20 nóvember, 2012

Fordómar í fyrirrúmi

Þeir virðast vera harla margir sem telja það vera viturlega leið, að ætlast til þess að þessi þjóð greiði atkvæði um aðild að ESB áður en fyrir liggur niðurstaða í samningaviðræðum og í ljós komi um hvað er þar að ræða.

Þetta finnst mér einstaklega óskynsamlegt.

Kannski er rétt að ég skelli hér inn yfirlýsingu um að ég hef ekki gert upp hug minn um þetta mál, enda tel ég það fyrir neðan virðingu mína (hrokinn, Guð minn almáttugur!) að taka einarða afstöðu með eða móti einhverju á grundvelli fordóma minna einna saman.

Það er búið að karpa um þetta ESB mál í ansi mörg ár. Það er tími til kominn að upplýst þjóðin fái að afgreiða það með einum eða öðrum hætti. Að öðrum kosti heldur karpið áfram um ókomna tíð. Óupplýst þjóðin myndi taka slíka afstöðu á grundvelli fordóma sinna með eða á móti, en ekki þekkingar á því sem þessi aðild hefði í för með sér.

Ég veit að þeir eru margir sem telja sig hafa höndlað hinn eina sannleik um þetta hræðilega bandalag. "Sjáiði, Spán, sjáið bara Portúgal! Viljum við fara sömu leið og Grikkland? Vitiði ekki að meirihluti Breta vill ganga úr Evrópusambandinu? Við munum missa yfirráðin yfir fiskimiðunum!, Ég vil ekki að Þjóðverjar ráði yfir Evrópu (lesist: fyrrverandi Nazistar, væntanlega)" - og svo framvegis.

Hvenær varð Evrópa svona hræðilegt fyrirbæri?


Mér finnst að að mörgu leyti megi bera saman umræðu um þessa aðildarumsókn og þegar einstaklingar eru sviptir ærunni fyrir framan alþjóð, sárasaklausir. Skotið fyrst og spurt svo. Það má ekki verða í þessu máli.

Ég held að við ættum að anda rólega og bíða þar til í fyllingu tímans með að greiða atkvæði okkar um þetta mikilvæga mál. Þá getum við hætt þessum illþolandi, innihaldslausu upphrópunum um eitthvað sem við vitum í rauninni ekki hvað er.

---

Þá er það frá í bili.

19 nóvember, 2012

Að berjast fyrir málstað

Það gengur mikið á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af ýmsu tagi þessa dagana vegna svokallaðrar varnarbaráttu Ísraelsmanna. Það eru birtar myndir af líkum palestínskra barna, af þróun ísraelskra yfirráða í Palestínu, af þeim samhljómi sem finna má með Þýskalandi nazismans og Ísraelsríki nútímans.

Fólk er reitt, skilur ekki hvernig það má vera að ástandið sé svona. Fólk krefst þess að þessum ósköpum linni, fer jafnvel á mótmælafundi, auk þess sem það hellir úr skálum vanþóknunar sinnar og reiði hvar sem við verður komið.

Ég fylli flokk þess fólks sem leitar að þeim orðum sem geta hugsanlega orðið til að breyta einhverju, en ég finn þau ekki. Það er að segja, ég finn ekki réttu orðin. Ég finn vissulega óhemju mikið af orðum, en jafnskjótt og þau koma í hugann, átta ég mig á því að þau munu ekki breyta neinu. Ef ég færi að slá þessi orð inn í tölvuna mína þannig að þau birtist einhversstaðar fyrir augum annarra, væru þau þá ekki bara einhverskonar friðþæging fyrir mig? Gæti ég þá kannski bara sagt við sjálfan mig: "Nú er ég búinn að sýna umheiminum hvað mér finnst og get með góðri samvisku farið að skella steikinn í ofninn."  Hvaða máli skiptir það fyrir það fólk sem veit ekki hvort það fær að draga andann á morgun?  Hverju breytir það þótt einhver smáþjóð í Ballarhafi hrópi vandlætingu sína á því sem á sér stað við botn Miðjarðarhafsins? Þau öfl sem þar véla um líf og dauða hafa ekki kvikað neitt umtalsvert frá stefnu sinni eftir átölur frá umheiminum. Þar er það í gangi sem meira að segja "stórasta land í heimi" getur lítið haft um að segja.

Land hinna frjálsu styður aðgerðir herveldisins með ráðum og dáð. Það virðist ekki munu breytast. Meðan svo er, skiptir litlu þó við berjum okkur á brjóst og deilum myndefni sem orð ná ekki að lýsa.  Ég man þegar sex daga stríðið gekk yfir. Ég hélt með Ísrael. Fjölmiðlarnir sem sögðu frá gerðu það einnig. Mín sýn breyttist, en ég spyr mig hvort það breyti einhverju. Það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og geri.  Ég veit hvert svarið við því er: "Ef allir hugsuðu þannig, væri leiðin greið fyrir ofbeldismenn, harðstjóra, kúgara eða heimsvaldasinna heimsins greið."

Það er rétt. En hvað svo?


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...