka á bíl sem eyðir 10 á hundraðið, og keypti bensínið á lægsta verðinu og sparaði þannig heila 30 aura á lítrann. Ef maður var svo heppinn að vera með tóman tank sem tók 60 lítra, sparaði maður  heilar 18 krónur!
Þetta var gósentíð hjá okkur neytendum. Bullandi samkeppni á öllum sviðum.(Það voru bara einstaka sérvitringar, eins og gamli unglingurinn, sem hélt sig alltaf við sama  bensínafgreiðslustaðinn, sama á hverju gekk. Hann hefur kannski tapað heilum 500 kalli á því á síðustu 10 árum, en hann vildi vera trúr því sem hann kallaði 'vini sína' og sem einu sinni hét Esso og tengdist þá lengi vel tilteknum stjórnmálaflokki).
Ég tók hérna dæmi af því hve vel olíufélögin hafa staðið sig í að standa vörð um hag okkar neytendanna. Sannarlega getum við verið þakklát. Takk, góðu olíufélög.
Það má svo einnig þakka það að fá að upplifa allar fallegu bensínstöðvarnar, sem blasa við sem andlit allra bæja á landinu,

Það voru vissulega fleiri en olíufélögin sem stóðu sig dúndrandi vel í að tryggja það að við lifðum í vellystingum praktuglega í þessu landi þar sem frjáls samkeppni blómstraði á öllum sviðum. Góðir menn spruttu fram með ómótstæðileg tilboð á öllum sviðum. Hver kannast t.d. ekki við hvað öll símafyrirtækin hafa staðið sig vel í samkeppninni um viðskiptavinina. Með einföldum gjaldskránum var okkur gert kleift að velja ávallt ódýrasta kostinn. Með því að hringja alltaf í tiltekin símanúmer, eða kaupa tiltekna þjónustu frekar en aðra, gátum við örugglega sparað 100-200 kr á mánuði.

Hin heiðarlega og sannfærandi, bullandi samkeppni í þeim geira sem sér okkur fyrir daglegum nauðsynjum, er afar þakkarverð. Þar á bæ hefur ekkert verið til sparað til að við þyrftum að eyða sem minnstu í nauðþurftir. Maður á varla orð til að lýsa því hve fallega það er gert af þessu góða fólki að bjóða okkur upp á allskyns valkosti. Þeir reka alltaf tvær tegundir af matvörubúðakeðjum. Önnur selur á lágmarksverði við lágmarksaðstæður. Hin selur hann á hámarksverði við hámarksaðstæður. Snilld. Með þessu móti getum við sem eigum litla peninga farið í ódýru keðjuna, meðan við sem eigum fullt af peningum, getum farið í hina og þannig látið vita af því hve vel okkur gengur í lífinu.  Allt í bullandi samkeppni. 

Hver man ekki eftir því hvað bankarnir voru nú góðir við okkur, bæði með því að halda þjónustugjöldum í lágmarki, innlánsvöxtum í hámarki og útlánsvöxtum í yfirhámarki. Þetta voru góðir tímar. Bullandi samkeppni þar sem okkur voru nánast gefin lán. Við gátum allt með þessum lánum. Ég gat keypt mér flotta íbúð og Landkrúser, og farið í nokkrar sólarlandaferðir. Ég gat gert eins og þeir sem keyptu í matinn í dýru búðunum. Ég öðlaðist virðingu samferðamannanna fyrir velgengni mína. Þetta var allt bönkunum að þakka. Það var líka einstök gæfa okkar að fá að njóta þess, eins og hann Jón og hún Gunna í næsta húsi, að ávaxta peningana okkar með  traustum hætti, á hávaxtareikningum, svo ekki sé nú minnst á peningamarkaðsbréfin og sjóðsbréfin.  Hér var um að ræða bullandi samkeppni milli bankanna okkar góðu þar sem við gátum valið okkur það besta hjá hverjum og flutt viðskiptin milli þeirra eftir því hvaða dúndur tilboð þeir voru með í gangi á hverjum tíma.

Ég var farinn að örvænta að nú væri endalega lokið öllu sem heitir frjáls og bullandi samkeppni. Eg var orðinn smeykur um að allir væru hættir að keppa okkur neytendum til hagsbóta þangað til ég heyrði af því að bullandi samkeppnin um auglýsingar er enn til staðar. Þessi botnlausa samkeppni virðist vera að valda því, að við missum Singing Bee, Survivor, American models, Doktor Phil og Innlit/útlit. Ég er gjörsamlega miður mín. Það hreinlega verður að banna auglýsingar í ríkissjónvarpinu svo við getum fengið að borga meira þangað. Það má ekki gerast að við missum Singing Bee. Við viljum fá að njóta alls þess besta úr amerískri lágmenningu áfram. Það gengur ekki að taka það frá okkur, neytendum!

Lifi frjáls samkeppni sem sér okkur fyrir hverju sem er, hvenær sem er. Okkur er mikilvægt að hafa 4 sjónvarpsstöðvar, sem er fullkomlega eðlilegur fjöldi fyrir 300.000 manns. Það veitir lífi okkar fylllingu og tilgang. 

Samkeppni leiðir til sigra
sumra, það tel ég sé rétt.
Það sagt er um Sigurjóns digra,
sjálfsákvörðunarórétt.


14 nóvember, 2008

Ég bara varð að prófa/nútímamaður

Ég sit nú í tíma í Almannatengslum í HÍ, lem á takkana, hlusta á fyrirlestur með öðru eyranu, skrifa þetta með hinu :).
Þessi aðgerð er ekki alveg sektarkenndarlaus, en ég stóð bara einfaldlega frammi fyrir þeirri spurningu hvort hér væri um að ræða eitthvað sem væri þess virði að reyna.
Hér með er ég búinn að því. Þá er það frá. Nú er að halda áfram með lífið, uppfullur af nýrri reynslu , sem skilur ekkert eftir annað en það, að ég fæ enn eina staðfestingu á því að ég get gert eins og hinir.


Nýir eru tímar nútímamanns
neitar sér ekki um neitt.

09 nóvember, 2008

Þjóð með gullfiskaminni og grautarheila?


Því miður verður það að viðurkennast að það liggur við að ég trúi því að þjóðin mín sé frekar grunnhyggin, að mörgu leyti. Áður fyrr skildi ég aldrei hvernig verkafólk gat fengið af sér að kjósa íhaldið, svo augljóst sem það nú var, og hefur alltaf verið, að það var ekki markhópurinn sem sá ágæti flokkur var fyrst og fremst að vinna fyrir. 

Þessi tilhneiging hefur síðan bara haldið áfram fram á daginn í dag. 
Á deginum í dag virðist fólk (fólkið sem hefur kosið íhaldið undanfarin 20 ár) vera að átta sig á því, að það hefur verið leitt á asnaeyrunum í einkavæðingarbrjálæðinu. Nú eru flestir á móti íhaldinu. Ég get hinsvegar nánast fullyrt, að um næstu kosningar verður allt við sama. Svona erum við nú bara.

Það er meira að segja svo að við (einhver okkar) geta fundið til með, og skilið þá sem birtast okkur dag eftir dag og tala um að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. 

Það er að mörgu leyti undarlegt hvernig við nálgumst umræðu um stjórnmál (sum okkar)(of mörg okkar). 

Þessi við, sem ég set í sviga, virðast telja að:
a. með því að greiða ekki atkvæði séum við að hafa einhver áhrif á landstjórnina.
b. að eini stjórnmálaflokkurinn sem hægt er að trúa fyrir fjármálastjórn í landinu sé Sjálfstæðisflokkurinn.
c. að það fari eftir útliti og framkomu stjórnmálamanna hvursu vel kunna að stjórna landinu.
d. að flottustu auglýsingarnar og barmmerkin gefi til kynna að viðkomandi stjórnmálaflokki sé treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar.
e. að kosningar breyti engu til eða frá - þetta sé allt jafn rotið.
f. að stuðningur við stjórnmálaflokka sé ættgengur.

Mig grunar að afstaða ansi margra kjósenda á þessu bláa landi mótist, því miður, af stundarhagsmunum og misskilningi á því hvað þetta snýst allt um. (Auðvitað er ég þar með að segja að ég hafi þetta allt á hreinu).

Hvernig væri nú til dæmis að velta fyrir sér þessum spurningum?:

     1. aðhyllist ég óskoraðan rétt einstaklingsins til orða og athafna?
2. vil ég jafnan rétt allra til samfélagslegrar þjónustu (skólar, heilsugæsla o.s.frv.)?
3. vil ég að ríkið dragi sig út úr öllu því sem einkaframtakið getur séð um (í 'bullandi samkeppni'??
4. hvernig samfélagi vil ég að börnin mín taki við?
5. vil ég að ráðamenn í stjórnmálum og í viðskiptum séu 'raunverulega ábyrgir'?
6. vil ég frekar að ráðamenn framkvæmi það sem þeir tala um, eða er bara nóg að þeir tali um það, til að láta mér líða vel?
7. er ég tilbúin(n) að fyrirgefa þeim sem taka á sig (mikla) ábyrgð, en standa síðan ekki undir henni?
8. tel ég nauðsynlegt að það séu starfandi 4 sjónvarpsstöðvar? (íbúafjöldi 300.000)
9. er nauðsynlegt að flytja inn tollfrjálsar landbúnaðarafurðir?
10. á að afnema launaleynd?
11. hvort vil ég borga hærri eða lægri skatta?
12 vil ég hafa öryggisnet sem er tilbúið að koma mér og mínum til bjargar ef/þegar eitthvað bjátar á?
13. vil ég ganga í Evrópusambandið?
14. vil ég taka upp Evru?
Það er líka hægt að hafa spurninguna bara eina: 
Hvaða lífsskoðun hef ég?

Auðvitað get ég haldið endalalust áfram að varpa fram svona spurningum, en ég tel rétt að spyrja sjálfan mig svona spurninga fyrst, og ákveða síðan hvernig ég greiði atkvæði. Ég reikna með að þannig sé hinn lýðræðislegi réttur minn grundvallaður. 

Rétturinn til að greiða atkvæði, er nánast helgur réttur sem fólk barðist fyrir og sem ekki má umgangast af léttúð.  
Léttúð í þessu samhengi vil ég kalla það þegar fólk greiðir atkvæði í samræmi við stundarhagsmuni, hvort sem það er vegna þess að einhver stjórnmálaflokkurinn vill bora jarðgöng í gegnum Vörðufell, eða þá að forystumaður er sérlega glæsilegur eða vel máli farinn, eða öfugt. 
Þá tel ég það vera mikla léttúð að nota ekki þennan mikilvæga rétt með því að sitja heima á kjördag.

Miklar sveiflur í skoðanakönnunum finnst mér að megi rekja til ansi mikillar léttúðar og daðurs við stundarhagsmuni. Á slíku er ekkert mark takandi.

Þetta var reiðilosunaraðferð þessa dags. Það má svo sem segja að hún feli ekki í sér trú á íslenskri þjóð. Það er hinsvegar alrangt. Vandinn er, að þetta er þjóð sem fyrirgefur of fljótt, og er of samúðarfull.  Við megum ekki gleyma og við megum ekki vorkenna þeim sem lítilsvirða þá ábyrgð sem við felum þeim.


Ég vil losna við léttúð
og lukkuriddara.



08 nóvember, 2008

Ætti ég að taka mér egg í hönd?


Kannski fá mér bara tómata (innflutta).
Hér er um að ræða dálítið merkilega togstreitu, væntanlega til komna vegna aldurs og þroska. Ég ákveð í það minnsta að svo sé. 
Fregnir berast af því að fólk sé farið að kasta eggjum og tómötum í Alþingishúsið og það liggur við að mig langi að slást í hópinn. 
Væri ég ca 35 árum yngri núna, myndi ég ekki hika við að tjá hug minn til allrar vitleysunnar, með því að skjótast í höfuðborgina að tjá þar skoðanir mínar. 

Ég á mér reyndar nokkra fortíð sem mótmælandi misréttis og hernaðarbrölts, þó svo ég reikni ekki með að þeir sem þekkja mig nú, eigi auðvelt með að ímynda sér að slíkur rólyndismaður sem ég er, hafi nokkurntíma látið það hvarfla að sér að henda eggjum eða þramma um með mótmælaskilti. Það er nú samt raunin.

Ætli það sé ekki fyrst og fremst hlutskipti þeirra sem yngri eru að mótmæla á torgum. Við hin eigum þá væntanlega að skrifa greinar og tala á fundum. Kannski eigum við bara ekkert að vera að mótmæla neitt, þar sem staða mála er okkur að kenna. Við erum búin að vera að kjósa aftur og aftur yfir okkur landsstjórn sem hefur tekist að leiða okkur þessa ólukku leið. 
Við völdum okkur fulltrúa - þess vegna getum við engum kennt um nema okkur sjálfum.

Ekkert á ég eggið
engu breyta kann.


Fastir punktar

Það er nú ekki hægt að segja að ég hafi eytt stórum hluta ævinnar fjarri fæðingarstaðnum. Ætli ástæðu þess megi ekki einna helst rekja til þess að ég hef hvergi rekist á þann stað annan, sem er betur fallinn til búsetu. Vissulega hafa komið upp hviður við og við, sem hafa falið í sér einhverskonar þrá eftir því sem ekki er, hverju sinni. Þetta er auðvitað hin sígilda hugsun sem bærist með okkur mönnunum, um að það geti verið að við séum að missa af einhverju; að með því að búa alltaf á sama stað, séum við að misnota þá möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Þetta er vissulega pæling sem á rétt á sér, en það verður þá jafnframt að velta fyrir sér hvað þarf að vera til staðar til að manni finnist lífinu vel varið.

Mér dettur þetta í hug eftir enn eina heimsóknina á æskuheimilið þar sem margumræddur, gamli unglingurinn, er til húsa og segist fara allt upp í þrisvar á dag í göngutúra úti á stétt. 
Í morgun voru þar fyrir tveir aðrir fastir punktar í tilverunni sem blasir við í Laugarási. Þessir punktar eiga heimili að Lindarbrekku, fluttu þangað um 1950 með eitt ungabarn. Settust þar að á brekkubrúninni og hafa alið þann aldur sinn síðan. Þau og börn þeirra hafa alla tíð talist til samferðamanna okkar og eru, að ég held þau einu í Laugarási sem hafa átt hér heimili  alla mína ævitíð (fyrir utan auðvitað eldri systur mínar tvær og gamla unglinginn). Það liggur við að mér líði eins og sögulegum grip.

Fastir eru punktar og fagurt er líf
fjarri er kreppan og allt hennar kíf.
Ekkert er betra en auðna og von
allt þetta segir hann Páll Skúlason.
(nokkuð fyndinn núna :))




04 nóvember, 2008

Reitt fólk

Á þessum degi hef ég hitt fólk sem endranær, sem er fjarri því að vera ánægt með stöðu mála í þessu samfélagi. Reiðin hefur verið að gerjast með þessari þjóð, sem er þekkt af því að láta ekki tilfinningar sínar í ljós í umtalsverðum mæli. Nú virðist hún vera að brjótast fram af síauknum þunga með ofyrirsjáanlegum afleiðingum. Mér þætti það í meira lagi undarlegt ef það tekst, þessu sinni, að þagga niður í íbúum þessa lands.

Ég get ekki neitað því að mín reiði er einnig farin að láta á sér kræla, en mér finnst ekki augljóst hvert á að beina henni. Um þessar mundir hamast gerendur í þessum óþverramálum við að benda hver á annan. Hver og einn hefur hag af því að ljóstra upp um skuggalegt athæfi hinna.

Það er smám saman að koma í ljós að tengsl milli fólks í fjármálageiranum, stjórnmálum og löggæslu í þessu landi eru miklu meiri en maður hefur ímyndað sér. Þegar það liggur fyrir eykst enn vantraust á allt það sem gert er til að komast að hinu sanna um aðdragandanum að þessum hörmungum.

Mér sýnist að það verði ekki friður í þessu landi fyrr en erlendir aðilar verða settir í að hreinsa þennan flór. Fólkið verður vonandi ekki sátt fyrr en það hefur verið gert.


Það var milt veður í dag. Rigningin lamdi á þökin og jörð skalf. Obama fór að kjósa, en Makkinn er ekki búinn ennþá.  Allt silast þetta einhvernveginn áfram.
Fólkið ljær reiðinni vængi.

02 nóvember, 2008

Sunnudagsmorgunn, og lífið...


Þó það hafi komið hér fram einhverjum sinnum, að endurtekin tilvik hafa sýnt fram á að ég er engan veginn kominn að fótum fram, þá er reyndin sú að ákveðnir þættir daglegs lífs bera þess keim, að ég er enginn unglingur lengur. Ekki svo að skilja að það sé endilega sérlega eftirsóknarvert hlutskipti. 
Sú var tíð, að maður gat sofið fram undir fjögur á sunnudegi án þess að blikna, ekki síst ef það var dansleikur með Mánum í Aratungu kvöldið og nóttina áður (þá hófust dansleikir á kristilegum tíma, svona um kl 21.30).
Nú er auðvitað öldin önnur.
Það var ekki dansleikur í gærkvöldi, ekki einu sinni með Geirmundi, eða harmónikkusveit Húnaþings í Hótel Hvítá (sem sumir kalla enn Iðufell, sláturhúsið eða jafnvel gróðurhúsið).
Ég sprett upp eins og gormur upp úr hálf átta og enn dimmt utandyra, rigningadroparnir lemjandi þakið. Ég stend mig meira að segja að því að hugsa fremur jákvætt um svona morgna. Þeir eru upphaf nýs dags sem felur í sér tækifæri, eins og allir dagar. 
Við svona aðstæður hugsa ég mér gott til glóðarinnar að koma frá ýmsu því sem ekki hefur komist í verk, ekki síst því, sem snýr að námskeiðinu mínu í almannatengslum, en ef ekki væri fyrir þessa morgna væri staðan ekki sú nú, að ég stefni á að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýslu um jól. Ekki laust við að ég sé tiltölulega sáttur við það.
Starfs mín vegna þarf ég einnig sð sinna ýmsu sem lýtur að vinnunni á mánudegi, en oftar en ekki, í ljósi þess að hér eru vanir menn á ferð, er það afgreitt tiltölulega hratt (en vel).

Það er gott að nota morgna sem þennan til að hugleiða um lífið og tilveruna, en margoft hefur verið sýnt fram á að hugurinn er mest vakandi og heilinn móttækilegastur að morgni, þó tilraunir mínar til að sannfæra svefndrukkna unglingana á hverjum tíma um, að svo sé, hafi í 100% tilvika mistekist. Viðbrögð þeirra við þessari speki minni eru svipuð viðbrögðum Geirs og Davíðs við þeirri hugmynd að rétt geti verið að endurskoða yfirstjórn Seðlabankans (reka þann síðarnefnda). 

Það blasir við höfuðborgarferð á þessum degi og stefnir í að ryðguð raddböndin fái lítillega að liðka sig seinnipartinn.

Á sunnudagsmorgni er sannlega fátt sem oss truflar,
og sjálfsagt er ekkert sem breytt getur neinu um það.



01 nóvember, 2008

Skyldu þeir skjótann?

...Það er ekki gott að segja. Í rauninni yrði ég ekki undrandi. 
Þegar fólk er opinskátt farið að bera hann saman við merkustu foystumenn í lífi þessarar, að eigin mati, guðsblessuðu og veraldarinnar stærstu og mestu, þjóðar, þá bendir allt til að það komi upp spurningin um hve margir lífdagar bíða hans. 
Ég velti því fyrir mér, árangurslaust, hvernig á því getur staðið, að í flestum löndum heims myndi hann rúlla upp þessum kosningum sem framundan eru. En ekki meðal sinnar eigin. Hvað er það í karakter þessa bræðslupotts ólíkra þjóðabrota sem veldur því að þar er allt annað uppi á teningnum. 
Er þessi þjóð úr einhverjum tengslum við þann raunveruleika sem aðrar þjóðir á jarðarkringlunni upplifa? 
Ef svo er, hversvegna skyldi það vera að mín þjóð sækir svo margt þarna vestur eftir? 
Er mögulegt að minnimáttarkennd okkar sé slík, að við getum ekki leitað annað að fyrirmyndum? 
Er afleiðingin af þessu sú raunveruleikafirring, sem við höfum verið að gera okkur sek um undanfarin ár, með alþekktum afleiðingum?

Allt eins líklegt.

Þjóðar vorrar þotuliðið góða
þykir ekki eftirbreytnivert.
Ísafold er ekki, meðal þjóða.
æðislega frábær eða sperrt.



Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...