26 febrúar, 2008

Verður ekki erfitt að byrja aftur?

Það var ekki laust við að kvíða gætti í rödd frú Drafnar þar sem hún sá fram á heillar viku hlé á púlinu í þreksalnum. Heil vika án þess að vekjaraklukkan fína (það er ekki að spyrja að græjueigninni frekar en fyrri daginn. Vekjaraklukkan gefur kost á tveim mismunandi vakningartímum; 1 og 2. 1 er þreklausi tíminn sem vekur fólk beint til vinnu og 2 er þrektíminn. Auk þessa býr klukkan góða yfir þeim eiginleikum að varpa tímanum upp í loft) glymji kl 06.12 og kalli fram samviskubit ef ekki er rokið á fætur umsvifalaust. Ég taldi að þetta yrði hið minnsta mál þar sem nú er svo komið að það liggur við að maður sakni púlsins þá daga sem ekkert er af þeim toga í gangi.

Í fyrramálið verður sem sagt flogið af stað á vit þeirra ævintýra sem felast í því að millilenda og hlaupa á milli terminala og skal allt traust okkar lagt á Matthías Imsland og hans fólk að þau sjái til þess að ekki verði seinkun.

Minivan bíður síðan í Berlín og bílstjóri með GPS og hokinn af reynslu af akstri innan borgar sem utan.

24 febrúar, 2008

Sunnudagsstemning

Það jafnast fátt á við kyrrðina í Kvistholti á sunnudagsmorgni, ekki síst núna þegar augljós eru orðin merki um lengri dag. Sólhúsgögnin bíða enn undir hvítri mjöllinni og grillið lætur lítið yfir sér meðan það bíður eftir því að takast á við verkefni sumarsins. Þögnin er slík að það heyrist ekki einusinni í kalkúnum og hundum nágrannans.
Framundan er dagur undirbúnings fyrir skottúr til höfuðborgar Þýskalands á miðvikudagsmorgun. Annað færi gefst víst ekki á að ljúka því sem ljúka þarf, að því er sagt er.
Einmitt núna sit ég í flóðinu af geislum rísandi sólar og virði fyrir mér trjágróðurinn í vetrardvala, þar sem hann sendir frá sér loforð um kröftugan vöxt á komandi sumri.
Best að fá sér kaffisopa.

22 febrúar, 2008

Ja, tæknivæðingin!

Það er ekki ein báran stök þegar nútímatæknin er annarsvegar. Ég hef lengi talið að það væri hlutskipti, nú eða þá forréttindi þeirra, sem hafa lifibrauð sitt af, annarsvegar, fjármálageiranum og hinsvegar tölvubransanum, að sitja með fleiri en einn tölvuskjá fyrir framan sig.

Þessa hugmynd fékk ég nú á síðustu árum efnahagsbólunnar þegar litlu strákarnir í klæðskerasniðnu jakkafötunum sínum voru í daglegum viðtölum við fjölmiðla til að lýsa undrinu sem "við" vorum að upplifa (öllu heldur þeir).
Viðtölin voru þá yfirleitt tekin með önnum kafna litla stráka í bakrunninum (allavega þóttust þeir vara önnum kafnir) með 6-8 flatskjái fyrir framan sig. Á þessum skjám voru endalaus línurit og tölur sem auðvitað venjulegt fólk greindi ekkert í - enda voru skilaboðin til almúgans að þetta væri heimur fjármála- og framkvæmdamannanna en ekki hans (almúgans) .

Hvað um það. Ég ætlaði mér að vera stuttorður þessu sinni. :) Þessa hugmynd fæ ég líka þegar Egill Árni, tölvumaður, lýsir þeim dásemdum sem fylgja því að vinna með tvo tölvuskjái í einu.

Nú sit ég hér með tvo tölvuskjái fyrir framan mig og upp er runninn sá tími að ég fæ að njóta tveggja skjáa tilverunnar.

Hér eftir mun ég sitja fyrir framan einn 22" og annan 19" - þá finnst mér einhvern veginn að það blasi við að ég þurfi að fjölga jakkafötunum í klæðaskápnum, hvítu skyrtunum og jafnvel bindunum, sem ég hef þó talið mig eiga nóg af til þessa.

Það er svosem ekki búið að tengja þetta og veit ekki hvernig þetta virkar, ennþá, en það stendur til bóta.

20 febrúar, 2008

Toppurinn og bullið

Það er ekki flóknara en það, að PS-P640 náði nýjum hæðum í gærkvöldi með því að senda lifandi mynd af okkur hjónakornunum til Berlínabúanna. Það verður að segjst eins og er, að ekki var tenórinn Egill par hrifinn af myndgæðunum, en ég átti nú ekkert sérstaklega von á því, og þá aðallega vegna þess, að þar sem merkin ráða för mega minni spávefmyndavélar sín lítils.
Nú á bara eftir að ná síðasta skerfinu með því að undratækið beri mynd og hljóð til Perth í Ástralíu, en tvennt sýnist mér að geti hamlað því:
1. Þegar fólk er að gefa skýrslur þar eða að kafa meðal hákarlanna er það sofandi hér, og þegar fólk er komið heim eftir langan og erfiðan vinnudag hér, þá er fólk sofandi eða í matarboðum eða öðru útstáelsi þar.
2. Ef marka má nýlegt blogg Ástralans Þorvaldar þá er netsamband í þeim heimshluta ekki sambærilegt við það sem gerist í Berlín þessa dagana, þó svo ég treysti sannarlega PS-P640 fullkomlega til að yfirstíga þá hindrun til fulls.

Ég er að byrja að skilja það nú hversvegna það gerist hjá mörgum sem ástunda þá iðju, eða réttara sagt, hyggjast leggja það fyrir sig, að blogga um allt milli himins og jarðar, að það dregur tiltölulega hratt af þeim. Það er nefnilega svo með þetta daglega líf að það felur ekki íkja oft í sér eitthvað sem nær því að vera bæði fréttnæmt og líka að vera þannig að hægt sé að leyfa hverjum sem er að lesa. Þetta er, jú, opinber vettvangur þar sem fólk á að vera ábyrgt orða sinna, er það ekki annars?

Ég veit, til að mynda, ekki hvenær nemendur mínir uppgötva þann fjársjóð speki sem hér er að finna. Þegar það gerist er eins gott að hér standi ekkert það sem betur hefði verið látið liggja í þagnargildi gagnvart þeim hópi.

Þrátt fyrir annmarka, hyggst ég ekki gefast upp við svo búið. Það er alltaf hægt að bulla, ef ekki bjóðast aðrir kostir.

18 febrúar, 2008

PS-P640 - .... út vil ek

Þó ég sé nú að verða búinn að þurrmjólka ævintýrið sem lífið hefir fært mér í gegnum vefmyndavélina ágætu, get ég ekki látið staðar numið fyrr en ég hef greint frá því hvernig fór þegar næsta skref var tekið - þegar látið var á það reyna hvort hægt væri að komast í mynd- og hljóðsamband út fyrir Hvarf með aðstoð undratækisins.

Nú finnst mér ekki ólíklegt að aðdáendum þessrar síðu fari frekar fækkandi, þar sem þessar frásagnir hafa verið afskaplega langar. Mér tekst ekki að finna leið til að sjá teljara á fjölda heimsókna þannig að í raun veit ég ekkert hve margir láta sig hafa það við og við, að kíkja hér inn, enda skiptir það ekki aðalmáli, heldur það, að ég hef skráð niður frásögnina af fyrstu kynnum mínum að litlu tæki sem kallar fram svo endalaust margar tilfinningar. Ég ætla, hér og nú að freista þess að ljúka þeirri frásögn.

Þar var komið í frásögninni, að mér hafði tekist, með hjálp PS-640 að varpa mynd af sjálfum mér yfir í IBM-inn hennar frú Drafnar, og má segja að bæði höfðum við nokkuð gaman af, þó svo við hefðum mishátt um gleði okkar.

Næsta skref var að freista þess að varpa mynd af sjálfum mér, ásamt hljóði raddar minnar í tölvu annarsstaðar en hér í Hvarfi.

Tækifærið barst mér upp í hendurnar fyrr en mig hafði órað fyrir.
Guðný says:"Hæ"
Guðný says:"Ég sé að þú ert kominn með webcam"

Þetta upphaf samtals átti sér semsagt stað í gegnum MSN - sama fyrirbæri og ég hafði sent myndina af mér yfir í IBM-inn skömmu áður. Ekki er mér ljóst hvernig ungfrúin hafði komist yfir upplýsingar um að ég væri kominn með þessa fínu vefmyndavél, en það skiptir engu.

Það sem fram fór í framhaldi af upphafsorðum Guðnýjar er heilmikill ferill og stór hluti þess afar tæknilegs eðlis, og sem ég tel ekki að gagnist frásögninni, þó vissulega gæti verið gaman að deila því með þessari síðu. Ég, sem sagt, tjáði Guðnýju að ég hygðist freista þess að senda myndræna útgáfu af sjálfum mér í hennar tölvu. Hún taldi á því vandkvæði, hefði reynt það og ekki tekist. Ég hafði hinsvegar aðra reynslu og og valdi myndsendingartakkann í samskiptaglugganum. Allt fór af stað og Guðný ýtti á accept þegar það bauðst og svo leið og beið. Ég fann það fljótt að Guðný var afar óþolinmóð gagnvart þessari tilraun og ekki leið á löngu áður en:
Guðný says: "Ertu ekki með SKYPE?"

Áfram hélt PS-P640 að reyna að ná sambandi en fátt gerðist.

PMS says: "Jú, en þarf maður ekki að borga eitthvað til að nota það?"
PMS says: "ég... ég er ekkert búinn að borga í það"
Gudný says: "það þarf ekkert að borga"
Guðný says: "ég er búin að tala við fólk út um allt ókeypis"

Jæja, það fór svo að ég opnaði SKYPE-ið mitt og og á endanu fann ég þar leið til að bæta vídeói inn í chattið. Guðný hafði þá þegar birst mér á skjánum og horfði auðvitað ekki á mig, heldur virtist hún vera upptekin við að horfa á skjáinn hjá sér!

Skyndilega poppaði PS-P640 inn á skjáinn hjá henni og samtalið hófst fyrir alvöru - eða þannig. Guðný sagði mér að það kæmi ekkert hljóð (það heyrðist ekkert í mér) bara mynd. Ég reyndi nokkra stund enn að koma hljóðinu yfir til hennar og það gerði ég með því að hækka röddina og á endanum var ég farinn að hrópa í rauða stólnum í Hvarfi og frú Dröfn leit upp til að athuga hvað væri málið. Það var bara þannig að Guðný heyrði bara ekkert í mér, enda í 90 km fjarlægð.......

Þá skelltum við okkur á MSN-ið til að leita lausna - ég var á sama tíma að leita um allt SKYPE-ið til að finna út hvernig ég gæti komið hljóðinu á. Þetta er fyrirbæri sem kallast MULTI-TASKING á fræðimáli (að gera margt í einu) og það er engan vegin mín sterka hlið. Eftir mikla leit, sem hægt væri að lýsa með mörgum orðum, komst ég að því að míkrófónnin var á MUTE!!!
Þegar ég hafði kippt því í lag hófst samtal þar sem Guðný horfði á sinn skjá og ég á minn, sem er umtalsvert sérstakur samskiptamáti.

Það sem eftir stóð var fullverkandi PS-P640 sem vonandi kemur að góðum notum á næstu mánuðum.

Lýkur hér með frásögninni af PS-P640. Þó svo hann eigi vonandi eftir að bera mig bæði til Berlínar og Perth reikna ég ekki með að aðfarirnar við það verði þess virði að fjölyrða um.

Þar með þakka ég þeim sem hafa lagt á sig að lesa.

16 febrúar, 2008

PS-P640....prufukeyrslan

Ég hef orðið var við það að fjöldi fólks um víða veröld bíður nú í ofvæni eftir því að framhald sögunnar af PS-P640 verði skráð. Ég var lengi vel að velta fyrir mér að geyma framhaldið til næstu helgar og fjalla þess í stað um ýmislegt annað sem er í pípunum, en hitinn er orðinn slíkur í áhangendum en ekki telst fært að draga þá á framhaldinu.
Það háttar þannig til í Hvarfi, að ég sit gjarnan með mína fínu og nýju Dell fartölvu á lærunum í öðrum hinna stórþægilegu rauðbleiku hægindastóla sem þar er að finna, og í hinum samsvarandi stólnum situr síðan frú Dröfn með sína gömlu, hægvirku en ennþá virkandi IBM græju, og leggur kapal, af ótrúlegum krafti og elju.
Eins og fyrr segir, var, þegar síðasta hluta sögunnar af PS-P640 lauk, staðan sú að mynd hafði náðst í gegnum þessa fínu vefmyndavél þannig að ég, sem stoltur eigandi, sá sjálfan mig á skjánum og gat auðveldlega stækkað og minnkað myndina eftir því sem ég vildi fá nákvæmari mynd af sjálfum mér. Það gætu einhverjir haldið því fram að hér væri um sjálfsdýrkun á háu stigi að ræða, en það er auðvitað ekki svo. Hér var bara um það að ræða að athuga hvað möguleika undratækið býður upp á.
Nú var komið að næsta skrefi í prufukeyrslu á tækinu góða; athuga hvort hægt væri að senda myndina góðu af sjálfum mér í aðra tölvu. Hvaða tölva lá nú beinast við? Ó, jú - var ekki eðlilegast að freista þess að senda fyrstu myndirnar yfir í IBM-inn hennar frú Drafnar. Einhver kann að spyrja hvernig það má gerast, en svarð felst auðvitað í að beita nýjustu samskiptatækni sem fólki stendur til boða (hvað annað gætu lesendur ímyndað sér að Kvistholtshjónin noti í sínum samskiptum, en slíka tækni?). MSN er orðinn daglegur samskiptamáti fjölskyldunnar og með PS-P640 var komið að næsta þrepi í framþróuninni. Í sem stystu mál þá opnaði ég sem sagt MSN samskiptagluggann á fínu DELL fartölvunni minni, sitjandi í rauða stólnum í Hvarfi, í meters fjarlægð frá frú Dröfn sitjandi í sínum rauða stól með IBM-inn sinn, leggjandi kapal. Í samskiptagluggannum valdi ég að senda skilaboð til frúarinnar og síðan valdi ég að hefja - já, auðvitað - VIDEO CALL. Það heyrðist PLING, PLING í IBM-inum þegar tilkynning kom um að ég væri þar að leita eftir sambandi. Lítilsháttar hik varð á kapallagningunni. Það næsta sem gerðist var að frú Dröfn ýtti á blikkandi takkann neðst á skjánum hjá sér þar sem hún hefur væntanlega séð:"PMS - conversation". Gluggi opnaðist við þetta á IBM-inum og athugun fór fram á því hvað væri á seyði. Frú Dröfn snerti nokkra takka og eftir nokkrar nanósekúndur birtist þessi texti á skjánum á fínu DELL fartölvunni minni: "Dröfn says: HVAÐ ER MÁLIÐ?"
..................................................................
Hvernig átti ég nú að bregðast við þessu? Þar sem sú sem sendi þessi skilaboð sat í meters fjarlægð frá mér upplýsti ég hana um hvað væri málið með þeim orðum að ég væri að athuga hvort hægt væri að senda myndina af mér í hennar IBM - tölvu. Hún þyrfti hinsvegar að samþykkja að þessi tilraunasending ætti sér stað, með því að smella á bláa stafi orðsins "accept" sem finna mætti í samskiptaglugganum. Möglunarlaust gerði frúin þetta. Leið nú og beið.
"Það er ekkert að gerast" heyrðist úr hinum rauða stólnum.
"Jú, hún er að reyna að ná sambandi", heyrðist þá úr þessum.
...enn leið og beið
... það var að því komið að kapallagningin hæfist aftur.
... spennan var að verða of mikil.
Þá skyndilega gerðist kraftaverkið: PS-P640 hafði náð í gegn af einskærri snilld. Andlit eiginmannsins, titrandi af spenningi, birtist á skjá IBM-sins. Frúin brosti, en sagði ekkert - sennilega vegna þess hve fögnuðurinn hafði ná miklum tökum á henni.
Enn hafði vefmyndavélin góða sannað ágæti sitt. Nú snéri ég linsunni í átt að frúnni og þar með gat hún séð sjálfa sig í IBM-inum sínum. Enn brosti hún af því sem túlka mátti sem barnslega gleði.
Þarna kom það sem sagt í ljós, að myndræn samskipti gátu átt sér stað milli tveggja fartölva í meters fjarlægð frá hvor annarri.
Næsta skref í tilraunasendingum með PS-P640 var síðan að gera athugun á því, hvort það sama væri hægt, ef lengra væri á milli tölvanna.
Þessi niðurstaða gaf vissulega tilteknar vonir um að það myndi ganga glimrandi vel, en það átti ýmislegt eftir að ganga á áður en svo yrði. Frásögnin af því verður að bíða um sinn.

14 febrúar, 2008

PS-P640 ..... framhald málsins


Já, ég beið fyrir framan tölvuna þar sem ég átti von á (ætlaðist raunar til þess) að ofangreindur seljandi svaraði spurningu minni umsvifalaust. Það vit hins vegar allir sem einhverja innsýn hafa í þann heim sem hér um ræðir, að svona ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Það var ekki fyrr en daginn eftir að ég fékk eftirfarandi sendingu frá Ebay:
Hi,I'm sorry to hear about the problem with your disk. Please download the driver from our online driver area at:http://www.innovico-jsy.com/Downloads/
Regards,DavidCustomer Services.
Sko. Kom ekki David mér til bjargar. Ég gat varla beðið eftir að kennslu lyki. Stökk í Hvarf og inn á slóðina sem félagi David hafi verið svo vinsamlegur að úthluta mér. Þetta varað að ganga tiltölulega hratt fyrir sig, því framundan var einn þriggja slökunartíma í þreksalnum. Þetta fór nú reyndar svo að mér tókst að hlaða niður um 50mb af vitlausum driver sem vefmyndavélin mín vildi ekkert kannast við. Ég gafst ekki upp við svo búið, fann driver sem var kyrfilega merktur PS-P640 - niður fór hann og ...sjá.... mér tókst að sjá sjálfan mig í öllu mínu veldi á tölvuskjánum. Windows og Microsoft höfðu reyndar áður en það gerðist varað mig ítrekað að þetta niðurhal gæti verið stórhættulegt, en ég var kominn í stuð til að taka áhættu og lét varnaðarorðin mér sem vind um eyru þjóta.
Stoltur eigandi PS-P640 þaut af stað (hvarf úr Hvarfi) strax og ljóst varð að hann gat séð sjálfan sig í vefmyndavél sem virkaði fullkomlega. Ennþá í það minnsta.
EN ÞAÐ ÁTTU EFTIR AÐ KOMA UPP FLEIRI VANDAMÁL......

Þá er vefmyndavélin að verða klár


Ég held að í mér leynist tækjaóður einstaklingur. Heima í Kvistholti er þessi fína vefmyndavél, ónotuð, sem keypt var fyrir þó nokkrum árum og ég man ekki í hvaða tilgangi það var gert; sennilega langaði mig í vefmyndavél, svona eins og gengur.

Nú, þegar helmingur barnanna er fluttur til útlanda, fannst mér skyndilega nauðsynlegt að eignast vefmyndavél.... aftur.

Þegar svona tilfinning hvolfist yfir mig þá bíð ég ekki þangað til ég kemst í kaupstað næst, heldur fer ég auðvitað á Ebay og leita þar að þeirri græju sem mig langar í. Þarf yfirleitt að leita nokkuð lengi því ég er töluvert kræsinn á svona lagað.

Vefmyndavélarnar sem í boði eru skipta auðvitað þúsundum, en ég komst að niðurstöðu og hér er hún:



PS-P640 heitir þessi elska. Vissulega ekki Logitech eða Thunderstrike eða Ultimate Force, en glæsilegt kínverskt undratæki engu að síður.

Þessi kaup áttu sér stað í síðari hluta janúar og þar var síðan í gær, sem tilkynning barst um að hennar gæti ég vitjað hjá póstþjónustu Samkaups Strax, strax, sem ég auðvitað gerði og greiddi möglunarlaust vefmyndavélarverð í aðflutningsgjöld. Pakkinn, sem ég hafði séð fyrir mér sem veglegan kassa, reyndist vera umslag með sprengikúlum. Svo létt var þetta umslag að mér fannst líklegast að það hefði gleymst að setja undratækið í. Þegar ég hafði lokið þessu erindi í Samkaup Strax, hvarf ég strax heim í Hvarf með umslagið. Þar var það opnað í viðurvist frú Drafnar, sem mér til nokkurrar gremju, lét sér fátt um finnast og hélt áfram að leggja kapalinn sinn (ég held að kapallagning sé ættgeng í kvenlegg).


Já umslagið opnaði ég fullur af eftirvæntingu. Lengi vel fann ég ekkert nema kúluplast, en eftir því sem haugurinn af því stækkaði á borðinu, foru að birtast fleiri örsmáir hlutar þess sem síðar skyldi gera mér kleift að varpa hreyfimyndum af sjálfum mér, og frú Dröfn, hringinn í kringum veröldina og allt þar á milli. (þetta er sérlega mikilvægt í ljósi þess hver mataræðis er gætt vel þessa dagana og þess að þrisvar í viku er hamast í tækjasalnum).
Loks var eftir einn poki, sem var reyndar stærstur, og upp úr honum kom vefmyndavélin sjálf. Mér datt helst í hug leikfangamyndavél sem búast mætti við sem hluta af fylgihlutum í dúkkuhúsi. Vefmyndavélin er cs 3x3 cm og linsan svona um 5 mm. Klemman er stærsti hluti tækisins. Framan á vefmyndavélinni eru 6 útstæðir punktar sem mér skilst að séu ljós sem lýsa sjálfkrafa við léleg birtuskilyrði. á þetta hefur ekki reynt enn.
Jæja, nú var ekkert annað að gera en setja vefmyndavélina í stand. Í einum kúluplastpokanum reyndist vera örsmár geisladiskur sem bar titilinn DRIVER (veglegt nafn). Hann setti ég auðvitað umsviflaust í geisladrifið og taldi að nú væri allt að smella. Þegar hér var komið var frú Dröfn farin fram í eldhús eitthvað að fást við mat (áhugi og spenna þar á ferðinni).
Það var varla að geisladiskurinn sæist í fullvöxnu geisladrifinu, en ég taldi að það ætti ekki að skipta máli. Það var ekki annað að sjá diskurinn hefði verið of smár eftir allt saman, því þrátt fyrir ítrekaðar endurteknar tilraunir til að keyra inn DRIVERinn með þessum hætti, neitaði tölvan að sætta sig við hann og þar við sat. Þarna var mér farið að renna nokkuð í skap, en ilmurinn af hvítlaukskjúklingi seiddi og ég sá ekki annað í stöðunni en gera honum skil, meðan ég velti fyrir mér hvað til bragðs skyldi taka. Það hlaut að vera einhver framleiðandi að þessari blessuðu vefmyndavél. Það var þessvegna að loknu borðhaldi (og frágangi) að ég leitaði á náðir GOOGLE með málið; sló inn PS-P640 og beið orkotsstund. GOOGLE birti niðurstöðurnar - fjölmargar að vanda. Flestar vísuðu þær á eina síðu sem mér þótti fremur lítið traustvekjandi: http://www.alibaba.com/ Já þetta er ekki mislestur! Þegar hér var komið þótti mér sýnt að einhver skúrkurinn hefði nú platað inn á mig einhverju sem leit út eins og vefmyndavél geimaldar, en var það ekki í raun. Síðan alibaba.com reyndist vera heimasíða kínversks heildsala sem sérhæfir sig í tækjasölu. Í sem skemmstu máli komst ég ekkert áfram þarna - enginn DRIVER...#%&#"!

En...bíðum við. Hafði einhver ekki selt mér þessa vefmyndavél dýrum dómum? Hvernig væri að láta hann svara til saka? Nákvæmlega það sem ég gerði næst.
Fann kauða á Ebay og sendi honum svohljóðandi skilaboð:

Hi I just received item. The enclosed CD seems to be unreadable. How can I download a driver?

Svo beið ég.... framhald

13 febrúar, 2008

Það komst upp um mig !


Laumubloggarinn sem þetta skrifar varð að sætta sig við það að upp um hann kæmist. Hvernig það gerðist er allsendis óljóst, en Ástralinn hann Þorvaldur virðist með einhverju móti að fundið þessa gagnmerku síðu. Hann hefur væntalega lítið annað að gera þarna niðurfrá og hinumegin en að leita að bloggsíðum fólks.

Nú er komið að lokum þessa vinnudags - það má segja að þema hans hafi verið útrás mín á blessuðum sakleysingjunum sem ekki virðast átta sig á því að til þess að verða eitthvað í þessu lífi þarf að gera eitthvað. Þjálfun heilafrumna er forsenda þess að skapa fullþroska einstakling.

PER ASPERA AD ASTRA

12 febrúar, 2008

Skóli í öðru sæti...eða því þriðja?


Það er rík tilhneiging hjá tilteknum hópi nemenda og foreldra þeirra að líta svo á að það að sækja skóla sem fyrsta kost, sé hreint ekki sjálfsagður hlutur. Ég er ekki frá því að skólar landsins séu farnir að dansa með og láti þetta þar með yfir sig ganga. Mér finnst það alvarlegt ef svo er. Og mér finnst það alvarlegt ef kennarar eru farnir að líta starf sitt með þeim hætti að láta það ganga yfir sig að nemendur sé burtu frá skóla ítrekað.

Væntanlega er þetta hluti af því agaleysi sem ríkir meðal þessarar ágætu þjóðar. Þetta agaleysi hefst hjá okkur foreldrunum því það er frá okkur sem börnin fá þau skilaboð að skólinn megi víkja fyrir utanlandsferð fjölskyldunnar, eða vinnu, eða tannlæknaferð, eða klippingu, eða nánast hverju sem er.

Síðan dansar skólinn með, með því að gefa eftir og sætta sig við stöðu mála. Þessu þarf að breyta, og hana nú!

Þetta er svona dagur - þegar maður losar frústrasjónirnar á einhverja bloggsíðu sem maður treystir að enginn finni, og lesi. :)

11 febrúar, 2008

Morgunverkin


Fyrir áratugum síðan kom ég lítillega að byggingu hitaveituhúss í Laugarási. Áður ern húsið var steypt upp skellti ég upp smá listaverki á framhlið hússins (innan í mótin). Það er punktarnir 5 sem sjá má hér fyrir ofan og skástrikin 2. Þetta eru augljóslega táknmyndir, annarsvegar fyrir gufuna sem kemur úr iðrum jarðar, og hinsvegar fyrir hitaveitulagnir, sem bera ylinn í gróðurhús og á heimili í Laugarási.
Jæja, svo gerðist það í morgun, að ég fékk tölvupóst frá framkvæmdastjóra Bláskógaveitu (Benedikt sjálfum) þar sem hann fór þess á leit að ég athugaði hvort ég gæti gert tillögu á lógói fyrir veituna. Þessi fyrri tillaga byggir alfarið á merkinu á hitaveituhúsinu.

Seinni tillagan á augljóslega að hafa sömu tilvísanir: gufan og lagnirnar, en nú þannig, að upphafsstafirnir eru búnir til úr formunum.

Þetta var nú skemmtilegt.

10 febrúar, 2008

Að áliðnum þorra

Þrátt fyrir góð fyrirheit um að halda því ekkert sértaklega til streitu að ská eitthvað á þess fínu, grænu síðu, þá eru þau nú látin víkja enn um sinn.

Laugdælir blésu til mikils þorrablóts í gærkvöldi og mættu Kvistholtshjónin á svæðið, enda hálfgerðir Laugvetningar orðin. Þetta reyndist verða hin ágætasta skemmtun.
Fjöldi gamalla starfsmanna og gamalla nemenda skólans tók þátt í gleðinni. Þetta fólk er flest þeirrar gerðar að það þarf á þeirri andlegu upplyftingu að halda, sem felst í því að kíkja á Laugarvatn með reglulegu millibili.

Það hefur ekki heyrst mikið frá nýbúunum í Perth og Berlín þessa helgina, sem er nokkuð skýrt merki um að þar er allt í eðlilegum farvegi.

09 febrúar, 2008

Upphafið - endirinn?

Það sem hér er skráð er fyrst og fremst athugun á því hvernig þessi undarlegi heimur bloggsins virkar - hvort framhald verður nokkurntíma á skrifum af þessu tagi af minni hendi, verður að ráðast af því hvort ég tel þennan tjáningarmáta henta mér. Eins og staðan er nú tel ég svo ekki endilega vera.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...