26 mars, 2013

Laugarás 1883,1923 eða 1941 og áfram

Ég hef stundum velt því fyrir mér að búa til vefsíðu sem héldi utan um sögu og mannlíf í Laugarási frá því hér varð til einhver byggð að ráði í byrjun 5. áratugar síðustu aldar. Hér hafði verið búskapur, sem héraðslæknirinn tók við þegar stofnað var til Grímsneshéraðs með aðsetri læknisins hér. Grímsneshérað hlaut síðar nafnið Laugaráslæknishérað.
Ég hef ekki komið þessu í verk enn, enda varla kominn á þann aldur enn að vera farinn að velta mér óhóflega upp út því liðna - það er enn full ástæða fyrir mig til að horfa fram á veg fremur en til baka, þó svo ég haldi því auðvitað statt og stöðugt fram, gegn straumnum að mér finnst stundum, að án fortíðarinnar værum við nú eiginlega bara ekki til.

Árið 1975 ákvað Búnaðarsamband Suðurlands að ráðast í það stórvirki, í tilefni af 70 ára afmælinu, 1978, að láta rita sögu sunnlenskra byggða. Það vara skipuð 6 manna nefnd til að gera tillögur að því hvernig staðið skyldi að verkinu. Fyrir Árnessýslu sátu í nefndinni þeir dr. Haraldur Matthíasson, menntaskólakennari á Laugarvatni og Jón Guðmundsson, bóndi á Fjalli á Skeiðum. Nefndin lagði til það sem fram kemur hér:
Úr formála Sunnlenskar byggðir I Tungur, Hreppar, Skeið - 1980
Búnaðarfélag Biskupstungna myndaði starfshóp til að vinna þetta verk að því er varðaði Biskupstungur og Arnór Karlsson var skipaður formaður hópsins. Að efnisöflun og ritun stóðu, auk Arnórs þeir Einar J. Helgason í Holtakotum, Sighvatur Arnórsson í Miðhúsum, Guðmundur Óli Ólafsson í Skálholti, Sigurður T. Jónsson frá Úthlíð, Guðmundur Ingimarsson í Vegatungu og Eiríkur Sæland á Espiflöt.  Hér er inngangur Arnórs þar sem hann lýsir því hvernig staðið var að þessu:
Sunnlenskar byggðir I 
Tungur, Hreppar, Skeið - 1980 bls.10

Arnór sá um að taka saman upplýsingar sem vörðuðu Laugarás, eins og þær voru fram undir 1980. Síðar kom til endurútgáfa á verkinu, en þá var ég kominn til baka úr útlegð minni vegna náms og sestur að með fjölskyldunni í Reykholti. Við komumst á spjöld þessarar sögu í endurútgáfunni. Við vorum í Reykholti þar til leiðin lá aftur í Laugarás 1984.

Sunnlenskar byggðir I - Tungur, Hreppar, Skeið, fyrsta útgáfa 1980, er til á þessu heimili og gengur undir nafninu "Glæpamannatal" dags daglega. Í henni er að finna afskaplega góðar upplýsingar um þróun byggðar í Laugarási og ábúendur/íbúa þar, fram yfir 1980. Árið 2018 verður Búnaðarsamband Suðurlands 110 ára. Mér finnst það harla góð hugmynd að sambandið uppfæri þessar mikilvægu heimildir í tilefni af því. Ef ekki þá ætti, að mínu mati, Bláskógabyggð að skella sér í þetta verkefni fyrir sitt leyti. Alltaf góðar hugmyndir hér.

Það sem mig langar hinsvegar að gera, með mögulegum vef um Laugarás, er að taka saman upplýsingar um byggðina og mannlífið í gegnum áratugina 7 sem eru nú liðnir frá því hér fóru að byggjast upp garðyrkjubýli. Þá var hér fyrir héraðslæknirinn Ólafur H. Einarsson ásamt konunni sinni Sigurlaugu Einarsdóttur og börnum. 
Árið 1941 var fyrsta garðyrkjubýlið stofnað í Laugarási. Það var Daninn J.B. Lemming sem það gerði og þá kallaðist býlið Lemmingsland, en 1946 fluttu foreldrar mínir þangað og gáfu því nafnið Hveratún. 1942 var byggt sumarhús þar sem nú er Lindarbrekka, 1943 var stofnað garðyrkjubýlið Gróska, en mun ekki hafa verið í stöðugum rekstri fyrr en á 6. áratugnum og varð þá Sólveigarstaðir.

Það hefur margt gerst hér í Laugarási síðan þá og það væri gaman að kynna sér þá sögu alla, enda hef ég verið hluti hennar í "hartnær" 60 ár.
Þetta verk væri auðveldara ef allir núverandi og fyrrverandi Laugarásbúar myndu grafa í sögu sinni og fjölskyldunnar hér. Skrá niður allt sem máli skipti og skreyttu það með skemmtilegum sögum af mönnum og málefnum, auk myndefnis.

Til þess þurfa þeir að hafa lesið það sem hér er skráð, en það er víst ekki mjög líklegt.

Framhaldið ræðst að þróun mála. 

12 mars, 2013

Ég lýsi áhyggjum mínum

Ég lýsti fyrir nokkru þeirri skoðun minni hér í þessum tiltölulega áhrifalitla miðli mínum, að það væri sannarlega vel athugandi að breyta sláturhúsinu hér í Laugarási í dvalar- og hjúkrunarheimili. Viðbrögðin eru kannski að gerjast ennþá, en þau hafa nú ekki verið neitt yfirþyrmandi, eftir því sem ég veit best.
Þessa skoðun mína lét ég ekki í ljós að ástæðulausu:
Í fyrsta lagi er hér hin ágætasta heilsugæslustöð sem má alveg við því að eflast enn meir og skapa enn fleiri störf.
Í öðru lagi er varla hægt að ímynda sér fegurri stað fyrir starfsemi af þessu tagi með útsýni yfir Hvítá og glæsilega hengibrúna, svo ekki sé nú minnst á Vörðufell.
Í þriðja lagi vegna þess að það styttist í að stór hópur fólks hér í uppsveitum þurfi að fara að huga að sólarlagsárunum.
Í fjórða lagi stefnir í að stór hluti þessa fólks þurfi ekki að flytjast nema nokkur hundruð metra þegar þar að kemur. Þannig er því nefnilega háttað, að íbúar hér í Laugarási gera orðið fátt nema eldast og hafa flestir misst getuna til að skapa nýtt líf með beinum hætti (utan auðvitað að sá fyrir grænmeti og blómum). Líf þeirra snýst æ meir um að njóta friðsældarinnar sem fylgir vaxandi aldri. Vissulega gefst þeim færi, flestum, á að umgangast ungviðið sem börnin þeirra færa þeim í sívaxandi mæli, en svo er hinsvegar í pottinn búið að þessi börn með barnabörnin virðast ekki sjá framtíð sína fyrir hugskotssjónum hér, væntanlega vegna þess að ekki er á vísan að róa með örugga atvinnu sem gefur af sér viðunandi laun - í það minnsta er ástæðan örugglega ekki eitthvert óhrjálegt þorpskríli, því slíku er hreint ekki til að dreifa, þvert á móti er vandfundinn hlýlegri og vinalegri staður en "Þorpið í skóginum".

Lausleg skoðun mín, sem stenst vonandi skoðun, hefur leitt í ljós að yngsta barnið í Laugarási er að verða 13 ára. Ég hef látið hugann reika á bæina sem hér er að finna (ef vel er að gáð) og sé fyrir mér að stærstum hluta íbúa á sextugs eða sjötugs aldri, jafnvel þaðan af eldri. Eftir 10-20 ár verður allt þetta fólk komið á dvalarheimilisaldur, ef því endist aldur.

Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessari íbúaþróun og ég get haft mínar skoðanir á því. Þar vil ég auðvitað t.d. nefna, að hér er ekki grunn- eða leikskóli, sem er ekki augljós skýring þar sem samskonar íbúaþróun virðist eiga sér stað í Laugardalnum. Þá dettur mér í hug ástæða, sem ég hef nefnt áður og lýtur að meðvitaðri eða ómeðvitaðri stefnumörkun sveitarfélagsins Bláskógabyggðar eftir sameininu hreppanna þriggja ssem mynda sveitarfélagið. Það virðist jafnvel enn vera svo, að þar á bæ sé mikið lagt upp úr því, til að halda bæði Tungnamönnum og Laugdælingum í góðum fíling (afsakið orðskrípið); að tryggja að hvorki Laugarvatn né Reykholt missi spón úr aski. Á niðurskurðartímum má því ímynda sér að hagur Laugaráss hafi verið fyrir borð borinn. Ekki ætla ég sveitarstjórnarmönnum að ástunda slíkt viljandi, en ég fæ ekki varist þeirri hugsun að þetta hafi verið að gerast, í það minnsta ómeðvitað. Ég vona að einhverjir séu tilbúnir að mótmæla þessari skoðun kröftuglega.

Það sem hefur verið að gerast nýtt í Laugarási á undanförnum árum, fyrir utan frábært starf á nokkrum garðyrkjustöðvum við að þróa áfram og efla sig og garðyrkjuna, er uppbygging sumarhúsa. Á því hefur þó orðið hlé frá hruni en fyrir það var varla selt hérna neitt nema til vel stæðra einstaklinga sem voru að kaupa sér sumarhús. Þetta er allt hið ágætasta fólk, en mér er til efs að það efli byggðina og skjóti einhverjum rótum hér þannig að lífvænlegra teljist fyrir fólk sem sækist eftir að flytja hingað til að finna lífsviðurværi.

Ég á eftir að nefna eina hugmynd í málefnum Laugaráss, en hún er einfaldlega sú, að núverandi íbúar haldi bara áfram að búa í húsunum sínum, en sláturhúsinu verði breytt í stúdíóíbúðir fyrir umönnunaraðila, sem færu síðan á milli íbúanna og sinntu vaxandi þörf þeirra fyrir þjónustu.

Jamm, þetta var svona hugmynd.


09 mars, 2013

Vitleysingar úr hófi fram?

Ég viðurkenni það, að þó svo ég beri það ekki utan á mér dags daglega, þá blundar í mér vitleysingur sem er til ýmislegt sem víkur af þeirri braut sem ég ætti að ganga ef tekið er mið af aldri og stöðu í samfélaginu. Ég komst að því fyrir nokkrum dögum, að það sama gildir um flesta samstarfsmenn mína.

Í gærkvöld var haldin árshátíð nemendafélagsins í skólanum þar sem ég starfa. Það hafði komið fram ósk um það frá nemendum að starfsmenn myndu hafa eitthvað fram að færa, enda boðið til ágætis hátíðakvöldverðar með vönduðum skemmtiatriðum. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það gerðist, en svo fór að fólk var kallað saman á kennarastofunni á tilteknum tíma í vikunni, því þar skyldi tekið upp atriði fyrir árshátíðina. Það lá fyrir að til stæði að skella í Harlem shake, svokallað, en það er eitt þeirra tískufyrirbæra sem skella yfir veröldina, eða í það minnsta hinn vestræna heim, hvert á fætur öðru. Einhver spurði svo skemmtilega sem svo: "Hvernig væri nú að heimurinn hætti að planka, eða dansa Gangnam style, nú eða fíflast í Harlem skake og færi í staðinn að hugsa?". Þeir sem ekki vita þegar, í hverju þetta felst, þá er til dæmis slóð að fyrirbærinu hér.

Ekki ætla ég að fjölyrða um hvernig upptakan gekk, að öðru leyti en því, að rétt eftir hádegið, í miðri viku, má segja að dagfarsprúðir starfsmenn hafi nánast gjörsamlega tapað sér í stigvaxandi taumleysi þessa fyrirbæris. Ef ekki hefði verið gripið í taumana áður en það varð of seint, er ekki erfitt að ímynda sér hvað hefði getað gerst.

Það var ákveðið fyrirfram, að uppökunni yrði eytt að lokinni einni sýningu á árshátíðinni. Meðal annars þessvegna varð þetta nú úr.

Í gærkvöld var afraksturinn síðan sýndur. Ég hef farið á tónleika heimsfrægra popphljómsveita og upplifað fagnaðarlæti æstra áhanga, séð upptökur frá tónleikum Bítlanna á hátindi ferilsins. Ég hef ekki áður upplifað önnur eins fagnaðar- og hrifningarlæti og þau sem þarna brutust fram.  Sannarlega viðurkenni ég að ég hafði kviðið þessari sýningu nokkuð - svona verandi eins og ég er. Kvíðinn reyndist hafa verið ástæðulaus og nú finnst mér miklu frekar að þarna hafi starfsmenn skólans sýnt á sér hlið sem lýsir ansi vel þeim óþvinguðu samskiptum sem ríkja í hópnum og góðum starfsanda.
Ég er meira að segja orðinn efins um að rétt sé að eyða upptökunni, en auðvitað verða allir þátttakendur að samþykkja að hún fái að fara sem eldur í sinu um veröld alla.

Þetta var í það minnsta bara ansi gaman.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...