30 september, 2011

Gyllinæðarkremið

Það breytir engu í því samhengi sem hér er um að ræða, en ég verð samt að nefna það, þar sem það skýrir það sem skýra þarf. 
Þannig er mál með vexti, að hásin hefur verið að plaga mig um alllangt skeið. Þetta er auðvitað afskaplega hvimleitt og mér hefur verið talsvert í mun að leita leiða til að óþægindin sem þessu fylgja, hverfi.

Það var svo í heimsókn okkar fD til Álaborgarfjölskyldunnar í byrjun ágúst að ég bar mig upp undan þessu við Kvisthyltinginn sem allt á að vita um svona hluti, að mínu mati. Hann greindi mér þá frá því, að þegar hann dvaldi í Ástralíu um eins árs skeið fyrir nokkrum árum, hafi hann einmitt lent í því að fá eymsl í hásin. Að fyrirmælum læknis hafi hann, fimm nætur í röð, borið blöndu af Voltaren geli og gyllinæðarkremi á hásinina og síðan vafið filmuplasti yfir allt saman. Hann kvað þetta hafa virkað vel.

Með þessa vitneskju yfirgaf ég Álaborg og gisti landið bláa á ný með minn hásinarvanda.

Þar kom að ég hélt á fund læknis til að freista þess að fá hann til að skrifa út lyfseðil á Voltaren og gyllinæðarkrem. Hann þráaðist nú við, glotti og kvaðst aldrei hafa heyrt um svona lækningaaðferðir, en var á endanum til að gefa mér færi á að prófa. Ef árangurinn yrði jákvæður gæti þetta haft áhrif á framþróun læknavísina á Íslandi.

Fram til þessa hafði umræðan um gyllinæðarkremið ávallt farið fram í samhengi við hásinarbólgu og því aldrei reynt á hin óorðanlegu viðhorf og hugrenningatengsl sem fara af stað þegar þetta samhengi er ekki fyrir hendi.

Með útskrift lyfseðilsins hvarf þetta samhengi og framundan var að fara í apótekið og leysa út kremin tvö. Þar sem ég bý í fámennu samfélagi, til þess að gera, þekki ég auðvitað apótekarann, úr barnaskóla, kórstörfum og hinu og þessu gegnum áratugina. Án þess að ég vildi fór ég að velta fyrir  mér hvaða hugsanir færu í gegnum höfuð hans þegar hann fengi gyllinæðarkremslyfseðilinn í hendur.
"Jæja, er karlinn bara kominn með gyllinæð, he he. Ræfils tuskan."

Ég var staðfastur í, að þrátt fyrir að möguleikinn á ofangreinri hugsun apótekarans væri fyrir hendi, skyldi ég með engu móti láta sjá það með svipbrigðum mínum, látbragði, eða orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað annað en hið eðlilegasta mál - sem það var auðvitað, nú fyrir utan það, vissulega, að þarna var verið að prófa ástralska lækningaaðferð í fyrsta skipti á Íslandi - en ég minntist ekki á það, enda myndi það bara hljóma sem afsökun til útskýringar á gyllinæðarkreminu. 

Ég stóðst með prýði kremkaupin, og apótekarinn auðvitað líka  -  bara spjallað um daginn og veginn meðan verið var að prenta notkunarleiðbeiningar á miðann. Borgað, burt.

Þegar heim var komið skellti ég kremunum bara á eldhúsborðið. Það var allt í lagi þar sem ekki var nú um að ræða aðra í húsinu en mig og fD, sem var vel heima í hásinarumræðunni og því með rétt stillt viðhorf til málsins.

Þá kom fólk í heimsókn - svona vel rúmlega miðaldra hjón sem hafa ýmsa fjöruna sopið. 
Þau settust við eldhúsborðið áður en mér tókst að skanna það fyrir hlutum og/eða efnum sem þar hefðu ef til vill ekki átt að vera. Á borðinu var gyllinæðarkremið og reyndar líka Voltaren gelið, en nákvæmlega það bjargaði því að ég þyrfti að fara í einhverja sérstaka vörn. Konan er ekki þekkt af því að spyrja ekki, ef hana vantar svör. Þessvegna:
"Hvaða krem er þetta?  Doloproct rektal creme??"  
Þarna skellti ég nú bara fram, blátt áfram, eins og ekkert væri eðlilegra, forsögunni, algerlega vandræðalaust, með þessum viðbrögðum:
"Já, gyllinæðarkrem. Maður þekkir það nú vel."
Þar með var það bara afgreitt.

Um kvöldið tók ég mig til og blandaði í einhverjum hlutföllum, kremunum tveim, bar þau í talsvert þykku lagi á hásinina endilanga og vafði síðan filmuplasti rækilega yfir allt saman. Fór svo bara að sofa og vaknaði aftur morguninn eftir eins og hlýtur að vera, því annars væri ég ekki að skrifa þetta.

Breytingin var nú ekki mikil, nema sú, að mér fannst að þessi kröftugu bólgueyðandi krem hefðu fjarlægt allar bólgur svo rækilega, að hælbeinsliðurinn skrölti svona eins og þegar bremsur eru járn í járn. Það lagaðist þó, og ég hélt áfram að bera þessi krem samviskusamlega í 5 nætur, án þess að þau sönnuðu sig sem tímamótaframfarir í læknavísindum á Íslandi.

Hvort sem lesendur trúa því eða ekki þá hef ég,  í gegnum þetta gyllinæðarkrem, fyrsta sinni aflað mér upplýsinga um hvaða fyrirbæri þessi gyllinæð er, og þar komst ég meðal annars að því, að nafnið er ekki gegnsætt, en lýsir sakleysislegasta fyrirbæri, ef grannt er skoðað.

29 september, 2011

"Jæja, og hverju á svo að mótmæla?"

Væri það á planinu hjá mér að skella mér í að taka þátt í margnefndum mótmælum, klukkan þetta eða hitt á laugardaginn kemur, stæði ég frammi fyrir talsverðum vanda. Vandinn sá snýst nú einfaldlega um það, hverju skal mótmæla. Í sinni ýktustu mynd gæti staðan orðið sú, að ég stæði,  berjandi pottlokin mín, við hliðina á einhverri manneskju, sem ég tel vera rangrar skoðunar, berjandi sín pottlok. Gæti þessi aðstaða ekki orðið til þess að ég færi að berja hana með pottlokunum mínum, nú eða hún mig með sínum?

Helstu skoðanir eða tilfinningatjáningar mótmælanna á laugardaginn verða eitthvað af þessu, eða allt, eða ekkert:
1. Ríkisstjórnin, sú sem nú situr
2. Ríkisstjórnin, sem sat áður en hrunið varð.
3. Bankarnir
4. Útrásarvíkingarnir
5. Þjóðin sjálf
6. Alþingi eins og það leggur sig.
7. Stjórnmálastéttin (sem ég veit nú ekki vað er)
8. Íhaldið
9. Bensínhækkanir.
10. Hækkanir á lambakjöti.
11. Kötturinn í næsta húsi.
12. Hundkvikindið hans Sveins í Garði.
13. Eiturlyf.
14. Einelti.
15. Bara allt helvítis fokking fokkið.
16. Bara engu. Vil bara snapa fæting.

Ég tek ekki séns á að verða barinn af  ósammála meðmótmælendum mínum og því mæti ég ekki til þessara mótmæla. Ég, þessi rólyndismaður fann blóðið fara að ó´lga í mér í dag þegar væntanlegur mögulegur sammótmælandi minn hóf upp raust sína og lýsti ástæðum þess að hann ætlar að fara að mótmæla. Ef ég hefði haft pottlok.......

Mig grunar  að meginhluti mótmælenda ætli að mótmæla þeim sem síst skyldi í þessu öllu saman. Það finnst mér dapurlegt og okkur ekki til framdráttar sem þjóð. Þjóð sem á erfitt meða annað en horfa bara á naflann á sér.

Þannig er það.
Vonandi njóta menn helgarinnar.

27 september, 2011

"Það er ekkert að geeeraaa!"

Ég hugsa að þeir séu ansi margir foreldrarnir sem kannast við þessa setningu hjá börnum sínum. Svarið í mínu tilviki hefur nú oftast verið eitthvað í þessa veruna: "Finndu þér þá eitthvað að gera", nú eða "Hvernig væri að fá sér bók og fara að lesa?"

Þessar aðstæður hafa komið aftur og aftur upp í hugann undanfarna daga við að hlusta á fádæma vælið í þessum forkólfum atvinnulífs í landinu. Það er eins og þeim finnist að Jóhanna mamma og Steingrímur pabbi eigi að finna eitthvað fyrir þá að gera.

Þeir hegða sér eins og ofdekraðir unglingar sem gera kröfur á alla aðra en sjálfa sig.

Ég fæ mig ekki til að skilja þennan ótrúlega þreytandi málflutning öðruvísi en svo að annað búi að baki en einhver raunveruleg andstaða ríkisstjórnarinnar við að atvinnulíf fari í gang.
Það er markvisst verið að vinna að því að koma þessari stjórn frá. Svo einfalt er það nú í mínum huga.

Svo sorglegt sem það er nú, þá virðist málflutningurinn ganga í þjóðina.

Ég hef áður fjallað um þjóðina - hún er eins og hún er.

25 september, 2011

Af jólatré og búð


Eftir því sem ár líða og nýtt fólk tekur við af þeim sem safnast inn á ellibelgjalistann og/eða til feðra sinna, verður alltaf ákveðið rof. Það sem var sannleikur eða viðtekið meðan séra Guðmundur var presturinn og Herra Sigurbjörn biskupinn, verður kannski ekki jafn mikill sannleikur eða jafn viðtekið þegar séra Egill er presturinn, séra Sigurður, vígslubiskupinn og Herra Karl, biskupinn. Allt er breytingum háð, annað hvort breytingum til hins betra eða hins verra. Hvort breytingar eru til his betra eða verra er síðan háð mati hvers og eins og allt það.

Þetta var háspekilegur inngangur að frekar einfaldri umfjöllun um málefni Skálholtsstaðar, en staðurinn sá hefur all oft orðið tilefni til umfjöllunar af minni hálfu. Nú í tilefni af því að þeir eru byrjaðir að byggja gervifornleifar við kirkjuvegginn; reyndar ekki beinlínis í tilefni af því, út af fyrir sig, heldur því að þessi bygging er orðin eitt af þessum málum sem allir geta haft skoðun á, meira að segja þó þeir viti ekkert hvað þeir eru að tala um. Slík mál eru mörg í þessu landi þessi árin.

Mitt hlutskipti hefur verið að lifa lífi mínu í næsta nágrenni Skálholtsstaðar allt fá fæðingu og því hef ég óhjákvæmilega öðlast talsverða þekkingu á því sem þar hefur farið fram, alla vega því sem við hér í nágrenninu höfum fengið að eða mátt vita af.

Það var ljóst alveg frá upphafi að engu mátti koma fyrir í nágrenni dómkirkjunnar, sem varpaði með einhverjum hætti skugga á bygginguna. 
- Það mátti ekki planta neins konar trjágróðri (þótt talsverður sigur þegar leyfi fékkst til að planta skjólbelti í og umhverfis nýja kirkjugarðinn, sem þó stendur talsvert miklu lægra en kirkjan. 
- Það mátti ekki merkja leiði við kirkjuna öðruvísi en með láréttum legsteinum - engir uppistandandi steinar leyfðir. Ég held að það sé búið að brjóta þessa reglu. 
- Það mátti ekki setja ljós á leiði um jól, en sú regla er úr gildi.
- Það mátti ekki setja upp upplýst jólatré í nágrenni kirkjunnar, en það tókst að afnema þá reglu og nú er oftar en ekki upplýst jólatré í forgrunni þegar opinberar myndir af kirkjunni um jól, birtast.

Sem sagt - það mátti EKKERT skyggja á bygginguna. Ég hef lært að vera sammála því, enda er hún afskaplega reisuleg of sést víða að. Rústir af einhverri Þorláksbúð fengu að vera þarna við kirkjuvegginn (ég veit ekki hvort þær eru upprunalegar, eða yfirleitt hvað þessi Þorláksbúð var, eða hvort hún var eitthvað merkileg).

Eins og ég kom inn á í innganginum, þá vill það gerast eftir því sem tímar líða og nýir herrar koma að málum, að það verður ákveðið rof. Það verður smám saman leyft sem áður var bannað, og það sem var leyft verður stundum bannað. Allt eru þetta nefnilega mannanna verk þó stundum séu notuð einhver manngerð guðleg rök fyrir þeim.  Mannanna verk eru þess eðlis að menn geta breytt þeim, guðleg rök eru þess eðlis að mennirnir geta breytt þeim.

Þannig hefur þetta verið á Skálholtsstað sem víðar. 

Það hefur verið að slakna á ýmsum þeim reglum sem settar hafa verið um umhverfi Skálholtskirkju. Það nýjasta í þeim efnum er uppbygging Þorláksbúðar (sem ég veit ekki einu sinn hvort á sér nokkra merkilega sögu), alveg við kirkjuvegginn.

Ég held að það sú nú nokk sama hvort ég fer að tjá einhverjar skoðanir á þessari framkvæmd núna. Ég er búinn að vita af henni talsvert lengi. Ég hef vissulega skoðanir, en mér finnst hálf hallærislegt, svo löngu eftir að byggingin er farin af stað, að fara að blása eitthvað um hana. Það sem ég leyfi mér að gagnrýna er hversu hljótt hefur verið um þetta verk á þessum einum mesta sögustað þjóðarinnar. Þá finnst mér ástæða til að velta fyrir sér þessu Þorláksbúðarfélagi, sem ég hef ekki heyrt af fyrr en fyrir nokkrum dögum. Er það eitthvert leynifélag?

Ég ætla nú ekki að tjá mig um hugsanir mínar í tengslum við aðkomu Þingmannsins okkar Sunnlendinga að þessu máli. 

Skyldi þessi framkvæmd vera einn leiðarsteinninn í átt að formlegu afnámi klappbannsins?

24 september, 2011

IE: Allt önnur hlið

Ég og fD áttum leið til Kaupmannahafnar með Iceland Express í byrjun ágúst s.l. og sú reynsla varð til þess að ég sá mig knúinn til að lýsa henni hér. Þetta var ekki fögur lýsing, en rétt, á þeim tímapunkti.

Ég og fD áttum leið til Berlínar með Iceland Express þann 19. september með heimkomu þann 23. Þetta flugfélag var ekki valið vegna góðrar reynslu úr fyrri ferðum - sannarlega ekki.

Reynslan þessu sinni svo aldeilis allt önnur en í hið fyrra sinnið og ástæðurnar eru þessar:

1. Við fengum miða á afskaplega góðu verði, sem auðvitað segir ekkert um gæði þjónustunnar, en er nefnt til samanburðar við verð á flugi til Álaborgar í ágúst s.l., sem ekki var farið vegna ótrúlegs verðlags.

2. Flugið frá Keflavík átti að hefjast kl 08:55. Það var tekið á loft kl. 08:55. Fagmennska áhafnarinnar var með miklum ágætum og við lentum einum 20 mínútum á undan áætlun í Berlín.

3. Flugið frá Berlín kom okkur enn meira í opna skjöldu, en 40 mínútum  fyrir áætlaða brottför lentum við fD í því að verða síðust farþega um borð í vélina, sem síðan varð að bíða á vellinum vegna reglna flugvallarins um brottfarir fyrir áætlaðan tíma.  Starf áhafnar var manneskujulegt og fagmannlegt og gerði ekkert nema bæta reynsluna. Flugfreyja sem hefur öðlast einhvern innri ljóma hins reynda einstaklings, stóð sig af stakri prýði í okkar hluta vélarinnar. Æskan er ágæt að mörgu leyti, en hana vantar bara svo margt.

Þarna umpólaðist ég í afstöðu minni til Iceland Express. Ef þetta flugfélag heldur svona áfram á það fullt erindi í samkeppni um flug yfir hafið. Stóri bróðir má vara sig.

Þetta segi ég, en er ekki þar með að lýsa því að eignarhald félagsins sé mér að skapi.

18 september, 2011

Vér um oss frá oss til vor

Oss hefur fundist það, á samferðamönnum vorum gegnum tíðina, að þeim fyndist ekki eftirsjá að því að svokallaðar þéringar væru ekki lengur notaðar í samskiptum manna í milli. Eigi erum vér fyllilega sammála þeim sem fagnað hafa og fagna enn brotthvarfi þérunar úr samskiptum milli manna.

Eigi höfum vér allskostar kunnað við þann samskiptamáta sem tók við af þérunum, þar sem þar með hvarf nauðsynlegur, að voru mati, stöðumunur þeirra sem saman ræddu. Með því menn hættu, til að mynda, að þéra Forseta Íslands, hvarf nauðsynleg fjarlægð hans frá pöplinum og þar með  nauðsynleg virðing fyrir embættinu. Allt varð sama flatneskjan.
Þá finnst oss afar mikill missir að því að nemendum skuli ekki vera gert að þéra kennara sína lengur.
"Sigurður, þér eruð fífl!", hljómar t.d. miklu sterkara en "Siggi, þú ert fífl!"

Nei, þetta er horfið, en kom skyndilega í huga vorn aftur við litla og sakleysislega athugasemd á fésbók:
"Er það rétt sem mér sýnist á myndum yðar úr Tungnarétt(um) að það hafi rignt?"
 Í því samhengi sem þetta var þarna inn sett, gætum vér freistast til að reyna að túlka hvað að baki lá:

1. Er viðkomandi þarna að setja oss skör ofar en sjálfan sig, í virðingarstiga (hann notar ekki þérun er hann vísar til sjálfs sín).
2. Er þérunin til komin vegna uppskrúfaðs málfars í texta vorum, sem athugasemdin síðan byggir á?
3. Er viðkomandi þarna að setja oss skör neðar og þar með gera lítið út athugasemdum vorum um tilteknar réttir á Skeiðum?
4. Er viðkomandi að nýta sér þekkingu á þérunum til að villa um fyrir síðari kynslóðum, sem ekki þekkja þennan tjáningarmáta og get því ekki lesið í hin fínu blæbrigði.

Það má lengi velta fyrir sér hvað það var sem að baki lá, en vér teljum yður, lesendur vora engu  munu verða nær við frekari vangaveltu í því sambandi.

Með því að taka upp þéranir aftur munum vér nálgast á ný hið miklvæga jafnvægi.

Einhvernveginn, aldrei.....


Það var  farið með okkur systkinin í réttir í gamla daga. Ég man nú ekki margt frá þessum réttaferðum, en þó tvennt:
1. Ég varð vitni að því þegar lamb var tekið si svona og skorið á háls í einum dilknum í Skeiðaréttum, eins og við kölluðum þessar réttir. Þær heita víst Reykjaréttir. Lambið mun hafa slasast og því fátt annað í stöðunni. Hefði þó kannski verið hægt að framkvæma verkið á bakvið eitthvað.
2. Líka úr Skeiðaréttum: Blindfullir kallar að slást í drullusvaði (þar var alltaf rigning þegar Skeiðaréttir voru). Auðvitað lauk þessu með því að annar varð að lúta í lægra haldi og veltist um í leðjunni með blóðnasir, bölvandi eins og naut.

(Hvar voru góðu konurnar með gúmmímotturnar eiginlega?)

Ef ég freista þess að kafa í hugarfylgsni þá minnir mig að ég hafa einhverntíma komið að því að draga lömb í dilka, en það var allavega í afskaplega litlum mæli.

Ég á bara ekki neinar slíkar minningar úr réttastandi, að ég hafi með einhverjum hætt gert mér glaðan dag á þessum tíma árs. Ég hef gert tilraunir og fór með  börnin í réttir eins og vera bar. Ég reyndi meira að segja að gera mig gildandi í fjárrekstri, sem sannur fjárreki á eftir og við hlið og fyrir framan Torfastaðasafnið. Jú, það var hreint ekki leiðinlegt, það viðurkenni ég (að vísu þurft hrossið að skella sér upp að gaddavírsgirðingu og þannig rífa réttabuxurnar mínar í tætlur). Ég skil vel þá sem halda þessan dag hátíðlegan, en þeir tilheyra bara annarskonar raunveruleika, sem er nú eðlilegt.

Ég samfagna Tungnamönnum sem nú eru aftur farnir að ríða inn á afrétt til að sækja fjallalömbin sín, fylgjast með safninu renna niður í byggð, draga féð í dilka, reka það heim, fá sér kjötsúpu.

Þetta er bara ekki minn heimur og það er allt í góðu.

(Fór í Tungnaréttir í gær. Tók nokkrar myndir, en ekki af neinni ástríðu :))

10 september, 2011

Öskumistursferð

Nýja Hvítárbrúin séð frá Bræðratungukirkju (stækka? - smella)

Útsýnið vestur yfir er ekki amalegt
Fleiri myndir úr þessari laugardagsöskumistursbílferð

09 september, 2011

Rolla í laugvetnskum skógi

Tiltölulega andlitsfrítt lamb í laugvetnskum skógi.


Það er sannkölluð réttastemning á Laugarvatni á þessum haustmánuðum. Þegar ég kem í vinnuna á morgnana tekur yfirlætislaust og afslappað jarmið á móti mér, gamalærnar spásséra um hlöðin og garðana, gönguferð um skóginn vekur upp í manni hungrið í safaríkt lambakjöt.
Laugarvetningar eru löngu hættir að ergja sig á þessum heimalningum sínum, þeir líta svo á að hvert blómaker sem sleppur, sé sigur. Aðdáunarverður eiginleiki, þetta rólyndislega og jafnvel, á einhvern óútskýranlegan hátt, jákvæða viðhorf til fjárins, sem hefur tamið sér þetta sérstaka nábýli við íbúana.

Einn og einn heyri ég að vísu nefna það, að til þess að breyta stöðunni sé ekki um annað að ræða en skjóta bæði gamalærnar og lömbin. Það verði bara að drífa í því.

Svo er sagt að eigandinn hlæi bara að öllu saman - en það get ég ekki staðfest.
Posted by Picasa

06 september, 2011

Ætti ég að fá mér umboð fyrir hlauphellur?

Það hefur komið í ljós, að gúmmíhellurnar sem nú er nánast búið að þekja alla barnaleikvelli með, eru ekki jafn öruggar og af hefur verið látið. Ég get nefnt dæmi um að barn hafi dottið ofan úr rennibraut eins og sjá má má meðfylgjandi mynd, og fengið talsvert stóran rauðan blett á ennið.
Dæmi um hættulega rennibraut

Fyrir nú utan það, auðvitað, að svona rennibraut er stórhættuleg, það er hægt að finna þarna hengingarhættu, fallhættu, brothættu og hrunhættu án þess að leita lengi, þá er orðið nauðsynlegt að hyggja betur að undirlagi leikvalla.
Ég hef nú hafið leit að framleiðanda hlauphellna, sem þurfa að vera í það minnsta 15 cm þykkar. Ég tel að ég muni geta hagnast vel á innflutningi slíkra hellna í ljósi vaxandi meðvitundar foreldra um allar þær hættur sem liggja í leyni fyrir börnum þeirra, hvar sem þau stíga niður fæti eða eiga leið um.  Ennfremur tel ég að það geti orðið góður grundvöllur fyrir framleiðslu á 40cm háum rennibrautum með lyftu, enda eru tröppur upp í rennibrautir ávísun á fótbrot, handleggsbrot eða útbrot.

Það er okkar, foreldranna og fullorðna fólksins að tryggja að börnin okkar, börn samfélagsins, geti með engu móti átt það á hætti að skaðast þannig að gráti geti valdið. Það er ekki gott að meiða sig.
5 cm þykkar hlauphellur,
sem augljóslega duga ekki

(Ef einhver skyldi taka þetta ógurlega alvarlega þá þykir mér það leitt, en bendi á að þetta er sett fram í hálfkæringi og með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa átt börn sem hafa slasast. Það breytir samt ekki þeirri skoðun minni, að börn eigi að / verði að læra að takast á við hættur í umhverfi sínu. Það verða alltaf hættur. Það verður að læra að þær eru fyrir hendi.)

04 september, 2011

Rollur á beit á menntaskólatúninu

Ég var á ferð með nýju linsuna mína í dag, en á hana hefur verið minnst lítillega áður.  Meðal annars stillti ég mér upp hjá Spóastöðum og smellti af mynd af Laugarvatni. Það var þá sem það rann upp fyrir mér hvílíkan grip ég er með á EOSnum :)

Hér er fyrst öll myndin:

Síðan er það klipptur bútur úr henni.


Valinn Valur - skúrir í grennd

Í ljósi umfjöllunar um val á leiksýningum taldi ég ekki óeðlilegt að halda sama þema þessu sinni.


Hér er á ferð umfjöllunarefni sem maður á ekkert sérstaklega auðvelt með að fara orðum um. Ég veit ekki hversvegna svo er, en valið stendur á milli þess að þegja og segja. Ég ætla að segja - líklega ekki margt þó.

Það liggur nú fyrir að talsverður meirihluti kjörmanna hefur valið nýjan vígslubiskup í Skálholt. Svo sem ekki margt um það að segja - þetta er sú aðferð sem notuð hefur verið við þetta kjör, þó mér finnist ekki óeðlilegt að þeir, sem játa þá trú sem þarna er um að ræða og sem eiga lögheimili í Skálholtsbiskupsdæmi, hafi rétt til að velja þennan svæðisbiskup. Það er ekki svo og því ekki ástæða til að eyða orðum að því frekar.

Allir vita nú um það öldurót sem kirkjan hefur verið að ganga í gegnum á undanförnum árum, færri (nema þeir sem hafa lesið þennan kima veraldarvefsins að staðaldri) við um það öldurót sem sem hefur farið fram í smærri skömmtum hér í uppsveitum, í nágrenni Skálholts. Ég ætla ekki að halda því fram það þar séu allir sáttir enn.

Þeir voru ekki fáir, sem óskuðu þess í aðdraganda þessa vígslubiskupskjörs, að nú myndi kirkjan sýna það áræði og sáttavilja, að fara nýjar leiðir. Það var fyrir hendi vonin um að kirkjan myndi gera sitt til að ná aftur takti við umhverfi sitt. Það gerði hún auðvitað ekki. Status quo þar á bæ.

Vissulega óska ég nýjum vígslubiskupi alls hins best í sínu starfi og hef ekki ástæðu til að draga í efa hæfni hans. Sannarlega hafði hann jafn mikinn rétt á að sækjast eftir embættinu og aðrir og er örugglega vel að því kominn. Ég er hinsvegar síður sáttur með það að kirkjan, sem ég hef ekki enn komið í verk að yfirgefa, af einhverjum undarlegum ástæðum, skuli ætla að halda áfram að loka sig af í  kirkjukimanum. Kimar eru til þess fallnir að draga úr færni til að sjá  heildarmyndina. Það er ekki síst þess vegna sem ég tel að hin ólýðræðislega aðferð við vígslubiskupskjör eigi að víkja.

Val og ekkival

"Veldu bara einhverjar," segir fD, eftir að hafa skrollað yfir upplýsingar um leiksýningar vetrarins í stærstu leikhúsunum tveim.

Menningarleysi, eða kannski skortur á athafnasemi þegar menningarneysla er annarsvegar, hefur verið eitt af áhyggjuefnunum á þessum bæ undanfarin ár. Því hefur sú hugmynd skotið upp höfðinu á hverju hausti, að fjárfesta í áskriftarkortum leikhúsanna. Aldrei hefur umræðan um slíka fjárfestingu komist lengra en á þessum morgni í upphafi september. Ég var nú áðan kominn inn á svæði þar sem lítið var annað að gera en smella á leikverk sem ég kysi að sjá. Ég gerði það ekki.

Það er sannarlega góð hugmynd (í ljósi þess hvernig ég er innréttaður) að fara að stunda menningarviðburði vegna þess að ég er búinn að borga fyrir. Auðvitað er það vitlaus forsenda fyrir slíku, en gæti orðið til þess að efla þennan tvímælaust mikilvæga þátt mennskunnar.

Hversvegna smellti ég ekki á leikverkin áðan?
Jú, fyrir því eru nokkrar ástæður, sem ég er staðráðinn í að líta framhjá þegar ég læta vaða í málið á eftir:
a. Hvort á ég að velja Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið? Hvaða fyrirframhugmyndir hef ég um þessar stofnanir? Finnst mér að Þjóðleikhúsið sé meira svona "mitt" leikhús, sem landsbyggðarmanns? Finns mér Borgarleikúsið kannski hafa fram að færa áhugaverðari sýninga svona heilt yfir? Er ég hreinlega fordómafulllur í garð annars hússins?

b. Það þarf að kaupa tvö kort og alltaf á sömu sýningarnar (ég sé okkur fD ekki fara að kaupa áskriftarkort á mismunandi sýningar). Í sambandi við það heyrði ég setninguna sem er hér efst. Ég veit nú alveg hvernig það verður - eða þykist vita það.
Ég smelli á einhverjar sýningar.
"Nú, valdirðu þessa? Mig langar nú eiginlega ekkert að sjá hana."
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn, en maður þarf að hugsa hlutina til enda, þegar kemur að því að festa fé sitt í einhverju.

c. Reglurnar um kaup á þessum leikhúskortum hljóða upp á að maður þurfi að velja 4 sýningar af tilteknum lista. Þetta kallar auðvitað á rannsóknarvinnu af minni hálfu. Sum verkin er verið að sýna áfram frá fyrra leikári, önnur eru splunkuný. Það er komin tiltekin reynsla á þau fyrrnefndu - þau eru sýnd áfram vegna þess að þau voru sótt á síðasta vetri, hljóta þar með að vera nokkur góð. Þau síðarnefndu eru ný og ég hef ekkert nema það sem sagt er um þau í kynningarritum, en þar er eðlilega ekkert verið að draga úr hástemmdum lýsingarorðum um ágæti þessara verka. Kannski maður endi á einhverri blöndu, t.d. 2 ný og 2 sem eru í framhaldssýningu.

d. Það er þetta með sýningardaga. Við kaup á kortinu þarf ég að velja sýningarnúmer. Val af þessu tagi hlýtur nú að verða harla handahófskennt, enda liggja sýningardagar ekki fyrir og maður verður að fylgjast með hvenær viðkomandi sýningarnúmer verður á dagskrá og raða síðan lífi sínu umhverfis það. Vissulega er hægt, ef þannig stendur á, að finna nýjan dag með aðstoð miðasölunnar.

Það er að mörgu að hyggja ef maður ætlar í vegferð af þessu tagi.
Megi leikhúsárið verða gefandi og vel skipulagt.

02 september, 2011

Kvíði í haustóttum ramma

Það er nú aldeilis hreint ekki svo, að veturinn hafi einhver áhrif á það hvernig sálartetrinu vegnar. Hann er bara eitthvað sem skapar fjölbreytini í lífshlaupi manns þar sem áherslurnar breytast og margt er meira að segja talsvert skemmtilegra en það sem sumartíminn hefur í för með sér. Ó, nei. Það er ekki komandi vetur sem veldur fyhrirsögninni þessu sinni heldur sú staðreynd, að Hið háa Alþingi er að koma saman.

Ekki á ég von á að þar setjist menn niður, frekar en fyrri daginn, til að leiða þjóðina (sem er eins og hún er) fram á veg.

Ekki á ég von á að þar setji menn hagsmuni þjóðarinnar (sem er eins og hún er) ofar þrengri hagsmunum einhverra afla, eða sínum eigin.

Ekki á ég von á að sjá tvo stjórnmálamenn úr mismunandi stjórnmálaflokkum, setjast fyrir framan sjónvarpsvélarnar og ræða mismunandi leiðir og vera jafnvel sammála inn á milli.

Ekki á ég von á að fjölmiðlar hafi þroskast þannig, að þeir skoði mál ofan í kjölinn, leiti skýringa, velti upp flötum, efist jafnvel um að upphrópanirnar séu sannleikurinn einn.

---------

Mér á að finnast það óendanlega þægilegt að setjast niður fyrir framan sjónvarpið klukkan hálf sjö á kvöldin til að fylgjast með fyrstu sjónvarpsfréttunum, þar sem sagðar eru fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu. Mér á síðan að finnast það afskaplega mikið tilhlökkunarefni að skipta hálftíma síðar yfir á hinar sjónvarpsfréttirnar, sem eiga að segja fréttir af því helsta sem er á seyði í samfélaginu.

'Á seyði' er margt annað en rán, glæpir, ásakanir, hótanir eða annað það sem er til þess fallið að draga fólk niður. Ég vil líka fá upplýsingar um það sem er verið að gera sem er skynsamlegt og uppbyggilegt og kemur þjóðinni (sem er eins og hún er) til góða. Fréttir mega skilja eftir von í brjósti fólks. Von um að það sé ljós við enda ganganna.

Ég kvíði vetrinum vegna þess að ég á ekki von á öðru en bölmóðurinn haldi áfram með óendanlega mistækum fjölmiðlum og ótrúlega framsýnilausum stjórnmálamönnum.
Hér er dæmi um fréttir sem mega gjarnan hverfa.

Mánudagur - hádegi:
Formaður stóra flokksins, kallar ritara litla flokksins fífl.
Mánudagur - kvöld:
Ritari litla flokksins kallar formann stóra flokksins ótrúlegan hálfvita.
Þriðjudagur - morgunn:
Talsmaður undraflokksins tekur undir með ummælum ritara litlaflokksins um formann stóra flokksins og bætir því við að formaður stóra flokksins sé gerspilltur og geðvondur.
Og svo framvegis - nenni ekki lengra, en svo deyr fréttin vegna þess að hún var í rauninni ekki frétt, heldur aumkunarverð tilraun einstaklings, nú eða flokks, til að upphefja sig á kostnað einhvers annars - og vekja auðvitað jafnframt athygli á sér, því athygli fá menn ekki nema með sensasjón.

Önnur séría frétta, sem sannarlega er ekki til þess fallin að auka við bjartsýni og efla með þjóðinni (eins og hún nú er) baráttuþrek.
Sería af þessu tagi hefst með því að ráðherra greinir frá einhverju sem jákvætt getur talist á vegferðinni út úr kreppunni. Ég heyri þetta og verð bjartsýnni. Kaupi mér jafnvel linsu og efli þar með hagvöxtinn.

Það er varla að ég nái út í búð, hvað þá að mér takist að kaupa linsuna, áður en leiðtogi stjórnarandstöðuflokks kynnir til sögunnar allt aðra hlið á málinu, þar sem fyrir f´réttin er kölluð bull og vitleysa, sem samstundi dregur mann aftur niður í ólukkans bjartsýnisskortinn.

Ef ég ætti rödd sem næði eyrum þeirra sem véla um málefni þjóðarinnar, þá myndi ég vilja segja þeim að þjóðin (eins og hún nú er) er ekki eign einhvers flokks og enginn flokkur er þess umkominn að tala í nafni hennar. Þjóðin þarf hinsvegar á því að halda að sannfærast um að það sé lífvænlegt í þessu landi, það séu ekki allir að flytja til Noregs. Það sé hellingur að góðu fólki sem vinnur baki brotnu að því að efla og styrkja þær undirstöður sem kvarnaðist úr árið 2008.

Það er hinsvegar alveg ljóst, að það er nú að verða kominn tími á að þeir sem ábyrgðina báru, axli þá ábyrgð með réttu. Þá verður þjóðin (eins og hún nú er) sátt og skundar sennilega bara á Þingvöll og treystir ný heit.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...