28 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (4) - ferðarlok

Já, það var þá, undir lok borðhalds í Landnámssetrinu, að við, sem kusum hlaðborðið fórum að verða við einhvern óróa á súpuborðinu. Nafn var nefnt og það fylgdi með að viðkomandi hafi þurft að fara út. Meira heyrði ég ekki af þessu máli þar sem ég spurði ekki, vegna þess að ég er ekki forvitinn maður að eðlisfari.
Það var ekki fyrr en ég þurfti að skreppa út fyrir eftir að hafa troðið í mig af hlaðborðinu, í ótilgreindum erindagjörðum, að ég áttaði mig á hvað gerst hafði.
Undir klettasnös bograði manneskja og það varð fljótt ljóst að ekki gekk hún heil til skógar. Þarna fór góð súpa í grös undir klettasnös. Eftir stóð spurningin um hvað gæti hafa valdið þessum ósköpum. Ég var óðara kominn með 4 tilgátur í hugann og læt lesendur um að meta hver þeirra er nú líklegust:
a. Svæsin bardagaatriðin í Brák settu meltingarkerfið úr skorðum. Það var hugsanlegt á þeirri forsendu á hér væri um að ræða einu manneskjuna í hópnum sem var nægilega saklaus til að eiga erfitt með að takast á við Egil Skallagrímsson höggva mann í herðar niður.
b. Súpan var einnig mögulegur sökudólgur. Var þetta mögulega gömul Súpa Seiðkonunnar sem þarna hafði verið borin á borð. Það sem styður þessa kenningu, ef eitthvað er, er að hugsanlega hafi meltingarkerfi viðkomandi verið viðkvæmara en annarra súpumanna.
c. Eitthvað sem hefði gerst hvar sem viðkomandi manneskja var stödd þar sem eitthvað, sem ekki er rétt að nefna til sögunnar hér, þar sem þá myndi ég ganga of nærri farþegum mínum. Læt lesendur um að láta hugann reika og velta fyrir sér - þetta var nægilega óljóst.
d. Heimferðin sem framundan var. Ég var nokkuð fljótur að líta á hana sem líklegasta orsakavaldinn.

Hvað um það, það bráði lítillega af manneskjunni, svo það var ákveðið að leggja í hann. Ekki leist mér á blikuna þegar vélfararstjórinn komst að þeirri niðurstöðu, að best væri að manneskjan sæti frammí við hlið mér. Þannig gat ég átt von á hverju sem var, en það var nokkur huggun, að einhver hafði látið sér detta í hug, að láta hana fá stóran plastpoka, ef allt skyldi nú fara af stað áður en minnst varði.

Það var komið myrkur, það var hvasst og það haugrigndi í Borgarfjarðarhéraði og á Hvalfjarðarströnd. Áfram ók ég varlega til að eiga ekki á hættu að hljóðar athugasemdir bærust yfir öxl mér. Þetta hafði það í för með sér, að ég safnaði bílalest og leist ekki gæfulega á þann möguleika að þurfa í snarhasti að víkja út í kant með skömmum fyrirvara. Bílljós á móti blinduðu mig á meðan óþolinmóð bílljósin á eftir mér leituðu stöðugt leiða til að komast framúr. Ég var fastur í einhverju ferli sem ég gat með engu móti komið mér úr - að mér fannst. Ég varð stöðugt að hafa augun á mjóum veginum á sama tíma og ég þurfti að fylgjast með ljósunum fyrir aftan í baksýnisspeglinum veinstra megin, og ég þurfti að fylgjast með hvernig sjúklingnum hægra megin leið og reyna þannig að meta hvenær eða hvort ástand hans væri þannig, að ég gæti þurft að stansa úti í kanti í snarhasti. Á meðan sátu farþegarnir aftur í og gott ef vélfararstjórinn var ekki bara kominn aftast þar sem tilteknum kassa með tilteknu innihaldi hafði verið komið fyrir og sem hann nú nýtti sér nú ásamt öðrum sem þarna þurftu að auka sér kjark og kæruleysi.

Göngin voru framundan, öðru sinni. Ekki yrði það gæfulegt ef sjúklingurinn þyrfti að losna við meiri súpu þar niðri. Það varð því úr, þegar mjög nálgaðist göngin, að ég spurði:
"Heldurðu að þú hafir það af í gegn, eða á ég að stoppa einhversstaðar hérna?"
"Umm, umm, ööö - nei, ég held að þetta veri í lagi - oh oh æ"
Ég varð nokkuð feginn við þetta svar, því í myrkrinu, hvassviðrinu og rigningunni, með 10 bíla lest á eftir, leist mér ekkert á að reyna að leggja úti í kanti.

Aftur var auðvelt að borga og spennuþrungin ferðin niður í göngin hófst. Lesendum til mikillar undrunar, sjálfsagt, gekk sú ferð sérlega vel. Það æmti ekki í sjúklingnum og engin vafasöm tilvik litu þar ganganna ljós.

Uppúr komumst við og sjúklingurinn virtist vera hálfsofnaður þarna í framsætinu. Framundan var einn þáttur ferðarinar, sem þurfti að leysa og sem ég bar töluverðan kvíðboga fyrir: Ég þurfti að beygja til vinstri inn á bílastæði undir Esjurótum. Meða bílalestina á eftir og bílalest á móti og lélegar merkingar til að gefa til kynna hvar skyldi beygt í áðurnefndu veðri, var þetta fjarri því að vera tilhlökkunarefni. Ég vissi að bílastæðið nálgaðist, og nálgaðist. Myrkrið varð svartara, rigningin jókst og hvassviðrið færðist í aukana - ég pírði augun inn í sortann framundan í leit að vísbendinum um að bílastæðið nálgaðist.
Þarna birtist skilti sem tilkynnti að 200 m væru í beygjuna, allt í lagi, nema 50 m seinna birtist annað sem benti inn að stæðinu - það var þar sem átti að beygja. Nú varð ég að hugsa fljótt. Ég bremsaði nokkuð hraustlega svo kassainnihaldsnjótandi farþegarnir kipptust lítillega framávið án þess að þeir gerðu mikið veður úr því, um leið og ég skellti á stefnuljósi svo hálf vitifirrtir bílstjórarnir, sem ég hafði haldið fyrir aftan mig frá Borgarnesi, tækju ekki á það ráð að fara fram úr nákvæmlega þarna. Sem betur fer voru engir bílar að koma á móti svo ég snarbeygði inn á bílastæðissvæðið - nánast á tveim hjólum, því eins og ég hef áður greint frá, var þessi bifreið rækilega upphækkuð og því með þyngdarpunktinn mjög ofarlega. Við þetta köstuðust áðurnefndir aftursætameðreiðarmenn út í hægri hlið og síðan aftur til baka í þann mund er ég rétti kaggann af og stöðvaði síðan inni á planinu....................
Hjartað barðist við rifin, en svalinn og sjálfsöryggið geislaði af yfirborðinu.
Hér þustu 3 farþegar frá borði og áfram var haldið að Gljúfrasteini þar sem tveir til viðbótar kvöddu í flýti, en annar þeirra hafði ákveðið að ekki væri hættandi á þetta frekar - hann ætlaði að aka á eftir okkur að Laugarvatni. Lokaleggurinn hófst og ekkert það var í kortunum sem talið var að gæti orðið til trafala. en auðvitað varð það ekki svo.
Á Mosfellsheiði var svartaþoka, sem bættist ofan á myrkrið og rigniguna. Ég treysti því að ég myndi ekki grilla (borið fram eins og VILLA, sem er borið fram eins og TSJILLA) rollur sem hugsanlega væru að þvælast á veginum. Þegar nálgaðist Þingvelli létti þokunni. Nú var þetta örugglega komið, hugsaði ég um leið og ég tók eftir bílljósum í baksýnisspeglunum þrem: vinstra megin, hægra megin og í miðju. Þessi ljós nálguðust og ég reiknaði með, að brátt myndi bílstjórinn skella á lágu ljósunum svona til að auðvelda mér lífið, en það gerði hann sannarlega ekki og færðist nær og nær. Þar kom, að ég var eiginlega hættur að sjá hvað framundan var, vegna skjannabirtunnar úr speglunum þrem. (Þetta var orðið nánast eins og sviðsljósin í Seðlabankanum, ef einhver man eftir þeim). Ég tók á það ráð til að forða útafakstri, að hægja ferðina og við það versnaði ástandið svo, að ekki varð búið við lengur. Einhvers staðar í gegnum skjannabirtuna sem kom í veg fyrir að ég greindi veginn fram á við, sá ég skyndilega glitta í skilti sem benti að að við værum komin að þjónustumiðstöðinni. Ég tók áhættuna og beygði þar sem ég taldi að innkeyrslan væri og var heppinn. Ég átti von á að viðkomandi ökumaður héldi bara áfram með sín háu ljós, en af því varð ekki. Hann ók að hlið okkar og þá kom í ljós, að hér var kominn sá farþeganna, sem hafði farið úr fólkflutningabifreiðinni við Gljúfrastein. Í ljós kom, að hann hafði aldrei ekið þessa leið og vildi þessvegna koma í kjölfar okkar hinna.
Í sem skemmstu máli benti ég honum á að ef til vill væri rétt að aka með lágu ljósin það sem eftir var. Hann tók tilmælunum vinsamlega og áfram var haldið.

Eftir þetta bar ekkert til tíðinda, utan að vegna hratt vaxandi öryggis míns við aksturinn, ók ég heldur hraðar um holurnar á Gjábakkavegi en þegar lagt var af stað um morguninn. Við þetta hristist trukkurinn nokkuð og vélfararstjórinn, sem sat í aftasta sæti varpaði fram þeirri spurningu hvort ég ætlaði að hrista bílainn hans Gunna í sundur - sem auðvitað var aldrei ætlunin, enda gerðist það ekki.

Af fádæma öryggi renndi ég loks í hlað og skilaði þar af mér þeim farþegum sem eftir voru, alsælum eftir vel heppnaða ferð. Meira að segja sjúklingurinn æmti hvorki né skræmti alla leiðina, sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo, að aksturinn hefði verið óaðfinnanlegur.

Ef þau hefðu vitað...... já, ef þau hefðu vitað.

-----------------------------------------
Hér lýkur þessari frásögn.
Hún er byggð á ferð KEMEL og langflestar þeirra staðreynda sem til eru tíndar, eru réttar. Ég tók mér hinsvegar það bessaleyfi að túlka með mínum hætti það sem gerðist og bæta inn ýmsum viðhorfum og tilfinningum sem eiga, eða eiga ekki rétt á sér.

Í upphafi ætlaði ég að afgreiða þessa ferð snarlega, með einni færslu, en það fór eins og það fór,

Ég þakka þeim (ef einhverjir eru), sem hafa enst til að lesa þetta - ég hafði gaman af að skrifa það.

27 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (3)

Eins og menn muna þá var komið að því að tína upp farþegana, þegar síðasta hluta lauk. Þar var ennfremur gefið í skyn, svo ekki verður misskilið, að það hefði ekki gengið eftir eins of til stóð. Þar var ekki of mikið sagt.

Það biðu tveir farþegar á tilteknum uppítökustað þegar til kom, en 3, misstressaðir, þ.m.t. fD, sem stóð með sínum og vélfararstjórinn, sem auðvitað gat ekki verið þekktur fyrir annað en sýna æðruleysi, voru þegar komnir í fólksflutningabifreiðina. Vélfararstjóranum varð ekki rótt við þetta og seildist inn á sig til að finna símanúmer þeirra sem ekki voru mættir eins og fyrir hafði verið lagt. Mér var rótt á yfirborðinu, en illur grunur var farinn að grafa um sig hið innra. Sá fyrsti sem hringt var í, kvaðst skyndilega hafa lagst veikur með kvef og hálsbólgu og höfuðverk (svona svipaðar afsakinir og maður þekkir svo vel úr aðalstarfinu). Sá næsti taldi sig vera kominn með svínaflensu, en áður en sú afsökun var borin fram, kvaðst hann alveg vera búinn að gleyma því, að ferðin væri þennan dag. Sá þriðji var ekki nægilega fljótur að finna sér sjúkdóm, þannig að ákveðið var að ná í hann heim til sín. Virkaði fremur órótt þegar í bílinn kom.

Þar með var haldið á örmjóan Gjábakkaveg með næsta viðkomustað að Gljúfrasteini. Gjábakkavegur var svona:

Það kom sér bara vel að vegurinn skyldi vera í þessu ástandi, því mér gafst þar færi á að kynnast hinum upphækkaða Ford Econoline, dísil, nokkuð - átta mig á elstu eiginleikum og stjórntækjum, fyrir utan það að nægur tími var til stefnu. Vélfararstjórinn hafði nefnilega gert ráð fyrir því í ferðaáætlun, að eitthvað gæti komið upp á - t.d. bílvelta eða árekstur. Hann hafði svo sem ekki sagt neitt um það, en mér fannst það augljóst.
Í gegnum þjóðgarðinn ók ég nokkuð yfir leyfðum hámarkshraða, enda er sá hraði bara ætlaður ökumönnum með 1 pro mill í blóðinu. Síðan tók við tiltölulega beinn og mjór vegur alla leið að Gljúfrasteini. Á þeirri leið gerðist þrennt, fyrir utan auðvitað hið augljósa: svalt, ytra öryggi mitt og innri ólgu og efasemdir.
1. Farþegarnir létu sig hafa það að kvarta yfir kulda. Voru reyndar orðnir krókloppnir, en höfðu ekki lagt í að biðja um að miðstöðin yrði sett í gang, væntanlega af ótta við að ég höndlaði það ekki, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Höfðu ekki áttað sig á hlutverki vélfararstjórans sem hafði svona hlutverk með hendi. Hann setti miðstöðina á blúss með þeim afleiðingum að þegar komið vara áfangastað voru allir í móki.
2. Vélfararstjórinn hringdi í námsráðgjafann (í námsleyfi) til að greina frá ferðatilhögun, en hún ásamt 3 öðrum áttu að koma til móts við okkur að Gljúfrasteini. Það fór nokkuð um mig þegar ég heyrði háværan hrossahláturinn í henni í gegnum símann þegar vélfararstjórinn greindi henni frá því hver væri ökumaður.
3. Stýrið á kagganum var þannig stillt, að ég sá ekki á hraðamælinn, en freistaði þess að aka alltaf á hóflegum og löglegum hraða (nema í gegnum þjóðgarðinn). Við og við kíkti ég þó yfir stýrið til að fylgjast með. Það gerði ég líka nokkru eftir hrossahláturssamtalið og uppgötvaði þá að tækið var komið á 120 km hraða.

Það var rennt í hlað að Gljúfrasteini, en þar sem þessi frásögn er ekki um þann stað, fjölyrði ég ekki um hann. Það er þó allt ágætt um heimsóknina að segja. Mér gafst þarna færi á að ná lítillega áttum fyrir næsta legg ferðarinnar, ekki síst þann hluta sem fól í sér að koma hátimbraðri bifreiðinni í gegnum Hvaðfjarðargöngin.

Síðustu farþegarnir voru teknir upp í á bílastæði undir Esjurótum, sem á eftir að koma nokkuð við sögu, en síðan lá leið þráðbeint að Hvalfjarðargöngunum. Ég fann fyrir stöðugt vaxandi svitaútstreymi og fannst farþegarnir vera grunsamlega hljóðir aftur í. Ég lét sannarlega ekki á neinu bera. Ávallt svalur.
Mig grunar að það hafi verið vegna þess að miðstöðin var enn á fullu, að einhverjir ferðalanganna tóku upp á því að leita að opnanlegum gluggum í afturhluta bílsins. Þeir fundu glugga og opnuðu hann upp á gátt, í þann mund er göngin birtust framundan. Skelfing var gangamunninn nú lítill.
Á tímabili var ég að því kominn að beygja inn Hvalfjörðinn, en hafnaði þeim kosti jafnharðan, þar sem þá myndi hópurinn verða af leiksýningu og kvöldveði, meira að segja þó enn hefði vélfararstjórinn áætlað feikilega rúman tíma til að komast frá Gljúfrasteint í Borgarnes.

Ég lét vaða í göngin.
Torfærufólksflutningabifreiði rakst ekki upp undir, en það var rétt með naumindum að mér tókst að mæta þeim sem á móti komu - átti allt eins von á því að strauja hægri hliðina. Ekki leist mér á blikuna þegar lengra var komið niður í göngin þegar mikil ólykt af útblæstri ótal ferðalanga sem þarna höfðu átt leið um, gerði vart við sig. Glugganum, sem opnaður hafði verið, var lokað í snarhasti, en það virtist engu breyta. Vélfararstjórinn leitaði leiða til að stöðva inntöku á óloftinu í gegnum mistöðina, en fann enga. Þegar ofan í botn ganganna var komið þótti mér sýnt orðið að þaðan kæmumst við aldrei upp vegna þess, að mér var orðið ómótt og taldi að næst myndi ég missa meðvitund vegna CO2 mengunar.
Ég tórði, og að því kom að mér fannst að ferðin upp á yfirborðið væri hafin aftur. Þetta fann ég þannig, að tryllitækið fór að erfiða æ meir. Mér var reyndar ekki farið að litast á blikuna í mesta brattanum, þegar sjálfskiptingin neitaði að skipta í lægri gír; bíllinn fór stöðugt hægar og hljóði benti til þess að það væri að drepast á honum sökum ofáreynslu. Ég prófaði loksins að sleppa olíugjöfinni og stíga síðan aftur á hana - viti menn: það var skipt í lægri gír og vélin æpti af létti, en mikið óskaplega gekk uppferðin hægt. Það koma loks að því að glæta sást í fjarska og ekki þarf að fjölyrða um léttinn.
Það er alltaf auðvelt að borga, þannig var það líka þessu sinni og eftir þetta gekk ferðalagið áfallalaust í ljómandi veðri hinumegin Hvalfjarðar. Eina sem ég þurfti að muna eftir á þeirri leið var hraðamyndavélin. Það gerði ég.
Í Borgarnes kom ég hópnum og ég sá ekki betur en talsverðum, kvíðablandnum létti lýsti af andlitunum. Léttirinn fólst í því að vera kominn í Borgarnes, kvíðinn orsakaðist af heimferðinni, sem var óhjákvæmileg.

Leiksýningin Brák var skemmtileg og maturinn sem fylgdi í kjölfarið slapp til.

Eftir að hafa treint dvölina í Landnámssetrinu eins lengi og unnt var, varð ekki hjá því komist að tygja sig heim á leið.

Það var þá sem..........

---------------------------------
Mér sýnist að með einum hluta enn muni þetta takast, svo fremi að mér takist að tjá með orðum það sem í hönd fór, rétt áður en heimferðin hófst og á meðan á henni stóð.




26 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (2)

Þrátt fyrir fremur önugt veðurfar til ferðalaga, var sól í hjarta, ef frá er talinn lítilsháttar herpingur vegna þeirrar óhemju ábyrgðar sem hafði verið lögð mér á herðar. Vissulega hafði ég gengið frá því þegar samið var um málið að formaður KEMEL skyldi vera vélstjóri, en hann er einnig efnafræðingur og þrautreyndur fararstjóri, sem þýddi að ég þurfti í raun ekki að hafa áhyggjur af nema stjórntækjum. Vélstjórinn reyndist, meira að segja, vera búinn að læra að skipta um dekk. Auk þess að taka á sig ábyrgð vélstjórans var hann fararstjóri, sem þýddi auðvitað að ég þurfti ekki að velta fyrir mér hvert haldið skyldi hverju sinni, bara halda um stýrið og stíga hóflega á olíugjöfina (já, þetta var dísiltryllitæki), auk þess að vera tilbúinn að stíga létt á bremsuna eftir því sem þörf var á og setja þurrkurnar á og slá þær af eftir þörfum (þessi er með einar 5 harðastillingar á þurrkum, sem voru allar eins), gefa stefnuljós þegar við átti og hafa uppi hæfilegan ljósabúnað hverju sinni.

Að vanda var það hlutskipti okkar Kvisthyltinga að koma okkur á þann stað sem ferðin skyldi hefjast. Það er vegna þess, að Laugvetningar líta til Laugarvatns sem upphaf og endi alls. Ef maður kemur ekki þangað þá fer maður ekki með - sorrí.
Við lögðum í hann frá staðnum eina, sem auðvitað er Laugarás í okkar tilviki, tímanlega, til að mér tækist að átta mig á grundvallaratriðum þess, sem til þurfti til að koma fólksflutningabifreiðinni þangað sem ferðinni var heitið.

Vélstjórinn hafði tækið tilbúið til brottfarar, en ekki er laust við að mér hafi litist fremur illa á að þessi ferð færi vel, þegar ég leit gripinn. Mér þótti sýnt, að vegna þess hve mjög hann var upphækkaður (fagmál) væri þyngdarpunkturinn talsvert ofarlega, sem þýddi að lítið mátti út af bera til að hann ylti út í skurð.

Ég tek það fram hér, að gagnvart ferðalöngun kom ég ávallt fram eins og sá sem veit hvað hann er að gera, þó svo hið innra ólgaði efinn um að þetta myndi fara vel.

Það kom að því að klifra upp í farartækið, en eftir talsvert klifur tókst mér að setjast í bílstjórasætið. Það varð samkomulag um það að vélfararstjórinn settist í sætið við hlið mér, þar sem fD er vön að sitja og segja mér til. Hún var hinsvegar ekki af baki dottin og fann sér sæti beint fyrir aftan mig og hafði þar úrvals útsýni yfir stjórntækin, auk þess að með því fyrirkomulagi gafst henni engu síðra færi á að benda á það sem betur mætti fara, en með hefðbundnu fyrirkomulagi.

Það var kominn tími til að fara að tína upp farþegana, sem átti að gerast á tilteknum stað á Laugarvatni, nema hvað? Ég setti í gang - kunni að setja dísilbíl í gang eftir að hafa eki á slíku tæki um nokkurra ára skeið - vélin tók glæsilega við sér. Þessu næst færði ég skaftið í stýrinu þar til vísirinn lenti á R - sem sagt, ég þurfti að byrja á því að bakka! Það gerðist ekkert við þessa aðgerð - þó svo ég stigi létt á olíugjöfina. Það var ekki fyrr en ég steig fastar, að vart varð hreyfingar á ferlíkinu. Auðvitað endaði það á að hreyfast afturábak, eins og til stóð. Það var einstök lagni mín sem kom í veg fyrir að ég lenti utan í einkabifreið vélfararstjórnans - svitnaði bara inni í mér - lét á engu bera.
Eftir bakkið ssetti ég í D og kagginn skaust fram á við - ferðin var hafin hjá mér sem bílstjóra, en annað kom í ljós þegar kom að því að tína upp farþegana.

---------------------------------------------------------
Ég hafði ætlað mér að ljúka þessari spennusögu með þessum hluta, en undirbyggingin hefur reynst umfangsmeiri en til stóð. Ég hafði ímyndað mér að það gæti gerst og það var þessvegna sem ég óskaði hvatningar að fyrsta hluta loknum. Mér sýnist að ég gæti haldið áfram upp í 5 hluta, með þessu áframhaldi, en tel jafnframt, að ákveðnar líkur séu til þess, að þó svo framhaldið sé gegnsýrt óvæntum viðburðum og hættum, þá muni mér takast, með góðum vilja, að ljúka þessu í 3ja hluta. Hvenær það gerist á eftir að koma í ljós.

25 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (1?)


... er ekki víst að þau hefðu farið með.

Til er mikið ágætis félag, sem burðast með skammstöfunina KML (eða jafnvel, og enn flottara: KEMEL) sem styttingu á heiti sínu, sem er hvorki meira né minna en: Kennarafélag Menntaskólans að Laugarvatni.
Það kemur fyrir, þegar lítilsháttar peningur hefur safnast í sjóð, að stjórn KML kemst að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að skella sér í menningarferð.

Það var nákvæmlega það sem gerðist fyrir nokkru.
Stjórnin hélt fund og í stað þess að ákveða að halda í menningarferð í Laugarás, eins og ég hafði boðið, ákvað hún að stefna í þveröfuga átt: í Borgarnes. Ég tel rétt að það komi fram hér, að ég á ekki sæti í stjórn KML.

Það voru ekki til of miklir peningar, svo ákveðið var að leita hagstæðasta tilboðs í akstur hópsins. Valið stóð milli hópferðabifreiðar sem kostaði nánast kr. 80.000 með bílstjóra og að fá leigða bílstjóralausa fólksflutningabifreið á kr. 35.000. Það þarf ekki að taka það fram, að seinni kosturinn var valinn og ákveðið að taka séns á að redda bifreiðarstjóra, en einn slíkur, alræmur allsherjarreddari starfar við stofnunina. Formaður stjórnar lagði fyrir hann snörurnar og niðurstaðan varð jákvæð.
Allt klárt. Engir lausir endar, eins og vera ber þegar hópferð er annars vegar.

Það er hins vegar þannig, að ekki er er klárt fyrr en fullklárt er.

Bílstjórinn "beilaði" - eins og skjólstæðingar félaga KML myndu segja; lét sem sagt vita af því, að af óviðráðanlegum ástæðum gæti hann ekki tekið að sér umrædda fólksflutninga.

Nú voru góð ráð dýr hjá stjórninni, en stór hluti félaga hafði skráð sig til þessarar ferðar og hafði til hennar miklar væntingar, ekki síst vegna þess, að vegna góðra kjara á flutningi, var von til að greiðsla fyrir mat og leikhúsmiða yrði í lágmarki.

Stjórnin var í vanda.

Þá datt allt í einu einu þeirra í hug, að eldra fólk hefði ökuskírteini sem veitti réttindi til aksturs fólksflutningaifreiða upp að tilteknu marki, ef ekki væri um að ræða að greiðsla kæmi fyrir aksturinn.
Það næsta sem gerðist fól í sér, að stjórnin fór á hausaveiðar, sem beindust fyrst og fremst að þeim sem eru miðaldra og eldri í hópnum.
Í hönd fór ótrúleg atburðarás, með opinberum fyrirspurnum á kennarastofu, einkafundum (sem falla nánast undir bankaleynd) og leitun á samþykki bifreiðareigandans við því, að einhver úr hópnum tæki að sér aksturinn.

Þetta var rafmagnaður tími, en smátt og smátt þrengdist hringurinn. Sumir voru útilokðir vegna ungs aldurs, en aðrir, ég þar með talinn, töldust nægilega vel útbúnir að réttindum, til að þeir kæmu til greina.

Ég kýs að fjölyrða ekki um allt það sem átti sér stað áður en til endanlegrar ákvörðunar kom, en í sem stystu máli varð niðurstaðan eftirfarandi:

ÉG SKYLDI VERA BIFREIÐARSTJÓRI Í FERÐINNI - ENGINN ANNAR!

Vissulega fólst í þessu ákveðin traustsyfirlýsing, sem ýtti nokkuð undir sjálfstraustið, en jafnframt helltist yfir mig talsverður kvíði yfir því sem framundan var.

Það sem ég hygg að hafi gert útslagið við valið var, að ég glutraði því út úr mér á einhverjum tímapunkti, að árið 1976 hefði ég fengið að afla tekna á sendibifreið tengdaföður míns á höfuðborgarsvæðinu um mánaðartíma, meðan þau hjón skelltu sér í árlega ferð til Kanarí. Það, í sjálfu sér var afar eftirminnileg lífsreynsla, sem ekki er hér vettvangur til að fjalla um, en sendibíllinn var sömu gerðar og sá sem nú beið mín. Munurinn fyrst og fremst sá, (fyrir utan, að sjálfsögðu, þá staðreynd að þessi bifreið er 35 árum yngri en sú sem ég ók fyrr) að nú skyldi farangurinn vera 12 sprelllifandi manneskjur, en ekki áfengi í veitingahús.

Ferðadagurinn rann upp, dökkur og ófagur.

Framhald þessarar æsispennandi frásagnar kemur, þótt síðar verði.
Hvatning er vel þegin :)

24 september, 2009

Ég er ekki orðlaus...

... en nægilega hóflega bit, til að ákveða að fjölyrða ekki um þetta mál á þessum vettvangi.

-----------------------

Úr því ég er hér staddur, skelli ég inn einum upplýsingabút til viðbótar um fyrrverandi Laugarásbúann sem ég reyndi að fá fólk til að nefna.

Þessi ágæti maður var vel kvæntur, en missti konuna fyrir allmörgum árum.

19 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 3. hluti

Þá er komið að síðasta hluta dæmisögunnar um búðarferðina. Áður en lengra er haldið verð ég að taka það fram, að þó svo við Kvisthyltingarnir og gamli unglingurinn séum þarna sögupersónur, er það engan veginn svo, að líta skuli svo á að nákvæmlega svona hafi reynsla okkar af búðarferðinni verið, þó svo með réttu megi til sanns vegar færa að svona hafi reynsla okkar verið.

---------------------------
Svona lauk 2. hluta:
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins.

Það er þannig, að maður fylgist oft með því sem þeir sem á undan eru, hafa sett í körfuna sína, og svo var einnig nú. Það yrði of löng upptalning að ætla sér að gera grein fyrir öllum þeim ókjörum af dýrindis mat-, hreinlætis- og snyrtivörum sem færðist nær kassamanninum með kippum. Hann tók við hverjum hlutnum eða stykkinu á fætur öðru og færði fyrir framan skannan sem jafnóðum birti verðið á skjánum sem við blasti. Þetta var augljóslega afar auðugt fólk sem var hér á ferð.
Þar kom að kassamaðurinn var búinn að renna öllum vörunum fyrir skannann. Glæsihjónin höfðu á sama tíma tínt vörurnar beint í innkaupakerruna aftur og luku því um leið að síðasti hluturinn hafði sent verðupplýsingar inn í tölvuna. Það var þá sem maðurinn lyfti upp hægri hönd og smellti fingrum (þumalfingri og löngutöng).
"Þetta eru þá 376,846", sagði kassamaðurinn til staðfestingar á upphæðinni, sem birtist á skjánum. Um leið birtust tveir þrekvaxnir menn, sem augljóslega höfðu beðið eftir merki. Þeir tóku sitt hvora innkaupakerruna og trilluðu þeim á undan sér í átt að útganginum.
"Já - ég ætla ekki að greiða það", sagði maðurinn rólega um leið og hann tók undir hönd konunnar og gekk á eftir kerrumönnunum. Fyrir utan verslunina var nú kominn langur, svartur fólksbíll, svona eins og stundum er kallaður límósína. Skottið var opið og nú mátti sjá þrekvöxnu kerrumennina lyfta kerrunum upp og sturta úr þeim í skottið, sem síðan var lokað. Maðurinn og konan settust inn í bílinn, skottinu var skellt, kerrurnar voru skildar eftir á miðju bílastæðinu og bíllinn helt af stað út í umferðina.
Viðbrögð kassamannsins við öllu þessu voru harla undarleg. Þau voru nákvæmlega engin. Hann fylgdist með atburðarásinni rétt eins og við, nema ekki í forundran og vantrú. Þegar bíllinn var farinn snéri hann sér aftur að færibandinu og hóf að skanna inn vörur gamla unglingsins. Það tók ekki langa stund. Ég setti vörurnar í þennan eina poka sem til þurfti fyrir þetta allt saman.
Kassamaðurinn sló inn samtöluna.
"Þetta verða þá 381,352", sagði hann, án þess að blikna.
"Fyrirgefðu, hvað sagðirðu?", sagði gamli unglingurinn, en heyrinin er ekki eins og hún var.
"381,352", endurtók kassamaðurinn og snéri skjánum með upphæðinni á gamla unglingnum, um leið og hann benti á skjáinn þar sem umrædd upphæð blasti við.
Gamli unglingurinn er af þeirri kynslóð sem borgar alltaf reikningana sína, helst löngu fyrir gjalddaga, en nú varð honum greinilega ekki rótt.
"Kostar þetta sem er þarna í pokanum svona mikið?" spurði hann um leið og hann benti á pokann sem ég hélt á.
"Já, þetta og síðan það sem hjónin keyptu áðan", svaraði kassamaðurinn snúðugt.
"Á ég að borga það sem þau fóru með líka?"
"Já, það eru reglurnar."
"Það gengur ekki." Nú var farið að síga í þann gamla.
Kassamaðurinn hikaði stundarkorn.
"Kassinn verður að stemma. Það verður alltaf einhver að borga."
Ég sá að hægri hönd hans hvarf undir borðið.
"Þetta á ég ekki að borga og þetta ætla ég ekki að borga. Hvað kostaði það sem ég keypti?"
"Þú átt að borga alla upphæðina", sagði kassamaðurinn, um leið og rauð ljós fóru að blikka yfir kassasvæðinu og skerandi væl fyllti búðina. Allir viðskiptavinirnir og afgreiðslufólkið snéri sér að okkur og horfðu á okkur í forundran.
"Nei - kemur ekki til greina. Ég krefst þess að fá að borga það sem ég keypti - annað ekki!"
"Jæja, við sjáum til". Kassamaðurinn var grunsamlega öruggur með sjálfan sig og ekki leið á löfngu áður en skýringin kom á þvi. Í fjarska bættust sírenuhljóð við vælið í búðinni. Skömmu síðar renndu tveir lögreglubílar í hlað með blikkandi ljósum. Út úr þeim stigu 4 lögregluþjónar, sem hröðuðu sér inn í verslunina og að kassanum þar sem við stóðum, hálf dofin yfir þeim ósköpum sem þarna höfðu átt sér stað.
"Ætlar þú ekki að greiða fyrir vörurnar?" spurði ábúðarmikill lögregluþjónn, sem virtist fara fyrir hinum.
Gamli unglingurinn endurtók það sem hann hafði áður sagt. Hann var tilbúinn að greiða fyrir slattann í pokanum.
"Hvert er þá vandamálið?"
"Samkvæmt reglum ber honum líka að greiða fyrir glæsifólkið sem fór áðan án þess að borga," sagði kassamaðurinn, viss í sinni sök.
"Já, það mun rétt vera," sagði lögreglumaðurinn. "Reglurnar kveða á um það. Ætlarðu að greiða þetta?"
"Nei, fjarri því. Kemur ekki til greina!"
"Þá eigum við ekki annars úrkosti en að handtaka þig og færa fyrir dómara."

Þetta reyndist gamla unglingnum um megn. Hann tók upp kortið sitt og afhenti kassamanninum, sem renndi því í gegnum lesraufina á tölvunni. Út prentaðist miði, sá gamli skrifaði undir, rauð ljósin slokknuðu, vælið hætti og lögregluþjónarnir hurfu á brott.

Kassamaðurinn renndi nú vörum okkar Kvisthyltinga framhjá skannanum. Þær komust í tvo poka og fyrir greiddum við það sem kalla má viðunandi verð. Því næst yfirgáfum við verslunina.

Síðast þegar ég vissi var gamli unglingurinn að borða 50000 króna grjónagrautinn sinn og burstaði síðan tennurnar með 37000 króna tannkreminu.

Þannig eru reglurnar.

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 2. hluti

Svona rétt til að skerpa á lesendum vil ég bæta lítilsháttar upplýsingum við Laugarásbúann sem spurt var um. Þessi átti heima á öðrum stað í Tungunum áður en hann flutti í Laugarás með fjölskyldu sinni, þar sem þau höfðu byggt sér íverustað og í framhaldi af því atvinnuhúsnæði.
--------------------
Jæja það er þá væntanlega komið að sögunni um Búðarferðina. Búðar ferðir eru svo sem nánast vikulegur viðburður á þessum bæ. Oftast er gamli unglingurinn með í för og tekur kerruaksturinn föstum tökum.
Í því tilviki sem hér um ræðir var föstudagssíðdegi og umferð því allmikil þegar við komum í kaupstaðinn. Eins og venjulega þurfti að taka á ákveðinni klípu þegar val á verslun var annarsvegar, en loks varð önnur þeirra fyrir valinu.
Eftir að búið var að nálgast kerruna undir varninginn, hófst leiðangurinn um heim allsnægtanna, þar sem hægt er að fylla margar kerrur af varningi á augabragði, ef pyngjan og þarfirnar standa til slíks.
Hjá okkur Kvisthyltingum átti ferðin að vera fremur lágstemmd, að vanda - bara svona þessar vikulegu nauðsynjar. Tveir miðar fD lögðu grunninn að því sem fara skyldi í kerruna; annar fyrir gamla unglinginn og hinn fyrir okkur.
Fljótlega eftir að við vorum komin af stað - byrjuð að tína íslenskt grænmeti í körfuna - tók ég eftir afar glæsilega klæddum hjónum sem þarna voru í sömu erindagerðum og við. Þau voru ekki með neinn tossamiða, auðsjáanlega, því hiklaust tíndu þau til varninginn án þess að hugsa sig um. Yfirleitt tóku þau það sem var dýrast - og þá væntanlega best líka. Það er einhvernveginn þannig í svona búðum að fólk fylgist að í gegnum herlegheitin - ekki viljandi, heldur vegna þess að í grunninn erum við öll frekar svipuð þegar kemur að innkaupum. Það var einnig svo með okkur og glæsihjónin.
Ég er nú ekki vanur að einbeita mér að því að fylgjast með saminnkaupafólki við þessr aðstæður, en einhvernveginn var háttalag þessara þess eðlis að þau drógu að sér athyglina þar sem þau hiklaust og hikstalaust söfnuðu vörunum í körfuna. Afköst okkar við sama verk voru nánast til skammar, ef þannig er mælt.
Þegar við vorum búin að fara í gegnum frystana (þau fengu sér rándýrar nautalundir frá Nýja Sjálandi) og kælana (þau litu ekki við tilboðskjötinu) og gosdrykkina (þau völdu CC) og þurrvöruna (þau tóku hitt og þetta) og nýlenduvöruna (þau tóku þetta og hitt) og hreinlætisvöruna (þau tóku hitt og hitt m.a. dýrasta tannkremið úr 25 tegunda úrvalinu) og snyrtivöruna (þau tóku þetta og þetta) og bökunarvöruna (þau tóku dýrasta brauðið og flottustu kökurnar) og hvað þetta heitir allt. Karfan þeirra var orðin sneisafull, svo full að það flóði út úr og datt á gólfið, en þau létu það sér í léttu rúmi liggja - létu það bara liggja sem datt á gólfið og héldu áfram að tína í körfuna. Okkar karfa var tvískipt: í fremri endann fóru nauðsynjavörur gamla unglingsins og í þann aftari nauðsynjavörur okkar - allt fyrirfram ákveðið. Við tókum aðallega tilboðsvörur, ef þær voru einhverjar og létum okkur nægja ódýrasta tannkremið af tegundunum 25 (varla myndi það beinlínis valda tannskemmdum).
Eftir um það bil hálftíma samferð í gegnum búðina kom loks að því að ýta körfunni að búðarkassa. Það vildi svo til, að samferðafólk okkar í gegnum verslunarferðina var næst á undan okkur í röðinni. Við hefðum gjarna viljað fara í aðra röð, en þær voru bara allar lengri. fD ákvað að það væri fljótlegra að fara í stuttu röðina, þó svo karfa félaga okkar væri algerlega útúrtröðin af varningi.
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins..........

Framundan er ótrúleg atburðarás, sem greint verður frá í næsta hluta, sem væntanlega verður sá síðasti.

18 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 1. hluti

Ég hef áður sett dæmisögu inn á þessa ágætu síðu mína, en varð ekki var við að neinn skildi hvað ég var að fara. Í það minnsta fékk ég ekkert að vita af því þegar útúrspenntir lesendur áttuðu sig á hvað ég var að fara og fundu sig knúna. í sæluvímunni sem því fylgdi, að láta vita af uppgötvun sinni.

Ég ætla núna að skrá hér aðra dæmisögu, í þeirri von að bara það að vita að um er að ræða dæmisögu, verði til þess að fólk velti málunum fyrir sér um leið og það les.
---------------------------------------------

Hér er sagan um búðarferðina

Óvænt uppákoma veldur því að framhaldið birtist á morgun.

(bendi þeim sem spenntastir eru, á að endurskoða fyrri dæmisögu á meðan)

Þá bendi ég einnig á, að enginn hefur treyst sér í að finna út úr Laugarásbúanum.

16 september, 2009

Léttleiki tilverunnar - eða þannig

Réttir marka hefðbundin tímabilsskipti í sveitum landsins. Það er komið haust og fólk tekur til við það af alvöru, að undirbúa sig fyrir veturinn - setja niður fyrir sér hvernig honum skuli varið, eða hvernig þess skal freistað að lifa hann af skammlaust.

Það eru þeir sem eru búnir að skella sér í nám.
Þessu fólki vil ég benda, að nám er vinna - því meiri vinna og því meira sem vinnuframlagið er, því meira gagn verður af þessu braski. Það er því væntanlega vænlegt til árangurs, að skammta sér tíma á samskiptavefjum í tölvunni (fa. . . . . k). Eitthvað hefur mér fundist það vera að vefjast fyrir stórum hluta "vina" minna á þeim slóðum, þ.e. þá sem ég er ekki þegar búinn að "fela" vegna ótæpilegra upplýsinga um niðurstöður í hinum ýmsu prófum, sem þeir eru að gera á sjálfum sér. Framlag þeirra (fyrir utan sjálfspróf, virðist mér einkennast að stærstum hluta af því hve mikið þeir vorkenna sjálfum sér að vera að "læra", á sama tíma og þeir eru með hálfan hugann eða nota þaðan af meira rými í að kvarta yfir því að þurfa að vera að sinna því sem þeir ættu að líta á sem einstök forréttindi.

Það eru þeir sem sinna störfum sínum og reyna að finna í þeim endurnýjaða gleði á hverjum degi. Þeim vil ég benda á að halda áfram að njóta þess að leggja sitt af mörkum, bæði sjálfum sér og þjóðfélaginu til gagns. Þar hafið þið það, gott fólk. Við, sem höfum vinnu eigum að vera þakklát fyrir það á þessum tímum. Það eru nánast forréttindi.

Þeir sem hafa ekki vinnu og eru ekki í námi, kvíða vetrinum væntanlega nokkuð. Framundan er óvissa og ekki verður auðveldlega séð hvort úr rætist á næstunni.
Auðvitað er ýmsu hægt að sinna við slíkar aðstæður, þó svo ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um hvað helst er til ráða.. Það er sjálfsagt auðveldara um að tala en í að komast, þegar ekkert virðist blasa við sem hægt er að gleðjast yfir.

-----------------

Við getum öll, sama hvar við stöndum í lífsgöngunni, leyft okkur að vera reið - þó efast megi um að það geri eitthvert gagn til langframa. Reiðin er þó skárri en doðinn, sjálfsvorkunnin og vonleysið.
Það er bara eitt sem við eigum að vanda, þegar reiðin er annarsvegar: að beina henni að því sem við teljum að hafi valdið því ástandi sem nú er uppi.
Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn all þreyttur á að vera reiður. Til lengdar er þessi tilfinning afskaplega lýjandi, ekki síst þegar ný reiðitilefni birtast manni daglega.

Á ég að treysta því, að þeir sem reynast hafa valdið hörmungunum, fái viðunandi afgreiðslu í réttarkerfinu? Það get ég ekki enn. Það er kippt í spotta nánast daglega, til að draga úr slagkrafti þeirra sem eru að reyna sitt besta til að vinna úr svívirðingunni.
Við erum of fá og smá til að halda úti óspilltu stjórnkerfi. Þess vegna óttast ég að reiði okkar muni enda í einhverskonar doða, sem síðan skapar farveg fyrir enn meiri niðurlægingu okkar sem þjóðar meðal þjóða.

Það sem ég vona, og vonandi þið líka (því vonin er þó vonandi enn eftir) er, að það skapist grundvöllur sem hjálpar okkur til að ganga frá þessu öllu saman með þeirri fullnægjandi tilfinningu, að ekki verði betur gert til að ná fram réttlæti. Ef það á að nást lokun verður það að gerast.


Ég vonast til að fjalla á léttari nótum um lífið og tilveruna næst þegar ég voga mér að lemja hér lykla.



11 september, 2009

Réttamaðurinn

Það var á það minnst í sjónvarpi áðan, að útrásarviðundrin okkar tilheyrðu sennilega ekki sama heimi eða sama veruleika og þetta venjulega fólk sem byggir þetta land. Við þetta varð ég nokkuð hugsi. Má ekki segja nákvæmlega það sama um samband mitt og þeirra sem geta vart leynt tilhlökkun sinni þegar réttir eru framundan. Ég finn ekki þessa tilhlökkun þó ég skilji vel, að það ævagamla fyrirbæri sem göngur og réttir eru, hlýtur að skipta þá sem hagsmuna eiga að gæta töluverðu máli. Þeir hafa komið sér upp heilmiklu tilstandi í kringum þetta - allskyns hefðum sem ekki er einu sinni hugsanlegt að breyta.

Í mínum huga tengjast þessar hefðir fyrst og fremst fernu:
a. Sauðfénu sem fjallmennirnir (fjallfólkið), einskonar hefðarhetjur, hafa heimt af fjalli.
- Hvernig það er á sig komið eftir sumar í óspilltri náttúrunni á hálendi Íslands (athugað með því að þukla á bakvöðva)
- hvernig staðið skal að því að draga það í dilka
- hvernig skal staðið að því að koma því heim þegar allt er búið og söngurinn líka.
b. Hestunum sem aftur fá hlutverk þarfasta þjónsins - meira að segja fjárlausir garðyrkjubændasynir láta sig hafa það að ríða langar leiðir í réttir.
c. Kjötsúpunni
- sem kvenfélagið hefur tekið upp á að selja (aðallega hlutverkslausum).
- sem ákveðnir bæir eru orðnir frægir fyrir að bera fram á réttadegi
d. Gleðskapnum sem stemningin skapar
- hitta mann og annan og bera saman bækur sínar
- taka þátt í víðfrægum réttasöng, hvort sem menn geta sungið eða ekki, enda valinkunnur garpar sem leiða sönginn og hafa gert áratugum saman (oftast er hér um að ræða afkomendur Vatnsleysubænda, Þorsteins og Ágústu og Erlendar og Kristínar).
- njóta þess að fá sér einn eða tvo gráa, svona til að auðvelda samskiptin og slípa röddina.
- ljúka vel heppnuðum degi með því að skella sér á réttaball í Aratungu.


Þessi heimur hefur aldrei verið minn, af einhverjum sökum - líklegast þeim, að ég er garðyrkjubóndasonur og tengist með engum hætti sem máli skiptir, neinum sem finnst að það skipti máli að draga mig þar inn.
Ég hef vissulega gert tilraunir - ekki síst meðan hér voru enn börn sem þurftu að hitta skólafélagana og einnig síðar. Þá var ég reyndar svo heppinn að ég var búinn að koma mér upp myndavél og hafði eitthvað til að dunda við. Réttaferðir hafa fyrst og fremst haft það markmið í mínum huga að taka þátt í að viðhalda tiltekinni hefð, eða menningararfleifð. Með því hef ég orðið hluti af þeirri umræðu, þar sem fremur lítið er gert úr þeim mannfjölda, sem að jafnaði fer í réttir án þess að eiga þangað nokkuð annað erindi en að taka þátt í lífinu í umhverfi sínu (þvælast fyrir vinnandi fólki).

Það gerðist reyndar einu sinni, að ég freistaði þess að verða virkur þátttakandi. Það var þegar sá hluti Hveratúnsmanna, sem nú gistir höfuðstað Árnessýslu, bjó að Torfastöðum og hafði þar lífsviðurværi ásamt núverandi ábúendum þar. Þar var þá sauðfé og þar voru hross. Mér var boðið að taka þátt í að reka heim úr réttum, á hesti. Ég þáði, til að geta í það minnsta sagt að ég hafi reynt. Það var ýmislegt skemmtilegt við þetta ævintýri, en það er aðeins eitt sem stendur upp úr: hrossið fór heldur nálægt gaddavírsgirðingu og ég varð buxunum fátækari.

Ég hef svo sem harla litlar áhyggjur af því að eiga ekki innangengt í heim gangna og rétta. Það eru svo óendanlega margir heimar á þessu litla landi.
Ég skil útrásarvitleysingana, sem við köllum svo, að nokkru leyti.

Megi íbúar réttaheimsins njóta dagsins. ég nýt bara míns með einhverjum hætti í mínum.

07 september, 2009

Góðgæti eða eitur



Það er oft sem þekkingarskorturinn er manni fjötur um fót. Mig grunar að það geti átt við í því tilviki sem hér um ræðir. Þessi hefði dugað í heila máltíð fyrir tvo, ef áhættan hefði verið tekin. Ég ætla ekki að nefna á hvað þessi myndarlegi sveppur minnti fD.

06 september, 2009

Kvisthyltingar halda í höfuðborgina

Það gerist af einhverjum æ sjaldnar að leið Kvisthyltinga liggur í höfuðborgina. Það gerðist þó í gær og var yfirlýstur tilgangur ferðarinnar, eins og fD lagði hann upp, að festa kaup á tiltekinni flík handa tiltekinni konu - aðgerð sem reyndar átti að hafa átt sér stað fyrir nokkrum mánuðum. Þá var meðtilgangur ferðarinnar að kíkja á hina höfuðborgaríbúandi Kvisthyltinga.
Ekki segir margt af ferð þessari fyrr en tilkynnt hafði verið að haldið skyldi í yfirmáta glæsilega verslunarmiðstöð í Kópavogi, þar sem gott mun vera að búa. Ég ók auðvitað þangað, sem leið liggur, eftir hálfauðnarlegum götum borgarinnar, ef borið er saman við samsvarandi ferðir fyrir 2 árum. Í ókutækjunum sem þó voru á ferðinni mátti helst greina fólk með grásprengt hár á tiltölulega eðlilegum bifreiðum.

Aðkoman að ógurlega stóru bílastæðinu við verslunarmiðstöðina skapaði ákveðinn valkvíða (nánast eins og þegar maður stendur frammi fyrir að velja milli 25 ólíkra tannkremstegunda). Ég lagði á endanum vel og vandlega í vel valið stæði, ekki of langt frá aðalinngangi. Í framhaldi af því hófst innganga Kvisthyltinga í hið merka musteri eða öllu heldur minnismerki um betri tíma í lífi þjóðar.

Þegar inn var komið blasti við glæsileikinn í allri sinni villtustu mynd, hvert sem litið var. Harla fátt var um fólk á svæðinu svo ekki var mikil hætta á að meðlimir hópsins yrðu viðskila í mannþrönginni. Á einum stað stóðu um 30 ungar stúlkur með mæðrum sínum í röð og biðu eftir að komast í myndatöku með von um að verða forsíðustúlkur í nýju ungstúlknatímariti, að mér skilst.

Tveir Kvisthyltinga vissu hvað þeir vildu, og héldu sína leið að markinu og vonuðu að eitthvað jákvætt kæmi út úr því. Hinir tveir vissu ekkert hvað þeir vildu, en héldu samt sína leið, með þá von í brjósti að rekast á verslun með íslensku nafni, sem ekki seldi föt. Þær mátti telja á tveim fingrum annarrar handar. Aðrar verslanir báru ýmist nöfn erlendra verslunarkeðja, sem einu sinni voru eins konar tákn fyrir útrás Íslendinga og alþjóðlegan brag (þá var verslun með íslenskt nafn dæmd fyrirfram til að fara á höfuðið) og seldu föt, eða þá þær báru íslensk nöfn, en seldu samt föt.
Kvisthyltingarnir tveir, þessir óákveðnu, létu sig samt hafa það að hefja rölt um hina glæstu sali, gengu einir um endalaus breiðstræðin þar sem doðinn einn ríkti. Aftur og aftur gengu þeir framhjá tóftum, sem einusinni hýstu verslanir með nöfn og sem iðuðu af lífi og gáfu vel í aðra hönd. Rimlagrindurnar sem rennt hafði verið fyrir þessar tóftir skiptu engu máli því fyrir innan var ekkert nema myrkrið.
Eftir að hafa kíkt í eina herrafaraverslun með erlendu nafni, eina draslverslun með erlendu nafni þar sem allar vörur voru á kr. 289 og eina íþróttavöruverslun með ÍSLENSKU nafni, var komið að tímanum, sem ákveðið hafði verið að hópurinn kæmi saman aftur. Ekki var hætta á að Kvisthyltingar færu á mis hver við annan, því þeir voru nánast aleinir á ferð, svo hittingurinn tókst framar vonum.

"50000 krónur!!!!", fD var nánast miður sín á þeirri firru sem einkenndi verðlag í leitinni að áðurgreindri flík. Hún var nú á leið í verslun, með útlendu nafni, þar sem skömmu áður hafði fundist samsvarandi flík einhverjum tugum þúsunda ódýrari og þar skyldi gengið frá kaupum. Hinir tveir óákveðnu í hópnum fylgdu þeim ákveðnu inn í umrædda verslun, sem var á einum þrem hæðum, held ég og auðvitað full af varningi, en nánast engu fólki. Afgreiðsludama sat við útganginn og horfði á sjálfa sig í spegli meðan hún rammaði inn augun með svörtum litapenna, aðrir ráfuðu eirðarlausir um svæðið.
Þegar inn var komið var ljóst að fD vissi hvert halda skyldi og óskaði því ekki eftir aðstoð velviljandi afgreiðslufólksins. Flíkin fannst, en þá tók við leit að einhverjum þeim stað þar sem greiðsla gæti farið fram. Það tók tímann sinn. Hefði verið fljótlegra að vaða bara að útganginum og láta vælið í hliðinu vekja athygli á sér. Greiðslustaður fannst á endanum. Þar stóð kona á miðjum aldri (rúmlega) og sagði ekki orð. Ekki voru Kvisthyltingar að ómaka sig við það heldur, enda ekki þekktir fyrir mas. Konan tók flíkina og græjaði hana eins og vera bar. Við tók greiðsla, kort straujað, undir kvittað, allt orðalaust.
Loksins spurði konan, hikandi:

"ERUÐ ÞIÐ ÍSLENDINGAR?"
"JÁ!"
"ÞAÐ ER VISSARA AÐ SPYRJA."

Nú þykir okkur Kvisthyltingum líklegt, að ferð okkar í þennan minnisvarða velmegunarinnar verði til þess, að umræða hefjist um, að það séu farin að sjást merki um efnahagsbata.

Piltur í Laubach


Artikel vom 04.09.2009 - 23.00 Uhr






Souverän ersetzten die beiden Korrepetitoren Sarolta Turkovic und - versierter noch - Christian Schulte am Flügel ein Orchester. Überzeugend verkörperte Tenor Egill Árni Pálsson zu Beginn in der Arie des Herzogs »Questa o quella« aus Giuseppe Verdis Oper »Rigoletto« den lüsternen Lebemenschen. Er sang mit strahlkräftiger, im Timbre nicht zu harter Stimme und facettenreichem Vibrato. Sopranistin Izabela Matula beeindruckte in der Arie der Mimi »Donde lieta usci« aus Giacomo Puccinis Oper »La Bohème« durch subtile, nuancierte und gefühlvolle Gesangsweise. Recht weich wirkten die Ton-Ansätze, auch dynamisch zurückgenommene Passagen gerieten ausdrucksvoll

05 september, 2009

Hvað gagnast það...?

Skelfing langar mig eitthvað lítið að standa í að fjargviðrast út af öllu og öllum, en einhvern veginn virðist ég bara ekki geta komist hjá því svo auðveldlega. Þessvegna kemur þetta hér:

Það er ekki laust við að mér finnist það samfélag sem við Íslendingar byggjum sé frekar langt frá því að geta talist heilbrigt, en það er nú reyndar ekkert nýtt.
Ég læt hér liggja á milli hluta það sem gerðist á undan og eftir bankahruni - orsakir þess og afleiðingar - það mun allt saman enda í Hæstarétti þar sem tryggt hefur verið, að réttir menn séu á réttum stöðum. Þaðan ganga hinir ákærðu væntanlega hnarreistir út í fyllingu tímans.

Nei, það er svo margt annað sem væri verðugt að beina sjónum að.

1. Hvað gagnast það þessari þjóð að geta valið milli 25 tannkremstegunda til að halda tönnunm í lagi? Hverra hagsmuni er verið að verja með því?

2. Hvað gagnast það þessari þjóð, að foreldrar greiði allan kostnað við uppihald barna sinna til 18 ára aldurs, meðan þessi börn vinna sér inn allt að 7-800 þúsund í sumarvinnu. Eiga börnin ekki að læra það, einmitt við þessar aðstæður, að maður þarf að vera fær um að fæða sig og klæða sjálfur? Eru foreldrar þarna ekki að misskilja hlutverk sitt í uppeldinu?

3. Hvað gagnast það þessari þjóð að vera að breyta skólakerfinu á þessum tímum? Liggur eitthvað sérstakt fyrir um það að breytinga sé þörf? Hér vil ég vísa í viðtal við Jón Torfa Jónasson, loksins maður sem ég er sammála í þessum efnum.

4. Hvað gagnast það þessari þjóð að enginn treysti neinum sem tilheyrir einhverjum öðrum hópi samfélagsins. Hér virðist ríkja sú hugsun að það séu einhverjir aðrir en maður sjálfur sem á að bera þær byrðar sem bankaævintýrið skildi eftir. Í þessum efnum virðist hver vera sjálfum sér næstur. Hversvegna ætti ég þá að vera tilbúinn að færa einhverjar fórnir - ég gerði ekki neitt? Jú góði minn, þú tókst þátt í kosningum. Þú keyptir með afborgunum hluti sem þú hafðir ekki efni á. Þú fórst í sumarleyfisferðir til útlanda á hverju ári. Þú keptir Landkrúser og skráðir hann sem landbúnaðartæki. Það vita allir og viðurkenna að það verður að fórna, en enginn vill sjálfur fórna neinu.

5. Hvað gagnast það þessari þjóð að burðast með svo margar heilagar kýr sem raun ber vitni? Ég legg ekki í að nefna þær, því þá verð ég sakaður um fordóma og þekkingarleysi. Í neyðartilvikum verða þessar kýr að gefa blóð eins og aðrar kýr. Það eru engin raunhæf rök til fyrir því að stéttum sé mismunað þegar kemur að framlögum til sameiginlegara sjóða.

6. Hvað gagnast það þessari þjóð að forðast að horfast í augu við þá staðreynd, að sökum fámennis er stjórnkerfið undirlagt, eða gegnsýrt af ættingum, kunningjum, vinum eða pólitískum samherjum, sem tryggja stöðu hver annars, með þeim afleiðingum að uppgjör verður nánast útilokað?

7. Hvað gagnast það þessari þjóð......?

Ég gæti haldið lengi áfram ef ég hefði tíma og nennu til. Þetta er að mörgu leyti skrýtið þjóðfélag, sem er sjálfu sér verst. Þessa mánuðina einkennist umræða af upphrópunum og vantrausti. Hver virðist vera sjálfum sér næstur - sem mun vera dálítið mannlegt. Ef maður freistar þess að hugsa sem svo, að við séum öllu hluti af vandanum og öll hluti af lausninni, þá kemst maður fljótt að því, að aðrir hugsa ekki eins - þeir hugsa sem svo, að þetta sé allt hinum að kenna og að þeir eigi því ekki að þurfa að bera skaða af ástandinu.

Litla Ameríka, sem ári eftir eitt mesta bankahun sögunnar, heldur áfram að hafa á boðstólnum 25 tannkremstegundir í krafti hugsunarinnar um "bullandi samkeppni" eins og það var svo oft kallað á blómatíma einkavæðingareinokunarinnar. Áfram á allt að vera hægt. Bólulífsstílinn má ekki skerða.

Þurfti að koma þessu frá.

Megið þið njóta helgarinnar, kannski með því að rölta um skeljar frjálshyggjubrjálæðisins, eins og ég ætla að gera.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...