31 desember, 2009

Annus irae

Eins og annað fólk leyfi ég mér að hugleiða lítillega þann veg sem við höfum gengið á þessu ári og einnig hvernig vegurinn framundan lítur út. Ég held að ég hafi ímyndað mér, í upphafi árs, að við lok þess yrðum við farin að ná áttum og að umræða í þjóðfélaginu hefði ná einhverju jafnvægi. Reyndin er sú, að við erum líklegast enn jafn reið og í upphafi ársins. Ég reikna með að það sé varla til sá einstaklingur sem ekki er reiður að einhverju marki. Af þessum sökmu gef ég árinu nafnið sem fyrirsögnin segir til um (þetta virkar svo flott á latínu :)): Ár reiði, skal það heita.

Við þessi áramót eru harla litlar líkur á að framundan séu bara rólegheit í þjóðlífinu. Það er fátt sem bendir til að við stígum út úr reiðinni og reynum á halda göngunni áfram sem ein þjóð. Við munum líklegast halda áfram að öskra hvert á annað og slengja ásökunum í állar áttir. Við munum líklega síður setjast niður í rólegheitum og velta fyrir okkur stöðu okkar sem þjóðar. Það er leitt.

Mér hafa nánast fallist hendur við yfirlestur á þeim óhroða sem fullorðið fólk er búið að senda frá sér á vettvangi sem þessum nú á síðasta sólarhring. Það sem mér finnst enn sorglegra er, hvernig þeir einstaklingar sem við höfum kjörið til setu á Alþingi haga orðum sínum. Ástæður þess skil ég ekki - og fyrst svo er, þá dreg ég þá ályktun, að það sé eitthvað annað sem býr þar að baki en hugsjónaeldurinn einn.

--------------------

Við lok þessa dags ætla ég að setjast að veisluborði með mínu heimafólki og hugsa til þeirra sem fjarri eru. Að því loknu er nauðsynlegt að kíkja á brennu, sem hefur verið auglýst, en ég veit ekki hvort eða hvernig verður í raun. Þá er ekki úr vegi að fylgjast með, væntanlega ekki mjög glaðlegum, annál þess sem gerst hefur á innlendum vettvangi áður en áramótaskaupið setur allt saman í skoplegt samhengi. Þá tekur við að afgreiða gamla árið endanlega með ofurbombum okkar Kvisthyltinga í samkeppni við næstu nágranna. Þetta verður eflaust allt saman einstaklega skemmtilegt, enda standa ekki vonir til neins annars.
Hvað síðan gerist verður samhengi hlutanna að leiða í ljós.

Lesendum þeirrar speki, sem ég hef borið á borð fyrir þá á árinu, þakka ég samfylgdina og óska þeim og þeirra fólki öllu, þess, að nýja árið verði þeim eins áfallalítið og uppbyggilegt og efni standa til. Þó horfur séu ekkert sérlega bjartar, ef marka má orð allra þeirra spöku og spekilausu karla og kvenna sem hafa tjáð sig þar um, þá er það nú svo, sem betur fer, að orð þeirra eru bara orð.


Nú árið er liðið og ekkert ég veit
um allt það sem næsta ár gefur.
Vér bíðum þess glaðir í Bláskógasveit
að brátt lifni jörðin, sem sefur.



30 desember, 2009

Yfirborðslíf



Það vita allir að grunnir lækir sem falla niður fjallshlíð fara mikinn, en það

afl sem í þeim býr, þegar á reynir er harla lítilvægt. "Still waters run deep", segir málshátturinn.
Yfirborðsmennskan birtist okkur á hverjum einasta degi í gegnum gaspur þeirra sem telja sig hafa höndlað sannleikann eina, í gegnum fjölmiðla af ýmsu tagi, ekki síst á síðum eins og þessari. Oftar en ekki er fjallað um menn og málefni af afskaplega mikilli vanþekkingu og grunnhyggni. Því meiri sem lætin eru, því meira er froðusnakkið. Því meiri sem dómharkan er, því minna er mark takandi á málflutningnum.
Það sama má segja um ýmsa vöru og þjónustu sem okkur standa til boða, ekki síst þegar halda skal hátíð.
Þá er ég loksins kominn að efninu, eða dæmisögunni sem ég ætla að nota til að undirbyggja það sem að framan er sagt.

Eins og margir aðrir, tók ég þátt í jólahlaðborði í byrjun desember. Þar voru gestir beðnir að koma með gjöf með sér, eina á mann. Síðan fékk hver og einn sína gjöf. Þetta var nú bara skemmtilegt. Gjöfin sem ég fékk, var nú ekki af lakara taginu; 6 rauð kerti í glæsilegum kassa. Kertin voru sérlega fögur í fína kassanum sínum - mótuð í formi rauðrar rósar - ávísun á rómantíska kvöldstund, sem auðvitað hentar mér sérlega vel. Þar fyrir utan sá ég fyrir mér, að þetta hlytu að vera ilmkerti og að rósailmurinn myndi fylla herbergið og auka þannig enn á fegurð rósaljóssins. Fullkomið loforð um fullkomna stund.

Ég ákvað nú að prófa eitt kertanna þegar leið að jólum. Myndir segja meira en þúsund orð (reyndar alræmd klisja) og því læt ég þær sjá um lýsingu á því sem gerðist. Og ég læt ykkur, góðir lesendur um að tengja saman það sem ég sagði í upphafi og kertið "góða".


Þau ilmuðu ekki einu sinni.



27 desember, 2009

Jóla-Laugarás í HDR

Þegar enginn er snjórinn til að skapa jólastemningu, sem er þess virði að festa á mynd, verður að grípa til annarra ráða. Það gerði ég í það minnsta.
Það er alllangt síðan Berlínarmaðurinn náði sér varla fyrir spenningi sem tengdist uppgötvun hans á fyrirbærinu HDR, sem er tiltekin tegund ljósmyndunar. Hana er hægt að framkvæma með ýmsum hætti, mis einföldum í framkvæmd. Ég er inn þeirra sem bý svo vel að eiga Canon 400D, mikinn öndvegis grip, sem getur framkvæmt þetta í einni aðgerð. Það gerist þannig, að vélin er stillt með viðeigandi hætti og síðan komið fyrir á þrífæti. Þá er smellt og vélin tekur þrjár myndir í röð með mismunandi lýsingu: fyrsta myndin eðlileg, næsta undirlýst og sú þriðja yfirlýst. Myndirnar eru síðan settar saman í eina með viðeigandi forriti í tölvu.
Ég fór í lítinn göngutúr um Laugarás og tók myndir með þessari aðferð, jólamyndir.

Hér eru tvö dæmi:


25 desember, 2009

Norsk innmat og Starbucks


Hvað er annað að gera á jóladegi en að njóta hans til hins ý/ítrasta. Maður hellir upp á jólakaffið frá Starbucks, skellir í sig norsk svinekjött og lammelaar með hangikjötinu. Svona fer maður að því að njóta þess að vera alþjóðlegur til munns og handa.

Á eftir mælir maður síðan blóðþrýsitinginn og kemst að því að hann gæti verið betri - þ.e.a.s. stundum (ég er búinn að tengja, með óvéfengjanlegum hætti saman sælgætisát og háþrýsting). Ákveður að gera ekkert, þó ekki væri nema til að reyna að lækka þrýstinginn.
Ilmurinn af hýasintunum fyllir loftið og í útvarpinu hljómar stemningstónlist.

Jóladagur

Af einhverjum ástæðum eru messuferðir orðnar fátíðar á þessum bæ, en það er úrval af slíku á öldum ljósvakans.

24 desember, 2009

Þá eru það jólin

Það er auð jörð, frost, en meinlaust veður að öðru leyti á sunnanverðu landinu, en von á stórviðrum á norðvesturhorninu. Þannig er staðan hið ytra þegar jólahátíð gengur í garð. Þó víða um lönd telji fólk, sem á annað borð veltir því fyrir sér hvort þessi þjóð er til eða ekki, að hér gangi málin fyrir sig með miklum hörmungum, þá er staðreyndin sú, að ef við tökum mið af stærstum hluta mannkyns, þá lifum við við allsnægtir. Við njótum við þess að búa í góðum, upphituðum húsum, með ljós í hverju herbergi og nóg að bíta og brenna. Það er engin raunverulega ástæða til þess að við sökkvum okkur ofan í bölmóð og sjálfsvorkunn. Við getum verið reið við einhverja þá sem við teljum að hafi valdið þessu ástandi, en reiði okkar beinist í ýmsar áttir þar til þetta hefur allt verið gert upp samkvæmt þeim reglum sem við, sem þjóð höfum sett okkur.

Ég ætla ekki að þykjast telja, að enginn eigi erfitt á þessu landi á þessum tímum. Auðvitað er það svo. Það áttu líka margir erfitt á þeim uppblásnu tímum sem við lifðum fyrir nokkrum árum. Það munu einnig margir eiga erfitt þegar þetta áfall er liðið hjá. Þannig er nú líf mannsins í fortíð, nútíð og framtíð. Við eigum ekki að þykjast vera í verri stöðu en flestar aðrar þjóðir.

Að setjast við tölvuna sína og fá þar útrás fyrir reiði sína, sem allir geta lesið sem lesa vilja, er að mörgu leyti jákvætt, en líka talsvert varasamt. Fordæming á fólki, gífuryrði, bölv og ragn hefur lítið með gagnlega umræðu að gera. Þetta er tjáningarmáti sem fór fram innra með fólki fyrir daga bloggs og fésbókar, en fær nú að flæða fyrir augu hvers sem lesa vill. Því stórkarlalegri ummæli sem eru viðhöfð, því minna mark er hægt að taka á þeim. Þetta ár hefur verið ár upphrópana, sem má jafnvel líkja við stríðsástand. Skotfærin eru orðin sem sögð eru, eða skrifuð. Sem betur fer eru þau bara orð. Þau gætu verið eitthvað enn verra.

Það er ekki langt í að nýtt og líklega strembið ár gangi í garð. Það eiga eftir að falla mörg vanhugsuð orð og margir eiga eftir að þurfa að neita sér um margt það, sem sjálfsagt hefur þótt. Það eitt vitum við, að áfram líður tíminn án þess að nokkur fái rönd við reist. Það kemur að því, fyrr eða síðar, að upp renni bjartari tíð en sú sem nú er uppi.

Meira verður ekki sagt um þessi mál hér og nú.

Fyrir hönd Kvisthyltinga óska ég öllum lesendum þessarar útrásar- og upplýsingasíðu, gleði og friðar á jólum. Reynið nú að gera sem minnst og njóta þess í stað þess, að vera til með ykkar fólki, hvar sem það nú dvelur.

Mér telst til, að nú séu að ganga í garð önnur jólin frá árinu 1978, sem Kvisthyltingar eyða ekki saman, allir með tölu. Tveir þeir eldri dveljast erlendis með litlu fjölskyldunum sínum, en tveir þeir yngri gista æskuheimilið enn á jólum. Svona er gangur lífsins.


23 desember, 2009

Þoddlákur



Allt árið er undirlagt allskyns sérstökum viðburðum, sem hver landshluti, hver fjölskylda eða jafnvel hver einstaklingur framkvæmir eða upplifir með sínum hætti. Það er til dæmis þetta fyrirbæri sem heitir Þorláksmessuskata sem fólk virðist stöðugt vera að missa sig í og sem ég á harla erfitt með að kyngja si svona.
Þannig er, að fD mun hafa langa sögu af aðkomu að skötuneyslu, og þá einvörðungu á þessum eina degi ársins (sennilega vegna þess, að í rauninni er þetta fjarri því að vera eitthvað eftirsóknarvert). Það eru allmörg ár síðan hún og gamli unglingurinn náðu sman með þennan skötuáhuga sinn og síðan það gerðist hefur það verið hlutskipti mitt að taka þátt í dýrkun þessarar undarlegu fisktegundar (ég veit ekki enn, eftir þessa reynslu, hver munurinn er á tindabykkju og skötu og ekki heldur skötuáhugafólkið).
Ég hef fagnað því innra með mér þegar það hefur verið ákveðið að skötusuðan skuli eiga sér stað á heimili þess gamla, frekar en þessu, þar sem ilmurinn (stækjan) hefur verið viðvarandi fram undir áramót.
Mér til ánægju neitaði Hveratúnsmaðurinn að koma í Kvistholt þessu sinni. Böggull fylgdi þó skammrifi: ilmurinn þótti einhverjum ekki með besta móti á hinum staðnum heldur, þegar síðast var soðið þar. Af þeim sökum var stefnt á að sjóða skötufj. utandyra. Flatkökuhellan í Hveratúni fannst og mér var falið að athuga hvort hún virkaði, sem hún og gerði.


Nú, þetta gekk allt eins og að var stefnt og raunar fátt annað um það að segja. Ég og aðrir andskötungar borðuðum saltfisk og dýrindis síld meðan skötufíklar svældu í sig einhverjum ókræsilegasta mat sem um getur. Allir ánægðir.


Til að enginn misskilningur sé um forsendur þess að ég borða ekki skötukvikindið, þá finnst mér rétt að taka það fram, að ég gerði fyrir allmörgum árum, tilraun til að skella þessu í mig, þó ekki væri nema til þess að sanna fyrir mér og þá sérstaklega öðrum, að í mínum huga væri hér hreint ekki um æti að ræða.

Gamli unglingurinn viðurkenndi reyndar fyrir mér, í dag, að honum þætti frekar lítið til um skötu, en setti þetta í sig þar sem það teldist þjóðlegt, sem ég var og er honum algerlega ósammála um. Það er ekkert þjóðlegt við þessa athöfn - eins og ég sé hana. Ég lít á þetta sem einhverja þörf einstaklinga til að vera dálítið karlmannlegir í umhverfi sínu. Ég skil engan veginn hvernig fólk getur t.d. fengið af sér að telja niður í skötuna (bara 3 tímar og 45 mínútur í skötuna!!!). Ég held, að ef þetta er í raum svo óskaplegt lostæti þá eigi að vera hægur vandi að borða þetta á nánast hverjum degi ársins. Hversvegna er það ekki gert?

20 desember, 2009

Tvær sortir (2)

Það kom mér talsvert á óvart, að við það að bæta 'þurrefnunum' í blönduna var hún ekki algerlega þurr, heldur bara nánast. Hún var það meðfærileg enn, að mér tókst að blanda saman við hana súkkulaðibitum í stórum stíl, ásamt muldum hnetum. Þar með var þetta klárt til að skella á plötuna með teskeið og hæfilegu millibili. Eðlilega gerði ég ráð fyrir tilteknu bili á milli kakanna svo þeim gæfist færi á því, við bökunina, að dreifa lítillega úr sér. Þessi aðgerð gekk sérlega vel, eins og við mátti búast. Þegar ég mat það svo að hæfilegur fjöldi af deigkúlum væri kominn á plötuna - eins og sjá má á seinni myndinni frá síðustu færslu - skellti ég plötunni í ofninn, sem ég hafði þá þegar stillt á viðeigandi hitastig. Síðan fylgdist ég náið með því þegar deigkúlutopparnir lækkuðu hratt og dreifðu úr sér. Þessari lækkun lauk ekki fyrr en það var sem ein kaka væri á plötunni og því ljóst, að á næstu plötu yrði ég að stækka svæðið sem hver kaka hefði til útbreiðslu.


Þar kom, ég ég taldi kökurnar (eða kökuna) tilbúnar og tók úr ofninum, skar með hníf á milli þeirra, þar sem ég taldi að samskeytin hefðu verið og leyfði þessu síðan að kólna meðan ég undirbjó næstu plötu til innsetningar - nú með tvöföldu bili á milli deigkúlnanna (svona fer maður að því að læra af reynslunni).
Þó svo kökurnar væru nokkuð óhefðbundnar í útliti, brögðuðust þær með ólíkindum vel. Þvílíkt hnossgæti!


Skammtur nr. 2 í ofninum gaf af sér eðlilegri afurð, en engu síðri á bragðið.
----------------------
Seinni uppskriftin sem varð fyrir valinu bar hið virðulega nafn: Kókostoppar, of var miklu einfaldari í framkvæmd. Enn þurfti á ákvarða hvenær hræriblandan væri 'létt og ljós', en þessu sinni reyndist það talsvert einfaldara.
Þegar þurrefnum hafði verið blandað í, kom í ljós, að blandan var það þunnfljótandi, að ekki virtust líkur á að úr því gætu orðið toppar. Eftir samráð við sérfræðinga, varð úr, að lítilsháttar viðbótarþurrefni var sett í, sem ekki hafði verið getið um í uppskriftinni. Þetta reyndist breyta öllu, og þar með ljóst að hér yrði allt í lagi.


Afraksturinn var náttúrulega ekki amalegur - út úr ofninum komu dýrindis toppar.

Eftir aðgerð þá sem hér um ræðir tel ég mig færan í flestan sjó í þessum efnum, en hef þar að auki sett ákveðið fordæmi fyrir aðra svipaðarar gerðar.

Á aðventunni ákvað ég að baka
eðalkökur.
Útlitið mér ekki þótti saka
ekkert kjökur.
:)


19 desember, 2009

Tvær sortir (1)

Það ætti þeim að vera orðið ljóst sem lesa þessi skrif mín að einhverju marki, að mér er margt til lista lagt. Það er fátt sem leikur ekki í höndum mér.
Í morgun ákvað ég að það væri kominn tími til að ég bakaði smákökur.
Mig grunar nú að ég hafi einhverntíma komið að slíku hér á árum áður, en hreint ekki síðustu ár, og örugglega aldrei án meiriháttar aðkomu fD.

Hvað ætlarðu að baka?
Tvær sortir.
Hvað tegundir?
Ég finn eitthvað.

Með þetta í huga gúglaði ég smákökuuppskriftir og það vantaði nú ekkert á úrvalið sem birtist. Á endanum flutti ég heim einar sex til sjö líklegar og prentaði út, áður en haldið skyldi í Bjarnabúð til að redda því sem á vantaði. Það gekk allt eins og upp var lagt með - heim komið aftur og ekkert annað framundan en að hefjast handa.

Fram kom, að líklegast hefði ég keypt of mikið af hnetum og súkkulaði, en ég lét mér þær athugasemdir í léttu rúmi liggja; taldi að ég myndi þá bara nota meira en uppskriftin gaf til kynna, með enn betri árangri.
Ekki neita ég því að oft hef ég verið öruggari með sjálfan mig, svona hið innra, en við þær aðstæður sem nú voru uppi. Ákvörðun mín snérist um, að aðgerðina skyldi ég framkvæma upp á eigin spýtur frá A-Ö. fD fór að sinna öðrum málum og eftir stóð ég einn í eldhúsinu og bjóst til að hefjast handa.
Ég hafði heyrt að smjörlíki ætti á láta linast við stofuhita áður en það er sett í hrærivél. Ég valdi því líklega uppskrift og skar síðan viðeigandi stóran bita af smjörlíkinu og setti á borðið, svona áður en lengra yrði haldið.
Hér tók við töluvert langur tími þar sem ég velti fyrir mér hverjar tvær uppskriftanna ég ætti að nota, en það kom að því, að ég skellti mér á eina, sem leit mjög vel út og bar nafnið 'Súkkulaðibitakökur'. Það átti hinsvegar að vera aðeins meira smjörlíki í henni en þeirri sem ég hafði skorið smjörlíkið út frá og því fór ég í ísskápinn og skar hæfilega sneið til viðbótar, sem hafði síðan í för með sér, að ég þurfti að bíða nokkuð enn, áður áður en ég gæti farið að blanda.
Meðan smjórlíkið linaðist í stofuhitanum, vigtaði ég og setti í viðeigandi ílát, það annað sem uppskriftin sagði að notað skyldi í kökurnar. Sumt fór í sér skál, þar sem það skyldi hrært saman við á eftir, en annað beint í hrærivélarskálina.

Þegar stofuhitalinað smjörlíkið var tilbúið setti ég það í hrærivélarskálina með því sem fyrir var. Þetta var sérstök tilfinning, sem fól í sér að mér fannst eins og ég væri að leggaj af stað í ferð, þar sem engin leið var til baka. Þegar maður var kominn af stað, þá varð ekki aftur snúið.
'Komi það sem koma vill'.
Það stóð í uppskriftinni, að það ætti að hræra þar til blandið væri það sem kallað var 'ljóst og létt'. Þetta átti, sem sagt að vera endapunkturinn áður en svokölluðum 'þurrefnum' skyldi bætt út í. Það var við þessar aðstæður sem ég braut lítillega odd af oflæti mínu og spurði fD um merkingu hugtaksins 'ljóst og létt'. Þetta vafðist fyrir mér, ekki síst vegna þess, að í uppskriftinni er talsvert mikill púðursykur sem olli því, að blandan var nokkuð dökk og vandséð hvernig hún ætti að geta orðið ljós.

Ég læri hvenær eitthvað telst vera 'ljóst og létt'

Ég lærði það í dag, að 'ljóst og létt' í einni uppskrift er ekki það sama og 'ljóst og létt' í annarri.
Þetta snýst um tilfinningu. Það var hér sem hæfileikar mínir byrjuðu verulega að njóta sín. Þó svo blandan yrði aldrei ljós og aldrei létt, þá varð hún á ákveðnum tímapunkti ljós og létt - þegar manni fannst að hún hlyti að vera orðin það.
Þegar þetta lá fyrir skellti ég þurrefnunum saman við og leist svo á að það gæti orðið strembin blanda, þar sem það sem fyrir var í hrærivélarskálinni (ljóst og létt) var nokkuð þurrt. Hvað myndi gerast þegar ég bætti meira af þurru saman við?

Það mun ég fjalla um innan skamms.

17 desember, 2009

Upplýstur

Ég er ekki forvitinn maður að eðlisfari, en notaði þó tækifærið til að afla mér og öllum hinum líka, fróðleiks þegar Hveratúnssystkinin komu hér saman til nokkurskonar aðventusamkomu fyrir tæpri viku.
Fróðleiksfýsn mín snéri að því hvernig systkinabörn mín hefðust við.
Það hefur nefnilega verið þannig með sum þeirra, að maður veit að þau eru til, og nokkurnveginn hvar þau halda sig, en fátt umfram það.
Þarna náðust, sem sagt fram, töluvert nákvæmar upplýsingar um allt sem er í gangi í þessum nítján manna hópi og sem foreldrarnir vita um, sem reyndist nú í sumum tilfellum nokkuð gloppótt, en í öðrum ofurnákvæmt.

Ég er margs vísari um ýmislegt, eftir þetta kvöld. Aha!


15 desember, 2009

Aðventusveit


Það liggur við að mér finnist að það sé ekki alls kostar rétt, að kynni mín af kreppunni skuli ég helst hafa í gegnum fjölmiðla. Nýbúinn að sjá fjallað um úthlutun jólavöru til þeirra, sem ekki eru fyllilega sjálfbjarga. Í sveitinni virðist mér allt ganga sinn venjubundna veg; helst er það öðruvísi en venja er til, að veðurfar er fjarri því að geta tilheyrt þessum árstíma. Blankalogn og hitinn búin að vera upp undir 10°C dögum saman,
-----------------
Ég get ekki stært mig af því að hafa verið fljótur til að setja upp einhverskonar jólalýsingu utandyra. Fram til þessa hef ég haft mig í það svona undir Þorláksmessu, og þá, eins og fD hefur orðað það svo skemmtilega: "...með fýluna lekandi af sér." - en við þetta kannast ég auðvitað ekki. Ég hef litið á þessa aðgerð sem nauðsynlegan þátt í að fyllast hinum sanna jólaanda:
- klæða mig upp miðað við veður, sem oftast hefur verið heldur rysjótt,
- tína niður seríukassana út hillunum,
- reyna að leysa úr flækjunni, sem á rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar minnar á síðasta ári, að segja sem svo, að það væri allt í lagi að taka þær ekki almennilega saman - vandinn bíði síðari tíma.
- dragnast nokkurn veginn brosandi og hér um bil fullur tilhlökkunar út, til að finna einhvern stað til að hengja seríurnar upp á (þeim hefur reyndar fækkað eftir því sem trén hafa vaxið)
Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega einnar seríunnar, sem var græn ljósaslanga, sem var fín þá (líklega fyrir 6-8 árum), enda ljósaslöngur í tísku. Þessari ljósaslöngu valdi ég veglegan stað: vafði henni utan um ösp, sem stendur á áberadi stað við hlaðið. Slangan hefur verið þarna síðan, en hún lýsti ágætlega fyrstu tvö árin. Helsta breytingin á henni er líklegast sú, að nú er hún öll toguð og teygð og þar með slitin, vegna þess að það er eðli aspa að stækka. Öspin var lifandi s.l. sumar, svo slangan getur ekki hafa kyrkt hana. Ég hef ekki athugað slönguna og ekki reynt að fá á hana ljós undanfarin ár.
- hengja seríurnar með sem minnstri fyrirhöfn, hvar sem enn er krók eða nagla að finna. (fD: "Af hverju seturðu ekki eina þarna?")
- hefja dauðaleit að fjöltengjum og framlengingarsnúrum ásamt plastpokum til að vefja utan um tengingar utandyra.
- stinga öllu í samband í þeirri von að perurnar séu enn í lagi - nú ef ekki, þá skal serían fá að hanga uppi samt.
- koma mér inn í hlýjuna og horfa upp á fD þar sem hún freistar þess að sýna engin svipbrigði. Ég hef sérstaklega tekið eftir því að hún hefur alltaf passað að ég ofmetnaðist ekki af verkinu.
- sjá fyrir mér að þurfa að taka svo allt niður eftir rúma viku aftur.

Svona hefur þetta verið svo lengi sem elstu menn á þessum bæ muna.

En ekki í þetta skiptið.

Nágranna minn dreymdi það í lok nóvember, að ég hygg, að hann sá 50 hvítar álftir á Hvítá. Þar sem ég er einbeittur í trú minni á drauma, sá ég þarna fyrir mér að framundan mætti eiga von á ofankomu í 50 daga. Ég vil halda því fram að þessi draumur, ásamt tilhugsuninni um, að brölta út á Þorláksmessu í kafaldsbyl, hafi orðið til þess að ég ákvað þann 1. desember, í miklu blíðviðri, að skella seríunum bara upp.
Og það gekk eftir. Síðan hafa logað aðventu- og jólaljós í Kvistholti.

Þetta hefur ekki farið framhjá nágrönnunum, ekki síst þeim, sem ofar búa í brekkunni, en bóndinn þar hefur verið mér nokkuð samstiga í upphengingu samskonar jólaskrauts.
"Palli er búinn að setja upp seríurnar. Verður þú ekki að fara að taka þig saman í andlitinu?" Ég ímynda mér að einhvernveginn þannig hafi fK orðað það og það var einhvern veginn þannig sem þau hjón túlkuðu það fyrir mér. Bóndinn mun hafa borið fram þá skýringu á athæfi mínu, að það væri vegna þess að ég væri orðinn afi.

Ég verð reyndar að játa, að tilkoma jóla er með nokkuð öðrum blæ hjá mér þetta árið: ég á ekki eftir að hengja upp jólaseríurnar.
Auðvitað blandast þar einnig inn í umtalsverð tilhlökkun vegna heimsóknar Berínarungfrúrinnar eftir áramótin, og fæðing annars afabarnsins á sama tíma.

Þau eru fín þessi ljós mín, hvað sem öðru líður.

Myndirnar eru frá tíma grænu slöngunnar og hvítra jóla.

09 desember, 2009

MATRIARCHY - strákakreppa


Af gefnu tilefni kom þetta fyrirbæri enn upp í hugann í dag. Ég hef hugsað mér að fjalla meira um það þegar tækifæri gefst. Ég er viss um að lesendur mínir munu minna mig á það (láttu þig dreyma!)
Þessa stundina stendur yfir ákvörðun fD um undirbúning sendinga vítt og breitt um álfuna okkar og því er ekki tími til að fjalla um málið á þessari stundu.

Þangað til vísa ég áhugasömum hingað og hingað, t.d. - ekki endilega svo að ég sé sammála því sem þarna er að finna.

08 desember, 2009

Sama hvar gott gerist

Sönglausri aðventu var reddað þessu sinni, með því að við tókum okkur til og sungum tvenna tónleika í Kristskirkju í Landakoti á sunnudaginn var. Þetta gerðum við ásamt stórum hluta fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum, í samvinnu við fyrrverandi kantor í Skálholti og nýja kórinn hans þarna í höfuðborginni. Diddú og Egill Ólafsson sáu um einsöng og Hjörleifur Valsson og hans fólk um undirleik.
Það er skemmst frá því að segja, að húsfyllir var á báðum tónleikunum (það má víst ekki segja 'báðum' um þetta orð vegna þess að tónleikar eru ekki til í eintölu - ég nenni bara ekki að pæla í hvernig þetta er best orðað) og ég verð að halda því fram, að þetta hafi allt tekist framar vonum. Auðvitað alltaf hnökrar, en þannig er nú bara lífið í þessum bransa. Tilganginum var náð og nú horfir maður til jóla, stútfullur af viðeigandi skapi.

Það var talsvert um það rætt hvaða áhrif umfjöllun um ritstjórann á Mbl gæti haft á aðsókn. Það runnu tvær grímur á ýmsa þegar sást til KG fyrrverandi framkvæmdastjóra tiltekins stjórnmálaflokks, smeygja sér að miðasölunni og leggja út fyrir miða. Tilhugsunin um veru hans og sálufélaga hans á tónleikunum vakti blendnar tilfinningar í brjósti, en þær hurfu þegar lengra var hugsað og komist var að þeirri, að ef til vill væri rétt að horfa framhjá hugsjónum og dægurþrasi og fagna þess í stað öllum krónum í kassann. Krónurnar eru allar eins.

Ég gat um viðtal við sjónvarpsstöð síðast þegar ég átti erindi hér inn. Mér varð að ósk minni í því efni. Nálgun sjónvarpsstöðvarinnar finnst mér hinsvegar hafa verið stórfurðuleg, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Aðventutónleikar næsta árs eru þegar í bígerð í hugum þeirra sem eru áhugasamastir. Nú er stefnt á dómkirkjuna í Biskupstungum, á þeirri forsendu að þar sé um að ræða kirkju allra landsmanna.

Verður gaman að sjá hvernig það mál þróast.

05 desember, 2009

Alltaf skyldi maður hugsa framtíðina í nútíðinni

Það hef ég oft sagt nemendum mínum, að það er aldrei hægt að losna við söguna. Það sem þú gerir í dag, mun með einhverjum hætti hafa áhrif á framtíðina.
Því nefni ég þetta hér, að á einum sólarhring hef hef ég fengið staðfestingu þess á sjálfum mér.

Fyrra tilvikið átti sér stað í gærkvöld, á ágætu jólahlaðborði starfsfólks á mínum vinnustað.
Þar kvaddi sér hljóðs fyrrverandi húsbóndi á heimavist skólans þar sem ég dvaldi í 4 ár forðum. Hann fjallaði um ýmis samskipti sín við nemendur á þeim árum og gerði nokkuð úr því hve erfiðir þeir hefðu verið viðfangs. Ég veit það nú, að ég hefði ekki viljað að staða mála nú væri sú sama og var þá.
Þar kom í frásögn þessa fyrrverandi húsbónda á heimvist, að hann sagði frá því, að hann og skólameistari hefðu orðið ásáttir um það, á ákveðnum tímapunkti, að húsbóndinn skyldi skrifa hjá sér, í sérstaka, til þess ætlaða bók, allt það sem gerðist á heimavistinni og sem vék frá þolanlegri hegðun nemenda. Bókin var gerð klár og húsbóndi hélt út á vist á nemendaveiðar. Í anddyrinu mætti hann mér, einhverjum mesta sakleysingja sem þarna hefur stundað nám, með nýkeypt, óopnað glerílát, á leið inn á herbergi mitt til að koma því þar fyrir á öruggum stað. Þetta gerði húsbóndi upptækt, en sá aumur á mér og leyfði mér að njóta lítils brots af því sem ílátið geymdi. Afganginum segist hann hafa hellt í vaskinn, sem að mínu mati er ekki allskostar rétt, þar sem ég tel mig hafa nálgast téð ílát þegar skóla lauk að vori.
Þetta atvik skráði húsbóndi í bókina sína, en ekkert eftir það af athöfnum nemenda. En bókina geymdi hann með einni notaðri blaðsíðu. Af þessari blaðsíðu frétti ég síðan mörgum árum síðar, þegar sonur húsbóndans var nemandi minn, og hóf að tjá sig um innihald blaðsíðunnar.

Seinna tilvikið átti sér stað í dag, þegar ég, ásamt virðulegri frú undan Hlíðum lentum í fréttaviðtali sem reyndist, okkur báðum til mikillara undrunar, snúast um hæfileika ritstjóra Morgunblaðsins í sálmagerð.
Ég bíð nú og vona að viðtalið það verði ekki birt, þar eð það var frekar vandræðalegt.

Ef til vill tjái ég mig meira um þetta tilvik síðar.

----------

Þennan daginn eru hugir okkar Kvisthyltinga í höfuðborg Þýskalands, þar sem stúlka nokkur, okkur tengd, fagnar eins árs afmæli sínu.

02 desember, 2009

Klappað fyrir vírusum

Ég er hér með að lýsa ánægju minni með ágæta tónleika sönghópsins Veiranna sem vour í dómkirkjunni í kvöld. Öll söngskráin var flutt acappella (án undirleiks) og hljómaði hreint ágætlega.
Laugvetningarnir okkar, þau Erla og Pálmi styrkja þarna altinn og bassann, pottþéttt að vanda.

Það skemmdi nú ekki fyrir, að á milli laga fengu tónleikagestir (eða fengu ekki en gerðu samt) að klappa átölulaust. Það munar miklu að fá útrás og senda skilaboð til flytjendanna og sjá þá brosa af lítillæti. Það munar miklu þegar maður sér andlit tónleikagesta, sem brosa á milli laga, um leið og þeir slá saman lófunum sem þakklætisvotti.
Hvernig getur sá sem öllu ræður, haft eitthvað á móti því?

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...