24 febrúar, 2013

Aflgjafi fólksins

Ég hef verið hálf orkulaus undanfarin ár.
Mér varð ástæða þess ljós í gær.
Ég komst líka að því hvað það er sem hafði valdið því, að smám saman átti ég erfiðara með ýmislegt í daglegu lífi mínu: lélegri við að fara úr með ruslið, latari við að fara í kirkju, hættur í kórnum, tæmdi ekki gamla hreiðrið úr fuglahúsinu, hætti að nenna að blogga af eins miklum krafti og áður...... Svo má lengi telja upp þætti í lífi mínu sem ég hef smám saman hætt að sinna af sama krafti og áður. Mér datt aldrei í hug að leita skýringarinnar á ástandinu, enda hafði ég ekki áttað mig á að það væri fyrir hendi. Það virðist hafa sigið yfir mig, fyrst eins og gagnsæ hula sem smám  saman varð þykkari, þar til ég var nánast kominn á hættusvæði í ýmsum skilningi, þar sem hvaeiðana gat gerst án þess ég hefði dug í mér til að takast á við það.

Þetta hefur komið jafn mikið aftan að mér og dvínandi sjónin. Ég las alltaf talsvert mikið áður fyrr, en upp úr fertugu fór að draga úr lesáhuganum, að það var ekki fyrr en eftir um fimm ár dvínandi lestraráhuga, að ég uppgötvaði að ég þyrfti að fá mér gleraugu.

Það er eins með þetta sem ég uppgötvaði í gær.

Sem oft áður lagði ég leið mína á Hjúkrunarheimilið Lund til að hitta aldraðan föður, sem vill helst aldrei vara sammála síðasta ræðumanni, jafnvel þó hann sé það. Þarna var marg rætt, og í tilefni þessarar miklu helgar pólitískrar pælinga og stefnumörkunar, var pólitíkin rædd eftir því sem tilefni gafst til. Gamli maðurinn var framsóknarmaður og þar af leiðandi áskifandi að Tímanum. Kaupfélag Árnesinga sá heimilinu fyrir helst öllum vörum. Höfn kom ég ekki inn í á æskuárum nema ef til vill fyrir einhver hrapalleg mistök.
Mig grunar, og hef fengið þann grun nokkuð vel staðfestan eftir ýmsum leiðum, að síðan Steingrímur hætti sem formaður, hefur hugsjónin sem þessi stjórnmálaflokkur byggði tilveru sína á, látið á sjá, ekki síst fyrir það að mengun hugarfarsins í áralöngu samstarfi við helsta andstæðinginn og orðrómur um að forystumennirnir væru gagnsýrðir af spillingu, að sá gamli hafi orðið afhuga þessum flokki, en það hefur hann auðvitað aldrei viðurkennt. Þvert á móti er hann ávallt tilbúinn að verja hugsjón samvinnuhreyfingarinnar, hugsjón samvinnu og bræðralags, sem virðist nú ekki vera lengur til og margir fyrrum forystumenn gengnir í björg þar sem þeir leggja stund á andstæðu samvinnu og bræðralags.
Meðal þess sem kom til umræðu á Lundi í gær var dagblaðalestur. Ég lýsti skoðunum mínum á blaðsneplinum sem ég hef ekki einusinni lesið forsíðuna á, frá því fyrrum seðlabankastjóri tók við ritstjórninni. Þá glotti sá gamli og sagði: "Mogginn er aflgjafi fólksins." Við það rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað var þarna komin ástæðan fyrir magnleysi mínu og sinnuleysi undanfarin ár.

Megi ég halda áfram að vera latur að fara út með ruslið.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...