28 febrúar, 2010

Menningarhvað


Hófleg menningarneysla heldur manni við efnið, en gerir mann aldrei saddan. Það er fínt að vita af allri þeirri menningu sem, borin er á borð. Það er síðan undir manni sjálfum komið hve mikils maður vill neyta af krásunum þeim.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst menningarást ákveðinna einstaklinga ganga nokkuð úr hófi og að hún hljóti að vera farin að ganga á líf þeirra að öðru leyti.

Þegar ég er hér að tala um menningu notast ég við þá skilgreiningu á fyrirbærinu, sem snýst um það þegar einstaklingur, eða hópur einstaklinga gerir eitthvað, eða býr til eitthvað sem aðrir einstaklingar eiga síðan að njóta. Í þessum tilvikum finnst mér að gerendurnir hljóti að fá mest út úr aðgerðinni, en hinir njóti um stund, en séu síðan jafn nær nokkru síðar.

Menningu má einnig skilgreina með miklu víðari hætti en ég hef gert hér að ofanþ Þetta er auðvitað öllum ljóst. Þegar ég ákveð t.d. að aka bilaðri bifreið minni 40 km leið til að koma henni á verkstæði, þá er þar á ferðinni ákveðinn menningarkimi, eða jafnvel menningarstefna, sem jafnvel má gefa nafnið 'bílviðgerðaandúðarstefna'. Það sama má segja um flest það annað sem gert er.

Nú er fjarri því að ég vilji gera lítið úr þeirri menningu sem ætluð er til þess að aðrir geti notið hennar, heldur eingöngu að benda á það að við getum öll talist jafn 'menningarleg' þó svo við stundum ekki mikið af myndlistarsýningum, tónleikum eða leiksýningum.

Það er auðvitað ekki svo, að með ofansögðu sé ég að finna mér afsökun fyrir því hve óduglegur ég (og þá væntanlega fD líka) er við að sækja menningarlega viðburði, heldur eingöngu það, að ég vil telja mig mikinn menningarpostula jafnvel þó ég (og þá væntanlega einnig fD) ástundi ekki í ríkum mæli viðburði sem almennt teljast til menningarviðburða.

Þetta gerðist þó í gærkvöldi.

Eftir töluvert mikinn aðdraganda, sem verður að skrifa á það nútímalega einkenni fólks sem kalla má 'oranizational overload', eða 'skipulagningarofhleðslu', tókst svokölluðum 'Gullaldargellum', sem er hópur sem fD tilheyrir (samanstendur af miðaldra konum, sem eitt sinn unnu saman í leikskólanum Álfaborg), að finna tíma þar sem allar gætu farið saman í leikhús. það var auðvitað aukaatriði hvort viðhengi þeirra kæmust, en auðvitað var það svo, að þar var ekki mikið um val, eða þannig.


Leikverkið sem stefnan var sett á, var 'Undir hamrinum', sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstunga setur á svið í Aratungu um þessar mundir.
Auðvitað var búið að gera úr ferð þessari heilmikinn pakka, sem fólst í leikhúsmáltíð í Hamrinum, nei Klettinum, ásamt leiksýningunni og síðan tilteknu framhaldi.

Eins og von var á, settu náttúruöflin nokkuð breitt strik í reikninginn með því að ein 'gellan' var veðurteppt á höfuðborgarsvæðinu (reyndar viðhengi hennar einnig, þó það sé auðvitað ekki stóra málið hér), eins og virðist vera regla fremur en undartekning þegar blásið er til samverustunda þessa tiltekna hóps.

Leikhúsmáltíðin á Klettinum reyndist verða með nokkuð öðrum hætti en vonir höfðu staðið til, en þannig var, að þennan sama dag hafði Hestamannafélagið Logi blásið til skemmti- og fræðsluferðar um Biskupstungur. Þessi ferð fólst í sem stystu máli í því, að áhugamenn um hross söfnuðust saman í fólksflutningabifreið og óku sína um sveitina og heimsóttu valda hestamenn

heim.

Það fór auðvitað þannig, að ótæpilegar veitingar voru bornar á borð fyrir ferðalangana á þeim fimm bæjum sem heimsóttir voru, með þeim afleiðingum, að rólegheita, lágstemmda leikhúsmáltíðin á Klettinum, varð heldur fjörugri og hástemmdari en til stóð, en hestamannahópurinn endaði ferðina einmitt með kvöldmáltíð á umræddum veitingastað.
Ekkert er þó út á viðurgjörninginn þann sem í magann fór, að setja.

Þá var næst á dagskrá leikhúsferðin sjálf.


Leikverkið sem um ræðir, 'Undir hamrinum', reyndist vera hið kostulegasta og byggist á minnum úr sveitamenningu landans, þar sem ýmislegt viðgekkst, að því er mér skildist, sem ekki er hægt að fjalla um þegar um er að ræða að halda á lofti gildum menningarinnar sem skóp þetta land. Þarna er ótæpilega vegið að prestastéttinni og almættinu sjálfu, ásamt konum og körlum.

Ef þetta leikverk vísar að einhverju leyti í raunverulegt líf fólks á fyrri tímum, þá kemur manni fátt á óvart í nútímanum.
Það er í sjálfu sér aðdáunar- og virðingarvert hve hópurinn sem þarna flögraði um fjalirnar leggur á sig til að færa okkur skemmtan aftur og aftur. Það er samt ekkert sérstaklega undarlegt, því þeim ber engin skylda til að standa í þessu og ekki eru það hin veraldlegu laun sem þau eru að sækjast eftir. Það veit ég af eigin reynslu, að þetta er bara svo óskaplega gaman, bæði það að undirbúa svona verkefni og að fá þakkirnar fyrir.

Ekki ætla ég að fara að gera upp á milli leikaranna, en þeir komu vel til skila því sem líklegast er boðskapur þess verks. Því er þó ekki að neita, að það ríkti nokkur spenna um það, eftir upplýsingar sem fengist höfðu undir borðhaldinu fyrir sýninguna, hvort einn tiltekinn leikari yrði fyllilega með sjálfum sér. Hann reyndist hafa fulla stjórn á hlutverki sínu.

Ef ti sýninguna var aftur komið að samverustund 'Gullaldargellanna', en um hana fjölyrði ég ekkert, hún var bara ágæt og hin siðsamasta.

Kærar þakkir til leikdeildar fyrir skemmtunina.
Ég fór í menningarreisu.

23 febrúar, 2010

Verulega pirraður, en staðfastur (2)

Já, ferðin á Selfoss. 42.3 km á áfangastað. Úr því það kviknaði ekki í bílnum þegar ég kom úr vinnunni á þessu hraða sem ég nefni ekki, þá hlaut að vera í lagi að keyra á svona 60, sem ég síðan gerði, með þeim afleiðingum að eftir um 10 km akstur, fór stýrið að titra. Ég stöðvaði ökutækið til að athuga ástandið. Það reyndist eins og ég hafði keyrt á xxx km hraða síðast. ég ákvað að taka þessu bara rólega, og til að kæla bremsudiskinn, drap á bílnum og sat þarna um stund, þótti það leiðinlegt og ákveð þess í stað að lækka meðalhraðann í svona 45-50. Renndi niður glulgganum til að fylgjast betur með mögulegum óhljóðum, en þá gaus fnykurinn framan í mig. Stöðvaði aftur eftir 6 km - til kælingar, en það var ekkert orðið neitt skemmtilegra, ákvað að lækka meðalhraðann enn, niður í 40. Einhverja kílómetra ók ég þannig, en þá tók ég eftir því að hitamælirinn sem sýnir útihita, sýndi +7°C, en það var í raun um það bil -4°. Stöðvaði aftur, og ætlaði nú að láta mig hafa það að sitja bara og bíða í rólegheitum þar til bremsudiskurinn hefði kólnað. Það gekk ekki að taka áhættu á því að kviknaði í öllu saman! Þessu sinni snerti ég diskinn með fingurgómi, með þeim afleiðingum að ég skaðbrenndi mig.
Þetta hlé á akstrinum varð nú ekki mikið lengra en hin fyrri, ég komst að þeirri niðurstöðu, að það væri alveg eins gott að dóla það sem eftir var leiðarinnar á 25-30. Sem ég síðan gerði. Það breytti engu um það að itinn sem útihitamælirinn sló í +13° þegar hæst lét, án þess raunhitinn hefði breyst.

Ferðin á Selfoss tók einn og hálfan klukkutíma, þar sem ég sýndi mínar bestu hlitar sem tillitssamur bifreiðastjóri, hleypti öllum fram úr þannig að þeir yrðu fyrir sem minnstum óþægindum af aksturslagi mínu. Þar sem ég átti eftir um 15 km ók fD framúr, hnarreist á Corollunni, en hún lagði af stað niðureftir um klukkutíma á eftir mér.

Það var nokkur léttir að komast á áfangastað á óbrunninni bifreið.
Nú var ekkert annað að gera en vona að reikningurinn yrði ekki svívirðilega hár.

-------------------------------

Í dag lá síðan leið á Selfoss aftur. Eftir nokkra óvissu fregnaði ég, að það stefndi í að viðgerð lyki, og það stóðst,

Reikningurinn? Já hann er hér:


Hver er niðurstaðan? Ekki gott að segja, nema það þá helst, að viðurkenna það að þessa mánuðina hljóti það að teljast lúxus að eiga bíl.




22 febrúar, 2010

Verulega pirraður, en staðfastur (1)

Það má segja að ég lifi samkvæmt þeirri reglu (það er ekki eina reglan), að þegar um það er að ræða að fólk sé búið að mennta sig til einhvers, þá sé það rétta fólkið til að sinna ýmsu því sem fyrir mig kemur og sem ég er ekki menntaður til. Auðvitað á reglan ekki við þar sem ég get sjálfur sinnt viðkomandi máli fullkomlega sjálfur, og ég verð að viðurkenna, að slík tilvik eru mörg.

Þegar kemur að bílaviðgerðum af einhverju tagi þarf ég ekki einu sinni að hugsa mig um áður en ég panta tíma á verkstæði, og greiði gjarnan fyrir það ógrynni fjár, en ætlast þá til þess að allt sé í lagi þegar ég nálgast bifreiðina að viðgerð lokinni.

Ég neita því ekki, að í talsverðan tíma hef ég tekið eftir því að svartleitt duft hefur legið yfir annarri framfelgunni á eðalbifreið minni. Ég hef kosið að telja þetta hið eðlilegasta mál, ekki síst þar sem ég er meira og minna á bremsunni þegar ég ek í vinnuna og þaðan til baka. Því pantaði ég ekki tíma á verkstæði af þessum sökum (engin móðursýki í gangi hér!).

Það var síðan fyrir nokkrum dögum, að ég var á leið til vinnu að vanda. Óvenju kalt var í veðri (> - 10°C). Það var þá sem ég fór að heyra einhvern hvin, sem ég hafði ekki heyrt áður. Þetta taldi ég fyrst koma frá útvarpinu, en þaðan koma ansi oft ókennileg hljóð. Til að sannprófa þetta slökkti ég á útvarpinu, en það hafði engin áhrif á hvininn. Það var þá sem ég ákvað að þetta hlyti að tengjast köldu veðri, og hélt áhyggjulaus minn veg, lauk vinnudeginum og hélt heim á leið, hafandi algerlega gleymt öllu um þennan hvin. Þegar ég nálgaðist Svínavatn, sem er um miðja vegu milli vinnustaðar og heimils, fór stýrið að titra.
Þetta afgreiddi ég auðvitað snarlega sem svo, að eitt af þessum stykkjum sem þeir festa á felgurnar þegar þeir eru að jafnvægisstilla dekkin (heitir vísast eitthvað), hefði dottið af. Ég ákvað þó, svona til öryggis, að stöðva bifreiðina við Svínavatn til að fullvissa mig um að öll hjólin væru ennþá föst. Svo reyndist vera, svo ég skoðaði aðeins nánar felguna með áðurnefndu svartleitu dufti. Þar sem ég snerti á felgunni, fann ég fyrir hita, sem varð því meiri sem ég nálagðist bremsudiskinn meira. Létt snerting, sem olli lítilsháttar bruna, opnaði loks augu mín fyrir því að hér gæti verið eitthvað bremsutengt á ferð. Hröð ferð um hugskotið leiddi mig að þeirri niðurstöðu, að bremsudæla hlyti að vera föst; blemsuklossinn þrýsti stöðugt á diskinn. Ég taldi eðllilegt að álykta sem svo, að það gæti valdið þeim hita sem þarna var um að ræða.

Að þessari niðurstöðu fenginni hélt ég áfram ferð minni í öryggið í Laugarási. Sló ekkert af ferðahraða, sem, eftir á að hyggja var talsvert vanhugsað, en það kom í ljós þegar ég renndi í hlað: þegar ég steig út úr bifreiðinni gaus á móti mér ógurlegur fnykur, og ég er ekki í nokkrum vafa um það það hefði verið hægt að spæla egg í 15 cm fjarlægð frá bremsudiskinum. Með þessar upplýsingar hélt ég í öryggið innandyra, hálfpartinn óskandi þess að þetta vandamál hyrfi bara si svona, en vissi það jafnfram að svo yrði ekki. Mér var nauðugur einn kostur að gera eitthvað í málinu.

Það sem ég gerði var að ég fór í símann (ekki nýtt þegar vandi blasir við á þessum bæ, þar sem ég tel vandann meiri en svo, að ég ráði við hann).
"Ég þarf að panta hjá þér tíma".
"Jahá, hvaða númer er á bílnum?"
Ég sagði númerið og svaraði í bein framhaldi spurninum um hver vandinn væri.
"Þetta hljómar ekki vel. það gæti þurft að renna diskinn. Geturðu komið með bílinn á mánudaginn?"
"Já", sagði ég, en leit um leið á fD, þar sem hún og Corollan hennar voru forsendur fyrir því að þetta gæti gengið eftir. fD kinkaði ákaft kolli, og taldi þetta nú vera minnsta mál.....jamm.

Mánudagurinn var í dag.

Í dag ók ég bifreiðinni á Selfoss.

Sú ferð......... já sú ferðasaga verður skráð innan skamms.

14 febrúar, 2010

Kraftmikið ljóð

Ég get ekki á mér setið að skella hér inn ljóði sem sú samdi, sem hefur gefið sér höfundarheitið Hirðkveðill, þegar kemur að bloggskrifum mínum. Ljóðið samdi hún (H. Ág.) í framhaldi af þessari færslu minni.

Fyrr verður enginn friður né sátt
en fangarnir sitja við gluggana þrátt
grýttir með eggjum - ég gaman hef að-
þótt geti vart leyft mér sápur og bað.

Þar sitja þeir stroknir með sífullan kvið
af saltkjöt' og flatkökum meðan að við
lifum á farsi og ferleg er nauð
að fá aðeins dagsgamalt harðneskjubrauð.

En gamanlaust vinur þá gremst mér það víst
að Guð skuli ekki í fangelsum hýst
hafa þá menn er oss hröktu í nauð
og höfðu af almúga pening' og brauð.

Hirðkveðill Kvistholts tjáir sig um tilfinningar gagnvart þeim sem sitja enn á sælum chaiselong - drekka kampavín og hafa snittur með - gott ef ekki humar!


-------------------------
Það er ekki amalegt að hafa svona hirðkveðil!

Þorvaldsdætur og Skímó

Það er ekki hversdagslegur viðburður þegar Þorvaldsdætur koma saman allar á einum stað. Eitt slíkt tilvik átti sér þó stað fyrir skemmstu þegar sú útlenska skellti sér á klakann til að létta nokkuð á erlendum gjaldeyri í sinni eigu.

Það var í því samhengi sem hún skellti sér austur fyrir fjall með fulltingi og aðstoð þeirra tveggja sem höfuðborgarsvæðið gista.

Hér þótti mér komið tilvalið tækifæri til að festa þessar kjarnmiklu kvenskörunga á mynd(ir). Fyrirfram ákvað ég að freista þess, að láta þær fara að tilmælum mínum um tilteknar uppstillingar, án þess þó að eiga von á því að þær færu að tilmælum mínum. Mér til ómældrar undrunar gekk allt eftir sem upp var lagt með og úr þessu varð hin skemmtilegasta myndataka.

Hluta af henni má sjá hér.






Hér var reyndar allt komið í vitleysu, og fD farin að gera athugasemdir.


Og nafnið sitt fékk hann


Eftir talsverða spennu, sem tengdist skráningu litla mannsins sem íslensks ríkisborgara og þar með að hann fengi nauðsynlega pappíra þar að lútandi, flaug Óslóarfjölskyldan (líklega án þess að fá sér hamborgara á Gardemoen) til vorlandsins í norðrinu.
Hér var (og reyndar er, þegar þetta er skrifað) stutt heimsókn, sem nýtt skyldi til þess, m.a. að festa við pjakkinn nafn, með kristnum hætti.




Meða sama hætti og var með ungrú Júlíu fyrir ári síðan, þá dugði ekkert minna en dómkirkja fyrir þessa athöfn, þessu sinni sú sem stendur í Skálholti. Það kom í hlut fD að bera hitann og þungann af öllum undirbúningi hér austan fjalls. Þetta fólst t.d. í því, að undirstinga sr. Egil, sem síðan tók að sér að undirbúa organistann. Ég sendi fjöldapóst á gamla kórfélaga, með sérlega góðum árangri, okkur til mikillar ánægju.
Allt fór þetta eins vel og á varð kosið, og við fD uppgötvuðum að ef til vill búum við ekki í of stóru húsi, þegar allt kemur til alls.

ábyrgðarfullir skírnarvottarnir

Piltur fékk staðfestingu á nafni sínu og heitir Gabríel Freyr. Auðvitað stóð hann sig með afbrigðum vel allan þennan merkisdag, sem hann væntanlega verður honum ekki sérlega eftirminnilegur, þó svo þarna væri hann stöðugt í fangi ættingja sinna og fengi engan tíma í draumalandinu.

Nú erum við aftur orðin tvö í kotinu, en horfum með tilhlökkun til sumarheimsókna til Evrópulanda.



Heimsókn, fæðing og hamborgari

Ég hef áður nefnt það að ýmislegt hefur orðið til þess að breyta dimmasta og lengsta tímabili ársins í tíma birtu, gleði og vonar, hér í Kvistholti.
Í upphafi janúar kom Berlínarfjölskyldan til landsins og dvaldi hjá okkur í vikutíma. Ungfrú Júlía Freydís náði þarna að kynnast lítillega því eðalfólki sem byggir Laugarás og sem tengist henni fjölskylduböndum. Lifandi og skemmtileg hnáta þar á ferðinni.

Meðan á heimsókninni stóð bárust af því fregnir frá Ósló, að þar væri fætt barnabarn númer tvö, sem við fyrstu sýn bar með sér ýmis einkenni föður síns, að sagt er, en sem ég kom ekki auga á fremur en við önnur slík tilvik. Það var ekki fyrr en ég setti saman myndir af þeim feðgum á sama aldri sem ég sannfærðist um, að um nokkur líkindi væri að ræða.
Það var eins og við manninn mælt, að þegar Berlínarfólkið hvarf á braut, skelltum við fD okkur til höfuðborgar Noregs til að berja augum kraftaverkið sem þar hafði átt sér stað. Þar hittum við fyrsta sinni krílið, sem síðar mun, að sögn fD verða hávaxinn, þar eð fótleggir teljast langir í hlutfalli við aðra líkamshluta. Þarna áttum við einstaklega skemmtilegan tíma.

Heimferðin gekk að mestu vel, en ég hef gert grein fyrir hluta hennar, lítillega hér og hér.
Einu átti ég þó eftir að segja frá, að það átti sér stað eftir ævintýrin sem tengdust FLYTOGET. Þegar við vorum sloppin, með svo ævintýralegum hætti, sem fyrr hefur verið lýst, inn í flugstöðina, var svo komið að peningar skiptu engu máli lengur. Við ákváðum að gera vel við okkur og fá okkur eitthvað að borða, og þá ekki bara pylsu sem stungið er í brauð með gati. Fljótlega rákumst við á veitingastað sem bar nafnið KON-TIKI.
Þar var ýmislegt á boðstólnum, m.a. tiltekin tegund af hamborurum, sem ég komst að, við eftirgrennslan, að voru gerðir úr raunvelulegu nautakjöti, en ekki kjötfarsi. Tveir voru pantaðir ásamt tveim litlum glösum af öli.
Hér reyndist á ferðinni hreint ágætur hamborgari og vel saðsamur. Að aflokinni máltíð kom að greiðslu. 'Fire hundrede seksti otta´hljómaði upphæðin. Það var ekki fyrr en þessi upphæð var yfirfærð í íslenska krónu (sem við elskum og dáum) að þessi upphæð komst í eitthvert samhengi. Hér reyndist um að ræða ISK 10296. Hvor hamborgari kostaði s.s. um fimmþúsund kall!

Ekki meira um það.

12 febrúar, 2010

'Here may you see the tyrant.'







*merking þessa orðs felur í sér alla þá sem urðu til þess, með saknæmum hætti, að hér féll allt saman.



Þetta er óhemju frjálsleg þýðing á þessum orðum Macduffs, þar sem hann er að gefa Macbeth færi á að gefast upp, fremur en verða drepinn. Skömmu síðar drap Macduff harðstjórann.

-------------------------------------

Þegar ég hef átt leið á höfuðborgarsvæðið undanfarna mánuði, hefur alltaf blasað við mér glæsileg bygging fyrir ofan veginn í áttina að Mosfellsbæ. Byggingin er rækilega merkt einhverju þýsku byggingarfyrirtæki sem ætlaði að ganga í hóp þeirra fyrirtækja annarra sem stóðu í því að selja okkur, þessum hálf vitfirrtu Íslendingum, allt mögulegt og ómögulegt. Þetta fyrirtæki var seinheppið því samfélag okkar hrundi saman í þann mund er allt var klárt til að byrja að græða.


Það hefur mjög verið í umræðunni undanfarna mánuði, hve mikill skortur er á fangelsisplássi á landinu, og ég ekki síður en aðrir, reiðir landar, hef verulegar áhyggjur af þessu, þar sem ég sé fram á það að það verði ekki hægt að dæma afglapana sem komu okkur á kné, í fangelsi þannig, að þeir afpláni einhverntíma. Þar að auki tel ég að það geti ekki náðst um það nein sátt að dómarnir hljóði upp á dvöl á Kvíabryggju, með réttindum til að fara að leggja stund á höggmyndalist.

Lausnin á þessum málum blasir við þarna á holtinu við veginn upp í Mosfellsbæ.

Fyrir utan að þetta er stór bygging, þá sé ég fyrir mér að þarna fáum við gott tækifæri til að virða fyrir okkur kvalara okkar. Í því sambandi legg ég til, að milli klukkan 12 á hádegi og 4 í eftirmiðdaginn, verði hinum dæmdu einstaklingum gert að standa eða sitja fyrir innan glervegginn sem sjá má hér fyrir ofan. Þangað getur fólk farið og barið þá augum og fengið þannig útrás fyrir angur sitt frústrasjónir. Ég sé meira að segja fyrir mér að þarna megi setja upp sölubása með egg og málningu á boðstólnum.






Ég veit auðvitað að ef til vill er það ekki við hæfi að virðulegur maður láti annað eins út úr sér, en þetta er nú afleiðing þess, að ekkert lát er á frásögnum af svívirðilegum athöfnum íslenskra viðskipta-, embættis- og stjórnmálamanna. Maður fær hreint ekkert færi á að setjast niður og reyna að jafna sig og leita skilnings og fyrirgefningar með sjálfum sér.


Þjóðin verður að upplifa það, sem hún telur vera makleg málagjöld þessum einstaklingum til handa. Fyrr verður enginn friður og sátt.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...