24 desember, 2012

"Þessi er sterk"

 Nú er upp runninn aðfangadagur, rétt eina ferðina. Ég er óendanlega árrisull nú sem aðra morgna, og er reyndar löngu búinn að átta mig á því, að slíku háttalagi fylgja margir kostir (ég nefni ekki gallana á degi sem þessum).
Fyrst það er kominn aðfangadagur þá var auðvitað Þorláksmessa í gær. Hún hefur undanfarin, allmörg ár falið í sér að fD og gamli unglingurinn hafa átt saman ágæta stund þar sem fjallað hefur verið um hvernig skatan væri það árið og síðan hafa þau sameinast í að gera þessu skemmda sjávardýri skil með sínum hætti. Minn hlutur og flestra þeirra sem einnig hafa tekið þátt í þessu borðhaldi, hefur verið sá,að snæða aðrar tegundir fiska með fullum skilningi á sérviskulegu skötuátinu og þar með höfum við leyft gegnsýrandi ilminum að leika um lyktarfærin allt um kring þessa átveislu þeirra félaganna í skötudýrkun.

Í gær var sá gamli fjarri góðu gamni.

Í aðdragandanum var fD í talsverðum vafa um hvort hún færi að standa í að sjóða skötu fyrir sig eina, en ég hvatti hana til þess að láta vaða með óljósu loforði um að ég kynni að freista þess að láta af skötubindindinu þó í litlu yrði. Það var keypt skata (eða "það var versluð skata" eins og þeir sem mæla á nútíma íslensku vilja hafa það). Henni var svo skellt í pottinn þegar leið að kvöldverði. Til vara, og fyrir eina Kvisthyltinginn auk okkar, sem heima var, voru þrjár aðrar fisktegundir á boðstólnum.  Innra með mér var ég búinn að búa mig undir það að takast á við að reyna einu sinni enn að aðlaga mig því að koma ofan í mig þessum ókræsilega mat. (Fyrir utan það, að lyktin er síður en svo aðlaðandi þá sér maður nú varla neitt ókræsilegra á borðum en nýsoðna skötu). Ég lagði mig fram um að sýnast svalur þar sem ég settist að borðinu.

"Úff, þessi er sterk" fD gefur skötu ávallt styrkleikaeinkunn og þar með hafa þau gamli maðurinn getað tengst í umfjöllun um ákveðið málefni. Nú þurfti hún að segja þetta upp úr eins manns hljóði, þar sem ég beið litla stund áður en ég tók þá stóru ávörðun að skella mér á barð. Setti það á diskinn minn og fékk síðan leiðbeiningar frá reynsluboltanum um hvernig best væri að aðskilja það sem maður setur ofan í sig frá hinu sem er síður ætt. Að því búnu skellti ég vel af kartöflum og vel af hamstólg yfir og allt um kring. Því næst tók við það sem átti að verða samstöðuát. Ég, sem sagt, skellti í mig fyrsta bitanum.

Ég held að það sé engum manni hollt, og allra síst á aðfangadegi jóla, að þurfa að lesa um það sem þessu fylgdi. Fyrsti þáttur þess átti sér stað þar sem ég bar gaffalinn upp að opnum munni og gerði þau stóru mistök að anda að mér um leið. Þeir sem borða skötu vita örugglega hvað ég er að tala um. Ég gafst ekki upp þrátt fyrir þá hnökra sem þarna urðu í byrjun. Gegnum þykkt og þunnt var ég ákveðinn í að sýna samstöðu með fD, sem annars hefði í einsend svitnað yfir þessum uppáhalds mat sínum. Eftir fjóra bita, sem ég naut engan veginn, voru líkamleg áhrif orðin of mikil til að áfram yrði haldið. Mér hafði láðst að setja vatn í glas til að skola "matnum" niður með, en mér hafði ekki láðst að bera á borð tiltekna framleiðslu frá Álaborg (til að sýna Kvisthyltingum sem þar búa alla jafna, samstöðu. Ég er á fullur í allskonar samstöðu um þessar mundir) sem kom beint úr frystinum. Það var af þessum sökum, einnig, sem allt stefndi í óefni undir máltíðinni. Álaborgardrykkinn notaði ég til að skola skötunni niður, hann virkaði algerlega bragðlaus og átti ekki séns í skötuna þegar kom að því að kyngja. Mér hafði bara láðst að setja á borð nægilega stórt glas og því þurfti ég  að hella alloft í glasið (var orðið skítkalt á hægri hendinni).

Þarna varð sá hluti máltíðarinnar sem sneri að þessum brjóskfiski, eins og sjá má af framansögðu, fremur endasleppur. Það var ekki þannig hjá fD, sem með glampa í augum, dásemdarorð á vörum og svitaperlur á enni, skóflaði dýrindismatnum í sig eins og enginn væri morgundagurinn.
Aðrar fisktegundir voru alveg ágætar.
-------------------
Ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhver ykkar sem þetta lesið, líti viðhorf mín til skötuáts hornauga og telji afstöðu mín þar til bera vott um aumingjaskap eða gikkshátt. Ég hef lagt  mig fram um að sýna samstöðu og það er fyrir mestu.
-------------------
Með því að nú er framundan jólahátið þykir mér við hæfi að senda tryggum lesendum þessara stopulu bloggskrifa, bestu óskir mínar um að jólin verði þeim sem allra indælust. 
Við hugsum til barnanna, tengdadætranna og barnabarnanna í Hjaltadalnum og Ástralíu og hlökkum mikið til að sameinast um áramótin.

20 desember, 2012

Óhöpp eiga sér einnig stað í sveitasælunni

Ég sá fram á óendanleg rólegheit í dag - einn heima, með fD í vinnunni og nýkominn danska Kvisthyltinginn í kaupstaðarferð.
Þá heyrði ég að sorpsöfnunarbifreiðin kom í hlað.
Ég nennti ekki einusinni að fá staðfestingu á því að þetta væri sorpsöfnunarbifreiðin - fannst það bara á þeim hljóðum sem bárust til mín að utan. Þegar þessum eðlilegu ruslatæmingarhljóðum linnti heyrði ég hann aka af stað. Velti því ekki frekar fyrir mér, en þar kom, að mér fannst vélarhljóðunum ekkert linna. Það var þess vegna sem ég fór fram í eldhús, leit út um gluggann og sá þá að fyrrgreind sorpsöfnunarbifreið hafði farið út af heimreiðinni, sem fD ók niður, slysalaust í býtið á ónegldri Corollunni.

Ég velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað að gera í þessu, enda ljóst að ég myndi ekkert geta gert.
Eftir nokkrar innhverfar pælingar ákvað ég þó að fara út með skóflu - reyndi við sandhauginn sem varð afgangs við sandkassasmíðar sumarsins, en hann reyndist gaddfreðinn. Mér tókst þó að skafa af honum nokkra efstu millimetrana og þannig að ná mér í lítilræði af sandi sem dugði til að ég flygi ekki á höfuðið við að kynna mér allar aðstæður.

Það reyndist rétt hjá mér, að þarna vera ekkert sem nærvera mín myndi breyta. Því var það, að ég skellti mér bara inn og náði í EOS-inn og myndaði síðan í gríð og erg atganginn þegar Þórarinn á Spóastöðum kom á stóru dráttarvélinni, með teygjureipið og kippti laskaðri sorpsöfnunarbifreiðinni upp.

Að öðru leyti læt ég myndirnar tala.
Hvað verður um Alaskavíðinn sem bjargaði sorpsöfnunarbifreiðinn frá að velta, á næsta sumri, verður líklega að koma í ljós.

08 desember, 2012

Háski á hálum ís

Það leit nú ekkert illa út með færið þegar við fD lögðum af stað heim úr vinnunni í gær og hugðumst hafa viðkomu í höfuðstað Suðurlands til að fylla á fyrir næstu viku. En það átti eftir að fara öðruvísi.

Laugarvatnsvegurinn var svo sem fremur óskemmtilegur til aksturs enda hafði snjóað  og myndast krapi. Sjókoman var við það að breytast í rigningu þegar hér var komið. Eins og oft er við slíkar aðstæður lagði fD fljótlega í þessari ferð til, að kaupstaðarferð yrði frestað og þess frekar freistað að komast heima í öryggið. Ég tók nú lítt undir þær vangaveltur - var frekar á því að ljúka þessu verki af - við skyldum sjá til hvort ekki léttist á veginum. Þegar við mættum síðan snjóruðningstæki við Apavatn styrktist ég í þeirri ákvörðun að ljúka því sem að var stefnt. Segir ekki af ferðinni fyrr en við náðum Svínavatni án þess að fleira yrði til tíðinda. Farkosturinn var framhjóladrifin japönsk fólksbifreið á heilsársbörðum, sem þýðir auðvitað það að engir voru naglarnir. Við Svínavatn virtist koma í ljós, að Biskupstungnabraut væri bara greið og því lá beint við að stefna niður úr.
Það var ekki löngu eftir að sá hluti ferðarinnar hófst, að farþeginn fór að gefa til kynna, bæði með krampakippum, sem birtust sem högg í farþegadyrnar innanverðar og í hægri upphandlegg minn, og sem lágværar upphrópanir eins og ÚFF! eða AAAH!. Ég áttaði mig auðvitað ekki á ástæðum þessa, svo upptekinn var ég við aksturinn. Þetta var á þeima kafla sem er milli Svínavatns og Borgar, en hann var í góðu lagi miðað við aðstæður að öðru leyti. Það sama má segja um "Torg hinnar stóru Borgar", með stórborgarlegu yfirbragði sínu.

Þegar þarna var komið þurfti að ákveða hvort haldið skyldi áfram, eða tekinn 360° hringur á í torginu. Fyrri kosturinn var valinn, sem ég verð, eftir á að hyggja, að viðurkenna, að var nokkurt glapræði.
Frá Stóru-Borg blasti við allt önnur mynd.

Framundan var hágljáandi vegurinn og minnsta snerting mín við stýrið myndaði ákveðna keðjuverkun: örlitla og vart merkjanlega hliðarhreyfingu farartækisins, og í beinu framhaldi mikið umrót í farþegasætinu. Við vorum ekki komin langt inn á gljáann, þar sem fyrsti gír var nánast ónothæfur vegna þess hve hraðinn var mikill, þegar sú einróma ákvörðun var tekin, að snúa við við fyrsta tækifæri. Það var síðan ekki síst fD sem skannaði vegkantinn og nágrenni í leit að mögulegum stað til að snúa við. Hún sá hlíð, lengst út í móa og mátti telja líklegt að þar væri þá afleggjari af aðalveginum, sem svo reyndist ekki vera þegar við brunuðum framhjá í inngjafarlausum fyrsta gír. Það var svo ekki fyrr en við vegamótin þar sem Kiðjabergsvegur mætir Biskupstungnabraut, að unnt virtist að snúa við. Það var nákvæmlega með það í huga, og til þess að þurfa ekki að bakka neitt og þar með taka áhættuna af að komast ekki af stað aftur, sem ég tók góðan sveig inn á afleggjarann og hugðist þannig snúa við án þess að þurfa að stoppa. Þegar öðrum farþegum (farþega, reyndar) varð ljóst að þetta var ætlun mín, var mér umsvifalaust skipað að stöðva þá þegar, jafn vel þó bíllinn væri nú kominn út á miðjan veg og aðrir bílar sáust nálgast óþægilega hratt. Ég lét þessar skipanir sem vind um eyru mér þjóta og hélt mínu striki, fálmlaust og fumlaust. Allt gekk þetta eins og upp var lagt með. Sama leið ekin til baka af rólegri yfirvegun, þar til við komum að "Torgi hinnar himnesku Borgar". Eftir það voru allir vegir færir og enn fæ ég ekki nógsamlega þakkað þeim sem söltuðu veginn frá Brúará að Laugarási fyrir nokkru.

Ég hef ekki sagt margt um bílstjórann í þessari ferð, enda málið skylt. Ég vil samt geta þess að aldrei bar skugga á eindæma færni hans við að stýra ökutækinu í gegnum þann háska sem okkur var búinn. Ég læt einnig hjá líða að fjalla mikið um það að fyrir hálfum mánuði þurfti þessi sami bílstjóri að nýta sér þá staðreynd að bifreið hans er kaskótryggð.
-------
Það er rétt að taka fram að það er varasamt að reikna  með að allt sem sagt er hér að ofan sé fullkomlega í sátt við sannleikann. Kjarninn er réttur - annað kallast skáldaleyfi, nú eða að færa í stílinn.

06 desember, 2012

Skálholtsbrekkan og fleira


Þetta kurteislega erindi sendi ég til svæðisstjóra Vegagerðarinnar ásamt oddvita og sveitarstjóra Bláskógabyggðar, á þessum góða degi:


Sæl
Það er skemmtilegra að fjalla um það sem vel er gert og því vil ég leyfa mér að þakka það að einhversstaðar hefur verið ákveðið að salta veginn milli Laugaráss og Brúarár. Þetta er mér meira fagnaðarefni en mörgum þar sem ég ek þarna um til vinnu á hverjum morgni yfir veturinn. Þetta hef ég gert frá haustinu 1986 og hefur leið mín legið á Laugarvatn. Þau eru ófá tilvikin sem ég hef nálgast það að fara með bænirnar mínar þar sem svellgljáandi Skálholtsbrekkan blasir við mér snemma morguns. Iðulega hefur hvarflað að mér við slík tækifæri, að bjóða þeim sem hafa með þennan vegarspotta að gera, í salíbunu um þessa brekku, en hún er ekki síður óhugnanleg þegar haldið er niður hana í ofangreindu ástandi.
Ég hef, sem betur fer, oftast komist upp, en hef stundum horfið frá áður en ég hef lagt í brattann.


Eftir að hafa sigrast á Skálholtsbrekkunni tekur við tiltölulega láréttur vegarkafli sem er sannarlega einnig varasamur rétt eftir að maður fer fram hjá aðalheimreiðinni á Skálholtsstað. Þar er, á stuttum kafla, hár bakki niður á gilbotn. Í hvössu veðri er fátt til ráða á þessum stað ef bifreið tekur að renna til. Komist maður klakklaust framhjá þessu tekur við brekka númer tvö á þessari leið, en um hana má segja svipað og þá fyrri: það er ekki eftirsóknarvert hlutskipti að sitja í bíl sem lætur ekki að neinni verulegri stjórn. Þegar þessi brekka er frá tekur við það sem kalla mætti Spóastaðahálsinn. En upp hann er vegurinn auðvitað búinn að ver til vandræða vegna missigs frá því hann var byggður.. Í fljúgandi hálku getur hvað sem er gerst á þessum kafla.
Niður hálsinn hinumegin í átt að vegamótunum við Brúará er brekkan aflíðandi og maður hefur ekki á tilfinningunni að að þar geti margt gerst, en það hefur komið fyrir að mér hefur mistekist að komast þarna upp á heimleið, vegna súrrandi hálku.


Auðvitað veit ég vel, að það verður aldrei svo að maður geti treyst því að komast leiðar sinnar að vetri til á þessu landi, en það er jafnvíst að allir vilja gera eins vel í þessum efnum og efni standa til - ekki efa ég það.


Hvað er hægt að gera við Skálholtsbrekkuna til að bæta þar öryggi og/eða sálarástand þeirra sem um hana þurfa að fara?


Skömmu eftir að þessi brekka kom til sögunnar veit ég að foreldrar voru mjög uggandi um börn sín í skólabíl þarna um. Ég veit til þess að það var farið fram á að þarna yrðu sett upp vegrið. Það var ekki gert og sú ástæða gefin, að vegrið myndi safna snjó í brekkuna. Þar með gerðist ekkert frekar í því. Síðan þá hefur komið til sögunnar ný tegund vegriða sem ekki safnar snjó á vegi. Þau má t.d. finna á Hellisheiði, við hringtorgið mikla á Borg í Grímsnesi og í brekkunni við Litla-Fljót. Nú vil ég fara fram á það, að vegrið af þessu tagi verði sett með veginum um Skálholtsbrekkuna, þó ekki væri nema bara þar - helst, auðvitað líka við Spóastaðabrekkurnar.


Ég leyfi mér ennfremur að mælast til þess að snjómokstur á þessum vegarkafla hefjist það snemma að morgni, að hann nýtist þeim sem þurfa að sækja vinnu milli þéttbýlisstaða í uppsveitum. Loks fer ég fram á það, að missigið við Spóastaði, sem ég nefni hér að ofan verði lagfært. Ég á bágt með að trúa því, að vegurinn eigi eftir að síga meira en orðið er.


Með von um að áfram verði haldið á þeirri braut með hálkuvarnir sem ég hef upplifað þessa síðustu daga (þó svo mér sé meinilla við að aka fína bílnum mínum í saltpækli) og von um að erindi mitt að öðru leyti verði tekið til alvarlegrar skoðunar.


Páll M Skúlason
Kvistholti, Laugarási

02 desember, 2012

Að öskra sig inn í þjóðarsálina

"Still waters run deep" Þegar þetta máltæki er yfirfært á mannfólkið felur það í sér, að sá sem ekki fer með látum um jarðlífið, búi yfir einhverskonar persónulegri dýpt; velti fyrir sér því sem hann hefur fram að færa, er skynsamur, sér fleiri en eina hlið á málum. Andstæðan væri lækurinn sem skoppar niður brekku í stjórnleysi sínu.

Í Hávamálum segir að þagalt og hugalt skyldi þjóðans barn vera.

Ég var ekki lengi að læra það í mínu starfi, að það leysti engin mál að reyna að yfirgnæfa nemendur með því að tala hærra en þeir. Það virkaði betur að tala lægra og skýrar, nota færri orð.

Skrítinn inngangur atarna.

Línan sem forystumenn Flokksins fara með um þessar mundir virðist hljóða upp á eftirfarandi:
Tala hratt - svo hratt að engum takist að spyrja nánar út í það sem þeir voru að segja.
Tala hátt - svo hátt að það yfirgnæfi öll önnur hljóð.
Tala í frösum - nota sömu hugtökin aftur og aftur svo fólk þurfi ekki að hugsa út merkinguna, enda varla hægt vegna hraðans.
Tala í endurtekningum - endurtaka sömu frasana minnst fjórum sinnum í hverju viðtali, enda er það eina leiðin til að fólkið viti hvað verið er að segja, fyrir utan það að þá virðist maður hafa eitthvað að segja og tekst að fylla upp í tímann sem maður fær.
Hneykslast og móðgast - í eins stórum tíl og mögulegt er. Telja alla vera á móti sér og Flokknum (að ógleymdri sjálfri þjóðinni)

Í gær var viðtal á RUV við sigurvegarann í höfuðborginni. Ég heyrði ekki hvað hann sagði því ég var svo upptekinn af að dást að því hver hratt hann gat talað. Hann minnti mig á fjallalækinn sem hoppar og skoppar niður hlíðarnar. Það var það eina sem eftir stóð, en sigurvegarinn kom ótal orðum í loftið.

Í morgun var viðtal á Bylgjunni við formann Flokksins. Hann talaði ekki jafn hratt og hefði því tapað að því leyti, en hann sigraði hinsvegar með góðum yfirburðum í "tala hátt" hlutanum og "tala í frösum" hlutanum. Ég hafði reyndar áhyggjur af hátölurunum í frúarbílnum og lækkaði því í útvarpinu.

----

Fólk sem talar hátt og hratt, í frösum og endurtekningum nær engan veginn að höfða til mín. Þannig fólk sendir frá sér þá mynd að það sé ekki í jafnvægi og ekki treystandi til að takast á hendur þá ábyrgð sem forysta í ríkisstjórn krefst.





Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...