15 október, 2013

Gamall heimur og nýr (1)

Add caption
"Jú, ætli ég láti mig ekki hafa það", sagði fD þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði að koma með mér í bæinn, eldsnemma á mánudagsmorgni. Tilefni ferðarinnar var ómótstæðilegt tilboð (ég á erfitt meða að standast ekki ómótstæðilegt tilboð) í að framkvæma ákveðna aðgerð á Qashqai, sem átti að taka 8 klukkustundir (ég mun ekki greina frá því í hverju þessi aðgerð fólst fyrr en fyrir liggur að hún hafi heppnast og sé til þess fallin að vera til eftirbreytni). Ég tók tilboðinu áður en ég komst að því hvað það hefði í för með sér. Til að gera langan aðdraganda stuttan þá héldum við til höfuðborgarinnar eldsnemma á mánudagsmorgni og segir ekki af ferðum okkar fyrr en Qashqai var afhentur á aðgerðarstað. Ég reyndi að fá upplýsingar um, í hverju aðgerðin fælist, nákvæmlega, og hvað hún hefði í för með sér. Svörin voru þess eðlis að ég var ekki miklu nær, þar sem viðkomandi starfsmaður freistaði þess að leiða mig inn í heim sem ég ber lítið skynbragð á. Nóg skildi ég samt til að ég ákvað að hætta ekki við allt saman og við svo búið stóðum við fD á götunni, bíllaus í heilan dag.
Veðrið lofaði góðu, logn og heiðskírt, hiti rétt yfir frostmarki. Það má segja að leiðin hafi legið niður á við til að byrja með, eftir að tókst að ná ásættanlegri niðurstöðu um hvert halda skyldi. Létt á fæti gengum við niður Vegmúla og þegar við komum að Suðurlandsbraut stóð valið á milli þess að fara til vinstri, hægri, nú eða beint yfir. Til að halda fleiri möguleikum opnum var haldið til hægri í átt að Glæsibæ.
"Er Hagkaup ekki opið allan sólarhringninn?" velti fD fyrir sér þegar Glæsibær nálgaðist. Ég, sem fyrr opinn fyrir öllum möguleikum, kvaðst telja svo vera.
"Væri gott að komast inn þangað til hlýnar aðeins."
Á mótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar varð að velja milli heilsuræktarinnar sem fælist í því að ganga um Laugardalinn, og Hagkaupshlýjunnar. Það fyrra varð ofan á, eftir lítilsháttar japl.  Yfir Suðurlandsbrautina á gangbraut með ljósum og svo beygt til vinstri í sömu átt og við höfðum komið úr. Þarna hefði mátt spara 1.6 km göngu með því að fara beint yfir þegar komið var úr Vegmúlanum. Þetta átti að vera heisluræktardagur og því ekki nefnt. Það eru nú meiri flottheitin hjá þessum Reykvíkingum. Þarna gengum við eftir 3ja metra breiðum, malbikuðum gangstíg og við hliðina á honum var síðan jafnbreiður, tveggja akreina, malbikaður hljólreiðastígur. Þetta jaðrar við sóun, ef tekið er mið af gangskábrautinni í Laugarási.
Þegar við vorum komin út undir Laugardalshöll: "Ég nenni nú ekki af fara út fyrir hana" og í ljósi þessarar yfirlýsingar var haldið til hægri, niður í dalinn, nú eftir ómalbikuðum, óakreinaskiptum stíg. Þarna fóru að koma í hugann sögur af líkamsárásum í Laugardalnum. Þarna gat leynst allskyns óþjóðalýður í þéttum trjágróðrinum. Ekki laust við að hert væri á göngunni (jákvætt þar sem þarna var um að ræða heilsurækt). Þarna lá bein leið niður á einhverskonar torg þar sem var inngangurinn í margumræddan grasagarð í Laugardal og þarna var líka Café Flóra (ekki opnað fyrr en 11 (hefði nú verið gott að setjast inn og fá sér kaffisopa til að ná hita í kroppinn). Ég kom, held ég einusinn í grasagarðinn fyrir áratugum síðan. Þar vorum við nú tvö ein, ef frá eru taldar undrandi endur á pollum, sem reyndu að leyna undrun sinni með því að snyrta neðanverða vængi eða stinga höfðum undir vatnsyfirborðið. Þarna inni var bekkur þar sem manni var boðið að setjast og hlusta á skáld. Þarna sá ég engin skáld, ekki einusinni hátalara eða takka til á ýta á. Þar gat hinsvegar að líta nokkurskonar strikamerki (QR-merki (quick response code)). Með því að nota veiðeigandi APP í android símanum mínum hefði ég getað nálgast ljóðaflutninginn, en það gerði ég ekki. (Ég vænti þess að hér staldri lesandinn við og dáist að nútímamennsku minni).
Við gengum áfram inn í grasagarðinn þar sem hver einasta planta er kyrfilega merkt, en þar sem haustið var búið að setja mark sitt á gróðurinn lét ég vera að kynna mér nöfn á gulnuðum laufblöðum eða beygðum spírum.
Þegar við vorum kominn innst í garðinn rak ég augun í gufu sem steig til lofts í nokkurri fjarlægð. Nánari skoðun leiddi í ljós að þarna voru þvottalaugarnar margfrægu, sem ég hafði aldrei séð áður berum augum. Auðvitað gengum við þangað, enn var nægur tíminn (vel rúmir 7 klukkutímar). Jú, jú þetta var svo sem allt í lagi. Öryggið var svo mikið að mús hefði ekki getað framið sjálfsmorð í lauginni. Það grillti í laugarvatnið í gegnum þéttriðið net sem yfir lá.
Eftir heimsóknina í Þvottalaugarnar lá leiðin aftur til baka, nú aðra leið, nær Laugarásnum. Stígurinn sem var valinn liggur meðfram Sunnuvegi.
Eftir því sem nær dró Heimunum hækkaði í hljóðum frá Reykjavíkuræskunni sem sækir sér menntun í Langholtsskóla. Það fór ekki á milli mála að það voru frímínútur og skrækirnir sem vorku framkallaðir með brostum eða brastandi barnaröddum fylltu loftið og höfðu ekkert sérlega róandi áhrif. Við Langholtsskóla sveiði stígurinn til hægri og þar blöstu þær við í mikilfengleik sínum, Álfheimablokkirnar.
Hvað með þær? - Bíður þar til næst.

11 október, 2013

Skynsemi lítillætisins


"The only true wisdom is in knowing you know nothing"
Hin sanna viska felst í því að vita að maður veit ekki neitt. Sókrates (499-370 f.Kr.)
"Le coeur a ses raisons que la raison ne connait pas"
Hjartað á sér rök sem rökhugsun okkar þekkir ekki. Pascal (1623-1662)


Það er mörg spekin sem við leitum í til að sannfæra sjálf okkur og aðra um að þær ákvarðanir sem við tökum byggist á skynsemi. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja, en við getum varla ætlast til þess að aðrir deili skilyrðislaust þeim skynsamlegu ákvörðunum sem við tökum, eða þeim skynsamlegu skoðunum sem við höfum.
Fyrirbærið skynsemi er afstætt hugtak sem byggir á þeirri reynslu og upplýsingum sem einstaklingurinn býr yfir. Ákvörðun eins, sem hann telur vera skynsamlega, virðist öðrum vera harla óskynsamleg.

Smella til að lesa
Tilefni þessa pistils er umræða sem kemur upp aftur og aftur um mikilvægi þess að bólusetja ungabörn. Þar skiptist fólk í hópa sem báðir telja sig vera skynsama. Skynsemi þeirra byggir á þeim upplýsingum sem þeir hafa, lífsskoðunum, trú, eða einhverjum rökum sem þeir búa sér til með einhverjum hætti - hvað veit ég?
Skynsemin segir mörgum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um mikilvægi eða gagnsemi þessara bólusetninga.
Skynsemin segir öðrum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um þann skaða sem þessar bólusetningar geta haft í för með sér.
Hver á svo að meta hvor hópurinn er skynsamur?
Auðvitað get ég gert það og fer létt með það. Ég býst hinsvegar við því að margir telji það mat mitt ekki skynsamlegt.
Ef ég ákvarða sem svo, að annar hópurinn byggi skoðun sína á hindurvitnum, eða þá að hinn á oftrú á vestræn læknavísindi, sem séu í besta falli ekki í takti við náttúruna, hvað er ég þá nema hrokafullur gagnvart öðrum hópnum? Er ég í stöðu til að leggja mat á hvað er skynsamlegt í þessum efnum? Jú, vissulega, ef ég hef að baki mér allar staðreyndar upplýsingar sem geta varpað ljósi á málið. En auðvitað hef ég þær ekki. 

Orðabókarútskýringar:
Skynsamur: Greindur, vel gefinn
Skynsemi: Gáfur, vit, hyggja greind, þekking.
Skynsemisstefna: Sú skoðun að leggja beri sérstaka áherslu á skynsemi í stað tilfinninga og hvata.
Samkvæmt þessu skortir þann greind sem er óskynsamur og hann er einnig illa gefinn. Með því að telja ákvarðanir annarra eða skoðanir óskynsamlegar, erum við að leggja dóm á greind hans eða gáfur. 

Sannarlega bera tilfinningar og hvatir okkar skynsemina oft ofurliði, en þýðir það þá að okkur skorti greind eða að við séum illa gefin? 

Hér eru nokkrar spurningar sem má telja að snúist um skynsemi:
Er skynsamlegt að:
- kjósa Framsóknarflokkinn?
- selja Kínverjum land?
- ganga í ESB?
- lesa svona blogg?
- trúa á líf eftir dauðann?
- kaupa Skoda?
- eignast barn?
- prófa fíkniefni?
- kaupa 50" flatskjá?

Svona má lengi spyrja. Við öllum þessum spurningum eru jákvæð og neikvæð svör, sem viðkomandi telja að byggist á skynsemi, en þegar grannt er skoðað byggjast þau ef til vill frekar á tilfinningum eða hvötum. 
Þá má spyrja: Eru tilfinningar okkar og hvatir merki við greindarskort?

Niðurstaðan er:
Hættum að ofnota orðið SKYNSEMI, sýnum frekar skynsemi.



05 október, 2013

Hættulegur staður

Það liggur við að á hverjum morgni þegar ég rís úr rekkju þakki ég fyrir að vera enn á lífi. Mér hefur tekist, á furðulegan hátt, að komast hjá því að láta lífið í einhverri þeirra slysagildra sem á vegi mínum hafa orðið gegnum lífið, ekki síst í æsku. Lengi vel leiddi ég nú ekki hugann að því að líf mitt gæti verið í hættu, nánast á hverjum degi. Ég virðist stöðugt hafa verið að tefla í tvísýnu því sem manni er annast um: lífinu sjálfu.
Ætli það séu ekki svona 15-20 ár síðan ég fór að átta mig á að það umhverfi sem ég ólst upp í var stórhættulegt, ef ekki beinlínis banvænt, og að foreldrar mínir hafi verið allsendis ófærir um að hugsa um velferð mína og öryggi. Hvað var fólkið eiginlega að hugsa? Þá fór ég einnig að átta mig á að ég var í rauninni lítið betri sjálfur, þegar kom að því að ala upp mín eigin börn. Skeytingarleysi mitt um öryggi þeirra kann að hafa, á einhverjum tímapunktum, leitt til þess að nær lá stórslysum.
Hér fyrir neðan er listi yfir helstu hættur sem börnum voru (og eru, að einhverju leyti) búnar í þorpinu í skóginum, sem virðist nú, við fyrstu sýn vera einstaklega kyrrlátur og barnfár staður.

1. Hverasvæðið.
Í 50 metra fjarlægð frá heimili mínu rann hveralækur með ríflega 90°C heitu vatni. Hann var ekkert afgirtur og yfir hann lá trébrú sem í minningunni var orðin feyskin. Hinumegin við lækinn var síðan heitur garður þar sem við ræktuðum grænmeti á sumrin, þar bakaði mamma rúgbrauð og þar voru þvegnir þvottar. Leiðin lá oft yfir þennan læk í algeru eftirlitsleysi. Það munaði oft ekki miklu að ver færi en til stóð. Fyrir utan lækinn voru hveraholur hér og þar á svæðinu, sem hrópuðu á aðgát. Ég slapp sem sagt við hverina.
Mér er kunnugt um eitt barn sem hefur látið lífið í hver í Laugarási. Það var þriggja ára stúlka sem brenndist til bana þann 15. júní 1943.
Þegar garðyrkjubýlum í Laugarási fjölgaði, aðallega á sjöunda áratugnum, var hveralækjunum lokað og þeir leiddir í pípum að dæluhúsi. Nú er það eiginlega bara yfirfallið sem rennur út í lón og þaðan í Hvítá.

2. Hvítá
Eitt vatnsmesta jökulfljót landsins, Hvítá, rennur í skeifu framhjá Laugarási og það þarf ekki mikið ímyndurnarafl til að átta sig á þeim hættum sem það býr yfir. Þarna vorum við nú oft að leik niðri á eyrinni fyrir neðan brúna því þar var (og er) fíngerður sandur sem gaman gat verið að dunda sér í. Þá var skammt niður á bakkann þar sem stundum var sandbleyta og þá var orðið skammt út í straumhart fljótið.  Það er í rauninni furðulegt að fljótið skuli ekki hafa tekið meiri toll en raunin er á síðustu áratugum.
Í maíbyrjun 1979 hreif fljótið með sér tveggja ára stúlku og 1955,
rétt fyrir jól, fórust tveir bræður sem freistuðu þess að fara yfir á ís.
Brúin yfir Hvítá var tekin í notkun 1957 og stórbætti auðvitað samgöngur.

Þetta eru og hafa verið stærstu hætturnar sem fylgja því að búa í Laugarási, en auðvitað eru þær fleiri:
3. Skurðirnir
Þorpið byggðist að stórum hluta upp nálægt hverunum og í mýrlendi sem kallaði á framræslu. Því voru grafnir skurðir þvers og kruss á lóðarmörkum. Með árunum breyttust þessir skurði í dýki sem gátu verið harla varsöm, ekki síst þegar barnaskarinn í Laugarási átti í hlut. Þá stytti unviðið sér gjarnan leið til að komast milli bæja og stökk yfir leðjufulla skurðina. Það kom fyrir að ekki tókst að stökkva nægilega langt, en afleiðingarnar urðu aldrei þær sem þær hefðu getað orðið.

4. Brúsapallurinn
Í Laugarási var kúabú og við aðalveginn var brúsapallur (Helgi Indriðason, bóndi fór þangað með mjólkurbrúsana, sem mjólkurbíllinn flutti síðan á Selfoss). Brúsapallurinn var talsvert vinsæll, bæði sem staðurinn þar sem Laugaráskrakkarnir hittust á kvöldin og einnig sátu bílnúmeraáhugamenn þar og skráðu númer þeirra bíla sem óku hjá. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hættuna sem börnunum stafaði af þessum brúsapalli, en ekki er mér kunnugt um að þarna hafi orðið slys.

5. Hverabrekkan
Á vetrum þótti brekkan henta vel til vetrarleikja. Þá var farið efst upp og síðan brunað niður brekkuna, en neðan hennar er beygja, sem kallaði á það að sleðamenn kynnu að beygja, eða hægja nægilega á til að fljúga ekki út í skurð. Það kom fyrir, þó ekki væri nú mikill umferðarþunginn, að bíll kom akandi í átt að brekkunni í þann mund er lagt var af stað af brekkubrúninni. Slík tilvik hefðu getað farið öðruvísi en raunin varð. Ekki minnist ég þess að þarna hafi orðið slys, þó sannarlega biðu aðstæðurnar upp á slíkt.

6. Tjörnin
Þarna lék ungviðið í Laugarási þegar þannig viðraði. Tjörnin er á túninu fyrir austan Laugarásbýlið. Þarna renndu menn sér á skautum og skíðasleðum og oft ekki ljóst hver traustur ísinn var, en ekki minnist ég þess að hann hafi gefið sig.

7. Dýin
Sem áður er sagt er lægðin sem stór hluti þorpsins er í, botnlaus mýri. Í þessari mýri voru dý. Ef maður gekk út á bakka þeirra dúaði hann. Það var ekki hægt að sjá til botns, þó svo vatnið væri tiltölulega tært. Í þessum dýjum voru brunnklukkur og því þurfti maður að loka munninum vandlega, en þær leituðust, að sögn, við að fljúga upp í fólk.  Það hefði verið erfitt fyrir barn sem dytti í svona dý, að hafa sig upp úr því af eigin rammleik. Ég minnist þess ekki að neinn hafi farið svo óvarlega og hafa lent í dýi. Það dý sem ég man best eftir var þar sem nú stendur gróðurhús í Lyngási.

Þær eru örugglega margar fleiri, hætturnar sem börn í Laugarási ólust upp við á síðari helmingi síðustu aldar og það væri sannarlega þess virði að fá frásagnir af ýmsum ævintýrum og uppátækjum frá þeim tíma..

Ástæða þess að ég er að renna í huganum yfir allar þær hættur sem ég ólst upp við, er sú skoðun sem ég hef nú haft alla tíð, að hluti af því að vaxa úr grasi sé, að læra að þekkja þær hættur sem fylgja því að vera til. Banaslys eru sannarlega alltaf hörmuleg, og þegar börn láta lífið í slysum er varla hægt að finna orð sem geta tjáð sorgina sem fylgir. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að börn verða einhvernveginn að fá að læra á  hætturnar í umhverfi sínu. Það tel ég að gerist ekki með því að girða fyrir allt það sem mögulega getur valdið slysum. Það þurfa að vera aðstæður til að reyna sig og upplifa ævintýri. Það gerist ekki með ofurverndun, jafnvel fram eftir öllum aldrei, eins og mér virðist vera orðin raunin. Er nú ekki til einhver millivegur?

Það var viðtal við mann í fréttum í sjónvarpi fyrir nokkrum vikum. Sá deildi þessari skoðun með mér, en því miður hef ég ekki fundið út hver hann er. Ég hugsa að ég geri það að markmiði mínu að finna vísindalegar rannsóknir sem leiða í ljós að það skiptir máli fyrir þroska barna að takast á við hættur í um hverfi sínu. Hvernig eiga þau annars að vera í stakk búin til að takast á við umhverfið sem ábyrgir, fullorðnir einstaklingar?

Heilsugæslustöðin í Laugarási







04 október, 2013

Þrjú hjól undir bílnum - mínum

Ég hef óendanlega trú á fólki og fagmennsku. Ég hef ótrúlegan skilning á ófullkomleika mannsins. Ég hef mikinn skilning á að mannfólkið geti gert mistök, því ekki einu sinni ég hef sloppið við að gera eitthvað rangt, misstíga mig eða segja eitthvað sem betur hefði verið ósagt.
Það er í þessu ljósi sem ég læt frá mér það sem hér fer á eftir.

Ég og Qashqai skelltum okkur í höfuðstað Suðurlands í dag (höfuðstað og höfuðstað - það má nú deila um það eftir skilningsleysi það sem stjórnvöld í þessu þorpi hafa sýnt á mikilvægi þess að taka þátt í nauðsynlegri þjónustu við skóla á Suðurlandi), til að nálgast þjónustu á hjólbarðaverkstæði og þar með leggja okkar af mörkum til að skjóta stoðum undir tilveru íbúa þar.
Það er spáð snjókomu næstu daga og ég er forsjáll maður, sem er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra, því enginn beið eftir umfelgun og ég gat rennt Qashqai snyrtilega inn á gólf. Því næst fór ég inn í móttökuna og þar var bíleigandi að ganga frá sínum málum og spurði sá meðal annars hvort ekki hefðu örugglega allar rær verið hertar - spurning sem mér fannst nokkuð út í hött og það sama gilti augljóslega einnig um starfsmanninn sem svaraði spurningunni játandi.

Þegar ég hafði tékkað okkur inn og látið í ljós óskir mínar (umfelga Qashqai), fór ég afsíðis, í ágæta setustofu þar sem hægt var að njóta þess að lesa Se&hör á íslensku. Ég las og las og las meira - veit orðið margt um brúðkaup fræga fólksins íslenska (6 blaðsíður að myndum með hverju brúkaupi og hnyttnar lýsingar á því sem fyrir augu bar á þeim).

Eftir um það bil 25 mínútur af lestri og skoðun kom maður og tjáði mér að Qashqai væri klár. Ég greiddi fyrir (ISK1650 fyrir hvert dekk) fór síðan fram í vélasalinn, en þá reyndist annar maður vera að leggja lokahönd á umfelgunina en hafði hafið hana.  Allt í lagi með það.

Ég settist inn og bakkaði út, betur en flestir aðrir. Síðan ók ég af stað frá dekkjaverkstæðinu og út á þjóðveg nr 1, en þar var talsverð föstudagsumferð. Mér fannst ég heyra lítilsháttar marr eða brak, sem svo hvarf og taldi það hlyti að stafa af því að nú voru TOYO harðskeljadekkinn komin undir og bíllinn þyrfti lítilsháttar aðlögunar að þeim við. Eftir um 50 metra akstur á þjóðvegi 1 fór að braka aðeins meira - að mér læddist illur grunur, en ég neitaði samt að trúa að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera og ók um 50 metra í viðbót, en þá þótti mér liggja fyrir að ekki yrði af frekari akstri fyrr en ljóst væri hvað þarna var um að vera. ÞAr með stöðvaði ég Qshqai úti í kanti. Sennilega til að hugsa málið og leggja drög að því sem tæki við næst. Fyrsta niðurstaða mín var að freista þess að halda til baka - sú niðurstaða reyndist hinsvegar harla vanhugsuð, því um leið og ég lyfti tengslafetlinum (kúplingunni) heyrðist mikið brak og Qashqai pompaði lítillega niður vinstra megin að framan. Í beinu framhaldi þess atviks ákvað ég að stíga út og athuga hverju þetta sætti.
Þá varð mér eftirfarandi ljóst: allar rærnar sem höfðu það hlutverk að festa hjólið við Qashqai að öðru leyti, lágu á þjóðvegi 1 og hjólið hallaði eins og það væri laust - sem það var, auðvitað.

Þarna var nú ekki um annað að ræða en ganga til baka á dekkkjaverkstæðið og gera þeim sem þar starfa, að lagfæra það sem lagfæra þyrfti. Þarna fékk ég 100 metra göngu, sem auðvitað er jákvætt í sjálfu sér. Á verkstæðinu tilkynnti ég um ofangreint atvik. Viðbrögðin voru nú ekki beinlínis eins og himinn og jörð hefðu farist. Þarna voru tveir menn fyrir að sinna verkum sínum við umfelganir. Annar, sá sem lokið hafði umfelguninni á Qashqai, brást við og fór út í dyr til að sjá hvar Qashqai stóð í 100 metra fjarlægð. Hann hvarf síðan bak bakvið. Hinn virtist láta sér þetta í léttu rúmi liggja, en ég neita því ekki að ég hefði vilja sjá meiri viðbrögð hjá honum, t.d. þannig að hann fyndi til með mér í þessum raunum öllum saman, en því var ekki að heilsa.
Eftir þetta tók eitt við af öðru. Sá sem ábyrgðina tók á sig fór með mér á staðinn og hafði tekið með sér græjur til að lyfta upp og festa rær. Það verk tók lengri tíma en til stóð í fyrstu, af ástæðum sem ég nenni ekki að fjölyrða um, en m.a. þurfti hann að fara aftur á verkstæðið til að ná í nýjar rær og loks þegar allt var tilbúið til að festa hjólið á, varð rafknúin græjan, sem til slíks er ætluð, rafmagnslaus. Því varð að grípa til handvirks felgulykils til að klára verkið og ganga úr skugga um hvort fleiri hjól væru laus. Svo var allt klárt og ég var beðinn afsökunar á óþægindunum, en það sem dró nokkuð úr vægi þeirrar beiðnar var glottbrosið sem henni fylgdi. Ég kvaðst skyldu reyna, enda er ég eins og ég greini frá hér efst uppi.

Að þessu búnu hélt ég mína leið.

Hér eftir mun ég spyrja, um leið og ég geri upp eftir felguskipti, hvort ekki sé örugglega búið að herða allar rær.  Um leið þakka ég fyrir að rónum hafði bara verið tyllt á, um leið og ég bý til aðstæður þar sem hjólið flýgur af þar sem ég ek heim til mín á löglegum hámarkshraða.

Ég var varla kominn heim þegar þessi samskipti áttu sér stað á Fb:

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...