27 júlí, 2011

Orð tvö

Ég skellti hér inn í gær lagi sem kom út í janúar árið 1968 (upplagt að smella og hlusta meðan lesið er), þegar ég var nýskriðinn yfir á fimmtánda árið - sem sagt á því aldursskeiði þar sem allt var að gerast, í það minnsta svona hið innra.

Þó ég hafi nú ekki verið neitt sérstaklega að gefa það út, að mér hafi fallið nokkuð vel við aðra tónlist en þá sem flutt var af hljómsveitum eins og Jethro Tull, Deep Purple, Cream, King Crimson eða Santana, á þessum tíma, þá er því ekki að neita að í mér var til og er kannski enn, strengur sem lætur hana sér vel líka.

Ástæða þess að ég skellti þessu þarna inn var það sem á undan er gengið og sem ég ætla ekkert að fjalla um. Í framhaldi af því er farið að glitta í löngu tímabæra umræðu um það hvernig þessi blessaða þjóð hefur verið að þróa samskiptahætti sína undanfarin ár.

Þó svo texti þessa lags hafi kannski ekki mikið beinlínis með það að gera, sem ég er að vísa til, þá fjallar hann um orð, en þau eru augljóslega talsvert mikilvægt þegar við menn eigum samskipti okkar í milli.

Ég lærði það, líklega á svipuðum tíma og Bee Gees voru að eyða gróðanum af laginu góða, að það skiptir máli hvernig maður tjáir sig. Hver sá sem setur eitthvað frá sér í með orðum, er jafnframt að senda út einhverja tiltekna mynd af sjálfum sér. Hér er afskaplega nýlegt dæmi um mann sem er að tjá sig í framhaldi af bloggskrifum:
Mig hefur oft langað að segja þér það og nota tækifærið núna.
Þú ert viðbjóðslegur aumingi sem bókstaflega allt hugsandi fólk getur ekki annað en fyrirlitið.
Ég vorkenni foreldrum þínum fyrir þau mistök að hafa ekki drekkt þér í fæðingu.
En foreldrar þínir stigu náttúrulega ekki í vitið heldur.
Einhverjir kunna nú að segja að hér sé bara um að ræða orð, og að ekkert sé meira um það að segja. Þó svo ég verði að viðurkenna (ég er bara í því að viðurkenna núna) að  orðbragð eins og þarna, er hætt að hafa nokkur áhrif á mig, þá er þarna ekki settur neinn fyrirvari um að hér sé á ferðinni grín, eða kaldhæðni, sem leiðir mann til að álykta sem svo að hér sé á ferðinni fúlasta alvara. Maður veltir fyrir sér hvort sá sem skrifar og bloggskrifarinn eigi einhverja sögu saman sem þarna er verið að gera upp. Hvað fær fólk til að senda texta af þessu tagi frá sér?  Ég, sem lesandi textans mynda mér óðara skoðanir á ýmsu í fari þess sem skrifar, t.d. :

a. Hér er ekki hamingjusamur einstaklingur á ferð.
b. Þessum einstaklingi get ég ekki tekið mark á.

Í raun og veru getur vel verið að allt sem maðurinn segir sé hægt að rökstyðja, þó svo draga megi það í efa, en skiptir það einhverju máli?

Látum vera munnsöfnuðinn sem tíðkast í opinberum skrifum fólks eins og hér fyrir ofan. Orð eru misdýr og skipta mismiklu máli. Þó við teljum okkur geta metið það hvenær orð skipta máli og hvenær ekki, þá er ekki víst að svo sé. Fyrirmyndir þeirra sem eru á svipuðum aldri og ég var þegar Bee Gees voru að græja lagið sitt, geta, með orðfæri sínu, hvort sem er í orði eða rituðu máli, valdið einhverju ófyrirséðu.
Mér er nú fokking sama. Hvern fjandann kemur mér það við? Drullastu til að skilja það, að ég segi það sem mér sýnist, hvernig sem mér sýnist og hvenær sem mér sýnist. It's a free country, you know!"
Ætli séu ekki tvær stéttir fólks sem bera hvað mesta ábyrð á þeirri umræðuhefð sem hér hefur þróast (fyrir utan auðvitað tækniþróunina): stjórnmálastéttin og fjölmiðlastéttin.

Það kann að vera að ég nenni að skoða það betur síðar. (Ég fokking díla við það þegar það passar mér)

25 júlí, 2011

Líklega árið 2036 næst

Nei, sannarlega er ég ekki að gera því skóna, að næsta fjöldamorð sem raunveruleikafirrtur öfgahægrimaður fremur, muni eiga sér stað á þessu ári. Ég er búinn að vísa til margra öfgafullra ummæla undanfarin ár - ummæla sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.


Ég kýs að fjalla ekki um það sem gerðist í Noregi s.l. föstudag umfram það sem ég gerði hér. Þetta er ekki vegna kaldlyndis, heldur hef ég bara ekki þörf fyrir að lýsa því fyrir lesendum hve sorglegt mér þykir þetta allt saman. Það er eitthvað sem þarf ekki að segja frá, við þessar aðstæður. Þar fyrir utan eru þeir nógu margir, að mínu mati, sem freista þessa að raða saman árifaríkum orðum af þessu tilefni og ekkert slæmt um að að segja.


Nóg um það.

Ég giska á að árið 1986 hafi verið reistur skjólveggur sá í Kvistholti, sem hér má sjá á mynd. Hlutverk hans var, og er, að tryggja það að svokallað hringrok hefði sem allra minnst áhrif á möguleika sóldýrkandi Kvisthyltinga. Þessu hlutverki hafði skjólveggurinn gegnt í um 25 ár, talsvert lengur en hægt var að ætlast til af honum, enda ástand hans orðið slíkt undir það síðasta, að þegar fD skellti á hann viðarvörn s.l. sumar mátti á köflum varla á milli sjá hvað væri hárin í penslinum og hvað timbrið í skjólveggnum. Af þessum sökum taldi ég ekki undan því vikist lengur, að endurnýja timbrið í skjólveggnum góða.

Ég held, að þó svo ég hefði harla gaman af því að lýsa í smáatriðum aðdraganda ofangreindrar endurnýjunar, láti ég það að mestu leyti ekki eftir mér: efnismælingarnar, pöntunin, óþarflega snögga afhendingu - þetta verður bara að eiga sér stað í hugarheimi mínum áfram.

Það þarf auðvitað enginn að fara í grafgötur um, að sem fyrr, þar sem verklegar framkvæmdir í Kvistholti eru annarsvegar, er ég betri en enginn. Enn á ný kom í ljós að það er grunnt á hæfileika sem ég reyni að fela sem allra mest.

Ekki fjölyrði ég um skipulag og framkvæmd. Slík umfjöllun gæti bent til þess að ég beri og mikið traust til sjálfs mín þegar verklegar framkvæmdir eru annars vegar.
Skjólveggurinn fór upp á sama stað og sá gamli, en til þess að endurtaka ekki hönnun gamla veggjarins ákvað ég að fara nokkuð nýja leið í hönnuninni. Nýja útlitið mun sóma sér vel sem verðugur minnisvarði um verkkunnáttu Kvisthyltinga (fD var betri en enginn við framkvæmdirnar).

Myndasería í heild sinni.

24 júlí, 2011

Skúrir í grennd


Ég á nú að vera nægilega viti borinn til að gera mér grein fyrir því, að þegar veðurspá spáir eindreginni rigningu, þarf ég að klæða  mig almennilega ef ég ætla út í heilsubótargöngu.

Ég klæddi mig ekki almennilega og skellti mér í heilsubótargöngu. 
Merkin hefði ég getað lesið út skýjafarinu og með því að fara á veður punktur is.

Það var milt og þægilegt veður þegar ég lagði af stað í átt að Höfða. 
Lét gott heita þegar ég var kominn langleiðina.

Þá byrjaði að rigna. 
Rólega í fyrstu og olli engum áhyggjum.
Óx nokkuð hratt og ég langt frá hinum endanlega áfangastað. 
Varð að hellidembu sem ekki linnti.

Vanhugsaður klæðnaðurinn reyndist lítil vörn og það leið ekki á löngu áður en ég fann fyrir fyrstu vætunni innan klæða. 
Ég reyndi að herða gönguna. 
Var jafnvel farinn að huga að því að leita skjóls. 

Hugsaði samt um hetjuskap minn að ganga þarna hnarreistur í haugrigningu.
Sannur Íslendingur sem lætur veðrið  ekki aftra sér frá samneyti við fugla himinsins og dýr merkurinnar.

Ég mætti nokkrum bílum á leit á grænmetismarkað. 
Fólkið horfði á mig, en ég gat ekki lesið úr andlitsdráttum þess hvað því fannst.

Ég komst heim við illan leik, en hnarreistur og stoltur af því að hafa lokið daglegri göngu.
Ég komst inn í hlýjuna með alla möguleika á að ná hita í kroppinn eftir ræskingu náttúrunnar.

Auðvitað er lærdómur:
Lestu merkin og gerðu viðeigandi ráðstafanir.
Við vitum að þar sem dökk ský hrannast upp á himni, þar eru líkur á úrkomu.
Það eru ekki bara dökk ský á himni.

(prósaljóð - ef einhver skyldi ekki átta sig á því)

17 júlí, 2011

Leyðindatuð

Þegar maður er að tjá sig munlega eða skrivlega er það eyna sem skiftir máli að þeyr sem erað hlusta eða lesa, skylji. Mjer er sljett sama kveddnig Jón Jónsson stafsetur fjesbógarfærsludnar sýnar eða bloginn sýn - það er bara hanns mál.  

Það er lýtið eitt vera þegar sá sem hefur tekjur af þí að skrifa eða flidja með öðrumm hætti, tegsta firir almening, kjemur honum egi óbreyngluðumm frá sér. Mjer finst það eyinlega bara alveg ótægt.

Þar sem jeg hef þesa skoðunn tylheiri ég þeymm leyðilga hóbi fóls sem er altaf að sedja útá það sem aðrir gera. Það er víst alveg tilgánslaust að vera aðessu tuði alltaf hreint. Það er auðvita alveg rjett á meðann alment viðhorf til þess kvenig málið er framm set er eynsog það er.

Eyðar þessa lans berjast við vyndmillur. 


11 júlí, 2011

Bland í

Það er afskaplega einkennilegt hve mikil áhrif tilteknar breytingar á lífsháttum geta haft í för með sér. Mannskepnan kemur sér upp allskyns hegðunarmynstri sem síast inn í undirmeðvitundina með þeim afleiðingum, að breytingar á lífsháttum  geta kostað nokkur átök.


Nú eru átök í Kvistholti, vont sem felur í sér von um gott. Klassísk átök góðs og ills, þar sem hið góða felur í sér þröngan og hlykkjóttan stíg en hið illa beinan og breiðan, upplýstan, 4ra akreina þjóðveg, þar sem þarf að greiða vegtoll.
Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig þessum átökum lyktar.

---------------------------

Það er orðið árlegt að litlir sumargestir tylla sér á pallinn um lengri eða skemmri tíma. Maríuerla hefur verið að fjölga sér hérna í nágrenninu og fyrir skömmu birtist eitt afkvæmið á pallinum og settist þar að eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var ekki fyrr en ég var kominn með EOSinn í tveggja metra fjarlægð að þessi saklausi fugl himinsins byrjaði að teygja vængina til undirbúnings fyrir brottför. Hætti svo við úr því ég koma ekki nær. Hann var ekki búinn að átta sig á því að það eru til ill öfl í heiminum.

-----------------------------------
Það er nú varla hægt að tala um náttúruöflin sem ill eða góð. Þau eru bara eins og þau eru. Mér finnst nú eins og við mennirnir séum farnir að setja okkur á dálítið háan hest þegar ógnaröfl náttúrunnar eru annar vegar. Kannski er það raunveruleg örvænting vegna yfirvofandi hruns í ferðaþjónustunni og kannski er það kröfugerð þess sem ekki ber ábyrgð en vill reyna að slá sig til riddara, eða kannski er það hrein og bein firring sem veldur því að menn telja að  við, aumir menn, getum, eins og einhverjir töframenn, kviss-pang, brúað stórfljót á augabragði.


Við búum nú í þessu landi - það er eins og það er - svona er málum háttað hér.
Sýnum náttúruöflunum tiltekna virðingu.


Jæja - það kann að vera að við höfum til þess tæki og tól og verkkunnáttu, að græja eins og eina brú í einum grænum.

07 júlí, 2011

Systrasel í heiði

Lengi hefur blundað með dætrum Þorvalds, óskin um að leita uppi fæðingarstað föður síns. Reyndar fórum við fD þessa ferð fyrir einum 10 árum, en tókst með óskiljanlegum hætti að finna ekki fæðingarstaðinn - vorum þó auðvitað réttum stað, en vantaði bara staðfestingu á að rétt væri.

Fjórar eru systurnar, ef grannt er talið

Það var svo í byrjun árs að Frónbúandi dætur hófu skipulagningu ferðar austur á bóginn, nokkurskonar pílagrímsferðar. Fyrst átti hér að vera um að ræða talsverða ferð, svona tveggja til þriggja daga með fínum aðbúnaði, en eftir því sem nær dró týndust gistingarfjaðrirnar af og eftir stóð dagsferð austur á Kirkjubæjarklaustur og nágrenni, með mig sem bílstjóra. Þrjár voru dæturnar sem í ferðina fóru og tvö viðhengin. Fjórða dóttirin var með í andanum, að því er sagt var, og ekki er útilokað að sú nærvera eigi sér einhverjar birtingarmyndir.
Allt gekk þetta vel fyrir sig og áætlanir stóðust.

Heiðarsel í fjarskanum

Staðurinn sem leitað var heitir Heiðarsel á Síðu. Til að komast að honum er ekið upp hjá Hunkubökkum, veginn þann sem ekinn er til að komast í Laka. Eftir um 5 km akstur blasir Heiðarsel við í dalverpi, ekki amalegt umhverfi á þessum árstíma, en að sama skapi erfitt á vetrum, að sögn kunnugra.

Augljóslega voru byggingarnar á jörðinni ekki frá þeim tíma er Þorvaldur, faðir dætranna, fæddist þar og sleit barnsskónum. Hann fæddist 4. janúar, 1920 þarna í heiðinni, og hafa dæturnar komist yfir frásögn af  því þegar sögumaður ver sendur í Heiðarsel í byrjun janúar til að líta til með húsmóðurinni sem þá var ný orðin léttari. Ræddu þær þessa frásögn mikið, fram og til baka, meðan stansað var í Heiðarseli, en svo illa vildi til að sjálfur textinn hafði orðið eftir heima og því margskonar túlkun komin af stað í umræðunni, sem við viðhengin tókum ekki mikinn þátt í.
Sko - þær voru þarna allar - fv. fS, fP, fA og fD

Staðreyndir í sögunni segja að fjölskyldan hafi flutt frá Heiðarseli 1934. Engin staðfest bygging frá þeim tíma fannst í pílagrímsferðinni, en ímyndunaraflið látið ráða þar sem staðreyndum eða sannleika sleppti.
Þær byggingar sem þarna eru uppistandandi eru að mestu leyti frá um 1950, en nú er ekki föst búseta þarna, en jörðin er samt nytjuð og er í eigu bænda í Landbroti.

Eftir kaffisopa (sumir reyndar meira) í Systrakaffi, í grennt við Systrastapa, Systrafoss og systra-hitt og systra-þetta, var þeyst í vesturátt undir kvöld.

Góður var kvöldverðurinn í Árhúsum á Hellu.

02 júlí, 2011

Varptíminn er líklega liðinn, en......

....það er nú samt hægt að líta svo á, ef maður er sæmilega víðsýnn, að það sé alltaf réttur tími fyrir fuglahús.

Hér var fjallað um það þegar efri hlutinn á heldur háu grénitré var fjarlægður fyrr í vor. Síðan hefur það sem eftir er af trjástofninum beðið eftir einhverju viðeigandi hlutverki og í því sambandi var því meira að segja varpað fram af nokkurri alvöru að ÉG tæki mig til út byggi til úr stofninum svokallaða TÓTEM- súlu, sambærilega við þær sem frumbyggjar Ameríku eru þekktir fyrir, en eins og þá sem Gunni Tomm skar út fyrir allmörgum árum og sem stendur niðri við veg.

Ekki hefur mér enn tekist að koma þessari hugmynd nægilega vel fyrir í hugskoti mínu til að hefjast handa við trjáskurðinn, en hugur fD hélt áfram að vinna að lausn trjástofnsmálsins.

Þannig háttar til hjá fjölmörgum fjölskyldum víða um land, að hluti af grunnskólanámi barnanna felst í því að búa ýmislegt til, því það er sannarlega mikilvægt að nemendur reyni fyrir sér við handverk ekki síður en bóklestur.  Svona háttaði einnig til hér. Ýmsir munir urðu til á grunnskólaárum fjögurra barna. Ekki ímynda ég mér annað en þessir hlutir hafi einhvernveginn orðið kyrrir hér í Kvistholti þegar ungarnir flugu úr hreiðrinu (það eru margir hlutir til í Kvistholti).

Þannig er það með fuglahúsið.


Hér er á ferðinni heilmikil völundarsmíð úr vatnsheldum krossviði, opnanlegu þaki, og sérlega haganlega hugsaðri þakfestingu, Þá er húsið málað með gullbronsi. Þar sem eigandi hússins kaus að flytja þetta fína fuglahús ekki með sér til höfuðborgarinnar, Perth, Oslóar og Álaborgar, til að veita fuglum þessara staða á jarðarkringlunni skjól, þá ákváðu íbúar geymslusvæðisins í Kvistholti að nýta húsið til að efla og styrkja fuglasöng og fjaðrafok í næsta nágrenni, næsta vor.




Að öðru leyti bíður afskorinn trjástofninn þess að hugmynd að umbreytingu í tótemsúlu ljósti niður í höfuð tilvonandi útskurðarmeistarans.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...