02 júní, 2013

Slysin gera ekki boð á undan sér.

"Hvort ætlar þú að taka belginn eða grindina?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu í hávaða vorverkanna á þessum sunnudegi. Sannarlega hafði ég ekki hugmynd um, um hvað málið snérist. Ég leit um pallinn, nýgræjuð blómakerin, sandborna og áburðarborna grasflötina og meira að segja inn í skógarþykknið í von um að koma auga á belg og grind, en án árangurs. Enginn belgur, engin grind.
"Belginn?"
"Já, eða kútinn. Veistu virkilega ekki hvað ég er að tala um?"
"Neibb."
Það leið enn nokkur stund, sem lyktaði með því fD gekk að útiarninum, sem er svona leirbelgur með strompi og hvílir á járngrind. Með því skýrðist hvað spurningin hafði snúist um. Þarna tók frúin í belginn og hugðist vippa honum af grindinni, en hrökk frá þegar hún uppgötvaði að svört aska frá haustinu 2012 klístraðist á leikskólakennarahendurnar. Þar með var ljóst hver tæki belginn.

Ég gekk að honum ákveðnum og þó nokkuð öruggum skrefum, skeytti engu um öskuna og hóf hann upp úr grindinni, án nokkurra vandkvæða. fD tók upp fislétta grindina og kom henni fyrir þar sem hún vildi hafa arininn þessu sinni. Hann hafði verið færður, að hennar ósk, síðastliðið haust, þegar reykinn frá honum lagði inn í hús. Ástæða þeirrar færslu var algerlega gleymd henni, en auðvitað ekki mér. Nú var hinsvegar uppi sú staða, að arinninn skyggði á blómaskeytingarnar og því þurfti hann að fara aftur á þann stað sem hann var, áður en hann var fluttur til vegna reykmengunar. Hvað sem því líður, þarna gekk ég léttilega, eða kannski rogaðist ég með leirbelginn þar til ég kom að þar sem fD hafði komið grindinni fyrir á hinum nýja, en samt gamla, stað. Staðurinn sá er alveg úti á brún á pallinum og svo hagar til, að af pallinum, á þessum stað eru einir 40 cm niður á jörð. Þar sem ég kom að grindinni, með arininn, sá ég að hann snéri ekki rétt, með því gatið vísaði út af pallinum. Ég hugðist því vippa mér hinumegin við grindina og koma þannig að henni, með belginn, frá hinni hliðinni. Í þessu skyni tók ég þá fínu ákvörðun að fara brúnarmegin við grindina, en fD hafði komið henni fyrir 15 cm inni á pallinum Til að byrja með leit þetta nokkuð vel út. Ég hélt belgnum yfir grindinni meðan ég freistaði þess að smeygja mér framhjá henni.

Það var í þessari, fyrirhuguðu færslu sem ég uppgötvaði, að þó svo ég telji mig bara nokkuð sprækan miðað við aldur, þá þurfi ég að læra að taka mið af því að lipurleikinn er ekki sá sami og var. Ég steig það utarlega á pallbrúnina að stærstur hluti hægri fótar stóð út af. Þarna gaf framhluti fótarins sig. Ég sá hvað verða vildi og af ótrúlegu snarræði lét ég belginn falla á grindina, án þess að velta fyrir mér hvernig hann snéri, enda skipti það ekki máli í þeirri stöðu sem nú var upp komin. Aðdráttarafl jarðar varð síðan til þess að ég, í léttleika mínum, hlunkaðist fram af pallinum án þess að fá rönd við reist. Ég veit ekkert hvernig það gerðist, að ég lenti á bakinu og hnakkinn skall í jörðina. Það var mosaræktin sem varð til þess að höggið hafði ekki meiri afleiðingar en, að mér fannst eins og heilinn losnaði í höfðinu.
"Þú færð kúlu á ennið" sagði fD, sem stóð uppi á pallinum, í ótrúlegum makindum, ef tekið er mið af því að eiginmaðurinn hafði þarna orðið fyrir talsverðu slysi (óhappi, í það minnsta). Þarna gat allt hafa gerst.
"Ég hef örugglega fengið heilahristing," sagði ég yfirvegun, þar sem ég lá og horfði á skýin. Ég lá þarna bara nokkuð lengi, en þar kom að ég ákvað að láta reyna á hvort ég hefði slasast alvarlega. Ég hef nefnilega heyrt að líkaminn komi í veg fyrir sársauka þegar slys verða óvænt. Ég fékk fljótlega ekki  betur séð en felst virkaði eins og áður og það var mér léttir. Mér var og er fyrirmunað að skilja hvernig ég gat marist á enninu við að detta á bakið. fD, sem var vitni að slysinu, hefur ekki getað gefið viðhlítandi skýringar og mér finnst algerlega óhugsandi, að ég geti hafa dottið fram fyrir mig fyrst, en síðan beint á hnakkann. Við erum ekki með eftirlitsmyndavélar á pallinum svo nákvæm atvik verða væntanlega aldrei upplýst svo fullnægjandi sé.

Ég kenni mér ekki meins eftir hrösunina utan mars á enni og heldur óþægilegra hláturroka fD. Í því sambandi minnist ég atviks/óhapps þegar vetrarstormur fyrir allmörgum árum, varð til þess að hurð sem fD átti að halda, feykti henni til svo hún lá spriklandi eftir. Ég kími enn með sjálfum mér við að rifja það atvik upp: 1:1
------------------
Ef textinn sem hér hefur verið ritaður ber þess merki að skrifarinn sé ekki með sjálfum sér, er það bara sönnun þess, að þarna hafi orðið slys, fremur en óhapp.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...