21 júlí, 2014

Í sunnlenskri sól


Maður má ekki forsmá það sem máttarvöldin þó veita manni af heimsins gæðum. Það er mikilvægt að halda því til haga að sólin komst óhindrað á pallinn í Kvistholti í gær í eina klukkustund og 35 mínútur og er það lengsta samfellt sólskin á þessu sumri.
Það þarf varla að geta þess að fD nýtti þennan tíma til hins ítrasta til að safna forða d-vítamíns fyrir veturinn. Sólbaðið var auðvitað lengra en sem nemur þeim tíma sem sást til sólar, enda uppi sú kenning að sólarljósið gagnist svo lengi sem maður sér skuggann af sjálfum sér á sólbekknum. Á grundvelli þessarar kenningar náði sólskinssleikurinn allt að 4 klukkustundum, sem verður að teljast harla gott.

Ég mátti, að venju, þegar yfirleitt sést að það er sól á himni, sitja undir hneykslan fD á því að ég væri að "húka inni í svona góðu veðri" og í framhaldi af því lét ég til leiðast að liggja gegnum mesta sólskinið, án sjáanlegs árangurs.
Ekki efa ég það að á næstu vikum, í það minnsta áður en vetur leggst að, fái ljóshnötturinn að senda geisla sína í æ rikara mæli óhindrað á sólsjúka Kvisthyltinga.

11 júlí, 2014

Keðjusagarfrúin

"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég, harla slakur, þar sem við Kvistholtshjón renndum úr hlaði stórmarkaðs í höfuðstað Suðurlands um hádegisbil í dag. Innkaupin höfðu gengið átakalaust fyrir sig og ég hafði meira að segja sýnt talsvert frumkvæði í innkaupunum, þó flest af því væri allt annað en stóð að listanum hjá fD, þar á meðal rauðrófur og chili.
"Ég ætla að kaupa keðjusög", kom svarið, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þó ég hafi ekki látið á neinu bera, fór lítillega um mig við þessa ákveðnu yfirlýsingu. Ég renndi meira að segja í huganum yfir það sem gerst hafði í innkaupaferðinni en fann ekkert það í henni sem gæti gefið tilefni til að keypt yrði keðjusög, en hvað vissi ég svo sem? Eitt var mér ljóst, þegar fD er búin að taka svo eindregnar ákvarðanir verður þeim ekki breytt, nema hún geri það sjálf.
"Það er nefnilega það" sagði ég því og renndi mér út úr hringtorginu í átt að annarri byggingavöruversluninni.
"Nei, ekki í þessa. Ég ætla að fara í hina". Þar með var komin fram tvöföld ákvörðun sem erfitt yrði að hagga: það skyldi keypt keðjusög í tiltekinni byggingavöruverslun, og ekki meira um það að segja.
Ég fann fljótlega leið til að snúa við, enn ekki alveg viss um hvernig ég ætti að taka þessu öllu saman, en brátt fékk ég meira að vita.
"X (sálfræðingur) sagðist hafa notað keðjusög sem hann hefði fengið hjá þessari byggingavöruverslun til að saga niður tré hjá sér og þó stofnarnir væru 40 cm í þvermál hafi sögin runnið í gegnum þá eins og hnífur smjör við stofuhita. Ég vil þannig  keðjusög". 
Nú, úr því X hafði sagt þetta, hlaut það að vera rétt. Ég velti fyrir mér örskotsstund hvort blandan sálfræðingur og keðjusög gæti með einhverju móti orsakað hættuástand á heimilinu, en sá strax að þar gæti ekki verið rökrænt samhengi.

Þar með renndum við í hlað á réttri byggingavöruverslun.

Þar innan dyra var allt í rólegheitum, en svo undarlega sem það hjómar var, eins og fyrir yfirnáttúrulega krafta, búið að raða upp á borð keðjusögum af ýmsum gerðum, beint á móti innganginum. Það sem meira var, þær voru með 25% afslætti. Á þeim, tímapunkti varð mér ljóst, að út úr þessari verslun færum við ekki keðjusagarlaus.
Ég fann á endanum afgreiðslumann sem ku vita ýmislegt um keðjusagir og sýndi honum með látbragði sverleika þeirra trjáa sem hún þyrfti að ráða við.

"Ég vil fá sög eins og sálfræðingurinn notaði". Það var fD sem kom þarna inn í umræðuna, og hafði í engu slegið af ákveðni sinni.  Þar með gengum við í halarófu inn í vélaleigusalinn. Þar kom í ljós að tiltaknar Texas vélar voru aðallega notaðar í leigunni, svo þær hlutu að vera réttu vélarnar. Það voru teknar niður tölur svo ekkert færi á milli mála. Síðan voru fest kaup á sálfræðingsvélinni, með 25% afslætti.
"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég þar sem við renndum úr hlaði byggingavöruverslunarinnar.
"Nei, ekkert fleira", og þar með lá leið í Kvistholt, með keðjusögina.
Við renndum í hlað og við blöstu tilvonandi fórnarlömb keðjusagarinnar.
"Þau eru ekki næstum því jafn sver og þú sýndir afgreiðslumanninum."
Ég kvað fD misminna um sverleika trjáa í Kvistholti sem biðu nú dauða síns.
Ég get nefnilega líka verið ákveðinn.

--------------

Ég reyndi nýlega að fá vottorð hjá Pétri þess efnis, að ég þyldi ekki búðarölt. Hann neitaði, en sagði aðeins að maður ætti að forðast það sem maður þyldi ekki.
Ég lét mynda á mér mjóbakið í dag. Kannski kemur þá í ljós að ég þoli ekki skógarhögg. Hver veit?.

Varðandi X þá vil ég ekki nafngreina hann fyrr en hann hefur gefið mér til þess leyfi.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...