26 mars, 2011

Trúarleg afskipti (6) - lokaþáttur

Ekki neita ég því að eftir því sem nálgaðist lok þess tíma sem ég hef verið að tjá mig um hér á talsvert löngum tíma, varð ég, og aðrir kórfélagar, var við að samskiptin á Skálholtsstað voru ekki eins og best verður á kosið. Þar hefur eflaust eitthvað átt sér stað af einhverjum ástæðum, sem leiddi smám saman til þess að ráðamenn á staðnum töldu að ekki yrði lengur fram haldið.  Kórinn hafði lengi fundið fyrir því að framlag hans til helgihalds var ekki metið af því sem kalla má verðleika. Ástæður þessa voru mér nú aldrei fyllilega ljósar - og eru reyndar ekki enn.

Ég get nú bara greint frá því að tenórinn var aldrei sáttur við hvernig aðstaða honum var sköpuð við athafnir í kirkjunni. Hún var í sem stystu máli þannig, að fyrir aftan stóla sópransins var komið fyrir bekk, sem reyndar er mjög vel smíðaður. Bekkurinn þessi er baklaus og grjótharður. Þarna var tenórnum gert að híma í hvarfi meðan ekki var sungið og síðan að príla upp á bekkinn þegar söngur hófst. Eftir því sem árin liðu varð prílið æ meira áhættuatriði og ég beið þess að einhverjum tenórnum fataðist prílið með vandræðalegri uppákomu í öllum hátíðleikanum, en sem betur fer slapp það til.

Því verður ekki haldið fram, að kórnum hafi þótt hann velkominn, þó svo framlag hans hafi þótt nauðsynlegt. Þetta er ekki eitthvað sem var sagt, svo ég viti til, heldur eitthvað sem lá í loftinu og birtist með óorðuðum hætti í óljósum skilaboðum.

Þar sem ég hef ekki staðfestar upplýsingar um það sem gerðist bak við tjöldin á staðnum, sem síðan varð til þess leiðir skildi með Hilmari Erni og Skálholtsstað, treysti ég mér ekki til að fjalla um þá sálma þannig að ég sleppi við að verða uppvís að því að fara með hálfkveðnar vísur eða órökstuddar dylgjur. Ég reikna með að það verði hlutverk sagnfræðinga síðar meir, að grafast fyrir um hvað þarna átti sér stað. Það liggur þó fyrir að stjórnendur á staðnum ákváðu að segja upp samningi við Hilmar.

Viðbrögð mín, og margra annarra skjólstæðinga Hilmars, við uppsögninni voru nú nokkuð fjarri því að vera jákvæð; margt var rætt og undirbúið, en það var auðvitað ljóst, að trúnaðarbrestur var orðinn slíkur að ekki yrði aftur snúið.

Ég geri mér grein fyrir því, að ég er að sumu leyti ekki eins og fólk er flest. Sem dæmi um það vil ég geta þess, að ég hef ekki einusinni flett tilteknu dagblaði frá því tiltekinn ritsjóri var ráðinn þar til starfa, jafnvel þótt umrætt dagblað hafi borist inn á heimilið af og til fD til upplyftingar. Það sama á við um viðbrögð mín við því sem gerðist í Skálholti.  Ég hef ekki talið mig eiga samleið með því starfi sem þar fer fram eftir að þeir atburðir gerðust sem hér hefur verið tæpt á. Hvort eða hvenær það breytist verður bara að koma í ljós.

Ég ólst upp við það að ganga til messu í Skálholti, kominn af trúræknu fólki og hef gegnum tíðina tekið þátt í ýmsu því sem lýtur að kirkju og trú.  Vissulega fékk ég aldeilis nóg af öllum messuferðunum áður fyrr, en taldi samt að ég hefði eitthvað að sækja í þann heim sem kirkjan fæst við.   Ég vil hinsvegar gera skýran greinarmun á trúnni og kirkjunni, eins og ég hef áður fjallað um. Trúin er eitthvað sem er persónulegt og sem hver maður metur og sinnir að sínum hætti. Kirkjan er stofnun sem sett er á fót af mönnum og sem hefur löngum beitt trúnni fyrir sig til að öðlast vald yfir lífi og sálum manna. Með aukinni menntun og flóknara samfélagi finnst mér að kirkjan hafi misst fótanna vegna þess að hún er of upptekin af valdi sem hún hefur ekki lengur, siðum og boðskap sem ná ekki eyrum fólks eins og áður var.

Með þessari messu ætla ég að setja punkt aftan við greinaflokkinn um trúarleg afskipti mín, eins og þau hafa þróast. Þau hafa verið harla lítil undanfarin ár og líklega þarf eitthvað að breytast ef breyting á að verða þar á.
En, lífið heldur áfram. Maðurinn, eitt örsmátt sandkorn á eilífðarströnd, heldur áfram að streitast í gegnum líf sitt, eins og leikari á leiksviði, en hverfur síðan í óræðan buska.

25 mars, 2011

Gjammandi hrundar

Ætli ég sé ekki nánast einn um það að líta svo á, að tilteknum þjóðfélagshópi fari það best að þegja sem mest. Það gerir hann hinsvegar ekki þar sem hann veit það jafnvel og ég, að margar eru þær sálir sem byggja þetta land, sem eru eins og hundarnir, sem væla þegar þeir eru skildir eftir heima, en fagna eigandanum ógurlega þegar heim er komið, þar sem þeir muna ekki það slæma sem þeim var gert.

Hrundarnir vita hvað þeir eru að gera. Þeir þekkja sitt fólk. Þeir kunna sannarlega að ýta á réttu takkana á kjölturökkunum sínum. Nú er þeirra réttlætið, þeirra eru lausnirnar, þeirra er jafnréttið, þeirra er náungakærleikurinn, þeirra er hagur þjóðarinnar. Þeirra er allt hið góða sem eitt þjóðfélag getur prýtt.

Með snefil af skömm hefðu hrundarnir átt að þegja. Því þeirra var ekki réttlætið, lausnirnar, jafnréttið, náungakærleikurinn, hagur þjóðarinnar. Þeirra var sjálfgæskan, spillingin, gróðahyggjan, undirferlið, stjórnleysið.

Hugsjónir hrundanna hafa ekkert breyst. Þeir standa fyrir það sama og áður. Hvað hefur þá breyst?

"Maður á að hætta að vera reiður því það er svo leiðinlegt", hafa menn sagt. Reiði er bara ekki rétta orðið til að lýsa þeim tilfinningum sem ég ber til þessa alls. Ætli vonbrigði sé ekki nær því að lýsa stöðunni. Vonbrigði með að þjóðin virðist ekkert haf lært.

Litlu hvolparnir flaðra upp um eigandann.
Hann er kominn heim.

18 mars, 2011

Takk, Sko....

Nú áðan skelltum við fD okkur á frumsýningu nemenda ML á frumsömdu verki sem kallast Sko....  Vettvangur verksins er heimavist skólans og þar takast á fulltrúar mismunandi tónlistarstefna. Inn í það allt saman blandast síðan ýmislegt það sem ætla má að eigi sér stað í heimavistarheimi þar sem kynni eru náin og ýmislegt látið flakka.

Hér er á ferðinn harla skemmtilegt verk, ekki síst fyrir það að það var frumsamið að öllu leyti, bæði tónlist og texti. Slíkt ber að meta.


Auðvitað bar verkið keim af því að ekki voru atvinnumenn á ferð, en samt var þetta afskaplega vel gert. Ég vil ekki síst nefna tónlistina, sem var auðvitað frumsamin eins og annað. Hljómsveitin stóð sig heldur betur í stykkinu.


Þá sýndu allnokkrir leikarar afbragðs takta.

Guðbjörg Guðjónsdóttir, formaður árshátíðarnefndar
ásamt leikstjórunum Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur og Brúsa Ólasyni

13 mars, 2011

Trúarleg afskipti (5)

Kórbúðir á Nesjavöllum
Tíminn í Skálholtskórnum, sem ég reikna með að verði að teljast með því viturlegra sem ég hef tekið mér fyrir hendur á lífsgöngunni, stóð í um 20 ár. Því vil ég halda til haga, að ég tók ekki þátt í þessu starfi af trúarþörf einni saman, þó ekkert hafi ég haft á móti því að sinna þeim hluta starfsins. 

Vissulega kölluðu hefðbundnar messur ekkert á sérlega mikla sköpun eða frumlegheit. Þar fer nú allt fram samkvæmt messuskrá og líkist því að mörgu leyti leikþætti. Ekki ætla ég mér hinsvegar að fara að agnúast út í það, enda hef ég ekki betri lausn á því hvernig trúariðkum þeirra, sem játa evangelísk lúterska trú, ætti að vera (meginkrafan í þeim efnum ætti væntanlega að vera sú, að messugjörð sé þess eðlis að fólk þyrpist í kirkjurnar).
Í Gethsemane kirkjunni í Berlín
við undirbúning flutnings á
Brynjólfsmessu og Berlínarmessu

Kórinn fékk nú stundum að spreyta sig í tengslum við messurnar, flutti glæsilega kirkjutónlist við og við. Kirkjutónlist finnst mér vera sérlega skemmtileg og hún er ein megin ástæða þess að ég ákvað að endast í Skálholtskórnum svo lengi. 

Önnur megin ástæða fólst auðvitað í því, að það er mikilvægt fyrir samfélag að geta treyst á þjálfaðan kór til að flytja tónlist við ýmsar kirkjulegar athafnir, ekki síst á fagnaðar og sorgarstundum. 

Þriðja ástæðan fyrir þátttöku minni var auðvitað mikilvægi þess, í mínum huga, að taka þátt í félagsstarfi af einhverju tagi; komast út meðal félaga sinna, bæði til að njóta samvistanna og til að sinna einhverju sem skiptir miklu máli, bæði fyrir mann sjálfan og aðra. 

Fjórðu ástæðuna vil ég telja þann sem valdist til að stjórna tónlistarflutningnum; mann sem  virtist stundum fara fram úr sér í markmiðum, gerði stundum kröfur til samstarfsfólks, sem virtust út fyrir það sem eðlilegt mátti teljast, en sem reyndist vita nákvæmlega hvað hann vildi þar sem tónlistin sjálf var annarsvegar. Það sem þessi hópur lærði, ekki síst, var að vera tilbúinn að takast á við eitthvað nýtt, oft með stuttum fyrirvara. Við lærðum að takast á við áskoranir af æðruleysi, festumst, að ég tel, ekki í einhverju fari vanans - við lærðum að takast á við breytingar og fjölbreytni.
Í Pompei

Fimmta ástæðan, og hreint ekki sú sísta, voru ferðir kórsins vítt og breitt um Evrópu. Ætli fyrsta ferðin út fyrir meginland Íslands hafi ekki verið farin til Vestmannaeyja. Síðan var farið að hugsa stærra - meginland Evrópu varð áfangastaður kórsins í það minnst fjórum sinnum: 
- Sú fyrsta var í Móseldalinn og til Elsass, 
- Næst lá leiðin til Strassborgar og til Gardavatnsins (fór ekki - ekki viss), 
- Í þriðja skiptið lá leið til Slóveníu og Króatíu
- Fjórða, og stærsta ferðin var farin til Ítalíu.
- Sú síðasta, eftir að kórinn hafði verið leystur upp formlega, til Berlínar. 
Fornt hringleikahús á Sikiley

Ég held að ferðasögur hafi verið skrifaðar í lok allra þessara ferða, og þeim þyrfti að halda saman. 

Ein mikilvægasta ástæða þess að þessar ferðir (allar nema sú síðasta) voru svo einstakar sem rauning varð, var sú að við nutum þess að hafa í okkar röðum snilldar skipuleggjanda og fararstjóra, Hólmfríði Bjarnadóttur 'Hófí', en hún kom í sveitina með Hilmari Erni og starfaði með kórnum stærstan hluta þess tíma sem ég tók þar þátt.

Framundan um þetta efni - trúarleg afskipti mín - er lokakaflinn, sem mun væntanlega fjalla um aðdraganda þess að Hilmar Örn lét af störfum í Skálholti og það sem síðan hefur gerst.
Meðan á þeim umbrotatímum stóð var ýmislegt sagt og skrifað, staðfest eða óstaðfest. 


Sett hér af rælni: Þetta rákumst við á
í Pompei, en það gengdi það lílkega
því hlutverki að vísa leiðina að stað
þar sem unnt var að njóta holdsins
lystisemda.

12 mars, 2011

Sköpunarskrall

Ekki ætla ég mér að fara að kvarta yfir sólskininu sem lætur það eftir sér að lauga storð skjannabirtu á frostköldum laugardegi á góu. Meðan hörmungar ganga yfir réttláta jafnt sem rangláta einhversstaðar í fjarskanum, heldur maður áfram að líða í gegnum nútíðina eitthvert inn í framtíðina, ekki bölvandi neinu nema flestu því sem manni er í nöp við. Það að vera í nöp við eitthvað gerir manni nú ekkert gott, svona á heildina litið. Ég fæ til dæmis ekki mikla útrás fyrir nöp mína við það að lýsa hneykslan minni á illa kveðinni vísu - geri það nú samt - engum til framdráttar eða gleði.
Ég get tekið mig til, svona til tilbreytingar, og leitt hugann frekar að því, sem hefur birtist manni í dagsins önn með von um að veröldin er nú ekki öll að fara til fjandans.

Ég hef látið mig hafa það að tjá mig um málefni sem tengjast börnum og unglingum, ekki síst þar sem vinnan mín tengist fólki sem er að baksa við að verða fullorðið. Ég hef haldið því fram að við séum ekki að skapa þessu fólki besta mögulegt uppeldisumhverfi, og fer svo sem ekkert ofan af því. Þrátt fyrir uppeldislegt umhverfi er þarna á ferð hópur sem á það til að koma manni talsvert á óvart, og dæmi um slíkt átti sér einmitt stað í gær.

Þannig er, að á mínum vinnustað er það fastur liður í starfi vetrarins, að starfsmenn allir taka sig til og gera sér dagamun með því að varpa af sér hversdeginum með annarskonar starfi. Eitt af því sem þar gerist er liðakeppni, þar sem þeim sem yngri eru keppa sín á milli í ýmsum greinum. Þeir eldri setjast í dómarasæti og stig eru reiknuð þannig að sigurvegari kemur í ljós. Sama fyrirkomulag hefur verið á þessum keppnum í allmörg ár og ákveðin þreyta farin að gera vart við sig. 
Það kom fram sú hugmynd (meðal hinna eldri) að gera nú tilraun til breytingar á þessari keppni. Í stað þess að þátttakendur hlypu tímamældir um víðan völl og leystu þrautir var ákveðið að þessu sinni skyldi áherslan vera á skapandi keppni; nú skyldu liðin keppa að stærstum hluta í skapandi greinum.

Til að ekki veldust einhverjar, mögulegar klíkur í lið, tóku þeir eldri sig til og skikkuðu unglingana holt og bolt í lið með einhverjum félögum sínum. Liðunum var síðan ætlað að velja sér foringja, sem síðan sæi til þess að valdir yrðu fulltrúar til að leysa þær þrautir sem þeir eldri höfðu útbúið af kostgæfni. Til þess að leysa þrautirnar höfðu liðin síðan að hámarki einn og hálfan klukkutíma.  Þrautirnar sem um var að ræða voru:
Leiklist (skrifa og flytja leikverk, þar sem uppfylla varð tiltekin skilyrði)
Tónlist (semja lag og texta um tiltekið efni og flytja)
Skapandi skrif (skrifa texta um tiltekið efni)
Myndlist (teikna og mála myndir út frá tilteknum forsendum)
Síðan voru einnig þrautir fyrir þá sem  það hentaði betur:
Útivist (leysa verkefni með GPS tæki)
Raungreinar (ýmis verkefni leyst)
Hreysti (keppni í þrautabraut)

Það varð mitt hlutskipti að gerast dómari í tónlistarkeppninni. Ekki átti ég nú von á stórkostlegum afrekum á því sviði á svo stuttum tíma sem var til umráða. Þarna sátum við tvö og hlustuðum á sjö frumsamin lög og texta. 
Ég væri ekki að skrifa þetta nema fyrir það, að ég reyndist verða hálf gapandi yfir því sem út úr þessu kom. Sumt alveg einstaklega gott, bæði lag, texti og flutningur - auk sjálfsagðrar kurteisi, að sjálfsögðu, en einn þeirra þátta sem metinn var, var framkoma við dómara.

Tónlistarflutningurinn og leikverkin voru öll tekin upp á EOS550D í HD og verða flutt einhversstaðar þegar ég er búinn að læra að klippa myndupptökur af þessu tagi - nú er komið tilefni til.

Þetta var ekki leiðinleg keppni, reyndar bara harla skemmtileg, ekki síst fyrir það, að þarna voru nánast allir þátttakendur virkir í keppnisgreinum, bæði hlaupagikkirnir og þeir sem ekki hafa fengið að blómstra í fyrri keppnum af þessu tagi.


05 mars, 2011

Trúarleg afskipti (4)

Skálholtskórinn, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, var sannarlega ekki bara þessi hefðbundni kirkjukór sem starfar fyrst og fremst í  og í kringum messuhald eða kirkjulegar hátíðir. Slíkt er í sjálfu sér verðugt verkefni, ekki síst á stórhátíðum, við fermingar eða jarðarfarir. Aðkoma kórsins að þessum venjulegu messum var nú löngum ekki eitthvað sem var áhersluatriði - á seinni árunum var reyndar skipað í svokallaða messuhópa, sem síðan var raðað á sunnudagsmessurnar. Kórinn hafði stærri markmið en svo. Það var kannski einmitt það, að vera stöðugt að takast á við nýja áskorun með nýjum markmiðum, með metnaðarfullum átökum við tónlist af ýmsu tagi, sem gerði það að verkum að ég, í það minnsta, hafði mikla ánægju af þessu starfi. Það var alltaf eitthvað framundan sem manni fannst reyndar stundum vera fyrir utan það sem við myndum ráða við svo sómi væri að, en sem síðan reyndist vera ánægjan ein.

Ég vil halda því til haga, og það bera auðvitað að þakka, að kirkjan (Skálholtsstaður og sóknirnar í Biskupstungum) skópu með sínum hætti grunn fyrir svo öflugt kórstarf - bæði með því að greiða söngstjóranum laun og með greiðslum til kórsins fyrir söng við kirkjulegar athafnir. Ekki er ég svo vel upplýstur um fjármálin að ég viti hverjar upphæðir var þarna um að ræða, en í það minnsta urðu þær til þess, að mínu mati, að það var hægt að halda þessu starfi úti.

Ég þykist nú viss um það, þó ekki viti ég það með vissu, að ekki hafi kirkjustjórnin (þeir sem fóru með málefni kirkjunnar á Skálholtsstað) verið fullkomlega ánægðir með áherslur í starfi Skálholtskórsins. Það má vissulega segja sem svo, að með því að greiða fyrir þetta starf hafi kirkjan átt kröfu á því að starfið miðaði einvörðungu að tónlistarflutningi við kirkjulegar athafnir. Það máttu þeir þó vita, að til þess að söngfólk komi að málum til langframa, skiptir höfuðmáli, að um metnaðarfullt starf sé að ræða og alltaf sé til staðar einhver gulrót, eða áskorun. Gulrætur og áskorun þess fólks, sem kaus að starfa með Skálholtskórnum fólust í því að gera miklu meira en það sem rúmaðist innan veggja kirknanna í Biskupstungum.
Kórferð til Ítalíu 2008 - Á Caprí með Bubbu og Kristni

Tónlist er, eins og segir í inngangi að tónlistarstefnu kirkjunnar: "Forspil eilífðarinnar". Hún er ekki einskorðuð við ákveðna tegund, eða ákveðnar byggingar. Hvar sem hún er flutt gegnir hún hlutverki sínu - að gera mannskepnuna betri, að sætta hana betur við hlutskipti sitt, vekja með henni von, og dýpka skilning hennar á tilverunni.

Þá kem ég enn að því sem ég  hef svo sem áður nefnt á þessum síðum: kirkjan er eitt - trúin, guðsdýrkunin og lofsöngvar til dýrðar almættinu, er annað, þó þessir þættir skarist vissulega með því að kirkjan sér hlutverk sitt sem utanumhald og skipulag trúmála og býr þannig til ákveðinn ramma, sem hún telur að hæfi trúariðkun. Árið 2008, að mig minnir, var kynnt til sögunnar ný tónlistarstefna þjóðkirkjunnar. Ég vísa hér fyrir neðan til setninga úr þessari stefnu:

Meginstefna Þjóðkirkjunnar varðandi kirkjutónlist er sem hér segir:Musica praeludium vitae aeterna. Tónlistin er forspil eilífðarinnar.
Organistar og kirkjukórar stuðli jafnframt að því að efla safnaðarsöng.Leggja skal rækt við almennan söng safnaðarins.Prestar og söngstjórar styðji almennan söng við kirkjuathafnir svo sem útfarir, hjónavígslur, skírnir og fermingar.Í samræmi við eðli guðsþjónustunnar er hún haldin hátíðleg með söng þar sem söfnuðurinn allur er virkur.Almennur safnaðarsöngur hæfir jafnan helgihaldi og helgidómi með eða án undirleiks.

Þetta hljómar fallega, því verður ekki á móti mælt. Nú hefur þessi stefna varið í gildi í eitthvað um þrjú ár og ég velti því fyrir mér hverju hún hefur breytt. Ég minnist enn orða gamla unglingsins þegar ég kynnti fyrir honum þessa nýju stefnu þjóðkirkjunnar: "Það verður ljóta návælið!"  Hvort sú er raunin, veit ég ekki - hef ekki kynnt mér það.

Ég velti því fyrir mér, að hve miklu leyti það sem ég hef fjallað um hér að ofan, hafði áhrif á það að formlegu  starfi Hilmars Arnar hér í uppsveitum lauk.

Ætli ég kíki ekki á gulræturnar næst þegar ég fjalla um þetta málefni.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...