24 júní, 2010

Aldeilis hlessa!

"Hvað er þessi bíll að gera í innkeyrslunni?"
Eins og svo oft varð fD fyrri til að veita athygli óeðlilegum þáttum í umhverfinu. Sem fyrr gat ég ekki svarað spurningunni umsvifalaust - beið um stund til að átta mig betur á því sem var að gerast, sem reyndist vera nokkuð sögulegt. Meira um það síðar.

Fyrir nánast nákvæmlega ári síðan gerðist það, gegn spádómum, að ég lét verða af því að fá Jón á Svínavatni til að koma með nokkur hlöss af rauðamöl til að bæta aðkomuna að stórbýlinu. Þetta sá ég ástæðu til að fjalla sérstaklega og eftirminnilega um á þessum vef. Þarna var mjög vandað til verka og fjölmörgum klukkustundum eytt í að jafna brunann sem best um heimkeyrsluna og hlaðið.

Kvistkyltingar voru bara nokkuð ángðir með þetta þarfaverk og það hefur ekki látið á sjá að ráð nema í tvennu tilliti: þegar hB kom til skjalanna í tilefni af því að mikil stífla í frárennsliskerfi óðalsins setti allt á annan endann. Umfjöllun er hér í fjórum köflum og þegar hB kemur heim úr vinnu sinni og gefur óþarflega inn þegar ekið er upp heimkeyrsluna, með þeim afleiðingum að lítilsháttar þvottabretti hefur myndast.
Samandregið  er það fullyrt hér, að aldrei frá því þessi heimkeyrsla var lögð fyrir um það bil 30 árum, hefum nokkur annar en sá sem Kvisthyltingar hafa beinlínis ráðið, á eigin kostnað, til þess að viðhalda heimkeyrslunni, komið að umönnun hennar að nokkru leyti.


"Hvað er þessi bíll að gera í innkeyrslunni?" var spurningin sem varpað var fram í upphafi og skapaði inngang að því sem á eftir fór, á þessum degi. ´


Þessi bíll færðist hikandi upp heimkeyrsluna, og brátt kom í ljós, að þarna var á ferð stærðar vörubíll með pallinn reistan. Hikið var væntanlega vegna þess, að á ferð sinni upp eftir rakst hann óþyrmilega í aspirnar miklu og braut greinar sem teygðu sig heldur langt út yfir veginn. Ferð þessa bíls lauk hér uppi á hlaði og þá kom í ljós, að hann var að sturta ofaníburði, brúngráleitum, ofan á vandlega sléttaðan brunann sem fyrir var.
Orðin sem sögð voru við þær aðstæður sem hér voru uppi, voru fá. Ætli viðbrögðin hafi ekki bara verið þau, að áhorfendum var orða vant. Það fyrsta sem mér datt í hug var, að bílstjórinn hefði fengið rangar upplýsingar og væri að sturta í vitlausa heimreið. Síðan kom spurningin um hvort hér gæti verið um að ræða aðgerð sem átti að eiga sér stað fyrir 29.maí. Svörin voru engin. Brátt birtist gulur veghefill sem heflaði sturtaðan ofaníburðinn vandlega. 
Það vildi svo til að hG átti þarna leið um og gat veitt svör. Hann hafði nefnilega spurt bílstjórann þegar það sama gerðist hjá honum.


Þetta var Vegagerðin að skila af sér.






Það er auðvitað tilefni mikilla vangaveltna, hverju hún var að skila af sér, en á þessu stigi hefur sú umræða lítið upp á sig.


Hér stóðu Kvisthyltingar frammi fyrir samviskuspurningu: Áttu þeir að fagna þessari fagmannlegu aðgerð eða verða viti sínu fjær af bræði yfir átroðslu sem þeir höfðu ímugust á og sem setti litasamsetninguna milli heimreiðar og hlaðs alveg úr skorðum?


Þeir hafa ekki komist að niðurstöðu enn, en í því samfélagi sem við lifum, erum við afskaplega viljug til að vantreysta og tína til það sem betur mætti fara. Er kannski betra að fagna því, að eitthvað er loksins gert, eftir 30 ár?


Svarið fær yfirvegun.

Ósamræmd sumargleði

Það er komið undir lok júnímánaðar og allt í einu stend ég frammi fyrir því að vera kominn í sumarleyfi. Það er ekki laust við að öfund geri vart við sig í garð þeirra kollega minna sem áttu þess kost að yfirgefa vinnustaðinn eins og kýr á vori fyrir mánuði síðan, en það er væntanlega til lítils að vera að velta sér upp úr því. Undanfarnir dagar hafa verið einkennileg blanda af ánægju með mikla aðsókn og depurð vegna þess að við þurftum að vísa talsverðum fjölda umsókna frá. Þessu hafa síðan fylgt símtöl áhyggjufullra foreldra: "En er ekki einhver möguleiki á að gera undantekningu?"
Það þýðir heldur ekkert að vera að velta sér upp úr því. Hver sagði svo sem að maður eigi rétt á að fá allt sem maður vill? Hver sagði að lífið væri dans á rósum?

Eitt það versta við inntökuferlið er ef til vill óvissan um hve mikið er að marka þær tölur sem fylgja umsækjendum frá grunnskólum. Er nemandi með 6,5 frá þessum skóla kannski bara betri í stærðfræði en nemandin frá hinum, sem er með 9, vegna þess að kennarinn í þeim fyrrnefnda gerir meiri kröfur en kennarinn í þeim síðarnefnda?

Samræmt próf voru lögð af, af ýmsum ástæðum. Ein þeirra var sú að þau sköpuðu álag fyrir nemendur. Álag og áhyggjur er eitthvað sem börnin okkar eiga ekki að þurfa verða fyrir. Þau skulu vernduð fyrir öllu illu hvað sem tautar og raular.  Önnur ástæða var sú, að síðasti bekkur grunnskólans fór eingöngu í undirbúning fyrir þessi vondu próf. Það var náttúrulega val skólanna, með hagsmuni nemenda ða leiðarljósi. Er það bara ekki orðið svo nú, að með hag nemenda að leiðarljósi, gefa skólanir þeim háar einkunnir til að auka líkur þeirra á að komast inn í "góða" bóknámsframhaldsskóla til þess að þau geti orðið stúdentar?

Mér finnst vitleysan í þessum málum vera að aukast og vil fá samræmd próf aftur. Það er hreint ekkert að því að 15 ára fólk þurfi að taka einhverja ábyrgð á sjálfum sér. Samræmd próf væri vel hægt að hafa þannig að ekki sé eitthvert tiltekið námsefni að baki. Hversvegna ætti þetta að vera eitthvað meira mál hér en í öðrum löndum þar sem samræmd próf eru lögð fyrir nemendur. Það liggur við að ég gangi svo langt að halda því fram að við séum að ala upp kynslóðir sem halda að það muni alla tíð verða þannig að einhver komi þeim til hjálpar þegar eitthvað bjátar á.  Ég geri það hinsvegar ekki þar sem ekki er ólíklegt, lesendur góðir, að einhver ykkar muni líta á það sem ólíðandi sleggjudóma.

Þar með held ég að ég loki þeim kafla sem liðinn vetur hefur verið og snúi mér að því að vinda ofan af mér í rólegheitum. Þetta byrjar allt aftur í byrjun ágúst.

19 júní, 2010

Grafin kýr og tvíreykt ær

Ekki trúi ég öðru en fólk hafi hváð lítillega við að líta fyrirsögnina, en auðvitað á hún sína skýringu. Ef ekkert er samhengið hljómar þetta nú ekki sérlega vel, en er hreint ekki svo galið í raun.

Æðstu Kvisthyltingunum var boðið til kvöldverðar á Hótel Eddu á Laugarvatni í gærkvöldi. Tilefnið var það sem sjá má bak við þennan hlekk.

Hér var á ferðinni heilmikil upplifun, sem hófst með gönguferð niður að vatni þar sem grafið var upp hverabrauð sem var búið að bakast í heitum sandinum í einn sólarhring. Egg voru síðan sett til suðu í sandinum meðan brauðið var græjað; 10 egg, en aðeins 9 fundust síðan þegar til átti að taka. Þegar allt var síðan klárt fengum við að gæða okkur á heitu hverabrauðinu með smjöri, silungi og eggi. Þessu var síðan rennt niður með kampavíni úr stútbrotnum flöskum (hér var á ferðinni sérstök aðferð sem felst í því, að stúturinn er brotinn af með einhvers konar hníf, og sem ég ætla ekki að reyna að lýsa).

Næst var gengið til kvöldverðar.

Forrétturinn var að mestu fenginn frá kjötvinnslunni á Böðmóðsstöðum: hrossabjúgu, grafið kýrkjöt og tvíreykt ærkjöt. Mér til undrunar bragðaðist þetta bara vel, mjúkt undir tönn og hóflega mikið.

Milliréttur var síðan að uppistöðu til kryddeldaður silungur á beði úr íslensku byggi. Silungurinn hafði verið roðflettur og roðið þurrkað sér og var því stökkt eins og snakk (í fyrsta sinn sem ég borða roð).
Þetta var líka ágætis réttur.

Aðalréttur var síðan lambalæri, sem var hægeldað og því nánast alveg rautt án þess þó að bragðast þannig og afskaplega meyrt, ásamt því sem ég vil nú kalla kartöflumús, en mun heita eitthvað annað á matseðlamáli.

Eftirrétturinn fól í sér sérlega bragðgóðan hundasúruís, einhverja útgáfu af hjónabandssælu og afbrigði af Ab-mjólk með músli - að mig minnir. Allt var þetta hreint ágætt.

Undir borðum léku tveir starfsmenn hótelsins á píanó, og hótelstjórinn, Siggi Rabbi, skemmti gestum með harmonikkuleik.

Þetta var ágætasta matarupplifun.

17 júní, 2010

"Það er smátt sem hundstungan finnur ekki"

Það er líklega nokkuð almennt viðhorf elstu kynslóðarinnar, að hún vill ekki skulda neinum neitt, vill standa sína pligt í hvívetna og getur ekki hugsað sér að taka áhættu eins og þá að mæta með bílinn sinn í skoðun eftir að frestur til þess er liðinn. Þegar bílnúmerið endar á 6 þá skal fara með bílinn í skoðun ekki seinna en í júní, helst fyrr. Í framhaldinu velta menn fyrir sér hvort hugsanlega getur verið eitthvað að bifreiðinni, því það er engan veginn ásættanlegt að eitthvað sé ekki í lagi, jafnvel þótt fararskjótinn geri lítið annað en standa inni í bílskúr. Það verður að huga að öllu því, eins og fyrirsögnin segir: "Það er smátt sem hundstungan finnur ekki."
Þetta orðtak hef ég aldrei heyrt fyrr og finnst það harla skondið, ekki síst í þessu samhengi.

Það liggur fyrir að bifreiðin verður færð til skoðunar í fyrramálið. Vonandi verða hundarnir búnir að sleikja svo mikið að tungan leiti ekki allt uppi.

13 júní, 2010

Oft er það gott sem gamlir kveða

Gestir gamla unglingsins hafa sumir tekið upp á því að skrá niður vísur sem hann dælir upp úr sér við aðskiljanlegustu tækifæri. Hann kveðst hafa lært flestar vísnanna hjá manni sem hét Einar Long, sem var honum samtíða á Hallormsstað, væntanlega á 3ja og/eða 4ða áratug síðustu aldar. Sá maður hafði þann starfa m.a. að spinna ull á stóra spunavél og þá fór hann gjarnan með allskyns vísur eftir sig og aðra, sem sá gamlli telur hafa síast inn í sig smám saman.
Hann fer með þessar vísur við ýmis tækifæri sem gefast, t.d. þegar hann hefur fengið mig til að segja að ég hafi enga samvisku af því þegar hysknir nemendur falla á prófum, þá kemur jafnan þessi fyrripartur:


Samviskuna get ég grætt
og gefið henni sitthvað inn
 - botninn er svona:
en aldrei getur ástin hætt
og af henni stafar kvensemin.
                          Páll Ólafsson


Oftar en ekki þá verður stutt hlé á samræðum og þá skellir hann þessu oftar en ekki fram:


Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða
  -  svona er framhaldið:
sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.
      - ég hef ekki komist að því eftir hvern þetta er, né heldur hvað 'lausakaupamet' er.


Þessi vísa Bólu-Hjálmars heyrist alloft:
Oft hefur heimsins gálaust glys
gert mér ama úr kæti.
Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti.
Sagt er að Bjarni amtmaður hafi upphaflega ort fyrri hluta vísunnar en þá var hann svona:
Margur heimsins girnist glys
og gálaust eftirlæti

...en Hjálmar botnað. Sagt er að Hjálmar hafi síðan ort þennan þegar hann datt á leið úr búð í Grafarósi. Sbr. uppl. úr Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.


Þessa fer sá gamli stundum með:
Latur maður lá í skut,
latur var 'ann þegar hann sat.
Latur oft fær lítinn hlut.
Latur þetta kveðið gat.


Ekki hef ég fundið þessa vísu svona, heldur:
Latur maður lá í skut.
Latur var hann þegar hann sat.
Latur fékk oft lítinn hlut.
En latur gat þó étið mat.



Þessa segir hann vera eftir Guðjón snikkara (Guðjón Jónsson frá Freyshólum, bróðir Magnúsar Jónssonar, afa míns, föður gamla unglingsins), sem skellti henni fram þegar hann var búinn að ljúka skipalæginu á Reyðarfirði:
Loks er bryggjan búin,
bæði skökk og snúin,
dvergasmíði dánumanns.
Þar voru stólpar steyptir
og stöplar niður greyptir,
alla leið til andskotans.

Þessi mun vera eftir Káinn:
Lesið hef ég þitt lærdómsstef þótt ljót sé skriftin
og síst ég efa sannkleikskraftinn
að sælla er að gefa en þiggja - á kjaftinn

Ekki fann ég neitt um þessa, sem oft er farið með, en hlýtur að hafa orðið til á bannárunum:
Andinn er oft í vanda,
yndis er stopull vindur.
Brandur, hvað ertu að blanda?
bindindis jarma kindur.

Ekkert veit ég heldur um þessa:
Það endar verst sem byrjar best
og byggt  á mestum vonum.
Svo er með prest og svikinn hest
og sannast á flestum konum.

Fljótsdalurinn fær heldur á baukinn í þessari, sem ég veit heldur ekki hver orti:
Í Fljótsdalnum er fegurst byggð
á foldar engi,
en enginn maður iðkar dyggð
sem er þar lengi.


Þessar heyrast oft við borðstofuborðið, en upplýsingar um þær fann ég hér:
Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:

Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims. En nú er frá því að segja að í sveitinni var annar bóndi og líkaði illa við prestinn. Hann heyrði þessa vísu og var tæp þrjú ár að læra hana og fór með hana svona:
 Mikið er hvað margir lof ´ann
 að ofan
 menn sem aldrei hafa séð´ann
 að neðan.

Læt ég þessu kveðskaparbloggi lokið, en lesendur mega gjarnan leggja til sögur bakvið vísurnar, þekki þeir þær, svo og, auðvitað höfunda.

Góðar stundir.

10 júní, 2010

Nauðsynlegar forvarnir eða firring nútímamannsins


Á hverju ári eiga sér stað hörmuleg slys hér á landi og annars staðar í veröldinni. Það er ekki síst náttúran  sem reynist okkur skeinuhætt. Með því að mennirnir fjarlægjast náttúruna læra þeir síður að umgangast hana með þeirri virðingu sem hæfir, telja sig jafnvel ósigrandi í umgengni við hana og virðast alltaf verða jafn undrandi þegar þeir átta sig ekki á að hún felur ekki í sér fullnægjandi viðvaranir, áminningar eða andmælarétt. Hún er er jafn miskunnarlaus og hún er fögur.
Hættur felast auðvitað ekki bara úti í náttúrunni, heldur einnig og ekki síður í ýmsu því sem við höfum komið okkur upp sem hin mest viti borna skepna jarðar. Verk okkar eru auðvitað aldrei fullkomin og kalla því að ákveðnar varúðarráðstafanir ef ekki á illa að fara.

Þessi skrif eru auðvitað til komin vegna hörmulegs slyss nýlega, þar sem erlendur ferðamaður lést. Það er fjarri því að það sem ég skrifa hér sé hugsað til að lítilsvirða hann á neinn hátt, né heldur aðra sem hafa beðið bana, eða slasast alvarlega. Slys munu alltaf eiga sér stað, sama hvað við gerum til að koma í veg fyrir þau.

Tilgangur minn er, að velta fyrir mér hvort við erum í raun komin svo langt frá uppruna okkar að það sé orðin þörf á að vara okkur við öllum hugsanlegum hættum sem geta steðjað að okkur. Ég viðurkenni, að það getur verið nauðsynlegt að vara okkur við þar sem ekki er augljós hætta fyrir hendi. Ég spyr hinsvegar hvar menn telja rétt að setja mörkin.

Ég bý í Laugarási, eins og margir vita. Þar rennur um stórfljótið Hvítá. Ég ólst upp í nágrenni við þetta stórfljót, en umgekkst það frá upphafi með nægilegri virðingu til að fara ekki að storka því. Ég veit að áin er köld og straumhörð og að ég á ekki roð í hana. Verður sett skilti upp við hana á næstunni, sem felur í sér þessa viðvörun?

Það er mikið hverasvæði í Laugarási. Vatnið milli 95 og 100°heitt. Gufubólstrar stíga upp af þessum hverum.  Er þetta framtíðin í merkingum á hverasvæðinu?


Þegar ég stend á þverhníptu bjargi hvarflar ekki annað að mér, en að það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ég stíg fram af. Það myndi ég aldrei gera og held að það geri enginn vísvitandi. Verða  öll þverhnípi landsins merkt með þessum hætti í framtíðinni?


Það er hægt að rökstyðja merkingar eins og þær sem eru hér fyrir ofan, þó ég geti það ekki. Mér er hinsvegar spurn hvar á að draga mörkin. Má kannski búast við því, að það teljist nauðsynlegt að setja svona viðvaranir upp við alla vegi landsins?


Mun allt grjót þurfa svona merkingu?:

Mun það teljast nauðsynlegt að setja svona varúðarmiða á bjórdósirnar?:


Ég þykist vita að umræða um varúðarmerkingar í náttúrunni sé að hluta til, í það minnsta til komin vegna ótta við málshöfðanir. "Það var ekkert varað við þessu, og því berið þið ábyrgðina". Við erum smám saman að læra af 'vinum okkar' í vestrinu, að það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum.

Það verða áfram slys af ótrúlegustu orsökum. Þau kallast slys vegna þess að þau eru slys, en ekki gildrur sem eru settar upp til að skaða fólk.

08 júní, 2010

Baráttan um sálirnar

Það er þekkt fyrirbæri að einstaklingar skaði sjálfa sig til þess að yfirgnæfa þannig annan sársauka; reyna að gleyma einhverju sársaukafullu úr lífi sínu. Mér dettur þetta, af einhverjum ástæðum, afar oft í hug þessa dagana. Eina tengingin, í rauninni, er hugsunin um að yfirgnæfa, með öllum tiltækum ráðum eigin fortíð  - fortíð sem er sérlega ófögur og teygir anga sína óþægilega langt inn í nútímann. Hér er um að ræða fortíð spillingar, misbeitingar valds, vanrækslu, sérgæsku, mútuþægni og annarra svipaðra eiginleika, sem enginn, sem ég þekki, efast um að hafi átt stærstan þátt í að svo er komið fyrir þjóðinni sem komið er.

Yfir þessa staðreynd þarf að breiða og hvað er betra til þess en að gera aðra enn tortryggilegri, með því, t.d. grípa til orðskrípa (MÁSGEIT) sem síðan er hamrað á dag út og inn. Flokkurinn hefur notað þessa aðferð frá því ég man fyrst eftir mér, til að  gera lítið úr andstæðingum sínum frekar en halda á lofti eigin ágæti. "Kommi" er löngu orðið sérstakt skammaryrði og notað til að slá niður óþægilegar skoðanir.

Þessa dagana er í gangi mikil herferð til að breiða yfir fyrri misgjörðir Flokksins, flokkseigenda og flokksafsprengja. Þetta er það sem hefur verið kallað "Orrustan um Ísland".

Ég verða að viðurkenna, að ég treysti þessari þjóð minni varla til að muna, þ.e.a.s. gleyma ekki. Hún er þekkt fyrir að sveiflast fram og til baka eftir því hvernig vindar blása.

Það er engin tilviljun, í mínum huga, að liðið sem nú freistar þess að fela fortíð sína með þessum hætti, kemur hrópum sínum og köllum vel á framfæri. Það hefur áratuga reynslu í að sannfæra þjóðina og kann öll trixin og á fjármunina til að halda þessu gangandi.


Silfurhærða konan virðist ekki eiga roð í þetta. Eina vonin er að þjóðin muni og að þjóðin þegi ekki. 

Úrslitin í orrustunni ráðast af því hvort þjóðin man.

05 júní, 2010

118 klikkar

Það stóð þannig á í líðandi viku, að ég þurfti að komast milli landshluta og kaus að ferðast með flugi frekar en nýta mér þjóðvegi. Á Sauðárkrók þurfti ég að komast, en þangað flýgur flugfélag sem kallast Ernir. Ekki ætla ég að fjölyrða um kaup á farmiða, þó það sé í sjálfu sér efni í pistil, heldur bara það sem gerðist að morgni þess dags þegar flugið átt sér stað. Brottför var sett á kl. 08:00 að morgni, sem þýddi að ég þurfti að vera talsvert snemma á fótum. Hélt af stað tímanlega, enda annálaður fyrir stundvísi í hvívetna. Þar sem ég ók niður Grímsnesið, fór að allt í einu að hugsa, sem virðist gerast æ sjaldnar, að því er virðist. "at það hugsanlega átt sér stað, að Flugfélagið Ernir fljúgi frá einhverri annarri flugstöð við Reykjavíkurflugvöll, en Flugfélag Íslands? Það var eitthvað sem olli því að ég fór að hugsa eftir þessum brautum. Mér var það jafnframt ljóst, að ekki hefði ég tíma til að fara að leita að mögulega annarri flugstöð í kringum flugvöllinn. 


Við þessar aðstæður greip ég til þess ráðs að hringja í símanúmerið sem á að leysa öll okkar vandamál: 118. Þjónustunni er lýst svo á já.is:

Við veitum þjónustu allan sólahringinn í símanúmerinu 118 / 1818. Þar færð þú upplýsingar um: 

  •      • Síma-, farsíma- og faxnúmer
  •      • Nöfn og heimilisföng skráðra símnotenda
  •      • Netföng og heimasíður
  •      • Gulu síðurnar
Að auki veita þjónustufulltrúar okkar í 118 / 1818 ýmsar aðrar upplýsingar sem nýtast í dagsins önn.


"118, góðan dag."
"Já, góðan dag. Gætirðu sagt mér hvor Flugfélagið Ernir flýgur frá sömu flugstöð og Flugfélag Íslands?"
"Augnablik......... Hérna hjá mér kemur bara fram, að það sé á Reykjavíkurflugvelli."
"Þú getur sem sagt, ekki fundið út úr þessu?"
"Neiiii... augnablik........... Erna, veist þú hvort... o.s.frv.?"
"Neeeeiiiii -" heyrðist kvenmannsrödd segja í bakgrunni.
"Nei, því miður þetta get ég ekki sagt þér. Á ég ekki bara að gefa þér samband?"
"Jú, takk."
Hér átti ég nú að vera farinn að hugsa dýpra, en vegna aðstæðna minna, frekar seinn, sem sagt, datt mér ekki hið augljósa í hug: að biðja þessa góðu konu að fara á ja.is og sjá fyrir mig á korti hvar téð flugfélag væri til húsa. En hugsun mín náði ekki svona djúpt við þessar aðstæður. 
Nú, þegar klukkan var korter yfir sjö, og ég uppi á Hellisheiði, hringdi síminn sem já konan ætlaði að gefa mér samband við.
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Við getum ekki tekið símann þar sem við erum að afgreiða flugvél. Vinsamlegast hringdu í .....eitthvað annað númer" ..... sem ég síðan hringdi í og þá gerðist þetta:
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Skrifstofan er opin frá kl. 9 til 18 virka daga."

Neyðin kenndi mér við þessar aðstæður, að dýpka hugsun mína, og ég fór með þeim hætt yfir stöðu mála. Niðurstaða þeirra pælinga varð sú, að hringja aftur í 118.
"118, góðan dag."
"Gætirðu gefið mér samband við Flugfélagið Erni?"
"Augnablik..... gjörðu svo vel.."
"Flugfélagið Ernir, góðan dag....."

...og málið leystist þar með. Eins gott að ég fór ekki út að flugstöð FÍ.

Nú er spurningin sem ég hef velt fyrir mér: Hvort klikkaði, ég með því að biðja ekki strax um númerið hjá Flugfélaginu Örnum, eða 118 - konan sem gat ekki fundið staðsetninguna eins og um var beðið.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...