13 október, 2014

Doktoraþorpið í skóginum

Það rann upp fyrir okkur Kvisthyltingum í tengslum doktorsvörn Þorvaldar fyrir nokkrum dögum að Laugarás hefur líklega hlutfallslega alið af sér óvenju marga doktora. Okkur telst til að frá aldamótum hafi 6 Laugarásbörn fetað þennan veg. Lengi má örugglega velta því fyrir sér hvað það er sem veldur.













Árið 1997 Lauk Helga Gunnlaugsdóttir frá Brekkugerði doktorsprófi frá háskólanum í Lundi

Árið 2002 lauk Eiríkur Sæland frá Sólveigarstöðum doktorsprófi frá Ríkisháskólanum í Utrecht í Hollandi.










Árið 2005 lauk Tómas Grétar Gunnarsson frá Asparlundi doktorsprófi frá Háskólanum í East Anglia á Bretlandi.








Árið 2010 lauk Guðbjört Gylfadóttir frá Launrétt 2 doktorsprófi frá Floridaháskóla í Bandaríkjunum.










Árið 2013 lauk Atli V Harðarson frá Lyngási doktorsprófi frá Háskóla Íslands.










Árið 2014 lauk Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti doktorsprófi frá Háskólanum í Álaborg

















Mér finnst þetta harla merkilegt ekki síst fyrir þær sakir að ég átti þátt í uppfræðslu fjögurra af þessum sex einhverntíma á námsferli þeirra (hvort sem það breytti nú einhverju)og fjórir doktoranna luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Þá er það athyglisvert, að fjórir af 6 doktorunum ólust upp á garðyrkjubýlum.
Ef ég færi að reyna að grennslast fyrir um þann fjölda Laugarásbarna sem hafa lokið meistaraprófi, svo ekki sé nú talað um fyrsta hákólaprófi yrði listinn talsvert lengri.

Er þessi menntunarsækni Laugarásbúa ein af megin ástæðum fyrir því hve  hægt gengur að fjölga íbúunum? Það má spyrja.

.....
Nú verð ég bara að vona að ég hafi ekki gleymt neinum - ef svo er þá treysti ég því að ég verði látinn vita.

11 október, 2014

Verkir í lendum og mjaðmargrind.

Ekki var ég nú alveg viss um hvað var framundan þar sem ég sat í stofu D2-106 í Álaborgarháskóla föstudaginn 2. október síðastliðinn. Sannarlega vissi ég að næstelsti sonurinn, Þorvaldur Skúli, myndi þarna verja doktorsverkefni sitt og í framhaldinu líklegast fá doktorsnafnbót. Umrætt verkefni ber yfirskriftina "Lumbopelvic pain - sensory and motor aspects".  Ekki ætla ég mér nú að fara að lýsa innihaldi eða tilgangi verkefnisins, en í sem stærstum dráttum fjallar það um tiltekið verkjamódel sem var notað til að rannsaka hvort og hvernig sársauki í lendum og mjaðmagrind breytir niðurstöðum í tilteknum greiningarprófum.
Í stofu D2-106 var samankominn um 30 manna hópur til að fylgjast með vörninni, bæði fulltrúar fjölskyldnanna sem standa að doktorsefninu og fyrrum og núverandi kollegar hans auk einhverra nema í þeim fræðum sem þarna er um að ræða.
Áður en athöfnin hófst setti yngsti Kvisthyltingurinn, sá sem hefur menntað sig í miðlun, upp samband við internetið, sem olli því auðvitað að áhugasamir gátu fylgst með öllu sem fram fór.

Svo hófst athöfnin með því að Thomas Graven-Nielsen, prófessor, sem hélt utan um athöfnina, bauð fólk velkomið og greindi frá því sem þarna myndi fara fram. Hann kynnti til sögunnar andmælendur eða matsnefnd, þau Dr. Lieven Danneels frá háskólanum í Ghent í Belgíu og Dr. Britt Stuge frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló og formann hópsins Parisa Gazerani, dósent, frá Álaborgarháskóla.
Þessu næst hófst 45 mín. fyrirlestur Þorvaldar, sem var skreyttur með viðeigandi glærum.


Að loknu stuttu hléi tóku andmælendur til máls, fyrst Dr. Britt Stuge. Hún fór yfir ýmsa þætti í verkefninu með gagnrýnum hætti og kallaði eftir svörum og útskýringum, en þetta fór þannig fram að hún talaði úr sæti sínu en Þorvaldur stóð berskjaldaður og þurfti að bregðast við athugasemdum og spurningum.
"Hér stend ég og get ekki annað"
Meðan á þessum þætti stóð vaknaði alloft með móðurinni, sem þarna var auðvitað stödd, þörf á að láta hendur skipta gagnvart andmælandanum, en til þess kom ekki.  Þegar Dr Britt hafði lokið sér af, tók Dr Lieven Danneels við og kallaði sömuleiðis eftir skýringum á ýmsu og gagnrýndi sumt. Þessi hluti athafnarinnar tók upp undir 2 klukkustundir og tók nokkuð á.

Formaður nefndarinnar tilkynnir
niðurstöðu nefndarinnar.
Fv. Parisa Gazerani, Dr. Britt Stuge,
 Dr. Lieven Danneels
Andmælendur drógu sig síðan í hlé til að ráða ráðum sínum, en öðrum viðstöddum var boðið til móttöku í tilteknu herbergi annarsstaðar í húsinu, sem reyndist ekki auðfundið, en fannst auðvitað að lokum. Þar hafði verið komið fyrir léttum veitingum og hópurinn sem þarna var stóð í kringum borðið og beið eftir að niðurstaðan yrði kunngjörð. Eftir um 20 mínútur gengu andmælendur í salinn og formaðurinn tilkynnti að Þorvaldur hefði fullnægt kröfum og væri þar með orðinn doktor.
Þessu næst setti Professor Thomas  þennan undarlega hatt á höfuð Þorvaldar (setti hann ekki rétt á, nema það sé svona sem Danir setja svona hatta á fólk) og íklæddi hann svarta skikkju. Hann flutti síðan ávarp, en hann var leiðbeinandi Þorvaldar í doktorsverkefninu.
Þá gerðu gestirnir veitingum góð skil áður en heim var haldið.

Þarna var hápunktur langs ferils sem hófst í raun með meistaranámi í Perth í Ástralíu og síðar í Osló.
Það sem ekki síst gerði Þorvaldi kleift að vinna að þessu verkefni var ríkulegur styrkur sem hann fékk árið 2012 frá frændum okkar Dönum, en hann kallast EliteForsk rejsestipendium. Þorvaldur hlaut þennan styrk fyrstur Íslendinga og fyrstur sjúkraþjálfara í Danmörku.

Ég þarf væntanlega ekkert að fjölyrða um það, en við foreldrarnir og fjölskyldan öll erum afar stolt af okkar manni og einnig stoð hans og styttu í gegnum þetta, henni Ástu Huldu.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...