10 júlí, 2010

"Þú segir það, Jón litli, að Guð hafi skapað þig"

Því ber að fagna þegar eitthvað gott gerist. Það geri ég hér með. Ástæðan? Her sláttumanna fór um Laugarás í gær og breytti ásýnd þorpsins í skóginum eins og hendi væri veifað. Bara að þetta gerðist nú oftar. Síðan þetta gerðist hefur ringt látlítið, svo aðstæður hafa skapast fyrir hraðari og öflugri vöxt gróðursins.
Af tilefninu má láta sér detta í hug að gera margt skemmtilegt, eins og t.d. 
- að flytja inn erlenda ferðamenn til að grilla saman í rígningunni
- að flytja loksins myndbandið sem tekið var á Laugaráshátíðinni í fyrra, inn í tölvu og síðan þaðan inn á hátíðarsíðuna.
- að skella sér á tónleika í höfuðborg þess lands er Þjóðverjar byggja.
- að baka heilan helling af kökum.
- að fyllast gleði yfir því að eiga ekki kött.
- að fylgjast með óttalausum maríuerluhjónunum segja ungviðinu til á pallinum. (verst hvað hann er hvítdoppóttur á eftir)
- að fylgjast með lokaleikjum heimsmeistarakeppni (þegar fréttirnar á hinni stöðinni eru búnar að seðja fréttaþyrsta frú)

Það má endalaust tína til aðferðir við að fagna. 

----------------------------

Sumarleyfi felur það oftar en ekki í sér að fólk skiptir um gír og það er nákvæmlega það sem til stendur að gera núna. Næstu vikurnar hef ég hugsað mér að taka mér sumarleyfi frá skrifum á síðu þessa. Auðvitað þykist ég þess fullviss að margir reki upp ramakvein, en það verður svo að vera.  Hvert framhald verður á eftir að leyfinu líkur, verður að ráðast af  ýmsum þáttum, sem skipta mismiklu máli.

ps Fyrirsögnina hef ég eftir gamla unglingnum, sem hefur hana einhversstaðar frá, og beitir alloft. Þegar ég freistaði þess að finna henni stað í veröldinni, komst ég að því að hún kemur einungis fyrir einu sinni á internetinu, en það er í minningargrein, sem var skrifuð 1998, um aldraðan mann. Hinn endanlegi uppruni er þar með óþekktur, enn sem komið er. 
Hver var hann, þessi Jón litli? 
Trúði sá sem þetta sagði ekki á sköpunarkenninguna? 
Var Jón ungur, eða bara smávaxinn? 
Já, hún vekur fleiri spurningar en hún svarar, þessi yfirlætislausa setning.

Lesendum óska ég ánægjulegs sumars án andlegrar upplyftingar frá mér.

08 júlí, 2010

Auðvitað hárrétt

Ástand mála finnst mér kristallast ansi vel í viðtali við sálfræðinginn Kolbrúnu Baldursdóttur og þarf í raun engu við það að bæta. Ekki ætla ég mér að fara að gerast skoðanabróðir Péturs Blöndal, en það er sannarlega rétt hjá honum að ansi margir þegnar þessa lands, sjá ekkert nema naflann á sjálfum sér. Við erum að því er virðist ófær um að líta til þess hvernig kjörum annarra en okkar sjálfra er háttað - hætt að finna til samkenndar nema þá með einstaka: "OMG hvað þau eiga bágt!" - síðan höldum við áfram að skoða naflann á okkur, í litla heiminum okkar.

Það sjá allir, að með slíku áframhaldi tekst okkur aldrei að ná lendingu. Hér verða að koma til málamiðlanir, því það á enginn að sleppa við óhjákvæmilegar byrðar. Auðvitað finnst mér að þeir sem fóru á neyslufyllerí eigi að sitja uppi með sinn skerf; að frekar eigi að koma til móts við þá sem tóku lán til eðlilegra hluta - húsnæðis fyrir fjölskylduna t.d., en ég geri mér grein fyrir að þar eru stór grá svæði.

Það mikilvægasta í öllu finnst mér að skaðvaldarnir fái makleg málagjöld, ekki þeir sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður, en mér sýnist að naflaskoðararnir séu alveg búnir að gleyma hverjir þessir skaðvaldar voru.

04 júlí, 2010

Kvartsýki? Já - Skiljanleg? Já (ef þér er ekki sama)

Þetta hef ég áður fjallað um á þessu svæði. Ég hef ekki bara kvartað, eins og hér, heldur einnig fagnað og þakkað fyrir eins og hér

Því skal ekki neitað að það mjakast í áttina að því að vera þolanlegt, ástand umhverfismála á opnum svæðum í Laugarási. Ég neita því ekki að ég var undrandi og glaður fyrir kosningar í vor þegar einhver tók sig til og keyrði mold í svæðið milli götunnar og nýju gangbrautarinnar gegnum Laugarás. Ekki minnkaði undrunin þegar ég komst síðan að því dag einn, að það átti að tyrfa yfir moldina, en ekki bara sá í þetta. Að vísu hef ég sjaldan séð önnur eins vinnubrögð við að leggja þökur, en þarna komu þær.  Já nú var greinilegt að hér stóð til að sinna umhverfinu eins og gert í öðrum þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins.



Til að byrja með taldi ég að seinlætið við að byrja slátt á nýju þökunum væri faglegs eðlis: þær þyrftu að ná rótfestu (sem var nú varla tilfellið, þar sem þökunum hafði bara verið hent yfir moldina og ekkert hirt um að sjá til þess að samband myndaðist milli þeirra og moldarinnar sem undir var). Það var ekki fyrr en í vikunni fyrir þjóðhátíðardaginn að hér birtist hópur manna og sló allt þvers og kruss. Ekkert nema gott um það að segja, ef framhald hefði orðið á, eins og vonir stóðu til. Nú er kominn 4. júlí og gróður vex sem aldrei fyrr í blíðunni. Ég tók mig til og myndaði ástand mála á nýju þökunum, þar sem  nú spretta upp fíflar, njóli og annar gleðieyðandi gróður. Þótt mér þyki það miður þá verð ég að geta þess að þessi er ekki raunin í hin tveim þorpunum í Bláskógabyggð og velti því fyrir mér hversvegna svo er.  Það veit ég með vissu, að þegar fyrsti sláttur fór fram hér rétt fyrir 17. júni var þegar búið að slá þrisvar á Laugarvatni. Mér finnst hreint ekkert að því, ef það sama væri uppi á teningnum hér.

Nú kemur mér þetta svo sem ekkert meira við, en öðrum íbúum í þessu þorpi og veit ekki hvort þeir eru eitthvað að gera til að þrýsta á úrbætur í þessum efnum okkur til handa. Það verður bara að hafa sinn gang.
Ég sé ekki fram á annað en að ég verði að fara að óska eftir að sjá samning þann sem var gerður við sláttufyrirtækið í vor. Þar ætti þessi mismunun þorpa(ra)nna að birtast svart á hvítu.

Það er líka margt fallegt í Laugarási



Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (2)

Kökusneiðarnar fjórar voru komnar á borðið eftir að hafa verið hitaðar í örbylgjuofninum. 15 mínútur liðnar frá pöntun. Konan tók, eftir nokkrar vífilengjur við þessar aðstæður, fram rjómasprautu (svona þrýstikútssprautu), hristi hana nokkuð áður en hún mundaði hana til að setja rjóma á kökudiskana.
Allt byrjaði það vel: brublubrrrstbrublets - þeyttur rjóminn lagðist á diskinn við hlið fyrstu kökusneiðarinnar, og síðan hinumegin við hana einnig. Þá var komið að næstu sneið: brublubrrrtissbrub tisstissbrutisstisístisssssss - eitthvað var farið að minnka í sprautunni. Hér hóf konan að hrista hana og reyndi aftur: brutissbrtissssssssssssssss - hristi áfram: brtisssssssssssss - og áfram: btisssssssssssssssssssss. Hún hristi svo rækilega að allur líkaminn tók þátt í því, þannig að hárið var farið að losna úr hnútnum og lagðist  fyrir andlitið: tiss tiss tisssssssssssssss. Sprautan galtóm og gasþrýstingurinn fjaraði smám saman út.
Nú tók við allnokkur tími sem fór í að snúast í hringi og ganga, að því er virtist stefnulaust fram og til baka.
"Þið megið ekki gleyma að skrifa í gestabókina", sagði hún allt í einu upp úr eins manns hljóði. 
"Nei, nei" við héldum nú ekki.
Nú upphófst aðgerðin nýr-rjómi-og-gas-í-sprautuna. Hún var lengri og fjölþættari en svo, að ég geti farið að lýsa henni nákvæmlega. Í stuttu máli hellti konan nýjum rjóma í sprautuna og síðan setti hún þrýstihylkið á og skrúfaði þar til þrýstingurinn úr því fyllti sprautuhylkið. Þessu fylgdu ýmsar hliðaraðgerðir. Hér var að verða hálftími liðinn frá því útlendingarnir fjórir pöntuðu sér 4 kökusneiðar með kaffinu. Þar kom að einn þeirra kom upp tröppurnar, augljóslega til að athuga hvort einhver von væri til að kökurnar kæmu.  Í þann mund er hann kom inn í kaffihúsið var konan að ljúka við að festa þrýstihylkið á sprautuna og hóf að hrista hana af svo miklum ákafa að mér datt í hug hvort þrýstihylkið væri bara ekki alveg óþarft. Hárið var nú allt komið í óreiðu og sviti perlaði á enni. Gleraugum höfðu sigið, skökk, neðar á nefið. Við að upplifa þessar aðstæður virðist útlenska kökukaupandanum verða ljóst, að það var verið að vinna hörðum höndum í afgreiðslunni og sneri aftur út án þess að segja orð.
"Má ekki bjóða ykkur ábót?" sagði konan, en við vildum ekki fara að flækja líf hennar með slíku óþarfa vafstri, enda dugði okkur alveg einn bolli af ágætu kaffinu.
Þegar nóg hafði verið hrist, fór konan að vaski í eldhúsinu til að prófa hvort rjóminn væri þeyttur. Sem betur fer virtist svo vera og hún hófst handa við að setja rjóma með kökunum þrem sem eftir voru. Nú var þrýstingurinn hins vegar heldur mikill svo rjóminn lagðist helldur ólögulega með sneiðunum - í stóra, klessulega bingi, en hvað um það, svona skyldi þetta vera. Kökudiskarnir voru lagðir einn af öðrum á afgreiðsluborðið og súkkulaðispæni dreift yfir. Þessu næst tók konan tvo diska og bar þá út til gestanna, kom upp aftur og fór með hina tvo sömu leið. Hér voru liðnar nálægt 40 mínútur frá því fjórir útlendingar höfðu lagt inn pöntun á  fjórum kökusneiðum.
Konan varð léttari í fasi þegar diskarnir höfðu verið afhentir. Við sáum ekki ástæðu til að dvelja þarna lengur, enda kaffið búið og tilgangnum þar með náð. Risum á fætur og skráðum nöfn okkar skilmerkilega í gestabókina, gerðum upp skuldir okkar og gengum út í sumarið. Fyrir framan kaffihúsið var fjaran þar sem æðarfuglar lágu með höfuð undir væng. Fjórir kaffilausir útlendingar með rjómasprautaðar kökusneiðar fyrir framan sig, sátu undir húsveggnum og ræddu sín á milli. Hvert umræðuefnið var, skal ekki fjölyrt um.
Okkar beið ferð á næsta áfangastað sumarferðarinnar.

------------------------------
Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

03 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (1)

Það vor 4 erlendir ferðamenn sem stóðu við afgreiðsluborðið þegar við fD gengum inn í fyrrverandi barnaskóla, sem nú hafði verið breytt í kaffihús. Okkur langaði í kaffibolla. Afgreiðslumanneskjan, sem var kona á tæplega miðjum aldri, skolhærð með hárið fest í lauslegan hnút, með gleraugu með þykkum, dökkum umgjörðum og dálítið óvenjuleg í fasi, sem raunar skiptir engu máli í þessari umfjöllun, auðvitað, stóð fyrir innan afgreiðsluborðið og brást við spurningum ferðalanganna með einhverjum hætti sem ég heyrði ekki, en þar sem hún benti þeim á kæliskáp, merktan gosdrykkjafyrirtæki, þar sem sjá mátti kökusneiðar á diskum, sem búið var að setja filmuplast yfir, virtist ljóst að þeir höfðu í hyggju að fá sér kaffi og með því.  Þeir stóðu um stund fyrir framan kæliskápinn og bentu á hina og þessa diska, og spurðu einhvers, sem konan svaraði. Meðal annars heyrði ég að einn þeirra, í það minnsta vildi fá sér capuccino, enda blasti vél til þess arna við fyrir aftan afgreiðsluborðið. Ég hafði einmitt hugsað mér að fá mér capuccino. Nei, því miður var vélin biluð. Þarna voru kökur valdar og síðan benti  hópurinn út og gaf þannig til kynna að þau vildu sitja utandyra við að njóta kaffis og kakna. Gengið frá málum og hinir erlendu gestir gengu út til að njóta veðurs og útsýnis.
Upp að innganginum í gamla skólahúsið lágu tröppur, ein 10 þrep og í þeim, til beggja handa, hafði verið komið fyrir steinum sem höfðu verið málaðir með einhverjum fígúrumyndum. Í skoti fyrir neðan tröppurnar var tjaldstæðisborð þar sem hægt var að sitja í góðu veðri. Þegar inn var komið tók á móti manni nokkuð vistlegur salur, vönduð húsgögn og á veggjum ljósmyndir, aðallega af eldgosunum tveim, sem voru til sölu á 20 til 30 þúsund. Mér þótti ljóst að þarna væri eiginmaður konunnar að selja myndir sýnar. Gæti svo sem alveg eins verið bróðir hennar. Hvað veit ég?  Á miðju gólfi var stórt borð þar sem gestabók dró að sér mesta athyglina, að öðru leyti var þar að finna eitthvert handverk, sem var til sölu. 
Þegar erlendu gestirnir voru farnir út hófst konan handa við að útbúa pöntun þeirra, en þá fannst mér strax að ýmsu mætti hagræða betur til að afgreiðslan gengi vel fyrir sig. Það fór meiri tími í að ganga fram og til baka og snúast í hringi, en að drífa í að græja pöntunina með markvissum hætti.
Ekki gerði konan sig líklega til að sinna okkar þörfum, en nú vorum við þarna ein með henni innandyra. Þar kom þó að við vorum búin að skoða allar eldgosamyndirnar og tókum okkur sæti við stórt borð við hliðina á öðru stóru borði þar sem fólk hafði lokið við að snæða og var farið, en diskar með matarleifum höfðu ekki verið fjarlægðir.
Loks kom konan til okkar eins og út úr miðjum einum hringsnúningnum og tók pöntun okkar, náði í kaffibolla, mjólkurkönnu og molakar og setti á borðið fyrir framan okkur. Svo leið og beið og hún hélt áfram að tína kökudiska út úr kæliskápnum og setja inn fyrir stóra lúgu bak við afgreiðsluborðið. Fyrir innan lúguna, sem var um það bil 1,50 á breidd og 60 cm hátt, blasti eldhúsið við, þar sem allt virtist vera talsvert óskipulagt: diskastaflar við eldhúsvask og pottur á rafmagnshellu, greinilega lítið laust borðpláss fyrir innan lúguna, því konan þurfti þó nokkrar tilfæringar við að kom kökudiskunum 4 fyrir.
Þar kom að það heyrðist uppáhellingarlokahljóð frá kaffikönnu í eldhúsinu og skömmu síðar fengum við kaffi í bollana. Alveg ágætis kaffi sem tók í. 
Þegar hér var komið voru liðnar um 10 mínútur frá því útlendingarnir fóru út. Kökurnar komnar úr kæli og framundan næsti liður aðgerðarinnar. Milli þess sem hún snérist, setti konan hvern kökubitann af öðrum í örbylgjuofn til að taka úr þeim mesta kuldann. Því næst hófst hún handa við að fjarlægja filmuplastið að diskunum og senn 15 mínútur frá því pöntunin var gerð.

Það var hérna sem upphófst sérkennilegasti hluti afgreiðsluferlisins. Við fD sátum með kaffið okkar og fylgdumst nokkuð grannt með því sem fram fór.

Frásögn af því bíður næsta hluta.
--------------------------------------------------

Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...