17 apríl, 2016

X3990

Þetta númer var síðast á Nissan Prairie.
Hlutverki þess lauk með dramatískum hætti
16. nóvember, 1996
"Hver var þetta?"
"Ekki hugmynd."
Hve oft skyldu nú samskipti af þessu tagi hafa átt sér stað þar sem við fD stundum kraftgöngu eftir malbikuðum gangstígnum sem stuðlar að bættu líkamsástandi og betri líðan Laugarásbúa og gesta þeirra?
Tilefni spurningarinnar og svarsins er ávallt bíll sem ekur hjá og við greinum óljósar útlínur handar sem veifar.  Stundum læt ég mig hafa það að veifa á móti, vegna þess að það telst kurteisi að heilsa fólki. Einnig vegna þess, að ef ég ekki veifa þá gæti bílstjórinn eða farþeginn í bílnum fengið þá flugu í höfuðið að mér væri eitthvað í nöp við hann, og þyrfti síðan að berjast við þá  tilhugsun næstu daga.  Ég hef vissulega sleppt því að veifa á móti, hef þess í stað látið sem svo, að ég væri mjög einbeittur við gönguna, því ganga er alvörumál, gæðatími.
Hvernig sem viðbrögð mín eru, hverju sinni má halda því fram að þau séu vandræðaleg og feli í sér ólíklegustu gildrur sem forðast ber í mannlegum samskiptum.

Þetta var einfaldara áður fyrr. Þá þekkti maður helstu númer og gat þannig með góðum fyrirvara brugðist rétt við hverju til viki, allt frá því, auðvitað, að þekkja ekki númerið og þar með sleppa því að veifa í kurteisisskyni, upp í það að spandera breiðu breiðu brosi, ásamt því að veifa kröftuglega.  Allt auðveldara og engin móðgun möguleg,

Það er nú farið að fenna dálítið yfir helstu bílnúmer, en ég man að pabbi var með X1567, Ég með X3990, lengst af, Ólafur læknir með G44, Grímur læknir með X1000, lögreglubílarnir (svarta María) með X1, X2, X3 og svo framvegis (ekki það að ég hafi átt mikið samamn við lögregluna að sælda).

Mér hnykkti dálítið við um daginn, en í einhverri spurningakeppni þar sem æska landsins tók þátt var spurt hvar bílar með tilteknum númerum hefðu verið á landinu. Það stóð á svörum og þau komu ekki.  Auðvitað á hvert mannsbarn að læra hvernig þessu var háttað áður fyrr. X-bílar vori í Árnessúslu, R í Reykjavík, G í Hafnarfirði (Gullbringusýslu), Y í Kópavogi og svo framvegis.  Þetta er þekking sem ætti að varðveita eins og hver önnur menningarverðmæti.

Ég verð að viðurkenna, að í ákveðnum tilvikum var frekar óhagstætt að búa við gamla númerkerfið. Þegar maður fór til Reykjavíkur á bíl með X-númeri brugðust innfæddir ekki alltaf vel við "sveitalúðanum" sem kunni ekki að keyra í höfuðstaðnum. Nokkur flautin fékk ég meðan ég var að ná tökum á tilverunni að þessu leyti í borginni.


Til gamans, bara vegna þess að ég fann, læt ég fylgja lista yfir gömlu númerin, en undir lok síðustu aldar tóku þau að víkja fyrir þeim sem við nú þekkjum.


A-Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla
B-Barðastrandasýsla
D-Dalasýsla
E-Akraneskaupstaður
F-Siglufjarðarkaupstaður
G-Hafnarfjarðarkaupstaður og Gullbringu- og Kjósarsýsla
H-Húnavatnssýsla
Í-Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla
K-Sauðárkrókskaupstaður og Skagafjarðarsýsla
L-Rangárvallasýsla
M-Mýra- og Borgarfjarðarsýsla
N-Neskaupstaður
Ó-Ólafsfjarðarkaupstaður
P-Snæfells- og Hnappadalssýsla
R-Reykjavík
S-Seyðisfjarðarkaupstaður og Norður-Múlasýsla
T-Strandasýsla
U-Suður-Múlasýsla
V-Vestmannaeyjakaupstaður
X-Árnessýsla
Y-Kópavogur
Z-Skaftafellssýsla
Þ-Þingeyjarsýsla
Ö-Keflavíkurkaupstaður

14 apríl, 2016

Sjálfutækni

Við Lagarfljót
Þessum pistli er fyrst og fremst ætlað að vera fræðandi og þáttur í því að opna  fyrir þeirri kynslóð sem ég tel að helst lesi þessi skrif, undraveröld sem ungdómur á þessum tíma drakk í sig með móðurmjólkinni, nánast, samt ekki í eiginlegri merkingu.
Fram til þessa hef ég tekið tvær sjálfur, Önnur þótti sérlega vel heppnuð og áhorfendur höfðu uppi mörg fögur orð um myndefnið.  Hin varð að verða til, enda enginn annar, sem gat framkvæmt myndatöku, með í för. Þessar myndir má sjá hér til vinstri.

Í Eiffelturninum
Þá kem ég að tilefni þessa pistils, sem er uppljóstrun fjármálastjórans í ML, sem er það sem kalla má "advanced", eða svona framhalds-farsíma gúrú, að það væri til svokölluð tveggja fingra tækni við að taka sjálfur.  Þetta varð tilefni mikilla umræðna á kennarastofunni og má jafnvel segja að störf hafi verið lögð niður lengur en ásættanlegt var.

Ég mun hér gera greina fyrir muninum á tveggja fingra og þriggja fingra tækninni við sjálfutöku. Ég biðst að sjálfsögðu velvirðingar á því að andlit mitt kann að blasa við óþægilega oft, en tilgangurinn helgar meðalið.


Þriggja fingra tæknin
Hér er um að ræða þá aðferð sem "elementary" (byrjendur) sjálfutökufólk hefur stuðst við og þar sem ég hef lítið lagt mig eftir sjálfutökum, hefur þetta verið mín aðferð.  Myndin til hægri sýnir vel hvernig myndatakan er framkvæmt með þessari tækni. Tveir fingur, langatöng og þumall, hafa það hlutverk að halda símanum, meðan vísifingur er notaður til að snerta hnappinn á miðjum sjánum og þannig gerist það,  að símamyndavélin smellir af, eða þannig.
Mynd  tekin með þriggja fingra tækni
Beiting þriggja fingra með þessum hætti kallar á talsverða einbeitingu, sem síðan getur birst á myndinni.  Mér hefur lengi þótt undarlegt, ég segi ekki að ég hafi dáðst að fólki sem getur virst alveg afslappað, brosandi og hresst á sama tíma og það þarf að stjórna þrem fingrum með ofangreindum hætti.  Svarið við pælingum mínum að þessu leyti (pælingum sem hafa aldrei átt sér stað, reyndar, svo því sé nú haldið til haga) fékk ég í dag, hjá gjaldkeranum, sem bjó yfir hinni meira þróuðu sjálfutækni: tveggja fingra tækninni, svokölluðu.

Tveggja fingra tæknin

Afsmellihnappurinn
Sú tækni sem hér er gerð grein fyrir, byggir á því að hnappurinn sem alla jafna stýrir hljóðstyrk og hægt er að finna á hlið betri síma (svona eins og mínum), breytist á afsmellingarhnapp um leið og síminn er settur í sjálfuham.
Þarna fannst mér vera komin lausnin sem gæti orðið til þess að ég yki sjálfutökur og gæti jafnvel farið að miða mig við ýmsa jafnaldra mína að því leyti.
Æfingamynd með tveggja
fingra aðferðinni.
Ég leyni því ekki, að ég hóf, strax í dag, æfingasjálfutökur. Fann staði sem mér fannst vera hentugir, reyndi fá fD til að vera með, svona eins og á að vera. Tilmæli mín gáfu ekki þann árangur sem lagt var upp með og þar með snérust æfingarnar aðeins um mig og engan annan. Það kann að vera, þegar ég hef náð fullkomnu valdi á tækninni, að mér takist að breyta afstöðu fD að þessu leyti. er samt ekki vongóður.
Það fæðist enginn sem sjálfutökumaður (nema kannski nútímabörn) og þess bera fyrstu æfingatökurnar merki. Það sem ég mun þurfa að takast á við er sú staðreynd, að linsan á símanum vill lenda á bak við vísifingur (hér hér fyrir ofan til hægri).  Ég er þegar búinn að ná vel viðunandi tökum með þumalinn á afsmellihnappnum.  Þó ég sé búinn að prófa ýmisskonar nálgun að tökum, sem beinast að því að komsta hjá því að vísifingur verði hluti af öllum sjálfum sem ég tek, er ljóst að frekari æfingar er þörf, áður en mér tekst að ná fullkomnum sjálfum, sem óhætt er að bjóða kröfuhörðum neytendum samfélagsmiðla upp á.

10 apríl, 2016

Finslit

Orðið "vinur" hefur aðra merkingu á samfélagsmiðlinum Facebook en raunheimi. Vináttu taka menn upp á svona miðli af ýmsum ástæðum öðrum en að þeir séu vinir í raun. Þarna tilkynnir fólk sig til vináttu, jafnvel bara vegna þess að það þekkist af afspurn. Að nota orðið "vinátta" um það samband fólks sem þarna verður til, má kallast rangnefni og það má vel halda því fram að með þeirri tilhögun sé búið að eyðileggja ágætt orð.  Hvað merkingu leggur fólk í þessa yfirlýsingu, ef hún er ekki sett í eitthvert samhengi: "Við erum búin að vera vinir í 7 ár"?
Ég legg til að til aðgreiningar fari fólk að tala um FINI í þessu sambandi (Facebook vini). FINUR er bara fallegt orð sem fer vel við íslenska tungu.


Ég er búinn að læra hvernig ég get hætt að vera finur fólks og það sem meira er, ég get hætt fináttunni án þess að fyrrum finur minn viti af því, nema hann renni í gegnum breytingar á finalista sínum.  Ég er búinn að prófa að ljúka fináttu við nokkra nú þegar og hef ekki fengið neinar athugasemdir við það frá fyrrverandi, sennilega vegna þess að þeir vita ekki einusinni af því, sem segir margt um hverskonar finátta var þar á ferð.

Ég ætti að vera búinn að grisja finahópinn talsvert meira, en annaðhvort nenni ég því ekki eða þá ég hef öðlast nokkra leikni í því að skrolla eða skruna og líta framhjá; segja sem svo: "Já, þessi er við sama heygarðshornið!".

Mér finnst stærsti kosturinn við þennan miðil vera þeir möguleikar til að vera í sambandi við fólk sem þú myndir að öðrum kosti ekkert vita um: ættingja, gamla skólafélaga, fyrrum nágranna og því um líkt.

Það má flokka þá fini mína, sem mig langar minnst að vita mikið af í fernt:

1. Þeir sem gera fátt annað en deila einhverju sem aðrir hafa sagt þó ég viti að oft eru þeir með því, að upplýsa okkur, fini sína um eitthvað merkilegt, eða skemmtilegt sem þeir hafa rekist á í víðáttum veraldarvefsins. Það er svo sem ýmislegt til þar. Ég er sekur um þessa iðju í einhverjum mæli.

2. Þeir sem taka þátt í öllum deilileikjum fyrirtækja (auglýsingum) í von um að fá vinning. Þessi iðja er af sama tog og þegar hlustendur hringja inn í útvarpsþátt í von um að fá bíómiða, eða eitthvað þvíumlíkt.  Ég hef gert þetta einusinni. Það var í dimmasta skammdeginu og um var að ræða að komast í pott til að vinna mögulega sólstrandaferð.

3. Þeir sem með einhverjum hætti finna hjá sér þörf til að deila með finum sínum fjölkyldulífi sínu og þá, að því er mér virðist, aðallega í upphafningarskyni. Fá síðan helling af viðbrögðum eins eins. "krúttsprengja", "rúsínurass", "heppin þú", "yndislegt", "gellan!"og þar fram eftir götunum.

4. Þeir sem strá inn hávaðanum af órökstuddum skoðunum sínum og dylgjum, og virðist skorta sómatilfinningu, réttsýni, skynsemi, sjálfsgagnrýni og því um líkt. Hér er auðvitað oft um að ræða pólitíska sleggjudóma af ýmsu tagi.

Það er fjarri því að ég hafi áhuga á því, að hafa áhrif á hvernig finir mínir kjósa að tjá sig. Ég þarf bara að vega og meta hvernig ég bregst við.  Oftast er um að ræða ágætis fólk sem leggur einnig margt fleira til málanna.

Af ofangreindu héld ég að ég hafi einna minnst þol fyrir órökstuddum sleggjudómum sem ganga gegn mínum lífsskoðunum og kalla á að ég bregðist við, sem ég geri auðvitað ekki. Með sama hætti get ég alveg reiknað með að það hafi fækkað í finahópi mínum vegna minnar tjáningar að þessu leyti.

Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt þjóðfélögum um allan heim. Það er hægt að nota þá til góðs eða ills og allt þar á milli.   Það má spyrja sig um hvert það leiðir okkur.







07 apríl, 2016

Góður biti í hundskjaft

Orðtök geta verið skemmtileg og til þess fallin að skerpa á því sem sagt er. Mér hafa dottið nokkur í hug að undanförnu.
Í dag tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra í þessu, að mörgu leyti undarlega þjóðfélagi okkar. Hve lengi honum tekst  að gegna því, veit ég ekki, auðvitað. Þetta getur verið upphafið að endinum á stjórnmálaferli Hreppamannsins eða upphafið á löngum og farsælum ferli. Það kemur allt í ljós og veltur á ótal fyrirsjáanlegum og síður fyrirsjáanlegum þáttum.

Það vill svo til að ég hef átt samleið með þessum pilti á tvenns konar vettvangi. Annarsvegar áttum við ágætt samstarf þegar uppsveitahrepparnir ákváðu að efna til kosninga um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum á 10. áratugnum. Þar sátum við báðir í nefnd sem hélt utan um undirbúning og kynningu á því verkefni. Hinsvegar hafa leiðir legið saman í gegnum aðkomu Sigurðar Inga að málefnum Menntaskólans að Laugarvatni, en þar hefur hann átt sæti í skólanefnd í óskaplega mörg ár og var formaður nefndarinnar um alllangt skeið. Velferð skólans hefur skipt hann miklu máli.

Sigurður Ingi er vandaður maður, traustur og svona eiginlega gegnheill, ef mér hefur tekist að lesa hann rétt. Ætli megi ekki lýsa honum einnig sem svo, að hann hafi virkað á mann sem þungavigtarmaður í bæði eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Ég varð hugsi þegar ég frétti af því að hann væri kominn í framboð fyrir þann flokk sem hann síðan hefur unnið sig upp innan. Það kom mér nokkuð á óvart, því hann hafði ekkert ýjað að hneigingu til stuðnings við neinn sérstakan flokk, eins og lenskan hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna í uppsveitum. Ég var aldrei búinn að staðsetja hann í þeim flokki sem reyndin varð.

Við þær aðstæður varð mér á orði, í huganum, svo orðvar sem ég nú er: "Þar fór góður biti í hundskjaft!"
Áður en við var litið tók Sigurður Ingi síðan að rísa hærra og hærra innan þessa flokks, að mínu mati að stórum hluta í hópi sem var honum ekki sæmandi. Það var bara mitt mat auðvitað, þar sem ég fylgdist með eins og hver annar, litaður að eigin lífsskoðunum og getu til að lesa í fólk, sem auðvitað er umdeilanleg, eins og flest annað.
Framinn var hraður, miklu hraðari en venjulega gerist innan stjórnmálaflokka. Áður en við var litið var hann kominn á þing, orðinn varaformaður og síðan ráðherra og nú síðast forsætisráðherra.   Þá datt mér í hug annað máltæki: "Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur".

Ég hef haft það á tilfinningunni, að sá stakkur sem maðurinn hefur verið settur í, innan þessa flokks hvorki fari honum vel, né virðist þægilegur.  Þar sem hann stóð í stiganum í gærkvöld, við hlið viðskiptamanns sem var bólginn af hroka og ekki í jafnvægi, fann ég þessa tilfinningu enn skýrar.

Það sem ég óttast er, að ítök þess sem þurfti að hrökklast frá, verði til þess að koma í veg fyrir að Sigurður Ingi fái að njóta sín eins og hann er. Vonandi ber hann gæfu til að hrista þann skugga af sér.




03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...