17 mars, 2014

Saga úr Laugarási: Lífsháski á vörubílspalli

Hjalti og Fríður bjuggu í Einarshúsi fram undir 1965. Ég efast um að þetta hús hafi borið þetta nafn þá. Mér hefur verið sagt að systir Sigurlaugar Einarsdóttur, konu Óafs Einarssonar, Hólmfríður, hafi byggt þetta hús. Siðar komst það í eigu sonar Ölafs Einarssonar, Einars.  Þetta hús stendur enn á sínum stað, vinstra megin þegar Skúlagata er ekin í átt að Hverabrekku og kallast nú Lauftún.
Á þeim tíma sem um ræðir, líklga 1963-4, stóð vörubíll vinstra megin við heimreiðina að húsinu og ég reikna með að Hjalti hafi átt hann. Hann var ónothæfur sem vörubíll sökum elli og hrumleika en gerði því meira gagn sem barnaleikvöllur. Það var nokkuð gaman að setjast við stýrið og puðra, fara í ímyndaða bíltúra með barnaskarann sem farþega, annaðhvort inni í stýrishúsinu eða aftan á pallinum. Þarna var hægt að dunda sér heilmikið.

Það er líklega í eðli okkar mannanna, ekki síst þegar við erum börn, að finna hvar einhver mörk eru og þannig var það líka með þennan vörubíl. Það þurfti smám saman að kanna fleiri möguleika til leikja í tengslum við hann; að kíkja undir hann, pæla í mælunum í mælaborðinu og opna vélarhlífina þar sem við blasti ógnarstór vélin með ótal spennandi athugunarefnum. Sumir voru talsvert áhugasamari að þessu leyti en aðrir; drukku í sig leyndardóma þessa tryllitækis í því skyni að auka við þekkingu sína til síðari nota.
Umræddur vörubíll - fyrir eða eftir.
Þarna eru í eftir röð f.v.Hafsteinn Hjaltason, Benedikt Skúlason 
og Erlingur Hjaltason, í miðið  Magnús Skúlason, 
Jakob  Narfi Hjaltason og Guðný Jónsdóttir Vídalín.
(myndin er ekki tekin þegar umrætt atvik átti sér stað)
mynd frá PH.
Undir pallinum, rétt fyrir aftan stýrishúsið var eldsneytistankurinn, svona eins og er á vörubílum. Það var ekkert lok á honum en það breytti litlu um áhugann á að komast að því hvort eitthvað væri í honum. Til þess myndi þurfa ljósgjafa, enda dimmt ofan í svona eldsneytistönkum. Ódrepandi forvitnin um leyndardóma tanksins varð til þess að ungur maður í hópnum, sem síðar reyndist afar áhugasamur um vélar og tæki, varð sér úti um eldspýtustokk með einhverju móti og þar sem hópur barna á aldrinum 5-10 ára var að leika sér í og við vörubílinn, kveikti hann á eldspýtu og bar að stútnum á tankinum.
Þarna lærðist það, að maður á ekki að nota logandi eldspýtur til að athuga hvort það er bensín á tönkum. Það varð heilmikil sprenging og feður og mæður komu hlaupandi hvaðanæva að og áttu allt eins von á að einhver lægi í valnum, sem ekki reyndist vera.  Þegar tankurinn sprakk voru börn inni í stýrishúsinu og uppi á pallinum, auk þeirra sem voru með ævintýramanninum í að kíkja eftir innihaldi tanksins.

Vörubíllinn missti talsvert af leikþokka sínum við brunann sem þarna varð og ég veit ekki hvað síðar varð af honum.

(með fyrirvara um að minnið hafi ekki brugðist)

10 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (3)

Laugarás - ljósmynd Mats Wibe Lund
Þetta er síðasti hluti umfjöllunar minnar um dvalarheimili/hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu. 
Tilefni þessara skrifa minna er sannarlega að stærstu leyti sú brýna þörf sem mér finnst vera orðin á að efla þjónustu við það fólk sem á síðasta tímabili ævi sinnar þarf aukna þjónustu, ekki síst þjónustu sem léttir þeim lífið svo sem kostur er.
Það er ennfremur afar mikilvægt til að geta notið elliáranna í öruggu og traustu umhverfi, að það sé auðvelt fyrir það fólk sem að öldungunum stendur, að kíkja í heimsókn.
Það má  kannski halda því fram, að það sé lítilsvirðing við fólk að það skuli þurfa að flyta í aðrar sýslur þegar þær aðstæður koma upp, sem koma í veg fyrir að það geti búið á heimlum sínum. Ég ætla samt ekki að taka svo djúpt í árinni.

Því er ekki að leyna, að það sem ýtir á mig að fjalla um þessi mál er einnig af persónulegum toga. Ef ég fæ að njóta einhverra elliára að ráði, þá blasir við, að í óbreyttu ástandi muni þeim árum fylgja talsvert öryggisleysi. Ef á annað borð verður um að ræða pláss á heimili af þessu tagi, þá get ég átt von á að verða sendur um langan veg, jafnvel austur á Kirkjubæjarklaustur (sannarlega hef ég ekkert á móti þeim fagra stað). Slík staða hugnast mér ekki og ég held að sú staða hugnist fáum.

Faðir minn dvelur í góðu yfirlæti á dvalar- hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Við getum þakkað fyrir að hann er þó ekki lengra í burtu. Það eru 50 kílómetrar frá Laugarási að Hellu, en frá Laugarvatni eru það 25 km til viðbótar.
Ég tala af þessum sökum af nokkurri reynslu um þessi mál.

Það gladdi mig að frétta af því að kvenfélögin í uppsveitunum hafa tekið þetta mál upp á sína arma. Það er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þau beita sér fyrir góðum málum. Frá þessu er greint hér. Þar segir meðal annars:
„Okkur finnst hart að þurfa að flytja aldrað og sjúkt fólk hreppaflutningum svo að það fái þá umönnun sem það þarfnast. Þetta er fólkinu sjálfu erfitt og gerir fjölskyldum þeirra erfiðara fyrir að heimsækja fólkið sitt og leggja sitt af mörkum til umönnunar þess.“ 
Ég get gert þessi orð að mínum.

04 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (2)

Þetta er framhald af þessum pistli.

Það er aðrir færari en ég til að reikna út hver þörfin er fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu, en Ríkisendurskoðun vann skýrslu um þessi mál 2012 og þar kemur fram að fjölda dvalarrýma á Suðurlandi fækkaði um 43% á milli áranna 2006 og 2011. Það blasir síðan við að öldruðum mun fjölga mjög á næstu árum. Þetta er orðið áhyggjuefni, ekki síst hjá fólki á mínum aldri, tilheyrandi einhverri fjölmennustu kynslóð sem gist hefur þessa jörð: barnasprengukynslóðinni eftir seinni heimsstyrjöld.

Hvað um það, eins og fram kom hjá mér í fyrsta hluta þessara skrifa þá voru íbúar í uppsveitum, sem voru 70 ára og eldri þann fyrsta janúar í fyrra, 294. Á Suðurlandi öllu voru 2011 41.5 dvalarrými á hverja 1000 aldraða (67 ára og eldri). Þá hafði dvalarrýmum fækkað um 43% á 5 árum, en íbúum sem voru 67 ára eða eldri hafði fjölgað um 16% á sama tíma.

Ég ætla ekkert að rökstyðja það frekar, en mér sýnist mikil þörf vera á að byggja upp dvalarheimili fyrir aldraða, í einhverri mynd á þessu svæði okkar. Verkefni af þessu tagi þarf að fara að ræða af fullri alvöru, en mér vitanlega hafa umræður um stofnun af þessu tagi ekki verið fyrirferðarmikil allt frá því horfið var frá íbúðunum sem til stóð að byggja í Laugarási fyrir um 20 árum.

Það er sjálfsagt ýmislegt sem stendur í veginum fyrir því að samfélag sem telur tæplega 3000 íbúa treystir sér ekki til að ráðast í verkið. Ég ætla að vona að stærsta ástæðan sé tregða af hálfu ríkisins, en ég hef séð  (bygging hjúkrunarheimilis í Kópavogi 2010) að hlutur ríkisins í byggingakostnaði sé 85% en hlutur viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga 15%.
Ef ástæður fyrir því að ekki er unnið að þessum málum er áhugaleysi meðal sveitarfélaganna í uppsveitum þá er það eitthvað sem mikilvægt er að vinna í.

Ég hef fullan skilning á því, að hvert sveitarfélaganna fjögurra í uppsveitum fyrir sig, vilji helst fá dvalar og hjúkrunarheimili sem næst sér, á Flúðum, í Brautarholti eða Árnesi, á Borg eða á Laugarvatni eða í Reykholti. Það verður hinsvegar að byrja á því að meta hvort slíkt er mögulegt. Augljóslega væri það ekki svo, nema eitthvert sveitarfélaganna hreinlega næði verkefninu til sín á meðan hin fengju það ekki.
Það er aðeins einn staður í uppsveitum sem ætti að geta verið nauðsynleg málamiðlun, en það er Laugarás og ástæður þess eru þessar helstar:

a. Sveitarfélögin eiga Laugarásjörðina saman.
b. Heilsugæslustöð fyrir uppsveitirnar er í Laugarási.
c. Það eru til góðar lóðir undir þessa starfsemi í Laugarási.
d. Frá þrem þorpum í uppsveitum er jafn langt í Laugarás, um það bil 25 km. Frá öðrum styttra.

Ef fólk er tilbúið að sættast á það, að besti kosturinn, dvalarrými fyrir aldraða í eigin þéttbýliskjarna, sé ekki raunhæfur, þá verður varla framhjá því litið að Laugarás er sá kostur sem næstur hlýtur að koma.

Ef mönnum (sveitarstjórnarmönnum og þeim sem um véla eða vilja hafa á þessu skoðanir) líst ekki á að byggja upp dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási, þá langar mig afskaplega mikið að heyra helstu ástæður fyrir því.  Mér finnst alveg kominn tími til, með stórbættum samgöngum, að sveitarfélög í uppsveitum sameininst aftur um að tiltekin grunnþjónusta, sem hvert þeirra fyrir sig á erfitt með að standa undir, verði sett í Laugarás.

Auk þessa legg ég til að sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu sameinist. Það er löngu tímabært.

01 mars, 2014

Sólsetur í uppsveitum (1)


Svokallaðar uppsveitir Árnessýslu telja 4 sveitarfélög: Hrunamannahrepp með 784 íbúa þann 1. janúar 2013, Skeiða- og Gnúpverjahrepp með 504 íbúa, Bláskógabyggð með 897 íbúa og Grímsnes- og Grafningshrepp með 422 íbúa.  Þetta þýðir að þann 1. janúar 2013 var heildarfjöldi íbúa í uppsveitum 2607. Af þessum 2607 voru 514 60 ára eða eldri, 270 karlar og 244 konur.  239 voru 70 ára eða eldri.  Það er auðvitað alltaf hægt að leika sér með tölur  og velta fyrir sér hver fjöldi þeirra sem verður á eftirlaunaaldri verður eftir 10 ár. Það ætla ég ekki að gera og tel að þær tölur sem ég hef nefnt hér gefi nokkuð skýra vísbendingu um þann fjölda sem verður á þeim aldri, á hverjum tíma, sem þeir þurfa að huga að einhverjum úrræðum vegna síðustu ára sinna í jarðlífinu.
Fyrir þá 239 sem voru 70 ára eða eldri þann 1. janúar 2013 sýnist mér að þessi úrræði séu fyrir hendi þegar að þeim tíma kemur, að fólk þarf meiri þjónustu vegna aldurs:

Bláskógabyggð:  12 íbúðir (4 á Laugarvatni og 8 í Reykholti).
Hrunamannahreppur: 6 íbúðir
Skeiða- og Gnúpverjahreppur:  4 hjúkrunarrými og 8 dvalarrými.

Þegar þetta allt er talið saman sé ég ekki betur en það sé pláss fyrir, að hámarki (miðað við að 2 séu hverri íbúð, sem ekki er endilega raunin) 44 einstaklinga sem ekki þurfa á stöðugri hjúkrun eða umönnun að halda og 4 sem þurfa að njóta stöðugrar hjúkrunar.  Þar með eiga 48 einstaklingar, að hámarki, kost á þjónustu í til þess ætluðu húsnæði.

Sem betur fer eiga margir þess kost að dvelja heima hjá sér æviloka, annað hvort vegna þess að þeir halda góðri heilsu til síðasta dags, eða þá að þeir eiga kost á umönnun fjölskyldu sinnar og/eða starfsmanna á vegum velferðarþjónustu.  Aðrir eiga það ekki.
Íbúar uppsveitanna sem þurfa meiri þjónustu en hægt er að veita heima við, þurfa nú margir að flytja á dvalar- eða hjúkrunarheimili utan síns heimasvæðis. Þar getur verið um að ræða Selfoss, Hveragerði, Stokkseyri, Eyrarbakka, Hellu, Hvolsvöll og jafnvel Vík eða Kirkjubæjarklaustur.

Fyrir nokkru skrifaði ég pistla hér og hér þar sem ég benti á fyrrverandi sláturhúsið í Laugarási sem heppilegan stað til að setja á stofn heimili af þessu tagi. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka þá pistla hér, heldur halda aðeins áfram með málið, en ég hef engin viðbrögð fengið við þegar skrifuðum pistlum, enda kannski ekki von með þann fjölda lesenda sem ég hef hér.

Það svæði sem er skyggt með rauðu er umrætt land. það hallar lítillega í átt að Hvítá og við blasir Hvítárbrúin, Vörðufell, Hestfjall og jafnvel Ingólfsfjall. Í nokkurra metra fjarlægð er síðan Heilsugæslustöðin. Mér finnst að það sé alveg kominn tími til að hreyfa aftur við hugmyndum um einhverskonar dvalarheimili fyrir aldraða í Laugarási. Slíkar hugmyndir voru langt komnar um miðjan 10. áratuginn: búið að teikna byggingar, skipuleggja svæði og byggja sýningarhús, sem nú stendur í Vesturbyggð 4. Ég veit ekki nákvæmlega á hverju steytti þá, en tal að þar hafi sundurlyndisfjandinn verið á ferð.  Nú sjá menn hverju hann fær áorkað. Lítið hefur þokast í þessum málum hér í uppsveitum síðan.
Hér til vinstri er úrklippa úr Litla-Bergþór frá 1994 þar sem fjallað var um  þjónustuíbúaðakjarnann sem fyrirhugaður var. Vissulega voru þarna á ferð aðrar hugmyndir en ég er að ræða hér, en einhver stærstu rökin sem fram voru færð snérust um nálægðina við heilsugæsluna.
Íbúðakjarnanum var ætlaður staður þar sem RKÍ rak sumardvalarheimili fyrir börn á sjötta og sjöunda áratugnum. Hér til hægri má sjá loftmynd þar sem heimilið er merkt með rauðu, þjóðvegurinn með gulu og Hvítá með ljósbláu.




Hér til vinstri er það land sem RKÍ hafði fyrir barnaheimilið. Það er í skjólgóðri kvos með afar gott útsýni yfir Hvítá í átt að Vörðufelli, Hestfjalli og fleiri fjöllum í fjarska. Fyrir framan þetta land er Dýragarðurinn Slakki, þar sem er líf og fjör.

Þriðji möguleikinn á lóð fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási er að finna fyrir norðan heilsugæslustöðina. Ég sýni það á myndinni hér til hægri..

Svo held ég áfram næst.








Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...