26 janúar, 2014

Ég, gikkurinn

fD finnst kæstur hákarl góður........tvisvar ár ári - á Þorláksmessu á vetri og á Þorra. Henni finnst kæst skata góð........einu sinni á ári - á Þorláksmessu á vetri. Mér finnst hinsvegar lítið til þessa meinta góðgætis koma.........aldrei - ekki einusinni í þau skipti sem ég hef látið mig hafa það að prófa eftir að hafa deyft bargðkirtlana á tiltekinn hátt. Það er hreint ekki svo að ég fyllist viðbjóði við að leyfa þessum matvælategundum að velta í munninum, mér finnst þetta bara hreinlega ekki gott og það tel ég vera fullnægjandi rök gegn því að sameinast fD í þeim helgiathöfnum sem neyslu þessarra fæðutegunda fylgja. 
Nú er sem sagt Þorrinn og ég hef séð hverja myndina á fætur annarri á fb og víðar þar sem fólk finnur sig knúið til að sýna dásemdarhákarlinn sinn ásamt upplýsingum um hvaðan hann er kominn. Það er nefnilega ekki sama hvar hákarlinn er verkaður. Ef ég tæki mig nú til og verkaði hákarl hér í Laugarási þyrfti ég talsvert mörg ár til að sannfæra Tungnamenn um að þar væri á ferð vara sem viturlegt væri að flagga mikið á samfélagamiðlum.
En að hafa náð í vænt stykki af hákarli frá Bjarnarhöfn, svo maður tali nú ekki um ef hann skyldi vera kominn alla leið frá einhverjum kæsingarsnillingnum á Vestfjörðum eða Austfjörðum. Maður getur kinnroðalaust birt myndir af slíkum hákarli á fb. Ef maður fer hinsvegar í einhverja lágvöruverðsverslunina í höfuðstað Suðurlands og kaupir þar niðurskorinn hákarl í lofttæmdum plastpoka, án upprunamerkingar, þá birtir maður ekki mynd af honum neinsstaðar.
Maður hefur ekki hátt um hvaðan slíkur hákarl er kominn. Neysla hans er meira svona inn á við. Það má kannski líkja þessu við það þegar tvær konur kaupa sér kjóla. Önnur kaupir kjól frá Dior eða í búð með útlensku nafni, en hin kaupir á verksmiðjuútsölu í Allabúð. Hvor er líklegri til að auglýsa kaupin? Já, það er sama hver kaupin eru - ef maður telur sitt vera betra en náungans, finnst manni mikilvægt að láta náungann vita af því. Það er svona  minns-er-flottari-en-þinns.

Ég ætlaði nú ekki að eyða miklu púðri í hákarlinn þegar ég byrjaði á þessari tjáningu minni.  Ég ætlaði að skrá hugrenningar mínar í tilefni af því að nú er hafinn Þorri.
Við fD fórum ekki á þorrablót í Aratungu á bóndadag. Það, út af fyrir sig, getur talist fremur lélegt. Þetta þorrablót var áður fyrr einhver stærsta skemmtun ársins á þessum bæ, eins og víðar, en eftir því sem dregið hefur úr sambandi okkar við það sem gerist í þessum hluta Bláskógabyggðar, hefur dregið úr áfergjunni í að taka þarna þátt. Oftar en ekki fór rútufarmur úr Laugarási á þorrablót í Aratungu. Síðan, oftar en ekki, kom maður heim undir morgun því sumir farþeganna vildu njóta þorrablóts lengur en aðrir, við ættjarðarsöngva og aðra tjáningu sem þeir létu vera svona dags daglega.

Ég neita því ekki að mig langar heilmikið að fá að njóta þess græskulausa gamans sem sveitungarnir setja saman um hver annan og flytja á þorrablóti og þætti ekki verra að fá að njóta þess án þess að til þurfi að koma allt tilstandið sem því fylgir.

Það er þetta með þorramatinn; þessar kræsingar, sem sumir kalla svo. Þessa þrá eftir að nálgast frummanninn í sjálfum sér - rífa í sig kjammann, skella í sig brennivíninu, hlæja stórkarlalega að gríninu, sleppa fram af sér beisli hvunndagsins. Allt er þetta gott og blessað, og ég hef sannarlega tekið þátt í því og notið, meira að segja í meiri mæli en góðu hófi hefur gegnt.

Til þess að fara á þorrablót í Tungnamanna í Aratungu þarf heilmikinn undirbúning. Á þetta þorrablót kemur hver með sinn þorrabakka með úrvali af þorramat að eigin vali. Það er ekki síst þorrabakkinn sjálfur sem er mikilvægur þegar haldið er til blóts. Góður þorrabakki er völundarsmíð og sannarlega ekki framleiddur af börnum í Kína. Þorrabakkar er pantaðir hjá valinkunnum völundarsmiðum og verða jafnvel ættargripir. Ingólfur á Iðu smíðaði þorrabakka Hveratúnsmanna.
Þegar haldið er á blótið er bundinn ferningslagaður dúkur utan um trogið með tveim hnútum.
Það er síðan helgiathöfn þegar dúknum er svipt af borðhaldið hefst. Þá blasa kræsingarnar við þeim sem bakkinn tilheyrir og fólkið tekur að stynja og rymja af tilhlökkun, góðgætið hverfur síðan í magana og vellíðunarstunurnar hækka með hverjum bitanum og snafsinum. Í Aratungu eru að jafnaði hátt á þriðja hundrað þorrablótsgestir og þegar borðahaldið stendur sem hæst hættir maður að heyra í sjálfum sér og hverfur inn í einhvern undarlegan þorrablóts heim, þar sem allir verða eitt, en þó hver í sínu.
Ég neita því ekki, að mér hugnast þessi aðferð við þorrablótsfagnað betur en sú sem algengust er orðin - hlaðborðin.

Þorrablót Tungnamanna í þessari mynd hafur lifað af heiftarlegar árásir gegnum árin. Það gekk svo langt, að í mótmælaskyni komu andstæðingar trogablóta eitt sinn til blóst með plastbox í stað trogs og steiktan kjúkling, franskar og kokteilsósu í stað þorramatarins. Sannarlega var tiltækið umtalað og Tungnamenn skiptust í fylkingar þeirra sem voru með og á móti trogablóti. Þeir fyrrnefndu stóðu árasirnar af sér.

Nú virðist mér þessi tegund þorrablóts vera fastari í sessi hér en nokkurntíma, ekki síst vegna þess að það víkur frá því sem algengt er nú til dags. Tungnamenn eru ekki fólk sem stekkur á nýjungar.

Leiðbeiningarstöð heimilanna (áður húsmæðra ;)) telur upp matvæli og drykki sem eru við hæfi þegar þorravevisla er annarsvegar: (Það sem ég hef merkt með rauðu er það sem ég myndi geta sett í mig í svona veislu)

Það sem hæfir slíku borði er:Blóðmör og lifrarpylsa, bæði súr og nýsviðasulta súrsuð og  sviðalappir (þurfa góða suðu)svínasulta, súrsuð og nýsúrsaðir hrútspungar, lundabaggar, bringukollar og hvalsrengi.HangikjötReyktur magáll Saltkjöt (helst heitt) fyrir þá sem ekki eru mikið fyrir súrmatSoðnir sviðakjammar Síldarréttir hvers konar  t.d. kryddsíld eða maríneruð síld og síldarsalötHarðfiskurKæstur hákarl 
Soðnar gulrófur, gulrófustappa, soðnar kartöflur, kartöflumúsLjóst og dökkt rúgbrauð, flatkökur og smjörHvítur jafningur (uppstúf) með hangikjötinu
Drykkjarföng með þorramat fara að sjálfsögðu eftir smekk t.d. öl eða gos og mörgum finnst gaman að fá staup af brennivíni með. 

Varast skal að láta þorramat standa lengi við stofuhita eftir að borðhaldi lýkur. Nauðsynlegt er að kæla afganga eins fljótt og við verður komið.  
Á eftir þorramat þarf ekki nauðsynlega eftirrétt en sumum finnst tilheyra að fá pönnukökur, upprúllaðar eða með sultu og rjóma ásamt góðu kaffi.Smákökur, konfektmoli og gott kaffi eða te er einnig tilvalið.
Hér má bæta við ýmsu og þá kemur í hugann það sem nýjast er á boðstólnum: súrsaður lambatittlingar og væri akkur í að fá upplýsingar fyrir áhugasama um hvernig þeir fara um bragðlauka neytenda.

Já, gikkur er ég.

19 janúar, 2014

Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar

Þessi mynd er tekin 1961 frá læknishúsinu.
Þarna er nýja húsið í Hveratúni í byggingu.
Það stefnir hraðbyri í að ég tilheyri elstu kynslóðinni sem spígsporar á jörðinni. Síðastliðin 20-30 árin hefur kynslóðin á undan mér verið að ljúka jarðvist sinni, nú síðast heiðurskonan Ingibjörg á Spóastöðum.
Mér telst svo til, án þess að ég sé viss um það að nú séu þau sex eftir, sem voru í blóma lífsins að koma upp barnahópnum sínum hér í Skálholtssókn á fyrstu árum ævi minnar.
Á þeim tíma var samgangur talsvert mikill meðal íbúa í sókninni, meiri en er í dag og fjölskyldurnar flestar frekar stórar, enda var þetta á barnasprengjuárunum eftir seinni heimsstyrjöld.
Hér á eftir fylgir fremur óvísindalegt yfirlit um það umveerfi sem ég fæddist inn í og ólst upp við fyrstu árin á sjötta áratug síðustu aldar.

Spóastaðir
Á Spóastöðum bjuggu Ingibjörg Guðmundsdóttir (1916-2014) og Þórarinn Þorfinnsson (1911-1984). Steinunn (Stenna) (40), Sigríður (Sigga) (?), Þorfinnur (43),Guðríður Sólveig (Gurra) (45), Bjarney Guðrún (Badda) (46) og Ragnhildur (53).

Skálholt
Í Skálholti bjuggu þau María Eiríksdóttir (1931- ) og Björn Erlendsson (1924-2005). Dætur þeirra eru, Kristín (52), Jóhanna (55), Kolbrún (60)

Þá eru það prestshjónin í Skálholti, sr. Guðmundur Óli Ólafsson,(1927-2007) og frú Anna Magnúsdóttir (1927-1987), en þeim varð ekki barna auðið.

Höfði
Í Höfða var á þessum tíma ráðsmaður, Stefán J. Guðmundsson, "Stebbi í Höfða", (1912-1972) og tvær Rúnur, þær Guðrún Þóra Víglundsdóttir (1918-2002) og Guðrún Jónsdóttir (systir Eiríks á Helgastöðum, frá Neðra-Dal) (1899-1995)

Helgastaðir
Hinumegin við Laugarás voru síðan þrír bæir, Iða, Helgastaðir og Eiríksbakki. Ég man nú ekki mikið eftir fólkinu sem bjó á Helgastöðum eða Eiríksbakka á 6. áratugnum Á Helgastöðum bjuggu á þessum tíma Eiríkur Jónsson (1894-1987) og Ólafía Guðmundsdóttir (1901-1983). Ég man eftir syni þeirra Gísla (50), sem er eitthvað aðeins eldri en ég. Þau Eiríkur Jónsson og Ólafía fluttu frá Helgastöðum 1967.

Eiríksbakki
Á Eiríksbakka bjó lengst af á þeim tíma sem ég man Hulda Guðjónsdóttir (1917-1995). Hún bjó þar ein, og tók við búi foreldra sinna.

Iða
Á Iðu var stórt heimili og ég man eftir Bríeti Þórólfsdóttur (1899-1970), Lofti Bjarnasyni (1891-1969), syni Bríetar, Ingólfi Jóhannssyni (1919-2005) og Margréti Guðmundsdóttur (1920-). Þau Magga og Ingólfur eignuðust 4 börn, Jóhönnu Bríeti (45), Guðmund (47), Hólmfríði (51) og Loft (55).

Laugarás 
Uppi á hæðinni í Laugarási bjuggu Helgi Indriðason (bróðir Guðmundar á Lindarbrekku) (1914-1995) og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir (systir Jóns Vídalín á Sólveigarstöðum) (1913-1993). Þau ólu upp tvö börn sem voru tiltölulega nálægt mér í aldri, Birgi (48) og Gróu (52).

Laugarás læknishús
Í læknishúsinu voru til 1956 Knútur Kristinsson, læknir (d. 1972) og Hulda Þórhallsdóttir (d. 1981). Ég man eiginlega ekkert eftir þeim, enda á þriðja ári þegar þau fluttu burt. Í stað þeirra  komu þau Grímur Jónsson (1920-2004) og Gerða Marta Jónsson (1924-2013). Þau voru hér í 10 ár og áttu 6 börn, Grím Jón (Nonna)(49), Lárus (Lalla)(51), Þórarin (Dodda)(52), Jónínu Ragnheiði (56), Bergljótu (Beggu)(59) og Egil (62).

Lindarbrekka
Á Lindarbrekku bjuggu Guðmundur Indriðason (1915-) og Jónína Sigríður Jónsdóttir (1927-). Þau fluttu nýlega í þjónustuíbúð á Flúðum. Þau eignuðust 4 börn, Indriða (51), Jón Pétur (55), Katrínu Gróu (56) og Grím (61).

Launrétt - dýralæknishús
Bragi Steingrímsson (1907-1971) tók við dýralæknisembætti 1958 og flutti ásamt konu sinni Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999), í nýbyggt dýralæknishúsið í Launrétt þagar það var tilbúið (mér sýnist að þangað til nýja húsið var tilbúið hafi þau búið á Stóra-Fljóti). Þau áttu 8 börn:
Grímhildi (37), Baldur Bárð (39), Halldór (41), Steingrím Lárus (42), Kormák (44), Matthías (45), Þorvald (48), Kristínu (49). Eðlilega man ég lítið eftir börnum Braga og Sigurbjargar, og þaf helst af Sigurbjörgu að til henna sóttum við nokkur n.k. forskóla áður en formleg skólaganga hófst.


Tekið í gróðurhúsi Jóns Vídalín 1961.
Aftastur er líklega Erlingur Hjaltason, fyrir framan hann
Guðmundur Daníel Jónsson og systir hans, Lára.
Mig grunar að fremstur standi síðan Jakob Narfi Hjaltason.
Sólveigarstaðir
Á Sólveigarstöðum bjuggu Jón Vídalín Guðmundsson (1906-1974) og Jóna Sólveig Magnúsdóttir (1928-2004). Jóna kom með 2 börn inn í hjúskap þeirra þau Magnús Þór Harðarson (1946-1966), Hildi E.G. Menzing og saman eignuðust þau Guðmund Daníel (Mumma)(55), Láru (57) og Guðnýju (60) og Arngrím (1962-2003)

Einarshús og síðar Laugargerði 
Fríður Pétursdóttir (1935 -) og Hjalti Ólafur Elías Jakobsson (1929-1992) fluttu í Laugarás snemma á sjötta áratugnum og þau eignuðust sex börn, Pétur Ármann (53), Erling Hrein (55), Hafstein Rúnar (57), Jakob Narfa (60), Guðbjörgu Elínu (64) og Mörtu Esther (68). 

Hveratún
Þarna bjuggu foreldrar mínir frá 1946, en þau voru Guðný Pálsdóttir (1920-1992) og Skúli Magnússon (1918 -). Þau eignuðust 5 börn, Elínu Ástu (47), Sigrúnu Ingibjörgu (49), Pál Magnús (53), Benedikt (56) og Magnús (59)

Ég vona að ég hafi ná hér saman nöfnum allra sem við sögu komu í Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar. Af þessari upptalningu má sjá að barnafjöldinn var mikill, en hér fyrir ofan eru upp talin 43 börn í sókninni. Nú er öldin önnur.

Fyrst ég er nú búinn að safna þessu saman, tel ég vera kominn grundvöll til að halda áfram - skoða kannski betur sögu þessa fólks og afkomendanna, safna saman myndum (nú þegar er ég kominn með þó nokkrar) og loks má spjalla um samspil fólksins í Skálholtssókn á síðari hluta síðustu aldar.
En þegar íbúasprengingin varð í Laugarási á sjöunda áratugnum fóru málin að flækjast heldur betur og til að ná saman upplýsingum um alla sem þar komu við sögu þarf heilmikla rannsóknavinnu.

Það er ljóst að þetta er stærra verkefni en ég treysti mér mér í að svo stöddu
-----
Vinsamlegast látið mig vita um villur sem kunna að leynast í þessari samantekt.

11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...