31 maí, 2010

Hlutfallslegt kvart



Það gerðist einu sinni, meðan enn gaus í E-jökli, að aska barst inn yfir Laugarás. FD var þá ekki í rónni fyrr en hún hafði verið hreinsuð af pallinum, svo hægt væri að bera á hann pallaolíu (ég) svona í tilefni vorkomunnar. Það hefur hinsvegar ekki unnist tími til verksins til þessa, vegna anna á öðrum vettvangi.



Eins og hendi væri veifað, löngu eftir meint goslok, skall á með regnblönduðu öskufalli hér í uppsveitum í dag. Það er engu líkara en maður sé að vinna með WORX í þröngu herbergi. Maður finnur fyrir öskunni í augum og munni, á lyklaborði tölvunnar, á gólfinu, á stýrinu - bara hreint allsstaðar hefur hún smeygt sér. 
Ég er búinn að sjá ástandið undir Eyjafjöllum og ætla nú ekki að reyna að líkja þessu ræfilslega öskufalli við það. Hinsvegar leyfi ég mér að lýsa óánægju minni með þessa stöðu mála. Nú þarf aftur að skúra pallinn.

30 maí, 2010

Askmál og annað



Það er allt gott að frétta af asknum "mínum". Út úr brumhnöppum brjótast þessa dagana laufblöðin sem munu prýða hann á þessu sumri, veita honum næringu og kraft til vaxtar.Ekki veit ég hve lengi hefur verið mögulegt að rækta tré af þessu tagi á þessum slóðum, en það er engu líkara en að það sé hér í kjörlendi.


Á þessum degi er margt hugsað, vítt um land. Þjóðin hefur sent skilaboð sín, sem ekki verða túlkuð með öðru móti en sem krafa um eitthhvað nýtt og öðruvísi. Næst 4 ára verða í mörgum tilvikum tilraunaár. Nýtt fólk fær þar tækifæri til að sýna sig og sanna. Það er sannarlega ekki það sama að berjast fyrir breytingum í minnihluta og að sitja uppi með krógann og taka ábyrgð á velferð hans og þroska.

Íbúar Bláskógabyggðar tóku þann pól í hæðina þessu sinni, að fella meirihluta, sem alveg má segja að hafi farið með stjórn sveitarfélagsins í fjölmarga áratugi, fyrst meðan það var Biskupstungnahreppur og síðan Bláskógabyggð. Hér er því um talsverð tímamót að ræða.


Það er auðvitað engum blöðum um það að fletta, að allt það fólk sem býður sig fram til setu í sveitarstjórn, gerir að vegna þess að það vill vel. Listarnir tveir sem við höfum haft úr að velja eru eflaust skipaðir þannig fólki. Ekki held ég nú að í grunnin sé neinn umtalsverður munur á þeim málefnum sem þeir hafa fram að fær, ef til vill áherslumunur og munur á vinnubrögðum. Munurinn liggur væntanlega að stærstum hluta í fólkinu sem skipar listana, ekki flokkspólitískum skoðunum þess, heldur framgöngu þess í störfum sínum, ættartenglsum og sögu.

Á þessum vettvangi tjái ég mig ekki um hvernig ég notaði atkvæði mitt í þessum kosningum. Ég vil hinsvegar óska nýjum meirihluta velfarnaðar í vandasömu, oft vanþakklátu, en einnig oft gefandi starfi.

22 maí, 2010

Enn er sungið þó enginn sé kórinn

Á þessum bæ eru menn búnir að vera í ótímabundnu leyfi frá reglulegum kórsöng um allnokkra hríð. Ástæðum þess hafa verið gerð nokkur skil á þessum síðum og ekki verður fjölyrt um þær - breytir líklega litlu.

Það hefur hinsvegar æxlast svo, að af og til hafa gefist tilefni hjá fyrrverandi kórfélögum að koma saman í eitt og eitt "gigg", sér til upplyftingar og viðhalds.

Þannig var það í gærkvöld, þegar kórstjórinn okkar, fyrrverandi fagnaði fimmtugsafmæli sínu ásamt samstarfsfólki í gegnum árin, með tveggja tíma tónleikum í Kristskirkju í Landakoti. 
Þarna komu fram, auk kóranna sem afmælismaðurinn stjórnar og hefur stjórnað, fjöldi af úrvals tónlistarfólki.

Á eftir var síðan skellt á veisluborð í biskupshúsinu.

Ansans ári skemmtileg stund bara.

Enn er sungið þó enginn sé kórinn
því alltaf er tilefni.
(hirðkveðill botnar) :)

Heimildir:
Staðreyndir daglegs lífs og hugarfylgsni höfundar.

Vorverkin hefjast með mögulegu drápi.

Til að stækka letrið er gott ráð að halda Ctrl takkanum niðri, meðan skruntakkinn á músinni er notaður við að stækka og minnka letrið.(heimild: EÁP)




GULLREGNIÐ
"Ég VISSI að ég hefði ekki átt að hleypa þér nálægt því með þetta!"
Undanfari þessarar yfirlýsingar fD var sá, að ég tók mig til, tók fram rafmagnsorfið, og hóf að slá þar sem helst er orðið grænt gras í mosaþembunni fyrir ofan hús. Á blettinum sem sleginn var, hafði á síðasta sumri verið plantað gullregni, sem gerði lítið allt sumarið en að veslast upp. Ég hafði ekkert skoðað það nú í vor til að kanna hvort í því leyndist líf, og sló því ekkert sérlega varlega í kringum það, með þeim afleiðingum, að við smá hnykk, lenti orfið utan í hinu, að því er ég taldi, steindauða gullregni. Við það kom í ljós að hér var hreint ekki um steindautt gullregn að ræða, heldur bara þó nokkur lifandi gullregn. Þegar nánar var að gáð, kom í ljós að það var vel ríflega farið að bruma.
Það næsta sem gerðist var, að fD tók sér stunguskóflu í hönd, fór upp í brekku og tók þar holu, kom síðan niður, gróf upp gullregnið og kom því fyrir á nýja staðnum, fjarri öllum óvitum, sem ekki þekkja eðli gullregns.




























ASKURINN

"Þessi Askur þinn er steindauður!" var það næsta sem nefnt var. Askurinn var keyptur á sama tíma og gullregnið - s.l. vor.
"Nú? Ertu nú alveg viss um það?"

Þetta var orðið svona dæmi þar sem gullregnið var hennar, en askurinn minn.
Ég tók mig nú til á endanum og fór að athuga hvernig komið væri með askinn. Auðvitað var hann sprellifandi eins og sjá má á þessum myndum.

Heimildir:
Hugarfylgsni höfundar.

15 maí, 2010

Frumsýning - toj, toj


Á þessum degi er hugur okkar Kvisthyltinga hjá tenórnum okkar í Görlitz, austast í Þýskalandi. Þar er hann að frumsýna Der Besuch der alten Dame, ásamt félögum sínum. 
Ekki drögum við í efa, að piltur stendur sig með afbrigðum vel.



Fjörutíu árum seinna

Þessari helgi verður að mestu eytt í að rifja upp lif eða líferni sem átti sér stað fyrir 10 árum minna en hálfri öld. Eftir veturlangan undirbúning skólafélaga í Héraðsskólanum á Laugarvatni, veturinn 1969-70, mun á fjórða tug fyrrverandi unglinga koma saman á Laugarvatni til að rifja upp liðnar mótunarstundir.
Hlutverk mitt í þessum undirbúningi hefur verið tvennskonar:
A. -  að sjá til þess að hópurinn fái tækifæri til að skoða sig um innandyra í Héraðsskólahúsinu og
B. - að tryggja að "pöbbarölt" geti átt sér stað.
Þessum ábyrgðarmiklu hælutverkum hef ég að sjálfsögðu reynt að sinna af kostgæfni, en það verður síðan að koma í ljós hve vel hálfsextugur hópur fyrrverandi skólafélaga lætur að stjórn.
Í hópnum afar minnisgott fólk, og það er ekki laust við að nokkurrar tilhlökkunar gæti, þegar það hefur upp raust sína: "Já, í þá daga gerðist nú margt eftirminnilegt, og það held ég nú. O, jamm og já."

- myndina á, og tók Karl Skírnisson - 

Skólanum stýrði á þessum tíma hinn litríki Benedikt Sigvaldson, ásamt konu sinni (geri ég ráð fyrir) Öddu Geirsdóttur.

------------------------------------------

Leturstærð á bloggskrifum mínum hef ég valið m.t.t. .þess, að lesendahópurinn er að líkindum kominn af léttasta skeiði í sjónarlegu tilliti. Þetta met ég ekki síst þar sem ég sjálfur þarf í sífellu að stækka letrið sem lesa þarf, eins og t.d. hér.
_______________________________

13 maí, 2010

Aldrei nógu gott

Það er í eðli okkar (má reyndar deila um það) að vera aldrei fyllilega ánægð með það sem við höfum. Við ákveðum einhverja stefnu í lífinu, en sjáum þá yfirleitt fljótt að stefna einhverra annarra er líklegast betri. Reynum við síðan þeirra leið, er allt eins líklegt að sú sem við völdum í upphafi hafi hreint ekki verið svo galin, þegar allt kemur til alls.
Það er einmitt vegna þessa þáttar í sálarlífi okkar mannanna sem hægt er að selja okkur hluti af ýmsu tagi; farsíminn sem okkur hefur dreymt um lengi, veitir ekki þá fullnægju sem hann átti að gera, því við höfum séð einhvern vinanna með síma sem hlýtur að vera miklu flottari og betri.

Nú langar mig, samkvæmt því sem hér hefur verið sagt, í nýja myndavél. Ég á svo sem fína vél, EOS400, sem dugir auðvitað. Hinsvegar hef ég verið að taka myndir á EOS550 undanfarið, með þeim afleiðingum, að mér finnst að ég þurfi að fá mér slíka græju. 


Þó fD telji að ég eigi að láta það eftir mér, í stað þess að vera að safna upp í arf handa eftirkomendunum, þá er eitthvað í eðli mínu sem segir að maður eigi ekki að vera að eltast við allt sem er nýtt og betra. Það á síðan í átökum við annað sem segir, svo ekki verður misskilið, að þetta verði hreinlega að gerast.

Á þessari stundu hef ég ekki ákveðið hvað verður úr.
Myndin er úr EOS550 - tekin af vatnsslag á Laugarvatni.

08 maí, 2010

Ég á'etta, ég má'etta?

Til að einhver grunnur skapist að því sem hér fer á eftir vísa ég á það sem ég hef sagt um þetta málefni áður.
Ef það er lesendum ekki kunnugt nú þegar, má reikna með að þeir verði litlu nær.



Þegar menn fá embætti, fylgir það því væntanlega, að þeir sinni embættisskyldum sínum af fagmennsku og trúmennsku við næsta yfirvald, því þeir starfa í umboði þess. Ef um er að ræða embættismenn sem heyra beint undir tiltekin ráðuneyti, bera embættismenn endanlega ábyrgð gagnvart ráðherra og loks þjóðinni, sem veitir ráðherra umboð fyrir tilstuðlan meirihluta á Alþingi. Ég er viss um að við getum öll sætt okkur við að svona sé þessu háttað.

Embættismaðurinn fær í hendur tiltekið vald á ákveðnu sérsviði og þessu valdi fylgir ábyrgð. Ef embættismaðurinn sinnir ekki ábyrgðarskyldum sínum, ber yfirboðari hans ábyrgð á að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þannig er yfirboðarinn einnig ábyrgur fyrir gjörðum embættismannsins og verður að svara fyrir þær.


Hér gæti ég verið að tala um margt. Ég er að fara eins og köttur í kringum heitan graut: hef eitthvað eitt í huga, en kýs að fjalla ekki um það beint, af ýmsum, ótilgreindum ástæðum.



Við lifum nú tíma á þessu landi þar sem embættismenn og ráðherrar eru smátt og smátt að verða uppvísir að því að hafa misbeitt valdi sínu í ýmsum efnum. Hér hefur kannski verið um að ræða að þeir hafð leyft öðrum sjónarmiðum en faglegum, að ráða ákvörðunum sínum. Hér er til dæmis fjallað mál af því tagi sem ég er að vísa til.



Mér vitanlega, er ekkert um það fjallað í lögum eða reglugerðum, að embættismönnum sé heimilt að beita valdi sínu af geðþótta - hygla að vinum sínum eða frændgarði innan valdsviðs síns, eða með sama hætti láta persónulega óvild sína í garð einhverra einstaklinga ráða ákvörðunum sínum. Þvert á móti hygg ég að með því að framkvæma vald sitt með einhverjum svona hætti, séu þeir að brjóta þær skyldur sem embættið leggur þeim á herðar og sem þeir hafa undirgengist.


Fyrrverandi organisti og kórstjóri í Skálholti fagnar um þessa helgi áfanga í lífi sínu. Þetta langar hann að gera með því að efna til tónleika. Hann nýtur til þess stuðnings fólksins sem hann starfaði með hér í uppsveitum  og víðar af Suðurlandi í nánast tvo áratugi, ásamt kórnum sem hann starfar með nú. Æfingar fara fram í heimahúsi í Biskupstungum og tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti.



Fleiri verða orð mín ekki um þetta málefni, að sinni.

07 maí, 2010

En danskboende Kvistholt dreng på besøg

Ætli megi ekki segja að maður sé smám saman að ná betri tökum á afahlutverkinu og vill auðvitað geta stundað æfingar sem mest, en aðstæðurnar eru nú einfaldlega þannig, að bæði afabörnin hafa búsetu á erlendri grund. Þar með er kannski minna um æfingar en ella, en ég ætla ekkert að vorkenna mér það. Það verður bara að nýta vel þau tækifæri sem gefast.
Um þessar mundir fáum við gömlu hjónin tækifæri til að kynnast litla manninum frá Middelfart sem gisti eldlandið þessa dagana, ásamt móður sinni. Það hefur verið harla gaman að umgangast þennan unga svein og upplifa allar þær breytingar sem hafa orðið á honum frá því hann átti síðast leið hingað austur í sveitir.

Þeir sem til þekkja geta skoðað fleiri myndir á stað sem þeir þekkja.
_________________________________
Þetta var svona ánægju "bloggskapur".
________________________________


É ger ekki enn búinn að ákveða hvort ég legg í að skrifa það sem mér finnst þörf á að fjalla um, og sem er af allt öðum og afar alvarlegum toga. Það kemur bara í ljós.

02 maí, 2010

Fór, eftir allt saman

Það var milt veður í dag, skylduverkum lokið og því ekki úr vegi að skella sér í fleiri þúsund króna ferð austur á bóginn. Ekki get ég sagt að öfund í garð íbúa undir Eyjafjöllum hafi verið það fyrsta sem í hugann kom, við að líta grámann sem þarna huldi foldina. Vindur blés og þornuð aska blés inn og um allt, forvitnir ferðalangar gerðu sitt til að þyrla henni upp þar sem hana var að finna í vegköntum.


Fljótshlíðar-, eða Emstruvegur er ekki góður vegur og þar var að finna árkríli sem þurfti að fara yfir til að ná nokkurn veginn þolanlegu sjónahorni að Gígjökli þar sem hraunið breytir ís í vatn á ógnarhraða með tilheyrandi bólstrum. Þar sem ég er ekki fuglinn fljúgandi, varð ég að láta mér nægja að halda mig neðan skýja, sem komu í veg fyrir að gosstrókurinn sjálfur birtist sjónum mínum.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...