31 mars, 2012

Fer FI212 eða ekki?

"Við erum nú ekkert að fara af stað á næstunni" sagði fD snemma í morgun, en hélt samt áfram að taka til í töskuna. "Flugið er horfið af textavarpinu".
Þetta var upphafið að talsverðri krísu sem nú er loks til lykta leidd. Flugfélagið sem eitt sinn var allra landsmanna og er nýverið orðið stundvísasta flugfélagið komst ekki vel frá þessu máli.

Örlitlu efafræi var reyndar sáð í huga mér í gærkvöldi þegar ég ákvað að innrita okkur á netinu. Á brottfararspjaldinu stóð réttur flugtími, er þar kom fram að BOARDING væri 5 tímum seinna. Þetta afgreiddi ég nú bara sem einhver tölvumistök.

Í morgun kom síðan yfirlýsing fD.
- Textavarpið hafði hent fluginu út.
- Airport.is greindi frá seinkun um 5 tíma.
- Ekkert símanúmer fannst til að fá staðfestingu.
- Kl. 8:17 var flugið aftur komið á réttan tíma á airport.is.

Verðandi flugfarþegar stukku til og hraðpökkun átti sér stað þar til tvenn smáskilaboð komu komu í símann minn, þar sem flugfélagið lýsti hryggð sinni yfir seinkun á fluginu um 5 tíma. Þar kom einnig þetta fram, nákvæmlega svona: Upplýsingar í sím  - sem sagt ekkert símanúmer.

Nú var staðan sú að sms greindi frá seinkun, airport.is var með flugið á áætlun og ekkert símanúmer fannst, sem hafa mætti samband við.

Þá hringdi ég í 118 og þar fékk ég uppgefið símanúmer IGS og var sagt að þar myndi fólk svara mér, sem það reyndist ekki gera - það hringdi bara út.

Enn var staðan óbreytt og klemman snérist um hvort trúa ætti textavarpinu og airport.is eða sms sendingunni. Ákveðið að treysta því fyrra og hraðpökkunin hélt áfram, enda að verða komið á áætluðum brottfarartíma frá Kvistholti.

Ég ákvað þó að reyna betur við 118 - kannski var til annað númer.
Nú setti ég þolinmóða konuna sem svaraði, alveg inn í málið. Hún fór á airport.is og sá þar, að flug FI212 var komið á áætlun 5 tímum síðar en upprunaleg áætlun hljóðaði upp á.

Með þessar upplýsingar í hendi, og í samræmi við sms og textavarp, var pökkun sett á bið; brottför úr sveitasælunni frestað um 5 tíma.

Auðvitað verður Kvistholt vel vaktað þá daga sem við fD sinnum erlendis búandi Kvisthyltingum í nokkra daga.

29 mars, 2012

O, sole mio - Egill Árni Pálsson

Ég fjallaði lítillega um kórana sem sungu á tónleikunum í Háteigskirkju, laugardaginn 24. mars, s.l. Ég minntist líka á tvo einsöngvara.
Nú er ég búinn, í sveita míns andlits, að prófa mig áfram með að útbúa upptöku frá söng annars þeirra:  Egils Árna Pálssonar, þannig, að ég treysti mér að setja þau vinnubrögð mín fyrir sjónir lesenda minna. Hér er ekki fullkomin myndvinnsla á ferð, en ég er nú þeirrar skoðunar, að söngurinn nálgist það svið frekar. Í þessu er ég auðvitað ekki hlutlaus, en ef ég væri það, væri ég sömu skoðunar, held ég. :)


28 mars, 2012

Heyr, himna smiður


Á laugardaginn var (24. mars) voru haldnir tónleikar tveggja kóra Menntaskólans að Laugarvatni í Háteigskirkju: þess sem var stofnaður fyrir tuttugu árum, og sem starfaði til 2002 undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar og þess sem var stofnaður síðastliðið haust, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Með kórunum lék tríó Kjartans Valdemarssonar, fyrrum kórfélagarnir þau Egill Árni Pálsson, tenór og Kristjana Skúladóttir, sungu sitt lagið hvort.

Þetta voru sérlega skemmtilegir tónleikar, og hér er sýnishorn: eldri kórinn syngur Heyr, himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, við texta Kolbeins Tumasonar.

Hér má sjá báða kórana flytja Jómfrú Mariae dans eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, þar sem hann og Unnur Sigmarsdóttir syngja einsöng. Textann gerði sr. Daði Halldórsson.

22 mars, 2012

Loðfirðingarógur

Nýjasta vísan sem gamli unglingurinn skellti fram nú áðan fjallar um rógburð, sem ekki verður nægilega hefnt fyrir.

Að launa það þú laugst á mig,
Loðfirðingarógur,
hrykki ekki að hýða þig
Hallormsstaðaskógur.

Loðfirðingur mun vera einstaklingur frá Loðmundarfirði.

Tildrög:Við skoðun reyndist þessi vísa vera eftir Pál Ólafsson. Ekki er vitað hverju séra Sigurður Gunnarsson á Valþjófsstað á að hafa logið á Pál en ekki hefur Páll verið ánægður með það. Um það ber þessi ferskeytla hans vott.

17 mars, 2012

Þröngur dráttur

Ég þarf, eins og tugir þúsunda annarra í þessu landi, að koma mér til vinnu á hverjum morgni vinnudags. Það er nú allavega hvernig þessir morgnar eru, en meðal þess sem ég get átt von á, er að það hafi fryst um nóttina, eftir rigninguna daginn áður. Hafi fryst, þá stend ég frammi fyrir þeim vanda, að lásinn bílstjóramegin í xtreilinum mínum frýs, þannig, að það er hægt að opna, en ekki hægt að skella í lás fyrr er miðstöðin hefur náð að hita loftið í bílnum talsvert upp fyrir frostmark. Þetta þýðir, eins og hver maður getur séð, að ég þarf að halda hurðinni lokaðri upp undir 10 km vegalengd, þegar þessi staða er uppi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að þetta er hvimleitt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og ég er tilbúinn að leggja talsvert á mig til að komast hjá þessum aðstæðum.
Það er einnig rétt að halda því til haga, í samhengi við það sem hér er skráð, að vaxtarlag mitt ber ekki með sér að ég sé fastagestur á líkamsræktarstöðvum og aldur minn nálgast óðum að fylla það sem menn kölluðu "three score years" á tíma Abrahams Líncons.
Dagarnir í síðustu viku voru með nokkuð reglubundnum hætti þannig, að það hlýnaði eftir því sem á leið morguninn og var jafnvel talsverð væta þegar á leið daginn. Það frysti hinsvegar á nóttunni, og á þeim morgni sem um ræðir hér, var rétt rúmlega 5°C frost þegar haldið var af stað til vinnu.
Ég vissi hvert stefndi og ákvað í ljósi þess, að fara farþegamegin inn í bílinn - hef gert það áður með eftirtektarverðum árangri. Byrjaði á að opna dyrnar, tók þar fram sköfurnar og tókst að opna hæfilegt gat á framrúðuna til að ég myndi sjá hvar ég væri hverju sinni og tækist að forðast að aka útaf, eða á það sem fyrir kynni að vera.
Þegar þessu var lokið hófst innför mín, farþegamegin yfir í bílstjórasætið. Auðvitað gekk ágætlega að hálfsetjast í farþegasætið og sveifla vinstra fæti yfir stokkinn milli sætanna og yfir á gólfið  bílstjóramegin. Síðan mjakaði ég meginhluta mínum yfir stokkinn og gírstöngina, yfir í bílstjórasætið. Þá var þetta næstum komið, utan það að hægri fótur var enn farþegamegin. Verkefnið var að koma honum sömu leið og megin hlutinn var kominn. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að beita handtaki fyrir neðan hné, og vippa fætinum yfir stokkinn og troða honum framhjá stýrinu og niður á gólf, bílstjóramegin. Þegar hér var komið sögu var fD tilbúin til brottfarar, en við erum samferða til vinnu á þessum morgni vikunnar.

Í þann mund er ég beygði mig fram til að grípa fótinn, og í framhaldi af því vippa honum honum yfir, gerðist það sem enginn myndi vilja reyna við þessar aðstæður. Ég fann hvernig hann* lagði undir sig hægra lærið, nístandi sársaukinn, sem hefði framkallað háværa .........skræki ef ég hefði ekki tekið karlmennskuna á þetta, og látið frá mér tiltölulega hófstillt: AHHHH, AHHHH, eða AAAAAH.
Ég reyndi að finna betri stöðu, sem linaði þjáninguna, en hana var ekki að finna, þar sem ég sat þarna nánast á sjálfheldu. Sársaukinn gerði ekkert nema versna, þannig ég sá ekki aðra leið, til þess í rauninni að bjarga mér frá þessum skelfilegu kvölum, en að henda efri hluta mínum fram á við, ná í dyrakarminn og vippa mér útfyrir, næstum í einum rykk, þannig að ég felldi fD næstum, þar sem hún stóð, tilbúin að setjast inn.

Það tók mig nokkra stunda að safna sjálfum mér saman, þannig að jafnvægi væri náð. Gekk þá að dyrunum bílstjóramegin, rykkti þeim upp, settist inn, setti í gang, greip með hægri hönd um húninn á bílstjórahurðinni, ók af stað og hélt, þögull og æðrulaus, 12 km. leið, þar til frostið loks sleppti tökunum á hurðarlásnum.


*hér er um að ræða svokallaðan sinadrátt, fyrir þá sem ekki hafa áttað sig strax.




14 mars, 2012

Alhæfingar rétttrúnaðarins

Það vitum við vel, að þegar um er að ræða að halda fram málstað, er oftar en ekki gripið til alhæfinga. Þetta er afskaplega algengt meðal stjórnmálamanna, sem hika ekki við að tala um engan eða alla, þjóðina, eða mannkynið, ef það skyldi verða til að slá nokkrar keilur, litla stund.

Mér finnst málflutningur af þessu tagi með eindæmum hvimleiður. Látum vera ef talað væri um, t.d. alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem einn hóp, svo lengi sem aðrir landsmenn eru látnir í friði að þessu leyti.

Þeir eru nú ekki fáir sem telja sig búa yfir hinum eina sannleik í tilteknum málaflokkum. Þar hika menn aldeilis ekki við að flokka fólk undir sama hattinn, sem t.d. á fátt sameiginlegt nema kynið.  Svona flokkun er óskaplega auðveld: þú ert karl og þess vegna ertu svona, ef þú ert svartur þá ertu svona, ef þú ert Færeyingur þá ertu svona, og svo framvegis. Með flokkun af þessu tagi er verið að búa til svokallaðar stereotýpur, þannig, að ef eitthvert einkenni er til á einhverjum tilteknum hóp, þá á það við allan hópinn. Flokkun af þessu tagi felur í sér fordóma - fordómar finnst okkur flestum vera afar vondir.

Mér líkar illa að vera settur í flokk með ofbeldismönnum, nauðgurum eða svokölluðum karlrembusvínum, en ég á ekkert val um það - það er nefnilega ekki mitt að meta hvernig ég er.

Það er sama hvert litið er í samfélagi okkar, hvarvetna blasir "sannleikurinn" um hina ýmsu hópa við:

Börn eru...
Börn þurfa...
Prestar eru....
Alþingismenn eru....
Karlar eru......
Konur eru....
...það er sama hvar gripið er niður, allsstaðar blasir flokkunin við, oftar en ekki í formi einhvers rétttrúnaðar.

Nú ætla ég að fullyrða eftirfarandi:
Strákar fá ekki uppeldis- og námsumhverfi við hæfi, með þeim afleiðingum að þeir eru nú í miklum minnihluta í háskólanámi.
(Árið 2011 í háskólum á Íslandi: karlar 7681, konur: 12296 - heimild: Hagstofan)

Svo sest ég bara aftur í hægindastólinn (Lay-Z-Bojinn) minn og hugsa með mér:
"Let them deny it."

10 mars, 2012

Hótelabærinn Laugarás


Hótel Laugarás
Tilefni þessarar færslu er það, að í dag var athygli mín vakin á því, að enn eitt hótelið hefur tekið til starfa í Laugarási. Hér höfðum við um tíma Hótel Iðufell, síðan breyttist það í Hótel Hvítá, sem nú er sem sagt orðið að Hótel Laugarási.
Það er sjálfsagt ekki mitt að hafa skoðun á þessu - hana hef ég samt.  Því miður tel ég ekki að þessi hótel hafi orðið Laugarási til framdráttar á nokkurn hátt, en það er nú ekki margt sem ég get gert til að breyta því eða hafa áhrif á. Því kýs ég að hafa ekki fleiri orð um það, heldur vísa á þessa slóð, sem er opinber og óvéfengd. 
  
Hótel Iðufell

Hótel Hvítá











Ég leyfði mér að taka út og líma búta úr síðunni sem um er að ræða hér inn, fyrir þá sem ekki nenna að lesa hitt. 








Ef þið viljið ekki lesa þetta þá skuluð þið bara hætta hér. 
(Það er enginn eins blindur og sá sem vill ekki sjá)














Niðurstöður.
Ákærði hefur játað ræktun á 163 kannabisplöntum og að hafa tengt rafmagn fram hjá rafmagnstöflu. Ákærði hefur hins vegar neitað því að hafa gert það í þeim tilgangi að selja og dreifa efninu. Framburður ákærða annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi er í alla staði ótrúverðugur, bæði ástæða þess að ákærði hóf ræktunina svo og hvað hann hafi ætlað að gera við afraksturinn.
Ákæra dagsett 3. nóvember 2006.
  • Ákærði kvaðst fyrir lögreglu fyrst hafa keypt tvö fræ í Danmörku en kvað það vera vitleysu aðspurður fyrir dómi, það hafi átt að vera tvö hundruð stykki.
  • Ákærði undirritaði þó lögregluskýrslu án athugasemda þar sem fjöldi fræja var sérstaklega tilgreindur. Þá kvaðst ákærði fyrir dóminum ekki geta giskað á fjölda fræja sem hann hafi keypt á markaði í Danmörku, þau gætu hafa verið þrjú hundruð.
  • Ákærði kvaðst hafa byrjað ræktunina í ágúst 2005 og það þyrfti ekkert fyrir því að hafa, plantan bara yxi og yxi en hann hefði prufað þetta til að svala forvitni sinni um það hvernig slík ræktun gerðist.
  • Þá kvaðst ákærði hafa verið kominn í vandræði í desember þegar lögreglan lagði hald á plönturnar, hann hafi byrjað deginum áður að skera plönturnar niður og hafi ætlað að gera það smátt og smátt til að minnka magnið og grafa þær svo í jörðu.
  • Þá kvaðst ákærði hafa komið plöntum til með því að taka græðlinga og stungið þeim niður og úr hafi orðið ný planta. Allt hafi þetta þó verið sama ræktunin sem hófst í ágúst 2005.
  • Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér ræktun kannabisplantna neitt sérstaklega en kvaðst þó hafa fengið leiðbeiningar með fræjunum þegar hann keypti þau í upphafi svo og hafi hann kynnt sér það á „netinu“.
  • Ákærði kvaðst einnig fyrir dómi hafa stundað garðrækt til margra ára og sé vel kunnugt um það hvernig best sé að rækta og þurrka plöntur, meðal annars svo þær verði ekki bara að einni „drullu“.
  • Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa verið að þurrka skunkinn en aðspurður um það sérstaklega hvers vegna allt það magn sem var á borðum hefði ekki verið saman við aðra plöntuhluta, sem hann kvaðst hafa skorið niður til að þurrka og farga, kvað hann að forvitni sinni hefði líklega ekki fullkomlega verið svalað, hann hafi ætlað að sjá ferlið til enda.
  1. Allar þessar skýringar ákærða eru ótrúverðugar og þykir dóminum ekki mark takandi á þeim.
  2. Þá er með ólíkindum að til að svala forvitni um það hvernig kannabisplanta vaxi, skuli vera notaðar yfir 160 plöntur, af minna má nú læra.
  3. Þá er ákaflega ótrúverðug sú skýring ákærða að hann hafi ætlað að þurrka skunkinn til að sjá hvernig hann yrði en sá skunkur sem ákærði var búinn að dreifa til þerris vó samtals rúmlega eitt og hálft kíló.


Ákærði hélt því fram fyrir dóminum að hann hafi verið að þurrka efnið í þeim tilgangi að minnka umfang þess áður en hann græfi það niður en hann hafi ekki vitað um aðra leið til að losa sig við framleiðsluna.
Þá kvað ákærði jörð hafa verið frosna og hann því ekki getað losað sig við efnið, hann hafi verið að bíða eftir því að það voraði svo hann gæti grafið plönturnar í jörðu. Þykir þessi skýring ákærða afar ótrúverðug með vísan til þeirra hluta sem að ofan eru raktir. Þá var miklu magni af svokölluðum „skunk“, sem er efsti hluti plöntunnar, raðað í þunnu lagi á stórt kerlok og járnplötu til þurrkunar.
Þá var ekki að finna heila brú í þeim framburði ákærða þegar hann bar að forvitni hans hefði fyrir löngu verið svalað þegar lögreglan hafði afskipti af honum, síðar bar hann að forvitninni hefði ekki verið svalað þegar hann skar skunkana af og enn síðar bar hann að hann hefði ekki haft neinar áhyggjur af þessu fram að því að hann fór að klippa plönturnar niður en hann hafi líka verið búinn að gera sér grein fyrir því þá að þetta væri vaxið honum yfir höfuð og að þetta væri orðið stórhættulegt mál eins og ákærði orðaði það sjálfur.
Ákærði kvaðst ekki neyta fíkniefna sjálfur og hefur engar aðrar skýringar gefið en að þetta hafi allt saman verið gert fyrir forvitnissakir. Er sú skýring ákærða ekki trúverðug.  Þykir dóminum sannað, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa og með hliðsjón af því magni sem fannst hjá ákærða og meðhöndlun á því, að ákærði hafi ætlað afurð kannabisplantnanna til sölu og dreifingar og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Ákærði hefur ekki sætt refsingu áður svo vitað sé.
Við ákvörðun refsingar verður litið til greiðlegrar játningar og samvinnu ákærða við rannsókn málsins og fyrir dómi, magns, styrkleika efnisins og þess hvað fyrir ákærða vakti. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin að teknu tilliti til alls þess sem að ofan greinir, fangelsi í sjö mánuði. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald er ákærði hefur sætt, samtals fjóra daga.
Þar sem ákærða hefur ekki áður verið gerð refsing og með vísan til þess sem að ofan segir þykir rétt að fresta fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

D ó m s o r ð :
Ákærði, sæti fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Frá refsingunni dragast fjórir dagar að fullri dagatölu er ákærði sætti gæsluvarðhaldi.
Upptæk skulu gerð 163 kannabisplöntur, 1.346,03 grömm af marijúana, 4.312,88 grömm af kannabislaufum, 309.000 krónur, 2 stk. stórir gróðurhúsalampar, 20 stk. litlir gróðurhúsalampar, stór Philips gróðurhúsalampi, stór rafmagnstafla, lítil rafmagnstafla, loftræstikassi Vent-Axia, 5 stk. viftur, rafmagnsofn,.............................


06 mars, 2012

Sundrandi turnar með hár


Undanfarin 20+ ár höfum við setið uppi með samfélag sem ég vil nú bara eiginlega kalla dálítið sjúkt. Ég hugsa oft sem svo að ég hefði gjarnan vilja eyða drjúgum hluta ævi minnar við einhverjar aðrar aðstæður  en þessar. Allan þennan tíma hafa tveir einstaklingar nánast haldið þessu samfélagi í gíslingu þannig, að það er í raun stórmerkilegt. Þeim hefur tekist að koma sér svo rækilega fyrir í þjóðarsálinni, að það gerist nánast ekkert nema annar hvor eða báðir láti til sín taka, eða ekki, og ef ekki þá velta menn fyrir sér hvernig þeir bregðist við. Framganga þessara tveggja einstaklinga er með þeim hætti, að fólk er annað hvort sammála þeim og þykir mikið til þeirra koma, eða þá að það nánast leggur fullkomið hatur á þá. Það er bara annað hvort - ekkert þar á milli.  Aðrir eru einhvern veginn alltaf vegnir og mældir með hliðsjón af þeim félögum.

Þeir hafa, umfram aðra sundrað þessu samfélagi alltof lengi (að mínu mati - svo því sé haldið til haga).

Og, hana nú.

04 mars, 2012

Það kólnaði þegar á leið daginn

"Ég ætla að skjótast í myndaleiðangur eftir hádegið" tilkynnti ég í morgun, enda veðrið eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Það var blankalogn í Laugarási, sem er nú svo sem ekkert nýtt, sólin glampaði á bláum himni, hitinn reyndi að ákveða hvorum megin frostmarks hann ætti helst að halda sig. Upp úr hádeginu lét hann verða af því að skjótast aðeins uppfyrir núllið.


Ég ákvað að leita að nýju sjónarhorni á mitt klassíska myndefni - nenni nú ekkert að vera að keyra langar leiðir fyrr en ég met það svo að ég hafi endanlega tæmt þann fjársjóð sem nánasta umhverfi mitt er. Við fD héldum sem leið lá út yfir á, að vegi sem lliggur í sumarbústaðaþyrpinguna sem þarna er. Það var hlið með lás fyrir sem sá til þess að úr þessu varð ágæt hreyfing, en leiðin lá smám saman hærra í hálendið umhverfis Iðu, svo hátt að Laugarás blastir talsvert vel við linsunni. Þegar hér var komið var orðið nokkuð skýjað, en þó skaut sól geislum niður hér og þar.

Ég smellti og smellti og smellti... blés og blés og blés (það þurfti að ganga upp í móti).

Að lokinni myndatöku héldum við heim á leið og ég settist við að koma myndunum í gegnum Photomatix, sem ég nota við að búa til HDR. Þarna var klukkan að verða þrjú. Þá, eins og hendi væri veifað, fór að snjóa og hvasst hringrokið skall á glugga, nánast eins og gjörningaveður. Myndirnar, hver annarri fegurri hurfu inn í möppu og ég ákvað af rælni að kíkja á vefmiðlana.........."Ólafur ætlar........" Nei, nei, nei! - o, sei sei - jæja, ætlar hann að gera það, karlinn?

Þetta hefur verið svona venjulegur, íslenskur dagur: það virðist vera að að birta og vorið handan við hornið þegar náhvít hönd vetrarins leggur vonina í fjötra.

Myndirnar er að finna hér.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...