29 júlí, 2016

Líklega betra að koma ekki heim

Fyrrverandi forsætisráðherra steig inn í ljós fjölmiðlanna fyrir nokkrum dögum og tilkynnti endurkomu sína. Hvaða endurkoma er það? Hann situr á Alþingi sem fyrr. Er það þá endurkoma í forsætisráðuneytið?
Endurkomu sína tilkynnti hann þannig, að hann væri kominn heim, með tilvísum í lag og texta sem tengist aðallega glæstum árangri íslenskra landsliða í íþróttum þessi misserin.  Ég leyfi mér hér, aðallega, auðvitað að gamni mínu, að heimfæra texta Jóns Sigurðssonar upp á þessa meintu endurkomu fyrrverandi forsætisráðherra.

------------------------------



Er völlur grær og vetur flýr,
og vermir sólin grund.
Kem ég heim og hitti þig,
verð hjá þér alla stund.


Í þessari vísu er augljóslega verið að fjalla um að heimkoman verði næsta vor og það  skýrir sannarlega hversvegna sá sem segist vera kominn heim, hefur tjáð sig á öðrum vettvangi um að það skuli kosið í vor. 
Annarrar persónu fornafnið vísar augljóslega til þjóðarinnar og ber með sér að hann telji ástæðu til þess að hún hlakki til. Hann gerir einnig ráð fyrir því, að þegar kann kemur, verði það til frambúðar.


Við byggjum saman bæ í sveit,
sem brosir móti sól.
Þar ungu lífi landið mitt
mun ljá og veita skjól.


Hér er talað um bæ í sveit, sem bendir þá til þess, að um verði að ræða bæinn Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð, sem einmitt má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð
Þar er þá líklega meiningin að sitja á pallinum og brosa með bænum mót austfirskri sólinni. 
Það er áhugavert, að samkvæmt þessu gerir sá sem segist vera kominn heim, ekki ráð fyrir að búa í Skrúðási 7 í Garðabæ, eins og gera hefði mátt ráð fyrir, enda verður það hús seint talið til sveitabæja. 
Að öðru leyti má lesa út úr þessari vísu, að við heimkomuna muni nýjum samflokksmönnum fjölga og þeir muni njóta þess að sá sem segist vera kominn heim, verði kominn heim. Sú framtíðarsýn kann að höfða til einhverra. Þá er þarna talað um "landið mitt" og þar með það slegið út af borðinu, að um land einhverra annarra sé að ræða, nema
Skrúðaás 7, Garðabæ
auðvitað um sé að ræða jörðina Hrafnabjörg út af fyrir sig.

Sól slær silfri á voga,
sjáðu jökulinn loga.
Allt er bjart yfir okkur tveim
því ég er kominn heim.

Hér er sleginn nokkuð rómatískur strengur og þar með þess freistað að höfða til tilfinninga lesandans. Vissulega má segja að Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð standi ekki fjarri Héraðsflóa (kort) og þar megi mögulega líta dans sólageislanna, en þá þarf auðvitað að hafa það í huga að Héraðsflói er flói en ekki vogur. Með því að kalla hann vog, er verið að gera lítið úr honum, en einmitt sú yfirlýsing gæti bent til þess að sá sem segist vera að koma heim, sé talsvert hrokafullur í eðli sínu.  
Tilvísunin í jökulinn sem logar í geislum kvöldsólarinnar er dálítið dularfull, enda engir jöklar á Norð-Austurlandi. Þarna er sá sem segist vera kominn heim að öllum líkindum að freista þess að höfða til víðari hóps, ekki síst á þeim landsvæðum þar sem einhverjir jöklar sjást, þar með höfuðborgarsvæðinu, þar með í Garðabæ, sem síðan má túlka sem tilboð til þeirra sem hallast frekar til hægri í stjórnmálum.

Sá sem segist vera kominn heim telur að allt verði bjart yfir honum og þjóðinni þegar hann kemur heim, en fjallar ekkert frekar um hvað það er, sem gefur tilefni til þeirrar yfirlýsingar. Birta getur verið svo margt: 
- birtan sem stafar frá sólinni og er grundvöllur lífs á jörðinni, 
- birtan sem verður til innra með fólki vegna einskærrar lífshamingju, 
- birtan sem verður til þegar frelsarinn snýr aftur frá himni (money heaven, ef til vill) 
- birtan sem leggst yfir þjóð sem hefur kosið réttan stjórnmálaflokk til valda, 
- birtan sem lýsir frá öflugum stjórnmálaleiðtoga. 
Það er mörg birtan, en ekki verður ráðið af vísunni hverskonar birtu sá sem segist vera kominn heim er að tala um.

Að ferðalokum finn eg þig,
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.

Ekki er ljóst af samhenginu, úr hvaða ferð sá sem segist vera kominn heim, er að koma. Hvert var tilefni ferðar rhans? Hvert fór hann? Hvað gerði hann á þeim tíma sem hann var í ferðinni?  
Hér kemur auðvitað ótalmargt til greina. Það sem telja verður líklegustu skýringuna, svona í heildarsamhenginu er, að sá sem segist vera kominn heim, hafi flúið út úr ofbeldissambandi, þar sem hann var helsti gerandinn og farið í ferðalag þar sem hann tókst á við sjálfan sig, leitaði skýringa á því hvernig fór sem fór og lausna á því hvernig bætt yrði úr.  Margt bendir til þess að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu og það sem gerðist í aðdraganda ferðarinnar hafi með engu móti mátt rekja til þess að hann hafi gert eitthvað rangt, þvert á móti.  Hann er þess því fullviss að honum verði tekið opnum örmum þegar hann snýr til baka. Hann telur sig hafa verið fórnarlamb þess sem hann ávarpar í textanum, en hefur fyrirgefið af stórmennsku sinni. Hann er þess fullviss, að endurkomu hans verði fagnað.

Sá sem segist vera kominn heim, sendi textann á undan sér, fullur bjartsýni á að óbreytt nálgun hans að heimilislífinu muni vera hið eina rétta til að endurnýja sambandið.  

Það er ekki óvarlegt að ætla, að hann geti hafa metið stöðuna rangt.

ÉG ER KOMINN HEIM (FERÐALOK) - ÓÐINN VALDIMARSSON
Erlent lag en textinn eftir Jón Sigurðsson

23 júlí, 2016

Vanþróuð víkingaþjóð

Um aldamótin fylgdi ég nemendahópi í heimsókn til vinaskóla í Bæjaralandi í Þýskalandi og þar áttum við ágætan tíma og nutum gestrisni Þjóðverja.  Einn dagur heimsóknarinnar fór í rútuferð í skóg nálægt landamærunum við Tékkland, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þarna var um að ræða skóg sem fékk að þróast algerlega án aðkomu mannsins; tré uxu af fræi og féllu þegar sá tími kom. Fallin tré lágu síðan þar sem þau féllu og hurfu með tímanum aftur til jarðarinnar til að af henni gætu vaxið ný tré.
Þarna gegum við um þennan villta skóg dagspart og gerðum ýmislegt. Einn þáttur dagskrárinnar fólst í því að nemendunum var skipt í tvo hópa, Íslendingar í öðrum og Þjóðverjar í hinum. Hóparnir fengu í hendur spegla og áttu síðan að keppa í því hvorum gengi betur að ganga um skóginn þannig, að þátttakendur héldu speglunum fyrir framan sig eins og sjá má á myndinni. Með þessum hætti sáu þátttakendur upp í trjákrónurnar og himininn.
Það kom í ljós, að mig minnir, að Íslendingaliðinu gekk betur.
Í spjalli við kennara Þjóðverjanna á eftir sagði hann mér hver tilgangur leiksins hefði verið, nefnilega sá, að staðfesta þá kenningu að Íslendingar væru tengdari náttúrunni en Þjóðverjar. 

Ég ætla hreint ekki að þvertaka fyrir, að við þessar upplýsingar varð ég nokkuð hugsi og það örlaði á því sem kalla mætti móðgun. Það var auðveldlega hægt að túlka þessa kenningu sem svo, að þar sem styttra væri síðan Íslendingar komu út úr torfkofunum væru þeir skemmra á veg komnir og þar með síður þróaðir en Þjóðverjar (og þá væntanlega aðrar vestrænar þjóðir) að flestu leyti og í grunninn með vanþróaðri heila.
Auðvitað var þetta ekki lagt svona upp af kennaranum, heldur þannig að það væri jákvætt að vera nær náttúrunni. Það breytti hinsvegar ekki því hvernig ég sá þetta fyrir mér.

Síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að einn nemandinn úr mínum hópi kom að máli við mig í talsverðu uppnámi eftir að þýskur félagi hans hafði upplýst hann um að heilinn í Íslendingum væri vanþróaðri en Þjóðverjum.   Auðvitað varð niðurstaða um að gera ekkert veður úr þessu, enda varla auðveld umræða sem það fæli í sér. Við ákváðum bara að við vissum betur og þar við sat.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa spegilleiks síðan.
Var þetta kannski bara rétt hjá Þjóðverjunum?
Er kannski of stutt síðan við komum út úr torfkofunum?
Ráðum við við að halda í við þær þjóðir sem byggja á lengri þróunarhefð?
Erum við kannski ennþá víkinga- og veiðimannasamfélag sem er að þykjast vera eitthvað annað, uppblásin af minnimáttarkennd? (hádújúlækÆsland?)

WE ARE THE VIKINGS, HÚ!!
Æ, ég veit það ekki.

Svo er það hin hliðin á peningnum.

Er viðhorf útlendinga til okkar með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan?
Líta þeir á okkur sem skemmra á veg komin á flestum sviðum, kannski bara hálfgerða villimannaþjóð, þar sem lög og regla eru bara til hliðsjónar og siðferðileg álitamál eru ekki mál?
Skýrir það að einhverju leyti margumrædda og óvirðandi hegðun einhverra ferðamanna?  Kannski líta þeir svo á að þeir séu komnir til landsins sem leyfir þér allt.

Ég bið þá lesendur, sem mögulega taka efasemdir mínar um söguþjóðina nærri sér, afsökunar.

Ég held svo bara áfram að efast.


07 júlí, 2016

Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð

MYND 1 -
Aðal gönguleiðin á Vörðufell (um það bil)
Þegar við gengum á Vörðufell í (eld)gamla daga fórum við aðra leið en nú. Þá var lagt af stað frá sumarbústaðnum sem er beint á móti Iðu (sjá mynd 2) - ég í það minnsta. Leiðin lá í gegnum stórgrýtisbelti í miðri hlíðinni, sem var auðvitað því stórfenglegra sem göngufólkið var lágvaxnara. Ekki held ég að við höfum endilega verið að ganga á fjallið, kannski frekar að heimsækja þann ævintýraheim sem þessir klettar (eða stórgrýti) var.
MYND 2
Ljósasta minning mín frá einni slíkri gönguferð átti sér stað þegar ég var líklega í kringum 10 ára. Ekki þori ég samt að fullyrða það.  Við fórum þarna uppeftir, nokkrir strákar á líkum aldri (man ekki eftir að það hafi verið stelpur í hópnum).  Gott ef við vorum ekki í feluleik eða einhverjum slíkum á milli klettanna, en þar voru ótæmandi möguleikar á að láta sig hverfa. Það var farið að líða á dag og framundan að halda aftur heim. Við stóðum nokkrir í lok leiks, austan megin við stóran klett. Hliðin sem að okkur snéri var slétt og lóðrétt, hefur verið svona 3-4 m á hæð.
Það sem þarna birtist okkur greiptist síðan í hugann. Fyrir framan klettinn voru steintröppur sem lágu niður á við, að timburhurð í því sem kalla má "rómönskum" stíl.  Hurðin var járni slegin, lamir, umbúnaður og lokur.
Þarna stóðum við um stund og hver hlýtur að hafa hugsað sitt. Það gæti verið gaman að banka á dyrnar. Hvað ætli gæti gerst?
Niðurstaðan varð, í ljósi þess að við höfðum allir heyrt og lesið um álfa, að við vorum fljótir niður af fjallinu og heim, því ekki höfðum við hug á að ganga í björg.

Mörgum árum seinna átti ég leið um þetta svæði og reyndi að finna steininn sem ég bar í huganum, en leitin bar engan árangur. Ég efast oftast um að ég hafi séð þennan álfabústað, en samt aldrei nægilega mikið til að ég hendi þessu atviki í glatkistu minninga.  Kannski var var þetta bara eitthvað sem varð til í ævintýragjörnum barnshuganum. Hver veit?  Kannski getur einhver þeirra sem þarna voru með mér vottað að eitthvað líkt því sem ég lýsti, hafi átt sér stað.

Á 63. aldursári gekk ég á Vörðufell í gær ásamt fD og uG. Ekki reyndist gangan sú neitt sérstaklega auðveld, en við vörðuna hvarf öll þreyta. Ég hafði unnið sigur á sjálfum mér. Leiðin niður var lítið auðveldari, en talsvert öðruvísi erfið, þó.
Ofan af fjallinu opnast  einstök sýn yfir Laugarás, auðvitað, en ekki er síður magnað að sjá hvernig árnar fjórar: Tungufljót, Hvítá, Stóra-Laxá og Brúará sameinast ein af annarri áður en Hvítá leggur leið sína niður í Flóa, þar sem hún tekur Sogið til sín og breytist í Ölfusá.  Þá er fjallahringurinn auðvitað yfirmáta glæsilegur.



Smella á myndirnar til að stækka þær.


VIÐBÓT





01 júlí, 2016

Þorpið teiknað

"Um holt og hól" Dröfn Þorvaldsdóttir 2016
Það vita það ef til vill sumir, að undanfarin ár hef ég dundað mér við það í verkföllum og frístundum, að safna saman efni um Laugarás. Það bætist stöðugt við, en þó hægar en skyldi, ef til vill.
Eitt af því sem ég lít á sem hluta af þessu verkefni, er að teikna upp kort af  þorpinu. Það verk er nú hafið og nánast hver stund milli knattspyrnuleikja og heilsubótargöngutúra, hefur farið í þetta að undanförnu.  Við verkið notast ég við AI (Adobe Illustrator), mikið töfratæki, ekki síst þegar ég verð búinn að ná almennilegum tökum á því. Þarna er hægt að setja upp teikningu sem er lagskipt, þannig á á einu laginu eru bara vegir, á öðru íbúðarhús, þriðja gróðurhús, fjórða eitthvað sem er horfið, og svo framvegis. Svo get ég slökkt á þessum lögum eftir því sem hentar. Þetta er skemmtileg iðja.

Hér fyrir neðan má sjá stöðu þessa máls nú.
Ég notaðist við:
- loftmynd frá Loftmyndum ehf.,
- kortið sem Bjarni Harðarson birti hér fyrir nokkru og sem Atli Harðarson teiknaði,
- loftmynd af Laugarási (okt. 1966)
- skipulagstillögu vegna sláturhússlóðarinnar

Ég er ekki að birta þetta hér bara að gamni mínu, heldur þætti mér vænt um að fá ábendingar og það sem réttara má teljast og tillögur að nýjum lögum sem skella má inn á kortið.

Ég tek það fram, að lóðamörk eru ekki nákvæm þar sem mér finnst þáu ekki vera aðalatriði í þessu samhengi. Það væri þó gaman að geeta haft þau sem réttust og ég treysti því að kunnugir bendi mér á  það sem rétt telst vera.


Hér fyrir neðan er svo, til gamans, hluti úr kortinu, þar sem ég er búinn að setja inn tillögu um skipulag sláturhúslóðarinnar.


Veit einhver hvort lóðin var seld núverandi eigendum ásamt reitnum sem er austan vegarins?


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...