29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

24 september, 2016

Var Macbeth framsóknarmaður?

Um þessa mynd: sjá neðst.
Það getur verið gaman að samsæriskenningum, þó sannarlega séu þær oftast bara kenningar.  Nýjustu vendingar innan framsóknarflokksins kölluðu fram í huganum ákveðið samhengi milli þess sem átti sér stað í leikritinu hans Shakespeares, Macbeth og tilrauna núverandi formanns framsóknarflokksins til að halda völdum. Þarna er auðvitað ekki um algera samsvörun að ræða, en samt að mörgu leyti keimlíka atburðarás. Hér reyni ég að koma þessu heim og saman,

Leikritið hefst á því að Macbeth, sem ber titilinn Thane of Glamis, er á leið yfir heiði í Skotlandi, eftir frækinn sigur í orrustu, ásamt vini sínum Banquo. Þar verða á vegi þeirra 3 nornir eða seiðkonur, sem spá honum glæstri framtíð. Annarsvegar að hann hann hljóti titilinn Thane of Cawdor, sem er talsvert merkilegri en sá sem hann þegar ber og hinsvegar að hann verði konungur Skotlands.  Þeir félagar halda síðan áfram för sinni og mæta þá konungsmönnum sem segja Macbeth að hann sé orðinn Thane of Cawdor. Nornirnar höfðu sagt rétt fyrir um þá upphefð. Þetta kveikir í Macbeth. Banquo varar hann þó við:
BANQUO
                                   But 'tis strange:
And oftentimes, to win us to our harm,
The instruments of darkness tell us truths,
Win us with honest trifles, to betray's
In deepest consequence.
Lauslega segir hann hér, að til þess að skaða okkur, lofi myrkraöflin okkur einhverju smáræði, sem gengur eftir, en svíki okkur síðan þegar mest á ríður.

Í stuttu máli þá drepur Macbeth Duncan Skotakonung og nær þannig krúnunni. Í framhaldinu hefst síðan blóðugur ferill hans í hásæti og hann sér óvin í hverju horni. Hann lætur meðal annars drepa Banquo vin sinn, þar sem nornirnar sögðu að hann yrði faðir konunga. 

Loks stendur hann frammi fyrir því að nornirnar höfðu verið að plata hann með orðaleikjum. Sem dæmi um það má nefna, að þær sögðu honum að enginn sá sem kona hefði fætt myndi geta sigrað hann.  Það fór hinsvegar svo að Malcolm, eldri sonur Duncan's, drap hann, eftir að hafa tjáð Macbeth að hann hefði verið tekinn úr kviði móður sinnar, fyrir tímann.

Mér hefur fundist að hjá framsóknarmönnum sé skiplögð atburðarrás í gangi, sem nær síðan hámarki á flokksþingi. Formaðurinn átti leið um heiðina sína Norðanlands þar sem hann hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sæti framboðslistans (hann er, sem sagt, Thane of Cawdor).  Nornirnar sem spáðu honum æðstu metorðum tel ég vera þau VH, SM og GBS.
Hver vinur hans er, sem síðan er fórnað þar sem í honum á að felast ógn, veit ég ekki hver er, en hann gæti vel líkamnast í HÞÞ, með góðum vilja. Ekki veit ég heldur hvernig varaformaðurinn, sem nú hefur skorað hann á hólm, er annar en formaðurinn hafði búist við. Kannski varð það faðmlagið og loforðið sem reynist þýða annað en formaðurinn taldi.

-------------------------
MYNDIN
Myndin sem fylgir er jólagjöf sem ég gaf föður mínum árið 2009. Þar hafði ég búið til viðtal við hann um Framsóknarflokkinn í fortíð og nútíð, sem byggði að miklu leyti að því sem hafði komið fram í samræðum okkar um þann flokk.
Honum fannst jólagjöfin bara nokkuð fyndin. 
Ég hyl andlit systkina minna þar sem ég hef ekki beðið þau leyfis að fá að birta þau í samhengi við svona texta. 




18 september, 2016

Rannsóknarblaðamenn LB

Eitt viðamesta málið sem blasir við ritstjórn Litla Bergþórs þetta haustið, er talsvert viðamikil úttekt á ferðaþjónustu í Biskupstungum, á mælikvarða blaðsins. Þarna að sannarlega að mörgu að hyggja, því margt er það í ferðaþjónustunni sem ekki blasir við í daglegu lífi Tungnamanna. Mikið liggur við að vandað verði til verka, og því varð úr að tveir aldursreyndustu blaðamennirnir voru sendir út af örkinni til að afla efnis. Þeir völdu sér þennan sunnudagsmorgun til að bruna út af örkinni.

Annar ók og gerði tillögur að tökustöðum. Hinn tók á tökustöðunum.
Ljóst er, eftir þennan tökuleiðangur, að verkið er jafnvel umfangsmeira en áætlað var í fyrstu og mögulegt, jafnvel, að einhverjum spurningum verði ósvarað eftir að vinnslu umfjöllunarinnar lýkur, en hún mun birtast í næst tölublaði, sem kemur um mánaðamót nóvember og desember, næstkomandi.

Vegna leyndar, sem óhjákvæmilega hvílir yfir verkefninu og samkeppnissjónarmiða, verða ekki birtar hér neinar myndir sem teknar voru í ferðinni, utan þrjár: af girnilegum brauðhleifum frá  Sindra bakara í Bjarnabúð, af öðrum blaðamanninum skyggnast um nærumhverfi sitt og sú þriðja af húsbyggingum í Biskupstungum, sem líklegt er að fáir hafi augum litið frá því sjónarhorni sem sýnt er.
Loks er birt ein mynd af afurðum einhvers svaðalegasta kleinubaksturs sem átt hefur sér stað í Kvistholti.


Hér lýkur þessari skýrslu um enn eitt þarfaverkið sem ritstjórn Litla Bergþórs ræðst í.  

11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




05 september, 2016

Skeinipappír í jurtalitum

Ég byrja á því að afsaka notkun mína á þessu óheflaða orði í titlinum, en það var valið vegna þess að það taldist kalla á meiri athygli en önnur orð yfir sama fyrirbæri. En hvað um það, reynslan af því að upplifa útisalerni túrista (væntanlega) í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gær, gerði manneskju, mér nákomna, talsvert hugsi. Síðan gerðist það skyndilega í dag að eftirfarandi spurningu var varpað fram í engu samhengi við annað sem var í gangi:
"Er það ekki góð viðskiptahugmynd að lita klósettpappír í felulitum og skylda alla túrista sem kom til landsins til að kaupa hann?"
Í framhaldinu átti sér stað nokkur umræða um framkvæmanleika þessarar hugmyndar og auðvitað varð niðurstaðan engin, enda hugmyndin bara hugmynd á þessu stigi.

Ég birti hér mynd af salernisaðstöðu túrista, sem er innan um berjalyng á Þingvöllum. Á vinstri helmingi myndarinnar má sjá aðstöðuna eins og hún birtist okkur. Hægri hluti myndarinnar sýnir síðan sama svæði eftir að pappírinn, sem er óhjákvæmilegur þáttur í athöfn af því tagi sem þarna er um að ræða, hefur verið litaður með jurtalitum. Það er engum blöðum um það að fletta, að jurtalitaður pappír myndi falla einstaklega vel að umhverfinu.

 Það má halda áfram að velta þessari hugmynd fyrir sér og hún verður ekkert nema betri, Grundvöllur hennar er auðvitað fyrst og fremst sá, að stór hópur þeirra ferðamanna sem hingað koma, telja þetta vera land sem er mikið til ósnortið af siðmenningunni, eins og þeir þekkja hana. Þeir telja að hér séu þeir frjálsir til að hleypa lausu dýrinu í sér, frummanninum sjálfum.   Þetta þurfa Íslendingar með snefil af viðskiptaviti auðvitað að nýta sér og hér hafa verið lögð fram frumdrög að lausn á þeirri sjónmemengun sem skjannahvítur (ja, smá  brúnn líka eftir notkun) pappírinn hefur óhjákvæmilega í för með sér.
Það má sjá fyrir sér atvinnu við að tína jurtir og vinna úr þeim lit sem síðan myndi nýtast við litun á þessum pappír; örugglega miklu umhverfisvænni aðferð en bleiking. Úrgangsefnin sem útiskitufólkið skilur eftir skolast bara ofan í jarðveginn í næstu rigningu og af honum spretta grösin græn og blómin blíð.  
Ekkert nema pottþétt plan.

02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...