21 september, 2014

Hörður (að verða) 80

Á morgun, þann 22. september, fagnar Hörður Vignir Sigurðsson áttræðisafmæli. Hann er einn þeirra sem hafa verið samferðamenn Laugarásbúa af minni kynslóð nánast alla ævi. Ég mun hafa verið 10 ára þegar fjölskyldan flutti í Gamla bæinn í Hveratúni, Hörður, þrítugur og Ingibjörg tuttugu og fjögurra ára, með synina Atla, fjögurra ára og Bjarna, tveggja ára.
Ári eftir að þau fluttu bættist Kristín síðan við hópinn. Hörður og Ingibjörg eða Ingibjörg og Hörður finnst mér hafa markað upphaf þeirrar miklu fólksfjölgunar sem varð í Laugarási á síðari hluta sjöunda áratugarins.

Í Gamla bænum bjuggu þau í um það bil 3 ár en fluttu þá í húsið sem þau höfðu komið sér upp í Lyngási, norðan Laugargerðis, vestan Skálholtsvegar, í og undir Kirkjuholti.
Landið sem Lyngás stendur á er 1,4ha. Gróðurhúsið sem þau Lyngáshjón byrjuðu með svo fljótt sem mögulegt var eftir flutninginn, var um 800m² (br.) , pökkunarskúrinn/aðstöðuhúsið var byggt 1965, og hitt gróðurhúsið sem byggt var, er rúmir 400² , en það reis 1974.

Skúrinn og gróðurhúsið
í Lyngási 1970
Mér finnst ræktunin í Lyngási hafi alltaf verið blóm og þá aðallega krysi og jólastjarna, löngum bæði þannig að þessar tegundir voru seldar sem græðlingar til framhaldsræktunar og einnig í endanlegri mynd. Ég var á einhverjum tíma sumarstarfsmaður hjá þeim og veit því örlítið um þetta.







Það sem sést af íbúðarhúsinu
í Lyngási, 2014




Eins og lífið gengur nú fyrir sig þá kom að því að aldur þeirra hjóna kallaði á breytingar og fyrir 12 árum fluttu þau í Hveragerði, þar sem þau búa enn.
Lyngás er hér enn og gegnir nú talsvert ólíku hlutverki. Fyrsta gróðurhúsið þeirra er orðið að minningu, hitt gegnir óræðu hlutverki, og pökkunarskúrnum hefur verið breytt í einhverskonar vistarverur.


1984 fluttum við Kvisthyltingar í næsta nágrenni við Lyngás. Börnin okkar fengu ekki síst að njóta þessa nágrennis, en á það bar aldrei skugga.

Eftir að þessi ágætu hjón fluttu í Hveragerði hafa samskiptin dregist saman, enda er Hveragerði þannig í sveit sem að maður er annaðhort að "drífa sig í bæinn" eða að "drífa sig heim". Það var þessvegna kærkomið að fá að komast í myndasafnið hjá Ingibjörgu og hafa þar með beinlínis skothelda ástæðu til að kíkja í heimsókn til þeirra á þessu ári.

Lyngásfjölskyldan 1969

11 september, 2014

Ekki sáttur

Ég er maður sem fylgist með stefnum og straumum, enda löngu búinn að átta mig á því að þeir sem gleyma sér smá stund í tíma sem löngu er liðinn (eða ekki svo löngu) eru óðar orðnir á eftir að flestu leyti, ekki aðeins tæknilega heldur einnig í hugsun, málbeitingu og flestu því öðru sem því fylgir að lifa og starfa í nútímanum. Lengi gæti ég nú fjallað um þetta eins og margt annað, en það bíður eftirlaunaáranna. Nú er það hraðinn sem gildir; snaptsjattshraðinn.

Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.

Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.

Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum.
Ég er auðvitað nútímamaður og sem slíkur var ekki um annað að ræða hjá mér en að taka sjálfsmynd(ir), sem ég  gerði auðvitað, þó svo þetta sé einn þeirra þátta í fari nútímamannsins sem ég hef enn einna minnsta skilninginn á.

Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist.  Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.

Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:

Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.

Sagan er hinsvegar ekki öll.

Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum.
Eins og vera ber þakkaði maðurinn svo fyrir allar kveðjurnar daginn eftir og lét þar fylgja með sjálfsmynd sem hafði verið tekin við áðurnefnt tilvik í Atlavík. Þessi sjálfsmynd komst auðvitað ekki í hálfkvisti við mína fínu mynd, Bæði var, að uppbygging myndarinnar fullnægði ekki stöðlum góðrar sjálfsmyndar og myndefnið skorti einfaldlega hinn rétta tón.
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!

Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.

-------------------------------------------------

Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang  með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.

06 september, 2014

Fóstbræður stíga af sviðinu

Sigurður Bjöndal og Skúli Magnússon
(gæti verið tekin skömmu eftir 1930)
Í dag er Sigurður Blöndal á Hallormsstað borinn til moldar. Hann fæddist 3. nóvember 1924 og lést á nítugasta aldursári, þann 26. ágúst, s.l.
Sigurður var skógtæknifræðingur að mennt og var skógarvörður á Hallormsstað og síðar skógræktarstjóri ríkisins.

Pabbi kallaði hann fóstbróður sinn.

Um svipað leyti og Sigurður fæddist kom pabbi í fóstur í Mjóanes til Sigrúnar og Benedikts, foreldra Sigurðar, sem þá voru nýflutt frá Eiðum. Þá var hann um það bil sex ára gamall. Hann ólst síðan upp hjá fjölskyldunni þar til hann hélt suður á bóginn í lok árs 1939.

Uppeldi þeirra fóstbræðra varð til þess að báðir gerðu gróður jarðar að ævistarfi hvor með sínum hætti.

Ég læt hér fylgja gamlar myndir af þeim félögum, fjölskyldunni á Hallormsstað og af Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.

Eftir langar og farsælar ævir létust fóstbræðurnir með stuttu millibili nú í ágúst,.

Sigrún, Sigurður, Skúli og Benedikt.
(Ég giska á að þessi sé tekin 1936-8)

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað.
(Þeir sem eru góðir í að þekkja árgerðir bíla gætu fundið út hvenær þessi
mynd var tekin).

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...