29 apríl, 2012

Plága í Laugarási?


Indæll er þessi vordagur - m.a. nýttur til að kíkja á öskrandi mávagerið sem stundar ákafa hreiðurgerð í litlum hólma í Hvítá skammt fyrir ofan brúna. Staðan var næstum eina og að koma í sjávarþorp, vantaði einhverjar bátkænur við bryggju og svokallaðan "sjávarilm". Þetta með "sjávarilminn" má auðveldlega leysa með sama hætti og gert er í mjólkurbæ Íslands þessa daga með "fjósilm" - útbúa einhverskonar ílát þar sem t.d. þekktir Grundfirðingar hér í uppsveitum, geta fundið ilminn, sem með óútskýranlegum hætti tengir þá við sjálfa sig.
Þetta varð mér ljóst fyrir nokkru í starfsmannaferð, en þá gerðist það sem hér má sjá, þegar rennt var niður að höfninni á Siglufirði.

Ég, og flestir Laugarásbúar líta á þessar gargandi sjávarsíðufugla, sem plágu, sem þörf er á að losna við.

Ég var auðvitað með EOSinn og smellti af hinu og þessu eins og gengur. Meðal þess sem ég vildi mynda, enn einusinni, var gamli vatnsveitukofinn, en á hann bjó ég til merki í gamla daga þegar ég fékk hlutastarf að sumri við að mála kofann (auðvitað fyrir klíkuskap, þar sem gamli unglingurinn sat þá einu sinni sem oftar í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss). Nú, hvað um það. Þar sem ég nálgaðist kofann, spratt skyndilega upp kanína, sem stökk út í buskann. Þar með virðist ljóst, að kanínuplága er yfirvofandi í Laugarási, eins og víða um land.

Ég er nú bjartsýnn þrátt fyrir þennan pláguuppgötvandi dag. Í Laugarás hafa komið plágur, gegnum árin, í ýmsum myndum. Engin þeirra hefur náð að valda slíkum skaða í Þorpinu í skóginum, að þar hafi lífið orðið leitt. Það sama trúi ég að verði niðurstaðan í baráttunni sem framundan er við þau börn náttúrunnar sem að ofan eru nefnd.

Vonandi ekki framtíðarsýn fyrir Laugarás

  1. Fleiri myndir frá deginum

28 apríl, 2012

Heyrðu, afi?

Ekki er ég nú hættur að auðga þessar síður með andríki mínu, en að undanförnu hafa aðstæður verið þannig að þetta áhugamál hefur lent lítillega til hliðar.
Það er auðvitað nóg af fólki vítt og breitt sem er tilbúið að tjá sig um menn og málefni, út frá ýmsum sjónarhornum og þessvegna hefur ekki myndast neitt afgerandi tómarúm í þjóðfélagsumræðunni þótt ég tæki ekki þátt um stund - sem er í mínum huga fremur dapurlegt.
Er það raunverulega svo, að mín rödd skipti engu?  Það virðist vera raunin. Huggun mín er sú, að í rauninni skiptir engu hvaða hundrað eða þúsund, eða jafnvel tugir þúsunda bloggara og samfélagsrýna hætta að tjá sig í vikur eða mánuði - það breytir engu stóru.  Þeir sem lesa skrif af þessu tagi eru vísast ekki að því til að láta þau hafa eða leyfa þeim að hafa áhrif á skoðanir sínar. Tilgangurinn er miklu fremur að herða sig í eigin skoðunum í baráttunni við hinar. Maður sér stöðugt fleiri merki þess, að fólk er hætt að lesa, eða kynna sér skoðanir meintra andstæðinga. "Fésbókarvinir" verða smám saman einsleitari skoðanabræður, daglegur rúntur um samskipta- og fjölmiðla felst æ meir í að skanna miðla og greinar sem maður er sammála og læka í gríð og erg, heimsóknir til skoðanalegra andstæðinga hafa þann tilgang einan að hneykslast með sjálfum sér, eða verða sér úti um fóður til að bölsótast yfir á eigin síðum.
Stundum finnst mér ástand þjóðfélagsumræðunni  einkennast stöðugt meir af öskurkeppni, með það að aðalmarkmiði að öskra andstæðinga í kútinn frekar en yfirvegaða samræðu sem tekur þann pól í hæðina, að úr þvi við þurfum að lifa saman í þessu landi, þá hljóti það að vera meginverkefni okkar að efla það, okkur, börnum okkar og barnabörnum til hagsbóta.

Ég hef ekki verið og er ekki barnanna bestur þegar um allt ofangreint er að ræða. Það er auðvitað bara vegna þess að ég tel mig vita betur. Ég tel að sýn mín á samfélagið sé sú sem kemur því best þegar til langs tíma er litið. Ég hef gerst sekur um að:
- opna ekki tiltekið dagblað árum saman, jafnvel þó það berist inn á heimilið nánast daglega.
- henda út "fésbókarvini" á grundvelli vanstilltra umræðuaðferða, sem fólu í sér skoðanir sem ég gat með engu móti samþykkt. Reyndar bara einum.
- ég hef lokað á "fésbókarvini" sem gera fátt annað en spila einhverja leiki, eða læka einhver fyrirtæki í þeirri von að fá verðlaunin.
- ég hef lækað, ítrekað, greinar sem tjá samskonar skoðanir og ég hef.
- ég hef hneykslast með sjálfum mér og í athugasemdum á mönnum og málefnum sem falla ekki að minni sýn á lífið og tilveruna.

Ég sé orðið æ meir fyrir mér hópa fólks sem standa gegn hver öðrum öskrandi af lífs og sál kröftum. Hávaðinn er orðinn svo mikill að enginn heyrir í neinum. Menn eru löngu hættir að leiða hugann að því að ef til vill sé rétt að setjast niður í rólegheitum og ræða sig niður á leið út úr þessu umhverfi.

Við getum öll samþykkt að lífið eigi að halda áfram.

ps. ég biðst velvirðingar á að vera búinn að taka sögnina "að læka", athugasemdalaust inn í málfar mitt. Verður bara ekki að líta á það sem lítið skref af minni hálfu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.



15 apríl, 2012

Sálin er ægileg eyðimörk


Þau tíðindi hafa gerst að hrafnapar er búið að byggja sér laup hér í Laugarási. Mikil og vönduð smíð, eins og myndin ber með sér.
.........
Gamli unglingurinn heldur fram að velta fyrir sér forsetaframbjóðendum -  horfir yfirleitt bara á eina myndanna. Ég hef nú bent honum á hinar líka, þar sem það sé mikilvægt að kynna sér fleiri möguleika.
Hann leit stuttlega á myndina af karlframbjóðanda nokkrum, sem ég leyfi lesendum bara að giska á, og sagði að, jú, hann tæki sig svo sem ágætlega út á mynd, en sálin væri óttaleg eyðimörk.  Þessi yfirlýsing kom mér talsvert á óvart, enda sá gamli ekki vanur að fella neikvæða dóma yfir fólki, öllu jöfnu. Þá kom skýringin:

Þinn líkami er fagur sem laufguð björk 
en sálin er ægileg eyðimörk.

Þetta mun vera eftir Davíð Stefánsson

Mig grunar að sá gamli hafi téð álit á frambjóðandanum, þótt hann gripi til þess að vísa í Davíð.

Meira úr smiðju Þórðar Kárasonar

Halla og Eyvindur eru aðalpersónurnar
í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, 

Fjalla-Eyvindur: Leikrit í fjórum þáttum.
Sænski kvikmyndaleikstjórinn Victor Sjöström
(1879-1960) gerði kvikmynd eftir leikriti
Jóhanns árið 1918 og heitir hún á sænsku
 
Berg-Ejvind och hans hustru.
Þar fór Sjöström sjálfur með hlutverk Eyvindar.
Það kann vel að vera að einhversstaðar sé haldið saman kveðskap Þórðar Kárasonar frá Litla Fljóti í Biskupstungum. Það virðist þó ekki vera í því formi að hægt sé að finna í þessum rafræna miðli. Í gær skellti ég hér inn sálmi eftir Þórð, nú bæti ég aðeins við af blöðum þeim sem ég fékk úr fórum gamla unglingsins:

Vísur úr eftirsafni 1942

Drjúgum jóar teygja tær
traust með hófa blökin.
Nokkrir menn með tíkur tvær
tóku að hirða rökin.

Á Hveravöllum

Hefst upp þungur hugurinn
hrindir drunga gráum.
Verðum ungir í annað sinn
ef við sungið fáum.

Skyldi þetta ganga greitt
þó gott sé í meðlætinu.
Vilja rommið aðeins eitt
en ekki neitt af hinu.

Veisla er næg sem vera ber
við skulum hafa gaman
einu sinni á ári hér
er við komum saman.

Hér er maður hírgaður
húsa kostir góðir,
ólíkt því er Eyvindur
einn var hér um slóðir.

Á beinahólnum

Minjar treinast, maður sér
og mikinn gerði skaða,
þegar beinin báru hér
bræður Reynisstaða.

Þöglum huga ég hólinn lít
hér í veldi fanna.
Bera vitni beinin hvít
byljum öræfanna.

Veður grimmd og hörku hjarn
höfðu völd og ráðin,
þegar Einar, aðeins barn,
ævi sleit þar þráðinn.

...................

Alltaf hressir huga minn
heiða blærinn tæri.
Flýti ég  mér í faðminn þinn
fjallahringur kæri.

Fyrst veröldin slíkt veitir hnoss
oss vermir þessi skál.
Við skulum bara skemmta oss,
já, skemmta af lífi og sál.

Veginn ríðum við í kveld
varla kvíðum trega.
Okkur líður, að ég held,
alveg prýðilega.

Ekki verða kjörin köld
það kætin yljar geði.
Syngdu þessa alveg öld
út, og haltu gleði.

Við lestur bókar

Finn ég streyma andans yl
út frá þessum brunni.
Ég hef fengið, af og til,
ást á kerlingunni.



14 apríl, 2012

Til huggunar ógiftum bændum

Í fórum gamla unglingsins fann ég nokkur blöð með vísum eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti. 
Þrátt fyrir ítrekað gúgl, finnst sálmur þessi ekki:

Einn lítill sálmur til huggunar nokkrum ógiftum bændum.
(Mig grunar hverjir sumir þeirra, sem hér ert ort um, eru, en þætti afskaplega gott að fá um þetta upplýsingar, því ég veit að þær eru til)

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því
ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð en öðrum kær.

Jón einn tel ég mektarmann
marga vegi ryður hann
aura því hann eignast sand
en enga hann fær í hjónaband.
Undarlegar eru stúlkur oft í bland.

Drengja hefur Siggi sveit
sá kann bæði margt og veit,
kvonbænir þó kennt ei fær
kunnað aldrei hefur þær
ellegar þá engin vill hann ógift mær.

Lindi eignast kindur kann
konu bara vantar hann.
Þær vilja honum ekki leggja lið
þótt liðugt dansi hann þær við.
Öfugt verður einhvernveginn átakið.

Gvendur var að gá að þeim
og gera sér ferð til þeirra heim,
en þær litu ekki við,
allavega gengu á snið
og svartan skugga settu yfir sjáaldrið.

Einar, bæði í hljóði og hátt,
huga snýr til meyja þrátt,
en þær brúka svona sið
að setja upp kamb og líta ei við.
Kynlegt er hvað kalt er stundum kvenfólkið.

Þraut er fyrir Þorsteins skinn
þrátt að steita piparinn
og bágt er meðan fullt er fjör
að fljóðin séu á blíðu spör.
Kannski hann giftist áður en hann kemst í kör.

Konu vantar Eirík enn
ætli það geti lagast senn
þó að það gangi þetta seint?
En þeir vita sem hafa reynt
að það er vont að eiga ekki eina, alveg hreint.

Dóri fær hjá drengjum lof
en drósa skorti hylli um of.
Veit ég ei hvað valda kann,
þær vilja ei slíkan dánumann.
Hann einhvern veginn aldrei á þeim lagið fann.

Páll er dauður æðum úr
ungar þó hann líti frúr.
Eitt sinn þó hann ungur var
eða það héldu meyjarnar,
en allt var sama, ekki nokkurn ávöxt bar.

Þyljið, piltar, þennan söng
þegar nótt er myrk og löng
og ykkur verður lífið leitt
og lundin bæði körg og þreytt.
Það er betra að eiga eina, en ekki neitt.

Kosningaáróður og hrákasmíði

Í morgun tók ég á mig rögg og bjó til hafragraut handa gamla unglingnum, sem var nú reyndar farinn að kólna þegar hann kom sér framúr.
Börnin hans, elskuleg, eru farin að tjá skoðanir sínar á hinum ýmsu frambjóðendum til embættis forseta Íslands með því að prenta út myndir af, væntanlega, uppáhalds frambjóðendum sínum og stilla upp á áberandi stað.
Sá gamli hefur nú ekki nýtt kosningarétt sinn í afar mörg ár, þannig að ég tel að þarna sé frekar um að ræða að Hveratúnsbörnin séu að ögra hvert öðru, því varla telja þau að húsráðandinn fáist á kjörstað í lok júní.
Hann talar mikið um hve vel honum líst á "þessa konu".

Vísan sem rann upp úr gamla unglingnum í morgun, eftir að hann hafði rennt hafragrautnum niður ("Þetta er nú bara góður grautur hjá þér. Þú ert bara húslegur, Það sópar af þér í eldhúsinu") reynist við gúglun vera eftir Dýrólínu Jónsdóttur (1877-1939)

Meyjan keypti meðalið
sem mýkti fegurð líkamans.
Hún var að reyna að hressa við
hrákasmíði skaparans.



Tildrög: Stúlka nokkur, sem Dýrólína kannaðist við keypti, fegrunarkrem sem í þann tíð gekk undir nafninu 'fegrunarmeðal'. Þá orti Dýrólína vísu þessa.

08 apríl, 2012

Það eru sumir í álnum.

Þennan fékk ég. Spurning um hve vel hann á við. Vel, ef til vill.
Mér þætti þó ekki slæmt ef þessi speki gengi eftir þeim gagnvart þeim sem urðu sér úti um álnir með slíkum hætti, að ekki telst falla innan ramma laga og réttar.

Unginn minn, málshátturinn minn og páskaliljurnar mínar.
Varla falla þau undir álnir.

07 apríl, 2012

Ástand í áætlunarflugi


"Við förum ekki úr þessari flugvél fyrr en ég er búin að finna veskið mitt!"

Hér var fD að sjálfsögðu að lýsa yfir aðgerðaáætlun í framhaldi þess, að í upphafi flugs frá Keflavík til Kaupmannahafnar fyrir nokkru, missti hún, með einhverjum hætti sjónar á peningaveskinu sínu, sem var sannarlega bagalegt, eins og hver maður getur ímyndað sér. 
Flugtíminn milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar var 2 klukkustundir og 40 mínútur. Á leiðinni setti ég upp heyrnartól (sem aldrei þessu vant höfðu ekki gleymst heima), valdi mér hasarmynd upp á 90 mínútur. Myndina setti ég af stað um 10 mínútum eftir flugtak og henni lauk í þann mund er flugvélin lenti í Kastrup, tveim og hálfum tíma seinna. Þetta þýðir, að klukkutími af ferðinni fór í annað en að horfa á myndina, auðvitað þurfti að panta eitthvað að snæða og slökkva þorstann, eins og gengur og gerist, í um það bil 20 mínútur. Þar með er hægt að reiknað það út að 40 mínútur hafi farið í annað. Þetta annað fólst aðallega í að taka þátt í endurteknum tilraunum fD til að finna veskið sitt: í handtöskunni sinni, í fríhafnarpokanum, í myndavélatöskunni minni, og fríhafnarpokanum uppi í hillu, í jakkanum sínum og í jakkanum mínum, undir sætinu fyrir framan sig, undir sætinu fyrir framan mig, undir sætinu fyrir framan undarlega náunganum í gluggasætinu, sem eyddi tímanum í að stafla pillum í allskyns regluleg mynstur. Og svo aftur, og aftur, með tilheyrandi pælingum um hvar veskið gæti nú verið, eða ekki verið, þannig að ég var auðvitað í sífellu að taka af mér heyrnartólin til að fylgjast með vangaveltum um mögulega staði, sem kannski var eins gott.

Þegar flugvélin nálgaðist Kastrup var bara eitt öruggt: Kvistholtshjónin færu ekki frá borði án veskis fD.  
Það var útbúin sérstök flétta til að undarlegi náunginn í gluggasætinu myndi standa upp og fara á undan okkur. Því næst myndum við fara aftur inn í sætin okkar og bíða af okkur brottför annarra farþega. Undarlegi náunginn í gluggasætinu reyndist meira en tilbúinn að fara fram fyrir okkur og ég gerði mig kláran í að smeygja mér aftur inn í sætið mitt. Það var þá sem fD tók sig til, þar sem hún stóð milli sætaraðanna og beygði sig niður, þannig að hún gat teygt sig undir sætið sem hún hafði setið í. Þaðan kom hún með veskið týnda. Hún hafði ekki hátt um fundinn, ég sá bara veskið og hætti við að smeygja mér inn í sætið mitt. Við fórum síðan út í réttri röð eins og maður á að gera þegar maður gengur út úr flugvél.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...