23 júní, 2014

Línuvörðurinn sem handleggsbrotnaði

Línuvörðurinn á góðri stund til hægri á myndinni.
Það er hálfgert norðvestan áhlaup á Bolungarvík, en það kemur ekki í veg fyrir að mikilvægur leikur Bolungarvíkuliðsins og ónefnds aðkomuliðs fari fram. Áhorfendur streyma á völlinn og það er hugur í fólkinu. Korteri fyrir leik gengur á með vongóðum hrópum um að nú verðið aðkomuliðið tekið í nefið.

Dómaratríóið gerir sig klárt og allt er til reiðu, en það er ekki laust við að hann sé dálítið óöruggur með verkefni sitt þar sem hann er nýbúinn að fá réttindi til að starfa sem línuvörður í annarri deild. Það er smá hnútur í maganum; það eru aðallega rangstöðurnar sem hann kvíðir, því þær eru afar viðkvæmar og vandmeðfarnar. Ekki dregur það úr kvíðanum að eiginkonan er komin til að fylgjast með leiknum og hún er alltaf tilbúin að láta hann heyra af því ef henni finnst honum ekki takast vel upp. Þá eru börnin hans tvö einnig á leiknum og eðlilega er honum mikið í mun að takst vel upp af þeim sökum.

Þetta bara verður að ganga vel.

Það er ákveðið að hann verði á hliðarlínunni fjær áhorfendastæðunum og það er honum nokkur léttir því þá heyrir hann síður tilfallandi ónot frá mögulega ósáttum áhorfendum. Hann gætir í fyrri hálfleik þess vallarhelmings sem Bolungarvíkurliðið sækir á og áhorfendurnir eru flestir bolvískir.

Leikurinn er flautaður á og átök liiðanna hefjast. Hvorugt liðið ætlar sér að gefa þumlung eftir í því ati. Leikurinn færist fram og aftur um völlinn og hann verður ávallt að gæta þess að vera í góðri stöðu varðandi rangstöðuna, fyrir utan að verða að fylgjast nákvæmlega með hvort liðið setur boltann útaf og í hvora áttina hann á að benda með flagginu, einkennisbúnaði línuvarða.

Hann hann er farinn að mæðast, en hingað til hefur allt gengið vel. Hann er búinn að veifa á nokkrar rangstöður, athugasemdalaust að mestu, og hann hefur veifað rétt á innköstin.  Þegar líður á fyrri hálfleik á hann stöðugt erfiðara með að fylgja varnarlínu aðkomuliðsins og eftir mestu hlaupn sér hann stjörnur, en hann SKAL ekki lát á neinu bera.
Hann verður líklega að fara að hætta að reykja.

Seinni hálfleikur er flautaður á, og hann er upphafshress, telur sig munu ráða vel við þetta eftir frekar velheppnaðan fyrri hálfleik. Áfram gengur boltinn hratt villli vallarhelminga og hann verður að hlaupa fram og hlaupa til baka, aftur og aftur, ávallt einbeittur á varnarlínu Bolvíkinga, sem enn hafa ekki skorað og ekki fengið á sig mark heldur.
Skyndilega hefst enn ein stórsókn aðkomuliðsins og hann tekur á sprett með öftustu varnaramönnum, en þá vill það til að hann flækir  hægri fæti óvænt aftur fyrir þann vinstri og fellur til jarðar. Hann verður að halda veifunni í hægri hendi, en það þýðir að hann hefur bara þá vinstri til að bera fyrir sig, sem hann og gerir.
Hann heyrir smellinn greinlega.
Honum sortnar fyrir augum.
Auðvitað bægir adrenalínið mesta sársaukanum frá til að byrja með, en svo langar hann að öskra frá sér nístandi sársaukann sem heltekur hann skömmu síðar.
Leikurinn heldur áfram og það virðist enginn hafa tekið eftir honum. Leikkurinn er í járnum og hvorugt liðið ætlar að gefa færi á sér. Dómarinn fylgist einbeittur með leikmönnunum, en síður með línuvörðunum, að minnsta kosti ekki þeim sem nú reynir að brölta á fætur með illa brotinn handlegginn, veinandi inni í sér af sársauka.
Ef hann væri leikmaður væri nú þegar búði að kalla á sjúkrabíl..... en hann er línuvörður og línuverðir njóta ekki sömu þjónustu meðan á leik stendur og leikmennirnir.
Það dansa stjörnur fyrir augum hans og tárin streyma úr augunum. Hann sér allt í móðu, en er samt staðinn á fætur, staðráðinn í að standa sína plikt, en kemst fljótlega að því að það mun ekki ganga. Hann verður að fá aðhlynningu.
Þar sem hann er fjær áhorfendum, getur hann ekki vakið athygli þeirra á bágindum sínum og eina leiðin sem hann sér, sér til bjargar, er að lyfta upp veifunni og veifa. Það er hinsvegar merki um leikbrot af einhverju tagi, en ekki handleggsbrot.
Þar sem ekkert sérstakt er í gangi í leiknum hunsar dómarinn veifuna, og sendir línuverðinum skýrt merki um að svona geri maður bara ekki. Hann verður að ná athygli, svo hann heldur áfram að veifa og nú eru leikmennirnir farir að hlæja að þessum ruglaða línuverði og allir hættir að taka mark á honum. Það er ekki fyrr en aðkomuliðið missir boltann útaf og hann dæmir því innkastið, sem allt verður vitlaust og leikmenn Bolungarvíkur hnappast að honum í bræði sinni. Þá tekst honum á gera grein fyrir því, eftir langa syrpu af fúkyrðum, hvernig komið er, en það fer ekki á milli mála, þegar grannt er skoðað, að um er að ræða opið brot á vinstri framhaldlegg.
Eðlilega er brugðist við þegar þetta liggur fyrir og línuvörðurinn fær viðeigandi aðstoð.

Ekki er vitað til þess að þessi línuvörður hafi gætt línunnar eftir þetta.
Og hann reykir enn.

ps. þessa frásögn heyrði ég hjá fD fyrir stuttu, í örútgáfu, þar sem leikur í HM var í gangi og henni þótti við hæfi að trufla einbeitingu mína.  Það þarf ekki að taka fram að henni þótti þetta afar fyndið atvik. Tók það reyndar fram að línuvörðurinn, sem ekki verður nefndur hér á nafn hafi ekki enn áttað sig á hinni kómísku hlið málsins.

ps ps Ég vona að mér verði einhverntíma fyrirgefið hve frjálslega ég hef hér farið með staðreyndir málsins.

22 júní, 2014

Af ákvörðunum og líðan fugla.

Ekki neita ég því að maríuerluparið sem tók sig til, að því er virðist upp úr þurru, á þjóðhátíðardeginum, við að efna í hreiður í fuglahúsi, sem Álaborgarmaðurinn smíðaði fyrir áratugum síðan í handmennt í Reykholtsskóla, gladdi mig.
Maríuerlupar kom sér upp ungum í þessu húsi fyrir tveim árum okkur til ómældrar ánægju. Reyndi aftur í fyrra, en hætti við, að öllum líkindum vegna ógnandi tilburða krumma, sem þá hafði komið sér upp ungviði í Ólafslandi svokölluðu.
Fyrr á þessu voru varð vart við parið þar sem það kannaði aðstæður, en ekkert varð þá úr framkvæmdum.
17. júní hófst verkið hinsvegar af fullum krafti og hver goggfyllin á fætur annarri hvarf inn í húsið og Kvisthyltingar glöddust. Sannarlega þótti þetta heldur seint farið af stað og talið líklegt að fyrra varp parsins hafi farist fyrir með því egg eða ungar hafi endað í hrafnskjafti.
Eftir margar ferðir með efni fór að rigna og það sem meira var, það settist hrafn um stund í trjátopp í Sigrúnarlundi.  Hreiðurgerðinni var hætt og ekkert hefur gerst í húsinu síðan. Það síðasta sem ég sá til parsins í kringum þessa tilraun til hreiðurgerðar var annað þeirra norpandi í hellirigningu um kvöld, skammt frá húsinu, skömmu eftir að krummi hafði sest í furutoppinn.

Ég velti því fyrir mér hvernig maríuerla tekur ákvarðanir.  Kannski bara svona: "Þarna er krummi uppi í tré og núna veit hann að ég er að fara að búa til hreiður í húsinu og hann kemur svo þegar ég er búin að verpa og tekur eggin". Það getur svo sem verið að það hafi verið úrhellið sem fældi parið frá, en það hóf síðan hreiðurgerð á öðrum stað í nágrenninu og ekki veit ég hvernig það hefur gengið.

Ungar krumma hér í næsta nágrenni, eru allir þrír farnir úr hreiðrinu. Sá fyrsti virðist hafa hrapað til dauða eftir átök við systkin sín, löngu fyrir tímann. Sá næsti virðist  einnig hafa yfirgefið hreiðrið heldur snemma því hann er ófær um að fljúga og virðist hafa tognað eða brákað væng við brottförina úr laupnum. Hann heldur til hér uppi í brekku fyrir neðan Kirkjuholt og væri sjálfsagt gustukaverk að einhver áhugamaður um hrafnauppeldi tæki mál hans til umfjöllunar. Sá þriðji virðist hafa komist klakklaust frá þessu. 30% árangur - ekki veit ég hvað hrafnshjónunum
finnst um það.

Þetta var stutt yfirferð um fuglalífið í grennd við Kvistholt þetta vorið.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...