30 desember, 2014

Af sprengiþroska

Traustu og öflugu kaupin
Á síðustu árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér hafi mistekist að ala upp í börnum mínum áhuga á áramótasprengingum. Fyrir hver áramót hef ég "þurft" að standa í því að velja og kaupa "fíriverk" til að nota til hátíðarbrigða á gamlárskvöld og eitthvað inn í nýársnótt. Aðrir Kvisthyltingar hafa yfirleitt látið sér fátt um finnast:
  • jú-það-er-svo-sem-allt-í-lagi-að-kaupa-eitthvað, 
  • mér-er-alveg-sama, 
  • ég-get-svo-sem-kveikt-í-þessu, 
  • ætli-maður-verði-ekki-að-fara-út-í-dyr-til-að-kíkja-á-þetta-úr-því-búið-er-að-kaupa-það 
Ég átti ekkert von á að á þessu yrði breyting nú og í nauðsynlegri áramótaferð í höfuðborg Suðurlands í dag þurfti ég, eins og venjulega, að minna á að "fíriverkið" væri ókeypt. Þá þegar var fD búin að sjá til þess að komið væri við í sérstakri búð til að kaupa leir.
Þar sem ég stöðvaði Qashqai fyrir utan Björgunarmiðsöðina spurði ég, sem oft áður, hvort farþegarnir ætluðu að bíða í bílnum. Mér til nokkurrar undrunar, þó svo ég léti á engu bera, voru þrennar aðrar dyr opnaðar og allir áramótaheimaverandi Kvisthyltingarnir stigu frá borði og fylgdu mér inn í spengihöllina.

Ég hef það fyrir sið við þessar aðstæður að taka mér stöðu nokkuð frá afgreiðsluborðinu og velta fyrir mér því sem fyrir augu ber og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað gæti verið við hæfi. Markmið mín, sem ég lét auðvitað ekki uppi við nokkurn mann, voru að trappa mig niður í "fíriverkskaupum" þetta árið, en vanda frekar valið.

Sem fyrr breytti það engu þó ég stæði úti á gólfi og horfði á hillurnar og þar  með nálgaðist ég afgreiðsluborðið í fullvissu um að þar myndu mér verða gefin góð ráð. Á þessu varð engin breyting nú. Ég veit af fyrri reynslu að skoðanir fæ ég ekki upp á yfirborðið frá þeim sem eru með í för. Á því varð ekki breyting nú.

Það varð hinsvegar bylting.

fD-kaupin
Hægra megin við mig, þar sem mæðgurnar stóðu í hnapp heyrði ég eitthvert hvísl og síðan gerðist það, að afgreiðslumaður seildist upp á vegg eftir flugeldapakka. Því næst heyrði ég fD gefa eftirfarandi yfirlýsingu: "Það er svo fallegt nafn á þessari. Ég ætla að fá hana". Þar með náði afgreiðslumaðurinn í Melkorku Mýrkjartansdóttur upp í hillu. "Eigum við ekki líka að kaupa svona löng stjörnuljós?" sagði hún þessu næst, en ekki við mig.  
Þarna var um að ræða einhver ótrúlegustu umskipti sem ég hef reynt í fari fD. Nú sé ég fram á að þurfa ekki framar að hafa áhyggjur að neyða neinn óviljugan til "fíriverkskaupa". 

Sannarlega hafði kaupæði fD ekki áhrif á skýr markmið mín og að ráði afgreiðslumanns festi ég kaup á afar traustum og öflugum sprengjum.

Ég hafði verið búinn að sjá fyrir mér að þetta yrðu áramótin sem Kirkjuhyltingar myndu bera sigur úr býtum, en með leikfléttu fD varð ljóst, að enn eitt árið munu þeir þurfa að hneigja sig í lotningu á brekkubrúninni.
---------------------------------------------

Styrkjum björgunarsveitirnar með því að kaupa "fíriverk" af þeim, en ekki öðrum.

29 desember, 2014

Samtíðin er jafnan verst.

Ég er sjálfsagt ekki einn um það meðal þeirra sem eldri eru á hverjum tíma að telja margt vera verra en það var. Það er algengt viðhorf að tímarnir breytist til hins verra; hver sú kynslóð sem við tekur sé lakar sett að mörgu leyti en þær en á undan hafa farið.
Faðir minn gekk um tveggja vetra skeið (1936-7 og 1937-8) í Menntaskólann á Akureyri. Á þeim tima og einnig eftir að hann kom að S-Reykjum í árslok 1939, skrifaðist hann á við fósturforeldra sína, Sigrúnu og Benedikt Blöndal á Hallormsstað. Það virðast reyndar aðallega hafa verið þau sem skrifuðu, sem má sjá af því að í hverju bréfi þeirra kvarta þau yfir að hafa ekki fengið bréf (á Akureyri var hann á aldrinum 17-19 ára svo það er ef til vill skiljanlegt).
Í bréfum sínum segja þau fréttir að austan og spyrja frétta frá Akureyri. Þau leggja honum einnig lífsreglurnar og veita góð ráð. Þar er margt áhugavert, ekki síst ef það er tengt stöðu mála á okkar tímum. Í bréfi sem hann skrifaði pabba í nóvember 1937 segir Benedikt Blöndal:


Úr bréfi Benedikts
"Annars er einkennilegt hvernig eldra fólkið lítur ávallt á samtíð sína. Hún þykir jafnan verst og æskan og ungdómurinn stórum verri en var í ungdæmi þeirra. Mikil væri sú afturför frá kynslóð til kynslóðar ef þessir dómar hefðu við full rök að styðjast".

Í bréfi í lok árs 1941, en þá er pabbi búinn að vera tæp tvö ár á S.-Reykjum, skrifar Sigrún Blöndal (skólastýra í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað):


Úr bréfi Sigrúnar
"Stúlkur eru að búa sig á "ball" út í Ketilsstaði, því ekki hefur maður frið með heimili sitt einusinni á jólunum fyrir þessum strákagörmum sveitarinnar, sem ekki geta látið þessa aumingja sakleysingja í friði og finnst víst eðlilegast að Jesús Kristur byrji frelsunarstarf sitt í sálum þessara ungu stúlkna á "balli"! Þess vegna stilla þeir því upp fáum dögum eftir minningarhátíðina um fæðingu hans! Og dettur ekki í hug, að hann eigi að fæðast í hverju einasta mannshjarta! Það er erfitt að glíma við heimskuna og óþokkaskapinn og barnalegt að hafa nokkurntíma látið sér detta í hug, að maður væri þess megnugur".
Bréf þeirra hjóna staðfesta að mannskepnan er söm við sig á öllum tímum.

Þrátt fyrir þetta ætla ég ekkert að víkja frá þeirri skoðun minni, að þær breytingar sem hafa orðið frá því mín kynslóð óx úr grasi, við undirleik Bítlanna, Rolling Stones, Jethro Tull, Bob Dylan, Joan Baez, The Kinks og svo  mætti lengi telja, séu síður en svo til bóta. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ungt fólk nú sé eitthvað lakara að upplagi en það hefur verið á hverjum tíma. Það kann jafnvel að vera talsvert betra.

Umhverfi og uppvaxtarskilyrði barna finnst mér hafa farið verulega versnandi síðastliðin 15-20 ár og hér tíni ég fram nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:


  1. Veröldin er orðin miklu flóknari en hún var og þar með meiri óvissa um framtíðina.
  2. Uppeldi fer æ meir fram á stofnunum þar sem börn læra að talsverðum hluta hvert af öðru frekar en af foreldrum sínum. Máltaka á sér því miður stað í of miklum mæli í gegnum samskipti jafnaldra.
  3. Rafrænt umhverfi getur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti sem lúta að mannlegum samskiptum. Foreldrar og börn sogast æ meir inn í þann heim sem tölvur og internet búa þeim til afþreyingar.


Til að vera jákvæður vil ég halda opnum þeim möguleika að hvað sem breytist muni manninum takast að breytast með og ná einhverju jafnvægi við umhverfi sitt á hverjum tíma.
Hver segir líka að það megi ekki segja: "Það var sagt mér að það væri ball í kvöld"?



23 desember, 2014

...og bannið þeim það ekki.

Nei, ég ætla ekki út á þá braut að fjalla um eitt heitasta umræðuefni  þessarar, að mörgu leyti, einkennilegu þjóðar á þessari aðventu. Þetta málefni munum við ekki fá botn í, frekar en svo mörg önnur sem rekur á fjörurnar, rétt eins og öldur á strönd. Öldurnar sogast út aftur og víkja þannig fyrir næstu öldu og þannig koll af kolli. Ég er farinn að bíða eftir málefninu sem okkur tekst að rífast um milli jóla og nýárs.

Ég er kominn á þann aldur að skoðanir mínar falla æ sjaldnar að háværustu skoðunum hverju sinni. Mig grunar að það sé hlutskipti fólks almennt, að þegar það eldist, sprengfullt af áratuga reynslu af lífinu, burðast það með skoðanir sem eru ekki lengur viðurkenndar. Skynsemi þess ræður því líklegast, að það þagnar smám saman og hverfur, hægt og hljótt af sviðinu og lætur þær kynslóðir sem við taka um að gera sömu mistökin og hver kynslóðin af annarri hefur gert gegnum aldirnar.

Ég er farinn að upplifa sjálfan mig í sporum þessara sem eru eldri og teljast þar með reyndari. Ég þarf, starfs míns vegna að vera nokkuð á tánum í þessum efnum, fylgjast með tækniþróun á sviðum sem ég þarf að kunna skil á í vinnunni og reyna að vera nokkurnveginn klár á því hvað er efst á baugi hjá ungu fólki frá degi til dags. Mér finnst það vera forréttindi að vera í aðstöðu til að umgangast ungt fólk daglega, en ég verð jafnframt að viðurkenna að æ oftar átta ég mig ekki á hvað það er að pæla. Ungmenni nútímans eru ljúfar og góðar manneskjur, upp til hópa. Þau eru kurteis og oft jákvæð. Samt geta þau verið ansi gloppótt blessuð, og ég hlýt að velta því fyrir mér hvað veldur. Niðurstöður mínar myndu nægja til að fylla 4 bindi og myndu ekki breyta neinu. Þar koma við sögu ýmsir þættir sem ég tel að hamli innri gerð þeirra og þroska: foreldrar, ofgnóttin, leikskólar, grunnskólar, tækniþróun, afþreyingariðnaðurinn og bara almennt samfélag á hverfanda hveli.

Við erum einstaklega eigingjarnt fólk, Íslendingar og með því á ég við, að við búum okkur til litla heima sem geta verið einstaklingur, eða fjölskylda.  Við verjum síðan þessa örheima okkar með kjafti og klóm ef okkur  finnst á okkur brotið með einhverjum hætti, eða ef okkur finnst að aðrir sinni velferð okkar ekki nægilega.
Við erum síður gagnrýnin á okkur sjálf.
Sannarlega er ég ekki að fjalla hér um þá sem af ýmsum ástæðum þurfa nauðsynlega á aðstoð samfélagsins að halda, heldur hina sem þurfa hana ekki en krefja samfélagið um hana og fylgjast vel með hvort hún er veitt með viðunandi hætti.  Ég er svo illa innrættur (bara stundum), að ég á von á að sá tími renni upp innan skamms, að það verði stofnaðir barnagarðar sem sjá um allt uppeldi barna fólks sem þarf að fá að hvíla sig á kvöldin og nóttunni. Tilvera barnanna er síðan nýtt fyrst og fremst í þeim tilgangi að skapa foreldrunum virðingarstöðu í samfélaginu, kannski til að fara í verslunarmiðstöðvar um helgar (bara á laugardagsmorgnum, því það þarf að fara í tölvuleik eða á feisbúkk, fara á djammið um kvöldið og vera þunnur daginn eftir (og fara í tölvuleik eða á feisbúkk)) og til að fá krúttsprengjukomment á samfélagsmiðlum.

Ég veit að ég er ósanngjarn að flestra mati og ég veit líka að sem betur fer eru flestir foreldrar þannig innréttaðir að þeir leggja mikið á sig til að börnin fái gott uppeldi og verði nýtir og hamingjusamir þjóðfélagsþegnar. En það er til fólk sem virðist fyrst og fremst líta á börn sem tæki til að skapa sér einhverja æskilega stöðu í samfélaginu, en ekki eitthvað sem er það mikilvægasta sem foreldrar geta tekist á við í lífinu; eitthvað sem kostar svita og tár, en leiðir loks til óendanlegs ríkidæmis. Foreldrar mega og eiga að vera stoltir af börnum sínum hvar og hvenær sem er, en þar þarf að koma til jafnvægi milli sýndarmennsku og þess sem er í raun.

Þar með set ég punkt þessu sinni.
Ég óska þeim sem lásu alla leið, gleðilegra jóla og þakka samfylgdina á þessum vettvangi það sem af er ári.


16 desember, 2014

Fjögur sýnishorn frá Aðventutónleikum í Skálholti

Þar sem ég lagði í það verkefni að taka lifandi myndir af hluta tónleikanna tél ég rétt að setja afraksturinn hér inn til að hafa hann aðgengilegan á einum stað.

Á þessum tónleikum sungu þrír einsöngvarar, þau Þóra Gylfadóttir, sópran, Egill Árni Pálsson, tenór og Ásgeir Páll Ágústsson, baritón og þrír kórar sem einn: Söngkór Miðdalskirkju, Skálholtskórinn og Kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkju undir stjórn þeirra Jóns Bjarnasonar og Þorbjargar Jóhannsdóttur.
Jón Bjarnason lék á orgel og Smári Þorsteinsson kitlaði slagverk í nokkrum lögum.

Gesu bambino

Gaudete

Ó, helga nótt

Enn á ný við eigum jól

14 desember, 2014

Hverabrauð í Laugarási

Það er einhver sérstakur ilmur í loftinu í Laugarási um þessar mundir (enda logn), ekki ósvipaður þeim sem maður finnur við að aka framhjá Hellisheiðarvirkjun. Ástæðu þessa má rekja til veglegs smíðisgrips Benedkts bónda í Kirkjuholti, en það er bökunarpottur fyrir hverabrauð sem nú er orðinn hluti af landslaginu á hverasvæðinu. Potturinn er úr ryðfríu stáli og hinn vandaðasti að allri gerð.

Auðvitað tóku Laugarásbúar við sér, tíndust út úr skóginum með mjólkurfernur í fanginu og hófu að baka brauð.

Það gerðum við Kvisthyltingar einnig.  Við vildum hinsvegar vera öðruvísi og fundum okkur blikkdunk og freistuðum þess þannig að vikja ekki mjög frá þeirri bakstursaðferð sem notuð var hér fyrir um 60 árum. Uppskriftin sem notuð var, var sú sama og þá, einnig.

Það var hálfgerð helgistund að fara með brauðið í pottinn; skrúfa lokuna lausa og lyfta lokinu með þar til gerðu handfangi og koma blikkdunknum fyrir á stálgrindinni í botni pottsins. Þegar þetta gerðist voru ein 8 brauð í bökun, öll í 1s lítra mjókurfernum með álpappír í toppin sem gegndi óræðu hlutverki.  Þrátt fyrir mikinn brauðafjölda komst blikkdunkurinn vel fyrir. Þarna hófst síðan sólarhringsbið eftir að brauðið bakaðist. Þegar heim var komið var tiltekið símtææki stillt á tíma svo brauðið yrði nú sótt þegar það væri tilbúið.

Síminn klikkaði auðvitað og fD vaknaði til meðvitundar um brauðið skömmu eftir tilsettan tíma, en ég vaknaði ekki. Það varð síðan mitt hlutskipti, eða það kom í minn hlut að ná í nýbakað og ilmandi hverabrauðið. Segir ekki af leiðangrinum fyrr en heim var komið og athugað hvernig áferðin á brauðinu væri, svo ekki sé nú talað um bragðið og ilminn.

Það gekk treglega að ná brauðinu úr dunknum, en það gekk. Svo var skorin sneið, sem gekk þokkalega, utan velþekkta límáferð nýbakaðs hverabrauðs, sem veldur erfiðleikum við beitingu á hefðbundnum hnífum. Hér þyrfti að koma til vírskurðargræja (nenni ekki að útskýra það nánar).
Bragðið færði mig 50 ára aftur í tímann, en mér fannst brauðið heldur skorta sætleika í samanburði við nútíma hverabrauð.

Þetta var fyrsta tilraun og þær verða líklega fleiri þar til fullkomnun verður náð, því alltaf skal stefnt að fullkomnuun.

Merki Kvisthyltinga

Merkið á sínum stað á húsinu.
Upp úr 1980 hófst bygging íbúðarhússins í Kvistholti. Það verkefni tók talsverðan tíma, ekki síst vegna tregðu þáverandi byggingafulltrúa Marteins Björnssonar til að samþykkja teikningarnar. Bréfaskipti mín og Marteins frá þeim  tíma eru gullmolar (að mínu mati).

Framkvæmdir hófust og ég fékk Böðvar Inga á Laugarvatni til að slá upp fyrir sökklinum. Síðan tók Steingrímur Vigfússon við og gegndi hlutverki byggingameistara úr því.

Þegar kom að því að slá upp fyrir kjallaranum þótti mér það tilvalin hugmynd að útbúa merki innan á mótin og dundaði mér við það verk í pökkunarskúrnum í Hveratúni. Þarna sagaði ég niður, heflaði og pússaði trélista sem ég negldi síðan innan á mótin áður en steypubílarnir frá Steypustöð Suðurlands renndu í hlað.

Merkið sem síðan hefur blasað við hverjum þeim sem í Kvistholt hefur komið, hefur mér þótt nokkuð vel heppnað, en því var ætlað að tákna einhverskonar gróður, enda vorum við þá búin að rækta rófur, kínakál og eitthvað fleira í einhver ár og það var fyrirhugað byggja gróðurhús, sem síðan reis undir lok 9. áratugarins.  Við hófum einnig strax að landið komst í okkar umsjá að planta trjám vítt og breytt, litlum ræflum sem nú eru orðin að ferlíkjum.

Merking merkisins reyndist vel við hæfi, hér óx allt, gróðurinn og börnin og við sjálf, þó það hefði verið að mestu láréttur vöxtur.

Nú er ég búinn að teikna merkið upp og hyggst nota það sem vörumerki fyrir Kvisthyltinga, hvað sem mönnum getur fundist um það.

Ég hef ekki borið ákvörðun mína um þetta merki undir neinn í fjölskyldunni, þannig að það ágæta fólk verður bara að kyngja því, en hefur frelsi til að nota það að vild í því góða sem það tekur sér fyrir hendur.
Þetta á nefnilega að vera nokkurskonar gæðastimpill.

Ég geri mér grein fyrir að það felst talsverður hroki í því að ein fjölskylda eigi sérstakt merki, en læt mér það auðvitað í léttu rúmi liggja.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...