26 febrúar, 2011

Febrúarsól

Tveir mánuðir ársins fara sérlega illa í mig, en það eru þeir janúar og febrúar. Janúar byrjaði vel með Álaborgarbúandi herramanni, og ungann úr febrúar skein sól kraftmikillar og ómótstæðilegrar stúlku sem, breytti dimmum vetrarmánuði í geislandi vor.


Það var síðast fyrir einum sex mánuðum sem við fengum að vera samvistum við ungfrú Júlíu og í mörgu hefur hún breyst síðan þá, sérstaklega þó í því að nú var hún farin að tjá sig um hvaðeina sem fyrir bar.

Það kom í hlut eldri borgaranna að gæta geislans í einn sólarhring, eða svo, (aðallega var það nú ammamn sem sá um verkin sem þessu fylgdu, þar sem afinn taldi sig vera búinn að gleyma ýmsu sem þar kom við sögu, fyrir nú utan það, að ábyrgðin sem þarna var um að ræða kallaði á að fara eftir ýmsum leiðbeiningum sem hann hafði ekki fengið tækifæri til að tileinka sér, að því er hann vildi halda fram) sem reyndist nú verða sérlega átakalítill tími.  Ekkert það gerðist sem olli því að snótin ákallaði foreldra sína; undi bara glöð við sitt, með allt á hreinu að því er varðaði að nýta sér stöðuna sér í hag, enda í fáu til sparað af hálfu eftirlitsaðilanna að tryggja að allt færi eins vel og mögulega var unnt. Þar komu ýmsir leikmunir við sögu - ekki síst kom sér vel að eiga sitthvað í fórum sínum sem fer vel í ungum munni.


Aldeilis hreint sérlega ánægjulegar samvistir við ungfrú Júlíu.

25 febrúar, 2011

"Ennþá með legið í brókinni"

Ég hef áður vikið lítillega að því að fyrir skömmu sótti ég námskeið í skyndihjálp ásamt samstarfsmönnum mínum. Leiðbeinandinn var afar hress og skemmtileg kona frá Árnesingadeild Rauða krossins - hélt athygli viðstaddra óskiptri í ríflega fjóra klukkutíma.

Meðal þess sem fjallað var um voru viðbrögð við því þegar stendur í einhverjum í nánasta umhverfi manns. Leiðbeinandinn lýsti helstu aðferðum sé nýttust vel við fólk á ýmsum aldri og í ólíkar aðstæður. Meðal þeirra aðferða sem fjallað var um var svokölluð Heimlich-aðferð, sem beitt er eins og sjá má á skýringarmyndinni sem fylgir hér. Leiðbeinandinn greindi frá hvernig henni skal beitt á mismunandi aldursskeiðum og eftir mismunandi ásigkomulagi þeirra sem stæði í.  Einn var sá hópur sem mun þurfa að greina lítllega áður en gripið er til Heimlich-aðferðarinnar, en það eru vanfærar konur. Þá þarf fyrst að athuga hvort viðkomandi er (hér vísast til fyrirsagnarinnar). Þó svo einhverjir kunni að halda því fram, að málfarið sem leiðbeinandinn notaði, sé í óheflaðri kantinum, þá verður því varla á móti mælt, að það er afar myndrænt og athyglisvekjandi.

Ég rétt sé sjálfan mig framkvæma slíka greiningu við þessar aðstæður. Hvar byrjar t.d. brókin? Það hlýtur að fara eftir ýmsu, sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að fabúlera um. Það verður hver að gera fyrir sig.

20 febrúar, 2011

Í tilefni dagsins

"Ja, hart es í heimi" sagði gamli unglingurinn í dag, í tilefni af óróa í samfélaginu. 
Ekki hélt hann áfram, en auðvitað gerði ég það:
Hart er nú í heimi,
helvíti' er það gaman.
Guð, í alheimsgeimi
grettir sig í framan.


Ef sá gamli hefði haldið áfram á með vísuna sem hann byrjaði á, hefði það verið með þessum hætti:
Hart es í heimi
Hórdómr mikill
Vindöld, vargöld
áðr veröld steypisk
Þetta kemur úr Völuspá og er væntanlega lýsing á aðdraganda heimsendis.



19 febrúar, 2011

Varnarleysi

Ég er í þeirri aðstöðu, að ef ég hefði svo kosið, hefði mér verið í lófa lagið að skella inn, án minnstu fyrirhafnar 40-50 nöfnum raunverulegra einstaklinga sem þá hefðu farið á lista einstaklinga sem nú er búið að afhenda forseta vegna máls sem ég nenni ekki að nefna lengur. Ég hef aðgang að fjöldamörgum tölvum sem ég hefði getað notað til að skrá þessi nöfn.
Auðvitað gerði ég þetta ekki, enda vandari að virðingu minni en svo og auðvitað má segja það sama um flesta: rétt skal vera rétt. Það eru margir í sömu aðstöðu og ég til að beita bellibrögðum. Ef við gefum okkur að 100 manns á þessu landi hefðu getað, með ofangreindum hætti skráð upp undir 50 einstaklinga þarna inn, hver, þá væru þar með komnar 5000 undirskriftir.

Nú ætla ég ekki að þykjast vita að þetta hafi verið gert, en mér finnst það næg ástæða til að draga mjög í efa gildi þessa undirskriftalista, að þetta skuli vera möguleiki. Það sem mér finnst allra verst er, að vita ekki hvort mitt nafn liggur nú á borði forsetans, hrópandi á hann kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu í máli, þar sem stærstur hluti fólks (já, ég fullyrði það) hefur harla litla hugmynd um, um hvað málið snýst, eða hverjir valkostirnir eru.

Það hlálega eða grátlega í þessu er, svona gagnvart sjálfum mér er, að til þess að komst að því hvort nafn mitt er þarna, þarf ég nú að skanna inn persónuskilríki mín og senda út í bæ. Meðan listinn var enn í gangi gat ég komist að því hvort mitt nafn hafði verið skráð með því að skrá mig á listann. 

Ég á erfitt með að botna í þessum fáránleika, sem ég er nánast varnarlaus gagnvart. Fyrst ekki er hægt að tryggja það þannig, að enginn vafi geti verið á misnotkun, þá verður stofnunin sem hafnar því að myndir séu birtar af afbrotmönnum við iðju sína, að grípa þarna í taumana. 

Þrír vitrir apar

Í gær var ég í aðstæðum sem á einhvern undarlegan hátt ollu því að mér varð hugsað til hinna þriggja vitru apa og einnig til spakmælisins: Það sem þú þekkir ekki getur ekki skaðað þig.  Ég held að svona sé þetta í mörgu með okkur mennina: sumt viljum við ekki vita: viljum ekki heyra af því, viljum ekki sjá það og viljum ekki tala um það, því þar með erum við búnir að opna á hluti sem betur hefðu verið látnir eiga sig.

Fyrir 15-20 árum gegndi ég starfi námsráðgjafa við stofnunina sem ég eytt unganum úr ævinni í. Ég er þannig innréttaður, að ef ég tek eitthvað að mér vil ég helst vita hvað ég er að gera. Því var það, að þegar mér var boðið á námskeið fyrir námsráðgjafa, sem fjalla skyldi um sjálfsvíg ungmenna, sló ég til. Það væri nú ekki verra fyrir mig að vera vel upplýstur um þessi mál í þeirri stöðu sem ég var. Samt var eitthvað sem sagði mér að um þetta vildi ég helst ekkert vita; það væri of alvarlegt til að ég vildi þurfa eitthvað að gefa mig út fyrir að þekkja til þess. 
Námskeiðið var afskaplega áhugavert og fræðandi. Þarna fjölluðu færir sálfræðingar um þetta fyrirbæri, sögðu reynslusögur og kenndu þátttakendum hver væru helstu merkin sem gæfu til kynna hvort einstaklingur væri í sjálfsvígshættu og fóru yfir hvernig unnt væri að bregðast við í slíkum tilvikum. 
Þátttakan í þessu námskeiði gerði líf mitt ekkert einfaldara, þvert á móti. Mánuðum saman á eftir var ég afar upptekinn af að leita að merkjum hjá unglingum sem komu í viðtal hjá mér vegna einhverra persónulegra vandamála. Oftar en ekki fannst mér að um gæti verið að ræða einstakling í sjálfsvígshættu. Þetta gekk meira að segja svo langt, í undantekningartilvikum, að ég var farinn að velta fyrir mér hvort skólinn þyrfti ekki að koma sér upp vinnuferli til að takast á við áföll af þessu tagi, en slíku var ekki til að dreifa þá. 
Það verð ég að viðurkenna, að oft fannst mér að ég hefði ekki átt að fara á þetta námskeið - það hefði verið betra að þekkja bara hreint ekki of mikið til þessara mála (What you don't know can't hurt you).

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar blásið var til námskeiðs í skyndihjálp fyrir starfsmenn þessarar sömu stofnunar. Vissulega var þarna um að ræða frekar hraðsoðið námskeið þar sem farið var í öll helstu áföll sem við getum lent í að takast á við einhverntíma. Nafnið á þessu fyrirbæri er afar lýsandi fyrir það sem um er að ræða: eitthvað alvarlegt kemur fyrir einhvern í umhverfi okkar og þá getur það oft skipt sköpum að viðbrögð séu rétt og fumlaus. 
Þarna var á ferð fær sérfræðingur í skyndihjálp sem fór á líflegan og skemmtilegan hátt í gegnum afskaplega alvarlegt efni. Þarna þurfti enginn á skyndihjálp að halda (þrjú persónulíki á mismunandi aldursskeiðum voru notuð til sýnikennslu), en það var ekki laust við að ég velti fyrir mér hvernig ég myndi bregðast við ef ég stæði frammi fyrir aðstæðum af því tagi sem þarna var lýst. Ég held nú reyndar að adrenalínflæði yrði til þess að ég velti stöðunni ekki fyrir mér með sama hætti og við þessar námskeiðaðstæður. Ég myndi væntanlega reyna að vera gerandi í aðstæðunum. Hinsvegar held ég að ég þyrfti talsvert ýtarlegra og nákvæmara námskeið til að nálgast stórslasaðan einstakling af einhverju öryggi.

Eftir námskeiðið ók ég heim á leið og mætti bílum á leið minni. Undarlegt er frá því að segja, en ég velti fyrir hvernig ég myndi bregðast við ef einn þessara bíla æki út af veginum rétt áður en ég mætti honum, og ylti einhverjar veltur fyrir augum mér. 

Ég er viss um að þetta bráir af mér innan skamms, vona auðvitað að aldrei þurfi ég að nota hraðsoðna skyndihjálparþekkingu mína.

12 febrúar, 2011

Tveim tugum ára seinna

Á tónleikum í tilefni af því að 10 ár voru frá stofnun
Barna- og kammerkórs Biskupstungna.
Frá vinstri: Guðný Rut Pálsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson,
Eyrún Ósk Egilsdóttir, Kristrún Harpa Gunnarsdóttir.

Á því var vakin athygli í gærkvöld, þegar félagar úr Skálholtskórnum þeim sem starfaði þar til fyrir nokkrum árum, komu saman til að rifja upp hluta af þeim ótölulega fjölda söngverka af ýmsu tagi sem þeir geyma enn í höfðum sínum, að á þessu ári eru 20 ár síðan Hilmar Örn Agnarsson kom til starfa í Skálholti. 
Þessi samkoma fólst nú bara í því að koma saman og syngja sér til ánægju og hittast til að rifja upp og gera að gamni sínu. Reyndar fylgdi þessu indælissúpa og nýbakað brauð í boði vertsins á Klettinum, enda átti hún sinn blómatíma innan sönglistarinnar, einmitt í Skálholtskórnum, sem og svo margir aðrir.
Ég hef nú hugsað mér að fjalla um brotabrot af þessum tuttugu árum undir öðrum formerkjum síðar. 

Þessi tími reyndist verða meiri vítamínsprauta inn í menningarlíf hér í uppsveitum en margur getur ímyndað sér. Hilmar skilur eftir sig á þessum slóðum, og víða um land og nánast veröld alla, gróður sem er vaxinn upp af þeim fræjum sem hann sáði hér. Hann stjórnaði ekki bara Skálholtskórnum á þessum tíma, heldur stofnaði hann einnig til:
- Kórs Menntaskólans að Laugarvatni, hvaðan margir öflugir söngvarar og tónlistarmenn eru síðan sprottnir, 
- Barna- og Kammerkór Biskupstungna sem lengi var ein helsta skrautfjöður  þessarar sveitar og sem varð til þess að fjöldi barna héðan hefur haldið áfram í tónlistariðkun vítt um land eða lönd, og  
- Kammerkórs Suðurlands, sem enn starfar og hlýtur alþjóðlegar viðurkenningar fyrir flutning sinn.

Ég gæti nú óefað talið upp margt fleira sem Hilmar hefur áorkað á þessu svæði bæði beint og óbeint, enda var varla haldin sú samkoma hér um árabil sem hann kom ekki að með einhverjum hætti.

Síðustu árin hefur Hilmar starfað í höfuðborginni að mestu og er þar smám saman byrjaður að setja svip sinn á menningarlífið með sínum yfirlætislausa hætti. Þetta hefur ýmsum okkar hér austanfjalls svo sem ekki verið neitt fagnaðarefni, en svona geta mál þróast.

Fjarri fer því að ég vilji hér vera að gera Hilmar að einhverjum hálfguði, enda pilturinn bara mannlegur eins og við hin. Það verður þó ekki af honum tekið, að fáir standa honum framar þegar kemur að því að móta og flytja tónlist með góðu fólki. 

Ég hef, gegnum árin tekið þátt í aðventutónleikum í Skálholtskirkju þar sem fjöldi merkra listamanna hefur komið til liðs við Skálholtskórinn og Barna- og kammerkórinn. Í allmörg ár stóð Hilmar fyrir því að fá tónskáld og textasmiði til að semja jólalag Skálholts. Þessi verk voru síðan frumflutt á aðventutónleikum - yfirleitt afbragðs góð verk. Mér hefur oft verið hugsað til þess, að það væri synd að þau skuli ekki hafa verið tekin upp við góðar aðstæður og gefin út. 
Hér er um að ræða tónverk sem búa í höfðum okkar sem æfðum þau og fluttum. Þekkingin á þeim er til og því finnst mér, og er þar sammála hugmynd sem ég heyrði í gærkvöld, að í tilefni af því að nú eru tuttugu ár frá því Hilmar hóf að taka til höndum í Skálholti, komi Hilmarskórar saman ásamt öðrum sem að komu, og rifji upp, taki upp, og flytji síðan á aðventutónleikum, öll jólalög Skálholts.
Hugmyndin er góð, en hún er dýr og útheimtir mikla vinnu fjölda fólks. 

Samkoman í gærkvöld var betri en engin.

10 febrúar, 2011

Sumarbústaðarferðin

Áður en ég byrja og til að verja mig á tímum hins pólitíska rétttrúnaðar: Auðvitað er ég orðlaus í fordæmingu minni ( ég á ekki orð sem ná yfir hana) á kynbróður mínum sem greint er frá í vinnuferðinni sem fjallað hefur verið um undanfarna daga. Það sem fer hér á eftir eru ábyrgðarlausar vangaveltur og í engu ætlaðar til að varpa rýrð á þá einstaklinga sem þarna var um að ræða. Ef einhver nennir að lesa þetta þá verður hann að hafa það í huga, að alvaran í því sem ég skrifa hér er harla grunn. Ég þekki þetta fólk ekki og því síður aðstæður þess eða persónueinkenni. Hinsvegar verður því ekki á móti mælt að þetta mál hefur fengið allmikla umfjöllun í fjölmiðlum og mér finnst ekki óeðlilegt, þegar svör vantar, að spurt sé.

SKYLDI ÞETTA VERA NÆGUR FORMÁLI?


Hér er hluti úr frétt af vinnuferð sem farin var í sumarbústað fyrir tæpum tveim árum:
Forsaga málsins er sú að konan fór ásamt yfirmanni sínum, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, og yfireftirlitsmanni fyrirtækisins í sumarbústað í Grímsnesi. Tilgangur ferðarinnar, sem var farin í mars árið 2009, var að fara yfir breytingar í starfi hennar sem áttu meðal annars að fela í sér aukna ábyrgð.(DV)
Hér fara tveir yfirmenn í vinnuferð með starfsmanni sem átti von á stöðuhækkun. Ef við höfum þetta bara einkynja ferð (3 karlar eða 3 konur), þá væri væntanlega ekkert sérstakt um þetta að segja. Samsetningin var hinsvegar eins og segir í fréttinni: tveir karlkyns yfirmenn og einn kvenkyns undirmaður. Við þessar upplýsingar verður maður að krefjast þess að forsagan sé lengri en frá greinir í fréttinni. Maður fer að spyrja spurninga. Hvernig gat það átt sér stað að þessi ferð var yfirleitt farin? Hversvegna var ekki hægt að fjalla um breytingar á starfi konunnar bara í fundarherbergi á vinnustaðnum? Þetta veit maður ekki. Ég freista þess að setja mig inn í þessar aðstæður og sé þetta hreinlega ekki fyrir mér sem valkost. Þarna var þetta sem sagt valkostur með þeim afleiðingum sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Hversvegna var þetta valkostur? Var samband þessara einstaklinga með þeim hætti á vinnustaðnum ef til með þeim hætti, að ekkert þeirra gæti séð fyrir sér að þær aðstæður sem komu upp, gætu komið upp? Var eitthvað í fari þeirra og fyrri samskiptum sem útilokaði  að sú þróun ferðarinnar yrði sem varð?

Fleiri spurningar vakna:
1. Konan fór með körlunum í vinnuferð í sumarbústað, en þar átti að dveljast yfir nótt. Ef við gefum okkur, að báðir karlarnir hafi verið í sambúð með konum og bætum við þeirri vitneskju, sem fram kom í einhverri fréttinni af þessu, að konan bjó með karlmanni, þá vakna spurningar:
   a. Hvernig kynnti konan sumarbústaðaferðina fyrir manni sínum? Sagði hún honum frá því að hún væri að fara í bústaðinn með tveim karlmönnum? Hvernig brást hann við? Hversvegna?
   b. Hvernig kynntu karlarnir sumabústaðarferðina fyrir konum sínum? Hvernig brugðust þær við? Hversvegna?
   c. Var konan í þeirri stöðu að hún treysti sér ekki til að leggja til að halda vinnufundinn á saklausari stað en í sumarhúsi með heitum potti, í Grímsnesinu?
   d. Var beri karlinn allan tímann með það í huga sem síðan gerðist í kringum pottferðina?
   e. Hvert var þá hlutverk "yfireftirlitsmanns fyrirtækisins", eins og hinn maðurinn er kynntur í fréttinni? Átti hann að hafa yfireftirlit með því sem fram fór, kannski? Hvar var hann þegar umræddir atburðir áttu sér stað? Studdi hann þann bera í aðgerðum sínum? Óttaðist hann þann bera og lagði ekki í að styðja konuna? Fór hann kannski að sofa strax eftir að fundinum lauk og áður en tillaga um pottferð var lögð fram, ítrekað?  Til að fara ekki með fleipur viðurkenni ég að í fréttum kemur eftirfarandi fram um aðkomu yfireftirlitsmannsins:
Ekki voru gerðar athugasemdir við hegðun hins mannsins, sem fór íklæddur skýlu í pottinn.(Vísir) 
   f. Hversvegna harðneitaði konan ekki að fara í heita pottinn? Var það vegna þess að hún taldi að neitun sín myndi hafa neikvæð áhrif á starfsframann? Þekkti hún kannski þann bera ekki af neinu því sem gæti gefið tilefni til að hænn ætlaði sér eitthvað annað með pottferðinni en að slaka á í heitum potti að loknum löngum og vel heppnuðum vinnufundi? 
   g. Var pottferðin hluti af upphaflegu skipulagi ferðarinnar í huga þess bera? Var þarna um að ræða skyndihugdettu hans í ljósi þess að það var ekkert vesen að hita pottinn?
   h. Hversvegna ákvað sá beri að fara ber í pottinn? Var það vegna þess að hann hafði gleymt viðeigandi nektarvörn heima? Var hann stoltur af vaxtarlagi sínu og taldi að það hefði jákvæð áhrif, fremur en hitt? Var hann orðinn ölur mjög þegar þarna var komið sögu? Reyndist hann hafa misskilið merki frá undirmanni sínum? 

Kvaðst konan hafa farið fram og sest í sófa í stofunni þar sem yfirmaður hennar reyndi að fá hana til að halda um hendur sínar. Fór hún aftur inn í herbergið og lagðist til svefns. (DV)
Síðar um kvöldið ruddist framkvæmdastjórinn inn í herbergið og bað konuna um að taka í hönd sina.(Vísir)
   i. Eins og þetta er sett fram hljómar það frekar sakleysislega. Var það hinsvegar kannski svo, að þarna væri um að ræða einskonar yfirfærða merkingu á orðinu "hönd"?  Það er varla raunhæf skýring þar sem í frétt DV er talað um "hendur". Var sá beri kannski bara að leita huggunar vegna persónulegra vandamála sinna?
------------------------
Ég fæ nú örugglega ekki svör við öllum þessum spurningum mínu, enda ekki af stað farið í þeim tilgangi. 

Það sem upp úr stendur er, að þarna virðist miðaldra, hvítur karlmaður hafa gengið þá braut sem aldrei skyldi gengin. Þetta dæmir þýðir þó ekki að bara það að þú sért hvítur, miðaldra karlmaður hafi það sjálfkrafa í för með sér að þú komir fram með þessum hætti.

Telji einhver sér svo misboðið með þessum pistli, að ekki verði við unað, bið ég hann að hafa samband og þá mun ég fjarlægja hann af þessu virðulega vefsvæði.

08 febrúar, 2011

Að notfæra sér aðstæður

Það gerðist um helgina, sem hlaut að gerast fyrr eða síðar: ég varð að takast á við að hætta orðspori mínu sem maðurinn sem verður aldrei veikur. Þetta lagðist að um helgina, auðvitað. Á mánudagsmorgni var ekki um annað að ræða en að tilkynna á vinnustaðinn að ekki gæti orðið af því að ég kæmi til vinnu þennan morguninn.
"Nú, er það út af stormi í Laugarási?" Það var fJ  sem svaraði loks í símann á kennarastofunni, (enda átti ég ekki von á að fG á skrifstofunni kæmist til vinnu eftir stanslausa snjókomu alla nóttina). Að sjálfsögðu var ekki svo, enda er, eins og allir vita, aldrei stormur í Laugarási, alltaf logn. Helst að maður heyri hvína í trjátoppunum í mesta óveðri. 
"Nei, það er vegna þess að það er stormur innan í mér", svaraði ég, til að halda samlíkingunni - fannst ófrumlegt að segjast bara vera veikur.
"Ég skila þessu til fG, mér sýnist bíllinn vera að koma." 

Þar með lauk símtalinu með þökkum frá mér.

Það næsta sem gerðist var, að á vegg minn á fésbókinn var komin setningin: "Svo bregðast krosstré sem önnur tré.", sem ég svaraði óðara með eftirfarandi hætti: "Það kemur að því þegar flest þessi óbreyttu tré hafa brugðist. Vil frekar hafa hann svona: Eftir bregðast krosstré öðrum trjám."  Svar við þessum snilldarleik mínum barst seint og um síðir: "Verði þinn gráðugi vilji", sem mér er í rauninni ekki alveg ljóst hvað merkir, en kýs, með tilliti til fG (sem hér var á ferðinni) að túlka sem svo að hún telji að þarna hafi komið fram slík snilld að engu væri til að svara. Nema þá að viðhorf hennar til mín sé samsvarandi því sem fram kemur í hinum kristna texta sem þarna var vitnað til, svo ekki varð um villst. 

Það gerðist nú ekkert frekar í þessum málum fyrr en í morgun að ég lét mig hafa það, hreysti minnar einnar vegna, að skella mér á vinnustað til að reyna að reisa við orðspor mitt, en þá komst ég að því að veikindi höfðu verið eina umræðuefni gærdagsins á vinnustaðnum, svo mikil tíðindi höfðu þarna verið á ferðinni.

Það vissi ég að fG myndi taka mér fagnandi með sínum hætti, enda varð sú raunin. Samskiptin hófust með því að hún tilkynnti mér að það væri ekkert að mér, hverju ég svaraði á þann veg að það væri alveg rétt - þetta væri ekki nokkur skapaður hlutur. Þá fór auðvitað eins og ég vissi - hún hóf að vorkenna mér svo fárveikum - ég þyrfti nú bara að drífa mig heim og ná þessu úr mér. Þessu hélt hún áfram fram að hádegi með þeim afleiðingum að ég var farinn að efast um að ég kæmist heim hjálparlaust. Það var sprottinn út á mér kaldur sviti og hnerrar og hóstar voru óstöðvandi. Ég fór heim með fyrra fallinu, með von um á mér tækist að koma þessu í lag með lítilli vorkunnsemi frá fD, en auðvitað fór það svo að hún bauðst til að taka að sér skylduverk mitt þennan daginn, auðvitað ekki mín vegna, heldur þess sem njóta skyldi verka minna. Ég veit þó að annað býr að baki.

Öfug sálfræði verður seint ofmetin. 

Það er huggun harmi gegn að veikindin áttu sér stað á þeim degi sem flestir starfsmenn í vestrænum ríkjum kjósa að tilkynna veikindi. Sætt er sameiginlegt skipbrot.

05 febrúar, 2011

3:1 Hvað gerist núna?

Loksins þekur hvítur hreinleikinn Suðurland. Rétt svo að maður kunni orðið að aka bíl við þessar aðstæður. Snjómælir á sólarpalli gefur til kynna 30 cm jafnfallinn snjó. Hiti við frostmark. Blankalogn eins og alltaf í Laugarási.  Nokkrir dagar með snjó.

Trúarleg afskipti (3)

Skálholtskórinn í júlí 2007
Það yrði ansi mikil langloka ef ég færi út í að segja þá 16 ára sögu (eða svo), sem hófst þegar Hilmar Örn Agnarsson gerðist stjórnandi Skálholtskórsins. Það á reyndar að nægja að segja það, svona þegar litið er til baka, að þessi kórtími minn var sérlega ánægjulegur fyrir margra hluta sakir. Maður fann það fljótt, að þarna var kominn maður með metnað. Hann virkaði á mann sem óskipulagður á ýmsum sviðum, en þegar um var að ræða tónlistina, var hann ávallt með hlutina á hreinu, vissi hvað hann vildi og tókst að fá kórinn með sér í ótrúlegustu flugferðir í þeim efnum. 
Smám saman byggðist upp kjarni af tiltölulega ungu fólki, sem margt var ómótað í kórstarfi - feiknalega góður efniviður fyrir kórstjóra til að setja sitt mark á, sem hann sannarlega gerði.

Auðvitað verð ég að halda þvi til haga hér, sem annarsstaðar áður, að röddin eina, í þessum kór var auðvitað ekkert slor, til í allt, umbar allt. Mér þótti heiður að því að fá að vera hluti af henni. Ekki var hún fjölmenn á öllum tímum, en öflug var hún, svo mjög að stjórnandinn þurfti ítrekað að halda aftur af henni svo aðrar raddir heyrðust yfirleitt. Og fögur var hún, um það er ekki hægt að deila, bæði að því er varðaði söngfærni, raddfegurð, stundvísi, jákvæðni, lítillæti, andlegt atgervi og líkamlegt. Allt var rétt. Ég  er viss um að aðrir stjórnendur hafa litið stjórnanda Skálholtskórsins öfundaraugum vegna silkimjúkra tenóranna.

Aðrar raddir voru svo sem einnig ágætar. 

Sópran var þarna með þeim hætti, að engu var líkara en að þar væru á ferð stúlkur um tvítugt. Sannkallaðar englaraddir - enginn var þarna, að jafnaði sópraninn sem skar sig út úr öðrum sökum hás aldurs, eða vegna óperutilburða - mjúk og létt var röddin þó vissulega hefði hún mátt láta meira til sín taka á stundum í öðru en hléspjalli. Þetta lagðist þó eftir því sem árin liðu.

Altinn var, þegar best lét, afburða þéttur og fær í sínum þætti. Auðvitað átti hann misauðveldlega heimangengt á æfingar, en þegar allur altinn var á staðnum munaði sannarlega um hann, bæði þegar hann fékk í einstaka tilvikum  línur sem skáru sig einhvern veginn úr og þegar stjórnandanum tókst að fá aðrar raddir til að leggja við hlustir og hugsa um altinn. Það fjölgaði í altinum eftir því sem á leið.

Bassar voru reyndar ekki nægilega margir að öllu jöfnu, til að viðvera þeirra virtist breyta einhverju. Einhvernveginn reyndist kjarninn sem þeir mynduðu á þessum árum ekki ná að verða jafn öflugur botn og hann hefði getað verið. Þeir sem þarna voru á hverjum tíma gerðu þó sannarlega sitt til að mála    flutninginn sínum dökku tónum. Oft voru kallaðir til aukabassar þegar mikið stóð til, sem betur hefðu verið stöðugri. Það sem stendur upp úr í minningunni um bassana er tvennt: opnunartími kauphallarinnar í Tókýó, og neftóbak. Bössum fjölgaði aldrei til langframa.

Þetta var efniviðurinn sem stjórnandi Skálholtskórsins hafði úr að moða: mikið efni til að móta úr glæsilegt menningarlegt fyrirbæri. Það gerði hann.

Það eru margar hliðar sem hægt er að fjalla um í sambandi við þann eina og hálfa áratug sem ég kom þarna að starfi Skálholtskórsins. Hérna hef ég litið á hraðferð efniviðinn. Ég get einnig skoðað áhrif þess á samfélagið að Hilmar Örn og fjölskylda hans fluttu í sveitina, aðbúnað kórsins á Skálholtsstað, veraldlegan hluta starfseminnar og kirkjulegan einnig, ferðirnar sem alltaf voru hluti þeirra markmiða sem sett voru, að ógleymdum starfslokum kórstjórans. Allir þessir þætti verðskulda mikla umfjöllun hver og einn. Ég mun á einhverjum punkti sinna þeirri umfjöllun frá mínu sjónarhorni.

04 febrúar, 2011

Þegar hlakkar í

Ætli það sé ekki bara sammannlegt, eins og svo margt í mannheimi, að eiga erfitt með sleppa því að gleðjast nokkuð þegar náunginn, sérstaklega ef maður lítur á hann, sem sér andstæðan í einhverjum efnum, er ekki alveg að höndla tilveruna.

Hópurinn með stóru möndluna (Möndlungar) veit þessa dagana ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Línan hefur löngum verið svo hrein og tær, bein og skýr, ekki síst frá því ritstjórinn steig eins og alheimslausnari fram í sviðsljósið. Ein rödd, ein skoðun, (Ein Land, ein Volk, eine Stimme (eða einhvernveginn í þá veru)). Síðan þá hefur sú skoðun verið rík hjá Möndlungum, að í raun hefðu þeir sem voru ekki á línunni, varla tilverurétt meðal þjóðarinnar. Þar fóru víst hálfgerðir vanvitar sem vildu eyðileggja allt hið góða sem stefnan eina (sem í rauninni er aldrei orðuð sem slík) stóð fyrir.

Nú hefur það gerst að stráklingurinn sem hefur stýrt Möndlungum er orðinn vikapiltur kommúnísta og það rýkur úr Hádegismóum. Litlir Möndlungar vítt um landið reka upp ramakvein. 

Það hlakkar í mér gegn vilja mínum og mér er spurn, eftir hamaganginn: hve margir þeirra sem samþykkt hafa harðorðar ályktanir að undaförnu, gegn stráklingnum og nánustu hirð hans, hafa yfirleitt lesið, sjálfstætt, þennan meinta ólánssamning? 

Maktar leitað, moðreykur troðinn,
merktir eru kvislingar.
Margklofnir, því mikill er voðinn,
möndlu núna tittlingar.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...