26 maí, 2009

M*A*L*W*A*R*E - úúúúúú


Ofan á allt annað sem ég hef komið að á undanförnum dögum: daglegar kóræfingar (nánast), endalausar runur af einkunnum (nánast), blóma- og trjákaupaferðir, heimsóknir til tannlækna (reyndar bara ein til eins), þá fékk ég eftirfarandi tilkynningar dag einn fyrir stuttu:
Fyrst þetta:
Jæjahhh... ertu þá farinn að senda frá þér í tölvuformi, flenuspestir með svínaívafi? Fékk dándi góðar viðvaranir hvað eftir annað. Bittinú! 


..og síðan stuttu seinna annað frá hinum reykvíska Kvisthyltingi, sama efnis.
Í stuttu máli snérist þetta um að þessi fína síða var komin með eldrauða forsíðu þar sem tilvonandi gestum var ráðlagt að leita annað ef þeir vildu ekki verða einhverjum óskunda að bráð. Þarna höfðu þeir vissulega val milli tvenns, og auðvitað báðir kostir vondir:
a. Ýta á takkann sem kallaðist BACK TO SAFETY (aftur í öryggið).
Með því að velja þennan takka lá það ljóst fyrir, að viðkomandi fengi ekki að njóta andans auðlegðar minnar þann daginn.
b. Merkja við reit til að votta að hann væri vitandi vits um hvað þarna inni gæti leynst, og halda síðan inn á síðuna, sem reyndist ósköp sakleysisleg.

Nú voru góð ráð dýr. Ég ætla hinsvegar ekki að þreyta lesendur með langloku um allan þann feril sem nú fór í gang hjá mér og mínum nánustu til að vinna bug á þessu óhugnanlega vandamáli. (Ég hef fengið um það fleiri en eina meldingu frá reglulegum lesendum, að allt sem ekki snýst um framkvæmdir okkar Kvisthyltinga fær ekki nema 2-10 lína lestur). Síðan mín var sem sagt sögð vera mögulegur dreifiaðili fyrir allskonar MALWARE. Þetta orð er nokkuð gegnsætt: MAL þýðir alltaf vondur eða illur, WARE er náskylt íslenska orðinu VARA - þar með er það ljóst að hér gat verið ill vara á ferð, sem gæti ráðist inn í tölvur gesta minna og stolið þaðan bankanúmerum og lykilorðum og rúið þá þannig inn að skinninu.
Ég fór ýmsar leiðir og reyndi margt, sem lauk með því að með hjálp vina minna hjá GOOGLE,  USA, held ég, er rauði skjárinn horfinn og kemur vonandi ekki aftur.

Ekki gekk það allt upp hjá mér
ekki var margt að gera' hér.
Drattaðist þá upp drengur einhver,
drap hið ljótasta, MALWARE.

(huga að áherslum)

23 maí, 2009

Pärtísk andans næring og upplyfting

Nú þéttast æfingar fyrir Berlínarför. Arvo Pärt er étinn upp til agna nánast á hverju kvöldi og heill dagur æfinga framundan. Um Berlínarmessuna hans Arvos er það að segja, að til þess að ná sambandi við hana þarf maður að búa yfir einstaklega opnum huga og jákvæðu hugarfari, nákvæmlega eins og er raunin í mínu tilviki, að sjálfsögðu. Árangurinn er sá, að ég þykist vera að nálgast kjarnann í verkinu og er farinn að njóta einstakra hluta þess. 
Það gerðist samt fyrir stuttu, þegar ekið var til höfuðborgarinnar, að ákveðið var, að áskoran stjórnandans, að diskur með messunni var settur í, í þeim tilgangi að öðlast sýn inn í hvernig þetta hljómaði í heild sinni. Það gekk ágætlega með KYRIE kaflann, enda er hann stuttur og nokkurnveginn að komast á hreint. Þá hófst næsti kafli: GLORIA. 
"Eigum við að syngja þetta?" 
"Ég kannast ekkert við þetta."
Það verður nú samt að viðurkennast, að smám saman fóru að heyrast þekktir hljómar og ljóst þótti að þetta væri á söngskránni. 
Þriðji hlutinn: CREDO, er bara nokkuð skemmtilegur, en krefst mikillar einbeitingar, ekki síst af hálfu tenóranna, en þeir rísa eðlilega auðveldlega undir því.
Í gærkvöld var síðan kynntur til sögunnar ALLELUIA (það eru svo margar aðferðir við að skrifa þetta orð að ég fullyrði að þessi ritháttur er ekkert síðri en aðrir)  kafli, sem á víst ekki að vefjast fyrir þessum þrælþjálfaða hóp.

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar er orðin eins og nokkurskonar dægurlag miðað við Berlínarmessuna, en þó er ekki laust við ákveðið óöryggi í þeim köflum sem hafa verið endurskoðaðir af þessu tilefni. Með opnum huga og jákvæðni mun það yfirstígast eins og annað.

Þessar messur tvær verða fluttar ásamt hundrað manna þýskum kór í þessari kirkju:



Söngskrá fyrir tónleikana sem við höldum síðan ein, í Elias-Kuppelsaal er óðum að fá á sig mynd, en auðvitað er af mörgu að taka, en íslenskt skal það vera, að því mér skilst. 

Allt er lífið einskisvert
undurvitlaust, ísjárvert,
utan sértu, aftanvert
útbúinn með Arvo Pärt.

(þessa verður að íhuga vel og lengi)

17 maí, 2009

Upp og ofan

Margt má segja að hafi verið nokkuð jákvætt við þessa helgi. Það sem stendur upp úr er það afrek mitt að ljúka nánast alveg yfirferð á þeim prófum sem ég lagði fyrir á þessu vori. Ég verð að vísu að viðurkenna, að það var aðdáunarvert átak að tvennu leyti: 
Annarsvegar get ég ekki með réttu haldið því fram að mér finnist gaman að fara yfir próf (það er reyndar fremur lítt aðlaðandi athöfn), en ég lét mig hafa það á þeirri forsendu, að undan því verki verður ekki komist. 
Hinsvegar léku sólin og fuglarnir og vori fagnandi gróðurinn við hvurn sinn fingur, sem hafði frekar neikvæð áhrif á inniveru. 
---------
Ég minnist hér með lítillega á Evrósjón þó það sé að bera í bakkafullan lækinn. Þetta er allt bara ágætt, en ég er nú samt þeirrar skoðunar það það sé ekkert til sem heitir "slæm umfjöllun" (bad publicity). Þetta land vort hefur verið að vörum Evrópubúa í allan vetur og ekki af sérlega góðum ástæðum. Er ekki hugsanlegt að nýfengin snerting Evrópuþjóða við okkur hafi haft einhver áhrif á atkvæðagreiðsluna? 

Sólar var þessi sunnudagur
sæluríkur að mestu.


14 maí, 2009

Bara ein birtingarmyndin - mér blöskrar

Ég hlýt að viðurkenna, að það er til fátækt fólk sem á erfitt með að ná endum saman af ýmsum ástæðum. Það er endalaus barátta að koma málum svo fyrir, að slíku verði útrýmt. Fátækt getur hinsvegar ekki verið afsökun fyrir hverju sem er, eða hvað?

Ég hef áður fjallað um það á þessum vettvangi, að mér finnist ýmislegt athugavert við barnauppeldi og umönnun á þessu landi. Í fréttum áðan fékk ég enn eina staðfestinguna á því sem ég hef sagt þar um. Þar var fjallað um slæmt ástand í tannhirðumálum hjá börnum. Þarna var sökinni alfarið hent yfir á stjórnvöld og það má svo sem alveg. Það var hinsvegar ekki vikið einu orði að því að tannhirða barna eigi ef til vill ekki síður og jafnvel miklu frekar að vera á ábyrgð foreldra. Ég vil halda því fram að tennur í tveggja ára barni  séu ekki í rúst vegna þess hve illa stjórnvöld standa sig. Tannburstakaup hafa aldrei riðið neinum að fullu og ekki heldur lítil lús af tannkremi á þennan bursta daglega og 3ja mínútna vinna foreldris við burstun, svo ekki sé nú minnst á það sem börnin fá að setja upp í sig. Ætlar einhver að halda einhverju öðru fram?

Umfjöllun um barnauppeldi fjallar langoftast hvað opinberir aðilar eru vondir við barnafjölskyldur. Foreldrarnir virðast alltof oft vera stikkfrí; opinbera jafnvel skelfilega vanrækslu sína fyrir alþjóð undir því yfirskini að allt sé ríkinu að kenna - og fjölmiðlarnir ýja ekki einusinni að því að þar geti verið að aðrir véli um. 

Hrmmmpf 


11 maí, 2009

Bifreiðin úti í á

Sjalli og Frammsa fóru í bíltúr. Þau ætluðu að keyra hringinn í kringum landið. Ferðin byrjaði vel, en smám saman varð Sjalli, sem var við stýrið, leiður á hvað þetta tók langan tíma og jók hraðann stöðugt. Frömmsu líkaði þetta bara vel og hló og skríkti. Henni fannst óskaplega gaman og réði sér varla fyrir kæti og spenningi. Sjalli var farinn að djúsa við stýrið. Hann varð stöðugt hreyfari og jafnframt missti hann þolinmæðina gagnvart gleðilátum Frömmsu. Loks varð hann  svo leiður á henni, að hann henti henni út á fljúgandi ferð og greip hennar í stað aðra, sem varð á vegi hans. Sú reyndist heita Samma. Samma virtist til að byrja með láta sér vel líka hraðann, en leist ekki alveg á hvað Sjalli var orðinn drukkinn. Hún reyndi að vara hann við, en hann var hættur að hlusta á allar mótbárur, hélt brjálæðislegum akstrinum áfram og skeytti engu þótt fólk sem stóð við vegkantinn varaði hann við með því að veifa og hrópa. Hann ætlaði sér að ná hringnum á mettíma.

Þegar Sjalli kom á fljúgandi ferð að stórfljótinu Þrotu, hitti hann ekki á brúna og bíllinn flaug út í fljótið. Það var ekki fyrr en þetta gerðist, að Samma áttaði sig á að ef til vill hefði hún átt að taka fyrr í stýrið. Hún henti sauðdrukknum Sjalla út um hliðarrúðuna. Hún kallaði sér til aðstoðar gaur sem stóð á bakkanum og sem reyndist heita Viggi. Samma og Viggi reyndu að koma bílnum í gang, en án árangurs. Í þeim svifum bar að kranabílstjórann Agga á stóra kranabílnum sínum. Á endanum ákváðu þau Samma og Viggi að biðja Agga að draga bílinn upp úr fljótinu. Aggi hugsaði sig um, því hann var ekki viss um, að hann myndi fá greitt fyrir ómakið, en lét þó til leiðast að lokum. Hann dró bílinn upp úr fljótinu. Samma reyndi að ræsa vélina, en ekkert gerðist. Viggi reyndi að ræsa, en allt kom fyrir ekki. Bílnum varð ekki haggað. Aggi vildi fá stórfé fyrir björgunina, en það var engan pening að finna í bílnum. Sjalli og Frammsa höfðu tekið með sér stóra tösku af krónum, en það kom í ljós að einhver virðist hafa stolið öllu úr töskunni, því hún reyndist full af dagblöðum. Samma og Viggi gátu því ekki greitt Agga neitt. Þau reyndu að fá pening frá fólki sem hafði safnast saman á fljótsbakkanum, en það bar lítinn árangur.
Við nánariskoðun á bílnum kom í ljós að vélin var ónýt, öll innréttingin var sömuleiðis vatnssósa og ljóst að þessum bíl yrði ekki ekið aftur. Samma og Viggi áttu ekki marga kosti í stöðunni, en þau voru ekki sammála um hvað til bragðs skyldi taka. Helst kom til álita að fá bíl hjá Evru, sem bjó í næsta þorpi. Það var það sem Samma vildi, en Viggi vildi frekar reyna að gera við handónýtan bílinn.  
Lengri er þessi saga ekki. Eins og góðra sagna er siður þá er lesandanum látið eftir að prjóna framhald.
--------------------
Frá minni hendi verður ekki  framhald á þessari sögu, en á hana ber að líta sem tilraun til að segja meira en bara einhverja sögu - eins og öllum má vera ljóst. :) :(

10 maí, 2009

Punktur snilldarinnar

Ég hef ekki verið mikið fyrir að gorta af afrekum mínum sem iðnaðarmanns þegar Seðlabankinn er annars vegar. Því er hinsvegar ekki að leyna, að ég er betri en enginn á hvað sviði sem er, og þá ekki síst á því sviði í sem hér fær lítillega umfjöllun.

Þegar ég lauk við að setja upp ægifargra leikhúslýsinguna fyrir nokkru, mun ég hafa getið þess að aðeins væri þá eftir að setja punktinn yfir i-ið. Framundan væri að mæla fyrir, panta og setja upp veglegan spegil, sem hæfði svo mikilvægum hluta eins húss. Mér til nokkurrar undrunar hefur það nú gerst, að allir þeir þættir verksins sem þarna voru nefndir, hafa nú verið framkvæmdir, fumlaust og með festu.

Undanfari uppsetningar spegilsins varð að vera vandaður og því var það, að ég mældi sjálfur fyrir honum og hafði svo mikið við, að ég ók að Hellu með málin, fékk teikningu frá þeim til
staðfestingar, endurskoðaði mælingarnar og breytti lítillega áður en ég staðfesti endalega hvernig gripurinn skyldi líta út, upp á brot úr millimetra, hvorki meira né minna.

Fyrir nokkru fékk ég síðan hringingu frá glerverksmiðjunni um að allt væri klárt, en sökum anna varð það ekki fyrr en sama dag og dimissio var haldin hátíðleg, að ég skellti mér austureftir með farþega nokkurn, sem hér hefur verið nefndur gamli unglingurinn, en hans erindi var að líta inn hjá gömlum vini sem elur manninn í sama þorpi og speglaframleiðslan fór fram.

Spegillinn reyndist vera jafn glæsilegur og ég hafði mælt hann og heim var haldið með dýrgripinn; ferð sem gekk eðlilega áfallalaust fyrir sig.

Næst á dagskrá var að útvega plötu sem skyldi mynda bak sem spegillinn skyldi límdur á. Þessi plata reyndist verða í boði BYKO (það fyrirtæki nefni ég með nafni þar eð ekki var mér gert að greiða fyrir plötubútinn. "Þessu verður hent hvort sem er" sagði pilturinn en afgreiddi mig ljúflega.).

Í dag lét ég síðan til skarar skríða. Skrúfaði bakið á vegginn eftir að vera búinn að saga það til með fínu stingsöginni (vissi alltaf að ég myndi einhvertíma hafa þörf fyrir hana). Því næst kom að því að máta spegilinn góða við svæðið sem honum var ætlað að þekja. Ég varð ekki einusinni hissa þegar ég uppgötvaði að það var eins og hann hefði verið sniðinn í kringum afburða smekklegu leikhúsljósin og sérhönnuðu spegilinnstunguna. Enn ein staðfesting þess, að það er ekki margt sem ekki leikur í höndum mér.


Nú, þá var bara að líma spegilinn á sinn stað. Þá kom að því, loksins, að ég þurfti lítilsháttar aðstoð. fD brást ljúflega við beiðni minni þar um og studdi við spegilinn á krítískum augnablikum uppsetningarinnar.

Þarna er hann kominn og ber fagur vitni mikillar verkkunnáttu og smekkvísi, auk þess sem ég fékk staðfestingu á því, að ég er eins og ég er.


Ekki er snilldin einleikin,
engu er um það logið.
Hátt hún rís í himininn,
ég held ég geti flogið.

08 maí, 2009

Dimmision (nei) - Dimmission (nei) - Dimissio (já)


-hægt að stækka með því að smella (held ég) -


Enn á ný fagnar sá hópur fólks í stofnuninni þar sem ég vinn, því, að kennslu er lokið og ekkert eftir af skólagöngunni á Laugarvatni nema prófatími. Sem betur fer eiga flestir inni fyrir fagninu; eru vel að því komnir. Því miður eru einnig þeir sem eflaust hugsa nú sem svo, að betur hefði nú verið hægt að vinna í málunum. Hvernig þessu lýkur öllu saman, kemur í ljós í lok mánaðarins þegar endanlega liggur fyrir hver uppskeran verður. Vonandi bjargast þetta nú allt saman.
Ástæða þessarar færslu er ekki síst sú að nú hyggst sá yngsti afgreiða þennan kafla lífsins.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessum ágæta hópi á góðri stund.



06 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (IV)


Ég reikna með að nú hljóti að hilla undir lokin á þessari umfangsmiklu umfjöllun - eftir því sem lengra líður frá því atburðir áttu sér stað fennir meira í förin og ónákvæmni verður meiri. Það er eiginlega bara tvennt eftir sem þörf er á að minnast á og það kemur hér:

5. Veislan - að öðru leyti.
Allt fór þetta fram af miklum rausnarbrag, en það sem ég vil nefna (auk þess sem getið var í lið

4) lýtur að framgangi foreldranna, en þeir fluttu yfirgripsmikla tölu þar sem umfjöllunarefnið var ævisaga unglingsins.
Ekki er hægt að skilja við veisluna nema víkja orði að þríréttaðri máltíðinni. Hún var ekki nógu góð - fyrir mann af minni stærð (les: hún var of góð).
Veisla þessi hófst kl. 13.30 og ég var ekki kominn í náttstað fyrr en að verða 22.00. Geri aðrar veislur betur.

6. 'Blue Monday'
Þessi siður mun vera alkunnur á Íshæð og líklega þá einnig víðar í hinu danska ríki.
Daginn eftir dag eins og þarna var um að ræða, þar sem unglingarnir eru bornir á gullstól og upplifa sjálfa sig sem miðpunkt alls sem er, skapast tómarúm. Allir farnir, ekkert að gera, aftur skammaður, allt eins og var.
Þarna kom á einhverjum tímapunkti fram sú snilldarhugmynd að lengja aðeins í dýrðinni. Þetta felst í því að auk fermingarfatanna eru keypt svokölluð bláa mánudagsföt. Þeim er klæðst daginn eftir stóra daginn, og samfermingarbörnin skella sér í nýju fötunum út á lífið. Þetta er sjálfsagt allt gott og blessað, er frést hefur til Fróns af því að lítillega hafi þurft að taka á málum í lok þess dags, en það er ekki mitt að fjalla um.


Hér með er komið að punkti, eftir okkur orð til viðbótar, sem fela í sér þakkir okkar Kvisthyltinga fyrir sérlega góðar móttökur á heimaslóð þeirra Íshæðinga.

04 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (III)

Áfram skal haldið og í engu slakað á. Helsta hættan sem nú blasir við í skrifum þessum er, að sökum andlegrar örmögnunar eftir önnum hlaðinn dag, verði umfjöllunin ekki jafn þrungin andans auð og verið gæti.
Það var þar komið frásögninni, að veislan var að hefjast. Enn tek ég fyrir ákveðna þætti og freista þess að greina með beinni, óbeinni eða engri tilvísun í þær veislur af þessu tagi sem ég þekki til úr íslenskum menningarheimi.

3. Inngangur að veislu
Veislan fór fram í sal í Íshæðarhverfi í nýbyggðu húsi, sem er sennilega nokkurskonar félagsmiðstöð í hverfinu. Óneitanlega vakti það athygli mína, sveitamannsins úr Tungunum, þar sem maður heyrir að sumir læsi aldrei húsum sínum eða bílum, að byggingin sem hér um ræðir var afar rammgerð og um hana ríktu strangar reglur um að passa sig á því að læsa ætíð dyrum sem gengið var um. Fyrir gluggum voru rimlar og stálrennihurðir og frádraganlegir rimlar fyrir öllum dyraopum. Salurinn innan dyra var hinsvegar hinn glæsilegasti og allur búnaður til fyrirmyndar.
Móðurafinn, tók sig til í tilefninu, og lagði 15 metra rauðan dregil utandyra og annað eins innan dyra, sem fermingarbarnið gekk síðan eftir til veislunnar. Þetta tiltæki vakti athygli og ánægju gesta, ekki sist þar sem hamingjuóskir pilti til handa voru saumaðar í dregilinn.

4. Veislan - drykkjarföng
Á okkar elskaða landi heyrast ósjaldan auglýsingar á fermingarveislutímabilinu sem hljóða svo:
Með samstilltu átaki hefur tekist að útrýma á.....  úr fermingarveislum á Íslandi.  Höldum því svo áfram.  Á......varnaráð.
Ég hefi ekki komið í fermingarveislu á Íslandi þar sem ofangreint er haft um hönd. Helsta syndin sem ég minnist að hafi verið ástunduð áður fyrr, og var þá ekki einusinni verið talin til synda, var að vindlingar og vindlar voru til reiðu handa gestum eins og hver vildi. Sérstaklega minnist ég asna nokkurs sem var til í kringum mína eigin fermingu, sem var fylltur af nikótínstönglum. Þegar einhvern langaði í þá var tekið í halann á asnanum og þá birtist hvítleitur stöngullinn útum afturendann á honum. Þetta þótti afar sniðugt.
Veislan okkar á Íshæð var sem sagt með nokkuð öðru sniði að þessu leyti, en við komu gestanna var þeim boðið 'velkomst' og síðan eins og hver vildi svo lengi sem hann þraut ekki örendi. Ég er ekki frá því að hér sé um að ræða sérlega skemmtilegan sið.
Ekki fer hér mörgum sögum af því hvernig þeim sem ekki höfðu kynnst öðrum veislum af þessu tagi, en frónskum, reiddi af við þessar óvenjulegu aðstæður. Fæst orð....  Þegar upp var staðið verður hinsvegar að segja, að þetta var sérlega skemmtileg fermingarveisla.

Ég hafði ætlað mér að ljúka umfjölluninni hér, en einhvernveginn tekst mér að verða svo orðmargur sem raun ber vitni, að ég ákveð hér og nú, að einn kafli verði færður til viðbótar. 
Enn æsist leikurinn.

02 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (II)

Áfram skal haldið og þessu sinni beinist athyglin að mestu að því umstangi, sem það felur í sér að breyta barni í fullorðinn einstakling í nágrannalandi okkar. Ég tek hér dæmi af fermingu pilts með langt eftirnafn með heimilisfesti á Íshæð í fyrrum höfuðborg Frónbúans. Eftirnafnið læt ég liggja milli hluta hér, en að fornafni heitir piltur Róbert. 

Hann er elsta barnabarn Þorvaldsdóttur þeirrar er búið hefur með börnum og buru (og ektamaka) á Íshæð lengi. 
Það var ýmislegt við umgjörð og framkvæmd þessa atburðar, sem ferming er, sem kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, verandi lítt veraldarvanur í fermingarsiðum eins og þeir tíðkast um víða veröld.  Ég mun hér gera grein fyrir því helsta sem ég hef ekki átt að venjast í útfærslu fermingarsiða hér í okkar kreppuþjáða landi. Ég mun, í einstaka tilvikum tilgreina íslenska útfærslu einstakra þátta, en mun að öðru leyti reikna með að lesendur séu vel heima í því sem hér tíðkast í þessum efnum.
Eftir að ég hafði, sökum mistúlkunar á orðum fD (sem gerist stundum) ákveðið að vera ekki viðstaddur hina kirkjulegu athöfn, ákvað ég að auðvitað væri það ætlun mín, ekki síst þar sem ég var kominn yfir höf og lönd til þess arna. Það var haldið til kirkju

1. Fermingarbörnin koma til kirkjunnar.
Ekki vorum við hjónakornin fyrr komin, í blíðskaparveðri, á opið svæði fyrir utan kirkjuna, hvar margmenni var saman komið, en drunur heyrðust í fjarska. Ekki leið á löngu áður en skýring
 koma á þessum þrumuhljóðum - hvert á fætur öðru óku í hlað ógurleg tryllitæki, sem staðnæmdust ekki fyrr en við kirkjudyr. Já, allt í lagi, hugsaði ég, fermingarbörn koma úr allskonar fjölskyldum og ekkert óeðlilegt við það, að þær eigi mismunandi ökutæki.
Dyr tryllitækjanna opnuðust og út úr þeim stigu fermingarbörnin, eitt af öðru og gengu í snarhasti inn í kirkjuna þar sem þau virtust eiga eitthvað vantalað við prestinn. Það var síðan útskýrt fyrir mér að þetta væri hreint ekki óeðlilegt, sem liður í athöfninni. 

Ekki voru þessi fermingar-börn beinlínis í hvítum kirtlum, heldur í öllum útgáfum fatnaðar, allt frá bol og gallabuxum upp í fínustu kjóla eða jakkaföt. Okkar maður var íklæddur svörtum jakkafötum og rauðri skyrtu. Þá hafði greinilega mismikið verði lagt í hárgreiðslu. Einn pilturinn vakti sérstaka athygli mína, en það var engu líkara en næst á dagskrá hjá honum væri að troða upp á rokktónleikum (líklegast metal/ dauðarokk).

2. Kirkjuathöfnin
Það sem gerðist innan veggja kirkjunnar var nú ekki að mörgu leyti ósvipað því sem við eigum að venjast. Ræðan var lönge, en á móti kom að mér þótti það vel að verki staðið að ferma 15 börn, með langri ræðu og einum sex 5-7 erinda sálmum og sex upprisum söfnuðar, á einum klukkutíma. Geri aðrir betur.


Ekki heyrði ég að börnin væru spurð að því hvort þau vildu gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs síns, enda má, ef grannt er skoðað gera ráð fyrir, að úr því þau voru búin að leggja svo mikið á sig til að komast til kirkjunnar, þá hljóti það að hafa verið staðfastur ásetningur þeirra og jáyrði því engin nauðsyn.
Að lokinni athöfninni og myndatökum utandyra þeystu börnin (hinir nýfullorðnu einstakingar) burt á mótorknúnum faratækjunum sínum, mér liggur við að segja: reykspólandi. Ferðinni var heitið í bíltúr áður en veislan hæfist.


Veislan bíður næstu færslu, enda kapítuli út af fyrir sig. Ég ráðlegg engum að missa af þeirri umfjöllun.

Til að auka áhrifamátt frásagnarinnar hef ég kosið að bæta frekar í en draga úr lýsingum mínum í trausti þess að ég hljóti fyrirgefningu, ef á einhverju stigi gæti orðið þörf á slíku.

01 maí, 2009

DK - CPH - IH - FL43 (I)

Þessar vikurnar eru fremur stuttar í vinnulegum skilningi, ekki síst í kringum þann tíma sem við Kvisthyltingar lögðum loft undir rass og skelltum okkur á vit ættboga fD, sem elur manninn, og hefur gert lengi, í tilteknu hverfi höfuðborgar okkar, fyrrverandi. Til Íshæðar lá leiðin til að við gætum verið þátttakendur í umstanginu í kringum staðfestingu skírnar elsta barnabarns hinnar nýdönsku Þorvaldsdóttur og hennar færeyskættaða ektamaka. 














Í Furulundi búa þau á Íshæð og hafa þar fest rætur kyrfilega. Í kringum þau á hæðinni er síðan að finna börnin 2 og barnabörnin 5, eins og rótarskot af ættartrénu. Þá vill svo til, að eitthvert smit virðist hafa átt sér stað út í hinn íslenska ættlegg, því þarna á þessari sömu hæð hafa einnig tekið sér bólfestu afkomendur annarrar Þorvaldsóttur, þeirrar elstu, og gott ef þeir nema ekki á annan tug orðið.
Þarna hefur, sem sagt skotið rótum, allmikill flokkur ættingja fD, eins og áður hefur komið fram. Og þangað var þessari ferð heitið.

Auk fyrrgreinds erindis á þessar slóðir, þá hafði það orðið að ráði að þarna skyldi koma til móts við okkur smákonan frá Berlín ásamt foreldrum sínum, og sú varð og raunin. Hana höfðum við þá ekki hitt síðan hún var tekin í samfélag kristinna í Hóladómkirkju, eða þar um bil.  Það þarf ekki að fjölyrða um það, að ungfrúin hafði elst og þroskast í samræmi við þann tíma sem liðið hafði frá því síðast við hittum hana. Þarna umgekkst hún afann og ömmuna af fyllstu kurteisi og sýndi af sér ótvíræð merki um vaxandi þroska og áhuga á umhverfinu, auk þess sem hún lét verða af því að sofna í nokkrar mínútur, og láta vita af sér í nokkrar til viðbótar.


Þessi dagur var hreint ekki þess eðlis að ástæða sé að kvarta yfir, þvert á móti. Eftir rúman mánuð fáum við, gömlu hjónin, aftur að hitta smákonuna og þá á heimavelli hennar. Þangað til eru dagar taldir.

Það er svo merkilegt, að mörgu leyti, að þó svo staða gjaldeyrismála sé eins og hún er (1DKK=23ISK) og þó svo það væri þvert gegn vilja, þá var, í þessari ferð farið í búðir, sem kann að koma einhverjum á óvart, þó það eigi ekki við um mig. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að þessi fyrrum herraþjóð okkar hugsi svo hlýtt til okkar í þrenginum okkar, að þeir lækki verðlag og sjái þannig til þess að við gerum alltaf betri kaup hjá þeim en við eigum kost á, á þessu landi. 
Kannski er það svo, að við trúum því, þó við á sama tíma höfnum því, að við getum nálgast þarna þann varning sem tekur fram þeim sem við getum fengið á Fróni.
Það var allavega svona - þegar opið var, þá var skoðað og pælt og jafnvel keypt.

Framhald er væntanlegt innan skamms, en þá beinist umfjöllunin væntanlega meira að því sem skilur á millli tveggja frændþjóða.

Eitthvað er um myndir hér.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...