24 september, 2010

Ragnarsheilkenni

Í hópum myndast of tiltekin stemning sem verður að viðtekinni skoðun þeirra. Við þekkjum það t.d. frá því þegar lagðar eru fram tillögur á einhverjum fundum og allir teygja hönd til himins til merkis um að þeir samþykki tillöguna. Þetta gera þeir ekki endilega vegna þess að þeir séu svo óskaplega sammála tillögunni, heldur vegna þess að þeir vilja ekki vera öðruvísi en hópurinn sem þeir samsama sig við. Yfirleitt er það einhver leiðandi sem uppdiktar og leggur fram tillöguna. Þarna verður til ákveðinn hópþrýstingur.
Fyrirbæri af sama toga á sér stað á fésbókinni þegar einhver setur af stað hóp til að mótmæla einhverju, eða lofa eitthvað. Eins og hendi sé veifað drífur allskonar fólk sig til að skrá sig  sem lækara á viðkomandi síðu. Svo bara ekki söguna meir. 
Enn svipað má finna þar sem lagðir eru fram undirskriftalistar til að mótmæla einhverju að reyna að fá eitthvað fram.
Þá er ónefnt dæmið, þar sem skorað er á þjóðina að mótmæla ófremdarástandinu í kjölfar hrunsins. Fólk keppist við að tjá sig með stórkarlalegum hætti um það hroðalega ástand sem ríkir og kallar eftir byltingu. En heldur svo bara áfram að verma leisíbojinn sinn.

Það sem ég hef nefnt hér að ofan á það sameiginlegt, að í engu af dæmunum þurfa þeir sem tjá skoðun sína að standa við hana með einhverjum áþreifanlegum hætti. Þeir rétta upp höndina, smella á læk takkann, skrifa nafnið sitt á einhverri bensínstöð eða skrifa skammarræðu á fésbókina eða í bloggið sitt.

Fjölmiðlar nærast á þessari vitleysu allri. Við viljum alltaf fá einhverja sensajón. Sensasjón selur áskrift, en bara í skamman tíma hver. Þá þarf að koma ný sensasjón, sem við getum hneykslast á.

Þetta er nú bara Ísland í dag og ekkert meira um það að segja, nema ef vera skyldi vegna þess, að nú stöndum við frammi fyrir því, að löggjafarsamkundan virðist ekki vera neitt skárri að þessu leyti en pöpullinn almennt. Þegar svo er komið er vond staða uppi.  Það verður ekki annað séð, en samhljóða samþykkt Alþingis um að setja sérstaka þingnefnd í að athuga hvort líkur væru á að tilteknir ráðherrar hefðu gerst brotlegir í aðdraganda hrunsins, hafi verið af sama toga og óheflaðar athugasemdir ábyrgðarlausra fésbókarvina.  Var þetta eitthvað annað en hreinn popúlismi? Treystu menn því að samtryggingin yrði svo mikil að það myndi aldrei koma til, að nefndin sem skipuð var, kæmist að "rangri" niðurstöðu? Það verður ekki annað séð. 
Þegar ljóst var að lagt var til að ákæra einhvern hófst leitin að leiðum út úr málinu. Pólitískir forystumenn kváðu upp úr með einhverja vitleysu, sem var þvert á það sem þeir áður ákváðu áður og í kjölfarið hóf hjörðin að tyggja sama gumsið.

Ég neita því ekki, að ég skipti skapi þegar svona gerist. Ég blogga hér með um skoðun mína og reyni að nota hóflegt orðfæri. Ég lofa því hinsvegar ekki (hér og nú) að ég sé tilbúinn að fylgja orðum mínum eftir á öðrum og víðari vettvangi.

Þetta er dapurlegt ástand hjá einni þjóð, að mínu mati.

18 september, 2010

Raunverulegt fornrit - 238 ára

Þetta rakst ég á í dag.

Sagan af Njáli Þorgeirsyni og sonum hans.
Útgefin eftir gömlum skinnbókum
með konunglegu leyfi

Prentað í Kaumannahöfn 1772 
af Jóhann Rúdolph Thiele



Holar Laugarásdropinn steininn?

Meðfylgjandi er ástand nýju graseyjunnar í Laugarási eins og búast má við hún fari inn í veturinn.

Mér þykir þetta miður.

Nú er bara að vona að samningar nýrrar stjórnar sveitarfélagsins við sláttufyrirtæki verði með öðrum hætti næsta sumar.

Mér telst til að það hafi verið slegið þrisvar á þessu sumri.


Þvottasnúruklemman

Þetta er dagurinn sem Kvistholtsbóndinn tók sig til og fór gönguferð um landareign sína. Veðrið? Því verður nú best lýst með orðum fD: "Það er bara sólbaðsveður!"
Vissulega fer það ekki framhjá mér, að það er komið haust, þótt seint sé, en blíðan er með eindæmum og kjörin til að fara í lítinn skógartúr til að kanna hvernig gróðurinn hefur verið að þróast frá því síðasta ferð af þessu tagi var farin fyrir einum 4-5 árum.
Fyrst lá leiðin inn í Sigrúnarlund, en þar veður furan áfram í kapphlaupi við sjálfa sig. Inni í lundinum næst sama tilfinning og þegar gengið er í skógi, merkilegt nokk.
Ég gekk út úr lundinum til suðurs í átt að landamærum Kvistholts og Lyngáss, eftir Ingibjargarleið svokallaðri. Ingibjargarleið hefur verið lokuð frá því nýir nágrannar settust að í Lyngási, sem breytir svosem ekki miklu þar sem engin eru skólabörnin lengur á bænum til að stytta sér leið í skólabílinn. Sem ég geng þarna í suðurátt sem fyrr segir, blasir auðvitað við mér girðingin mikla sem reist var fyrir nokkrum árum, en nú var orðin breyting á. Kvistholtsmegin við girðinguna, sem sagt inni á landi Kvistholts, var nú komin þvottasnúra nágrannans, sem ég hef reyndar aldrei séð. Við þessa sjón snarstansaði ég og umsvifalaust hófust vangaveltur mínar um hvernig brugðist skyldi við. Átti ég að grípa til þess sama og um daginn þegar Pólverjarnir voru mættir í Kvistholtsland til sveppatínslu og ég fór út og kom þeim í skilning um að þeir væru á 'prævit proppertí'? Eða átti ég að halda áfram könnunarleiðangri mínum um Kvistholtsland?
Það sem mælti með því að ég gerði hið fyrrtalda var auðvitað sú grundvallarstaðreynd, að nágranninn var farinn að nýta mína landareign í eigin þágu, án þess að biðja um leyfi, hvað þá greiða leigu fyrir afnotin. Þarna mátti velta fyrir sér hvað kynni að gerast í framhaldinu. Mátti ég búast við því, t.d. að hann færi að koma fyrir þarna öðru því sem hann vildi ekki að sæist frá pallinum hjá sér? Var þetta bara byrjunin á frekari innrás hans?
Það sem mælti með því að ég gerði ekkert að svo stöddu var, að það við svona aðstæður er hægt að velta fyrir sér hvaða máli það skiptir að verja land sitt með kjafti og klóm með öllu því veseni sem það kann að leiða af sér. Þá velti ég fyrir mér hverju það breytti fyrir mig, að þarna væri komin þvottasnúra ókunnugra inn á þann hluta landareignarinnar sem ekki sést frá pallinum og sem ég ken sárasjaldan á.

Niðurstaðan: Jú, það er vissulega óþægilegt að einhver taki sig til og skelli þvottasnúru inni á landi sem telst tilheyra mér. Það er verið að fara inn á mína einkalóð, með ákveðnum hætti og í leyfisleysi. Hinsvegar má líta þannig á, að þetta breyti engu fyrir mig til eða frá, ef frá er talið að þarna er um að ræða ákveðið virðingarleysi. Að fara að gera eitthvert mál úr þessu þætti mér frekar smásálarlegt og kannski gera minna úr mér, en nágrannanum.

Ég ákvað því, á þessu stigi máls, að gera ekkert frekar í málinu, og hélt könnunarleiðangri mínum um landareignina áfram. Ég uppgötvaði að gróðurinn er að spjara sig vel og síðustu sumur hafa stuðlað að því að á köflum er landið orðið erfitt yfirferðar fyrir þéttum trjágróðrinum. Það blasir hinsvegar við, að framundan er að planta miklu meira af trjám efst á holtinu. Þar hafa afkvæmin á góðri stund, rætt um að koma sér upp sumarhúsi á norðurslóð, en eins og staðan er nú, virðist það nokkuð fjarlægt.

"Þú verður bara að skrifa honum", sagði fD þegar hún frétti af þvottasnúrunni.

17 september, 2010

Minningabókavísur - fornrit

Einhvern veginn birtist, fyrirvaralaust, glósubók á eldhúsborði gamla unglingsins. Þegar henni var flett kom margt í ljós, sem virðist engan veginn fara saman. Þar á meðal voru uppskriftir af hinu og þessu, ýmsir listar, dagbókarskráningartilraun og fleira og fleira, eins og t.d. minningabókavísur (allavega eru einhverjar þeirra þess eðlis). Mér finnst ég ekki hafa skrifað þær þarna niður, og er nánast viss um að svo er ekki, þó mig gruni að ég eigi þarna dagbrókarbrot og langur listi yfir vísur, ljóð og sögubækur. Þessi bók er frá því á árunum 1966-69 að mér sýnist.

Ég ætla að skella þessum vísum hér, þó þær séu sjálfsagt flestar vel þekktar þeim sem á annað borð eru komnir til vits og ára. Ég "gúkkla" þær (þetta er frb. gamla unglingsins) og get höfunda ef ég finn þá.

Gleymdu aldrei gömlum vin
þótt aðrir gefist nýir. 
Þeir eru eins og skúra skin,
skammvinnir og hlýir.
(fannst ekki)

Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)

Ég bið af hjarta, vina mín,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.

Eins og allir sjá, þá gengur þetta nú ekki alveg upp þar sem stuðlasetning er röng og einnig rímið.
Vísuna fann ég og þá var hún svona og heldur skárri að formi til, allavega.:


Ég bið af hjarta, barnið mitt,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.
(höf. ekki getið)

Varaðu þig á veginum,
víða er hann sleipur.
Er dimma tekur deginum
dettur sá sem hleypur.

Þessi fannst svona á vefnum og mun vera gamall húsgangur:

Drjúgum hallar deginum
dettur sá er hleypur.
Varaðu þig á veginum
víða er hann sleipur.
Mig grunar að hér hafi ég ætlað
að hefja dagbókarskrif.

Vorið kemur, vegir skilja,
vökna tárin, fölnar kinn.
Og ég bið að blessað vorið
blómum strái á veginn þinn.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Í þeim fagra fjallasal 
fékkstu menninguna.
(fannst ekki - þetta er góðubarnaútgáfan)

Allt sem gleðin geymir
gangi þér í hönd.
Bíði þín í fjarska
fögur draumalönd.
(fannst ekki, enda varla von - þvílík steypa)

Sæt er ástin, satt er það,
sérstaklega fyrst í stað, 
svo er hún svona sitt á hvað
og súr, þegar allt er fullkomnað.
(vísan fannst en ekki höfundur)

Sæt er heit og saklaus ást
sárt er hana að dylja.
Eins og það er sælt að sjást,
sárt er líka að skilja
(Páll Ólafsson)

Á Laugarvatni í Laugardal
læðast menn um nætur.
Í þeim fagra fjalla sal
fólkið illa lætur.
(fannst ekki)

Vendu þig á að vera stillt
vinnusöm og þrifin.
Annars færð þú engan pilt
ef þú gengur rifin.
(fannst en ekki höf. - góð ráð til ungra stúlkna :))

Mundu héðan allt og alla,
ég man þig ef þú manst mig.
Í haust, er lauf af greinum falla
ég vona að hann hitti þig.
(fannst ekki - ekki heldur von)

Vertu gætin, vertu stillt
vina mín, þótt sjáir pilt.
Horfðu ekki á glerið gyllt
það getur stundum sjónir villt.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(fannst ekki - svona minningabókaútgáfa)

Fylgi gæfan fagra þér
fram, um veginn bjarta.
Blærinn ætíð beri þér
bestu ósk míns hjarta.
(úff - fannst ekki)

Vertu sæl og þakka þér
þessa liðnu daga.
En þeir hafa orðið mér
eins og ævisaga.
(fannst ekki og ekki von)

Brautin þín verði bein og greið,
brosi þér sólin móti.
Verði öll þín ævileið
umkringd vinahópi.
(leitaði nú ekki einu sinni að þessari)

Ofurlítið ástarbrall
hann mun vilja reyna.
Það getur orðið henni meira fall
en má í fyrstu greina.
(ha ha ha  - þvílíkt!)

Þetta gat nú varla verið svona, enda fann ég vísuna, sem er sögð eftir Guðríði Björnsdóttur, sem var lengi húsfreyja í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi.

Ofurlítið ástarbrall
allir vilja reyna.
En það er mörgum meira fall
en má í fyrstu greina.

Auðtrúa þú aldrei sért,
aldrei tala um hug þinn þvert.
Það má kalla hygginn hátt
að hugsa margt en tala fátt.
(Hallgrímur Pétursson)

Þó að kali heitur hver
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda Rósa)

Aldrei skaltu nota púður,
aldrei skaltu reykja fýl/fíl?
Aldrei hlusta' á ástarslúður,
aldrei kyssa strák í bíl.
(fannst ekki - en þessi er sérstök þó ekki sé nú rétt)

Að hryggjast og gleðjast
hér um lífsins (fáa) daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
(Páll J. Árdal - fáa mun vera rétt)

Þó að leiðin virðist vönd
vertu aldrei hryggur.
Það er eins og hulin hönd
hjálpi' er mest á liggur.
(fannst en ekki höf.)

Ég kveð þig, kæra vina,
svo klökkur í hinsta sinn.
Þig Guð og gæfan geymi
og greiði veginn þinn.
(fannst ekki - sniff sniff)

Nú kveðjum við skólann og höldum héðan 
     og hugsandi spyrjum við að:
"Komum við aldrei á ævinni hingað 
     aftur á þennan stað?
Fáum við aldrei aftur að líta 
     alla sem dvöldust hér?"
Þessi spurning er ofar öllu 
     öðru í huga mér.
(fannst ekki)

Þó þig leiki lífið grátt 
og lítið veiti gaman,
saltu bera höfuð hátt
og hlæja' að öllu saman.
(fannst ekki)

Ef þú eignast eiginmann
og ótal marga krakka
mundu þá að það er hann / Hann
sem þú átt allt að þakka.
(fannst ekki - spurning hvort 'hann' á að vera með stórum staf, með trúarlegu ívafi, eða bara með litlum og þá með talsverðum karlrembutóni)

Það er skemmtilegt að geta þess, að þær vísur sem fundust á vefnum voru flestar hluti af minningagreinum, sem segir margt um dramtíkina sem einkennir unglingsárin.

Ég þykist viss um að engir nema algerir nördar hafa lesið hingað niður. Það er í góðu lagi því ég setti þetta hér svona til minnis.






12 september, 2010

Trúarleg afskipti (kannski 1)

Það hlýtur eiginlega að vera, að tilraunir til kristilegs uppeldis á mér, hafi skilað einhverju, þar sem það varð hlutskipti mitt að eiga í talsverðum samskiptum við kirkjuna lengi vel. 


Ég var ekki fyrr búinn að ljúka stúdentsprófi, en ég réði mig sem kennara í Lýðháskólanum, sem þá var tiltölulega nýtekinn til starfa, Hann átti að starfa í anda lýðháskóla á Norðurlöndunum og gerði það sannarlega fyrstu árin. Árið sem ég var þarna kennari um tvítugt, var einstaklega ánægjulegur tími og varð til þess að ég ákvað að leggja það starf fyrir mig. Þarna voru nemendur á aldrinum 16 ára til tvítugs auk þess sem skólinn tók að sér kennslu nemenda í efsta bekk grunnskólans í sveitinni. Þarna var skólastjóri sr. Heimir Steinsson. Hann nálgaðist starf sitt með afskaplega mannlegum og kreddulausum hætti og því varð þarna til afar skemmtilegt samfélag.
Það átti ekki fyrir lýðháskólanum að liggja að verða langlífur. Ástæðurnar? Það er sjálfsagt ekki auðvelt að fullyrða neitt um það, en tvennt kemur mér í hug. Annarsvegar má nefna þá tilhneigingu (félagsmálayfirvalda eða foreldra) að senda unglinga sem lent hafa á rangri braut, í skóla úti á landi. Þegar það gerist minnkar sjálfkrafa aðsókn þess markhóps sem skólinn hefur. Hin skýringin sem ég vil nefna, og ég treysti mér ekki að fullyrða um hvort var orsök eða afleiðing, er að kirkjan sóttist eftir meiri áhrifum á innihald námsins. Þetta birtist t.d. í því að efnt var til svokallaðs leiðtoganáms, sem ég veit ekki nákvæmlega í hverju fólst - væntanlega var því ætlað að þjálfa ungt fólk til að verða leiðtogar í æskulýðsstarfi kirkjunnar.


Eftir nám í höfuðborginni kom ég til baka og hóf fyrst kennslu í Reykholti í ein 7 ár. Ekki löngu eftir að við fluttum í Laugarás var ér kosinn í sóknarnefnd í Skálholtssókn og þar var ég í einhver ár. Það var á þeim tíma þegar ákveðið var að ráðast í að útbúa nýjan grafreit fyrir austan kirkjuna og að ráða nýjan organista. Eins og svo margt í Skálholti, var (og væntanlega er) staða sóknarnefndar dálítið sérkennileg. Skálholtsstaður laut stjórn sem sat fyrir sunnan, eins og sagt var. Kirkjuráð vélaði um málefni staðarins og hafði mest með það að gera hvað var gert á staðnum og hvernig. Það var með ýmsum hætti sem sóknarbörn í Skálholtssókn höfðu, eða gátu ekki haft, áhrif á það sem gert var. Ég held að megi segja, að sóknarnefnd hafi haft einhverskonar tillögurétt í flestu, en engan ákvörðunarrétt. Nefndin mátti ráðskast með mál sem harla litlu máli skiptu í heildarsamhenginu, eins og t.d. ræstingu á kirkjunni. Fyrir hönd þeirra fyrir sunnan var í Skálholti staðarráðsmaður, sem hafðu umsjón með því sem þar fór fram, sem ekki taldist til starfsemi kirkjunnar sem slíkrar.  Ég vil nú eiginlega ganga svo langt að segja, að stór hluti íbúa í Skálholtssókn hafi upplifað sig og upplifi sig enn, sem áhrifalitla í málefnum sóknarkirkju sinnar, og að þeim hafi fundist, frá því dómkirkjan reis, þeir vera hálf utangarðs. Það hafa meira að segja heyrst raddir um að réttast væri að reisa sérstaka kirkju í sókninni - en það hefur nú aldrei farið hátt eða langt, kannski vegna þess að trúarþörf íbúanna á svæðinu er virðist ekki vera sérstaklega mikil. Hvort vegur meira, trúarþörfin eða áhrifaleysið, skal ég ekki um segja.
Hvað sem því líður má segja, að andinn meðal fólksins hafi verið sá, að Skálholt tileyrði einhverjum öðrum frekar en okkur. Að mörgu leyti er þetta eðlilegt, hér er um að ræða eign þjóðarinnar allrar og einn merkasta sögustað landsins. Þrátt fyrir það er ég nú þeirrar skoðunar, að staða Skálholts væri í engu lakari en hún er, með því að hafa hleypt þeim sem búa á eða í nágrenni staðarins meira að ákvörðunum en reyndin er.  Stjórnarnefnd í höfuðborginni er ekkert endilega best til þess fallin að ákvarða um hvernig málum er best komið á staðnum.
Enn er ótalin aðkoma mín að málefnum staðarins , sem stóð frá síðari hluta níunda áratugarins þar til hrunárið 2008. 
Hvernig ég fer í það mál, verður að koma í ljós.

10 september, 2010

Þverstæð þjóð


Mannréttindi eru í hávegum höfð, málfrelsi á að vera skilyrðislaust, nýjungum er tekið opnum örmum, lýðræðisástin blómstrar, allir skullu njóta réttlætis og réttlátrar málsmeðferðar, það er upplýsingaskylda stjórnvalda, andmælaréttur við ákvörðunum stjórnvalda, hver maður getur tjáð sig, í stórum dráttum, eins og honum lystir. Hömlur á þegnunum eru líklega með því minnsta sem gerist.

Pólitísk rétthugsun er að drepa allan frumleika, opinberar persónur mega ekki segja neitt rangt, álitsgjafar fjölmiðla eru í samkeppni um að gagnrýna sem harðast því það verður allt að vera sensasjón, pólitískir andstæðingar vega úr launsátri, tjáningarfrelsið er nýtt til að koma höggi á andstæðinga, hömluleysið fjarlægir ábyrgðina frá einstaklingunum og þeir láta gamminn geysa, óháð þekkingu á málefninu.

Ekki þekki ég þennan borgarstjóra, sem hefur átt hendur að verja undanfarna daga, en mikið skelfing óx hann í áliti hjá mér með því að reyna að vera hann sjálfur, með kostum og göllum. Það var eins og ferskur vindur færi um landið í því þrátefli steingeldrar frasabaráttu, sem dynur á okkur meira og minna. 
Það gæti verið gaman að ímynda sér þau Bjarna, Steingrím og Jóhönnu gefa samskonar færi á sér og borgarstjórinn. 

Ég er ekki í vafa um að borgarstjórinn gengur frá rimmunni með pálmann í höndunum. Hann gekkst við því að vera maður, sem, eins og  við öll, er ekki gallalaus (ef á annað borð er um galla að ræða). Þeir sem komust síður vel frá þessu eru rétttrúnaðarpostularnir.

Mér þætti gott að fá stjórnmálamenn sem virka á menn eins og manneskjur af holdi og blóði, með alla sína kosti og galla, í stað þeirra strengjabrúða, sem ekki virðast mega vamm sitt vita, en eru ekki svo ólík okkur hinum þegar undir skrápinn er komið.

Jamm, það var nú svo. 

05 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (2)

Hér er um að ræða framhald.

Þarna starfaði ég, sem sagt, sem sumarkirkjuvörður í Skálholti. Líklega í kringum 1968-70 (var þarna 1970 þegar Bjarni Benediktsson lést ásamt konu og barnabarni í brunanum á Þingvöllum. Mér er þetta minnisstætt vegna þess að ég þurfti að draga fánann í hálfa stöng og klúðraði því með því að missa annan endann á bandinu sem fáninn var festur með, með þeim afleiðingum að það þurfti að fella stöngina).
Með nýrri dómkirkju þurfti að finna upp nýjungar í starfi kirkjunnar og eitt af því var svokallaður sjömessudagur, sem var einu sinni á sumri. Ekki veit ég hvort hér var um að ræða tilraun til að bæta sambandið við almættið, eða bara að taldist vera skemmtilegt að hafa svona maraþon messudag. Án þess að ég sé að velta því fyrir mér, þá var þetta svona: 7 messur á einum sunnudegi. Auðvitað komu ýmsir prestar að helgihaldinu og skiptu á sig. Þarna var gengið til altaris í öllum messunum - s.s. fullburða messur og ég var til aðstoðar við ýmislegt smálegt.
Það hefur komið fram, að á þessum tíma var gamli unglingurinn gjaldkeri sóknarnefndar, maður um fimmtugt, þannig að ég get vel sett mig í spor hans. Þarna var sú staða uppi að sóknin þurfti að standa straum af ýmsum kostnaði í Skálholti, þó svo ýmislegt sem þar fór fram hefði lítið með sóknarbörnin að gera. Ekki veit ég hvort þarna kom einhver greiðsla á móti þar sem tekið var tillit til þeira stöðu sem þarna var uppi. Meðal þess sem greiða þurfti var messuvín. Það getur hver maður sagt sér það sjálfur að þarna var orðin mikil breyting á, frá því engir fóru í messu í Skálholti nema sóknarbörn í Skálholtssókn. Kostnaðurinn við messuvínið hafði stóraukist og það svo, að rólyndismanninum, gjaldkeranum blöskraði, og hafði einhverntíma orð á því, þannig að ég heyrði, þar sem hann var að vinna í reikningunum.
Svo var það á sjömessudeginum nokkru eftir að gjaldkerinn hafði misst út úr sér athugasemd um óhóflegan kostnað vegna messuvíns, að ég var að aðstoða virðulegan Reykjavíkurprest (Reykjavíkurprestarnir þóttu virðulegri en aðrir prestar vegna þess að þeir komu fram í útvarpinu í sunnudagsmessum) við að undirbúa eina messuna. Hluti af undirbúningnum var að taka til messuvínið og hella í kaleikinn. Vínið (sem ég hélt löngum að væri einhver háheilagur drykkur, sem kirkjan fengi til afnota eftir einhverjum óskilgreinanlegum leiðum, í fögrum flöskum) var nú bara í venjulegum brennivínsföskum með algerlega óhönnuðum flöskumiðum og voru merktar ÁTVR.
Þar sem við vorum þarna í skrúðhúsinu og presturinn (sem ég kýs að nefna ekki) var að hella í kaleikinn, urðu mér á þau óskaplegu mistök, að hafa orð á því sem gjaldkerinn hafði nefnt og sem ég átti líklega ekki að heyra:
"Það var einn úr sóknarnefndinni að tala um að það færi mikið af messuvíni."
Presturinn snarhætti að hella og leit snöggt upp.
"Hvað sagðirðu?"
"Hann sagði að það færi mikið af messuvíni." svaraði ég, þar sem ég áttaði mig ekki á því, að prestur spurði ekki vegna þess að hann heyrði ekki. Prestur tók nú að roðna og þrútna og innan skamms upphófust óskaplegar skammir, sem beindust að mér, og fólu í sér að þegar um væri að ræða drykk af þessu tagi þá væru menn ekki að velta fyrir sér krónum og aurum. Ég hef líklega fölnað af skelfingu undir reiðilestrinum. Allavega hrökklaðist ég út og þurfti síðan að hlusta á þennan ágæta mann predika um kærleikann og fyrirgefninguna.

Á þessum sumrum í Skálholti hafði ég kynni af mörgum prestum. Flestir ágætir, sumir ansi stórir upp á sig, fáeinir virtust jafnvel telja sig til helgra manna. Sem sagt, menn af öllum toga.

Ég er ekki alveg viss um hvert ég held héðan í frásögninni, eða  hvort það sé rétt af mér að halda yfirleitt nokkuð áfram, svo viðkvæmir sem sumir eru fyrir umræðum af þessu tagi. Þetta kemur bara í ljós. Ég held allavega að ég sé búinn að afgreiða samneyti mitt í æsku við kirkju og trú.


04 september, 2010

Um kristilegt uppeldi (1)

Ég held því statt og stöðugt fram, að ég sé alinn upp í því sem hefur verið kallað 'guðsótti og góðir siðir'. Að svonalöguðu uppeldi stóð, í mínum huga, að stærstum hluta tvær konur og síðan ein til viðbótar.
Sú eldri var húsfreyjan á Baugsstöðum, amma mín, Elín Jóhannsdóttir. Hún varð, í huga mínum, ímynd hinnar fullkomnu góðmennsku og kristilegs siðgæðis. Það getur sjálfsagt verið að hún hafi átt sér aðrar hliðar, en ég sá þær í það minnsta aldrei. Hjá henni fann ég aldrei neitt nema elskusemi og guðsblessanir: 'Elsku, góða fólkið mitt!'
Sú yngri var síðan móðir mín, húsfreyjan í Hveratúni, Guðný Pálsdóttir, sem ég tel að hafi tekið að sér að ala okkur systkinin þannig upp, að Kristur yrði leiðtogi lífs okkar. Fyrir utan það, að innræta okkur góða siði og vera okkur góð fyrirmynd sem sannkristin manneskja, fólst hið kristilega uppeldi í því að sækja messur í Skálholti frá frumbernsku og þar til streðið við að koma okkur þangað, varð of mikið. Ég nánast fullyrði (það verður bara einhver að leiðrétta mig, ef hér skyldi vera um misminni að ræða) að ekki hafi verið sungin messa í kjallaranum í biskupshúsinu í Skálholti frá 1953 -1963 (í kjallaranum í biskupshúsinu) án þess að Hveratúnsfjölskyldan hafi verið þar viðstödd. Eftir að dómkirkjan var vígð tel ég að það sama hafi verið uppi á teningnum, svo lengi sem nokkur möguleiki var að draga okkur til messu. Það sem gerði þetta að enn meira afreksverki hjá móður minni var, að á þessum tíma var ekki til bifreið í Hveratúni þannig að hersingin þurfti að fara fótgangandi kílómetrana tvo út í Skálholt.

Þriðja konan sem kemur við sögu í kristilegu uppeldi mínu var prestsfrúin, frú Anna Magnúsdóttir. Það var hjá henni sem kristinfræðin var lesin í barnaskóla, og ég man ekki betur en einkunnir mínar aá prófum í þessari grein, hafi gefið til kynna að ég væri talsvert vel að mér í öllu sem frelsarinn hafði tekið sér fyrir hendur, eða látið út úr sér. Fyrir utan kennsluna hélt frú Anna (hún var aldrei kölluð annað en frú Anna), utan um helgileikinn sem var settur upp í Skálholti fyrir hver jól. Öflugri stjórnandi helgileikja held ég að hljóti að vera vandfundinn.

Á heildina litið má líklega segja að kristileg uppbygging mín eftir fyrstu 14 ár ævinnar hafi verið talsvert traust. Á þessum tíma gerði ég auðvitað engan greinarmun á trú og kirkju. Prestar voru nokkurskonar hálfguðir og allsendis óskeikulir.

Þannig æxluðust málin, að síðustu árin í grunnskóla, sennilega þegar ég var 13-14 ára var ég dubbaður upp í að vera kirkjuvörður í Skálholti á sumrin, sennilega ein tvö sumur. Ég reikna með, að fyrir utan það að ég var sannkristinn ungur maður, talinn, að það hafi komið til vegna þess að Hveratúnsbóndinn, gamli unglingurinn, faðir minn, var þá gjaldkeri í sóknarnefnd.
Á þessum tíma má segja að ég hafi byrjað á sjá þetta allt saman í öðru ljósi en áður hafði verið. Ég komst að því, t.d. að prestarnir voru bara breyskir menn. Ég komst að því að oft kom það fyrir, að kirkjunnar menn gengu í orði og verki gegn þeirri kenningu sem þeir töluðu fyrir úr stólnum.

Eitt tilvik af þessum toga fer mér ekki úr minni, en frá því verður greint í næsta hluta.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...