20 júlí, 2012

Æ, þú ferð nú ekki að lesa þetta.......

Það helltist yfir mig (og væntanlega aðra í svipaðri stöðu) fyrir skömmu, sama vonbrigðatilfinningin og ég hef upplifað ítrekað s.l. fjögur ár. Þetta var ástæðan þessu sinni:

Sakar ríkisstjórnina um að stunda blekkingarleik með fjárlögin

Það er á einhvern undarlegan hátt innbyggt í mig að vonast til þess að samfélaginu takist að rétta úr kútnum og að það muni nást tiltölulega ásættanleg lending eftir allt sem á undan er gengið. Þegar við bætist að ítrekað koma fram vísbendingar um að hér sé allt á réttri leið og að hér hafi jafnvel tekist betur til en víða annarsstaðar. Auðvitað er sá möguleiki fyrir hendi að það sé bara alrangt. Þetta eru bara þær frásagnir sem maður heyrir og les, yfirleitt með uppruna erlendis.

Það hvarflar nú ekki að mér, hvorki nú né fyrr, að halda því fram að hér hafi allt gengið stórkostlega frá því núverandi ríkisstjórn tók við "völdum". Fyrir því eru margar ástæður, en þar á meðal er ekki einlægur vilji stjórnarinnar til að takast á við það fordæmalausa verkefni sem við blasti þannig, að skaðinn sem samfélagið varð fyrir, verði sem minnstur til lengri tíma litið. 

Það hefur sannarlega ekki skort á  vægðarlausa og oft á tíðum einstaklega ósanngjarna gagnrýni úr herbúðum (jú, þetta virðist vera n.k. stríð um framtíð landsins) þeirra sem ekki tóku formlega við stjórnartaumunum eftir 2008 (þó svo liðsmenn þeirra um allt stjórnkerfið hafi líklegast veitt öflugt liðsinni) og fylgismanna þeirra, misspakra.

Já, ég velti því fyrir mér hvort staða mála í þessu landi væri með öðrum hætti nú, ef allir aðilar sem þarna koma að borði hefðu einsett sér að stefna allir að einu marki: að koma öllum grundvallarþáttum samfélagsins í var, áður en hafist væri handa við að deila um önnur mál og veigaminni, eins og t.d. útkomuna úr næstu þingkosningum. 

Hvað væri öðruvísi ef leiðtogar stjórnarandstöðunnar og fylgifiskar þeirra hefðu nú viðurkennt að sumt af því sem stjórnin hefur gert væri nú bara hreint ekki svo vitlaust? 
Mig grunar að það hefði getað breytt ýmsu. 

Hvað væri öðruvísi ef allir aðilar hefðu látið pælingar sínar eða væntingar um völd, lönd og leið og þannig vaxið hjá tilteknum hluta kjósenda? 
Mig grunar að ýmislegt væri öðruvísi.

Hvað væri öðruvísi ef stjórninni og "fylgismönnum" hennar hefði nú auðnast að vinna saman að risavöxnu verkefninu sem við blasti, í stað þess að eyða dýrmætum tíma í karp um mál sem oftast höfðu ekkert með uppbyggingu samfélagsins að gera - miklu fremur völd? 
Margt væri með öðrum hætti.

Hvað ef örlað hefði á auðmýkt eða jafnvel beiðni um fyrirgefningu þjóðarinnar meðal þeirra stjórnmálaafla sem slepptu skepnunni lausri á sínum tíma? 
Ég hefði, í það minnsta, litið þá öðrum augum, þ.m.t. að þeir byggju yfir snefli af trúverðugleika.




Framganga þeirra sem ættu að veita eðlilegt aðhald í stjórnaraðstöðu hefur verið með þeim hætti að varla getur talist boðlegt í samhengi hlutanna. Þeir er orðnir óþægilega fyrirsjáanlegir í öllum sínum "málflutningi": þeir eru í hlutverki kverúlantanna, besserwisseranna og mannkynslausnaranna; allt hlutverk sem höfða til þess hluta þjóðarinnar sem er tilbúinn að fylgja hinum sterka leiðtoga - láta teyma sig í óvissuför vegna blindrar trúar sinnar á eitthvað sem er í rauninni annað en það þykist vera. Ekki það skjól eða sú vernd sem það þykist vera.

19 júlí, 2012

Sérstök gleraugnakímnigáfa

Ég veit svo sannarlega ekki hvort það er við hæfi að fjalla um það sem hér fer á eftir, á þessum vettvangi, en þar sem lesendahópurinn er ekki stór, hef ég ákveðið að láta slag standa, og þar með að taka áhættuna af  hugsanlegum eftirköstum.

Það er á vitorði margra sem þekkja til Kvisthyltinga, að höfundur deilir að mörgu leyti ekki kímnigáfu með, í það minnsta hluta þeirra. Þarna telst með þetta stórundarlega fyrirbæri, sem felst í því að setja upp gleraugu og ráða sér þar með varla fyrir hlátri. Mig grunar að þetta sé til komið með þeim hætti að fD hafi flutt það til barnanna í frumbernsku.
Hvað um það þá hefur það fylgt þeim alla tíð, meira að segja svo, að ekki má minnast á það að taka af þeim mynd öðruvísi en þar þurfi gleraugu að koma við sögu.
Þá er mikið gert til að bera þessa gleraugnagleði til nýjustu kynslóðarinnar.

Fyrir skömmu hittust allir Kvisthyltingar í einu, en það gerðist síðast í desember árið 2007. Af því tilefni þótti við hæfi að mynda fólk í bak og fyrir, þar með voru Kvistholtsbörnin mynduð sérstaklega. Með gleraugum (sem þau tíndu saman með aðstoð móðurinnar) og án.

Hér er ein skárri gleraugnamyndanna


16 júlí, 2012

Gamlir kvartetttaktar

Fyrir allmörgum árum sungu 4 Laugaráspiltar, þeir Egill Árni Pálsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Þorvaldur Skúli Pálsson og Þröstur Freyr Gylfason, saman í kvartett þeim er Laugaráskvartettinn kallaðist. Þar kom að leiðir skildi þar sem hugar leituðu í ýmsar áttir, jafnvel vítt um veröld. Það var svo ekki fyrr en við skírn hjá Þorvaldi Skúla, þann 14. júlí að þeir hittust allir fjórir, og þá var ekki að sökum að spyrja, þeir renndu sér í gegnum nokkur lög, gestum til mikillar ánægju, enda flutningurinn líflegur og afslappaður.

Hér er upptaka af einu laganna, Java Jive.



03 júlí, 2012

Ég tilheyri jákvæða fólkinu

Í morgun var mér tjáð á FB, að ég tiheyri þeim hópi fólks sem kallast, meðal tiltekins hóps fólks, "jákvæða fólkið"  
"Efast um að ég eigi eftir að fjalla mikið um kauða:) - nema þá helst til að stríða ykkur jákvæða fólkinu aðeins:)"
Mér þykir mikið til um að vera flokkaður í svo ljúfan hóp, en er jafnframt ekkert hissa, svo einstaklega jákvæður sem ég nú er, sem er í rauninni stórmerkilegt þar sem ég hef tilheyrt minnihlutahópum í flestum skilningi svo lengi sem ég man eftir mér. 
Kannski kemur jákvæðnin einmitt til af því að tilheyra minnihluta, hafa skoðanir sem ganga gegn því sem meirihlutanum finnst. Ef ég hefði, í hvert sinn sem ég hef tapað fyrir meirihluta, lagst í þunglyndi, væri ég líklega í vondum málum í dag. Ég hef hinsvegar nýtti töpin til að sannfæra sjálfan mig um, að sá dagur komi, að ég tilheyri meirihluta sem ég er sáttur við. Með því að stefna stöðugt að því markmiði, getur það ekki framkallað aðra tilfinningu en jákvæðni. 

Það er mér fjarlæg hugsun að ganga í lið með meirihlutum - þeir hafa ekkert það til að bera sem ögrar eða ýtir undir - þar fljóta menn með og verða sinnulausir og gagnrýnislausir þrælar leiðtoga sinna; apa eftir þeim orð og gerðir. Líf þeirra verður hugmynda og hugsjónasnautt. Þarna er fólkið sem segist vera ópólitískt, þeir sem eru orðnir svo dofnir í blindri trú sinni á sterka leiðtoga, að þeir kunna ekki að fjalla um skoðanir sínar, sem kannski eru engar. 

Nei, ég vil ekki tilheyra meirihluta þar sem ég gæti orðið skoðanalaus og sinnulaus og lifði þar með, á margan hátt, tilgangslausu lífi. Ég vil  frekar tilheyra "jákvæða fólkinu" þó það kosti sitt, þar sem það er  dæmt til að vera alltaf í minnihluta, einmitt vegna þess að þar hefur fólk svo sterkar skoðanir að það er síður tilbúið til að ganga þann veg sem einhverjir aðrir leggja. 

Það getur haft ýmislegt í för með sér að tilheyra þessum góða hópi. Til dæmis fela sterkar skoðanir í sér að maður hafnar ýmsu eða neitar sér um ýmislegt á grundvelli þeirra. Oftast er það bara jákvætt og uppbyggilegt, eins og það að sleppa því að lesa tiltekið dagblað. Sterkar skoðanir geta haft í för með sér að aðrir líta á mann sem sérvitring, en það er í flestum tilvikum fremur jákvætt en hitt að bera slíkan stimpil.

Lifi skoðanir, lifi jákvæðnin og lífsgleðin.

01 júlí, 2012

Glæsilegur sigur vinstri aflanna

Ég er á því, að með því sem gerðist í gær, hafi okkur, sem teljum okkur til vinstri arms stjórnmála, tekist að framkvæma einhverja stórkostlegustu blekkingu stjórnmálasögunnar. Við höfum, undir forystu forseta lýðveldisins, komið málum svo fyrir, að þeir sem síst skyldi, hafa nú tryggt forsetanum, og þar með vinstri öflunum í landinu, öruggt brautargengi næstu 4 ár og lengur, ef málin þróast eins og að er stefnt.

Það var fljótlega eftir hrun, að hugmyndir komu fram um að fara þessa leið til að bjarga landinu úr klóm frjálshyggjunnar og annarra afla sem setja eigin hagsmuni ofar hagsmunum heildarinnar. Með markvissum hætti var síðan ýjað að hinu og þessu og samfélagsmiðlarnir nýttir til hins ítrasta til að æsa upp stuðning við forsetann í röðum þeirra sem áður hötuðu hann eins og pestina.

Ég verð að segja það, að leikhæfileikar forsetans, í þann tíma sem þetta hefur staðið yfir, eru hreint magnþrungnir, en nú má reikna með, að vinna hans næstu mánuði fari í að sannfæra þá sem mynduðu kjarnann í stuðningssveit hans um ágæti samfélagslegrar hugsunar og mikilvægi þess að vinstri áherslur skjóti rótum í íslensku samfélagi til frambúðar. Ég er viss um að forsetanum verður ekki skotaskuld úr því, því það sem þessum kjarna (einhversstaðar sá ég það haft eftir álitsgjafa, að þar væri um að ræða lítið menntaða, unga karlmenn á landsbyggðinni) finnst verst af öllu er að sætta sig við að þeir hafi ef til vill tekið skakkan pól í hæðina.

Næstu mánuðir verða harla áhugaverðir.


Ég leyfi mér að greina frá þessu hér í kjölfar þess að sr. Baldur hefur  þegar fjallað um það.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...