21 júlí, 2009

12 kíló af sögulegum saum - naglar með tilfinningalegt gildi?

Einn er sá staður í þessu húsi sem hefur þurft að þola meira en aðrir að því er varðar umgengni af fúsum og frjálsum vilja, en það er "geymsla" í kjallaranum. (Ég nefni nú ekki einu sinni þann hluta kjallarans sem fær þann heiður að hýsa hinn íslenska hluta húsgagna tenórfjölskyldunnar, blessaðrar, enda allt í röð og reglu þar). Það hefur farið svo, að þrátt fyrir að nokkrar tilraunir hafi verið gerðar til að koma skikki á það sem í geymsluna hefur ratað, hefur allt jafnharðan leitað í sama farið. Nú var svo komið að gólfið var nánast horfið sjónum og það þótti ljóst á þessum bæ, að við svo búið yrði ekki unað.

Þetta var því dagurinn þegar hin endanlega árás var gerð.

Fyrirfram lá fyrir þessu sinni, sem ekki hefur verið áður, að tilteknir hlutir og efni skyldu fjarlægð endanlega. Meðal þessa má nefna:
- þakmálningu sem notast átti í seinni umferð á þakið fyrir 25 árum, ferðina sem aldrei var farin,


- prjónavel, vandaða, sem því miður hefur aldrei virkað sem skyldi, en hafði fram til þessa verið sett á, í von um að lækning fyndist með tímanum,
- reiðhjól sem ekki hefur verið notað í 10 ára, enda bilað í bak og fyrir,
- ótal dollur af málningarrestum, sem alltaf var von til að gæti nýst síðar, sem auðvitað varð aldrei, enda hefur þróun í gæðum málningar verið umtalsverð á síðustu áratugum.


Svona má afram telja. Þetta sem hér hefur verið nefnt, var sett í kerru og keyrt í spilliefnagáma í Holtinureyk og í járnagám hér miklu nær.

Það varð svo, þrátt fyrir góðan vilja, að ýmislegt varð eftir - það gat nú ekki endað með öðrum hætti. Það sem því veldur er af þrennum toga:
- dótarí af ýmsu tagi sem hefur svokallað 'tilfinningalegt' gildi. Ég fer ekki nánar út í það.
- efni sem ekki teljast vera útrunnin (þó þau (einhver þeirra í það minnsta) séu það raunar, og það fyrir löngu) og möguleiki getur verið á að nýta með einhverjum frumlegum og óhefðbundum hætti. Hér vil ég nefna t.d afganga af flísum af ýmsu tagi, múrefni, og flísalím.
- efni sem er í fullu gildi en ekki lágmarkslíkur á að verði nokkurntíma notuð af þeim höndum sem hér slá lyklaborð. Hér er t.d. um að ræða 5 kg af galvaníseraðri fírtommu, 5 kg af galvaníseraðri fimmtommu, 1 kg af dúkkaðri, galvaníseraðri einoghálftommu, 1 kg af galvaníseraðri tommu. Ég hef í huga mér verið að velta fyrir mér - leggja hugræn drög að því - að leggjast í listræna vinnu við að sameina ofangreindan saum og plötuafganga og lakk á úðabrúsum þannig, að úr verði ódauðlegt verk til að prýða húsakynnin - nú eða jafnvel sem upphaf að einhverju enn meira.

Það hefur marga kosti að búa í húsinu sínu á sama stað lungann úr ævinni, ekki síst þessum stað, en óhjákvæmilega hefur það í för með sér, að maður hugsar með öðrum hætti um hvað gera skal við það sem af gengur.





17 júlí, 2009

Þeim finnst það fyndið.

Það er auðvitað ekkert að því að finnast eitthvað fyndið, ekki síst ef húmorinn beinist að manni sjálfum.
Ef hann hinsvegar beinist að einhverjum öðrum, skiptir máli hvað það er sem er fyndið. Það er t.d. í góðu lagi að finnast það fyndið þegar einhver segir eitthvað sem hann vonar að sé þess eðlis að fólk hlæi að því. Það hins vegar síður í lagi ef manni finnst það t.d. fyndið þegar einhver stamar eða verður eitthvað á sem hann kann að skammast sín fyrir.

Synir okkar Benedikts, alræmdir knattspyrnumenn í knattspyrnuliðinu Biskup, stóðu frammi fyrir því í vor, að ákveða hvaða heiti skyldi vera aftan á knattspyrnutreyjum þeirra í liðinu, svona eins og t.d. Charlton eða Ronaldo.
Þaim fannst að það þyrfti að vera eitthvað fyndið.
Niðurstaðan varð sú sem hér má sjá:

Hér gefst sem sagt færi á að velta fyrir sér hvað það er sem gerir það að verkum að þessi niðurstaða telst fyndin í hugum knattspyrnumannanna.

Ef maður skoðar fyrst hugsanlega jákvæða fyndni þá mætti til dæmis nefna eftirfarandi:
a. Feðurnir eru svo öflugir, að með tengslin við þá á bakinu fyllast andstæðingarnir lotningu.
b. Piltarnir líta á sig sem verðuga arftaka fyrrverandi knattspyrnustjarna í U.m.f. Bisk.
c. Nafngiftin tengir piltana við sameiginlegan uppruna í gamla unglingnum, frekar en feðrunum.


Með sama hætti má skoða hugsanlega neikvæða fyndni sem kann að búa þarna að baki. Það er ekki laust við, ef dæma má af svipnum á þeim félögum hér fyrir neðan, að slíkt sé jafnvel möguleiki. En hvað væri þá um að ræða? Hugsanlega þetta:
a. Þessir feður þeirra hljóta að vera komnir að fótum fram, með þá svona í blóma lífsins.
b. Ef menn þekkja feðurna þá sjá menn að þeir eru föðurbetrungar - í það minnsta að því leyti er varðar hárafar.
c. Fyndin nöfn - ha ha - Benni Skúla og Palli Skúla - ha ha.

Þetta kemur allt í ljós - eða ekki - eða þannig.





16 júlí, 2009

Svikarar, landráðmenn, hommar/lesbíur, pólitísk sjálfsmorð

Í dag gleðst þjóðin og syrgir. Fésbók og bloggheimar loga í stóryrðum sem eiga lítið skylt við vitiræna umræðu. Það er engu líkara en blessuð þjóðin, meira og minna, haldi að nú sé búið að ákveða að ganga í ESB. Ef svo er, þá veit ég ekki hvort þeirri sömu þjóð er treystandi til að taka málefnalega afstöðu til samningstillögu sem hún mun taka afstöðu til í fyllingu tímans.
Mér virðist eins og þeir sem tjá sig hvað mest, og þá yfirleitt gegn því að það verði einu sinni kannað hvort þetta Evrópusamband er yfirleitt eitthvað sem gæti hentað okkur, tjái sig með einstaklega ómálaefnalegum hætti þennan daginn, eins og lesa má út úr fyrirsögninni hér að ofan.

Þessi umræða um inngöngu í ESB er búin að vera í gangi afskaplega lengi og fyllilega kominn tími til að sótt verði um inngöngu og séð hvað kemur út úr því. Ef það er óásættanlegt, þá er ekkert annað að gera en hafna því. Ég fæ ekki sé að að það sé innistæða, á þessu stigi, fyrir öllum upphrópununum sem spýtast nú framan í mann ef maður vogar sér að opna netheima.

Það verður að fá svar svo maður þurfi ekki lengur að hlusta á hávaðann á báða bóga án þess að taka neina vitræna afstöðu til þessara mála. Það er fullt af fólki sem telur sig vita fullkomlega, Á BÁÐA BÓGA, hvað bíður okkar innan ESB. Hverju erum við svo sem nær með slíka umræðu og ekkert annað?

Upphrópanirnar hleypa í mig illu blóði, hvað sem öðru líður - ég er orðinn hundleiður á þessu bévítans karpi.

13 júlí, 2009

Undir vökulu auga Bárðar




Það kom að því að Kvisthyltingar leyfðu sér að fara í það, sem kalla má sumarleyfisferð að hætti nútíma Íslendinga. Íslensk sumarleyfisferð á sér ekki lengur stað í fjarlægum löndum, heldur heima við, með það að markmiði að kynnast betur sjálfum sér og fegurð landsins sem ól þig (þetta var ekki einu sinni væmið). Nú sökkvum við okkur ofan í pælingar um það, hver við erum og hvaðan við komum.


Ferð þessi var farin í félagi við fellihýsiseigendurna Siggu og Ingólf, en við snöruðum fína, rauða braggatjaldinu okkar, sem bar þess merki að það hefði verið notað síðast í hellidembu í Ásbyrgi árið 2000, inn í bíl. (Það mun hafa verið þá, eða aðeins fyrr, sem ákvörðun var tekin af minni hálfu um að slíkar ferðir skyldu heyra sögunni til.)

Áfangastaðurinn, þ.e. staðurinn þar sem tjaldinu var slegið upp af stórfenglegri kunnáttu, eða hitt þó heldur, var Arnarstapi á Snæfellsnesi, þar sem Bárður Snæfellsáss birtist í einhverri mynd á hverri þúfu, íslensk landnámshænsni vappa í kringum tjaldið og tína upp það sem fellur af borðum tjaldgesta og óþreytandi kríur vita varla hvað það er að slappa nú af smástund.
Þarna var foruppblásin vindsængin aluppblásin og allt gekk sinn gang, eins og gerist oftast þegar um er að ræða svona útileguferðir.

Eftir bara þolanlega góðan nætursvefn (hefði mátt vera hlýrra á tánum) tók við mikill skoðunarleiðangur um þjóðgarðinn sem þarna hefur verið fenginn staður. Þetta var hin ágætasta ferð með viðkomu á stöðum eins og Hellnum, Bárðarlaug, Laugarbakka, Djúpalónssandi, Lóndröngum, rótum Jökulsins, Skarðsvík, Öndverðarnesi, Gufuskálum, Hellissandi, Rifi,
Ólafsvík, Fróðárheiði (Jökulháls var lokaður allri umferð), Búðum (þar var 2007 brúðkaup í gangi) og Sönghelli.
Seinni tjaldnóttin var miklu betri og ég er nánast kominn á þá skoðun, að það geti verið óvitlaust að fara í fleiri ferðir af þessu tagi, svei mér þó.
Sunnudagurinn fór að stórum hluta í að aka undir sólabakstri, heim á leið með vikomu í brunarústunum á Þingvöllum. ég hef frekar blendnar skoðanir þegar að því kemur að gera upp við mig hvað ég tel að þar skuli gerast næst. Tvennt togast á: a. þarna verið byggt aftur hótel með veitingaþjónustu í nútímalegum stíl, þar sem byggingin hverfur inn í umhverfið, eða b. hreint ekkert verði byggt þarna aftur. Ef það verður byggt á Þingvöllum hús til þessara nota, þá verði því fyrir komið fyrir utan kjarnasvæðið.
Alltaf ömurlegt að sjá svona eyðileggingu.
Haldið var til heilmikillar ferðar
og heldur betur tekið á því fast.
Ekið var um unaðsríki Bárðar
og engu sleppt af nesinu vestast..

MYNDIR hér og hér

08 júlí, 2009

Annar blær (2)

Með því að setja 2 í sviga er ég að vísa til færslu með sama nafni frá 20. apríl á síðasta ári. Þessa færslu skildu lesendur ekki, eins og sjá má af þeim athugasemdum sem skráðar voru. Of djúpt, enda ætlaðist ég til þess að það þyrfti töluvert innsæi til að skilja hvað um var að ræða.

Ástæða þess að ég vísa til þessarar færslu, sem er ríflega ársgömul er, að nú mun vera samskonar staða uppi og þá var. Munurinn er sá að nú hafa birst á opinberum vettvangi upplýsingar um hver staðan er, en það var ekki þá og því þörf á að vera dulúðugur í orðavali.

Nú eins og þá hefjast vangaveltur um hvernig þetta fari nú allt saman þó svo mestar líkur séu á að allt fari eins og best verður á kosið. Áhyggjurnar beinast væntanlega fyrst og fremst að gerendunum, sem nú sjá fram á að lífið breytist umtalsvert, sbr. 'It's the end of the world as we know it...'.

Jamm - lífið breytist í grundvallaratriðum, dýptin eykst og litunum fjölgar. Það gefst færi á að gleðjast yfir öðrum hlutum með allt öðrum hætti. Það þarf að fórna, en fórnirnar þær gefa margfaldan arð. Það þarf að forgangsraða með öðrum hætti, en samt er í rauninni rúm fyrir allt.

Þetta er það sem allt snýst í rauninni um, er það ekki?

--------------------------
--------------------------

Heimsókn til gamla unglingsins í dag fór í að ræða kveðskap. Ég þóttist þekkja stuðla, höfuðstafi og rím, ásamt hákveðum og lágkveðum og öllu þessu sem til heyrir. Jafnframt gat ég þess, að ég treysti mér vel til að sjá hvaða vísa væri rétt kveðin. Hinsvegar sagði ég sem satt er (eins og segja má um Jóhönnu og Steingrím þessa mánuðina): Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Hvað um það. Ég er nokkuð lélegur til gangs þessa mánuðina og er yfirleitt hálf haltrandi þegar ég kem í heimsóknirnar. Þessari lauk þannig að sá gamli sagði mér að klára þessa fyrstu línu fyrir morgundaginn:

Illt er að ganga' á einni löpp..................

Eins og vant er, kostaði þessi áskorun mikil heilabrot og þótti mér það ekki góð tilhugsun, að standast hana ekki.
Ég endaði á þessu og er ekki fyllilega ánægður:

Illt er að ganga' á einni löpp,
allt er skakkt og bogið.
Verkir hrjá mig, von er slöpp,
ég vildi' ég gæti flogið.

07 júlí, 2009

Eftir heimsókn til gamla unglingsins

Rætt var hvað einkennir íbúa hinna ýmsu landshluta, svona eins og gengur. Í tengslum við þetta stóð eftirfarandi upp úr þeim gamla:

Sunnlendingar segja mest
og svíkja flest.
Vestfirðingar vita mest
og vilja verst.
Norðlendingar ríða mest
og raupa flest.
Austfirðingar eiga mest
og una verst.

(veit einhver eftir hvern þetta er?)

Umræðan snérist einnig, eins og svo oft áður, um stöðu mála á okkar góða landi og ekki var það allt á bjartsýnustu nótunum.
Sá gamli á fyrstu línuna:

Allt fer nú til andskotans
engu' er hægt að bjarga.
Hrollvekjandi Hrunadans
hræðir bankavarga.



06 júlí, 2009

Tenoraler Schmelz - það held ég nú


GALA : Die vier Tenöre von Rheinsberg
Oper im ausverkauften Schlosshof
RHEINSBERG - Dieser erste Rheinsberger Operngala-Abend der Saison war so recht nach dem Geschmack des Publikums im ausverkauften Schlosshof. Ein lauer
Sommerabend, die untergehende Sonne färbte den Himmel über dem See rot, die Schwalben sorgten für Begleitmusik. Doch auch wenn sie noch so aufgeregt zwitschernd hin und her flatterten, gegen die Stimmen der jungen Sänger waren sie letztlich chancenlos. Denn die Kammeroper Schloss Rheinsberg präsentiert in diesem Sommer offensichtlich einen überaus guten Jahrgang.Davon zeigte sich auch die zahlreich erschienene Politprominenz – Bundesfinanzminister Peer Steinbrück, Berlins Innensenator Ehrhart Körting und Brandenburgs Ministerpräsident a. D. Manfred Stolpe – sehr angetan.
Egill Arni Palsson eröffnete den Abend dann auch gleich mit viel tenoralem Schmelz. Gyu Mannheim empfahl sich mit der Arie des Siegmund aus der „Walküre“ als aufstrebender Wagner-Tenor, Fritz Feilhaber gestaltete eindrucksvoll die Arie des Max aus Webers „Freischütz“ und schließlich machte Mikolaj Adamczak mit der Arie des Lenski aus „Eugen Onegin“ Lust auf Tschaikowskys Oper, die das Festival im August im Heckentheater bietet.Welches Opernhaus kann gleich mit vier Tenören von solcher Güte aufwarten? Doch damit nicht genug. Wiktor Schewtschenko riss das Publikum mit seinem fulminanten, kernigen Bass zu wahren Beifallsstürmen hin. Dieser starken Männer-Riege hatten die Damen mindestens gleichwertiges entgegenzusetzen. Ksenija Mamedowa überzeugte mit strahlendem Sopran und Katrin Adel empfahl sich erneut für das hochdramatische Fach. Überhaupt war es ein Abend der großen Stimmen, was bei Erdas Warnung „Weiche Wotan, weiche“ aus Wagners „Rheingold“ – gesungen von der Altistin Evelyn Hauck – besonders deutlich wurde.
Bewegend und klangschön sang Sayaka Shigeshima die Romanze der Mignon aus der gleichnamigen Oper von Ambroise Thomas. Seit einigen Jahren leistet sich das Festival ein Mobiles Konzertensemble, drei Musen, die auf Tour gehen, in diesem Sommer die Satyrspiele im Schlosshof mitgestalten und natürlich auch in der Gala nicht fehlen durften. Norma Nahoun, Natalie Perez und Tanja Simic Queiroz gestalten hinreißend das Kartenterzett aus Bizets „Carmen“. Mit höchsten Tönen brillierten schließlich die Sopranistinnen Lucia Kim und Alexandra Büchel.
Bei so vielen Tenören liegt es nahe, das Gala-Programm mit „Libiamo“, aus Verdis „La Traviata“ zu beenden und die Stimmung noch einmal anzuheizen. Das Konzept ging natürlich auf. Die Sänger, das Brandenburgische Staatsorchester Frankfurt unter Leitung von Kevin McCutcheon wurden gefeiert, Zugaben gefordert. So erklang dann auch erwartungsgemäß „Der Mond ist aufgegangen“ von Johann Abraham Peter Schulz. Der Mond war auch tatsächlich aufgegangen und leuchtete den Gästen auf dem Nachhauseweg. (Von Jana Mai)

05 júlí, 2009

Hvar værum án góðra manna sem iðrast?

Gula kringlan, sem öllu lífi stýrir, er löngu risin, ef hún hefur þá nokkuð lagst til hvílu.
Fyrstu merki mannlífs á sunnudagsmorgni eru greinanleg í gegnum krónur trjánna.
Það er hljótt þar sem hljómsveitin lék frameftir í gærkvöldi.
Miðaldra menn sofa ekki frameftir þó ekki skorti á viljann til þess arna.
Við blasir enn einn dagur lífsins með Davíð.
Þeir eru alltaf svo uppörvandi, dagarnir með Davíð.
Davíð veit hvað hann syngur.
Davíð reif í sundur vélina og hann einn veit hvernig á að setja hana saman aftur.
Davíð hleypti hundunum út og hann veit hvernig á að ná þeim inn aftur og hann veit hvernig á að komast hjá því að borga fyrir skaðann sem þeir ollu.
Davíð veit að við stígum ekki í vitið og veit hvað við viljum heyra.
Kyndilberar hugsjóna Davíðs þenja strekkt raddböndin í þingsölum.
Davíð er maðurinn sem veit allt, skilur allt, umber allt, vonar allt og gerir allt.
Enginn er til á Íslandi sem hefur til að bera það sem Davíð ber á borð fyrir þjóðina.
Þjóðin hlustar á Davíð.
Þjóðin trúir á Davíð.
Bloggheimar loga þegar Davíð tjáir sig:

Gullkringlan hefur hækkað nokkuð á lofti.
Vætan sem féll til jarðar í nótt, hverfur smám saman af pallinum.
Sírenan er í fullum blóma. Ilmur hennar umlykur morgunkyrrðina.
Kaffibollinn bíður áfyllingar.
Best að ýta á 'publish post'

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...