31 janúar, 2016

Ylur minninga á þorra

Hvað er betra þegar maður er búinn að leyfa hrímköldum þorra að leika um lungun, búinn að njóta þess, með frostbitið nefið, að skella sér í kraftgöngu um Laugarási í þrítugum kraftgallanum, en að ylja sér við minningar í myndasafninu, sem vex með hverju ári.
Í samræmi við ofangreint rakst ég á stutt myndskeið frá 2010.
Við fD skelltum okkur til Þýskalands til að fara á útitónleika þar sem tenórinn okkar tróð upp ásamt ítölsku sóprandívunni Luciu Aliberti. Upplifun okkar þarna gerði ég auðvitað skil hérhér og hér.
Þarna varð minna úr upptökum en til stóð þar sem allt slíkt var harðbannað og ég auðvitað, sem ávallt, fór að þeim, reglum sem giltu, að langmestu leyti.  Þó lét ég mig hafa það að taka skot og skot.
Hér er stutt myndskeið þar sem tenórinn er að flytja O, sole mio á umræddum útitónleikum. Það má glöggt sjá á þessu myndskeiði hver áhrif flutningurinn hafði á föðurinn, sem auðvitað gleymdi alveg að fylgjast með hvort myndefnið væri í rammanum.




23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





09 janúar, 2016

Formannavísur á Stokkseyri 1891

Sigurður Pálsson á Baugsstöðum

Ég verð seint talinn til hóps þess fólks sem ber skynbragð á sjósókn á einhverjum tíma. Þrátt fyrir það á ég ekki langt að sækja tengsl við sjómenn og þá aðallega vegna þess að móðir mín, Guðný, fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi og þar bjuggu foreldrar hennar Elín Jóhannsdóttir og Páll Guðmundsson og bræðurnir Siggeir og Sigurður. Af þessum hópi er Sigurður einn eftir og býr enn í gamla bænum, en hann fæddist 1928 og er því 87 ára um þessar mundir.  Hjá Sigga er flest með sama hætti og hjá foreldrum hans. Hann setur upp jólatré sem langafi minn smíðaði og býr yfir mikilli þekkingu á ættarsögunni.


Sjóbúðir á og í grennd við Baugsstaði
Foreldrar afa míns og ömmu bjuggu einnig á Baugsstöðum og þaðan voru stundaðir sjóróðrar á opnum bátum og ég  man eftir þeim síðasta sem var kallaður Græðir. Ég geri fastlega ráð fyrir að um útgerðina frá Loftsstaðasandi hafi þegar verið skrifað heilmikið þó ekki viti ég það. Þó svo væri ekki, yrði það aldrei mitt hlutverk að færa þá sögu í letur.


"Frá Baugsstöðum" - sjóbúðir

Það sem varð til þess að ég set inn þessa færslu voru 45 vísur sem ég rakst á úr fórum foreldra minna. Ekki veit ég hvort þær eru þegar til á prenti, en geri þó frekar ráð fyrir því, hef að minnsta kosti séð nokkrar þeirra í vísnaþáttum héraðsfréttablaða.

Höfundur vísnanna: Magnús Teitsson

Þetta er meðal þess sem ég fann um Magnús:
Magnús Teitsson (1852-1920) fæddist í Kolsholti í Villingaholtshreppi, var formaður í Garðbæ á Stokkseyri, síðar á Brún á Stokkseyri. Foreldrar hans voru Teitur Jónsson bóndi í Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi og kona hans Kristrún Magnúsdóttir.
Árið 1920 dó á Stokkseyri aldraður maður, Magnús Teitsson að nafni. Hann var ættaður af Eyrum og mun hafa átt þar heima alla sína ævi. Aðalatvinna hans framan af ævi voru sjóróðrar á vetrum og kaupavinna á sumrum. Stundum var hann líka háseti á þilskipum við Faxaf lóa, er sá útvegur tók að færast í aukana. Magnús var vel verki farinn og hinn hagasti, að hvaða verki sem hann gekk. Kunnastur er hann samt fyrir hinar smellnu vísur, er hann hafði jafnan á hraðbergi, því að hann var prýðilega hagmæltur og oft ótrúlega fljótur að koma saman vísu.
 Magnúsi er svo lýst, að hann hafi verið tæplega meðalmaður að hæð, en þrekinn og svarað sér vel, og beinvaxinn var hann fram á elliár. Hann var kringluleitur, réttnefjaður, fullur að vöngum og nokkuð kinnbeinahár. Hann var ekki ennismikill né höfuðstór. Það sem einkenndi hann sérstaklega frá öðrum, voru augun, þau voru fremur lítil, dökkmóleit, eldsnör og gáfuleg. Hann var dökkur á hár og skegg, alskeggjaður, og yfirskeggið úfið. Hann tók í nefið, og vildi þá neftóbak hnoðast í hið úfna yfirskegg og loka nösunum. Þess vegna hóf hann oft mál sitt með því að blása snöggt út um nefið. — Vín þótti honum mjög gott.  

Hér eru vísur Magnúsar um formenn á Stokkseyri 1891

Formennina veit ég ekkert um og flestar vísnanna skil ég hreint ekki. Það getur vel verið að þarna finni einhver vísu um langafa sinn.

Það skal heyra þjóðin svinn
þá, sem keyra um skervöllinn
fiska leira fákinn sinn
frá Stokkseyri um veturinn.

Adólf keyrir kaðla jó
kalt þó heyrist Ránar hó
örum meiri áls um mó
á Stokkseyri halur bjó.

Afla notar alvanur
ára gota framsettur
á keilu slotið kappsamur
frá Keldnakoti Bernharður.

Bensi ferðast fiska um lá,
fín þó skerðist lognin blá,
aðsókn herðir ötull sá,
Íragerði vestra frá.

Askinn fjarða um ýsu lá,
ei þó skaði bylgjan há,
blágóms jarðir beitir á
Bárður, Garði ytra frá,

Út á stikar ægi lon
á árablika í happa von,
breið þó lyki bláleits kvon,
Bjarni Nikulásarson.

Brátt ef slotar bylgjan há,
ber sig otalandi frá
báru gota á byrðings lá,
Bjarni, koti Hellu frá.

Flæðar músa frambrunar
frekt og knúsar bárurnar
bjargar fús um breiðan mar
Bjarni í húsi Símonar.

Ört, nær liggur aldan stinn,
ára Frigg á skervöllinn,
otar hygginn æ hvert sinn
Einar byggir Pálsbæinn.

Fokku barða fetar á,
frek nær skarðar kólgan há,
alúð sparar enga sá,
Einar, Garðhúsunum frá.

Siglu bolla um síla lá
setur holt í afla stjá
með ýta stolta á öldu blá,
Einar, holti Borgar frá.

Borða kjóa beita má,
breið þá hói aldan grá,
gedduflóa gruggið á
Grímur, Móakoti frá.

Árna kiði á öldu knur
ýtir sniðugt hugaður,
straums á iðu stöðugur,
Steindórs niður, Guðmundur.

Oft þó heyrist hrönin blá
Halldór keyrir neglu má,
hjá Stokkseyrarseli
siglir leirinn mjaldurs á.

Þó Ægir vaði öflugur
ára naðinn framsetur
á keilu traðir kappsamur,
Kolbeinsstaða Hallgrímur.

Hannes eigi hræðast má,
hátt þó geygi röstin blá,
ríður fleyi Roðgúl frá
rastar veginn breiðan á.

Ingvar Karels kundur snar,
kalt þó svari hafmeyjar,
lætur fara fokku mar
fram á þara leiðirnar.

Létt þó blundi báru són,
borða hundi laus við tjón,
Vernharðs kundur vaskur, Jón
vel fær heundið sels á lón.

Hvals á frón hinn hugdjarfi
hlunni lóna stýrandi,
gildur þjónar gæfunni
gætinn Jón í Framnesi.

Eins þó láar ærist knur,
aflann háa Jón finnur,
Holti frá um haföldur
hestinn ráa fram setur

Jón þó sveimi jötuns gól,
jóinn teymir ára á ról,
ekki feimins áls á ból,
á nú heima á Rauðárhól.

Á húna kiði ei hræðist tjón,
hátt þó iði bylgju són ,
þræðir sniðugt þorska lón
Þórðar niður, ungur, Jón.

Flæðar keyrir fákinn sinn
á fiska leirinn vel heppinn,
þó jötuns heyrist jögunin,
Jón, Stokkseyrar húsbóndinn.

Dvergasteinum dregur frá,
djarft þó veini bylgjan há,
Jón, með sveina um síla lá
sinn að reyna kaðla má.

Jafnt þó brúsi báru frón,
borða krús á mjaldurs lón,
ýtir fús með afla bón,
á Móhúsum bóndi, Jón.

Eins þó blekki báran há,
bila ekki stjórinn má,
öllum þekkur ýtum sá,
ungur Kekki, Jón er frá.

Þó virða lýi veðra þrá,
viskustiginn sigla má,
húna kríu á höfin blá
hann Júníus, Seli frá.

Áls um bungu æ forsjáll
ára lungi beitir þjáll,
þó seltu drungi sýnist háll
sonur ungur Þórðar, Páll.

Pálmar keyrir kaðla, dýr,
kaldan þeyinn ekki flýr.
Áls á leirinn ötunn, skýr,
á Stokkseyri núna býr.

Dreka hnellinn ára á,
þó aldan skelli flúðum hjá,
mjaldurs svellið miðar á
Magnús, Helli kominn frá.

Magnús beitir ára örn,
áls um bleytu reynir vörn,
borinn Teiti um byrðings tjörn,
þó báran þeyti reiði gjörn.

Hafs á fletin, hugdjarfur,
hlunnjó setur öflugur,
aflann metur auðfengur,
Árna getinn, Sigurður.

Sigurð glaðan met ég minn,
más um traðir velheppinn,
keipa að hlaða kak fann sinn
Kalastaða húsbóndinn.

Fokku hundinn framsetur,
fyrr en blundar hræsvelgur,
hafs á grundu hugaður,
Hinriks kundur, Sigurður.

Teignum beina ferðast frá,
frek þó kveini aldan blá,
Siggi á hreina sela lá,
sigluteina jónum á.

Hrauk frá gengur, hugaður,
hót ei lengur við dvelur,
síls á engi, Sigurður,
sínum drengja hóp meður.

Upp þó skvettist ýsu frón,
orkumettur, laus við tjón,
aflar þétt á ára ljón
einn frá Stéttum, Sigurjón.

Eins þó bralli aldan blá,
ekki hamla ferðum má,
djarft að svamla um síla lá,
Símon, Gamla hrauni frá.

Lungi hröðum ára á,
oft með glöðum huga sá,
lýsu tröðum löngum  á,
Leiðólfsstöðum, Snorri, frá.

Sturlaug fúsan svo ég sá,
sigla brúa um löginn blá,
stýra húsum Starkaðs frá,
stór ei knúsan gæfan má.

Þórður ráa þægum gant,
þeysa náir, laus við stant,
Skipum frá um laxa lant,
liðugt gáinr, tefji brant.

Torfi Söndu treður frá,
tjóni og gröndum horfinn frá,
keipa bröndusina sá,
sesttur löndin karfa á.

Öldu glaði ýta má
ei hann skaðar bylgjan há,
þá með hraða um þorska lá
Þórður Traðarholti frá.

Þröst á fjala þéttur gengur,
Þorkell, valinn Magnús bur,
hátt þó gali Hræsvelgur,
heppinn talinn, formaður.

Ýta og fljóðin æ hvert sinn,
annist góður drottinn minn,
svo má þjóðin, þýð og svinn
þylja ljóðin, stirðkveðin.






04 janúar, 2016

Gamanvísur um Skitu-Lása

smella til að stækka
Ég var að leita að einhverju þegar ég rakst á vélrituð, samanheftuð blöð í pappírum sem foreldrar mínir skildu eftir sig.  Ég blaðaði í gegnum þetta og fannst kveðskapurinn eitthvað undarlegur þar til ég áttaði mig á að þarna voru vísur til söngs við sama lag og Bílavísur sem er þekkt revíulag og byrjar svona:
Halló þarna bíllinn ekki bíður.Æ, blessuð flýtið ykkur tíminn líður.Sæti, fröken, sestu þarna manni. Þau ætluðu nefnilega rétt sem allra snöggvast að skreppa suður í Hafnarfjörð og auðvitað  íleyfisleysi og banni.
Nafn höfundarins var skráð undir vísunum. Ég reiknaði í fyrstu með að það væri dulnefni.  Ég ákvað samt að gúgla,  með þeim árangri að þarna reyndist vera um að ræða raunverulegan einstakling: Hjörmund Guðmundsson 
Hjörmundur Guðmundsson (1876-1960) var fæddur á Hjálmsstöðum í Laugardal, vinnumaður á Hjálmsstöðum, síðar verkamaður í Hafnarfirði. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum og kona hans Gróa Jónsdóttir.
Í minningargrein Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti um Hjörmund segir:
Hjörmundur var sérstaklega skemmtilegur, kátur og glaður, hagorður í bezta lagi, enda mikið um vísna- og ljóðagerð á Hjálmsstöðum á þeim árum, oft orti hann af munni fram, og fauk þá margt sem ekki var ætlazt til að lifði, en oft voru orðatiltækin hnittin og vöktu kátínu og gleðskap. Hann var sérstakur geðprýðismaður, og ég fullyrði að ég sá hann aldrei reiðan.
Í framhaldi af þessum fundi ákvað ég að prófa að gúgla Skitu-Lása og viti menn:
Hann var sagður förumaður, tómthúsmaður og hjónabandsmiðlari.Það mun vera þáttur um þennan mann í bókinni "Grímsnes: búendur og saga"
Nikulás Helgason "Skitu-Lási" var fæddur 5. apríl 1855 í Ölvaðsholtshjáleigu í Holtum. Foreldrar hans voru Helgi Jónsson (1822-1894) og k.h. Guðríður Magnúsdóttir (1821-1894). Nikulás giftist Sigríði Jónsdóttur (1861-?) og áttu þau tvö börn. Hann andaðist 18. janúar 1929 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Með alla þessa vitneskju fengu þessar vélrituðu vísur allt aðra merkingu og ég fór að reyna að átta mig á hvenær þær hefðu verið ortar. Nafn einnar konu í vísunum kannast ég við, en það er Sigríður Tómasdóttir í Brattholti. Hún fæddist 1874 og af því má álykta að vísurnar hafi verið samdar 1923-24, þar sem Sigríður er sögð vera á "fimmtugasta ári".

Það væri ekki leiðinlegt ef einhver kynni betri skil á þessum vísum og því fólki sem þar er tilgreint.

Gamanvísur um Skitu-Láka

Hjörmundur Guðmundsson

Það þekkja flestir farfuglinn hann Lása,
sem flögrar milli sveita rödd með hása.
Hans starf er nú að kynna konur mönnum.
Honum þykir það afturför í landinu hve lítið að unga fólkinu giftir sig og ungu piltarnir líta varla við
fagur leitum svönnum.

Hann sér að fólkið síst er glatt í lyndi
og seglunum það hagar eftir vindi,
en hugsar sér að bíða og sjá hvað setur.
Svo hefur hann tekið eftir að stúlkurnar eru hálf daufar og niðurdregnar þegar 
kemur fram á vetur.

En sumir fóru að segja Lása í hljóði
hvort sæi hann nokkurstaðar völ á fljóði,
sem gæti þénað búskapsþörfum bráðum,
bara að hún væri snotur útlits, og ekki mjög gömul og 
sniðug vel í ráðum.

Hann Lási sagðist lítið hafa að gera
og líklegur til útréttinga vera.
Já, þetta er eitt sem þarf í hasti að laga,
svo þaut hann upp og fór í bestu flíkurnar, setti upp harða hattinn og hvítan flibba sem tók honum 
langt niður á maga.

Og bílstjórinn á Borg hann fyrstur sendi
og bíður honum gjaldið strax í hendi,
ef kæmi hann með konu til sín fríða.
Ég er kominn undir fertugt, alveg uppgefinn á lausamennskunni 
og hálfþreyttur að bíða.

Það er sagt að Lási svæfi ei vært þá nóttu,
hann sveif á burtu löngu fyrir óttu
og barði á dyr um fótaferð í Hólum,
spurði hvað framorðið væri, flensaði snjóinn burt af 
slitnum göngutólum.

En heimasætuna Hildi vildi hann finna
og henni þessa málaleitan kynna,
en samningurinn síður er mér kunnur,
en svo mikið er víst að Lási hrópaði "halló" og 
opinn var hans munnur.

Hann Sigurð, karlinn setti dáltið hljóðan,
þeir sögðu hann ýmist hvítan eða rjóðan.
Hann tók á líku traustum karlmannshöndum
það tekur ei að æðrast út af svona smámunum 
svo sem ljón í böndum.

Hann tekur Lása á eintal úti í kofa
því inni fyrir sá til skýja rofa,
og biður hann í Brattholt strax að hlaupa
og biðja fyrir sig heimasætuna þar - þeir 
óðar þessu kaupa.

En ef þér lukkast ferðin, frændi góður,
þá færðu Grána strax og allt hans fóður
og þrettán ærnar þrifa og kosta gildar.
Þú skalt svei mér ekki ver haldinn hjá mér, en þeim sem 
sendi þig til Hildar.

Hann Lási brá sér leiðina inn með Hlíðum,
í léttum göngumannabúning víðum
og barði svo í Brattholti að dyrum
og bóndadótturina Sigríði
Tómasdóttur spyr um.

Það segir ekki af Siggu og Lása fundum,
því samtal oft eru heimulegt með sprundum.
Hún sendi aftur silfur lokk af hári,
sem sagður fullur meter á lengd, en Sigríður nú á
fimmtugasta ári.

Í bakleið aftur Efstadal hann finnur,
þar ekkja býr hún Guðný mest sem vinnur.
Hann býður henni að bjarga henni í skyndi,
semsé að útvega henni mannsefni, sem veiti
henni skjól og yndi.

En þetta gjörðu þau ei lengur ræða,
en þegar hann var búinn sig að klæða
þá skaust hann eins og kólfur eða kúla,
kom hvergi á bæi, kokkaði málið og trúlofaði hann 
Ingvar bónda í Múla.

Svo brá hann sér í Borgar háa ranninn
og býður Hrefnu að útvega henni manninn.
Hún var hálf treg og gaf þó síðar svarið:
"Mér er alveg sama hvort eða síðar
tekið verður af skarið".

Hann Lási þurfti þarna ekki meira
og þessi svörin hrópar Karli í eyra,
en Kalli sá að happ var honum hlotið.
Það var hreinasta undur
hve vel hann fór með skotið.

Að Gýgjarhóli gekk hann einhvern daginn
og guðaði að kvöldlagi á bæinn.
Hann hafði mér sér umboð ýmsra sveina
að inna að því við heimasæturnar þar
hvort þeir mættu reyna.

Því gullæðin um Gýgjarhólinn streymir,
um gullnar vonir marga pilta dreymir,
Og gullhár hefur heimasætan bjarta.
Það kvað hafa töluverð áhrif á
mannlegt auga og hjarta.

Hann bauð henni Magnús, búfræðinginn unga,
sem bragna og meyja lofar sérhver tunga.
En stúlkan hafði ei bónorð fegnið betri,
hún bara vildi giftast honum sem fyrst,
helst á þessum vetri.

Svo hélt hann áfram út um sveitir allar
og alltaf hann um sama málið fjallar,
uns sextán pör hann saman hefur bundið.
Það kostaði hann talsverða fyrirhöfn og skófatnað og 
margra að því fundið.

Hann þreytist ekki góðverkin að gera,
fyrir giftingunum vill hann agitera.
Hann sjálfan vantar aðstoð þó í elli,
það eru helst efnaðar piparmeyjar og ríkar ekkjur sem
þar í kramið félli.

Og sjálfan hafði hann sig á bak við eyra
svona jafnvel lét það á sér heyra,
að ef sér yrði gerður dáldill greiði,
þá gæti hugsast að Tjarnarkot í Tungum fari ei
næsta vor í eyði.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...