30 ágúst, 2009

Enn af geitungadrápi - ásamt aukaafurð þess

Ég hef ekki látið af þessu og skal nú lítillega greint frá nýjasta afreki mínu á þessu sviði.

Lagt var upp í heimsókn til nýbakaðra Borgnesinga með fulltingi gamla unglingsins og akandi í grænu þrumunni hans. Ferðalagið sjálft gekk vel - svo vel reyndar, að mér þótti með fádæmum. Í upphafi ferðar var mér gert að segja til um hvenær áfangastað yrði náð og til að segja eitthvað nefndi ég 12.15 og var þá klukkan kl 10.15 - þegar ferðin hófst.
Eftir akstur um Grafnning, Kjósarskarð, Hvalfjarðarbotn, Dragháls og Skorradal ásamt viðkomu í Hreppslaug (áhugavert staðarheiti) var rennt í hlað við tiltekið hús í Borgarnesi, nákvæmlega þegar sekúnduvísirinn small og klukkan varð 12.15.00 eins og ég hafði auðvitað sagt. Ég var svo sem ekkert hissa á þessari einstöku rýmisvitund minni, en fannst nokkuð miður hve hrós fyrir þetta afrek reyndist takmarkað úr munni samferðafólks.

Ferðin sjálf átti nú aldrei að vera í einhverju aðalhlutvereki hér, heldur þeir atburðir sem gerðust þegar dýrindismáltíð hafði verið borin á borð fyrir okkur ferðalangana. Þannig var að drykkjarglösin voru sérlega fín, e.k. hvítvínsglös með grænunm fæti og úr þeim var drukkið lítilsháttar öl.

Þegar merihluti máltíðarinnar var liðinn birtist í borðstofunni stór og verklegur geitungur, sem renndi sér fimlega milli matargesta, sem auðvitað brugðust misvel við heimsókninni. Hófust umræður árasargjarna geitunga á þessum árstíma og drottningar sem væru farnar úr búunum og væru skaðræðiskvikindi. Allir töluðu með hálfkrepptum vörum og gættu þess að hreyfa hvorki legg né lið. Meðal hugmynda sem fram komu um að losna við kykvendið var að ná í ryksugu, opna út á svalir eða leita að töfraefninu því sem nýtist vel í Kvistholti (það var reyndar ekki til á þessum bæ).

Það er vel þekkt, að geitungum finnst ölið gott, og það kom loks í ljós þegar þessi renndi sér að einu hinna fínu ölglasa og settist á glasbrúnina. Þaðan hóf hann síðan göngu sína ofan í glasið til að dreypa á vökvanum. Það var þá sem snilldin tók völdin. Munnþurrka var sett yfir glasið og haldið fast. Með þessu var bara hálfur sigur unninn - enn lifði hann. Hinn góði maður, húsbóndinn á umræddu heimili, tók glasið og hugðist fara með það, með geitunginn innbyrðis, út á svalir og sleppa honum þar. Þetta töldu Kvisthyltingar (alræmdir geitungabanarnir) hreint ekki við hæfi. Svona kvikindi átti ekki að sleppa lifandi frá aðstæðum sem þessum.
Það varð úr, að ég fékk glasið í hendur; ofan í því grimmilegur geitungurinn og munnþurrkan lokaði fyrir möguleika hans á að sleppa. Hugmyndin hljóðaði einfaldlega upp á að ég þrýsti munnþurrkunni ofan í glasið þar til líf væri farið úr kvikindinu. Auðvitað, eins og mér er einum lagið, skoðaði ég verkferilinn allan, fram og til baka áður en ég hófst handa. Þegar ég taldi alla möguleika á að vinurinn slyppi, útilokaða, hóf ég að þrýsta munnþurrkunni ofan í glasið. Varlega og yfirvegað fyllti munnþurrkan smám saman kúlulaga glasið og stöðugt þrengdi að geitungnum. Hann gerðist órólegur og freistaði útgöngu, en ég gaf engin grið - þrýsti áfram - hann skyldi sko drepinn sá djöfull!
Ég þrýsti enn og nú gat félaginn sig hvergi hreyft lengur. Ég þrýsti áfram og hann var orðinn hálf klesstur upp við glasvegginn, en hreyfðist enn. Einn lokaþrýstingur skyldi nú enda þá óláns lífsgöngu sem þarna hafði verið um að ræða.
Skyndilega heyrði ég smell og leit á glasið, en ég hafði, sem sagt, litið upp á borðfélagana svona rétt áður en verkið skyldi fullkomnað. Hliðin var úr glasinu, en sannarlega var geitungurinn kraminn til ólífis. Í hálfa sekúndu velti ég því fyrir mér hvort ég kæmist upp með þetta þannig að húsbændur vissu ekki af, en varð auðvitað jafnskjótt ljóst, að um það væri ekki að ræða.
Þau brugðust auðvitað ljúfmannlega við þessu 'óhappi' - en ég veit ekki enn hvort hér var um að ræða ódýrt bónusglas eða ómetanlegan ættargrip og mun sennnilega aldrei fá neitt um það að vita.
Geitungurinn var allur - og það er mest um vert.

Geitunginn leit ég í glasi,
grimmur hann virtist og stór.
Með firna rólegu fasi
ég fargaði honum í bjór.


- ég tek fram að myndirnar eru ekki eftir mig - þó þær gætu vissulega verið það.

28 ágúst, 2009

Busabusabus



Þetta gerist á hverju ári og að stærstum hluta fremur óyndislegt, að mínu mati. Það eina sem eftir er af upprunalegu seremóníunni í kringum inntöku nýrra nemenda í samfélag nemenda í ML, er skírnin sjálf í vatninu, en meira að segja hún hefur farið í gegnum umtalsverða breytingu. Þessi breyting felst aðallega í tvennu: Í fyrsta lagi nenna eldri nemendur ekki lengur að elta busana uppi til að koma þeim út í vatn. Í staðinn reka þeir þá þangað og busar, sem ekki vita betur, hlaupa allt hvað af tekur beint út í vatn. Í annan stað grunar mig sterklega að lítið fari fyrir hinum latneska yfirlestri sem á að eiga sér stað um leið og vatni er ausið yfir skírnarþega úr skólabjöllu, áður en þeir eru látnir falla í vatnið.

Í minu minni var þessi þula svohljóðandi: IN AQUA SANITAS, IN VINO VERITAS, IN XXXXX CARITAS.Annað það sem þessir dagar fela í sér og sem kallað hefur veið busavika er aðallega fengið að láni frá uppáfinningasömum nemendum annarra skóla, en nú umgengist eins og áratuga hefð.
Mínar skoðanir á busastandinu hafa nú ekki náð miklum hljómgrunni hingað til og ég á ekkert von á að það gerist úr þessu.

24 ágúst, 2009

Ekkert að láta málin flækjast fyrir sér

DO gerði allt rétt og er góður.
ÓRG gerði allt rangt og er vondur.

Það er sjálfsagt gott að sjá heildarmyndina svo skýrt. Aðdáunarverður eiginleiki hjá prófessor við Háskóla íslands.

Morgunþáttur Rásar 2

23 ágúst, 2009

Ekki ættlaus maður



langalangafi
1850 - 1932
langamma
1887 - 1975
amma
1926
pabbi
1945
Hreiðar Már Sigurðsson
1970
langafi
amma
mamma
Bjarni SímonarsonRagnheiður Guðmundsdóttir
1788 - 19. janúar 18631789 - 22. júlí 1843
langalangafi1816 - 1884
langamma1852 - 1949
amma1886 - 1943
mamma1916 - 1972
Björgólfur Guðmundsson1941
Björgólfur Thor Björgólfsson1967
langalangamma1820 - 1891
langafi1853 - 1891
amma1887 - 1980
amma1920 - 1992
Páll Magnús Skúlason1953

Jón "ríki" Jónsson Sigríður "elsta" Jónsdóttir
1800 - 28. ágúst 1863 1801 - 17. ágúst 1881
langalangamma1826 - 1890
langamma1854 - 1944
amma1887 - 1980
mamma1920 - 1992
Páll Magnús Skúlason1953
langalangamma1840 - 1916
langafi1879 - 1964
afi1916 - 1995
mamma1947
Hannes Þór Smárason1967







Við stöndum saman í ættinni!

Hvað skal með hvítt borð?

Eins og fólk á mínum aldri veit af langri reynslu, þá er lífið stöðugt að taka breytingum. Eitthvert tiltekið ástand sem var, er ekki lengur. Breytt ástand kallar að ýmsu leyti á breytingar, sem hjálpa til við aðlögun að hinu nýja ástandi, oftast í þá átt að maður þarf að bæta við, frekar en draga úr, eða jafnvel losna við eitthvað það sem hentaði ástandi mála á einhverju tímaskeiði, en gerir það ekki lengur.

Það er þannig með málið sem hér um ræðir - málið með hvíta eldhúsborðið.
Það voru tímar sem kölluðu á þetta hvíta borð: fjölskyldan var orðin 6 manns. Þegar varla var orðið sætt í eldhúsinu við morgunverðinn lengur, sökum þrengsla við lánsborðið, sem lengi var notað, ákváðu Kvisthyltingar á fjárfesta í þessu fína, hvíta eldhúsborði, sem var meira að segja stækkanlegt. Lánsborðinu var skilað, reyndar ekki fyrr en áratugum seinna (ef það hefur þá verið gert - hvað veit ég? Það getur vel verið að það gegni enn einhverju burðarhlutverki í þvottahúsinu).
Hvíta borðið naut þess að vera umvafið Kvisthyltingum þar til þeir fóru að tínast burtu, einn af öðrum. Þegar þeir voru orðnir eftir þrír, kom fram sú hugsun, að það væri hreinlega orðið of stórt, ekki síst þar sem æskilegt þótti að fá meira athafnarými í ekki allt of stóru eldhúsinu.
Það vildi svo vel til, að á þessum sama tíma fór að bera á myndlistaráhuga fD og þar með fannst nýtt hlutverk fyrir hvíta borðið og jafnframt afsökun fyrir því að kaupa nýtt og betur passandi eldhúsborð. Hvíta eldhúsborðið varð, sem sagt að hvíta myndlistarborðinu. Þarna fékk það að gegna sínu hlutverki í tiltölulega stuttan tíma, eða þar til sú stund kom, sem þegar hefur verið greint frá hér, að fD taldi sínum málum vera betur fyrir komið á skrifstofu heimilisins, ekki síst þar sem þar var að finna afar stórt og veglegt borð, sem hentaði betur. Myndlistin var flutt niður á skrifstofuna og skrifstofan, eða það sem eftir var af henni, í fyrrverandi myndlistarherbergi, sem nú skyldi fyrst og fremst hýsa tölvubúnað af ýmsu tagi. Hvíta borðið hentaði einfaldlega ekki þeirri starfsemi sem þar skyldi fara fram, heldur var keypt viðeigandi plata með viðeigandi festingum, sem nú prýðir tölvuherbergið, nákvæmlega í réttum hlutföllum.
Hvíta borðið fór hinsvegar fram á gang og þar stendur það enn, engum til gagns og fremur til óþurftar, enda þarf að komast framhjá því mörgum sinnum á dag og það hefði sannarlega ekki verið mál fyrir 30 árum.

Vissulega hefur verið rætt hver örlög hvíta borðsins skulu vera og það sem liggur beinast við er að keyra það út í timburgám, í þeirri von að það verði þannig til einhvers framhaldsgagns (sem verður þó að draga í efa). Þetta er hinsvegar ekki eitthvað sem mér hugnast, enda sérlega ágætt hvítt borð hér á ferðinni.
Ég hef hugsað mikið um hvert mögulegt gagn borðið gæti gert hér, en hef ekki komst að viðunandi niðurstöðu þar um. Hér er frekar þörf á að fækka húsgögnum en viðhalda eða bæta við. Hvað myndi gerast ef einhver teldi sig husanlega hafa not fyrir borðið? Það er spurning sem ekki hefur verið svarað - og hún hefur ekki einu sinni verið borin upp við fD.
Það er hinsvegar nokkuð klárt, að hvíta borðið verður ekki á þeim stað sem það er nú mikið lengur. meira að segja ég myndi ekki láta það gerast.

Allt um kring mig eðalmenni sátu
og árbít sinn og kaffibrauðið átu.
Hver örlög verða mín ég ekki veit
en ágæt var hér dvöl, í skógarreit.

22 ágúst, 2009

Ekki hermikráka - heldur tilfallandi

Það hafa örugglega fleiri en ég komist í tæri við tilraunavefinn, sem hefur að undanförnu mest fengist við að láta lesendur sína geta sér til um hverjir hinir og þessir Víkarar eru. Hér er um að ræða, að mörgu leyti, sniðuga hugmynd fyrir þá sem þarna þekkja eitthvað til.
Þessi formáli er til þess ætlaður, að taka af öll tvímæli um það, að ég veit um fyrrgreindan vef og einnig að ég hef ekki í hyggju að hefja hér samskonar þátt - nema bara núna.

Sem oft áður lá leið í kaupstað. Í matvöruverslun nokkurri á þeim stað rákumst við á fyrrverandi Laugarásbúa. (nú eru Laugarásbúar, og hafa alltaf verið allmiklu færri en Víkarar og því mun ég veita afar takmarkaðar upplýsingar um viðkomandi).
Þessi maður er kominn í hóp eldri borgara og það kom meðal annars til tals, þegar ég innti eftir því hvernig hann hefði það. Jú, hann hafði það svo sem ágætt að öðru leyti en því hvað vinstri stjórnin væri að fara illa með eldri borgara. Ég þekki þennan mann nokkuð og vissi hvar hann stendur í pólitík og gat því ekki á mér setið að lauma að honum eftirfarandi: 'En getur nú ekki verið að það sé vegna þess sem hægri stjórnin gerði áður?'
Við þetta snögg reiddist viðkomandi, svo viðstöddum brá nokkuð. 'Jóhanna er búin að svíkja allt sem hún lofaði!', hálf hrópaði hann og strunsaði því næst burt án þess að kveðja kóng eða prest.

Ég þori nánast að lofa því að þetta eru nægar upplýsingar fyrir þá sem til þekkja,

21 ágúst, 2009

Sálfræðidýrkun (sakleysisaumingjaskapsdýrkun)

Tvennt varð til þess að ég ákvað að freista þess að tjá mig (enn eina ferðina) um málefni sem hefur verið mér nokkuð hugleikið um langa hríð.
Annarsvegar stóð það upp úr miðaldra fólkinu á Laugaráshátíðinni góðu, að það gæti ekki hugsað sér sín eigin börn við sambærilega iðju og það ástundaði hér í Laugarási í sínu ungdæmi (eggjastuldur, hænustuldur, kapphjólreiðar niður brekkuna, sem enduðu í botnlausum drulluskurði, pappavafningsreykingar, svo dæmi séu nefnd).
Hinsvegar er það svo, að þessa dagana er gamli unglingurinn afar upptekinn af því að fjalla um agamál í skólum, þar sem ég er annars vegar, með tilvísun til eigin skólagöngu á 5. áratug síðustu aldar. Þegar ég lýsi fyrir honum nálgun skólakerfisins að unglingunum nú til dags, kallar hann það sálfræðidýrkun.

Auðvitað viðurkenni ég, að það getur verið gagnlegt að vita skýringar á hinu og þessu í mannlegu eðli, en þegar þekkingin er notuð í þeim tilgangi að ala upp börn sem eru stöðugt umvafin hinni hnausþykku dúnsæng Storgaardismans, þá tel ég það jaðra við misnotkun á fræðunum. Börn sem aldrei fá að reka sig á eru líkleg til að ímynda sér að það sé ekki til neitt vont nema einhversstaðar inni í tölvunni eða sjónvarpstækinu. Þau hneigjast væntanlega til að trúa því að þegar eitthvað vont eða erfitt er framundan þá eigi þau að hlaupa burt. Heimurinn sem þau alast upp í er að hluta til heimur apanna þriggja, sem ekki máttu heyra, sjá eða segja neitt vont.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá tel ég að börn þurfi að fá að upplifa sjálf erfiðleika, áhættu, mótlæti eða sársauka upp að einhverju marki. Slíkt umhverfi býr til manneskju sem er tilbúin fyrir þá veröld sem þeir fullorðnu þurfa að takast á við.

Er ekki líklegt að drengjakórinn bindis- og jakkaklæddi, sem þóttist geta gert Ísland að ríkasta landi í heimi af efnislegum gæðum, hefði haldið öðruvísi á málum, ef hann hefði einhverntíma á lífsleiðinni komist í kast við verulegt mótlæti af einhverju tagi. Hann hefði hugsanlega lært, að lífið snýst miklu fremur um aðra og manneskjulegri hluti en öll þó ókjör hugtaka um efnahags- og peningamál sem við erum búin að læra á undanförnum árum, bera vitni um.

Nú blasir við afsprengjum sálfræðidýrkunarinnar veruleiki þar sem ekki er lengur sagt 'já, elskan' þegar hugurinn kallar á nýja græju.
Við höfum sennilega ekki lengur efni á því að klæða leikvelli landsins með gúmmíteppum.

16 ágúst, 2009

Jú, einhverjir höfðu bætt á sig ýmsu.

Ég hef haldið því fram að fésbókin væri heldur ónauðsynlegt og gagnslaust fyrirbæri. Það er orðið svo að þarna virðast margir ekki hafa annað að gera en takast á við ýmiss konar persónuleikapróf og þeir eru auðvitað frjálsir að því - þó nú væri. Minn vandi er bara, að ég hef engan áhuga á að vita hversu mörg prósent vondur einhver 'vina' minna er, eða hvað það er sem þeir eru að finna þarna út um sjálfa sig og láta okkur hin vita.

Jæja - ég hef komist að því, eftir allt saman að bókin getur gert gagn. Í gær var blásið til hátíðar í Laugarási. Hún varð til með hópsmyndun á fésbókinni og var fyllilega tímabær. Það var sérlega gaman að sjá þarna ýmsa þá sem hér undu sér í einhverri fortíð. Þarna gafst færi á að rifja upp þann tíma sem hver og einn átti hér sameiginlegan með einhverjum öðrum. Vissulega vantaði talsvert á að fulltrúar allra tíma væru þarna, en því fleiri tilheyrðu öðrum og gátu því rifjað umm nokkuð nákvæmlega það sem á dagana dreif og þá aðallega það sem foreldrarnir vissu ekki af.
Kvöldið var grillkvöld og síðan þannig kvöld sem oft fylgir grillkvöldum. Allt var þetta í mesta bróðerni og margt skrafað.

Leiðsögumaður og aðalupprifjandi og örnefnasérfræðingurinn var Bjarni bóksali og gerði hlutverki sínu góð skil.
Frumkvöðlum að hátíðinni ber að þakka.

Myndir hef ég sett hér - svona fyrir áhugasama.

14 ágúst, 2009

ÍSPAR og eðalfíflin

Skyldi það fara að gerast bráðum að það komi einhver niðurstaða í ÍSPAR farganið sem er búið að tröllríða allri vitrænni og ekki síður arfavitlausri umræðu í þessu arma landi undanfarnar vikur.
Trú mín á þessa þjóð hefur farið minnkandi eftir því sem ég les fleiri bullfærslur á fésbók eða bloggsíðum, eða tjáningar í ljósvakamiðlum og dagblöðum. Kjarni málsins er nákvæmlega sá sem stóð upp úr fjármálaráðherra Noregs í dag: Íslendingar verða að bæta þann skaða sem sem frjálshyggjutilraunin olli. Hverjum dettur í hug að halda einhverju öðru fram? Íslendingar sem heild bera þessa ábyrgð með því hvernig þeir greiddu atkvæði í kosningum. Það er ekki flókin speki. Þó ég hafi ekki veitt framsóknarfrjálshyggjuapaköttunum dýrmætt atkvæði mitt, get ég ekki skorast undan ábyrgð, vegna þess að ég styð það að lýðræðislega kjörinn meirihluti stýri málefnum þjóðarinnar.

Vissulega er endalaust hægt að draga fram í dagsljósið hina og þessa spekinga sem segja hitt og þetta - algerlega ábyrgðarlaust, að sjálfsögðu, en eftir stendur að núverandi ríkisstjórn situr uppi með ástand sem engan veginn verður við ráðið svo allir verði bara sáttir. Kröfurnar sem fólk gerir til þess að öll þess vandamál verði leyst si svona, eru hreint ekki raunhæfar. Það bölsótast hvar sem færi gefst, út í stjórnvöld sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður og verða þar að berjast innan embættismannakerfis sem er gegnsýrt flokksgæðingum vegna embættisveitinga undanfarin 18 ár.

Framganga þeirra sem nú hafa misst pólitískan meirihluta (dýrð og dásemd) (hafa þó mikinn meirihluta í embættismannakerfinu) finnst mér vera sérlega ámælisverð. Forystumenn þeirra eru kannski nýir í hettunni, sem slíkir (eiga samt örugglega sína sögu, sem ég ætla ekki að fara að fjölyrða um), en þeir eru talsmenn þeirra stjórnmálaflokka/stefna sem bera ábyrgðina á öllu saman. Eigendur flokkanna eru þarna enn á bakvið, þannig að það er mikið tómahljóð í öllu gaspri strákanna og þeirra fólks.
Hvernig hefur síðan þjóðin verið að bregðast við? (Vissulega á þjóðin ekki góða daga og margir að komast eða þegar komnir á vonarvöl, af ýmsum ástæðum). Jú, þjóðin virðist vera að taka gömlu valdaflokkana í sátt. Þjóðin vill fá eitthvert 'quick fix', sem er bara hreint ekki fyrir hendi og það er eins gott að hún fari að átta sig á því.

Eftir því sem ég reyni meira að skrifa mig frá því angri sem hér er að brjótast fram, því fleira kemur upp í hugann sem ég tel vera hina örgustu svívirðu í þessu ástandi öllu saman. Ég hef slepp hlut góðmennanna allra, sem skelltu sér í víking. Megi þeirra laun verða ríkuleg. Þá hef ég ekki minnst á kónginn sjálfan, sem mætti til mótmælastöðu í gær - til að mótmæla sjálfum sér, væntanlega - er hægt að mótmæla einhverju öðru? (Mér datt Salvador Dali í hug)

Svo mikið hef ég lært að lífsgöngu minni, að maður á aldrei að skrifa neitt í reiði. Ég er nú smám saman að verða reiður og þess vegna hef ég ákveðið að láta staðar numið.

-----------------------

Á morgun er Laugaráshátíð. Það verður gaman að sjá andlit sem hafa verið fjarri árum og áratugum saman. Megi sú samkoma fara vel og verða til góðs.






11 ágúst, 2009

Síðasta raunverulega tækifærið til að sinna því sem sinna þarf

Ég hef ákveðið að leggja ekki í að skrifa ferðasögu frá 3gja Norðurlanda reisu sem er nú afstaðin. Það geri ég af tveim ástæðum:
1. Það nennir enginn að lesa þá langloku sem úr því yrði.
2. Ég hef ekki nægilegt andrúm til að sinna því eins og þörf væri á.
Læt mér nægja að þakka þeim sem sátu uppi með okkur þann tíma sem þarna var um að ræða og gerðu sitt til að þetta var bara alveg ósköp ánægjulegt.

Ég læt mér nægja að vísa á myndir frá þessum tíma, en þær segja oft meira að annað.

Loks ætla ég að bölsótast lítillega yfir svikinni vöru.
Stórfenglegar aðgerðir hafa átt sér stað í kjallarageymslu hér á bæ. Hluti þeirra hefur verið að slípa gólf, mála og lakka loks yfir. Þetta höfum við Kvisthyltingara gert áður með góðum árangri. Eftir leiðbeiningar frá starfsmanni stórverslunar á Selfossi var mælt sérstaklega með PINOTEX lakki til að tryggja góða endingu á gólfinu. Gólfið var lakkað fyrir 3 dögum. Það sem hefur gerst síðan að lítilsháttar tilfærslur hafa átt sér í geymslunni. Afleiðingarnar voru þær að hvar sem eitthvað komst í snertingu við þetta bévítans lakk þá flagnaði það af. Þá vildi svo illa til, að lítilsháttar vatnsleki átti sér stað með þeim afleiðingum að "lakkið" bólgnaði upp.
Það má öllum vera ljóst, sem fylgst hafa með skrifum á þessari síðu, að hér er engrar sakar að leita hjá mér. Þó nú væri!

Það var svo nú í morgun, að fD taldi rétt að skella sér í sólbað (alltaf sól í Laugarási). Henni fannst við hæfi, að ég gerði slíkt hið sama, sem ég hafnaði góðlátlega, þar sem ég taldi þeim örskamma tíma frelsis sem eftir er, betur varið í að sinna ýmsu því sem þarf að sinna áður en haldið er til starfa í fyrramálið.


07 ágúst, 2009

Það hafði rignt um morguninn.....

.... en síðan létti til undir hádegið og skall á með úrvalsveðri til að heimsækja Akershus virkið (Akershus festning), sem stendur á hernaðarlega mikilvægum stað við höfnina í Osló. Þarna munu konungar Noregs hafa búið, líkega fram á 17. öld.


Það vildi svo vel til að þegar við stigum fæti inn í virkið voru að hefjast vaktaskipti varðmannanna sem gæta þessa merka staðar eins og sjáaldra augna sinna. Það varð fljótt ljóst, að ekki voru hér á ferð hermenn sem höfðu hlotið eldskírn sína í stríði, heldur virtust þetta allt vera svona rétt rúmlega grunnskólanemar.
Hér er hluti þeirra varðmanna sem mér virtist að biðu þess að vera leystir af.


Það fékk ég staðfest þegar annar hópur varðmanna kom marsérandi og stefndi átt til félaga sinna.


Það þarf varla að taka það fram, en búningar þessa unga fólks voru afar glæsilegir, örugglega nýkomnir úr hreinsun og pressun og skórnir sannkallaðir blankskór, nýpússaðir svo sólageislarnir endurspegluðust í augu talsverðs hóps viðstaddra, en ferðamönnum þykir alltaf gaman að fylgjast með vaktaskiptum varðamanna við konugshallir.

Loks stóðu hóparnir tveir andspænis hvorum öðrum og liðþjálfi steig fram og öskraði, eins og liðþjálfar eiga að gera, (ein, tveir og smella hælum!!! - eða eitthvað þvíumlíkt) skipanir um að nema staðar.


Þegar liðþjálfi segir hermanni að nema staðar, þá nemur hann staðar, hvar sem hann er staddur. Þegar hann segir hermanni að smella hælum, þá smellir hann hælum (stappar fast í jörðina). Örlög eins varðamannanna voru síður en svo eftirsóknarverð við þessar aðstæður. Þegar honum var skipað að stansa þá stóð hann ofan í polli og gat sig þaðan hvergi hrært. Þegar honum var síðan skipað að smella hælum, þá stappaði hann í miðjan pollinn og gusurnar gengu yfir gljáandi skóna og stífpressaðar buxurnar, ekki bara hans heldur einnig félaga hans. Þegar hér var komið áttu einhverjir hinna ungu varðmanna nokkuð erfitt með að halda alvöruþrungnum svip og áhorfendur skemmtu sér konunglega. Varðmaðurinn ungi laumaðist til þess, smátt og smátt og færa fótinn upp úr pollinum, eins og hér má sjá:



Þegar hér var komið varð nokkur bið á framhaldinu. Einhverjir varðmannanna marséruðu burtu en hinir stóðu áfram hreyfingarlausir um alllanga hríð. Eins og sjá má á Íslendingunum sem þarna voru viðstaddir, var þessi bið orðin nokkuð erfið. Þeir skimuðu í kringum sig eftir einhverjum vísbendingum í umhverfinu um framhald málsins.



Þar kom loks, að 4 varðmenn komu marsérandi til hinna sem fyrir voru.




Enn hóf liðþjálfi að öskra skipanir um að gera hin og þessi trix með byssunum, m.a. að setja á þær byssustingi (sem einn reyndar klúðraði nokkuð vel) - og að smella hælum (stappa niður fæti). Það var nákvæmlega það sem fremur illa þenkjandi áhorfendur höfðu beðið eftir.



|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
\/






04 ágúst, 2009

"Afhverju stendur 5. ágúst á miðanum?"

Stundin er 3. ágúst kl. 17.00.
Staðurinn er Gardemoen flugvöllur, einhvers staðar nálægt 60 km norðan Osló.
Tilefnið er heimferð eftir sérlega góða viku hjá Norsurunum okkar.
Næsta stopp er Kaupmannahöfn þar sem meiningin er að gista eina nótt áður en stefnan er tekin á landið góða um hádegi á morgun.

Það kannast væntanlega flestir við þá tilfinningu sem felst í því að sjá framundan einhvern endapunkt, t.d. að sumarfríið eigi að hefjast á föstudaginn. Við þær aðstæður á maður erfitt með að ímynda sér að þurfa fyrirvaralaust að bæta við einni vinnuviku. Slík tilhugsun er fremur óþægileg.

FD er, eins og hennar er von og vísa, að kanna eina ferðina enn, hvort flugið á morgun sé ekki örugglega kl. 12.50. Í leiðinni kíkir hún einnig á dagsetninguna, svona formsins vegna. Það er þá sem spurningin kemur; spurningin sem mótaði fyrirsögnina þessu sinni.

Það þarf varla að lýsa því sem gerist í framhaldinu. Við missum af því þegar flugvélin til Prag fylltist farþegum og flýgur á braut. Okkur finnst það ekkert mál þótt fluginu til Kaupmannahafnar seinki um s.s. hálftíma. Tilhugsunin um, að á morgun á sama tíma verðum við að renna í hlað í Kvistholti, gufar upp eins og regndropi á sólbökuðu malbiki.

--------------

Það hefur tekist furðu vel að vinna úr þessu áfalli, enda okkur ekki í kot vísað hjá Höfðum Íshæðinga. (þá bið ég hér með forláts á því að hafa stolist í tölvuna þeirra).

Nú er búið að endurstilla, búið að margtékka á brottfarartíma, búið að láta hagsmunaaðila vita.

Allt er klárt.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...