27 apríl, 2013

Svona rétt áður en ég held á kjörstað

Ég er nú búinn að komast að þeirri mikilvægu niðurstöðu, að ég ætla að láta mig hafa það að ræsa Qashqai fyrir ferð á kjörstað og það sem meira er, ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að kjósa - hef reyndar aldrei verið í vafa um stóru línurnar í þeim efnum og tel mig ekki hafa haldið þeim skoðunum neitt sérstaklega með sjálfum mér. Ég ætla nú samt að láta hjá líða að tilkynna nákvæmlega hvert val mitt verður í þessum kosningum.

Það eru ekki endlega stjórnmálaflokkarnir sem hafa valdið því að mér hugnast lítt það sem er í gangi í þessu samfélagi okkar. Það eru miklu frekar kjósendurnir; þeir sem hafa um það úrslitaáhrif hvaða flokkar leiða hér landstjórnina:
 -  Hvernig má það vera, að einn flokkurinn sópar að sér atkvæðum í kjölfar dóms i útlöndum? Með því að veðja rétt á niðurstöðu dómstóls hlotnaðist þessum flokki skyndilegur trúverðugleiki. Ef dómurinn hefði fallið  á annan veg, værum við að fást við annarskonar veruleika nú á kosningadegi. Í krafti trúverðugleikans getur þessi flokkur nú lofað lausnum sem allar sorgir undanfarinna ára munu bæta. Þessu trúir talsvert stór hluti kjósenda.
- Hvernig má það vera að þeir tveir flokkar sem saman eiga langstærstan hluta ábyrgðarinnar á því hvernig landið var keyrt í þrot, standa nú með pálmann í höndunum í huga þjóðarinnar?
- Hvernig má það vera að ríkisstjórnin sem nú fer frá virðist, að mati þjóðarinnar, bera ábyrgð á því sem hér fór úrskeiðis?
- Hvernig má það vera að flokkurinn sem nú mælist stærstur í skoðanakönnunum og var megin gerandi í því ferli sem leiddi þjóðina fram af bjargbrún og hefur í engu gert upp við þá fortíð sína, nýtur nú þessa trausts þjóðarinnar?

Ég viðurkenni, að ég skil ekki hvernig vel upplýst og vel menntuð íslensk þjóð, getur komst að þeirri niðurstöðu sem nú blasir við að verði raunin. Mér finnst það dapurlegt, í meira lagi.

Ég get vissulega velt fyrir mér ástæðum ofangreindrar stöðu:
- í pólitík hefur fólk álíka mikið langtímaminni og kartöflur.
- á vinstri væng stjórnmálanna virðast safnast þeir sem ekki kunna þá list að vinna saman innbyrðis, enda hafa þeir ákveðnar skoðanir á þjóðmálum, og málamiðlanir eru eitur í beinum þeirra. Þannig eru þeir sjálfum sér verstir þegar upp er staðið. Þjóðin kallar á stöðugleika valdsins.
- á vinstri væng stjórnmálanna virðist safnast fólk með einstrengingslegar og jafnvel ofstækisfullar skoðanir á einstökum málum - fólk sem veit betur en aðrir, sem þá eru jafnframt heimskingjar. Þetta eru hinir svokölluðu mannkynslausnarar.
- þjóð sem lifði í gósenlandi alsnægtavímunnar trúir því ekki að þar hafi verið um að ræða tálsýn. Bólutíminn vandi fólk við að geta fengið flest sem hugurinn girntist, strax. Fyrst það er til eitthvað sem heitir Hinn ameríski draumur, þá hlytur samsvarandi íslenskur draumur að vera til. Þessi hugsum lifir enn góðu lífi. Það er vont fólk sem ekki lofar svoleiðis.
-------
Ég get nú sennilega haldið lengi áfram að fabúlera um þetta allt saman, en ef ég ætla að gefa mér góðan tíma til andlegs undirbúning fyrir hið miklvæga verk sem framundan er, þá er víst best að láta hér staðar numið.

Nú er bara að detta í það og vona að víman endist sem lengst.


04 apríl, 2013

Á maður að láta þetta yfir sig ganga?

Þetta er ekki umræddur hundur.
Sem betur fer fyrir mig, að ég tel, hef ég verið að temja mér það í vaxandi mæli, að fara í gönguferðir eftir vinnu, ekki síst ef veður er þess eðlis. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þetta eigi ég að geta gert í friði og ró, í fullvissu þess að það eina sem gönguferðirnar geta haft í för með sér sé bætt heilsa.

Ég fór í gönguferð áðan í blíðviðrinu og gekk um slóðir hér í Laugarási, sem teljast vera utan einkalóða. Þegar ég nálgaðist eitt húsið spratt fram gjammandi hundspott af meðalstærð. Ég hef svo sem heyrt hunda gjamma áður og kippti mér því ekkert upp við gjammið í þessum. Taldi víst að hann væri bundinn heima við hús, svona rétt eins og vera ber, en svo reyndist ekki vera. Hann kom hlaupandi alveg út á götun, en hélt sig þar um stund, gjammandi, og sýndi mér með ótvíræðum hætti, að hann teldi að þarna vær ég kominn á hans yfirráðasvæði. Kamburinn var reistur og hann sýndir skjannahvítar tennurnar, urrandi og geltandi á víxl. Var samt hikandi og þorði ekki og nálægt.  Ég prófaði að kalla hann til mín, því slíkt hefur oft dugað til að róa svona hundspott, en það gerðist ekki í þessu tilviki. Ég gekk áfram, og þá gerði hann sig líklegan til að koma að mér að aftanverðu, en þegar ég sneri mér snöggt við, hrökk hann til baka, geltandi og urrandi með uppbrettar varir, ef svo má að orði komast. Með hávaðann á eftir mér hélt ég áfram eftir götunni, leit heima að húsinu og sá þá húseigandann standa sallarólegan fyrir innan einn gluggann. Hafði ekki einusinni rænu á að koma út og kalla kvikindið til sín.  Gjammið fylgdi mér allt þar til ég beygði inn í aðra götu.  Ég viðurkenni það bara alveg, að mér stóð ekki á sama, en ég er viss um að ef kvikindið hefði þekkt mig þá hefði þessi staða ekki komið upp. Það er ekki við hann að sakast í þessu efni, heldur auðvitað eigandann, sem á að hafa undirgengist reglur Bláskógabyggðar um undanþágu til hundahalds. Þær eru svona (það sem er yfirstrikað með gulu eru þau brot sem ég varð fyrir á göngu minni áðan):


Samskipti mín við flesta hunda sem verða á vegi mínum í Laugarási eru með ágætum, enda þekki ég þá flesta og þeir mig. Það breytir ekki því, að það er öldungis ótækt að fólk geti ekki treyst því í gönguferðum sínum um hverfið, að það sé óhult fyrir ógnunum af þessu tagi. Mér þykir miður að þurfa að segja  þetta, því hér eru hundaeigendur sem eru mér tengdir og eiga hunda sem eru einstaklega ljúfir þar sem ég er annars vegar, þeir kunna að vera síður ljúfið við fólk sem ekki þekkir þá. Þeir hundar einir, sem ættu að hafa möguleika að að vera hér óbundnir og þá í fylgd húsbænda sinna, eru þeir sem hlýða húsbónda sínum umsvifa- og möglunarlaust.

Já, mér stóð ekki á sama, en slapp heill heim úr göngunni, efins um að ég leggi leið mína á þær slóðir sem ég fór í dag í bráð, að óbreyttu. Mér finnst ekki skipta máli í þessu samhengi um hvaða hundaeiganda er að ræða, heldur er svona lagað bara almennt séð ótækt.

02 apríl, 2013

See no evil.......


Í gærmorgun setti ég eftirfarandi yfirlýsingu á Fb:
Á þessum bæ þykir sumum fátt ógnvænlegra en þetta agnarsmáa spendýr, sem er í rauninni bara að reyna að lifa af eins og við öll. Hér er um að ræða fjölskyldu sem tók sér bólfestu undir einu blómakerinu fyrir í það minnsta ári síðan. Krílin virðast fá næga fæðu sér til framfærslu og það er ekki síst vegna þess að af borði auðnutittlinganna, sem fD elur í Sigrúnarlundi á fitu og fræjum, falla molar sem nýtast vel til að fita ungviðið undir blómakerinu. Jú, ég tók myndir, en hvað svo?
Í dag datt mér svo þetta í hug:
.........Art thou afeard
To be the same in thine own act and valour
As thou art in desire?
og þetta:
When you durst do it, then you were a man;
And, to be more than what you were, you would
Be so much more the man. Nor time nor place
Did then adhere, and yet you would make both:
They have made themselves, and that their fitness now
Does unmake you.
 
 Ekki svo að það breyti neinu í samhengi við það sem hér fer á eftir, en hér fyrir ofan er Lady Macbeth að brýna eiginmanninn til að myrða Duncan konung, og beitir þar því vopninu sem oft bítur best: "Þú ert aumingi ef þú andskotast ekki til að gera þetta". Það var ekki sú aðferðin sem fD notaði, enda ekki um það að ræða að ég hafi þráð að verða konungur í músaríkinu undir blómakerinu. Hún beitti öðrum aðferðum, sem fólust að mestu í því ýja beinum orðum að því að þarna væri um að ræða að bjarga sálarheill hennar. Ég var nú samt ekkert að flýta mér að hugsa upp aðferðir við að koma ræflunum fyrir kattarnef, enda hafði ég fulla trúa á að sálarheillin væri bara í nokkuð góðu standi; þetta væri mest í nösunum á frúnni - en auk þess verð ég að viðurkenna að tilhugsunin um að taka líf, hversu smátt eða lítilmótlegt sem það kann að vera, er mér síður en svo að skapi (hér undanskil ég flugur og annað svipað).

Skömmu eftir að ég hafði lokið við að mynda fjörug hlaup músarinnar, eða músanna þvers og kruss um og við pallinn, heyrði ég að fD var komin niður í kjallara og farin að rótast eitthvað. Ekki gat verið um að ræða að það tengdist listgjörningi og því lagði ég leið mína niður til að vita hvað væri í gangi.
"Ég er viss um að ég sá hana hérna einhvers staður um daginn."
"Hverja?"
"Nú, músagildruna".
"Músagildruna?"
"Já. Það verður að d...a þessi kvikindi. Ekki ætla ég í sólbað úti á palli fyrri en ég er viss um að öll fjölsyldan er d...ð!"
"Jæja......... Ég hef ekki séð gildruna frá því ég var að veiða mýsnar í Xtrail um árið."

Þar með fór ég aftur upp, og hugðist fara að sinna vorverkum í garðinum í blíðviðrinu.
Það leið ekki á löngu áður en fD birtist í palldyrunum og hélt í hornið músagildru með þumalfingri  og vísifingri, lét hana falla á pallborðið um leið og hún sagði:
"Hér er gildran!"
Það fór ekki á milli mála hvert hlutverk hún ætlaði mér.

Sálarheill tel ég vera miklvægt fyrirbæri, jafnvel mikilvægara en músalíf. Því var það, eftir að ég hafði sinnt vorverkum eins og ekkert væri yfirvofandi; eins og enginn þrýstingur væri fyrir hendi, í svona klukkutíma, að ég græjaði músagildruna, sem kallast því innblásna nafni: "VICTORY". Ætli það sé ekki til þess ætlað að láta músaveiðimönnum líða betur þegar að því kemur að þeir þurfa að takast á við að losa músahræin úr gildrunni og horfa í brostin augu, sem áður voru full af lífi?. Samkvæmt teiknimyndum á maður að setja ost í músagildrur þar sem músum finnst ostur undurgóður - síðasta máltíðin. Af þessum sökum fann ég til ostbita, spennti gildruna og kom henni fyrir þar sem ég hafði, fyrr um daginn, staðið í rúmlega metra fjarlægð frá konunginum í músaríkinu, án þess að hann yrði mín var.
Svo hélt ég áfram að sinna vorverkunum.

"Nei" sagði ég þar sem við fD stóðum við dyrnar út á pall í morgun.
"Ertu búinn að fara að gá?"
Þarna hafði ég, eins og svo oft áður, séð spurninguna fyrir og svarað áður en hún var borin upp. Ég gáði ekki í morgun.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...