28 ágúst, 2016

Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði


Það sem hér er til umfjöllunar á sér bræður í tveim pistlum frá ágústmánuði árið 2014 og þá má sjá hér og hér.
Það er nánast erfitt að hugsa til þeirra tíma þegar móttaka nýnema í framhaldsskóla á Íslandi tók mið af því sem gerist þegar ný hæna kemur inn í hænsnahóp. Ég held og vona að það hafi tekist að breyta þeim hefðum sem voru orðnar allof fastar í sessi og sem fólust í því að spyrja nýnema hvern fjandann þeir vildu upp á dekk og gera þeim ljóst að þeir væru ekki velkomnir. Þeir þyrftu að gangast undir píningar og niðurlægingu til að geta fengið inngöngu í samfélag nemenda í skólanum; leggja leið sína í gegnum einhverskonar hreinsunareld.
Auðvitað getur hver maður séð að með þessum aðferðum við að taka á móti nýjum samnemendum voru eldri nemendur fyrst og fremst að gera lítið úr sjálfum sér, þroska sínum og atferli. Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma þeirra hugsun til skila, til þess var óttinn við að víkja frá hefðinni of sterkur. Ég er viss um að margir áttuðu sig á þessu, en voru ekki tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að breyta.


Það er svo, að dropinn holar steininn og við kusum að fara tiltölulega mjúka leið til að breyta þeim hefðum sem tengdust "busun" eða móttöku nýnema. Einum af öðrum var þeim þáttum fækkað, sem í raun voru óásættanlegir og þar kom, haustið 2014 og endanlegur viðsnúningur varð og það sem áður kallaðist "dauðaganga" í umsjón ruslapokaklæddra, sósu- og matarlitaðra  ógnvalda, vék fyrir "gleðigöngu" sem er leidd áfram af dansandi, skrautklæddum fígúrum af ýmsu tagi. Það var fatnaðurinn og tónlistin sem í raun breytti öllu yfirbragðinu.  Stjórn nemendafélagsins sem tók þá erfiðu ákvörðun að móta þessa nýju nálgun, verður seint fullþakkað. Vissulega voru þau ekki endilega öll sátt og vissulega voru aðrir eldrinemendur misglaðir, en þeir tóku þátt í breytingunni.
Ég hef, starfsins vegna, fylgst allvel með þessum þætti í gegnum árin. Neita því ekki, að ég kveið nokkuð fyrir því fyrstu skiptin; fannst skelfilegt hve lágt var lagst á stundum og man þá tíma þegar einhverjir eldri nemendur voru búnir að setja í sig það sem ekki má og þá fannst mér þessi hefð vera komin á sitt lægsta plan.

Nú er móttöku nýnema lokið í þriðja sinn, með þeim jákvæðu formerkjum sem  mótuð voru haustið 2014.   Trú mín á að maðurinn sé eitthvað annað og meira en kjúklingur, hefur vaxið enn frekar.

21 ágúst, 2016

Reynir Sævarsson og Skálholt 1974-5

Reynir Sævarsson (mynd: Kaja og Sævar)
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk í Laugarási, lést í Kaupmannahöfn að morgni 13. ágúst s.l. eftir erfið veikindi. Reynir fæddist 1959 og var því á 58. aldursári. Eftir að hafa gengið í Reykholtsskóla, lokið 9. bekk (Miðskóladeild) í Lýðháskólanum í Skálholti og stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, lá leið Reynis fyrst til Noregs þar sem hann vann eitt sumar við trjáfellingar. Hann nam síðan kvikmyndagerð um tíma, en lærði síðan frönsku í dönskum háskóla. Árangur hans í því námi leiddi til þess að franska ríkið bauð honum að stunda frönskunám í Frakklandi í eitt ár. Í kjölfar þess hóf hann þátttöku í hjálparstarfi á vegum Rauða krossins og ferðaðist um allan heim, en hann bjó sér heimili í Kaupmannahöfn. Árið 2002 veiktist hann alvarlega og varð þar með að gefa frekari starfaþátttöku upp á bátinn.
Kynni mín af Reyni stóðu nú svo sem ekki lengi, eða veturinn 1974-75, þegar hann var í  fyrsta nemendahópnum sem ég kenndi. Ég held að fyrsti nemendahópur hvers kennara hljóti að verða sá eftirminnilegasti og maður hlustar eftir því sem maður fréttir af þeim hópi síðan.
Í minningunni fór ekkert sérstaklega mikið fyrir Reyni. Hann var þarna að braska í gegnum táningsárin, eins og bekkjarfélagarnir. Hann var ljúfur nemandi, tranaði sér ekki fram, var jafnvel feiminn, en féll vel í hópinn, var góður námsmaður og sinnti sínu vel.
Foreldrar Reynis eru þau Karítas Óskarsdóttir og Sævar Magnússon. sem byggðu Heiðmörk. Börn þeirra urðu fjögur: Ómar, Reynir, Þór og Jóna Dísa (Sigurjóna Valdís).  Þór lést með sviplegum hætti árið 1993, svo ljóst má vera að mikið hefur verið lagt á heiðurshjónin Kaju og Sævar og systkinin.

Við andlát Reynis  hefur hugurinn reikað til vetursins í Skálholti, fyrir 42 árum. Margt er þar í móðu auðvitað, en þetta var ágætur vetur og ég á örugglega eftir að gera meira úr honum þótt síðar verði.

*********
Í Skálholti 1975: Þarna er afar góð vinkona okkar æ síðan,
Guðrún Ingólfsdóttir með okkur á mynd.
Þegar ég lauk stúdentsprófi frá ML vorið 1974 þurfti ég að gera upp við mig hvað ég ætlaði að gera til að skapa mér möguleika til framtíðar. Ég var ekki tilbúinn að skella mér beint í framhaldsnám, og það varð úr, að sr. Heimir Steinsson, þá rektor Lýðháskólans í Skálholti, tók áhættuna á því að  ráða mig, nýstúdentinn, til starfa. Þáverandi unnusta mín og síðar eiginkona, Dröfn Þorvaldsdóttir fékk einnig starf í mötuneyti skólans þennan vetur.

Vissulega var kennsla eitt þeirra starfa sem til greina komu hjá mér og ég taldi, að með því að kenna í Skálholti einn vetur myndi ég átta mig á hvort þessi starfsvettvangur gæti hentað mér.


Í Lýðháskólanum þennan vetur voru um 24 lýðháskólanemar, en einnig hafði skólinn tekið að sér að sjá um kennslu nemenda 9. bekkjar, en þeir Tungnamenn hefðu að öðrum kosti þurft að fara í Héraðsskólann á Laugarvatni og einhver(jir) tók(u) reyndar þann kost.  Það voru 14 nemendur í 9. bekk þennan vetur, 12 "Tungnamenn" og 2 sem höfðu tengsl við sveitina, en sem áttu fjölskyldur annarsstaðar. Þetta voru þær Svala Hjaltadóttir, sem mig minnir að hafi verið í skólanum í gegnum Ásakot, líklegast systurdóttir Vigdísar, þó ég þori ekki að fullyrða það, og Ásbjörg Þórhallsdóttir, systir Dóru, konu sr. Heimis.
Aðrir nemendur í bekknum voru þessir:
Atli V. Harðarson frá Lyngási.
Birgir Haraldsson frá Höfða.
Eiríkur Már Georgsson frá S-Reykjum þá, en síðar Vesturbyggð í Laugarási.
Grímur Þór Grétarsson frá S.Reykjum.
Guðmundur Hárlaugsson frá Hlíðartúni.
Guðmundur B. Sigurðsson frá Heiði.
Guðrún Sverrisdóttir frá Ösp.
Hallveig Ragnarsdóttir frá Ásakoti.
Inga Birna Bragadóttir frá Vatnsleysu.
Jón Ingi Gíslason frá Kjarnholtum.
María Sigurjónsdóttir frá Vegatungu.
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk.

Það er ákveðin eldskírn að kenna í fyrsta sinn, ekki síst þegar maður er aðeins 5 árum eldri en nemendurnir. Þessum bekk kenndi ég ensku og fyrirmyndir mínar við þá iðju hlutu að verða þeir Benedikt Sigvaldason, sem var skólastjóri og enskukennari í Héraðsskólanum á Laugarvatni og Björn Ingi Finsen, sem var enskukennarinn minn í ML. Ég hugsa að ég hafi frekar nýtt aðferðir Björns Inga, enda hafði ég ekki í mér ýmislegt það sem einkenndi kennsluaðferðir eða kennsluhætti Benedikts.
Ég kenndi Lýðháskólanemendunum auðvitað einnig, ensku og frönsku. Þeir voru enn nær mér í aldri og sumir jafnaldrar.

Samstarfsfólkið var hið ágætasta. Sr. Heimir var einstaklega hæfur í starfi. Hann hafði kynnst lýðháskólahugmyndinni  þegar hann kenndi við danskan lýðháskóla í þrjú ár áður en hann var ráðinn til starfa í Skálholti.  Dóra hélt utan um mötuneytisreksturinn, en annað starfsfólk var það sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Fimm úr þessum hópi eru nú látin, en við hin höldum áfram að eldast, svona rétt eins og gerist.

Í sem stystu máli má segja að þessi fyrsta reynsla mín af kennslu hafi orðið til þess að ég ákvað að nema ensku og uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Kennslan varð síðan ævistarf mitt.


Bestu þakkir færi ég Jónu Dísu fyrir upplýsingar um lífshlaup bróður hennar.

19 ágúst, 2016

Jóna á Lind

Jónína Sigríður Jónsdóttir, eða Jóna á Lindarbrekku, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, laugardaginn 13. ágúst. Útför hennar er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 - handrit
Atriði í 4 þáttum, skotið inn á milli annarra atriða.
Persónur: Manneskjan, sem er kona komin á steyp(ir)inn og rödd símans.
1. Manneskja kemur að síma og er að flýta sér. Tekur tólið af.
Síminn: (öskrar) Nei, þú færð ekkert samband hér!
Manneskjunni krossbregður og hún skellir tólinu aftur á.
2. Manneskjan kemur að símanum, varlega. Lyftir tólinu mjög varlega, við öllu búin. ekkert gerist.
Bíður eftir sóni og velur síðan fyrstu töluna.
Um leið fer tólið að lemja manneskjuna í andlitið.
Síminn: (hrópar) Var ég ekki búinn að segja þér að láta mig í friði, fæðingarhálfvitinn þinn!
Manneskjan missir tólið og grípur fyrir andlitið í skelfingu. Hleypur út.
3. Manneskjan kemur aftur, alveg miður sín og fer að reyna að tala um fyrir símanum.
Manneskjan: En barnið er alveg að koma. Ég verð að ná í sjúkrabíl!
Gengur síðan varlega að símanum, tekur tólið af, bíður eftir sóni, á alltaf von á hinu versta, velur fyrstu tölu, bíður, aðra tölu, bíður, þriðju tölu, bíður, fjórðu tölu, bíður. Smám saman fer manneskjan að slappa af. Velur fimmtu tölu og fær þá í sig gífurlegan rafstraum gegnum tólið. Kippist til, ógurlega og öskrar upp yfir sig. Tólið fellur. Manneskjan flýr og ógeðslegur hlátur heyrist frá símanum.
4. Manneskjan birtist, gengur að símanum. Geðveikislegt útlit og hlátur, setur símann á gólfið og hoppar síðan öskrandi á honum. Ef síminn brotnar ekki nægilega við þetta, hleypur manneskjan baksviðs og kemur aftur með slaghamar og mélar símann, ásamt því sem hún hrópar ókvæðisorð að honum.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 Aftari röð frá vinstri:
Sigríður Guttormsdóttir, Karítas Óskarsdóttir, Georg Franzson,
Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason,
Elinborg Sigurðardóttir, Jens Pétur Jóhannsson. Fremri  röð
frá vinstri: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Sigríður Jónsdóttir,
Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir,
Guðmundur Ingólfsson. Dansmeyjar hægra megin:
Gústaf Sæland og Jakob Narfi Hjaltason.

Af einhverjum ástæðum, dettur mér alltaf þetta atriði úr þorrablótsdagskránni 1991 í hug þegar mér verður hugsað til Jónu á Lindarbrekku. Þarna var hún, hálfsjötug, að leika kasólétta konu sem ætlar að hringja á sjúkrabíl, en síminn er hreint ekki á því að veita henni færi á því. Jóna vílaði hreint ekki fyrir sér að taka að sér þetta hlutverk og skilaði því með slíkum ágætum að ég man það enn.
Atriði eins og þetta tengjast auðvitað einhverju sem gerst hafði innan sveitar árið á undan og ég man hreint ekki hvað það var með símamálin sem kallaði fram þennan þátt í skemmtidagskránni, en gaman fannst mér að finna þetta handrit í fórum mínum. Ég tel að það sé bara vel við hæfi að láta það fylgja hér, um leið og ég reyni að hripa niður einhverjar línur í minningu Jónu.

Jónu á Lindarbrekku, eða Jónínu Sigríði Jónsdóttur, hef ég þekkt alla ævi. Samskiptin milli okkar og fjölskyldna okkar í Laugarási voru einna nánust á fyrstu áratugum ævi minnar. Jóna og Guðmundur komu í Laugarás 1951, einum tveim árum áður en ég leit dagsljós fyrsta sinni. Þau fluttu í örlítið sumarhús á Lindarbrekku (29 m²), sem þau byggðu síðan við um 10 árum seinna, enda varla um annað að ræða þar sem börnunum fjölgaði stöðugt. Þau urðu fjögur, öll fædd á einum áratug, frá 1951-1961: Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa og Grímur.
Þegar Jóna og Guðmundur fluttu í Laugarás voru þar fyrir Knútur Kristinsson læknir og kona hans Hulda Þórhallsdóttir, Helgi, bróðir Guðmundar  og kona hans Guðný (Gauja) Guðmundsdóttir, en þau tóku við búskap á Laugarásjörðinni 1946, foreldrar mínir, Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir í Hveratúni, sem komu í Laugarás 1946, og Jón Vídalín Guðmundsson, bróðir Gauju og Jóna Sólveig Magnúsdóttir á Sólveigarstöðum, en þau komu rétt fyrir, eða um 1950.
Guðný í Hveratúni, Jóna á Lindarabrekku, Gauja í Helgahúsi,
Maja í Skálholti, Magga á Iðu.
Á þessum tíma og reyndar fram á sjöunda áratuginn má segja að þessir íbúar Laugaráss hafi verið ein fjölskylda; frumbýlingar sem stóðu saman, hjálpuðust að, var boðið í barnaafmælin, skiptust á jólagjöfum og þar fram eftir götunum. Á sjötta áratugnum reis hús fyrir dýralækni í Launrétt og þangað fluttu Bragi og Sigurbjörg og 1958 komu svo Hjalti og Fríður í Laugargerði.
Þarna var fámennur og þéttur hópur og það má bæta við fjölskyldunum á Iðu, í Skálholti og á Spóastöðum.
Fyrir mér var Jóna alltaf þessi hressa kona, afskaplega félagslynd og barngóð og ágætur húmoristi.
"Sæll komdu", sagði hún alltaf þegar hún heilsaði, en aldrei "Komdu sæll". Ég reikna með að þarna hafi verið um einhverja austfirsku að ræða, en Jóna var frá Neskaupstað. Hún kom á Laugarvatn um miðjan fimmta áratuginn, þar sem hún vann í skólamötuneytinu veturinn 1948-49 og kynntist eiginmanninum sem síðar varð. Hún var síðan í sumarvinnu hjá Helga í Laugarási áður en hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og trúlofaðist Guðmundi sínum.


Gæti verið saumaklúbbur í Hveratúni: f.v. Jóna á Lindarbrekku,
Fríður í Laugargerði, Ingigerður á Ljósalandi, Maja í Skálholti,
Gauja í Helgahúsi, Gerða í Laugarási (læknisfrú),
Guðný í Hveratúni, frú Anna í Skálholti, ??,
Renata í Launrétt, ??, Áslaug á Spóastöðum?
Þeir hverfa af sviðinu, hver á fætur öðrum, þessir fyrstu íbúar í Laugarási, en það er víst lífsins saga, eins og augljóst má vera. Þeim er reiknaður mislangur tími; sumir hafa horfið á braut alltof snemma, en aðrir lifa vel sprækir fram í háa elli.  Jóna átti eitt ár í nírætt þegar kallið kom, og flestum þykir það væntanlega ágætur aldur.

Árið 2012 varð það úr að hjónakornin á Lindarbrekku fluttu í þjónustuíbúð á Flúðum. Þaðan lá leið þeirra um þrem árum síðar á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og ég er viss um að þar áttu þau góða vist saman, hjá því úrvals fólki sem þar starfar.  Ég má til með að halda því fram hér, að þau hefðu gjarnan viljað ljúka ævigöngunni á sambærilegu heimili hér í Laugarási, en um það var ekkert val.
Guðmundur lifir Jónu sína, á 102. æviári.

Það get ég sagt með sanni, að með Jónu hverfur á braut hreint ágæt kona og úrvals nágranni. Henni þakka ég samfylgdina.

Í Litla Bergþór í desember 2010 birtist ágætt viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við Guðmund og Jónu.

Guðmundur fagnar aldarafmæli sínu í apríl 2015.







14 ágúst, 2016

Ég hef varann á mér

Dröfn Þorvaldsdóttir: Drög að leirtauslínu
Það fer ekki mikið fyrir henni í dyngjunni, svona alla jafna. Endrum og eins berast tenóraríur úr hljómtækjunum þarna inni, sem merki um að litir snerta flöt í erg og gríð.
Innan dyra í dyngjunni safnast fyrir myndverk af ýmsu tagi: hefðbundin akrýlverk á striga, hrosshársstungin akrýlverk, leirfígúrur og lampaskermar. Það er oftast þegar lítið er orðið um striga að hún leitar á önnur mið og úrval þeirra flata sem verða fyrir valinu eykst stöðugt. Nú síðast er það leirtau, eins og það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Harla fínt, auðvitað.

Ég dunda mér í minni skonsu, eins og gengur, alveg með það á hreinu, að ef hún finnur ekki hefðbundinn flöt til að mála á, þá fái hún ekki að mála á mig.

10 ágúst, 2016

"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt

Ég velti því fyrir mér, eins og sjálfsagt margir sem ekki fá þá þjónustu sem þeir greiða fyrir, hvort réttast væri bara að þegja og halda áfram með lífið, eða láta vita af óánægju minni með þjónustuna.
Ég ákvað að létta á mér, með réttu eða röngu, eftir flug með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 21. júlí. s.l.  Þann 25. júlí sendi ég félaginu bréfið sem birtist hér fyrir neðan. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég hef engin viðbrögð fengið, enda átti ég svo sem ekki von á þeim.  Að mínu mati hefur félagið haft ágætan tíma til að senda mér línu og þar sem hún hefur ekki borist, set ég sendinguna frá mér hér inn.

Póstur til Icelandair, 25. júlí 2016


Komiði sæl Icelandairfólk

Ég sendi þennan póst á þrjú netföng, sem mér fannst líklegust. Ef ekkert þeirra er rétt, óska eg eftir því að þessum pósti verði komið á þann eða þá aðila sem sjá um mál af þessu tagi.
Inngangur

Tilefni þess að ég ákvað að senda ykkur línu er ferð okkar hjónanna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 21.-22. ágúst s.l. Flugnúmer FI217. Ég reikna nú með að þið fáið slatta af sendingum að þessu tagi og þar með að þið munið sennilega henda þessu í ruslið og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samt sendi ég þetta nú, ef ekki til annars, þá til að losa mig við það sem mér finnst ég þurfa að segja um þetta flug.

Sonur okkar býr með fjölskyldu sinni í Álaborg og þangað fórum við í heimsókn. Við vildum ekki bóka flug fram og til baka, þar sem óvíst var um hvenær af heimferðinni myndi verða. Við keyptum miða fyrir okkur bæði alla leið frá Keflavík til Álaborgar, með tveim flugfélögum, með 3ja daga fyrirvara á samtals kr. 67.941 (+ 4000 fyrir eina tösku) og vorum alveg sátt við að greiða þá upphæð, en ekki meira um það.

Miðakaupin
Svo kom að því að bóka flugið heim. Það var ekkert mál frá Álaborg til Kaupmannahafnar, á verði sem var bara mjög eðlilegt.

Þann 17. júli lá fyrir að við stefndum á að fara heim 21. eða 22. júlí og þá var vaðið í að panta.

Við leit að hentugu flugi frá CPH til REK fundum við eitt sem hentaði ágætlega að því er tímasetningu varðaði: Icelandair kl. 22:30 á kvöldi, sem þýddi að við gætum verið komin heim til okkar í Laugarás kl, ca 02:00 í síðasta lagi. Það réði einnig talsverðu við ákvörðun okkar, að af einhverjum ástæðum hefur það síast inn í huga okkar gegnum tíðina, að þó Icelandair sé ekki ódýrasti möguleikinn í flugi, þá sé um að ræða flugfélag sem veitir góða, örugga þjónustu.
Við bókuðum flug með Icelandair frá CPH til REK í gegnum tripsta.dk og greiddum fyrir það kr. 126.433 eða um 63.000 á mann á Economy-class. Sannarlega fannst okkur þetta yfirgengilega há upphæð fyrir flug til Keflavíkur, en létum okkur þó hafa það, kannski ekki síst vegna þess að það hafði verið okkar ákvörðun að kaupa ekki miða báðar leiðir í upphafi.
Síðan rökstuddum við þetta fyrir sjálfum okkur með þeim hætti að Icelandair væri traust og gott, íslenskt flugfélag með nýjan flugflota – sem sagt ekkert lággjaldaflugfélag sem enga þjónustu veitti um borð nema gegn aukagjaldi. Þarna myndum við fá þægileg sæti, gætum horft á kvikmynd, þyrftum ekki að greiða aukalega fyrir farangur og þar fram eftir götunum.

Í flugstöðinni
Ég orðlengi aðdragandann ekki frekar. Við vorum mætt á Kastrup kl. 20:30, fimmtudagskvöldið 21. júli. Á skiltum gátum við séð að flugið okkar væri á áætlun. Fórum í gegnum það sem fara þarf í gegnum og þar sem við komum í gegnum öryggisskoðunina blasti við okkur að ný áætlun fyrir flugið okkar sem átti að vera kl. 22:30 var 23:50, eða seinkun frá upphaflegri áætlun, um klukkutíma og tuttugu mínútur. Ætli það hafi ekki verið sérstaklega í ljósi þess verðs sem við höfðum greitt (kr. 63.000 á mann), en við þessar upplýsingar gerði all nokkur pirringur vart við sig. Við gátum þó huggað okkur við það að framundan var ferð í þægilegum sætum með skjá fyrir framan okkur þar sem við gætum smellt á einhverja þeirra ótal kvikmynda sem í boði væru í tæknilega fullkomnu afþreyingarkerfi vélarinnar.

Um kl. 10 var verslunum í flugstöðinni lokað, einni af annarri og einnig veitingastöðum.

Einhverntíma um það leyti komu nýjar upplýsingar á skjái sem greindu frá því, að nýr brottfarartíma væri áætlaður kl. 00:10, eða 1 klst og 40 mín seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta varð ekki til að auka jákvæðni okkar hjónakornanna í gerð flugfélagsins.

Svo fór, að upp úr 23:30 gengum við að tilgreindu hliði og þá kom í ljós, að síðasta áætlun um brottför myndi standast, sem hún síðan gerði, nokkurnveginn.

Í flugvélinni
Í flugvélinni, TF-FIW, Boeing 757 27B, sem er 26 ára gömul og ber nafnið Búrfell, tóku við ný vonbrigði og pirringsefni sem ég leyfi mér að lista hér fyrir neðan:


1. Í sætisbökum var ekkert afþreyingarkerfi. Þar fór vonin um að geta dundað sér við eitthvað slíkt í þessu næturflugi. Vissulega má geta þess, að eftir að græjan var komin á loft og slökkt hafði verið á sætisbeltaljósum keyrðu flugþjónar um með vagn og hófu að dreifa iPad spjaldtölvum á einhverja farþega, virtist eins og þar væru börnin í fyrirrúmi, en okkur var ekki boðið að fá græju að láni.

2. Sætin voru grjóthörð og bara verulega óþægileg, þannig að maður gat enganveginn verið og ég náði ekki einusinni að festa blund, sem oftast gerist.

3. Við vorum með sæti í röð 9, næstfremstu sætaröðinni fyrir aftan innganginn í vélina. Maður í sætaröðinni fyrir framan mig teygði sig upp í spjald fyrir ofan sig, sjálfsagt bara af forvitni. Þetta spjald reyndist vera skröltandi laust. Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að um væri að ræða 26 ára gamla flugvél og neita því ekki, að þarna fann ég fyrir umtalsverðum ónotum.

4. Flugstjórinn baðst velvirðingar á töfinni sem átti að hafa verið tilkomin vegna þess að þessi vél kom seint inn til Keflavíkur einhversstaðar frá. Auðvitað vissi flugfélagið um þá seinkun með nægum fyrirvara til að geta sent skilaboð tímanlega til farþega (að minnsta kosti þeirra sem höfðu greitt kr. 63.000 fyrir farið), svo þeir gætu þá bara dvalið lengur í Kaupmannahöfn. Engin slík skilaboð bárust og vorum við þó bæði með síma á okkur.

5. (afleiðing upphaflegs pirrings) Ég gætti þess auðvitað að láta ekki í ljós óánægju mín við starfsfólkið í vélinni, enda engan veginn við það að sakast. Hinsvegar var, við upphaf þessarar flugferðar, búið að opna aðgang að skúmaskotum í höfðinu á mér, sem varð til þess, að ég fann flestu eitthvað til foráttu. Þar má til dæmis nefna, að flugþjónninn sem tók brosandi við farþegunum þar sem þeir gengu um borð, var hreint ekki brosandi, nema bara með vel þjálfuðum andlitsvöðvum. Þar sem hún sagði „Góða kvöldið“ við hvern og einn, rak hún út úr sér tunguna á báðum „ð“-unum í góÐa og kvöldiÐ. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfum mér að hafa látið þetta fara í taugarnar á mér, en svona var það samt og lái mér hver sem vill. Annar flugþjónn, sem ekkibrosti stöðugt, var beðinn um kodda. Leitaði ekkibrosandi í hverri hillunni á fætur annarri, án árangurs. 
Viljið þið vera svo væn að gera ekki þá kröfu til starfsfólks og ganga stöðugt um með þetta hálfvitalega bros á vörum. Bros þarf að ná til augnanna, annars er það ekkert bros.

6. (afleiðing upphaflegs pirrings) Farþegum var tilkynnt, að ljósin í vélinni yrðu slökkt, en jafnframt bent á að fyrir ofan sætin væru lesljós. Allt í lagi með það. Ég ýtti á viðkomandi hnapp fyrir ofan mitt sæti. Ég þurfti reyndar að teygja mig beint upp í lofti tið að kveikja. Ljósið kviknaði ekki í fyrstu og reyndar ekki hjá neinum. Aðspurð greindi ekkibrosandi flugþjónninn frá það að þau myndu sennilega kvikna þegar hreyflarnir færu í gang. Viti menn, það gerðist. Ljósið sem átti að lýsa mér var beint fyrir ofan höfuðið á mér og lýsti beint ofan á höfuðið á mér, nánar tiltekið þann hluta þess þar sem hár eru mjög strjál og varla til staðar. Ljósið lýsti sem sagt ekki á bókina sem ég ætlaði að fara að lesa og þar sem ég hafði ekki áhuga á að farþegar fyrir aftan mig fengju að njóta upplýsts höfuðs míns, slökkti ég ljósið aftur og lét mér í staðinn nægja daufa skímu frá ljósi frúarinnar.

Þessi 26 ára gamla vél fór í loft og flutti okkur til Keflavíkurflugvallar með þeim þægindum eða óþægindum sem í boði voru. Þægindin fólust aðallega í kaffibollanum sem ég fékk án þess að greiða fyrir. Gat líka fengið gosdrykk eða vatn ókeypis (jeij).

7. (afleiðing upphaflegs pirrings) Þar sem vélin var lent í Keflavík var það fyrsta sem flugþjónn sagði í hátalarakerfið: Góðir farþegar, VELKOMIN HEIM! , og hrópaði nánast síðasta hlutann (feitletraða). Er þarna um að ræða einhverja stefnu sem var tekin eftir að Lars Lagerbäck tjáði sig um hve yndislegt væri að heyra „velkomin heim“ í hvert sinn sem lent væri í Keflavík? Ég er sammála því, að það er yndislegt, svo lengi sem það er ekki hrópað. Ég beið eiginlega eftir að farþegarnir tækju sig til, lyftu upp handleggjunum og hrópuðu „HÚH“. Þeir gerðu það ekki.

8. (afleiðing upphaflegs pirrings) Flugvélinni var lagt talsvert langt frá flugstöðinni í Keflavík og farþegar síðan ferjaðir með rútum í flugstöðina, sem er svo sem allt í lagi. Það sem var ekki allt í lagi var, að rúturnar settu farþegana út eins langt frá komusal flugstöðvarinnar og mögulegt er. Ég geri mér grein fyrir að þarna er varla við félagið að sakast, en engu að síður, ofan á annað smátt og stórt varð ekki til að fegra myndina að þessu ferðalagi.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það eru miklar annir í flugi á þessum árstíma og skiljanlegt að það geti orðið tafir á flugi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að þið þurfið að nýta allar vélar sem þið eigið til að flytja alla þá farþega sem bóka með ykkur flug um allan heim, ekki síst til Íslands. 
 Það sem ég er ósáttur við, fyrst og fremst er, að hafa greitt kr. 63.000 fyrir flugferð sem var eins og ég hef lýst hér að ofan. Að mínu mati er það algerlega út úr korti, en byggir sjálfsagt á því að einhverjir þurfi að greiða hluta miðaverðsins fyrir þá farþega sem fengu miða á lága verðinu, sem hægt er að auglýsa daginn út og inn.

Ég sló inn af rælni einhverja daga í september og þar kom í ljós eftifarandi verðlagning á flugsætum:

Miðinn er 47.000 kr. ódýrari en það sem ég þurfti að greiða. Það er að mínu mati algerlega ótækt. Mér er sama hvað ykkur finnst um það. Í mínum huga væri það eins og ég þyrfti að borga þrefalt verð í búð fyrir mjólk sem er að verða búin.

Eitt jákvætt vil ég nefna. Við lentum á CPH kl. 09:30 að morgni 21. júli og áttum síðan flug kl. 22:30, eins og áður er nefnt. Við vorum búin að hafa áhyggjur af hvernig við gætum geymt farangur á flugvellinum. Svo komumst við að því, að það var hægt að tékka hann strax inn og þar með var það mál leyst.
___________________________________________________________

Þessi sending hefur tvennan tilgang:

1. Að fá útrás fyrir pirringinn vegna þessarar flugferðar og síðan geta haldið áfram fullur jákvæðni og bjartsýni.

2. Leggja fram kvörtun, sem líklegast lendir bara í ruslakörfunni, en hefur samt verið lögð fram.

Ég veit ekkert hvað ég geri við þessi skrif ef þið svarið mér ekki með einhverjum hætti: útskýrið fyrir mér hversvegna ég þurfti að greiða kr. 63.000 (126.000 alls) fyrir þessa flugferð. Ef ég hefði greitt um kr. 20.000 á mann hefði ég þagað yfir þeim vonbrigðum sem þessi ferð var okkur. Ég vænti svars/viðbragða sem allra fyrst.

Með góðri kveðju

02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

01 ágúst, 2016

Kraðak eða ekki kraðak

Ég setti mér það markmið að upplifa um þessa um þessa verslunarmannahelgi (á þessari verslunarmannahelgi, ef maður á ættir að rekja til Grundarfjarðar eða þar um kring) hvernig ástandið er á Geysissvæðinu þegar ferðamannafjöldinn er eins og hann getur mestur orðið.  Ég stóð við það og hafði með mér EOS-inn svo hægt væri síðar að sannreyna upplifunina.
Veðrið var auðvitað eins gott og best var á kosið, utan það að það hefði mátt vera skýjað, svona upp á birtuskilyrðin að gera.
Ég og samferðafólk vorum síðan þarna uppfrá í um tvo klukkutíma frá því um kl. 11:00 til 13:00, og gengum á Laugarfell þaðan sem er ágætt útsýni yfir svæðið. Eins og við mátti búast var þarna á sama tíma og við fjöldi ferðamanna af ólíku þjóðerni, en fjarri því að teljast eitthvað sem þetta svæði ræður ekki við að taka við.  Ég neita því ekki, að ég hafði átti von á talsvert  meiri fjölda en reyndin var, ekki síst þar sem fréttir höfðu greint frá því að metfjöldi skemmtiferðaskipa lægi í Reykjavíkurhöfn.


Niðurstaðan var sem sagt sú, að ég náði ekki markmiðinu um að upplifa kraðak á Geysissvæðinu. Ég hefði kannski á að hringja á undan mér og spyrja hvenær dags þarna væru flestir á ferð.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða myndir geta smellt hér.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...