28 febrúar, 2009

Öðruvísi

Mannskepnan aðlagast umhverfinu eða menningunni sem hún lifir og hrærist í og eftir því sem hún staldrar við lengur nálgast hún það æ meir að verða hluti af umhverfinu. Hápunkti nær manneskja síðan með því að verða umhverfið sjálft. 
Manni verður þetta auðvitað fullljóst við að heimsækja aðrar þjóðir og uppgötvar hvernig þær haga lífi sínu að mörgu leyti með öðrum hætti en við. Það getur meira að sesgja gengið svo langt að maður áttar sig ekki á hvernig húsbúnaður, eisn og bara klósettskálar virka.

Það þarf ekki að fara til útlanda til að upplifa menningarmun. Hann er fyrir hendi, jafnvel milli tveggja nágranna, sem hafa búið hlið við hlið árum saman.

Hér kann einhver að velta fyrir sér hvert í ósköpunum ég er að fara með þessu. Það skal nú skýrt.
Ég tók þátt í starfi Skálholtskórsins, sáluga nánast svo telja megi í áratugum. Ég lít svo á, að þar sem þátttaka mín náði yfir svo langt tímabil, þá hafi ég í það minnsta haft áhrif á þá menningu sem þar þróaðist. Ég vil ekki ganga svo langt að halda því fram, að ég hafi beinlínis verið menningin, þó ég gæti það alveg ef ég væri þannig innréttaður. Í öllu falli hrærðist ég þarna í umhverfi sem ég þekkti orðið vel og sem mér leið bara nokkuð vel í.

Nú er enginn Skálholtskór lengur, en það er önnur umræða.
Í sama sveitarfélagi starfar annar kór af svipuðum toga og Skálholtskórinn. Þetta er Söngkór Miðdalskirkju. Ég hef líklega þrisvar áður kíkt í heimsókn til þessa kórs við sérstök tækifæri og í dag er framundan fjórða skiptið. 

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom til æfinga hjá þessum kór, var að þar var menningin önnur. Hvorki betri né verri, bara önnur. Hér var kannski um að ræða annarskonar samskipti milli radda, eða innan hverrar raddar fyrir sig. Þeirra menning hefur þróast í gegnum áratugi, alveg eins og menning Skálholtskórsins. 
Lítið dæmi um þennan menningarmun er, að Laugdælir hafa kaffi og með því í æfingahléum. Í gærkvöld voru t.d. 4 sortir.
Allt er þetta sjálfsagt hið ágætasta mál.

Kórar tveir starfa með konum
og köllum.
Þeir djamma með dætrum og sonum
og öllum.

- ég veit, ég veit.

27 febrúar, 2009

Leiðarlok Tungnamanns

Maður er alltaf minntur á það við og við, að leiðin liggur hinn sama veg hjá okkur öllum. Æviköflunum fjölgar, eitt tekur við af öðru og við vitum það eitt fyrir víst að það kemur að því fyrr eða síðar, að dagar okkar verða ekki taldir frekar. 
Þetta er ekki eitthvað sem menn velta endilega mikið fyrir sér í önn dagsins og ekki eyða menn tímanum mikið í að hlakka til eða kvíða. Allt hefur sinn gang óháð öllum pælingum um spurningar sem byrja á hvenær eða hversvegna.

Einn þeirra einstaklinga sem hafa verið mér samtíða hér í sveit svo lengi sem ég man eftir mér og sem hefur verið áberandi í lífi okkar Tungnamanna áratugum saman, lést s.l. miðvikudag, 25. febrúar.
Arnór Karlsson, sem áður fyrr var alltaf kallaður Arnór á Bóli, en síðar Arnór í Arnarholti var mikill félagsmálamaður og ég held hann hafi komið að flestu því, félagslegs eðlis, sem fólk hefur ástundað allt frá því hann fyrst hafði skyn til eða tækifæri, fram á síðasta dag. Hann var einn af þessum Erkitungnamönnum; þeim sem maður hlýtur alltaf að tengja við Biskupstungur. Hann hefur líklega haft mikil áhrif á þá menningu sem hér hefur þróast, og sem aðgreinir Tungnamenn frá fólki í nágrannasveitum. Þegar ég tala um menningu þá á ég við eitthvað það sem maður sér og skynjar, en kann ekki að orða.

Ég veit að Arnór var kennari við Reykholtsskóla þegar ég var þar nemandi fyrir ekki svo mörgum árum, eða þannig. Hann var líka kennari þar á sama tíma og ég fyrir enn færri árum. 
Það var á þeim tíma sem Arnór átti stutt samtal við nýjan kennara og hafði hug á að kynna sér hverra manna hún væri, eins og hans var von og vísa.  Þetta var samtalið:
   Arnór: Og hvaðan kemur þú?
   Kennari: Ja, ég kem nú úr Reykjavík.
   Arnór: Nú, jæja. Ættlaus aumingi.
   Samtalið varð ekki lengra.

Arnór stundaði ýmiskonar fræðastörf, var sauðfjárbóndi og sat í allskyns stjórnum og nefndum, m.a. lengi í hreppsnefnd. Eflaust má telja lengi ef tiltaka á allt sem hann hefur lagt lið.

Ætli megi ekki segja um þennan ágæta mann, að hann hafi haldið í heiðri þeirri hugsun, að það er fortíðin sem við hljótum alltaf að byggja á. Hann bar með sér keim af því sem liðið er um leið og hann var ávallt tilbúinn að tileinka sér nýungar og prófa nýja hluti.

Hvíli Arnór í friði.


23 febrúar, 2009

Kemur hreint ekki á óvart

Það eru þau öfl í þessu ólíkindalandi sem ekki þola ljós dagsins. Þau er að finna víða, ekki síst í þeim kimum sem kallast Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. 
Það er ekki nóg að hvítþvo andlitið með sjónvarpsstjörnu og skilja allt sem undir er eftir með gamla skítnum.
Mér segir svo hugur um, að nú sé komið á samband milli íhalds og framsóknar  - sem felur í sér loforð um samvinnu og helmingaskipti á næsta kjörtímabili. Ég þykist viss um að framsóknarmenn séu  í þessu samkomulagi búnir að lofa að tryggja að ekki verði gerðar breytingar á lögum um Seðlabankann.

Til að þetta sé ekki of áberandi gagnvart stjórnarflokkunum ákváðu framsóknarfélagarnir að greiða atkvæði með og á móti og sjónvarpsandlitið slær svo úr og í. Gamla framsókn enn og aftur. 
Verður nokkuð nýtt Ísland??

Þingmenn eru furðulostnir vegna andstöðu Höskuldar Þórhallssonar þingmanns við að afgreiða frumvarp ríkisstjórnarinnar um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd. Hermt er að Höskuldur sé með þessu í andstöðu við þingflokk Framsóknar en varaformaðurinn, Birkir Jón Jónsson, greiddi atkvæði með stjórninni. Sjálfur segist Höskuldur njóta stuðnings Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í afstöðunni. Innan stjórnarliðsins er þannig litið á að þingmaðurinn sé með þessu að hlaupa í vörn fyrir Davíð af dularfullum ástæðum. 
Einhverjir telja að glitti í Finn Ingólfsson, einn helsta hugmyndafræðing Framsóknar til fjölmargra ára. - DV

Hvað var ég búinn að segja?

22 febrúar, 2009

VOCES KREPPORUM


Sumt segir maður á vettvangi sem þessum, en annað ekki. 
Sumar myndir er rétt að birta, en aðrar ekki. 
Sum tiltæki eru við hæfi, en önnur ekki.
Þegar ég velti fyrir mér hvernig við hæfi er að fjalla um ágætis helgarútilegu, sem lauk síðari hluta dags í gær, koma þessi atriði sífellt til athugunar.

Eins og fram hefur komið áður hér, stendur fyrir dyrum hjá hópi fólks, sem undanfarin mismunandi mörg ár, hefur átt það sameiginlegt að syngja í kór þeim sem kallaðist Skálholtskórinn, að leggja land undir fót í byrjun júní og fljúga sem leið liggur til höfuðborgar Þýskalands. Til þess að svo megi verða, mun nauðsynlegt að hafa eitthvað í farteskinu sem líkja má við það þegar gestir koma í heimsókn og bera með sér gjöf til gestgjafanna.

Ekki mun ég nota mikið fleiri orð um þessa fyrirhuguðu heimsókn hér, heldur einbeita mér að því að færa í orð nokkurskonar frásögn af helgarsamkomu þess hóps sem hér er um að ræða. Henni skipti ég í 3 kafla: Umgjörðina, félagslegt samneyti og tónlistariðkun.

1. UMGJÖRÐIN
Nesbúð á Nesjavöllum var staðurinn þar sem fólk renndi í hlað þegar leið að kvöldi föstudags. Þá komu flestir, en aðrir ekki. Hér er um að ræða sérlega hentugan stað til að sinna starfsemi, sem felur bæði í sér upplyftingu andans og útrás fyrir félagslega samfagnaðarþörf. 
Ég kom viðeigandi farangri fyrir í úthutuðu herbergi, fór síðan fram á ganginn og lokaði herbergisdyrunum. Við smellinn sem heyrist þegar læstar dyr lokast, uppgötvaði ég að lykillinn sem mér hafði verið trúað fyrir, lá fyrir innan. Sú atburðarás sem fór þá í gang er of löng fyrir þennan pistil, en eftir leit starfsmanna að varalykli, um allt Nesjavallasvæðið í upp undir klukkutíma, lauk þeirri kreppu sem mistökin höfðu haft í för með sér.

2. FÉLAGSLEGT SAMNEYTI
Kannski er þetta kaflaheiti fullhátíðlegt fyrir samveruna sem þarna átti sér stað. Að lokinni ástundun tónlistar langt fram eftir föstudagskvöldi, upphófst einhverskonar leikur þar sem þátttakendur sátu í hring með gula miða límda á enni sín. Ekki meira um það, en þessi gleði entist nokkuð lengi og þegar fór að sjást fyrir endann á henni var farið að bregða fyrir fólki sem var fáklæddara en gengur og gerist - fáklæddara en siðasamt getur talist svona almennt séð, en auðvitað var rökrétt skýring á þessu, eins og öllu sem fram fór á þessu kvöldi. Við Nesbúð eru nefnilega hinir ágætustu heitu pottar utandyra og þangað lá nú leið þeirra sem kusu að verða sér úti um hlýju í kroppinn til að öðlast jafnvægi í hita milli hans og þess andans hita og hlýju sem þeir höfðu öðlast með tónlistariðkuninni fyrr um kvöldið. 
Það sem þessi pottaferð fól í sér á ekki, að mínu mati, erindi inn í þessi skrif, samanber það sem lesa má í efstu þrem setningum þessa pistils. Þá verður ekki heldur fjallað um afleiðingar þessarar pottstundar, hvorki þær sem upplifa mátti í fasi fólks þegar dagur reis, né heldur þær sem nú má finna í formi rafræns útfrymis á veraldarvefnum. Allt átti sinn stað og tíma eins og gengur og gerist.
Svo því sé haldið til haga þá tók ég ekki beinan þátt í þessum hluta helgardvalarinnar utan að kíkja á pottverja við og við.

3. TÓNLISTARIÐKUN
Fyrrverandi stjórnandi hins fyrrverandi Skálholtskórs, Hilmar Örn, vinnur með hópnum að því að undirbúa Berlínarförina. 
Það þarf varla að taka það fram að tenórinn glansaði auðvitað allan tímann.

Í Berlín verður flutt Brynjólfsmessa eftir Gunnar Þórðarson og Berliner messe eftir Arvo Pärt. Brynjólfsmessu þekkjum við vel, en hin messan, sem er dálítið sérstök nútímamessa, þarf dálítinn tíma í viðbót til að meltast. Þau orð eins félagans að þar væri um að ræða: "Langt og leiðinlegt lag", munu eflaust taka á sig aðra mynd áður en langt um líður.
Messurnar tvær munum við flytja með 110 manna kór frá Berlín á tónleikum laugardaginn 6. júní. 
Við verðum einnig með eigin tónleika þar sem verða líklegast aðallega veraldlegir, með íslenskri tónlist, en hvað veit ég svo sem um það - maður veit aldrei þegar Hilmar er annars vegar. Við höfum góða þjálfun í að takast við það sem að höndum ber.

4. SAMANTEKT
Vel heppnuð og vinnuþrungin helgi með góðu fólki.








Ekkert verður ennþá, bara
uppgefið um nafn á kór.
Vil ég hérna varla svara,
en Voces Nostrae virkar stór




17 febrúar, 2009

Tímamótaheimsókn


Þessa dagana heiðrar ungfrú Júlía Freydís, afa sinn og ömmu, með nærveru sinni. Henni til fulltingis eru foreldrarnir, eins og nærri má geta.

Ekki þarf ég að fjölyrða um alla þá kosti sem þessi unga snót hefur til að bera, en návist hennar er hreint ekki þess eðlis að ástæða sé til að kvarta í neinu. 
Gamlir taktar láta á sér kræla og stutt virðist síðan síðast. Munurinn augljóslega sá, að nú er þeim sem ábyrgðina ber, færður böggullinn þegar staða mála er orðin þannig, að flokka megi sem þeirra mál fremur en mitt.
Þetta er allt hið ljúfasta mál, enda ungfrúin að mestu leyti sérlega ánægð með afa sinn, eins og reyndar er ekki óeðlilegt.

Þar birtist  oss sakleysis brosið
sem bræða nær hjarta,
sem kannski var ferlega frosið,
- en finnur von bjarta



16 febrúar, 2009

Dýrmætur farmur


Nú er lokið töluvert skemmtilegri helgi, sem fólst í ferð okkar, ömmunnar og afans ásamt yngsta syninum, norður í Skagafjörð. Einhverjir kunna að staldra við hér og velta fyrir sér hversvegna ekki eru fleiri nefndir til sögu. Svarið við því kemur næst.
Í þessari ferð var okkur trúað fyrir því að flytja með okkur hvorki meira né minna en væntanlega skírnarvotta, þær Bergþóru Kristínu og Guðnýju Rut. Það var af þeim sökum sem ég var ákveðinn í því í upphafi ferðar að stuðla að því að ferðin yrði þeim sem þægilegust og óttaminnst, svo þær gætu sinnt hlutverki sínu af alúð og elskusemi.
Ferðalagið norður tókst eins og best varð á kosið og var það mér mikill léttir að sjá að þær stöllur voru í góðu jafnvægi þegar áfangastað var náð.


Skömmu eftir norðurkomuna lá leiðin frá Neðra Ási í Hóladómkirkju þar sem ungfrú Júlía Freydís gekkst undir skírn og skírnarvottarnir sinntu hlutverki sínu af festu. Atöfnin sjálf var sérlega heimilisleg og afslöppuð, enda lagði skírnarþeginn sig fram um að vera bara þó nokkuð meðfærileg.

Þessu næst var gestum boðið til mikillar dýrindis veislu að Neðra Ási, en þar býr hitt afa- og ömmuparið.

Allt gekk þetta eins og best verður á kosið og eyddum við þarna nóttinni við ágætis atlæti.

Að morgni kom að því að tygja sig til heimferðar og var veður hið besta. Enn lá á mér sú ábyrgð að flytja skírnarvottana heilu og höldnu suður á land, því ekki er síður mikilvægt að tryggja framtíðar velferð barnsins með skírnarvottana í áframhaldandi góðu standi.

Fyrri hluti heimferðarinnar var með þeim hætti að ég var hreint ekki viss um að okkur tækist að komast ósködduð burtu ú Skagafirðinum. Svo óforsjáll hafði ég verið s.l. haust, að setja ekki nagladekk undir bifreiðina, sem gerði aksturinn á gljáandi vegakerfinu í Skagafirði að hinni mestu glæfraför. Enga stjórn hafði ég á ökutækinu og oftar en ekki var staðan sú, að ekkert blasti við nema að skíða út af veginum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þá varð yfirleitt einmana steinnybba til þess að bjarga okkur ferðalöngunum og þar með skírnarvottunum. Spurning hvort fleiri en ég hafi tekið að sér að koma þeim heilum til síns heima.

Það var aðdáunarvert hvað sumir farþeganna sýndu af sér mikla stillingu og yfirvegum í þessari glæfraför og stuðluðu þar með einnig að því að allt fór vel að lokum.

Skírn ungfrú Júlíu Freydísar verður eftirminnilegur atburður í lífi fjölskyldnanna sem að standa.

Enn og aftur
er engin vísa
Kemur kraftur
og kreppur rísa. :)


13 febrúar, 2009

Útför kórs

Ýmislegt er rætt á æskuheimilinu og lætur gamli unglingurinn þar ekki sitt eftir liggja fremur en fyrri daginn. Það sem hér kemur til skoðunar er fyrirhuguð Berlínarferð hópsins sem myndaði Skálholtskórinn, sem eins og fólk veit væntanlega, er starfar ekki lengur, af þekktum ástæðum.

Væntanlega mun ég fjalla frekar um þau mál öll síðar, þegar ég tel vera koma hæfilega fjarlægð á málið.

Niðurstaðan af ofangreindum samræðum var:
"Svo útför Skálholtskórsins er þá framundan." 
Yfirlýsingunni fylgdi gamalkunnugt glott.

Vegna tímaskorts 
verður þess ekki freistað nú, 
frekar en síðast, 
að klambra saman einhverju hnoði.

11 febrúar, 2009

Erfitt? - Loka það úti!


Ég starfa við það sem ég starfa við. 
Þetta starf felur í sér talsverð samskipti við fólk á aldrinum 16 ára til tvítugs. Ágætis fólk, kurteist og vel meinandi.
Á vinnustaðnum kemur það fyrir, vegna þess að það telst vera ein þeirra hefða sem þar lifa innandyra, að það er ákveðið að fara í kaffitíma, sem er tími þar sem hópurinn sest saman og spjallar yfir kaffibolla (reyndar er ég þá sá eini sem drekk kaffi). Þetta spjall á að vera um heima og geima. 
Ég er nú búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að ég sé orðinn of gamall fyrir þau málefni sem efst eru á baugi hjá unga fólkinu - eða þá eitthvað annað er ekki eins og það á að vera, að mínu mati.

Ég hef áður sett fram þær skoðanir, að sú kynslóð sem ég er að fást við í vinnunni, ætti að kallast krúttkynslóðin. Ég er að hugsa um að draga þetta til baka, að hluta til, þar sem mér finnst þetta hugtak: 'krútt', ekki ná að lýsa þessu fyrirbæri nægilega nákvæmlega.
Ég hef þess í stað ákveðið að útbúa nýtt hugtak, í ljósi kaffitíma sem ég átti þátt í fyrir skömmu. (Ef svo skyldi nú vera, að einhver, sem telur sig hafa verið viðstaddan í þessum tíma og sem jafnframt les þetta, hefur eitthvað við það að athuga þá neita ég því alfarið hér og nú, að þessi kaffitími hafi nokkurntíma átt sér stað). 

Hvort sem þessi stund átti sér stað eða ekki, þá varð hún til þess, að ég fór að velta fyrir mér hvað væri í gangi hjá þessu fólki, sem nú er á aldrinum 18-20. Fljótlega eftir að umræddur tími hófst, hófust umræður um "heima og geima'. Umræðuefnið, sem mér tókst ekki að leiða í aðrar áttir, var heimur sem ekki er til. Það var fjallað ítarlega um þann heim sem birtist á hvíta tjaldinu eða sjónvarps- og/eða tölvuskjánum; alls ekki þann hluta sem snýr að því sem þessi þjóð er að upplifa þessa mánuðina. 'Fantasían' var allsráðandi og það varð ekki misskilið, að þetta var sá heimur sem virtist vera mikilvægastur var í hugum þessa unga fólks. 
Þessi tími átti sér stað (eða ekki) daginn eftir að seðlabankastjóri skrifaði forsætisráðherra bréf, þar sem hann hafnaði tilmælum um að láta af störfum.
Þegar á leið og umræðan um Star Wars-kallana og búningana, og frammistöðu leikaranna í einhverri kvikmynd, eða hvernig einhver hafði fílað einhvern tiltekinn þátt, ákvað ég að reyna að láta til skarar skríða og spurði yfir hópinn: "Og hvað segiði svo um þjóðmálin?"

Það varð þögn stutta stund, en síðan upphófst mjög einkennileg umræða (að mínu mati), sem var öll í skeytastíl, þar sem viðstaddir nánast hrópuðu sérlega niðrandi ummæli um mótmælendur sem höfðu tekið þátt í ofbeldisfullum mótmælum fyrir næstum þrem vikum. Lengra náði þetta ekki.
- Djöfulsins fífl, - og allt það.- 'Hálfvitar'.

Niðurstaða mín eftir þetta er eftirfarandi:
Ástandið á Íslandi er erfitt; erfiðara en svo að þessi kynslóð treysti sér til að fjalla um hana með yfirveguðum hætti. Þetta fólk var 8-10 ára þegar bankarnir voru einkavæddir og dansinn hófst, þegar bólan tók að vaxa. Eins og allir vita gekk þessari þjóð flest í haginn á þeim tíma. Enginn var atvinnulaus, nánast allir höfðu allt til alls. Eitt mesta góðæristímabil Íslandssögunnar gekk yfir. 

Svo sprakk bólan, eins og öllum er ljóst, þessu fólki líka.
Fólki, sem veit ekki hvað það er að þurfa að spá í hvort maður á nóg til að framfleyta sér og sínum, hlýtur að finnast þessi hugsun óumræðilega erfið og flýr því inn í heim fantasíunnar í stað þess að takast á við eitthvað svona erfitt.

Hér er fólk sem blés út með bankabólunni og er nú að uppgötva, að sá heimur er farinn og enginn veit hvað tekur við. Ég tel að það geti verið mikilvægt að veita þessu unga fólki einhverskonar áfallahjálp; að hjálpa því að sætta sig við raunveruleikann eins og hann blasir við og að kenna því nægjusemi og að takast á við nýjan heim - nýjan veruleika.

Ég kalla þessa kynslóð hér með, BÓLUKYNSLÓÐINA. 


Ég hef ákveðið, að freista þess ekki
að búa til misgóðan kveðskap
í tengslum við svo óumræðilega
umhugsunarvert málefni.

07 febrúar, 2009

Skyldi þetta vera ástæðan?




Ekki veit ég.

Vírar og vefir


Það er hægara sagt en gert að ætla sér að sópa burt vef, sem búið er að spinna s.l. 20 ár eða svo. Það kvikindi sem gat dundað sér við spunann óáreitt, er búið að byggja inn í vefinn allskyns skúmaskot sem erfitt verður að komast að. Það er ljóst að það mun taka allmörg ár að hreinsa þennan valdavef burt svo vel sé og því miður held ég að fyrir þann tíma verði búið að sannfæra okkur aftur um að án kvikindisins getum við ekki þrifist á þessu landi.
Það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja á þessum laugardegi, en fingurnir taka af mér völdin. Von um breytta tíma styrkist lítið og það virðist ljóst að ekki verði gefist upp baráttulaust þrátt fyrir að buxurnar séu á hælunum. Úr ræðustóli þjóðþingsins og á síðum dagblaða og vefmiðla spretta þeir nú fram hver á fætur öðrum, blámennirnir, og hrópa um einelti, valdníðslu og illmennsku. Ekki er þar fjallað mörgum orðum um söguna af eigin landráðum, söguna af spillingunni sem gróf um sig eins og krabbamein, söguna um frjálshyggjubullið, sem á endanum komu heilli þjóð í þrot.

Nú tek ég fram fyrir hendurnar á fingrunum og læt staðar numið um þetta málefni. Það er hægt að klæða allt í þann orðabúning sem hentar málstað manns hverju sinni, eins og ég var að gera hér. Hver maður sér atburðina sem nú eiga sér stað með sínum augum og einnig atburði fortíðar. Það er síðan okkar, sem kjósum að fylgjast með á kantinum, að vega og meta.


Ég tel að ég sé nokkuð reyndur í því að hengja upp ljós innanhúss og utan (þegar samkomulag hefur náðst um hvernig ljós skal keypt). Hingað til hefur þetta gengið nokkuð áfallalaust fyrir sig, en nú hefur það gerst, að ég stend á gati. Ástæða þess er, að þegar ég tók mig til (það gerist einstaka sinnum) og hugðist tengja mikla lýsingu í Seðlabankanum (í viðbót við þá sem þegar er komin), að í dósinni, sem rafmagnsvírarnir eru búnir að bíða áratugum saman, voru 4 vírar í stað 3ja , eins og venjan er.
Ég beini því hér með til kunnáttufólks, að það leiðbeini um hverja þrjá hinna fjögurra víra ég á að velja. Mér líst best á þennan rauða sem 'lifandi' vírinn, þann brúna sem 'hlutlausa' og síðan auðvitað þann gulgræna sem 'jörð'. Þessi blái er einhvernveginn ekki inni þessa dagana.

Með vírum er vefurinn spunninn
ég verð víst að trúa því.
Nú er upp náðarstund runninn
með naglbítnum enn á ný.

05 febrúar, 2009

Brosað í uppsveitum

Sjaldan held ég að mér hafi þótt verðlaunaveiting betur verðskulduð en sú, að sæma þá læknana og félagana á Heilsugæslustöðinni í Laugarási, Gylfa Haraldsson og Pétur Skarphéðinsson, Uppsveitabrosinu svokallaða.
Þessir herramenn hafa starfað hér síðan einhverntíma að síðustu áratugum síðustu aldar og hefur tekist að ávinna sér óskorað traust þeirra sem hafa þurft á þjónustu þeirra að halda gegnum árin. Þó þeim hafi tekist að vinna saman svo lengi sem raun ber vitni, eru þeir afskaplega ólíkir, á sama tíma og þeir eru með einhverju móti mjög líkir. 
Það er oft svo með sjúklinga að þeir vilja hafa 'sinn' lækni, en mér hefur ekki fundist það vera vandamálið hér. 

Kæruleysisleg glettni Péturs, sem er oft dálítið kaldranaleg, jafnvel svo jaðrar við kaldhæðni eða hreint háð, en samt hlýleg, skapar fljótt afslappað andrúmsloft og auðveldar þannig samkiptin við sjúklinginn. Þegar fólk veit að sjúklingur er að fara til Péturs í fyrsta skipti, er hann oftar en ekki undirbúinn fyrir móttökurnar svo þær misskiljist ekki. Þegar kemur að fagmennskunni, tekur öruggur og yfirvegaður læknirinn við. 

Nálgun Gylfa að sjúklingum er með töluvert öðrum hætti, en engu síður árangursríkum. Rólyndið, alvarlegt fasið og yfirvegunin veitir öryggi frá fyrstu stundu, en undir ólmast hinn tamdi grallari, sem oft fær að njóta sín við önnur tækifæri. 

Það eru margir sem brosa í uppsveitunum þegar þeim verður hugsað til félaganna. Það er brosað vegna þess að fólkið veit hve verðmætt það er, að svona læknar eru á svæðinu.

Það er eins með Gylfa og Pétur, eða Pétur og Gylfa, og aðra menn, að þeir eldast. Það er eiginlega aðal áhyggjuefnið í sambandi við þá.

Uppsveitabrosið eiga þeir skilið.

Þó að heimur af hörmungum skylfi
haggast myndi ei Gylfi.

Hann er sjálfsagður sumar og vetur
sóttvarnalæknirinn Pétur.  


uss, uss - bara til að segja eitthvað.




 

04 febrúar, 2009

Uppheimalíf á flæðiskeri?


Með hverjum deginum sem líður birtist landslýð meira af uppheimum (sem ég nota hér sem andstæðu uð undirheimana, þar sem ótrúlegustu glæpir þrífast og eru huldir miðheimi okkar, þessa venjega fólks). Uppheimar eru engu síður huldir okkur en undirheimarnir. Þar virðist eiga sér stað ýmislegt það, sem engu okkar var nokkurntíma ætlað að komast að. Við áttum hinsvegar alltaf, og eigum væntanlega áfram að standa straum af kostnaði við þá velsæld sem þar hefur ríkt. Í þeim heimum gilda önnur lögmál, svakalegri og umfangsmeiri en nokkurntíma undirheimarnir geta boðið upp á. Við munum væntanlega fá meiri innsýn í þessa mögnuðu veröld á næstu mánuðum og árum, en það fullyrði ég, að ekki munum fá allt að vita og engan vegin mun okkur hlotnast hlutdeild í þeirri veröld.

Það blasir við að einhvernveginn mun verða reynt að toga í þá spotta sem duga til, til að fjarlægja tappana úr botni uppheima til að freista þess að fá nasasjón af því sem þar er og hefur verið að ganga á. Þegar hákarlarnir í uppheimum fara að sogast í gegnum götin, reikna ég alveg eins með að fallið verið svo hátt að þeir eigi einungis stutta viðdvöl í miðheimum áður en þeir falla, nánast viðstöðulaust niður í undirheimana.

Við höfum myndað þær stoðir í barnaskap okkar, sem hafa haldið upp skrímslunum sem nú eru að byrja að æmta. Við verðum bara að vona að þau kremji okkur ekki þegar þau fara að hrynja niður úr hásölunum.

Þetta tel ég hafi verið nægilega skýra mynd af því sem ég er að tala um og læt því staðar numið.


Í uppheimum er ekkert dýrt,
en öfga blóðug stríð
sem löngum hafa líf vort rýrt
en leynt, í erg og gríð.
:)




01 febrúar, 2009

Þorramorgunn og stjórnarskipta


Á þessum þorramorgni svífa snjókornin kæruleysislega ofan úr himninum og klæða Laugarás í enn hvítari búning. Þorrablót Tungnamanna var haldið í gærkvöldi, en ég hef fátt af því að segja, en reikna með að þeir sem þangað lögðu leið sína hafi skemmt sér hið besta að öðru leyti en því að mín var eflaust sárt saknað, eða þannig. Þangað þyrptust sveitungarnir með trogin sín, pökkuð inn í dúk og hnýtt að ofan, eins og vera ber. Trogin munu hafa geymt gnægð af nýjum og skemmdum mat, sem síðan var skolað niður með viðeigandi drykkjarföngum. Að matarveislunni lokinni munu gestirnir hafa skemmt sér konunglega undir skemmtidagskrá í boði Haukadalssóknar áður en dansinn var stiginn og ölið kneyfað fram á rauða nótt. Eftir að dansað hafði verið og sungið eins og hver fann sig knúinn til, var haldið heim á leið, með þeim aðferðum sem tiltækar voru og sem vonandi fólu ekki í sér að lög væru brotin. Þá tók við svefn hinna réttlátu, eða annað það sem menn kusu að taka sér fyrir hendur.

Síðan kom morgunninn - og segir fátt af honum.

Lífið heldur áfram - þetta var gott þorrablót, reikna ég með.

Þessa stundina erum við, hin hrausta þorraþjóð, að ganga í gegnum ríkisstjórnarskipti. Ég held að ég ætti ekki að segja margt um þessi mál á þessum vettvangi. Megi takast að koma málum þannig fyrir að þessi þorrakreppuþjóð verði ekki alltof ósátt við lífið og tilveruna þegar upp er staðið. Verst er þetta líklega fyrir bankabólukynslóðina, sem hefur aldrei upplifað hömlur. Hún þarf að venjast nýjum og vondum veruleika, sem væntanlega verður til góðs þegar upp er staðið.

Það eina sem ég óttast við þetta allt saman er, að bóluþjóðin okkar verði of fljót að gleyma; að mjúkmálum stjórnmálamönnum takist alltof fljótt og hvítþvo tiltekna valdaklíkustjórnmálaflokka. Ég ætla að vona að nú teljist þeir hafa gengið of langt og að þeir fái það kjörfylgi sem þeim hæfir.

Ég ætla líka að vona að kverúlantarnir nái ekki að koma málum þannig fyrir, með heimskulegum pælingum sínum, að kjósendur eigi fáa eða enga góða kosti.

Jæja

Oft hylur mjöllin úldið ket
undan það kemur er hlánar.
Upp rísa aftur með ekkert vit, (flámæli)
algerir, bölvaðir kjánar

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...