30 nóvember, 2009

Allt um Alt



Nei, það var aldrei ætlun mín, enda hreint hvorki ástæða né tilefni til að fara að gera sér frekari mat úr því sem áður hefur verið afrekað í þeim efnum. Altinn stendur altaf (ekki stafsetningarvilla) fyrir sínu.

Ég neita því ekki að ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á mynd þar sem kvenfélagskonur út Biskupstungum, þar með voru auðvitað altar, eins og áður hefur komið fram, voru að undirbúa myndatökur vegna árlegs dagatals, að undir myndina hafði aðdáandi skrifað eftirfarandi: "Túttur!!! Mega sega Tungna-túttur". Viðbrögð við þessari athugasemd voru sérlega og, að mínu mati, undarlega jákvæð. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig viðbrögðin hefðu orðið, hefði ég látið þessa athugasemd falla, svona orðaða. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda -ég hefði frekar orðað athugasemd mína sem svo: "Hér eru á ferð afar myndarlegar konur", eða eitthvað í þá veruna.
------------------------------------
Nú hugsa ég miklu frekar um sérlega veglega aðventutónleika sem framundan eru í Landakotskirkju á komandi sunnudegi. Tungnamenn, og þá meina ég auðvitað einnig þá sem telja sig ekki Tungnamenn nema í hjarta, létu sig hafa það að berjast í talsverðu og óvenjulegu vetrarveðri yfir Heiðina (fyrir utan þá sem skelltu sér yfir eftir öðrum leiðum). Eftir það, sem kórstjórinn kallar nú 'túrbó' æfingu í safnaðarheimili kirkjunnar, fengu kórfélagar að kynna sér aðstæður í kirkjunni sjálfri. Þar varð fljótt ljóst að hljómburður er einstaklega góður og gefur að mínu mati, ekkert eftir þeim sem við eigum að venjast hér austanfjalls.
Þarna er hinsvegar um að ræða ákveðinn hönnunargalla. Orgelið er í öðrum enda kirkjunnar, en kórsöngurinn á að eiga sér stað í hinum. Eins og við mátti búast fór ekki allt eins og ætlast var til, ekki síst vegna þess að hljóðið berst hægar en ljósið. Mér skilst að því verði kippt í liðinn með því að notast við 'SKYPE' - auðvitað hlakka ég (og nokkrir fleiri sjálfsagt) ákaflega til að sjá hvernig það á eftir að ganga fyrir sig.

Þessi fína mynd er eftir Ingu Helgadóttur (IngaHel), en þetta er slóðin að myndum hennar. Ef hún skyldi rekast á mynd sína hér, biðst ég afsökunar á að hafa tekið hana ófrjálsri hendi, en hún var bara of góð til að velja hana ekki.

Komandi helgi verður væntanlega nokkuð ásetin vegna umstangs í kringum tónleikana, en ekki efa ég að hún verður eftirminnilega skemmtileg.

28 nóvember, 2009

Uppreist æru eftir margra ára niðurlægingu

Mér finnst faglegra að nota orðið uppreist frekar en uppreisn, vegna þess, að það var með því orði sem þingmaðurinn okkar Sunnlendinga losnaði við syndir sínar fyrir nokkrum árum.

Þannig er, að árum saman söng þáverandi Skálholtskórinn aðventutónleika í dómkirkjunni í Biskupstungum. Þetta voru orðnir einir vinsælustu tónleikarnir í þessum tónlistarkima. Það sem einkenndi þá, meðal annars, var frumflutningur á einu aðventu- eða jólalagi í hvert sinn. Eitt þessara laga, það fyrsta, held ég, heitir Fyrirbæn og er eftir Ragnar 'svepp' K. Kristjánsson við texta Helgu Ágústsdóttur. Hvort tveggja skilaði þarna ágætis verki.

Í gærkvöld var æft fyrir tónleika í Kristskirkju í Landakoti, en þar sem ekki er það Skálholtskórinn, sem þar er á ferð, heldur söngfólk úr Biskupstungum (þó ekki séu allir úr Biskupstungum), fékk söngfólkið inni á Torfastöðum, sem oftar á undanförnum mánuðum.

Enn er Fyrirbæn æfð, enda bæði skemmtilegt að syngja og hlusta á.
Á þessu hefur alltaf verið einn hængur. Þrátt fyrir að tenórinn í þessum sönghóp sé eins og tenórar gerast bestir í kórum, hefur það alltaf gerst á sama stað í æfingum á þessu lagi að kórstjórinn stöðvar æfinguna og segir:
'Strákar, þið þurfið bara að passa ykkur á að þessi nóta þarna er mjög djúp' - Þetta þýðir á leikmannamáli, að tenórinn hefur alltaf sungið þessa nótu vitlaust.
Það verður að viðurkennast, að tenórunum hefur alltaf fundist þessi niðurstaða kórstjórans einstaklega undarleg og þar hafa verið uppi rökstuddar tilgátur um, að með þessu væri verið að senda skilaboð til hinna raddanna um, að þó svo tenórinn sé að flestu leyti fullkominn, þá geti hann misstigið sig líka.
Með þessu móti á hinum röddunum þá að líða betur með sitt. Það er svo sem gott og blessað að reyna að 'peppa' þær upp með þessum hætti, á kostnað tenórsins, svo fremi að einhver innistæða sér fyrir.

Það háttar þannig til í þessu lagi, að það gerist á nokkrum stöðum, að tenórinn og altinn eiga að syngja sömu nótuna. Það vill svo til, að það er einmitt nótan sem tenórinn hefur setið upp með sem vitlaust sungna árum saman, með tilheyrandi áhrifum á sálarlífið.

Í gærkvöld kom það í ljós, að það hefur öll þessi ár verið altinn sem söng vitlaust!

Svipurinn sem kom á altinn við þessa uppgötvun er ógleymanlegur. Þessar ágætu konur störðu í vantrú á nótuna á blaðinu og þurftu síða ófáar endurtekningar til að leiðrétta margra ára vitlaust sungna nótu.

Í stórmennsku sinni tóku hinir ágætu tenórar þessari niðurstöðu af mikilli yfirvegum og tóku í framhaldinu, af yfirlætisleysi sínu, við afsökunarbeiðni kórstjórans.

Það sem síðan varð til þess að altarnir náðu aftur jafnvægi var frumsýning á landsfrægu dagatali kvenfélagskvenna úr Biskupstungum, en þar sitja margar hinna ágætu alta, fyrir og eru þá í léttklæddari kantinum. Þar sem þær tóku þarna við ómældu hrósi kórstjórans gleymdist fljótt nótan áðurnefnda. Öllu jafnað út eins og vera ber. Allir sáttir. Ekkert hefði getað endað þessa Torfastaðaæfingu betur, nema kannski ef tenórarnir hefðu verið að frumsýna sitt dagatal.



22 nóvember, 2009

Memento mori?

Það er ekki svo, að ég geri mér ekki grein fyrir því að árunum sem ég hef lagt að baki, fjölgar. Hvert tilvikið á fætur öðru hjálpar mér við að halda þeirri hugsun lifandi. Tilefnið þessu sinni var eftirfarandi sem birtist á fésbókarstöðu eins vinar míns fyrir nokkrum dögum:




Hér ætlum við að reyna að safna saman Landsprófs og fjórðabekkjarnemendum frá vetrinum 1969-1970 til að halda einhverskonar samkomu vegna þess að 40 ár eru liðin frá því við sluppum burt þaðan.


Svona gerist þetta. Það eru elltaf einhverjir sem muna hvernig tíminn líður. Það hvarflaði aldrei að mér að svo væri komið í ævigöngunni sem raun ber vitni.

Þegar ég las þessa tilkynningu smellti ég auðvitað á hlekkinn og þá birtist síða og stofnandinn reyndist vera fullorðinn maður á sextugsaldri. Tveir aðrir á sama reki voru þá einnig búnir að gerast félagar í hópnum. Þarna mátti lesa heitingar um að hópurinn skyldi stefna að því að hittast í Héraðsskólanum á Laugarvatni á komandi vori. Síðan þetta var, eru liðnir nokkrir dagar og nú eru komnir 11, flestir að stíga sín fyrstu skref í þessum kima veraldarvefsins, aðrir reyndari. Mér þykir ekkert sérstaklega líklegt að meirihluti þeirra 43 (?) sem luku námi úr gagnfæðadeild og landsprófsdeild, vorið 1970, muni tilkynna sig þarna inn (kannski það þurfi að grípa til sendibréfa).
Í gegnum hugann tóku að fljúga myndir frá löngu liðnu tímabili ævinnar, sem hörðustu menn hafa guggnað á að fjalla um í rituðu máli (hér á ég við æskuvin og félaga sem hóf ritun ævisögunnar í skemmtilegum sprettum á fésbókinni. Skrifunum lauk þegar kom að því að hefja skólagöngu í HL).
Eins og má ímynda sér þá er það tímabil ævinnar sem hér um ræðir - á aldrinum 14-16 ára, sérlega viðkvæmt að mörgu leyti og erfitt að fást við svo vel sé, ekki síst vegna ýmissa pælinga og atvika sem þá eiga sér stað. Þarna fara nýjar kenndir á flug sem nokkurn tíma tekur að ná tökum á. Þarna fer unga fólkið að reyna vængina, ef svo má segja - svo ekki sé talað um ýmislegt annað. Þarna á sér stað margt sem ekki er rétt að fjalla ítarlega um opinberlega, en einnig margt sem nauðsynlegt er að halda til haga, meðan heilinn starfar enn nokkurn veginn eðllilega.

Það má kannski segja að minn akkilesarhæll sé, að fortíðin er mér huldari en mörgum öðrum. Vissulega fljúga myndir um höfuðið frá liðnum tíma, en það er oftar en ekki eitthvað sem ekki skiptir neinu máli.
Ég var ekki framhleypinn unglingur og tók ekki mikinn þátt í ýmsum þeim uppreisnartilburðum sem félagarnir gerðu sig gildandi í - kannski var það þess vegna, sem ég lenti aldrei upp á kant við skólastjórann, sem flestum hlýtur að vera ofarlega í minni. Kannski var ég bara músin sem læðist.
Ég reikna með, að það sem eftir lifir vetrar, muni hugurinn hverfa við og við til þeirra 3ja vetra ævinnar sem ég eyddi Í HL.

14 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (4)

Sólarhringurinn leið eins og sólarhringar líða, einn af öðrum. Siglinginn þennan sólarhring, um haf tímans, var bara nokkuð tíðindalaus, en það er kannski rétt að geta þess, að áður en sest var upp í Corolluna morguninn eftir að ég hafði komið stick'em límgildrunni fyrir, kíkti ég í birtuleysi inn í Xtrailinn. Mér fannst eins og ég greindi að ákveðinn hluti límgildrunnar væri dekkri en aðrir. Ég gerði ekkert annað þennan morgun í þessum málum. Vinnudagurinn hafði sinn gang, með músa- og tíkaróléttusögum í bland. Að honum loknum var haldið heim á leið.

Eftir að við höfðum rennt í hlað sá ég á eftir fD á hraðferð út úr Corollunni og inn í hús. Ég var auðvitað yfirvegaðri í aðgerðum mínum, gekk rólega inn í anddyri og náð mér þar í tóman plastpoka og tók lyklana að Xtrail áður en ég fór út aftur. Ýtti á opnunartakkann á lyklinum, stefnuljósin blikkuðu til marks um að bifreiðin væri opin. Gekk öruggum skrefum að hurðinni farþegamegin. Opnaði. Leit inn.
Þegar hér var komið var klukkan að verða sex að kvöldi og því engin umtalsverð birta til að þvælast fyrir.
Ég beindi sjónum mínum niður á gólf þar sem ég hafði sett límgildruna. Þar mátti greina dökka, hreyfingarlausa þúst.
Ég tók límgildruna upp á þeim enda sem fjær var þústinni.
Þústin reyndist vera tvær mýs, þétt upp við hvor aðra, ekki með tindrandi, biðjandi augu.
Ég skoðaði þær ekki umfram það að telja fjöldann. Opnaði plastpokann, setti gildruna með því sem á henni var ofan í hann og batt hnút fyrir. Lokaði bílhurðinni og læsti, gekk síðan með pokann að ruslatunnunni; grátunnunni, það er að segja. Blátunnan er að mínu mati ekki ætluð fyrir lífrænan úrgang. Ég opnaði grátunnuna og setti pokann ofan í og lokaði.

Þar með lauk þessari aðgerð.

Morguninn eftir fór ég í vinnuna á Xtrail. Þegar nokkuð var liðið á morgun og bjart var orðið, átti ég leið í bifreiðina, með sama hætti og í upphafi þessarar sögu. Í farþegasætinu var tómur, lítill pappakassi. Í kringum hann mátti sjá pappírstæting og við nánari eftirgrennslan var búið að naga eitt hornið af honum. Ég ók umsvifalaust í verslunina á staðnum. Verslunarstjórinn var búinn að fá smelligildrurnar, sem hann hafði pantað. Ég keypti af honum tvær í pakka og síríus súkkulaði. Reif gildrurnar úr umbúðunum, beit stykki úr súkkulaðinu og setti á gula plötuna og spennti gildruna. Kom henni síðan fyrir í bílnum.

Þarna var gildran allan daginn án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Ég ók heim á leið eftir vinnu, og klæjaði ótæpilega í fótlegginn á leiðinni.
Eftir kaupstaðarferð, sem þessu sinni var farin í margyfirfarinni Corollunni, var aftur rennt í hlað, og enn hafði ekkert gerst í músabílnum.
Nú er kominn morgunn aftur og ég hef ekki enn athugað stöðu mála. Ég reikna ekki með að ég fjalli um hvað þar er að finna, eða hvort eitthvað er.

-----------------------------------

Mýs í híbý(í)lum manna skapa ótrúlega þverstæðu í huganum. Annarsvegar sér maður fyrir sér lítil titrandi spendýr sem ékkert vinna til saka að eigin mati. Reyna bara að draga fram lífið eins og aðrar lífverur á þessari jörð. Hinsvegar sér maður fyrir sér skemmdarvarga og óargadýr sem fá hárin til að rísa þegar þeir skjótast úr einum felustaðnum í annan.
Á bersvæði eru þessi dýr í engu öðruvísi en önnur. Það verður annað uppi á teningnum þegar þau leita í hlýjuna sem við mennirnir höfum komið okkur upp innandyra.

Það er bæði hægt að taka undir þetta:

"Mér þykir þetta sérstaklega ómannúðlegt og ljótt að gera við dýr sem eru aðeins að leita sér skjóls frá vetrarkuldum". (EÁP)


og þetta:

"Djö... eru þetta ógeðsleg kvikindi!" (fD)

Lýkur þar með þessari frásögn af lífsbaráttu.

13 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (3)

Verslunarstjórinn lagði þetta á afgreiðsluborðið fyrir framan mig:

Hér var komin svokölluð límgildra. Límgildra er, eins og nafnið bendir til, gildra þar sem sá eða það sem stígur í hana, festist. Ég get auðvitað ímyndað mér það hverskonar tilfinning það er, að vera á gangi einhversstaðar og vera síðan bara skyndilega pikkfastur, gersamlega varnarlaus. Það væru harla ömurleg örlög.
Gildran sem hér um ræðir var þannig, þegar nánar var skoðað, að plastbakki var fylltur að límkenndu efni. Ég prófaði að koma við það og var nánast fastur. Í pakkanum sem verslunarstjórinn bar fyrir mig voru tveir svona bakkar.
Ég hugsaði í snarheitum, hvernig ég myndi taka á því, þegar ég vitjaði gildrunnar og í henni væri mús sem gat sig hvergi hreyft, en mændi á mig, biðjandi augum. Ekki leist mér allskostar á þá tilhugsun. Af þeim sökum ákvað ég að lesa mér til um það hvernig gildran virkaði. Þá kom þetta í ljós:

THEY ARE CAUGHT, HELD, AND D I E - í lauslegri þýðingu útleggst þetta sem: þær festast, sitja fastar og drepast. Það var síðasta orðið sem gerði útslagið. Ég spurði hvað græjan kostaði. Nítjánundruðogfimmtíu hljóðaði svar aðstoðarverlunarstjórans, sem nú var aftur tekinn við afgreiðslunni. Þetta þýddi, sem sagt, að hvor bakki kostaði kr 975. Örskotsstund flaug það í hug mér hvort þessi upphæð væri ekki full há fyrir það af aflífa eina mús. Niðurstaðn varð auðvitað sú, að ég sló til. Límgildran varð mín.

Þegar ég var kominn út í bíl með kassann útskýrði ég eðlilega málið í heild sinni fyrir fD, sem að vanda engdist nokkuð við tilhugsunina um þessi "viðbjóðslegu kvikindi"= saklausu litlu nagdýr. Hún vissi hinsvegar flest það sem þörf er að vita um gildru af þessu tagi og gat auðvitað ekki setið á sér að segja mér frá umræðum á sínum vinnustað um nákvæmlega eins gildrur.
Ég beini því hér til lesenda sem telja sig vera viðkvæma fyrir myndrænum lýsingum eins og þeim sem hér fylgja, að sleppa því að lesa feitletruðu og skáletruðu línurnar sem hér fylgja.

-x-x-x- VARÚÐ-x-x-x-

Samstarfskonurnar voru, sem sagt að ræða um þessar límgildrur og þar kom
auðvitað fram, að þær teldust vera í dýrari kantinum. Þótti þetta vera hin mesta sóun á fé. Því var farin sú leið, að sögn fD, að fjarlægja mýsnar úr gildrunum til að endurnýta þær fyrir fleiri mýs og ná þar með kostnaði niður í verjanlega upphæð. Í þessu skyni var tekið í músaskrokkana og togað í til að losa þá úr líminu, sem ilmar eins og hnetusmjör. Límið er hinsvegar sterkt og því var það, að oftar en ekki urðu lappir og læri eftir. Ég ákvað, þegar þessar upplýsingar streymdu inn í eyru mín, að freista þess ekki að endurnýta límgildrurnar mínar tvær. Þar fyrir utan kom það mér á óvart að samstarfskonurnar hefðu rætt svona nokkuð sín á milli.

Varúð lýkur

Heim var haldið í músalalausri Corollunni - hugsað um morðið - slátrunina - veiðarnar sem framundan voru.
Rennt í hlað.
Kassinn opnaður (stærðina má meta út frá naglaklippunum hægra megin).

Verslunarstjórinn hafði ráðlagt mér að setja annað hvort síríus rjómasúkkulaði eða seríos ofan á miðjuna á bakkanum - það væru kerlingabækur að mýs sæktu í ost.
fD var ansans ári snögg að koma sér úr Corollunni, inn og upp stigann. Það næsta sem ég vissi var, að leifar af síríus suðusúkkulaði komu fljúgandi niður stigann og strax í kjölfarið pakki af seríosi.
Ég tíndi, með yfirveguðum hætti, upp seríoshringina sem höfðu dreifst um stigann, ásamt súkkulaðibitanum. Ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig til að tryggja árangur aðgerðarinnar: setti súkkulaðimola á miðjan bakkann og dreifði síðan seríoshringjum hringinn í kring um molann. Að þessu búnu lá leiðin að xtrailnum. Ég opnaði dyrnar og setti hinn banvæna bakka hratt og hiklaust, en varlega á gólfið farþegamegin, þar sem merkin um innrás músarinnar höfðu fyrst birst. Ég lokaði, læsti og gekk síðan inn í hús. Framundan var að bíða þess sem verða vildi. Það varð spennuþrungin bið í nákvæmlega einn sólarhring.

Framhald er óhjákvæmilegt. Þeir sem enn þola þetta, ættu að kikja inn til að öðlast hlutdeild í því.

12 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (2)

Eins og venjulega, allt frá því í haust, fjalla Laugvetningar á mínum vinnustað um lítið annað en mýs (reyndar ófríska hunda og fjallgöngur líka þegar færi gefst). Músagangur þarna mun vera með ólíkindum. Hér eru nokkur dæmi:
a. Einn samstarfsmaðurinn kveðst vera búinn að veiða 70 mýs inni í húsi hjá sér frá því í haust. Það kemur alltaf á hann sérstakur svipur þegar músaumræðan hefst og ég sé ekki betur en svipinn þann megi kalla músadrápssvip. Hann hefur reynt ótrúlegustu aðferðir við að koma í veg fyrir að músum takist að komast inn til hans, en án árangurs. Það var rætt síðast í morgun, að mýs þurfi ekki nema blýantssvera holu til að komast inn.
b. Mikið er rætt um kartöflukofa, sem duglegir samstarfsmenn hafa fengið að setja kartöflurnar sínar í. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til mótaðgerða hafa mýs ávallt náð að smeygja sér inn til að gæða sér að jarðeplunum. Þar er svo komið, að einhverjir eru búnir að fjarlægja uppskeruna sína úr kofanum.
c. Einn samstarfsmaðurinn hefur komið sér upp leiguketti (eða láns) í vetur og lætur mikið af því hve duglegur hann er að fanga mýslurnar. Það gerist yfirleitt þannig, að hann kemur með þær sprelllifandi inn á stofugólf og leikur sér þar að þeim þar til honum þykir nóg komið og hann skellir skoltunum um höfuð ræflanna þannig að heilinn liggur úti. (Ég get ekki gert að því þó sögurnar séu með þessum hætti og ég get fullvissað lesendur um, að ekki batnar það).
d. 70 músa maðurinn er búinn að komast að því, að til er lauktegund sem ilmar þannig, að mýs forðast hann. Hann er því búinn að verða sér úti um svona lauk og hefur ekki orðið var við mýs síðan, en honum er varla vært í íbúðinni sinni lengur vegna fnyksins sem lauknum fylgir.

Það sem lesa má hér að ofan, ber að túlka sem nokkurskonar ramma til að útskýra ýmsar hugrenningar mínar um músamál í tengslum við sterkan grun um að mús hefði tekið sér bólfestu í sjálfum bílnum mínum. Ég var auðvitað sannfærður um að músin hefði komið í bílinn á Laugarvatni; Laugarásmýsnar hljóta að vera yfirvegaðri en svo að þær fari að leggja undir sig bíla rólegheitafólks, sem vill ekkert frekar en vita bara hreint ekkert af þeim.

Í ljós músasagnanna þótti mér ljóst, að verslunin sem starfrækt er á Laugarvatni, hlyti að vera afar vel birg af ýmsu því sem gagnast getu við músaveiðar, bæði músavinagildrum, sem virka þannig að mýsnar lokast inni í hólfi og þeim síðan sturtað úr svo þær geti komist aftur inn og svo þeirri gildrutegund sem bindur með einhverjum, misgeðslegum, hætti, endi á líf þessara nagdýra.

Mér varð vissulega hugsað til hennar Ingibjargar í Lyngási þegar kom að því að ákveða hverskonar gildra skyldi keypt. Hún átti ketti, en var samt músavinur, sem aldrei varð sjálf mús að aldurtila svo vitað sé.
Ég varð fljótt staðráðinn í að fara ekki Ingibjargarleið í þessum málum. Þessvegna hélt ég í verslunina til að verða mér úti um líflátandi gildru, helst þá tegund sem smellur niður og vinnur þannig sitt verk.
Þegar ég kom inn í búðina var þar fyrir aðstoðarverslunarstjórinn. Ég spurðist fyrir um smelligildru. Hún reyndist ekki vera til, en hún kvað kvað verslunarstjórann líklegast búa yfir góðum búnaði, sem gerði í stórum dráttum sama gagn. Með það náði hún í verslunarstjórann. Hann kom og kvaðst vera búinn að panta gildrur af umbeðinni tegund. Ég kvaðst ekki vera tilbúinn að bíða eftir að pöntunin kæmi í hús. Hann kvaðst þá hafa annað ráð í handraðanum. Bað mig bíða augnablik og hvarf síðan á bakvið í drjúga stund, kom síðan fram með pakka í hendinni. Þegar ég áttaði mig á því hvað þarna var um að ræða, fór um mig lítilsháttar hrollur fyrir hönd músanna, en þó enn frekar fyrir mína eigin.

(nú verður fléttan hnausþykk)

11 nóvember, 2009

Morðingi, drápari eða veiðimaður (1)

Það blundar veiðieðli í manninum, hefur manni verið sagt. ég hef reyndar aldrei talið að það væri algilt, enda virðist ég vera algerlega laus við þennan eðlisþátt. Allt sem snýst um að taka líf af einhverju tagi (nema kvikinda sem að mínu mati eiga hreinlega ekki rétt til lífs), stendur mér afskaplega fjarri. Á þessu eru þó undantekningar, eins og þeir geta séð, sem lesa áfram.

Það eru orðnir einir 3 dagar síðan ég settist upp í Xtrailinn minn, eins og venjulega að áliðnum morgni á vikum degi, af ástæðum sem ég kýs að fjölyrða ekki um hér, enda skipta þær engu máli í samhenginu. Mér varð litið niður á við á gólfið farþegamegin, en þar lá flaska undan ávaxtasafa, með álímdum miða þar sem innihaldi var lýst. Það var nú svo sem ekkert einkennilegt við þessa tómu flösku; það eru oft tómar flöskur þar sem fD hefur setið yfir. Þessi var þó dulítið frábrugðin þeim sem þarna eru venjulega að því leyti að það var eins og einhver hefði verið að dunda sér við að rífa miðann utanaf henni of afrifurnar síðan í smærri snepla. Fyrsta hugsunin var auðvitað, að ég velti fyrirmér hvenær fD hefði hugsanlega haft tíma, í óþolinmæði sinni, til að fara að dunda sér við að rífa límmiða utan af flösku. Þessi hugsun var stutt því þetta hef ég aldrei vitað frúna dunda sér við. þegar hér var komið var bara ein hugsun eftir.
Það var mús í bílnum!
Síðan þetta rann upp fyrir mér þennan dag, hef ég hugsað um fátt annað en þessa bílmús og hvað best væri að taka til bragðs.
Niðurstaða mín, þarna í fyrradag, var að ákveða að halda ró minni og ímynda mér að það hlyti að vera einhver önnu og rökréttari skýring á þessu rifnu pappírssneplum. Ökuferðin í Laugarás þetta síðdegi var þó síður en svo yfirveguð af minni hálfu; m.a. sá ég fyrir mér, nokkrum sinnum á leiðinni, músina stökkva upp í skálmina á busunum mínum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég gekk meira að segja svo langt að stapp fótum í gólfið nokkrum sinnum þegar mér fannst eins og eitthvað kitlaði mig í fótlegginn.
Ég komst heim og velti þar fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að segja fD af grun mínum, en gerði það þó.
"Ég fer ekki upp í þennan bíl fyrr en þú ert búinn að setja í hann gildru og veiða þessa mús!!"
Og stuttu seinna:
"Ég er einmitt búin að heyra að mýs geti komist inn í Nissan."

(Þess má geta í þessu sambandi, að fD nánast keypti bílinn sinn vegna loforðs bílasalans um að hann væri músheldur. Hún telst því búa yfir umtalsverðri þekkingu á músheldni mismunandi bílategunda.)

Ég leitaði að músagildru á heimilinu þrátt fyrir að fD fullyrti að ekkert slíkt væri til (auðvitað hefði mér verið óhætt að trúa því.)

Það var ákveðið að taka Corolluna til kostanna morguninn eftir og freista þess að nálgast músagildru í Samkaupum (H-seli).

Það átti eftir að fara öðruvísi en til stóð........

(fylgstu með, fléttan þykknar)

08 nóvember, 2009

Eitt leiðir af öðru, eða litli fingurinn.

Eins og áður hefur komið fram hér, var gerður um það samningur milli fyrrverandi kórstjóra við dómkirkjuna í Biskupstungum, að svokallaður Berlínarkór eða Tungnaraddir skyldi syngja eina messu í Kristskirkju í Landkoti , þar sem kórstjórinn starfar nú, með kór kirkjunnar.
Messan var keyrð í gegn, engin vandamál þar, enda vant fólk. Það var það sem fram koma í í aðdraganda messunnar sem kom nokkuð á óvart, þó svo það hefði ekki átt að gera það, ef litið er til þess hver umræddur kórstjóri er.
Það var sem sagt gert ráð fyrir því að frumeindir fyrrverandi dómkórs í Biskupstungum tækju þátt í aðventutónleikum í Kristskirkju.

Ég þurfti nú að melta þetta mál lítillega með sjálfum mér áður en ég komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri líklega bara skemmtileg hugmynd.

Þeir Kristskirkjumenn munu ekki hafa haldið aðventutónleika áður, en við, sveitafólkið, erum hinsvegar hokin af reynslu, með mikið forðabúr af allskyns aðventu- og jólatónlist í langtímaminninu.

Það var aldrei raunveruleg spurning um það hvort við fD létum dragast inn í þetta mál. Æfiingar verða miðsvæðis, í Hveragerði, í hóflegum mæli, en tónleikar í byrjun desember.
Ég taldi eina tólf til fimmtán hokna sveitamenn í Hveragerði í dag.

Nú bíð ég spenntur eftir því hverju kórstjórinn finnur upp á næst, en einhvern veginn held ég nú að það styttist í samstarfinu - þó skemmtilegt sé.

07 nóvember, 2009

Það sem segja má um daginn.

Þar kom að því, og þó ekki, að ég finn mig hafa harla fátt fram að færa á þessum stað. Auðvitað á ég ekki við það að ég hafi ekkert að segja, fjarri því. Ég gæti fjallað í löngu máli um t.d. krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál. Það sem þessi mál eiga helst sameiginlegt í mínum huga er, að það er auðvelt að finna á þeim fremur neikvæðar hliðar. Það er nefnilega svo, að ef maður vill vera neikvæður þá er af nógu að taka. Það vita allir. Ég nenni bara ekki að ganga þá göngu um þessar mundir. Á göngunni þeirri er nóg af mannskap sem hægt er að vera sammála eða ósammála. Það sem þeir allir eiga sameiginlegt er, að þeir eru fulltrúar einhvers hagsmunahóps eða stefnu og þessvegna ekkert að marka þá, nema maður sé sammála og jafnvel ekki þá heldur.

Það er flóknara að sýna á sér jákvæðu hliðina þó vissulega sé þar af ýmsu að taka. Þar má t.d. nefna: krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál.
----------------------
Á þessum sólríka og milda laugardegi er verið að hamast við að ná sér eftir sérlega strembna vinnuviku og undirbúa sig með þeim hætti undir aðra svipaða sem hefst frá og með mánudagsmorgni. Þar sem ég hef það að markmiði að fjalla ekki um vinnuna hér, þá segi ég ekki orð um hana frekar .

Laugardagurinn þessi kallar ekki á neinar sérstakar athafnir, utan það sem er orðið hefðbundið á þessum bæ. Þar á milli er ekkert annað að gera en sem allra minnst og gera ráð fyrir að það dugi.
Það er á svona degi sem auðveldara er að komast að þeirri niðurstöðu, að það geti verið skynsamlegt að skella sér í göngutúr.

Laugardagurinn hefur það umfram marga daga, að daginn eftir er líka frí frá önnum hversdagsins.

Laugardagurinn felur í sér loforð um ákveðið frelsi til að gera eitthvað eða ekkert.

Laugardagurinn felur í sér flest það sem rétt er að ætlast til af einum degi.

Laugardagurinn er vel þolandi í yfirlætisleysi sínu og skorti á tilætlunarsemi.

Laugardagurinn er dagurinn, þessa vikuna, í það minnsta.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...