25 janúar, 2015

Þorrablót 2015

Hvítá að morgni annars dags þorra. 
Ég gat horfið stoltur af þorrablóti Skálholtssóknar á bóndadagskvöldi og átti svo sem ekki von á öðru. Hafði heyrt af undirbúningnum mánuðum saman, ritun kvikmyndahandrita, kvikmyndatökum vítt og breitt, jafnvel við erfiðustu aðstæður, klippivinnu, þar sem krafa var gerð um niðurskurð sem var varla framkvæmanlegur, ritun handrita að lifandi atriðum og æfingar fyrir þau. Það er feikileg vinna sem er að baki svo metnaðarfullri dagskrá sem þorrablótsgestum var boðið upp á, meiri en margir geta ímyndað sér.
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.

Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.

Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn.

Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í, algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum meiningum um að það misfari með eitthvert vald. 
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.  Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat til þorrablóts.  Það er hinsvegar ekkert sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
Ég hef ekki reynslu af því að ætla að fá miða á knattspyrnuleik og ekki fengið. Reikna reyndar ekki með að verða nokkurn tíma þeirri reynslu ríkari. Ég er hinsvegar viss um það, að ef KSÍ hefði mögulega átt kost á því að flytja leikinn sem hér hefur komið til tals, á annan völl sem tæki kannski 15000 manns í stað 10000 þá hefði það verið gert.

17 janúar, 2015

Viltu bækur? Vertu snögg(ur).

Sýnishorn

Þegar allt kemur til alls, gagnstætt því sem ýmsir gætu ímyndað sér, virðist húsnæðið í Kvistholti ekki fullnægja rýmisþörf. Í tengslum við aðgerðir vegna þessarar stöðu stendur nú fyrir dyrum að fækka bókum á heimilinu svo um munar. Meðal þeirra bóka sem nú bíður það hlutskipti að fara úr húsinu með einhverjum hætti, eru um 70 kiljur: skáldverk íslenskra höfunda og þýdd skáldverk erlendra höfunda.

Mér varð það á fyrir áratugum að ganga í bókaklúbb sem síðan sendi mér bækur mánaðarlega þar til loks ég áttaði mig á hvert þetta myndi leiða.

Samviska mín bannar mér að henda bókum, en vilji enginn þiggja þær bíður þeirra bara endurvinnslan.

Langi einhvern í bækur 
má hann koma og taka það sem hann vill. 

Vilji enginn þessar bækur verður samviskan örlítið hreinni þegar ég fer með þær í gáminn.

Netfangið mitt er pallsku@gmail.com - sími: 8989152


13 janúar, 2015

Hikstandi nútímalíf

"Þarf þessi snúra að liggja þarna með loftinu og svo niður á gólf?"
Það getur hver og einn giskað hver átti þessa spurningu (sjá hér). Umrædd snúra var í, nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD í kjallaranum. Ég hafði við upphaf internetstenginga fengið símamann til að koma hér og sjá til þess að ég hefði slíkt samband í þá verðandi vinnuaðstöðu minni sem er nú nýfyrrverandi vinnuaðstaða fD.  Vð síðustu hrókeringar innanhúss, sem áður hefur verið greint frá, var þessi snúra allt í einu orðin óþörf, enda wi-fi um allt hús.

"Nei, það er engin þörf fyrir hana lengur", svaraði og sagði svo ekki fleira um það mál, heldur hófst, innan ekki of langs tíma (ég er farinn að átta mig á í stórum dráttum hvenær tími er orðinn of langur) handa við að taka snúruna niður. Það gekk ágætlega að losa hana frá veggnum og þar kom, að ég stóð með dósins fyrir tölvutenginguna í höndunum, opnaði hana og sá fjóra fíngerða víra sem lágu inn í dósina og voru þar festir með einhverjum hætti tveir og tveir. Til þess að ná snúrunni var ekki um annað að ræða en losa hana af vírunum, sem ég gerði, átakalaust með naglbítnum á heimilinu. Nú var snúran laus, utan sá endinn sem hvarf inn í vegg þar sem síma og rafmagnslagnir liggja inn í húsið. Á einu augabragði beitt ég naglbítnum aftur og gat þar með gangið frá snúrunni. Sá endinn sem gekk inn í vegginn hvarf snyrtilega inn í holu sína.
Að þessu þarfaverki loknu hélt ég aftur á efri hæðina og lét fD eftir að halda áfram að bardúsa í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu sinni. Þar stendur mikið til, svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég var kominn upp lá leið mín í nýuppgerða dyngju mína til að senda pósta og vinna í vinkonu minni henni Innu. Sú vinna helgast af því, að í dag stundaði heimavinnu, eða fjarvinnu þar sem ekki þótti mögulegt að stunda staðvinnu. Á bak við þessa yfirlýsingu er löng og flókin saga sem ekki verður rakin hér.
"Not connected to the internet" var það fyrsta sem blasti við mér þar sem ég freistaði þess að senda póst, sem ég hafði lokið við að skrifa, þegar aðgerðin sem lýst er hér fyrir ofan hófst. Ég reyndi aftur, og aftur og enn aftur, en það breytti engu. Ég endurræsti allt saman, eins og manni er stundum sagt að gera þegar tölvudót virkar ekki. Ég fór meira að segja inn í "advanced settings" til að leita upp mögulega bilun. Gerði reyndar ekkert þar, þar sem það gæti orðið til þess að ég framkvæmdi eitthvað óafturkræft.
Nú lá fyrir að gera frekari rannsóknir á ástæðum þess að samband náðist ekki við netið eina. Það fólst í að fara í fartölvu á svæðinu og athuga hvort þannig gengi betur. Það reyndist ekki vera.
Ég endurræsti beininn (routerinn) án árangurs. Ég prófaði að hringja í heimasímann, sem einnig var árangurslaust.
Þarna kom það mér í fyrsta skipti í hug að sambandsleysið gæti tengst með einhverjum hætti snúrunni í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD.
Það fór um mig hrollur og ég fann fyrir ýmisskonar ónotum, aðallega taugatengdum.
"Var ég búinn að klippa í sundur samband heimilisins við umheiminn? Ef svo væri, hvernig átti ég að fara að því að koma því í lag? Væri þá búið með að ég gæti hunsað leikjabeiðnir á Fb í allan dag? Myndi ég ekki geta fylgst með hvað vinir mínir eiga falleg börn? Myndi umræðan um ófarna Parísarför alveg fara framhjá mér? Gæti ég ekki einusinni horft á fréttirnar í sjónvarpinu í kvöld? Hvernig færi þessi dagur eiginlega?"

Með allar spurningnarar í höfðinu fór ég niður í kjallara þar sem fD stóð í stórræðum við að undirbúa nýfyrrverandi aðstöðuna sína fyrir allskyns fínheit, sem verða umfangsmeiri eftir því sem hún dvelur lengur þarna niðri.

Þarna lá fyrir að skrúfa niður plötu, á bakvið hverja er rafmagnsinntakið og símainntakið, en um það snérist málið.  Af ótrúlegri yfirvegun og ævintýralegu innsæi, með flækju af allskyns vírum í höndunum, tókst mér að lifa mig inn í hlutverk símamannsins, rekja vírana sem komu að utan, saman og vírana sem komu að innan einnig. Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að festa endana í dósina sem hafði hýst fyrrum tölvutenginu í fyrrverandi aðstöðu minni og nýfyrrverandi aðstöðu fD. Einhver sem býr hér í nágrenni við mig myndi kalla þetta "skítamix" en ég er ekki frá því að allar tengngar um þessar lagnir séu miklu hraðari eftir en áður.
Tölvan tilkynnti eftirfarandi:"CONNECTED TO THE INTERNET", póstarnir voru afgreiddir og Innumálin, fyrstu barnamyndirnar voru skoðaðar, nokkrir leikir hunsaðir og nýjustu tilvitnanir vegna ófarinnar Parísarfarar lesnar. Svo eru það fréttirnar í kvöld.

Mér kom það oft í hug í dag að nútímamaðurinn er kominn út á ansi hálar brautir. Var lífið ekki talsvert miklu öruggara þegar maður sneri tvær stuttar og ein löng, þegar dagblaðið kom í bunkum einusinni eða tvisvar í viku, þegar það var greiða uppi á þaki til að ná útsendingu sjónvarps?
Það eru tveir örmjóir vírar sem tengja þetta heimili við allt annað en beinlínis viðveru í eigin persónu. Mér finnst að það þurfi að vera til varaleið, en ætli það breyti miklu? 

11 janúar, 2015

Mynd frá fimmta áratug síðustu aldar

 Árið 1940 var nánast engin byggð í Laugarási, utan læknishúsið sem var byggt 1936 og gripahús sem tilheyrðu því, enda voru Laugaráslæknar jafnframt með einhvern búskap þar til Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir komu til skjalanna um 1947.
Um 1940 fór eitthvað að gerast því þá voru einhverjir farnir að átta sig á að hverinir gætu nýst til gróðurhúsaræktunar.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það hér, enda ekki meginviðfangsefni þessa pistils. Það er hinsvegar myndi sem hér fylgir, Hún er tekin frá læknishúsinu sem stendur efsta á Laugarásnum, á að giska 1946-7. Foreldrar mínir keyptu þá Lemmingsland og gáfu því nafnið Hveratún. Þetta var á fyrri hluta ár 1946. Ég geri fastlega ráð fyrir að móðir mín hafi tekið sig til og rölt með myndavél upp á hæð og tekið myndina, svo senda mætti mynd af slotinu til fjarstaddra ættingja.  Það hefur líklega verið myndavél svipuð annarri hvorri þeirra sem hér má sjá til hliðar því ég man eftir svona forngripum í uppvextinum.
Ég þykist meira að segja muna eftir að önnur hvor þeirra hafi verið notuð enn.

Ég ætla hér að freista þess að gera grein fyrir því helsta sem sjá má á þessari mynd, en vil halda því til haga (til að verja sjálfan mig) að það voru enn 6-7 ár í fæðingu mína þegar myndin var tekin.

Hér er ég búinn að merkja inn á myndina tölur frá 1-17 og svo er bara að sjá hvernig til tekst.

1. Gamli bærinn í Hveratúni - um 60m². Þegar foreldrar míni mættu á svæðið var ekkert eldhús í húsinu. Það var sambyggð við gróðurhús og allur aðbúnaður fremur sérstakur. Meðan verið var að koma íbúðarhúsinu í þolanlegt ástand fengu hjónakornin inni í íbúðarhúsinu í Grósku, sem síðar varð Sólveigarstaðir. Þar voru þau, í það minnsta til húsa þegar þau eignuðust sitt fyrsta barn.

2. Kusuhús, minnir mig að þetta gróðurhús hafi verið kallað. Í öðrum endanum á þessu húsi tel ég að heimiliskýrin Kusa hafi átt samastað. Í mínum huga var hún mannýg. Ekki man ég eða veit hvort folinn Jarpur hafi nokkurtíma átt þarna afdrep, en hann var ofdekraður og gekk svo langt að leggja leið sína einhverntíma inn í bæ, alla leið inn í búr, til að ná sér í bita.

3. Við hliðina á Kusuhúsi var annað gróðurhús, sem ég man ekki hvað var kallað. kannski bara Sigrúnarhús? (leiðr. mun hafa kallast Miðhús)

4. Pallahús. Það fór ekki svo að maður fengi ekki gróðurhús skírt eftir sér. Ég átt mig ekki alveg á hvernig því var öllu háttað, en svo lengi sem ég man eftir mér var hænsnakofi milli íbúðarhússins og þessa gróðurhúss (nr.7).

5. Þarna var byggt gróðurhús sem mig minnir að hafi verið kallað Ástuhús (leiðr. Nýjahús), við hliðina á Pallahúsi.

6. Þar við hliðina, nokkru frá Ástuhúsi reis svo Bennahús, sem var langstærst, sennilega einir 320m². Ég gæti trúað að það hafi verið byggt um eða upp úr 1960, því ég man óljóst eftir byggingaframkvæmdum.

7. Hænsnakofinn sem mér finnst hafa verið þarna frá því ég man fyrst eftir. Ég gegndi hlutverki yfirhænsnahirðis afar lengi.

8. Dælukofi sem ég man óljóst eftir og þá í tengslum við einhver prakkarastrik.

9. Pökkurnarskúr/áburðargeymsla og fleira. Stóð á hverabakkanum milli Ástuhúss og lítils gróðurhúss sem var fyrir neðan þar sem Bennahús kom síðar. Ég minnist þessarar byggingar aðallega fyrir tvennt: Þegar maður var að burðast með tómataföturnar inn í pökkkunarhlutann, sem var sunnan megin og þegar maður tók þátt í að steypa moldarpotta, sem fór fram hinumegin.

10. Lítið gróðurhús, sem mér finnst móðir mín aðallega hafa verið eitthvað að rækta í. Líklega var þar vínberjaplanta og síðan eitthvert blómadót. (leiðr. viðbót: Þarna mun önnur systirin, í það minnsta, stundað ræktun á t.d nellikum, rósum og asparagus).

11. Hér var Þróin steypt á einhverjum tíma, sennilega á fyrir eða um 1960. Hún var nokkuð vinsæl til sundiðkana. Það var skemmtilegast að fara í Þróna þega var nýbúið að hreinsa hana, sem þurfti að gera reglulega þar sem slýmyndum var heilmikil. Hreinsunarstarfið þótti mér afar óskemmtilegt.

12. Ég tel að á þeim tíma sem myndin var tekin, hafi Ólafur Einarsson læknir stundað þarna útirækt, en síðar ræktuðu Hveratúns menn þarna alllengi. Það varð stöðugt erfiðara þar sem húsapuntur gerið æ ágengari.

13. Gróðurhús á vegum Ólafs Einarssonar. Þau voru horfin um 1950 og grunnar þeirra einir eftir.

14. Ólafshús eða Einarshús (man ekki hvort). Ág man eftir að í þessu húsi ræktaði Hjalti Jakobsson eftir að fjölskyldan flutti úr Reykholti í Laugarás. Á einhverjum tíma, líklega eftir að Laugargerði spratt fram, leigðu Hveratúnsmenn húsið og braggann við norðurenda þess. Uppruna braggans veit ég ekki um, en reikna með að hann hafi gegnt hernaðarlegu hlutverki á stríðsárunum.

15. Þarna var bullandi hver (Draugahver?) og ofan í honum voru ofnar. Þeir hljóta að hafa verið notaðir til að hita kalt vatn til einhverra nota. Kalla eftir upplýsingum um það.

16 (rautt). Hveralækur sem rann frá hverunum tveim sem voru nyst á hverasvæðinu, Draugahver og Hildarhver. Lækurinn rann rétt fyrir neðan Þróna og pökkunarskúrinn. Það var mjótt sund milli pókkunarskúrsins (9) og litla gróðurhússint (10). Um þetta sunda var gengið að þrónni og einnig yfir hveralækinn á brú til að komast yfir á ræktunarsvæðið (12). Þarna dansaði maður yfir þessa ræfilslegu brú ansi oft, en þetta var ein af þeim hættum sem maður lærði fljótt að umgangast af virðingu.

16. (gult) (sá þessa talnavillu of seint og nennti ekki að breyta :)).  Skálholtsvegur.

17. Skúlagata.

Afskaplega væri gaman ef einhverjir þeir sem þetta sjá og vita betur en hér hefur verið frá greint, komi þeim upplýsingum til mín. Ekki síst á ég við þær nafngiftir sem fram koma, t.d. á gróðurhúsum og hverum.

Dyngjupúl

Tannstönglavasi
Ég áttaði mig ekki strax á því hvað fD fara að fara þegar hún, upp úr þurru, á laugardagsmorgni, hóf umræðu um að flytja svefnsófann úr dyngju minni niður í kjallara. Þar hlaut að búa annað undir en beinlínis það hún teldi of þröngt hjá mér og þar með skert vinnuumhverfi og síðri aðstaða til að sitja og blogga eða stunda aðra tómstundaiðju.
Það bjó sannarlega annað undir.
Upphafleg hugmynd hennar snérist um það, að í stað sófans, sem færi niður, myndi hún flytjast úr vinnustofunni sinni í kjallaranum og setjast að í minni dyngju og myndi þar með gera hana að sinni.
Ég neita því ekki, að þessari hugmynd tók ég fremur fálega, eins og reyndar hugmyndinni um að flytja sófann yfirleitt. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir það að vera sífellt að breyta umhverfi mínu; finnst það virka bara ágætlega. Þar fyrir utan kalla breytingar yfirleitt á aðkomu mína með einhverju tilteknu vinnuframlagi á sviðum sem ég vil sem minnst koma nálægt, einfaldlega vegna þess að það felur í sér erfiðleikastig sem mér hugnast ekki eða er, að mínum mati afar óskemmtilegt og tilgangslaust.

Ég vissi hinsvegar strax og umræðan hófst, hverjar lyktirnar yrðu. Ég hafði þó mitt fram að því leyti, að fD myndi ekki leggja mína aðstöðu undir sig, heldur tæki hún yfir annað herbergi á efri hæðinni, sem hefur haft takmarkað hlutverk siðustu allmörg árin.

Niðurstaðan lá fyrir, og ég var, áður en ég vissi af kominn í hlutverk sem ég hafði ekki séð fyrir þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og sá fyrir mér rólegheita dag. Það þurfti að rífa í sundur sófa og burðast með hann í frumeindum niður í kjallara, þar sem hann mun fá, þegar loksins gefst færi á að reyna að koma honum saman aftur, hlutverk í nýrri svefnaðstöðu fyrir börn og barnabörn í heimsókn, í verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD.

Úr verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD kom ég síðan að flutningi vinnuborðs upp á efri hæð inn í verðandi vinnuaðstöðu hennar og flutningi annars vinnuborðs, sem ég hafði sett upp í verðandi fyrrverandi vinnuaðstöðu fD, þegar ég útbjó mér vinnuaðstöðu þar fyrir ævalöngu. Það vinnuborð (níðþungt) þurfti að skrúfa niður, enda veggfast, og burðast með upp í núverandi vinnuaðstöðu mína, þar sem niður þurfti að taka verðandi fyrrverandi vinnuborð mitt, sem eftir þá aðgerð varð borð án hlutverks (þó eg eigi ekki von á að svo verði lengi). Borðið þunga þurfti ég síðan að setja upp í vinnuaðstöðu minni í stað þess sem tekið hafði verið niður, eftir að ég hafði þurft að aftengja allan tölvubúnað, án þess að vita hvernig ég færi að því að tengja hann allan aftur, sem tókst á endanum undir Spykids II á RUV.

Nú situr fD í nýju vinnuherbergi, sem enn ber keim að fyrrverandi íbúa, sem er löngu fluttur að heiman (glitstjörnur límdar á veggi og loft). Þangað er hún komin með hljómtæki og spilar aríur og dúetta, mundar pensla og heldur því fram að hún þurfi betri lýsingu.

Ég er, þegar upp er staðið ekki ósáttur með að vera kominn með öflugt borð og ágætt pláss, en sannarlega hefði ég viljað vera án allrar þeirrar fyrirhafna sem breytingarnar kölluðu á.

Ég samgleðst auðvitað fD með að þurfa ekki lengur að brölta niður snarbrattan stigann í hvert sinn sem hún fær góða hugmynd.  Nú erum við að komast á þann aldur að við göngum helst ekki niður hann nema kveikja stigaljósið og styðja okkur við handriðið ;).


04 janúar, 2015

Marsipan

Maður þarf endalaust að vera að taka afstöðu til einhvers. Oftast gerir maður það á grundvelli þess sem maður telur vera rétt.  En hvernig kemst maður að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé rétt, og að eitthvað annað sé rangt?

Mér finnst marsipanmolarnir í konfektkassanum heldur misheppnuð framleiðsla og hún höfðar ekki til mín. Það mun enginn geta kallað eftir samstöðu minni um að krefjast þess að það verði bara framleiddir marsipanmolar. Ég mun leyfa mér að gagnrýna þá skoðun að marsipanmolarnir séu einu ætu molarnir í kassanum.

Talsmenn marsipanmolanna komust til valda í þessu landi með því að lofa kjósendum því að það yrðu margir frábærir molar í gylltum og silfruðum umbúðum, með alveg nýju marsipanbragði í kössunum ef þeir kæmust til valda. Þeir halda svo áfram að segja þjóðinni að marsipanið sé gott og að við eigum að sýna samstöðu um það. Þeir þola illa raddir sem reyna að halda því fram að marsipan sé vont.

Það var mikið rætt um samstöðu þjóðarinnar í ávörpum fyrirmenna um áramótin.

Kannski verða bara marsipanmolar í konfektkössunum um næstu jól.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...