30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


28 desember, 2015

Í hvítri og friðsamri sæng - rafræn útgáfa

Skúli Magnússon upp úr 1940
Það sem hér fer á eftir er umfjöllun sem birtist í Litla-Bergþór, 2. tbl., 36. árg, desember 2015. Ég set hana hér inn til að eiga hana á þessu svæði. Ég neita því ekki, að það fór ansi mikill tími í að afla upplýsinga sem gætu varpað meira ljósi að það sem gerðist þarna  fyrir um 75 árum. Flestir þeir sem á þessum tíma voru komnir af barnsaldri eru horfnir af vettvangi, mér tókst ekki að komast í samband við fólk sem mögulega gæti munað þennan atburð, og minni þeirra sem ég ræddi við var auðvitað ekkert sérstaklega skýrt, enda þarna oftast um upprifjun á atburði sem þeir mundu að hefði komið til tals síðar. Það var þannig, eins og við þekkjum mörg, að um erfiða atburði að áföll, var ekki rætt við börn, eða lítið rætt yfirleitt.. 
Þó pabbi hefði verið þarna virkur þátttakandi í leitinni að Olav, var það ekki fyrr en eftir að hann lést á síðasta ári, þegar ég rakst á dagbók sem hann hafði skrifað árið 1940 (fyrsta árið sem hann var á Syðri-Reykjum) að ég fékk vitneskju um  þá hörmung sem þarna hafði átt sér stað. 
Ég leitaði að frásögnum en fann ekkert annað en fréttir í dagblöðum og fannst þessvegna mikilvægt að 
reyna að afla frekari upplýsinga og 
koma dagbókarfærslunum á prentað form. Það tókst á endanum og viðleitni mína má nú finna í ofangreindu tölublaði Litla-Bergþórs. 
_____________________________________________________
M1:Olav Sanden í byrjun árs 1940
Árið 1938 kom ungur Norðmaður, Olav Sanden (f. 29.11.1918 (í skrá um legstaði í Torfastaðakirkjugarði er hann sagður hafa fæðst 29.1.1918 og þarna er líklega um að ræða skrifvillu í annarri heimildinni)), til landsins og hóf störf á Syðri-Reykjum hjá Stefáni Árnasyni (1911-2002) og Áslaugu Ólafsdóttur (1909-1996). Þau áttu tvö börn á þeim tíma sem hér er fjallað um: Ingveldi Björgu (3) og Ólaf (2). 

Það sem hér fer á eftir eru færslur úr dagbók (feitletrað) Skúla Magnússonar, síðar garðyrkjubónda í Hveratúni (1918-2014) frá árinu 1940. Þessar færslur fjalla um aðstæður þegar Olav varð úti á leið sinni frá Efstadal til Syðri-Reykja, 19. febrúar, 1940. 

Veður var ágætt vikuna 11.- 17. febrúar 1940. Framan af var hæg austan átt og hiti um og yfir frostmarki. Um miðja vikuna fór að kólna með norðaustan golu. 

Lífið á Syðri Reykjum gekk sinn vana gang og unnið að undirbúningi fyrir vorið: rör voru fægð og lökkuð, stungið upp og byrjað að planta út tómötum. 
M2:Séð frá S.-Reykjum. Brúará í forgrunni,
Efstidalur ofarlega til hægri
Laugardagurinn 17. Norðaustan kaldi bjart veður 10 gráðu frost. Olav fór upp að Efstadal.
Til þess að fara frá S.-Reykjum upp í Efstadal, var farið á bát yfir Brúará. Erindi Olavs í Efstadal var að hitta þar jafnaldra sína, en einhverjir þeirra voru í íhlaupavinnu á Syðri-Reykjum á þessum tíma. Þá bjuggu í Efstadal II hjónin Jórunn Ásmundsdóttir (59) og Sigurður Sigurðsson (60). Börn þeirra sem þá voru heima voru: Steinunn (22), Magnús (21), Ingvar (20), Björn (19) og Magnhildur (17). Á hinum bænum í Efstadal bjuggu hjónin Sigþrúður Guðnadóttir (43) og Karl Jónsson (35), síðar í Gýgjarhólskoti, ásamt börnum sínum Helgu (11) Jóni (10), Guðrúnu (8), Ingimar (7), Guðna (6), Arnóri (4), Margréti (3) og Gunnari (á fyrsta ári) og bróður Karls, Grími (29).
M3:Róið yfir Brúará um 1940
Sunnudagurinn 18. Norðan og norðaustan gola 2 gráðu frost mikil snjókoma með morgninum. Olav var ókominn frá Efstadal. 
 Mánudagurinn 19. Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson, Bergur og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoma og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar vorum komnir norður fyrir Brúará var kl. 9:50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt læri og mitti og jafnvel enn þá meira sumstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var. Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan, sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl. 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hversu veðrið var ískyggilegt. Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20 mín til hálftíma) og vorum flestir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um, við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman, lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir um kl. 5. Jón fer með Guðmundi til baka aftur því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri. Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.
Mennirnir fjórir voru Stefán Árnason (28), Skúli Magnússon (21), Ingibergur Sæmundsson (19) og Jón Guðmundsson (28) frá Blesastöðum, en hann hafði komið að Syðri-Reykjum nokkru fyrr til að leggja miðstöð í gróðurhús.

M4:Afstöðumynd: Efstidalur, S.-Reykir,
Böðmóðsstaðir
Í dagbókinni er talað um að fjórmenningarnir hafi verið búnir að ganga „æði spöl“ í átt að Efstadal þegar þeir mættu pilti þaðan. Á meðfylgjandi korti er mögulegur staður þar sem þeir hittu piltinn (merktur með A). Þessi piltur mun hafa verið Ingvar Sigurðsson, þá tvítugur og var hann ríðandi. Það má teljast líklegt að þeir hafi valið stystu leiðina að Böðmóðsstöðum frá þeim stað sem þeir mættust og er möguleg leið sýnd á kortinu með mjórri punktalínu frá A. Vissulega er hér um ágiskun að ræða.

Á Böðmóðsstöðum bjuggu á þessum tíma hjónin Karólína Árnadóttir (42) og Guðmundur Ingimar Njálsson (45). Börn þeirra, sem komust á legg, voru: Guðbjörn (19), Ólafía (18), Aðalheiður (17) (síðar í Neðra-Dal), Kristrún (15), Jóna Sigríður (14), Valgerður (13), Lilja (11), Fjóla (11), Njáll (10), Ragnheiður (8), Árni (7) (síðar á Böðmóðsstöðum), Guðrún (6), Herdís (5) og Hörður (4) (síðar á Böðmóðsstöðum) og Ólafía Guðmundsdóttir, móðir Guðmundar (72). 

Í ævisögu Páls á Hjálmsstöðum, „Tak hnakk þinn og hest“ sem Vilhjálmur S. Vilhjálmsson færði í letur og sem kom út 1954, er þáttur sem ber heitið „Erfið beitarhúsaferð“. Þar er fjallað ítarlegar um veðrið sem greint er frá í dagbókinni:
…allt í einu bar svo við, á þorranum, að hann fór að snjóa á galauða jörð. Algert logn var, og kyngdi niður snjónum í tvo sólarhringa samfleytt. Ég fór fram í beitarhús og Guðmundur sonur minn með mér. Ætluðum við að gæta að fénu og leita hesta, sem áttu að vera þarna ekki langt frá. Við gáfum á jötur og fórum að því loknu heim með hestana. Enn snjóaði, og nú ákafar en áður, og stóð svo í marga daga. Ég þorði ekki að senda drenginn einsamlan, og tók ég þá það ráð að fara ríðandi ásamt Hilmari syni mínum. Var þá bæði ákafur snjógangur og þoka, en það var óvenjulegt veðurlag. Svo svört var hríðin, að við sáum ekki út úr augunum og snjórinn var í miðjar síður á hestunum. Við fundum þó fjárhúsin um síðir. Þegar við vorum hálfnaðir með gegningar rauk á með hvassviðri og varð moldin svo mikil að varla sáum við niður á hnén á okkur.
og áfram heldur Páll og segir hér frá ferðinni til baka frá beitarhúsunum:
Lausamjöllin var komin í skafla, sem náðu upp fyrir hestana. Þeir brutust um og við gengum með þeim, því að ekkert viðlit var að sitja á þeim. Þarna kútveltumst við og hestarnir í snjónum og okkur fannst að ekkert miðaði.
M5: Mbl 23.02.1940
Áfram héldu þeir þó og á endanum „bókstaflega rákust þeir á bæinn“ fimm tímum eftir að þeir lögðu af stað frá beitarhúsunum. Að lokum segir svo:
Ég held að ég hafi aldrei komist í krappari dans á ævi minni. Þessi ofsi stóð í heilan sólarhring og linnti aldrei. Þá varð danskur maður úti skammt frá beitarhúsi í dalnum. Hann hafði farið frá Efstadal, en ekki náð heim til sín, að Reykjum í Biskupstungum.
Þriðjudagurinn 20. Hvöss norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum mann að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. Austan kaldi úrkomulaust en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs. Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara, áðurnefndra bæja. Var nú tekið að safna liði hér í nágrenni til að leita á morgun.
Fimmtudagurinn 22. Austan strekkingur, krapahríð. Leitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvað afdrep var, var kafald og hin mesta ófærð. Okkur þótti fullvíst að leit væri árangurslaus meðan þessi snjókyngi væri á þessum slóðum, var því ákveðið að geyma hana uns þiðnaði.
 Föstudagurinn 23. Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4 gráðu frost. Við lögðum rör í 4 og 5 en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.
Næstu daga var norðaustan gola, bjart veður og hiti frá -2° niður í -10°, en fimmtudaginn 29. varð breyting á.
Fimmtudagurinn 29. Allhvass að sunnan með dálítilli rigningu 2 gráðu hiti.
Föstudagurinn 1. Hæg suðvestan átt éljaveður en bjart á milli. 1 gráðu frost. Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmveðurs tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Grundarhúsin sem þarna eru nefnd eru að öllum líkindum svokölluð Flatarhús. Ekki ber heimildum saman um hver eða hverjir fundu lík Olavs, né nákvæmlega hvar. Ákveðnasta vísbendingin um þetta greinir frá því að Ingvar Sigurðsson, sem áður er nefndur, hafi verið við gegningar í beitarhúsum í svokölluðum Múla. Hann var með hund með sér. Hundurinn mun hafa tekið á rás niður á mýrarnar þar sem hann fann lík Olavs ekki langt frá Bleikhól, sem er merktur á meðfylgjandi korti. Það er í samræmi við það sem aðrir viðmælendur töldu.
Laugardagurinn 2. Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5 gráðu hiti. Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.
Bergur, sem þarna er nefndur, er Ingibergur Sæmundsson.

Systir Olavs, Liv Gunnhild (1915-1951), hafði, tveim árum fyrr gifst Stefáni Þorsteinssyni (1913-1997), garðyrkjufræðingi, sem þetta ár hóf störf sem kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði að loknu námi í Noregi. Stefán og Liv ráku garðyrkjustöðina á Stóra-Fljóti í Biskupstungum um skeið frá 1946, en Liv lést úr berklum 1951. Þá höfðu þau Stefán eignast 6 börn og var Liv Gunnhild þeirra yngst, fædd árið áður en móðir hennar lést, þá 26 ára að aldri. Önnur börn Liv og Stefáns voru Þorsteinn (1938), Aðalbjörg (1940), Guri Liv (1941), Sigrún (1945) og Birgir (1948). Eftir lát konu sinnar var Stefán á Stóra-Fljóti til 1956. 

Eitt barna þeirra Stefáns og Liv, Birgir, fór í fóstur til Guðnýjar Guðmundsdóttur og Helga Indriðasonar í Laugarási og var hjá þeim til fullorðinsára.
Sunnudagurinn 3. Norðvestan kaldi, 4 gráðu hiti. Ekkert nýtt bar til tíðinda.
Mánudagurinn 4. Norðaustlæg átt bjart veður 5 gráðu frost. Jarðarför fór fram á Torfastöðum.

Eftirmáli

Feitletraði textinn er orðréttur úr dagbók föður míns frá þessum tíma, þeim hluta sem fjallar um veður og Olav. Þess ber að geta, að þegar Olav varð úti var faðir minn búinn að vera hálfan mánuð á Syðri-Reykjum og tæpa tvo þar á undan á Torfastöðum, en hann kom í fyrsta skipti hingað suður, austan af Fljótsdalshéraði, í byrjun desember 1939. Fósturfaðir hans Benedikt Blöndal, varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Héraðs í janúar það ár. 

Ég hef leitast við að fylla í eyður með heimildum úr timarit.is og samræðum við fólk sem mögulega var talið hafa vitnesku um þann atburð sem um ræðir þar á meðal dætur Liv og Stefáns, þær Sigrúnu og Aðalbjörgu. Hjá þeim fékk ég einnig myndina af honum með hestinum. Þá mynd höfðu þær fengið frá Ingveldi Stefánsdóttur frá Syðri-Reykjum. Aftan á myndinni stendur: O Sanden 1940. Hina myndina af Olav fékk ég hjá Ólafi á Syðri-Reykjum, en hún er líklegast tekin 1939.

Ég ræddi einnig við Ólaf Stefánsson á Syðri-Reykjum, Theodór Vilmundarson í Efstadal, Snæbjörn Sigurðsson í Efstadal, Hörð Guðmundsson á Böðmóðsstöðum, Guðnýju og Gróu Grímsdætur á Ketilvöllum, Jón Karlsson og Ragnhildi Magnúsdóttur í Gýgjarhólskoti, Friðgeir Stefánsson í Laugardalshólum og tvö barna Ingvars Sigurðssonar, þau Sigurð og Sigþrúði. Þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir aðstoðina.

M6: Olav Sanden til vinstri. Myndin líklega tekin 1939.
Ekki hef ég nafn hins mannsins.

M7: Skúli Magnússon reynir að hafa stjórn á Ólafi Stefánssyni,
1941-42 (?)

M8: Skúli Magnússon og Stefán Árnason prikla upp úr 1940

Myndirnar á síðunni eru frá Syðri-Reykjum utan M2, M4 og M5. Á frumbýlingsárum Stefáns og Áslaugar voru í það minnst tveir miklir áhugamenn um ljósmyndun, með góð tæki og því mikið myndefni til, sem mér finnst að mikilvægt sé að halda til haga og merkja eftir föngum.

19 desember, 2015

Áhigjur af f***ing túnguni.

Þetta er bara eitt af því sem ég þarf að losa mig við. Ég veit reyndar að það mun ekki gerast með þessu móti einu, en þetta er örugglega skref í átt að því að ég sætti mig við það sem er og fái betri innsýn í það sem líklega verður.
Eftirfarandi texta skrifaði ég á þessa síðu fyrir nokkru. Hér hef ég freistað þess að sjá fyrir mér hvernig hann gæti litið úr eftir einn til tvo áratugi.
Tilefnið er ræða menntamálaráðherra áðan, menntamálaráðherra.

Framundan eraði flutningur kórar úr uppsveitir með einsöngvarar, orgel, trompet og klarinett á verk eftir sigvaldi kaldalóns kirkja óma öll. það erar ekki á móti mæla að einhverjir tenórar beruðu nokkur kvíðbogi fyrir ein nóta í umrætt verk.
Forsaga málið eraði sú að við upphaf æfingar á þetta verk eraði það eins og hver annar verk sem æfað eraði tenórinn dansaði um nóturnar áreynslulaus þó svo ein nóta undir lok hver erindi hafi takað nokkur á. Það eraði ekkert annar en áskorun og þetta var hinn góðasti mál. Með þessi háttur eraði verkið æfað nokkur sinn og það eraði að koma góður mynd á það.

við þeir aðstæður geraði það allt í einu að einn sópraninn tjáaði þá skoðun sinn að sópranlínan liggjaði of lágur. Einhverjir margari sópran takaði undir þessi skoðun.


-lesendur eru varaðir við að taka mig alltof hátíðlega á þessu stigi. Þó kraumi undir, geri ég mér grein fyrir því að ýmislegt er óumflýjanlegt. Þar má til dæmis telja íslenska tungu.

12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

01 desember, 2015

Í auga stormsins, í Laugarási eða úlfur, úlfur!

"Maður er kominn á þann aldur að fara ekkert að þvælast út í einhverja óvissu og vita síðan ekki hvort maður kemst aftur heim í dag".  Ætli þetta hafi ekki, efnislega, verið spekin sem rann upp úr mér í morgun, þar sem miðlar af öllu tagi vöruðu fólk við að ana út í óvissuna. Það var gengið ansi langt í lýsingum á þeim ósköpum sem framundan voru.
Undirtektir við þennan málflutning minn voru óvenju jákvæðar og þar með varð til sú niðurstaða að heima skyldi setið og óveðrinu leyft að leika lausum hala úti fyrir.
Ákvörðunin var tilkynnt á viðeigandi stöðum, í ágætu veðri, lítilsháttar golu og hita sem var að mjakast yfir frostmarkið. Fyrir landið í heild sinni var þessi veðurlýsing kannski ekki nákvæm, en hún var það fyrir Laugarás. Ég hafði síðan í hyggju að bregða mér út fyrir Þorpið í skóginum þegar birti til að gá til veðurs sem gæti samsvarað því sem fjölmiðlar höfðu lýst, en ég gerði það reyndar ekki.
Það leið á morguninn, það hlýnaði heldur og það var líka eina breytingin sem við urðum vör við.
Það leið að hádegi, tímanum sem veðrið var sagt mundu verða í hámarki, en í Laugarási var stinningskaldi, úrkomulaust og hiti um 3 gráður.

Það er ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál: Hér hefur verið ágætis veður í allan dag, og reyndar ekki bara hér heldur á öllu svæðinu sem Laugarás tilheyrir.

Ég leit sennilega ekki vel út á vinnustaðnum í dag.

Ég velti fyrir mér hvaða ákvörðun ég muni taka næst þegar fjölmiðlar flytja boðskap færustu manna um ofasaveður um allt land og að fólki sé ráðið til að "halda sig heima, sé þess nokkur kostur".  Ætli verði ekki úr að Qashqai verði tekinn til kostanna í fullvissu um að allt svoleiðis veðurtal sé bara enn eitt fjölmiðlabullið.

Mér finnst líklegt að það sé ástæða fyrir öllum þessum varnaðarorðum: það sé betra að vara við af fullum krafti en að gera  minna úr en síðan verður raunin og sita uppi með ásakanir um að hafa ekki varað nægilega mikið við.
Kannski verður fólk ekki jafn reitt eftir að veðrið reynist minna en spáð var og þegar spáin gerir ráð fyrir skaplegu veðri sem síðan reynist óvitum í umferðinni þungbært.

Þarna þarf einhvern milliveg.





Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...