30 desember, 2011

Ekki áramótaannáll - miklu meira


Ekki hef ég nennu til að fara að taka saman áramótaannál. Það væri sannarlega gaman, en það er hætt við að ég yrði of persónulegur og of pólitískur til að það gæti orðið læsilegt.

Ég vil í raun aðeins segja eitt þar sem stjórnmálin eru annarsvegar: megi stjórnmálamenn landsins öðlast þann þroska að þeim takist að horfa út fyrir hagsmuni flokka sinna eða sína eigin og til þjóðarinnar, handónýtu og sudurslitnu. Að þeir reyni síðan, þegar þeim áfanga er náð, að lesa í og greina það sem raunverulega hrjáir þjóðina og leiti síðan leiða til að bæta það sem er í þeirra valdi að bæta, t.d. bara með uppörvandi orðum, stuðningi við hvern annan og skilningi á þeim aðstæðum sem uppi eru.

Þar sem ég held að þetta muni ekki gerast, ætla ég ekki að fjalla um það frekar. Komi það sem koma vill.

Eftir því sem tíminn lengist, sem ég geng um þessa jörð, finnst mér að hæðir og lægðir nálgist æ meir. Þó auðsæld hafi verið minni áður fyrr, þá var þó það sem gerðist á þessum síðustu dögum desembermánaðar, ár hvert, einhhvern veginn þrungið spennu, hvort sem það var spennuþrungin biðin eftir að lyklinnum var snúið og dyrnar inn í stofu opnaðar að loknum veislumat á aðfangadaskvöld, eða biðin eftir að árið rynni sitt skeið á gamlárskvöld.

Ég tel mig vera búinn að greina tvær megin ástæður fyrir þessari breytingu:
a. Ég er orðinn eldri, reyndari, yfirvegaðri, rólegri, magnaðri, .... (svona get ég haldið lengi áfram)
b. Líf á Íslandi nútímans gengur út á að það eiga að vera jól, alltaf. Það eru epli allt árið, maður kaupir reykt svínakjöt til að snæða á miðvikudegi, maður fær sér það sem mann langar í þegar mann langar í það, lög unga fólksins voru einusinni í viku og ávallt tilhlökkunarefni, nú gengur fólk með þessi sömu lög unga fólksins í eyrunum nótt sem nýtan dag.
Líf okkar er orðið þannig að spennumómentin eru að hverfa, eitt af öðru - flest verður smám saman venjulegt.

Auðvitað eru margir þættir í lífi okkar sem er ekki hægt að gera hversdagslega. Þetta eru fyrst og fremst þættir sem teljast vera náttúrulegir og ekki er hægt að kaupa, t.d. þegar barn fæðist fæðist. Er það mögulegt að við, sem ráðum okkur varla fyrir taumlausri græðginni og gleypuganginum munum innan skamms finna leiðir til að fitla svo við náttúruna að margt það sem náttúrulegast getur talist, hverfi eins og lög unga fólksins, og verði bara minning hjá ríflega miðaldra körlum og konum.


29 desember, 2011

Capsicums

Tilbúið: char grilled capsicums au pms

Ég þekki ýmis nöfn á þessu fyrirbæri, en paprika er það sem notast er við hérlendis. Tegundarheitið á þessari venjulegu papriku mun vera Capsicum Annuum, en það munu vera til ríflega 30 afbrigði til innan þessarar ættar. Ég hafði, þar til í fyrradag, aldrei heyrt eða sé þetta nafn notað um papriku. Það er þessvegna sem ég fer aðeins yfir þetta.

Þetta átti nú ekki að vera neitt fræðilegt hjá mér, en er til komið vegna þess að ég hef tekið að mér að sjá um forrétt í hátíðarkvöldverði á gamlárskvöld - og raunar einnig stóran hluta aðalréttar einnig. Það er sem sagt mikið sem srtendur til hjá þessum manni.

Forrétturinn sem varð fyrir valinu er þessi: (fékk gagnrýni fyrir að birta ekki uppskriftina að Sörunum, svo ég klikka ekki á uppskriftaleysi aftur)
Ristaðar paprikur, ólífur og Mozzarella í kryddlegi
2 krukkur Char-Grilled Capsicums
60 gr. svartar ólífur
1 stk. (125 gr.) Mozzarella, skorin í teninga
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. ferskt oregano (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1 tsk. ferskt basil (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1/2 tsk. fersk salvía (eða 1/8 tsk. þurrkuð)
1/2 tsk. salt
1/8 tsk. pipar
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
Setjið paprikurnar, ólífurnar og ostinn í skál. Setjið afganginn af innihaldinu í ílát með loki og hristið vel. Hellið innihaldinu síðan yfir paprikublönduna. Lokið skálinni og geymið í ísskáp í amk. 4 klst.; hrærið nokkrum sinnum í.
Ég fjölyrði ekki um það, en auðvitað fékkst ekki allt sem þarna er nefnt, í höfuðstað Suðurlands, nefnilega aðalatriðið: ristaðar paprikur (char grilled capsicums).
Ég var búinn að ákveða að hafa þennan forrétt og ég breyti ákvörðunum mínum ekki auðveldlega. Því var það að ég gúglaði char grilled capsicums og fann leiðbeiningar um hvernig maður útbýr slíkt. Að upplýsingum fengnum framkvæmdi ég þetta verk í dag. Í grunninn er hér um að ræða að skera papriku í hæfilega bita og skella undir grillið í eldavélinni. Þar er það látið vera uppundir 10 mínútur, eða þar til hýðið er farið að kolast. Allt gekk þetta vel, enda ekki von á öðru þar sem þarna var ég sjálfur á ferð. Reyndar var ekki til rauðvínsedik og ekki heldur venjulegt edik, en það var til rauðvín og það var til balsamik edik. Ég þoli afar illa að eiga ekki nákvæmlega það sem sagt er að eigi að vera í viðkomandi rétti og því var það ekki af fullkomlega fölskvalausri gleði sem ég lauk framkvæmdinni. Ég hef þó fulla trú á að hér sé á ferð forréttur eins og forréttir gerast bestir.

27 desember, 2011

Ég hef heyrt fólk efast

Í gær sáust skilaboð á samskiptasíðum frá fólki sem sat fast hér og þar. Þarna voru t.d. ein  frá manni sem tilkynnti að hann væri fenntur inni á Laugarvatni og öðrum sem var í sömu stöðu undir Eyjafjöllum.

Á sama tíma svifu glitrandi snjókornin úr loftinu yfir Laugarási og bættust við dúnmjóka mjöllina sem fyrir var. Hér er enginn  fenntur inni því hér ríkir lognkyrrðin ein.

Fleiri myndir

Bestu jólakveðjur til ykkar allra sem dveljið á lognminni stöðum. 

Að þessu búnu biðst ég afsökunar á svo ögrandi sendingu. :)

25 desember, 2011

Kórinn var eins og blikkljós

Og að morgni skuluð þér sjá dýrðina Drottins, segir í einum þeirra texta sem farið er með í messum á þessum tíma. Nú er þessi morgunn runninn upp. Reyndar er ekki farið að birta að einhverju ráði, en ljóst að enn gerist Laugarás indælli staður með því að bætt hefur aðeins á hvíta kápuna sem magnar jólastemninguna.

Sem sagt allt gott.

Í gærkvöld gerðist það fyrsta sinni í Kvistholti, að það var slökkt á aftansöng jóla. Ef einhverjum dettur í í hug að þar hafi verið um að kenna karlrembunni í mér þá er rétt að taka fram, að það var ekki ég sem slökkti, þó vissulega væri ég sammála aðgerðinni. Það var betri kostur, messan sem var send út frá Grafarvogskirkju. Ég útskýri ástæður aðgerðarinnar ekki frekar. Það gengi of nálægt persónum.

Messur eiga að vera þess eðlis að maður velti fyrir sé innihaldi og tilgangi jólahátíðarinnar, fremur en forminu og framgöngu "leikaranna". Hlutverk þeirra eru sannarlega vandmeðfarin.

Jæja, svo var eftir, aftansöngur í Dómkirkjunni klukkan 22.00. Þarna var um að ræða síðasta aftansöng af þessu tagi þessa hjá núverandi biskupi.

Ég verð að viðurkenna að allt innihald þessa aftansöngs vék, í mínum huga, fyrir tvennu: 

Annarsvegar beindi biskupinn máli sínu hreint ekki til söfnuðarins í predíkun sinni, sem er grundvallarfeill. Auðvitað vissi ég, sem hef tekið þátt ú upptöku á svona aftansöng, að það er enginn í kirkjunni þegar prédikunin er tekin upp, en þeir sem heima sitja eiga að hafa það á tilfinningunni að í Dómkirkjunni, á Aðfangadagskvöldi, sitji fólk og hlusti á biskup sinn. Þannig, eins og hver maður getur séð, verður þetta allt trúverðugra. Þarna hefði átt að skella eins og þrem, fjórum hér og þar í kirkjunni og láta biskup tala til þeirra, í stað þess að horfa inn í myndavélagraugað, hálf hvíslandi og sendandi frá sér þau skilaboð að fólkið í kirkjunni, fyrir framan hann, skipti hann hreint engu máli.

Hinsvegar var klippinginn á þessum aftansöng einstaklega mikil hrákasmíð, eða þá kannski upptökustjórnin. Í því sambandi nefni ég tvö dæmi:
- Aðalkórinn er að syngja. Þegar tvö erindi eru eftir af sálminum heldur biskup af stað frá altarinu sem leið liggur í predikunarstólinn. Í Dómkirkjunni er gengið upp tröppur bakatil við stólinn til að komast upp í hann, og efst í tröppunum eru síðan dyr sem opnast inn í stólinn. Þegar ríflega eitt erindi er eftir af sálminum sést biskup hefja göngu sína upp tröppurnar. Það sem eftir er sálms er myndavélum beint að kórnum. 
Hvert erindi þessa sálms er talsvert langt og því átti ég von á, að þegar honum lyki, stæði biskup í stólnum, þess albúinn að hefja prédikun sína, en, nei. Þegar myndavél er beint að stólnum, er þar enginn fyrir, en skömmu síðar opnast dyrnar og inn gengur biskup. 
Áttum við að hafa fengið það á tilfinninguna að hann hafi húkt á bak við lokaðar dyr á meðan kórinn kláraði? Kannski að hann hafi verið að hleypa í sig kjarki.

- Skólakór Kársness er ágætur kór og allt í lagi með það, en í þessum aftansöng vakti flug hans inn og út af sviðinu meiri athygli mína en söngurinn. "Now you see him, now you don't" (tilvitnun í heiti á kvikmynf frá 1972, en  þar er fjallað um efnafræðistúdent, minnir mig, sem býr til úða sem gerir þann ósýnilegan sem honum er sprautað á). 

Ég veit alveg hvað þið hugsið, lesendur góðir, við þessan lestur: "Þetta er nú meiri dómadags fúll-á-móti lesningin!". Það er auðvitað alveg rétt, svo langt sem það nær. Þarna er hinsvegar um meira að ræða, eins og hver maður getur ímyndarð sér.

Svo held ég áfram að njóta dýrðarinnar Drottins, á meðan birta jóladagsmorguns færist yfir Laugarás og opinberar fölskvalausa fegurðina.

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

21 desember, 2011

Óskiljanlegur tími

"Nei, ekki eina ferðina enn!!!" 
Ég ætla ekki að segja að ég hafi sagt þetta þegar ég glaðvaknaði á sjöunda tímanum í morgun. Ég ætla hinsvegar ekki að sverja fyrir að ég hafi ekki hugsað það.
"Þetta er nú bara einhver streita.", er alltaf viðkvæðið hjá fD, og þar hefur hún auðvitað alrangt fyrir sér. Ég reyni að horfa á þessa stöðu talsvert jákvæðari augum.

Ég hef aldrei skilið hversvegna fólk leggur sig á daginn, og leyfir sér að dásama það þessi ósköp. Ég lít á svoleiðis nokkuð sem hreina sóun á dásemdum hins vakandi lífs. Það er á daginn sem allt gerist, öll skynfærin nema umhverfið: augun birtu jólaljósanna, eyrun Ómar Ragnarssona syngjandi jólalag, nefið greinir daufan keim af piparkökubakstri gærdagsins (ég lýg því reyndar), fingurgómarnir nema mýkt hnappanna á lyklaborðinu. Svefninn hefur ekkert af þessu. Það er helst að hann fari með mann um lendur sem eiga fátt sameiginlegt með raunveruleikanum - ég ástundaði í nótt samkennslu þriggja grunnskólabarna í íslensku ásamt öðrum kennara - og ég sé á samskiptasíðu að oddivtann dreymdi tvö eldgos.  Það má vel halda því fram, allavega til að rökstyðja það að maður fer á fætur í jólafríi klukkan hálf sjö. að svefn sé mjög ofmetið fyrirbæri. 

Þá kemur þetta upp í hugann:
"Macbeth does murder sleep, the innocent sleep,
Sleep that knits up the ravelled sleeve of care,
The death of each day's life, sore labor's bath,
Balm of hurt minds, great nature's second course,
Chief nourisher in life's feast" (2.2.35-39).
Shakespeare segir svefninn vera saklausan, hann leysi upp flækjur hins daglega lífs, hann sé dauði lífs hvers dags, langþráð baðið eftir erfiði dagsins, áburður á þungan hug, annar rétturinn í máltíð náttúrunnar (annar rétturinn er aðalrétturinn), aðal næringin í veislu lífsins.

Svefninn er þá, sem sagt, harla miklvægur.

Þar með held ég bara áfram að vaka - þar til ég fer aftur að sofa.

Meira af saklausum svefni

19 desember, 2011

Hornsteinn að brú.

Í aftari röð, svona aðeins hægra megin, er stórt gat, sem höfundur skildi eftir sig.
Það eru örlög hans, enda kannski eins gott.
Það eru liðin einhver ár síðan ég tók þátt í kórsöng í Skálholtsdómkirkju. Ég ætla nú ekki að fara að rekja forsöguna, því hana hef ég sagt áður, með ýmsum hætti.

Hvað um það, í lok október kom póstur frá Þrúðu. (Þrúða er þessi manneskja sem er alltaf til í slaginn og telur ekkert eftir sér og fær oftar en ekki það hlutverk, vegna innrætis síns og persónulegra eiginleika, að vera hið sameinandi afl þess hóps sem eitt sinn skipaði Skálholtskórinn.) Í þessum pósti sagði, meðal annars:
Sæl verið þið kæru gömlu kórfélagar:)
Hilmar talaði um það í vor að hann langi svo að halda tónleika í Skálholti í tilefni af því að í haust eru 20 ár síðan hann kom í Skálholt. Hann treysti sér ekki til þess í haust, en nú langar hann að hafa litla snotra aðventutónleika í Skálholtskirkju 18. desember með Karítunum og okkur gömlu kórfélögunum í Skálholtskórnum. Stelpurnar í Karítunum hafa bókað kirkjuna 18. desember sem er sunnudagur.
Hvað segið þið um þetta? Mig dauðlangar allavega:)
Látið endilega heyra í ykkur. Ef af þessu á að verða, þarf að drífa í að gera "plan":)
Með kærri kveðju,
Þrúða
Það þurfti nú ekki að koma á óvart, en fleiri fyrrverandi kórfélaga "dauðlangaði" . Meira að segja þann sem kallar sig "þann gamla", en hann þykist vera löngu hættur öllu svona söngstússi (er búinn að vera að hætta í ein 10 ár). Hann skellti í einn tölvupóst, þar sem hann tjáði vilja sinn til að vera með.

Það var æft lítillega, en óorðaður, sameiginlegur skilningur allra sem að komu, að ég held, var sá, að það væri ekki nákvæmni hins þaulæfða kórs, sem sýna skyldi á tónleikunum, heldur eitthvað allt annað.

Tónleikarnir voru í gær, þann 18. desember, eins og fram kemur hér að ofan.

Karíturnar voru auðvitað afbragð, og við hin sannarlega líka, þó segja megi að þar skipti máli hvaða mælikvarði var notaður.

Við lok tónleikanna reis nýr vígslubiskup úr sæti og hafði yfir orð, sem ekki er hægt að skilja með öðrum hætti en þeim, að það sé hafin brúarbygging. Ef svo er, þá er það mikið fagnaðarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort tími sé til kominn fyrir mig panta efni, eða hvort efnið sem til er sé kannski nægilega mikið.

MYNDIR

13 desember, 2011

Lituð heyrn

Það virðist vera svo, að nú sé þátturinn magnaði (á ónefndri útvarpsstöð) Reykjavík sídegis, sé kominn í eitt allsherjar stríð við núverandi stjórnvöld í þessu landi. Þeir félagar sem þar ráða för, eða ekki, mega þetta að sjálfsögðu mín vegna.

Í gær, 12. des., ræddu þeir við nýfrelsaðan Lobba, og í dag annan speking, Ólaf Arnarson, sem leit yfir sviðið, með ótrúlega hlutlægum hætti og lýsti því m.a. yfir, að allt okkar besta fólk væri flúið, eða að flýja land. Hversvegna er hann, þessi ofurspekingur, ekki farinn? Eða síðdegismennirnir? Þeir eru hér enn með ónytjungunum og gamalmennunum.

Hvað um það. Það sem sló mig hvað mest í málflutningnum í dag var sú fullyrðing þessa a.....a manns, að það mætti ekki gagnrýna ríkisstjórnina (auðvitað athugasemdalaust af síðdegismanninum) - það kæmi alltaf einhver og slægi niður gagnrýnina.

Ég nálgast nú sennilega að tilheyra gagnslausa gamalmennahópnum sem eftir er, og hef því heyrt margt, en aldrei hef ég heyrt aðra eins gagnrýni á stjórnvöld og undanfarin þrjú ár. Það sem meira er, gagnrýnin sem ég hef heyri, sem daglegan skammt úr fjölmiðlum, er með eindæmum rakalaus og vanstillt.

Það heyra ekki allir eins.

11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

09 desember, 2011

Sala á landi


Áfram held ég í tilefni heilsíðuumfjöllunar í Sunnlenska fréttablaðinu í gær af umræðum um mögulega sölu jarðarinnar Laugaráss. Þessi jörð er í Bláskógabyggð, áður Biskupstungum, en er í eigu hreppa í uppsveitum Árnessyslu. Það er dálítið sérkennilegt að nokkrir hreppar eigi saman jörð sem er innan eins þeirra, en það á sínar, sögulegu skýringar, sem ég tel ekki ástæðu til að ég sé að fjalla um hér og nú.

Það er talað um að selja Laugarás og þar með þau lönd sem íbúar þar leigja af sveitarfélaginu Bláskógabyggð. Það væri nú harla kaldranalegt að auglýsa jörðina Laugarás til sölu á almennum markaði, bara si svona. Auðvitað gæti ýmislegt gott hlotist af því, en það gæti líka farið á annan veg.
Það er talað um að Bláskógabyggð, sem situr uppi með þessa jörð innan sinna vébanda, kaupi jörðina af hinum hreppunum. Það væri auðvitað bara ágætis lausn fyrir íbúa Laugaráss, en mér finnst að samhliða slíkum gerningi þyrfti að liggja fyrir, að sveitafélögin á svæðinu hafi lagt á hilluna, um aldur og ævi, eða í það minnsta til talsvert langrar framtíðar, hugmyndir um að sameinast í eitt sveitarfélag.  Það munaði nú ekki miklu hér um árið að það skref yrði tekið og eftir nokkrar minni sameiningar síðan, án stórslysa, má reikna með að tilhugsunin um eitt sveitarfélag uppsveitanna sé ef til vill ekki jafn fráhrindandi og hún var þá í hugum margra. Enn er verið að flytja verkefni til sveitarfélaga frá ríkinu og því eykst enn þörfin á að þau séu í stakk búin til að takast á við þau.
Nú ættum við að spyrja hverju við töpum á því að sameinast, frekar en spyrja hvað við græðum. Ég sé ekki að við myndum tapa neinu, við myndum hinsvegar, líklega græða slatta.

Sem sagt: ef ekki er búið að útiloka sameiningu þessara sveitarfélaga á næstu árum, þá er auðvitað ekki ástæða til að orða það að Bláskógabyggð kaupi. Sambærilegar aðstæður því gætu verið t.d. svona:
Hjón ákveða að skilja. Þau eiga 50.000.000 króna einbýlishús. Það þeirra sem býr áfram í húsinu borgar hinu 25.000.000 og eignast allt húsið. Þau fyrrverandi hjónakorn komast síðan að því eftir einhvern tíma, að skilnaðurinn hafi verið mistök; þau elski hvort annað ofurheitt eftir allt saman. Það sem flutti út og fékk 25.000.000 frá því sem eftir var, flytur aftur inn - búið að eyða peningnum í samfélagsleg verkefni, en það þeirra sem keypi hitt út hefur lilfað við nokkuð þröngan kost síðan, en búið að eignast fasteign, en þar með fest mikið fé.  Hin  siðferðilega spurning væri: á það sem út flutti, og fékk 25.000.000, að greiða þá upphæð aftur þegar það flytur inn á ný?

------

Laugarásland er ekki að öllu leyti í eigu uppsveitahreppanna. Sláturhúslóðin er eignarland. Væri það kannski inni í myndinni að bjóða íbúum að kaupa leigulönd sín á einhverju viðráðanlegu verði?   
Ef Laugarásland væri óbyggð jörð þá væri sannarlega ekki ástæða til að gera mál úr því þó það væri boðið til sölu á almennum markaði. Hér er ekki um að ræða óbyggða jörð, heldur koma við sögu íbúar, sem settust hér að á tilteknum forsendum. Til þess er skylt að líta, og því má segja að umfjöllun eins og í Sunnlenska fréttablaðinu sé dálítið vafasöm, sem fyrsti pati sem (margir) íbúar í Laugarási fá af þessari umræðu.


08 desember, 2011

的中國池軸

Í Sunnlenska fréttablaðinu í dag er fjallað um mögulega sölu á Laugarásjörðinni. Margt gæti ég nú sagt um það og mun kannski gera síðar, en fyrst þetta:

Í greininni er vitnað í ýmsa, m.a. Ólaf Björnsson:

Að sögn hans eru sölumöguleikar jarða af þessari stærð ágætir og að íslenskir jafnt sem erlendir aðilar hafi mikinn huga á jörðum af þessari stærð. (ég samdi þetta reyndar ekki)

林地未來


Fyrirsögnin þýðir: Hið kínverska Laugarás - á einhverri útgáfu af því máli, segir Google mér  :)

04 desember, 2011

"Þau eru nú ekki að gera sig hjá þér, þessi jólaljós!"

Þessi árstími kallar fram afskaplega misvísandi tilfinningar. Jú, jú, jólafríið framundan (ein þriggja meginástæðna þess að maður sækir í svona starf eins og mitt, að sögn þeirra sem þar eru ekki innvígðir), en jafnframt þarf að gera ýmislegt, og þeir sem hér hafa fylgst með, vita að mér finnst betra að una við aðstæður þar sem ekki þarf að vera að gera eitthvað, sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vildi gjarnan vera án.


Undanfarin ár hef ég smám sanan verið að eflast í kaupum á og uppsetningu á jólaseríum utan dyra. Þessu sinni byrjaði ég óvenju senmma, á laugardeginum fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, sem þykir eðlilegur tími á Laugarvatni, en út í hött í mínu umhverfi.  Ég fékk fljótlega smáskilaboð, þar sem látin var í ljós undrun vegna þessa tiltækis míns. Í þessari fyrstu atrennu skellti ég nú bara upp tveim yfirlætislausum jólaseríum - varla að þetta sæist. Ég hef hinsvegar verið að huga að aukningu bæði  á seríufjölda og fjölbreytni í ljósavali og því var það nú, að ég bætti við tveim talsvert öflugum seríum, sem ég síðan er nú nýbúinn að skella upp, af einstakri natni og metnaði. Ég lagði það á mig að fara úr í norðan garrann og gaddinn til að undirbúa með þeim hætti hátíð ljóss, árs og friðar. Þrátt fyrir að við lægi kali, lét ég það ekki á mig fá - barðist áfram, staðfastur og einbeittur í því sem gera þurfti og ég vildi gera.

Síðan fórum við, heimaverandi Kvisthyltingar í gönguferð. Þegar heim var komið sagði hinn þau orð sem mynda fyrirsögnina þessu sinni. Viðbrögð mín voru engin í fyrstu, en þarna var um að ræða, að mínu mati, ótrúlega lítilsvirðingu við allt það sem ég hafði lagt á mig, bæði að því er varðar fjárútlát og vinnu. Það leið nú svo sem ekki á löngu áður en fD lauk við athugasemd sína, sennilega vegna viðbragðaleysis míns. Hún hafði, sem sé, tekið eftir því (ég reyndar líka) að jólaljósin sjást hreint ekki frá þjóðveginum, vegna trjágróðurs í vetrardvala. 

Nú má spyrja: 
- Er ég að standa í þessu fyrir einhverja sem aka framhjá, segja kannski: "Jaaáááúú, ok", áður en þeir bruna áfram inn í nóttina?
- Er ég að þessu fyrir Laugarásbúa, sem rölta framhjá við og við í heilsbótargöngu? 
- Er ég að þessu fyrir mig og mína (bara tvö, enn sem komið er, en það stendur til bóta), til að varpa ljósi á myrkrið þannig að birtan ein ríki í hjörtunum?

Auðvitað er gaman þegar einhverjir utanaðkomandi tjá aðdáun sína á einhverju sem maður gerir, það vita nú allir, en ég held að það sem ræður mestu, þegar ég tek mig til í seríumálum, er þetta síðastnefnda. Auðvitað verð ég að viðurkenna, að jólaseríurnar mínar sjást ekki innan úr húsinu, en ég veit að þær eru þarna - sé þær þegar ég fer í vinnu að morgni og síðan aftur þegar þegar ég kem
heim að kvöldi. Þannig er tilganginum náð.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...