24 maí, 2011

Endurskinsvesti

Undanfarna daga hefur all oft verið rætt við stjórnanda í samhæfingarstöð Almannavarna í Reykjavík, í fréttum, t.d. hér.
Ég vil nú auðvitað ekki vera að hugsa neitt ljótt í þeim grafalvarlegu aðstæðum sem uppi eru, en hef hinsvegar ekki komist hjá því að velta fyrir mér ástæðu þess, að viðmælandinn er alltaf klæddur í endurskinsvesti í þessum viðtölum. Ég hef ekki funduð í huga mér, neina skynsamlega skýringu á þessu.
 - Ég fæ ekki séð en lýsing í samhæfingarstöðinni sé alveg nógu mikil og því ekki ástæða til að fólk rekist hvert á annað.
 - Ég tel ekki líklegt að maðurinn sé í vesti til að vera algerlega klár í að stökkva inn í öskustorminn 500 km austar.



Mér koma í hug tvær mögulegar skýringar á þessu:
 - Rafmagn gæti farið af samhæfingarmiðstöðinni og þá er mikilvægt að klæðast svona vesti til að fólk rekist ekki hvert á annað, en í því sambandi vil ég benda á, að annað fólk þarna inni virðist ekki vera búið svona vestum.
 - Þetta er gert til að yfirbragð viðmælandans verði trúverðugra; fólk ímyndi sér að hann sé á miðju hamfarasvæðinu og því meira mark á honum takandi.

Mér finnst þetta, hvað sem öðru líður virka á mig sem frekar hjákátlegt.

22 maí, 2011

Nú er það grábrúnt

Þetta er nú sent til áhugamanna um Laugarás, sem ég veit að eru margir.
Upp úr kaffinu færðist öskuský yfir þorpið eina, og við sem héldum að við nytum einhverrar sérlegrar verndar náttúruaflanna.






16 maí, 2011

Auf Deutsch

Hér eru, svona til gamans, brot úr umsögnum um tónleika sem ég sagði frá fyrir stuttu:



PNNDE: Potsdamer Neueste Nachrichten:
Ein schneller Fluss
von Babette Kaiserkern

Das Staatsorchester mit Mozart und Mahler..........

Die beiden Solisten, der isländische Tenor Egill Árni Pálsson und die Heidelbergerin Evelyn Hauck, überzeugen stimmlich auf ganzer Linie. Allerdings musste man im ersten Satz, dem „Trinklied vom Jammer der Erde“, beim bombastischen Brausen der Blechbläser gelegentlich Angst um die nicht sehr kräftige Stimme des Tenors bekommen, die zunächst zwangsweise forciert wirkte. Doch in der reizenden Chinoiserie des dritten Satzes „Von der Jugend“ kam die seidige, reine Stimme von Egill Árni Pálsson voll zur Geltung.


Montag, 16. Mai 2011




Antischwülstig
........
Apart geblasene Holzbläsersoli stehen durchdringenden Posaunenchorälen gegenüber. Man geht klanglich in die Vollen, worunter vor allem der isländische Jungstar Egill Arni Palsson zu leiden hat, dessen beweglicher lyrischer Tenor im Sturm der Klangmassen leider untergeht. Spitzentöne weiß er dagegen sicher zu platzieren.

Ekki myndi ég kvarta.

15 maí, 2011

Af kjaftshöggum, fáránleika og fasistabeljum

Ég tek stundum afgerandi afstöðu til málefna, manna, stjórnmálaflokka og annarra hópa. Þegar það kemur fyrir þá freista ég þess, allavega þar sem einhver getur vísað til þess síðar, að það sé þannig úr garði gert, að ég hafi undankomuleið frá einhverjum sleggjudómum sem ég kann að hafa sett fram. Þetta geri ég vegna þess að ég tel mig ekki óskeikulan.


Ég er tilbúinn til þess, komi í ljós að skoðanir mínar stangast á við það sem ég tel rétt þegar betur er að gáð, að skipta um skoðun.
Þetta kann ýmsum þeim sem mig þekkja að þykja undarleg yfirlýsing, en þannig er þetta nú bara.
Ég er t.d. ekki í hópi þeirra sem ákveða að kvikmynd hljóti að vera leiðinleg, bara vegna þess að hún er framleidd á Spáni, eða að kvikmynd frá Bandaríkjunum hljóti að vera góð. Ég gef þessum kvikmyndum séns; geng með opnum hug inn í þá veröld sem mér er boðin. Þegar þangað er komið er ég fyrst fær um að taka afstöðu á einhverjum röklegum grundvelli, njóta þess sem þarna er að finna, eða slökkva á sjónvarpinu og fara að gera eitthvað annað.

Það getur vel verið að einhverjum finnist, í ljósi þess sem stendur hér fyrir ofan, að mér sé eins farið og faríseanum, sem þakkaði Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir menn. Það er bara í fínu lagi.

--------------------------

Þessi árin er þessi sundraða þjóð að bjástra við að finna leiðir út úr óskaplegum ógöngum. Það virðist ekki ganga neitt sérstaklega vel, því á þeirri vegferð er hver höndin upp á móti annarri, og það ber ekki mikið á málefnalegri umræðu, en því meira á upphrópunum og sleggjudómum.  Í þessum fréttatíma kemur fram, að það sé að birta til, og aðgerðir kynntar til að rétta samfélagið af og manni finnst maður eygja von um betri tíma. Í næsta fréttatíma kom síðan einhverjir andstæðingar sem tala um fáránleika, rothögg, kjaftshögg, endemis vitleysu, þetta verði aldrei, og svo framvegis. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig frá því tiltekin stjórnmálaöfl og hagsmunaaðilar tóku landann með sniðglímu á lofti.

Ég á mitt ekki undir því að þurfa að ganga í augun á kjósendum og þessvegna leyfi ég mér að fara fremur lítilsvirðandi orðum um alltof stóran hluta þess fólks sem byggir þetta land. Við vöndumst á mikla sjálfshyggju á síðustu 20 árum fyrir það sem gerðist. Frelsi einstaklingsins til athafna og orða var sett ofar heildarhyggju. Þetta minnti mig dálítið á ungmennafélögin, sem voru stofnuð og rekin af fólki sem vildi gera eitthvað fyrir samfélagið, en voru ekki að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Á þessu ofangreinda tímabil varð stöðugt erfiðara að virkja fólk til að leggja sitt af mörkum nema til kæmi einhverskonar ytri umbun. Það sama má segja um skólanema sem vilja fá einingar fyrir að taka sér eitthvað fyrir hendur: spila körfubolta, syngja í kór, taka þátt í uppsetningu á leikriti. Ánægjan af því að leggja eitthvað af mörkum þarf með einhverjum hætti að verða til vegna ytri umbunar af einhverju tagi. Hugsunin er: Það má ekki gerast að einhverjir aðrir njóti góðs af því sem við tökum okkur fyrir hendur - við gerum það sem við gerum í okkar þágu og ekki annarra.

Með viðhorfum af því tagi sem hér hefur verið lýst, er erfitt að byggja þjóðfélag þar sem allir fá svipuð tækifæri - þeir sterku aðstoði heildina. Það eru alltaf einhverjir hagsmunir að baki afstöðu fólks til manna, málefna, stjórnmálaflokka eða hópa. Oftast eru það ekki hagsmunir heildarinnar, heldur afmarkaðir hagsmunir, jafnvel bara einkahagsmunir. Þetta er sú aðferð sem fólk beitir við að taka afstöðu, sem ég hef kallað "Ég-Núna" afstaðan. Stundarhagsmunir til skemmri tíma í stað hagsmuna heildarinnar til lengri tíma.
-------------------------------
Það er afskaplega auðveld pólitík þessi árin, að hafa það að megin markmiði að vera á móti. Það er auðvelt að afgreiða það sem gert er, með stóryrðum eða með því að gera málefni eða persónur tortryggileg. Hér er á ferðinni sálfræðilega sterkt pólitískt vopn, meðal þjóðar sem er í hálfgerðri upplausn. Við þekkjum það öll, að á einhverjum tíma höfum við þekkt fólk sem okkur líkaði vel við, en sem við síðan sáum í öðru ljósi þegar einhver laumaði einhverju því að okkur um þetta fólk, sem það átti að hafa gert af sér.
Þessi pólitík er gagnleg, þegar mikið liggur við að beina athyglinni frá sjálfum sér, eigin, vondri sögu, að því vonda hjá öðrum. Gagnleg, já, en vandræðalega lítils virði ef grannt er skoðað.
-----------------------------
Við fengum að kjósa um hvort við ættum að taka að okkur að borga einhverjum útlendingum. Átti einhver von á því að við samþykktum það sí svona, í ljósi þess hvernig allt er hér? Þar greiddu menn ekki atkvæði að athuguðu máli. Þar voru aðrir hagsmunir á ferðinni, t.d. skoðanir á öðrum málum, eða fólki, nú, eða bara einhverjir frasar sem klifaða var á, sbr. þetta með skuldir óreiðumanna.  Þar fyrir utan eru harla litlar líkur á því að einhver myndi samþykkja það með atkvæði sínu, si svona, að greiða hærri skatta.
-----------------------------
Allt þetta er nú til komið af því tilefni, að nú gefst manni kostur á því á fésbók (nýjasta fésbókaræðið), að taka afstöðu til ýmissa mála sem eru ofarlega á baugi. Það er auðvelt að taka afstöðu til margs af því sem þar er á ferðinni, t.d. hvort maður vill heldur, bjór eða léttvín. Þarna eru hinsvegar einnig spurningar sem eru talsvert flóknari. Þar finnst mér þessi standa upp úr: Á Ísland að ganga í Evrópusambandið?  Ég spyr sjálfan mig að því hvað veldur afstöðu þeirra sem þarna leggja nöfn sín við annaðhvort 'já' eða 'nei'. Ég er nú þeirrar skoðunar að þeir sam þarna taka afstöðu eigi einnig að þurfa að svara öllum spurningunum sem verða til í framhaldinu. Þær eru t.d. "Hversvegna telur þú að  Íslendingar eigi að/ekki að ganga í Evrópusambandið?"
Mér finnst ég stundum vera ansi fákunnandi í hópi allra þessara spekinga, vegna þess að mér finnst ég hreinlega ekki vita nægilega mikið um kosti og galla Evrópusambandsaðildar til að geta svarað með einföldu já-i eða nei-i.
Mér finnst að mér beri skylda til að vita nákvæmlega hvað að baki þessum smáorðum stendur og lái mér hver sem vill.

14 maí, 2011

Hugur reikar til Potsdam

Það kann að virðast undarlegt, í fljótu bragði, að ég sitji í rólegheitum að Kvistholti og láti hugann reika til bæjar að nafni Potsdam í Þýskalandi. Það er nú samt svo.

Þegar þetta er ritað, eru um hálftími í að Kvisthyltingurinn Egill Árni hefji þar upp raust sína og flytji "Das Lied von der Erde" (Söng jarðar) eftir Mahler ásamt  Evelyn Hauck, Alt  og Ríkishljómsveit Brandenborgar undir stjórn Howard Griffith í Nikolaisaal ó Potsdam.

Um þessar mundir eru nánast nákvæmlega 100 ár frá dauða Gustavs Mahler.

Tenórinn okkar er búinn að fjalla nokkuð oft í aðdragandanum (síðustu 2 ár eða svo) að þessum flutningi, um að hann sé ekki beinlínis það auðveldasta sem hann hefur tekist á við. Um er að ræða tvenna tónleika, en þeir fyrri voru í gærkvöld í Frankfurt an der Oder, þeir síðari eru að hefjast eftir skamma stund.

Að sögn gekk allt vel fyrir síg í gær, og við sem hér sendum góða strauma, vitum að það sama verður uppi á teningnum á eftir.


Svona er frá þessu sagt á máli þeirra þýsku:



Lebenslust und Todesahnung

Evelyn Hauck, Alt
Egill Arni Palsson, Tenor
Brandenburgisches Staatsorchester Frankfurt
Leitung: Howard Griffiths
Wolfgang Amadeus Mozart: Sinfonie Nr. 35 D-Dur KV 385 "Haffner"
Gustav Mahler: Das Lied von der Erde

Fast auf den Tag genau vor 100 Jahren, am 18. Mai 1911, starb Gustav Mahler nach furchtbarem Todeskampf in Wien. Bereits vier Jahre zuvor hatten ihn unter dem Eindruck des Verlustes seiner fünfjährigen Tochter Maria und einem beginnenden Herzleiden schwere Todesahnungen befallen. Davon ist auch sein Zyklus Das Lied von der Erde durchdrungen, dessen auf chinesische Lyrik zurückgehende Texte von schmerzlicher Abschiedsstimmung, Melancholie und Lebensgier künden. Mahler hatte jedoch gewiss nicht damit gerechnet, dass er die Uraufführung seines Werkes (sie fand am 19. November 1911 in München statt) nicht mehr erleben würde.

08 maí, 2011

Opnað fyrir sólina

Allt í veröldinni á sinn líftíma, sennilega einnig veröldin sjálf, en hér er nú ekki á ferðinni umfjöllun á svo víðum grundvelli. Þetta hófst með því að horfa að kennslumyndband á þútúbunni þar sem nákvæmlega var farið í hvernig staðið skyldi að verkinu svo ekki færi illa. Þar áður hafði reyndar átt sér stað óhemjumikil pæling þar sem reynt var að sjá fyrir sér hvert einasta hænufet í ferlinu, meira að segja var þar tekist á við spurninguna um hvort aðgerðin ætti rétt á sér, í ljósi þess að síðast þegar ráðist var í samsvarandi verk á þessum bæ, kallaði það á ramakvein suður um alla Evrópu.

Hvað um það.

Þegar andlegum undirbúningi var lokið þannig að mér sýndist að verkið yrði mér ekki ofviða, hafði ég sambandi við stoltan eiganda hins sérhæfða tækis sem ég þurfti að halda. Hann tók beiðni minni um lán á  græjunni afar vel, en hún hafði reyndar ekki verið hreyfð síðan síðastliðið sumar, svo það gæti tekið á að koma henni í stand. Með vísindalegri blöndunarnákvæmni minni og útreikningum tókst mér að finna út hvað þyrfti mikið af olíu í bensínblönduna. Ég blandaði, hellti á tankinn og fylgdi síðan leiðbeiningum um gangsetningu. Viti menn, innan ekki svo ógurlega margra tilrauna hrökk tækið í gang og malaði að mestu hnökralaust. Þá var það í höfn.

Þar sem fD hafði séð það fyrir sér að það gæti verið sniðugt að skilja eftir 2ja metra bút af stofninum til að nýta hann í einhverjum tilgangi, þurfti ég að finna ástand, og þá rifjaðist upp fyrir mér, að það ætti að vera til. Var mikið notað þegar paprika var ræktuð í Kvistholti. Ástandið fannst, hálfgerð ryðhrúga að fyrir utan þá hluta sem voru úr áli. Ég dröslaði þessu upp fyrir hús, þar sem grenitréð sem dæmt hafði verið til dauða, stóð.

Ég hef nú reyndar ekki gert mikið að því að beita vélsög á trjágróður - hafð reyndar aldrei gert það áður - og þess vegna ákvað ég að æfa mig á ómerkilegri gróðri. Etir að hafa komist að því að vélsögin lék í höndum mér, stillti ég ástandinu upp við grenitréð sem var farið að hafa óþægilega mikil áhrif á sólardýrkunarmöguleika á bænum. Ég vippaði mér léttilega upp á ástandið vopnaður söginni og hóf að gangsetja hana. Hvort það var vegna þess að æðri máttarvöld litu á þetta príl sem óásættanlegt eða bara vegna einhverrar vanstillingar, þá fór sögin bara ekki í gang. Eftir margítrekaðar tilraunir prílaði ég ofan og ákvað að reyna aftur síðar.


Löngu síðar reyndi ég aftur. Sögin fór í gang eins og ekkert hefði í skorist.

Þarna stóð ég á ástandinu, vonaður vélsög og undirbjó vandasamt verkið. Ég ætlaði á láta tréð falla í tiltekna átt, þannig að það ylli ekki skaða við fallið. Til að svo mætti verða þurfti ég, samkvæmt sérfræðingnum á þútúbu, að saga með tilteknum hætti, flís á tilteknum stað og þannig tryggja að tréð félli eins og vera bar. Sérfræðingurinn hafði líka lagt áherslu á að flóttaleiðir yrðu að vera klárar ef, þrátt fyrir öruggan undirbúning, tréð félli í aðra átt en lagt var upp með. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég stykki, ef tréð félli þangað, og hvernig ég stykki ef það félli hingað. Allt var klárt og fD fylgdist með, þess fullviss að allt færi þetta vel eftir svo vandaðan undirbúning. Allavega lét hún ekki annað í ljós.


Vélsögin kyssti stofninn og tennurnar sörguðu sig í gegnum börkinn. Fyrst tók ég láréttan skurð tiltekna vegalengt inn í stofninn og síðan 70° skurð sem endaði þar sem fyrri skurðurinn hafði endað. Þetta var nú reyndar ekki alveg eins og á myndbandinu, því þegar hér var komið sögu var ég næstum búinn að saga alla leið í gegnum tréð og veit raunar ekki hvernig það fór að því að standa þetta af sér. Ákvað að saga ekki skurðinn á móti, eins og ég átti að gera, heldur vippaði mér niður og náði í kaðalband sem ég batt við grein. Henti mér aftur niður og beitti, með snilldarlegum hætti, "toga-slaka" aðferðinni, með þeim afleiðingum, að grenitréð féll á nákvæmlega þann stað sem ég hafði æðlað því að falla á.


Ég neita því ekki, að nú tel ég mig vera færan í flestan sjó þegar skógarhögg er annars vegar. Reyndar sit ég uppi með stirða liði, rispaða handleggi og tognaða vöðva, en að öðru leyti bara sprækur.

07 maí, 2011

Auðvitað ekki konum að kenna (2)

Ja, hver skrambinn. Eftir viðbrögð við fyrri hluta, þar sem varpað var fram áleitnum spurningum, og framkomu ákveðnar efasemdir um ég ég væri að túlka með einhverjum rökrænum hætti, sé ég mig knúinn til að reyna að færa, þó ekki sé nema lítilsháttar rök fyrir því sem ég bar á borð. Þar með skellti ég mér inn á vef Hagstofunnar og fann þar upplýsingar um þróun nemendafjölda í háskólum frá 1975-2006. Upp úr tölunum sem ég fann þar tókst mér að búa til þessa töflu, sem sýnir hvernig fjöldi kvenna, annarsvegar og karla, hinsvegar, hefur þróast á þessum tíma:

Mér finnst ekki óeðlilegt, að það vakni spurningar í tengslum við þessa töflu. Sannarlega eru til skýringar á því hvers vegna heildarfjöldi nema í háskólum hefur aukist gífurlega á þessum tíma. Ég tel að þær snúist ekki einigöngu um það að háskólum hefur fjölga, heldur ekki síður um það að háskólanám hefur verið gert aðgengilegra, og þá ekki aðeins í jákvæðum skilningi. Vil jafnvel ganga svo langt að halda því fram að ....... (jæja - legg ekki í að segja mínar skoðanir á því á þessum vettvangi).
Ef ekkert annað kæmi til, þá hefði maður búist við að þróun kynjanna í þessu námi hefði verið svipuð hvað fjölda snertir, en sú er aldeilis ekki raunin. Af um það bil 23000 háskólanemum árið 2006 reynast tæp 17000 vera konur.
Ég vil gjarnan fá skýringu eða skýringar á þessu.
Meðan þær liggja ekki fyrir með ótvíræðum hætti verð ég að búa til tilgátu um það hversvegna þessi er raunin og niðurstaða mín er sú, að námsumhverfi, allt frá fæðingu til tvítugs, sé ekki með þeim hætti að það laði pilta til náms af þessu tagi, þá er ég auðvitað að tala um bóklegt nám, eins og um er að ræða í töflunni hér fyrir ofan. Hvað getur það verið sem skýrir það? Að órannsökuðu máli ætla ég mér ekki að fullyrða neitt, en sú sýring sem ég hef borið fram hljómar hreint ekki illa, að mínu mati.

Öll vitum við, að kynin eru að talsverðu leyti ólík líkamlega strax við fæðingu og ég held, þó svo ekki geti ég vitnað í rannsóknir því til stuðnings, að þau séu einnig í eðli sínu ólík. Á þeim grundvelli má síðan leiða að því rök að í uppeldinu sé þeim mikilvægt að fá að þroskast út frá sínum forsendum, sem stelpa eða strákur.  Það má halda því fram að stelpurnar hafi alla mögulega möguleika á að samsama sig hugmyndinni um hina eðlilegu og venjulegu konu (hver svo sem hún er nú) í uppeldinu, á meðan strákarnir hafi ekki það sama tækifæri að sínu leyti.

Þegar talað eru um einhverja tiltekna ímynd eða eitthvert eðli sem er kvenlegt eða karlmannlegt, er víst betra að vara sig. Ég er ekki að kalla eftir þeirri íktu mynd karlmennsku sem felur í sér hörku, kalt viðmót eða áhættusækni. Það eru eimitt þeir eiginleikar sem mér finnst að piltar í uppreisn gegn kvenlægu uppeldisumhverfi kunni að vera stökkva í til að búa sér til ímynd sem karlmaður. Þeir vita nefnilega að þeir eru ekki í eðli sínu eins og konur; að þeir eigi að vera öðruvísi. Finna þá þessa hörðu, töffara með kalda viðmótið og áhættusæknina, sannfærðir um að þannig eigi karlmenna að vera.

Þetta er nú að verða allt og langt hjá mér og þar með bind ég endann hér með spurningunni: hver er hin sanna ímynd karlmannsins?

Árið 2008 fjallaði ég nokkuð um þessi mál að einhverju leyti og vísa til þeirra texta hér og hér.

05 maí, 2011

Auðvitað ekki konum að kenna

Það féll ekki í frjóan jarðveg á mínum vinnustað, í umræðum um það hvort líkur væru á því að kona yrði kosin til embættis vígslubiskups í Skálholti, þegar ég varpaði fram þeirri hófstilltu athugasemd, að á þegar konur fara að láta að sér kveða í einhverri starfsstétt þá blasi hnignunin ein við; launakjör versna, virðing dalar og körlum fækkar.
Í þessu samhengi tók ég dæmi af kennarastéttinni, sem hefur gengið í gegnum þetta ferli með afgerandi hætti á þeim tíma sem ég hef komið þar við.
Afleiðingar kvennavæðingar starfsstétta hafa óhjákvæmilega í för með sér, að kvenlæg gildi verða áhrifameiri en áður var.
Verndandi hönd móðurinnar, móðurástin, móðurleg umhyggjan, móðurleg elskusemin, allt frá fæðingu til tvítugs, að lágmarki, setur óhjákvæmilega (líklega (svona til að hafa vaðið fyrir neðan mig)) mark sitt á þá sem njóta, eða fyrir verða.
Með því að andlegir leiðtogar þjóðarinnar eru nú sem óðast að verða að meirihluta konur, stefnir í að við munum fá í síauknum mæli að njóta alls þessa móður- eitthvað sem ég taldi upp hér að ofan, allt til grafar.

Mér fyndist það afskaplega verðugt verkefni fyrir t.d. doktorsnema, að rannska samhengið milli kvenvæðingar uppeldisstétta og prestastéttar og þróunar í þjóðfélags- og samfélagsmálum, t.d. síðastliðin 50 ár.

Er það kannski svo, að skortur á eðlilegum fyrirmyndum pilta, hafi rekið þá út á brautir sem leiddu til hruns fjármálakerfisins á Íslandi? Voru þetta kannski bara uppreisnartilburðir hjá strákunum, byggðir á fyrirmyndum úr heimi afreksíþrótta, amerískra hasamynda eða tölvuleikja?

Þegar ég hef gert tilraun til að vekja athygli á þessum spurningum mínum, eins og í hópi samstarfsmanna, hef ég lítið uppskorið nema hávaða, enda hafa flestir sem þar tjá sig um þessi mál fengið sitt uppeldi í kvennafansi.

Samt þætti mér gaman að fá einhver svör við þessu, þ.m.t. hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg.

Ef einhver reiðist við lesturinn þá áttar hann sig ekki á því hvert ég er að fara. Nú, þá verður bara svo að vera.

02 maí, 2011

Hvað var O. Brynjar Þórhallur?

Ég biðst afsökunar á að nota svona ruglingslega fyrirsögn. Sennilega er hér bara um að ræða rugl í mér, en ég held að framhaldið skýri hvað um er að ræða.

Í morgun bárust fréttir af því, eftir öllum hugsanlegum leiðum, að austurlandabúinn og hryðjuverkamaðurinn O.B.L. væri allur.

Í kjölfarið héldu fréttir af þessum atburði áfram í allan dag og enn er ekki talað um neitt frekar, nema þá brotthvarf annarrar lífveru vestur á fjörðum.

Það sem ég velti fyrir mér í öllu þessu fréttaflóði er orðnotkun: Hvað var gert við O.B.L.?

Var hann drepinn, veginn, aflífaður, tekinn af lífi, myrtur, felldur eða deyddur?
Var honum banað, eytt, sálgað, fargað eða stútað?

Það má velta þessu fyrir sér - orðavalið ræðst líklega af viðhorfum til viðfangsins/verksins/verknaðarins.

Þessara sömu spurninga má spyrja í tengslum við litla, fallega óarga/rándýrið sem tapaði lífinu í dag.

Í fréttum var talað um hræ dýrsins. Auðvitað er ekki hægt að tala um lík þess, en má ekki tala um skrokk?

Hvaða orð myndum við nota um jarðneskar leifar O.B.L.?

Það er nú svo.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...