29 febrúar, 2012

Að klikka á stærsta hlutverkinu



Það er ansi athyglisvert að heyra að í fréttunum um að háskólakennarar á Íslandi kvarti yfir að nemendur nenni ekki að læra. Spurning hvaðan það kemur. Hérna í DK fara nemendur í grunnskólum aldrei í próf enda orkar það tvímælis að auka andlegt álag á börnin með slíkum óþarfa. Slíkt er heldur ekki í anda “janteloven” þar sem tryggja þarf að enginn skari fram úr heldur eiga allir að vera jafnir. Þetta er allt mjög göfugt einhverntíma kemur að því að svona hugsunargangur virkar ekki. Vinnumarkaðurinn vill væntanlega fá þá sem eru “bestir”, hvernig það svo sem er metið, fyrir utan að  allir lenda í því óréttlæti að þurfa gangast undir próf á seinni skólastigum. Þetta hefur maður orðið var við og þá sérstaklega Ásta, enda er hún í skóla með þessu liði. Það líður varla sá dagur að einhver fari ekki að grenja ( í alvörunni að grenja meina ég ) af því að eitthvað er ósanngjarnt í skólanum (t.d. eins og að þurfa hugsanlega að svara spurningu fyrir framan bekkinn). Þetta er fullorðið fólk…..hefði maður haldið. Virðist vera afurð kerfis sem virkar ekki. Útskýrir kannski hvers vegna u.þ.b þriðjungur aðspurðra meðal fólks sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn hér er að kikna undan stressi sem getur varla talist skrýtið þegar þetta er í fyrsta skipti sem einhvers er krafist af viðkomandi. (Þorvaldur Skúli Pálsson), 

Það skiptir nú kannski ekki máli hver skrifar það sem stendur hér fyrir ofan, en ég nefni það samt að hann er talsvert skyldur mér.

Ég verð auðvitað að viðurkenna að við svona lestur hellist yfir mann eitthvert vonleysi um það sem framtíðin ber í skauti sér fyrir ofverndaða Vesturlandabúa. Sú þróun sem þarna er lýst er sannarlega á hraðferð um íslenskt samfélag, ef það er þá ekki komið jafn langt og þarna er lýst.

Ég viðurkenni líka, að ég nálgast hratt þann tíma þegar ég geng út úr ævistarfinu inn í, væntanlega friðsæl, elliárin. Í því ljósi get ég með talsverðum rétti sagt: "Til hvers að vera að ergja sig á þessu? Það hlustar enginn, hvert sem er. Fólk er að hugsa um aðra hluti, sem eru miklu mikilvægari; rétti einstaklingsins til umönnunar samfélagsins, þegar foreldrarnir geta ekki meir."

Ég er samt, í litlu, að klóra í bakkann, þó ekki nema til að ögra sjálfum mér og lesendunum mínum fáu. Í þau fáu skipti sem ég hef tekið mig til og ýjað að allri þessari aumingjavæðingu sem blasir við hvert sem litið er, hvernig foreldrar eru er bregðast í því stærsta hlutverki sem þeim er falið á lífsleiðinni, svona maður á mann, snýst umræðan óðar upp í stórfeminískar yfirlýsingar um að ég sé karlrembusvín (þó það sé auðvitað ekki sagt berum orðum).

Já, þetta er svo skemmtilegt - í einhverjum afbrigðilegum skilningi.

Skyldi ég fara á listann?


26 febrúar, 2012

Þrútin þjóð af visku......eða er það svo?

MANIMAL 

Mér hefur nú ekki sjaldan blöskrað hvernig þjóðin sem ég tilheyri opinberar grunnhyggni sína og almennt vitleysi. Þetta hefur nokkuð oft orðið mér umfjöllunarefni hér. Á síðustu dögum virðist eins og æ fleiri séu að koma út úr skápnum með samskonar skoðanir.

Þeir sem eiga sitt undir því að þjóðin velji þá sem fulltrúa sína hér og þar, mega með engu móti anda því út úr sér, að þjóðina kunni að skorta nokkuð upp á almenna skynsemi eða vit. Einn þingmaður hélt því fram að eitthvert tiltekið brot þjóðarinnar gengi ekki heilt til skógar að þessu leyti og uppskar mikinn hávaða og hann mun væntanlega ekki reyna að bjóða sig fram aftur.

Þjóðin er góð í drama. Þegar um er að ræða málefni þar sem mögulega er hægt að hneykslast, þá tekst okkur sannarlega vel upp, auðvitað með dyggri aðstoð fjölmiðla sem þekkja hvað gengur í okkur - hvað selur.
Við erum líka sérlega góð í að takast á við mál sem eru tiltölulega einföld - svona vondi kallinn, góði kallinn mál. Við getum meira að segja eytt tíma í að fjalla um hvernig einhver meintur skúrkur í útlöndum virðist hafa rekið heilt vændishús, en vissi það ekki. Við erum svo góð í þessum "human interest" málum, því þau kalla fram frumstæðustu tilfinningar okkar - gleði, sorg, reiði o.s.frv. Þarna erum við á heimavelli. Þessar tilfinningar sjáum við einnig meðal dýra merkurinnar - þetta eru sem sagt ekki þær tilfinningar sem greina manninn frá öðrum dýrum.

Maðurinn hefur talið sig vera talsvert frábrugðinn öðrum spendýrum, ekki síst vegna vitsmunalegra yfirburða sinna. Heilinn í okkur á að gera okkur mögulegt að, t.d.
- greina sundur orsök og afleiðingu,
- lesa í það sem sagt er og skrifað,
- velta fyrir okkur aðstæðum og draga ályktanir,
- setja okkur í spor annarra.
Vandinn við þessa þætti er, að þeir krefjast þess af okkur að við leggjum eitthvað á okkur, gagnstætt hinum frumstæðu tilfinningum.
Við nennum ekki að leggja neitt á okkur lengur.
Það sem er auðvelt er gott og skemmtilegt, það sem er erfitt er vont og leiðinlegt.
Við erum þjóðin sem búið er að ala upp í allsnægtum.
Við teljum okkur eiga allan rétt í heimi til að gera það sem okkur þóknast.
Við nennum ekki að hugsa það út, að ef skuldir eru felldar niður einhversstaðar, þá þarf að borga þær annarsstaðar, ef skattur er lækkaður hér, þá verður annað hvort að draga úr þjónustu, eða leggja skattinn á einhverja aðra.
Við nennum ekki að hugsa það út að staða mála í þessu þjóðfélagi er að öllum líkindum ekki sök núverandi stjórnvalda.
Við nennum ekki að leita skýringa á því, að það er að stærstum hluta sá þjóðfélagshópur sem minnst má sín, sem styður þá stjórnmálastefnu sem er síst líkleg til að bæta kjör hans.
--------------------------

Þá er þetta uppsafnaða blástursfóður komið frá og ég held áfram með lífið.

Já, ég er hrokafullur í meira lagi.

Njóttu dagsins, Bragi :)

25 febrúar, 2012

Að spara skósólana


Eitt af því sem lífið getur haft í för með sér, ef maður er heppinn, eru afkvæmi sem stuðla með einhverjum hætti að því að vekja með manni stolt, ekki síst af manni sjálfum, auðvitað fyrir vel unnið verk, en einnig af því hvernig börnin eru að  vinna úr lífi sínu.
Ég hef haft umtalsverða ánægju af því að undanförnu (þessvegna lítið um skriftir hér) að taka þátt með beinum og óbeinum hætti í afskaplega ánægjulegum atburðum í lífi elstu sonanna. Því hef ég gert nokkra grein fyrir hér.
Þá höfum við fD fengið að njóta samvista við Görlitzbúana okkar og það hefur okkur sannarlega ekki leiðst. Milli þess sem við spillum litlum stúlkum, njótum við þess að velta okkur í öllum hamingjuóskunum, sem stráð er yfir okkur hvaðanæva.
Þakklæti okkar til þeirra sem hafa heiðrað okkur Kvisthyltinga með margvíslegum hætti að undanförnu, er ómælt.

Við stefnum áfram á sömu braut, ekki síst þar sem við eigum tvö í viðbót, yngri, sem ætla sér líka að ná glæstum árangri á sínum sviðum.

Allt er þetta nú ágætt og frestar þörf á skókaupum um einhverjar vikur.

13 febrúar, 2012

Fréttatilkynning hin síðari



Ideale – tónleikar í Aratungu
Egill Árni Pálsson, tenór, heldur tónleika í Aratungu á laugardaginn kemur, þann  18. febrúar og hefjast þeir kl. 17:00. Tónleikana nefnir Egill Árni  ‘Ideale - tónaperlur frá Þýskalandi, Ítalíu og Íslandi.’

Egill Árni hefur verið búsettur í Þýskalandi frá árinu 2008 og haft í ýmsu að snúast. Þar er kannski helst að nefna þátttöku í vinsælum tónleikum í Berlín sem nefnist “Classic Open Air” og eru haldnir  á hverju ári á Gendarmenmarkt torginu.  Þá söng hann á síðasta ári “Das Lied von der Erde” eftir Mahler, við afar góðar undirtektir. Hann söng hlutverk Caramello í “Eine Nacht in Venedig”, en hann hafði sungið hitt aðalhlutverkið úr sömu óperettu í Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, og þá má einnig nefna Gouvenour og Vanderdendur í “Candide” eftir Leonard Bernstein. 
Ýmislegt er í farvatninu á söngsviðinu og þar má helst nefna ýmsar tónlistarhátíðir, eins og Elblandfestspiele og hugsanlega aftur “Classic Open Air”.

Tónleikarnir í Aratungu eru aðrir tónleikarnir sem Egill Árni heldur þar, en fyrir fimm árum hélt hann þar tónleika í tilefni af þrítugsafmæli sínu.

Það er Kristinn Örn Kristinsson sem leikur á píanó og gestasöngvari á tónleikunum verður Henríetta Ósk Gunnarsdóttir.
Bláskógabyggð og Söngskólinn í Reykjavík styrkja tónleikana. Það verður ekki selt inn, frjáls framlög eru þó vel þegin.

Egill Árni er frá Kvistholti í Laugarási. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Eftir það lá leiðin æ meir á vit söngsins, en síðustu 4 ár hefur hann búið í Þýskalandi þar sem hann hefur lagt stund á sönginn, fyrst við nám, en seinni tvö árin hefur hann verið fastráðinn við óperuna í Görlitz.
Egill er kvæntur Soffíu Jónsdóttur og þau eiga tvær ungar dætur.


10 febrúar, 2012

Milli prinsins og ráðherrans

F.v. Prins Joachim Holger Valdemar Christian,
Þorvaldur Skúli Pálsson, 
Morten Østergaard, ráðherra rannsókna,
nýsköpunar og æðri menntunar.

Ég er harla ánægður með hve strategísk uppstilling sonarins hefur verið við myndatökuna.

Hópurinn sem hlaut EliteForsk Rejsestipendium í Ny Carlsberg Glyptotek í gær.

09 febrúar, 2012

Með ráðherranum :) í Ny Carlsberg Glyptotek

Morten Østergård, ráðherra rannsókna,
nýsköpunar og æðri menntunar í Danmörku,
Þorvaldi á hægri hönd.

Ég reikna með að ég sé að ganga fram af einhverjum með þessu, en ég tal það skyldu mína að veita viðeigandi upplýsingar. Ég ákveð sjálfur hvað eru viðeigandi upplýsingar.

Fréttatilkynning hin fyrri




Í dag, 9. febrúar, veitir Þorvaldur Skúli Pálsson, frá Laugarási í Bláskógabyggð, viðtöku styrk að upphæð DKK300.000 (ISK6550000), sem Morten Østergård, ráðherra rannsókna, nýsköpunar og æðri menntunar í Danmörku, og Jóakim Danaprins afhenda. Athöfnin fer fram í Ny Carlsberg Glyptotek í Kaupmannahöfn, að viðstöddu fjölmenni.

Styrkurinn sem um er að ræða kallast EliteForsk rejsestipendium og það er ráðuneyti rannsókna, nýsköpunar og æðri menntunar sem veitir hann. Þessi styrkur var fyrst veittur árið 2007, en hann hljóta ”mjög hæfileikaríkir doktorsnemar, sem skulu nýta hann til lengri námsdvalar við bestu rannsóknaraðstæður sem völ er á.”

Styrkþegar eru valdir úr hópi allra doktorsnema í Danmörku og eru á þessu ári 17 að tölu.

Þorvaldur Skúli er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan styrk.

Verkefnið sem Þorvaldur Skúli vinnur að, ber heitið ”Pelvic Girdle Pain – Sensory and Motor Aspects.” Þar rannsakar hann nokkra þætti sem hugsanlega liggja til grundvallar verkjum frá mjaðmagrind.

Fyrri rannsóknir benda til að það sé talsverð skörun milli mjóbaksverkja og verkja frá mjaðmagrind, en í hvorugu tilvikinu vita menn hvers vegna sumir þróa með sér langvinna verki sem ekki lagast við meðferð. Besta dæmið um verki af þessu tagi eru mjaðmagrindarverkir á meðgöngu, en þá verða allar konur fyrir margskonar líkamlegum breytingum og finna til verkja af ýmsu tagi, sem telst fullkomlega eðlilegt. Það er hinsvegar ekki ljóst, hvers vegna líkamleg einkenni hverfa ekki þegar allar líkamlegar breytingar sem tengjast meðgöngu eru gengnar til baka. Vonir standa til að niðurstöðurnar veiti vísbendingar um hvernig haga beri meðferð við verkjum af þessu tagi, þannig að árangur verði betri en hingað til.

Styrkinn hyggst Þorvaldur Skúli nota til að standa undir kostnaði við rannsókn sem verður framkvæmd við Curtin University of Technology í Perth í Ástralíu, í samvinnu við rannsóknahóp sem hefur talsverða reynslu af rannsóknum á mjóbaks- og mjaðmagrindarverkjum.

Þorvaldur Skúli lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, BS-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands og meistaraprófi frá Curtin tækniháskólanum Perth. Hann leggur nú stund á doktorsnám við Álaborgarháskóla.

Þorvaldur Skúli er kvæntur Ástu Huldu Guðmundsdóttur og þau eiga tveggja ára son.

08 febrúar, 2012

Fyrsti Íslendingurinn er Kvisthyltingur

Þessir styrkir verða afhentir í Ny Carlsberg Glyptotek í Kaupmannahöfn á morgun.
Úr því þetta er orðið opinbert með þessum hætti, á síðu EliteForsk, finnst mér í lagi að skella þessu hér inn.  Nú er að fletta niður listann. Nánari útlistum kemur á morgun.


Modtagere af uddannelsesmini­ste­rens Eliteforskrejsesti­­pendier

Morten Lundh

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand. scient. i molekylær biomedicin, 27 år

Tomas Laursen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.scient. i bioteknologi, 28 år

Johanne Mørch Jensen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i bioteknologi, 26 år

Ana Nordberg

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.jur., LL.M., 39 år

Ian Zerny

23.01.2012
Ph.d.-studerende, 28 år

Peter Arendorf Bache

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.oecon. (IMSQE), 24 år

Søren Dinesen Østergaard

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand. med., læge, 31 år

Anders Grøntved

23.01.2012
Ph.d. studerende, cand.scient., Master of Public Health, 31 år

Sarah Bro Pedersen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.mag., 28 år

Karsten Fyhn

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i kommunikationsnetværk, 27 år

Thorvaldur Skuli Palsson

23.01.2012
Ph.d.-studerende, M.Sc. i muskuloskeletal fysioterapi, 32 år

Jacob Heide Jørgensen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i matematisk modellering og computing, 27 år

Rasmus Lykke Marvig

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i bioteknologi, HD 1. del, 26 år

Trine Julie Abrahamsen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i matematisk modellering og computing, B.Sc. i medicin og teknologi, 29 år

Lasse Folke Henriksen

23.01.2012
Phd-studerende, cand.scient.soc., 29 år

Oana Brindusa Albu

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.merc. i marketing, kommunikation og globalisering, 28 år

Per Meyer Jepsen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.scient., 32 år

04 febrúar, 2012

Ég, baráttumaðurinn fyrir betri gúrkum

Í síðasta pistli fjallaði ég um óneysluhæfa gúrku og skellti myndum af gripnum með.


Ég sendi hlekkinn á þrjá aðila: Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Krónuna.
Viðbrögð hef ég fengið frá tveim þeim síðarnefndu. Þau eiga það sameiginlegt, að halda því fram, að þarna sé líklega á ferðinni undantekning og mér bent á að fara með gúrkuna í búðina og fá aðra, góða í staðinn.
Svari sínu lýkur Kristinn Skúlason hjá Krónunni svona:
En í lokin þá átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn var hjá þér að blogga þetta mál.
Mér finnst hann vera að gefa í skyn, að þegar svona einstakt tilvik á sér stað þá komi maður með vöruna í búðina og fái nýja.  Ég svaraði Kristni með þessum hætti:

Við einu vil ég bregðast, en það er að þú áttir þig ekki á tilganginum með þessum bloggskrifum.
Það má kannski segja að það komi ekki nægilega fram, en þetta er hreint ekki í fyrsta og örugglega ekki síðasta skipti sem ég og aðrir kaupum köttinn í sekknum varðandi grænmeti, sérstaklega í lágvöruverðsverslunum. Þessi umrædda gúrka var eiginlega kornið sem fyllti mælinn í þessum efnum hjá mér og ég tel mig ekki hafa haft á lofti stóryrði í garð ykkar eða annarra, enda ekki markimið mitt ata ykkur auri, heldur leggja lítið korn á vogarskálina í því skyni að ég geti farið að kaupa hið "ferska og brakandi" grænmeti sem auglýst er talsvert.

Maður fær það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að hugsunin með því að setja svo gamalt grænmeti fram í búðir sé sú að þetta sé nógu gott í kjaftinn á fólkinu fyrir það verð sem það greiða. Ég vona samt sannarlega að svo sé ekki.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé kominn tími til að upplýsingar um aldur grænmetis komi fram í verslunum, hvernig sem menn fara að því - þetta er hægt með aðrar landbúnaðarafurðir - því ekki gúrkur tómata og papriku.

Ég fer í kaupstað einu sinni í viku - því er að ekki fyrr en viku seinna sem ég get komið með gúrkuræksnið til að fá nýja - þú getur rétt ímyndað þér hvernig hún er þá útlítandi.
Þar fyrir utan hef ég annað að hugsa en að muna eftir að taka með mér einhverju gúrku sem kostaði tvöhundruð kall - mér fyndist það smásálarlegt.
Í gær bröskraði mér hinsvegar og í sambandi við það bloggaði ég - sendi jafnframt slóðina á ykkur, Sölufélag Garðyrkjumanna, og Samband garðyrkjubænda. Þetta er sá hópur í samfélaginu sem á að sjá til þess að við sem neytum þessarar vöru eigum kost á því besta hverju sinni.
Kristín Linda Sveinsdóttir, sem er markaðsstjóri hjá SFG, brást við með því að þakka ábendinguna, svona gæti vissulega komið fyrir og ég ætti að hafa samband við verslunina og fá nýja gúrku. Ég svaraði pósti Kristínar svona:
Það er nú svo, að þetta snýst ekki bara um eina gúrku - hún kostar einn til þrjá hundraðkalla - þó vissulega sé pirrandi að sitja uppi með svona vöru tveim dögum eftir að hún er keypt.
Ég sendi hlekkinn einnig á Samband garðyrkjubænda og Krónuna - enda tilgangurinn ekki að rífa niður, heldur reyna að styðja við vinnu að betra íslensku grænmeti í verslunum. 
Ég mun hika við að kaupa mér gúrku næst - það er tap fyrir garðyrkjuna, ekki síst ef það eru margir aðrir með sömu reynslu.

Þú nefnir einmitt það sem er stóri gallinn í þessu öllu, en hann er sá, að maður veit ekki hvenær gúrkan var skorin af plöntunni og pakkað hjá garðyrkjubónda. Ef ekki er hægt að treysta byrgjum og verslunum til að vera vakandi fyrir aldri grænmetis í hillum, þá finnst mér að til þurfi að koma upphafsdagsetningin - hvenær var gúrkan skorin?

Ég er búinn að fá svar frá Krónunni og hann skilur ekki tilgang minn með blogginu - en ég er búinn að svara honum til um það.

Ég fer í kaupstað vikulega og það er borin von að ég sé þannig þenkjandi að ég fari að burðast með gúrkukmaukið niður á Selfoss til að fá nýja gúrku - sem ég veit ekki hvort er eitthvað skárri.
Ég ræktaði papriku í ein 15 ár og fannst alltaf jafn nöturlegt að sjá aldrei þessa fersku papriku sem ég sendi frá mér í búðunum, heldur linkulegt drasl
 Kristín svarað þessum lestri mínum svona:
Ég skil vel vonbrigði þín og þau eru ekki síður okkar hér hjá Sölufélaginu. En eins og ég nefndi við þig þá getur þetta gerst því miður. Þó að það eigi ekki að gerast.

Við reynum eftir okkar fremsta megni að vera í góðu samstarfi við verslanir um þessi mál. Og ég veit til þess að verslanir þær hafa sinn metnað líka að gera þetta vel.

Vona að í næstu búðarferðum þínum þá verði vörurnar í lagi.

Ef þetta upphlaup mitt eykur líkur á að ég og aðrir getum treyst því að grænmetið sem við kaupum sé "brakandi ferskt" og að við fáum ekki aðeins að vita hvaðan það kom heldur einnig hvenær það kom þaðan.

02 febrúar, 2012

Mér þykir það leitt, en þetta er ekki boðleg vara

Venjulega kaupum við fD gúrkur í Bjarnabúð, í Reykholti því við vitum að þær eru nýjar. Þangað áttum við ekki ferð og létum okkur því hafa það s.l. mánudag, sem var 30. janúar, að kaupa eina gúrku í Krónunni á Selfossi, en maður hefur alloft heyrt því fleygt að þar sé grænmetið talsvert skárra en í Bónus, án þess þó að ég ætli að taka afstöðu í því máli.
Ég þykist vita talsvert um gúrkur, enda uppalinn á garðyrkjubýli og stundaði sjálfur ræktun í ein 20-30 ár. Ég fór í gegnum gúrkukassana og valdi loks eina fagurgræna og stinna, gerði ráð fyrir að hún myndi verða í góðu standi í svona viku, ef á þyrfti að halda.

Í dag er þessi fagurgræna og stinna gúrka eins og sjá má á þessum myndum og ég myndi ekki vilja neinum svo illt að setja ofan í sig þessa gulleitu slepju sem vall út úr plastinu.

Ég veit af reynslu, að þetta er ekki ræktendunum um að kenna, heldur einhverju sem gerist frá því gúrkan fer frá þeim og þar til hún er sneidd ofan á brauðið eða í salatið. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar alllengi, að þessi plasthulsa sem gúrkur eru oft klæddar í, dragi úr geymsluþolinu þó sannarlega haldist þær lengur stinnar. Ég gæti vel trúað að þessi gúrka hafi verið skorin af plöntunni í kringum áramót (jafnvel fyrr).

Svona nokkuð er ekki boðlegt! Það er ekki einu sinni þannig, að maður geti sannað að gúrkan hafi verið keypt á tilteknum stað á tilteknum tíma.  Í skjóli þess, að þessi vara er ekki merkt með síðasta söludegi, er hún látin liggja í geymslum eða verslunum lon og don, svo lengi sem ekki er hægt að sjá utan á henni það sem fyrir innan er.

Mér er hlýtt til garðyrkjunnar og veit að þar starfa menn af metnaði. Þessi endi keðjunnar hlýtur að hafa slæm áhrif á orðspor þessarar greinar.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...