18 maí, 2013

"Framsóknarflokkurinn er ekki til lengur"

Þessi fyrirsögn á rætur sínar að rekja til heimsóknar minnar til aldraðs föður í dag, en sá hefur löngum haldið því fram að hann væri framsóknarmaður. Ég ólst upp við að Tíminn væri eina dagblaðið sem mark væri á takandi og að Kaupfélag Árnesinga væri eina verslunin sem maður stygi fæti inni í. Höfn (alræmd verslun íhaldsins) kom ég ekki inn í fyrr en ég var farinn að öðlast talsvert sjálfstæði í þessum efnum. Hin síðari ár hef ég svo sem fengið á tilfinninguna að trú föður míns á að framsóknastefnan, með nýjum herrum þar á bæ, væri farin að gefa sig. Þetta hef ég skynjað með því hvernig umræðu um ágæti flokksins hefur fylgt tiltekið glott, sem sá gamli lætur að öllu jöfnu fylgja yfirlýsingum sem ganga þvert á raunverulegar skoðanir. Einhverju sinni hélt hann því fram, að eftir Steingrím hafi framsóknarflokkurinn misst fótanna, vikið af braut þeirra hugsjóna sem honum var ætlað að halda á lofti. Blómatími hans hafi verið í tíð Eysteins Jónssonar.

Hvað um það.

Ég kíkti sem sagt til þess gamla í dag, en þar hefur, í náttborðinu hans, verið að þvælast, frá því fyrir kosningar, kaffipoki sem mun hafa verið ein þeirra gjafa sem framsóknarflokkurinn deildi út til líklegra kjósenda í aðdraganda kosninga. Pokinn "skartar" mynd af formanninum ásamt hvatningunni um að aflétta umsátrinu um íslensk heimili (fyrirgefið, en rétt í þessu fann ég til ónota í maganum). Þessi poki hefur legið þarna óhreyfður, enda hefur gamli maðurinn ekki aðgang að kaffivél til að hella upp á, og hefur reyndar yfirleitt ekki stundað slíka iðju, að ég tel. Við ræddum þennan poka lítillega og það var þá sem fyrirsögn þessa pistils hrökk upp úr hinum aldraða framsóknarmanni.

Hvað sem systkin mín segja um það (alræmt framsóknarfólk, sum hver ;)), þá tók ég þennan poka með mér heim og nýtti innihaldið mér til síðdegishressingar. Það er ekki laust við að tilfinningar mínar til framsóknarflokksins hafi gerbreyst við að neyta drykkjarins, .........eða þannig. Ég er þess fullviss, að hann muni nú sýna og sanna úr hverju hann er gerður, með kaffipokaskrautið í fremstu víglínu. Við munum vonandi sjá sumum íslenskra heimila gert gott. Umsátrinu um þau mun vonandi ljúka - vonandi ekki á kostnað þeirra heimila sem ekki upplifðu þetta umsátur.

Kaffið var ágætt.

11 maí, 2013

Hvernig sumir sjá mig

Ég er viss um að við eigum það flest sameiginlegt, að velta því stundum fyrir okkur hvernig samferðamenn okkar sjá okkur. Sannarlega teljum við að við séum ósköp eðlilegar manneskjur og að það hljóti að vera sú mynd sem aðrir sjá einnig. Okkur er hinsvegar hollt að gera okkur grein fyrir því að sú er ekki endilega raunin. Það ætti að duga að minna á myndirnar sem eru teknar af okkur, þar sem við sjáum stundum eitthvað allt annað en það sem við töldum okkur standa fyrir. Ég nefni nú varla hvernig reynsla það er að sjá sjálfan sig fyrsta sinni á hreyfimynd.

Hvernig haldiði að það sé að upplifa það þegar einhverjir sem þú þekkir, taka sig til og leika þig, eins og þeir sjá þig. Þetta þarf starfsfólk skóla oft á tíðum að upplifa, líka starfsfólk Menntaskólans að Laugarvatni.
Þar til á síðustu árum hafa nemendur sem eru að ljúka námi, flutt það sem þeir kalla Kennaragrín í þann mund er kennslu lýkur að vori. Þeir hafa sett upp ýmsar aðstæður þar sem starfsfólk skólans birtist í fremur ýktum útgáfum af sjálfu sér. Þetta vekur ávallt mikla kátínu annarra nememnda, og að öllu jöfnu einnig þeirra sem spjótin beinast að, enda er það sú pæling sem lagt er af stað með.

Á síðustu árum hefur kennaragrínið í æ meira mæli færst yfir í upptökur sem eru síðan notaðar sem hluti dagskrárinnar. Á þessu ári fékk ég góðan skammt. Allt í lagi með það. Hvort ég birtist þarna að öllu eða einhverju leyti eins og ég birtist samferðamönnum mínum á degi hverjum, er ég auðvitað ekki fyllilega dómbær um. Væntanlega eru þarna einhverjir punktar sem eru eins og raunin er.

Til útskýringar fyrir þá sem ekki vita þá er það mitt hlutverk meðal annarra, að taka nemendur í viðtöl þegar eitthvað bregður út af í skólasókn, og að leysa út ýmsum spurningum sem varða námsferla.

Að öðru leyti leyfi ég tveim myndböndum, sem sýna fremur miðjumikinn mann (sem er nú reyndar ekki raunin með mig í dag) sýna af sér framkomu gagnvart nemendum, sem er síður en svo til eftirbreytni.

Það fyrra

Það síðara


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...