29 október, 2016

Dagurinn í dag

Þar sem ég er búinn að segja allt sem ég ætla að segja um þessar kosningar til Alþingis ætla ég bara að taka eitthvað annað fyrir.

Flest það sem mér dettur í hug á þessum þungbúna degi, eftir að hafa farið í hraustlega kraftgöngu klukkan 11, undir regnhlíf sem varla dugði til að koma í veg fyrir að ég yrði holdvotur og eftir að hafa komið til baka, stoltur yfir því að hafa gengið þrjá og hálfan kílómetra, stoltur yfir því að geta bara yfirleitt verið stoltur yfir einhverju, er fremur þunglamalegt. Ég ætla þó að freista þess að dæla þeim þyngslum ekki yfir annað fólk; fólk sem í sakleysi sínu hrasar inn á þessi skrif.
Þó þetta sé dagur sem kann að ráða úrslitum um hvernig lífi okkar næstu árin verður háttað og fátt jákvætt virðist þar vera í kortunum, þá er þetta einnig dagur fyrir ofurlítið ljóð.

Þetta er dagurinn í dag.


Dagurinn, þar sem einmana músarrindillinn hoppar og skoppar, rennblautur milli trjágreinanna og hefur ekki vit á að koma sér í skjól, ekki frekar en of stór hluti okkar hefur ekki vit á að kjósa rétt.

Dagurinn, þegar hálfaumkunarverðir túristar á bílaleigubíl stoppa við götukortið af Laugarási og botna hvorki upp né niður í því áður en þeir halda áfram inn í rigningun, svona eins og kjósendur sem nenna ekki að velta neinu fyrir sér.

Dagurinn, þegar ekki var slegið met í fjölda fólks í heilsubótargöngunni, svona eins og........já.

Dagurinn, þegar rennurnar á húsinu höfðu ekki undan að flytja regnvatnið alla leið niður í skurð, rétt eins og heilinn í okkur ræður ekki við að meðtaka allt áreitið sem hann verður fyrir, hvort sem hann vill eða ekki.

Dagurinn, þegar Laugarásbúar kíkja út úr skógarþykkninu til að kjósa yfir sig nýtt þing til næstu fjögurra ára. Það er eins gott að þeir kjósi nú rétt.

Dagurinn, þegar ég þurfti að velta fyrir mér stöðu fjölskyldna og skóla og vorkenndi bæði fjölskyldunum og skólunum.

Dagurinn, þegar álftirnar á Hvítá, einnig þessi vængbrotna, höfðu fært sig um set.

Dagurinn, þegar kjósendur þurfa að réttlæta atkvæðið sitt opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dagurinn, þegar ég stillti sprittkertu upp á bakvið bing af hreindýramosa áður en ég tók mynd af herlegheitunum.

Dagurinn, þegar ég velti fyrir mér hvar best er að setja krossinn þannig að líkurnar á því að eitthvað jákvætt komi út úr því aukist.

Dagurinn, þegar mig langar dálítið í heitt kakó og rjómapönnukökur.

Dagurinn, þegar regninu slotar, droparnir úr yfirfullum rennunum þagna og fyrirheit eru gefin um að framtíðin verðir björt.

Þetta er svona dagur.


23 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (2)

Hér er framhaldið leiðbeiningum mínum til lesenda, eftir allmargar áskoranir, um það hvar þeir ættu að setja krossinn sinn á kjördag, þann 29. október.  Í fyrri hluta leiðbeininganna renndi ég mér yfir fimm þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu. Það þýðir að ég á eftir að afgreiða fjóra sem þannig háttar um og síðan eina þrjá, sem bjóða ekki fram allsstaðar.
Ég tek eftirfarandi fram aftur, svo enginn verði misskilningurinn: 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti. 
Þá er bara að vinda sér í þetta:

P-listi: Píratar

Þú kýst Pírata ef:
- þú vilt grundvallarbreytingar á samfélaginu.
- þú veist fátt verra en fjórflokkinn.
- þú ert tölvunörd
- þú vilt nýja stjórnarskrá.
- þú er fyrrverandi stærðfræðikennari við framhaldsskóla í uppsveitunum.
- þú vilt flokk sem er hvorki hægra megin né vinstra megin, en ert ekki viss.....
- þér finnst geðveikt kúl að kjósa flokk með útlenskt nafn.
- þú "notar" en hefur samt rænu á að mæta á kjörstað.
- þú kýst alltaf flokka sem fá mikið fylgi í skoðanakönnunum.
- þú ert áhættufíkill.
- þú ert búin(n) að fá upp í kok af þessu ógeðslega samfélagi.
- þú er áhugmanneskja um að kjósa oft um flest.
- karlþingmaður flokksins hefur alveg náð þér (meira að segja þó hann sé ekki í framboði).
- þú er fyrir dálítið kaótíska aðferð við að taka ákvarðanir.
- þig langar að segja fokk við fjórflokkinn.
- þú ert tölvulistaspíra.
- þú starfar hjá tölvuleikjafyrirtæki.
- gegnsæi er lykilorðið í þínum huga.

S-listi: Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands

Þú kýst Samfylkinguna ef: 
- þú talar um flokkinn sem Samfylkinguna en ekki Samfó.
- þú ert jafnaðarmanneskja af gamla skólanum.
- þú studdir Alþýðuflokkinn í denn.
- þú vorkennir forystufólki í Samfylkingunni vegna þess hve illa flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum.
- þú ert hlynntur aðildarumsókn að ESB.
- þú ert krati og stolt(ur) af því.
- þér líkar jarðbundinn og látlaus stíll formannsins.
- þú skilur ekki hversvegna flokkurinn er talinn vera hluti fjórflokksins.
- þú getur ekki fyrirgefið Bjartri framtíð að hafa hlaupist undan merkjum.
- þér finnst skemmtileg áskorun að skilja málefnin sem flokkurinn berst fyrir.
- þú ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en ruglast. Er Flokkurinn ekki örugglega með S?

T-listi: Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

Þú kýst Dögun ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú manst ekki hvort þú ætlaðir að kjósa þennan flokk eða Flokk fólksins og setur bara krossinn hér.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað, annars er þér bara alveg sama.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú telur Ingu Sæland vera í þessum flokki. Þér finnst hún svo frábær.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert ofurhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.
- þú horfir á Friends í endursýningu.
- þú varst á Austurvelli veturinn 2008-9.
- þú setur krossinn bara hipsum hapsum og hann lendir á þessum flokki.
- þú ert kjósandinn sem styður minnimáttar.

V-listi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Þú styður Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ef:
- þú ert femínisti
- þú ert öfgafemínisti, en samt ekki ein(n) af þeim sem hættu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri of rosalegt.
- þú skilgreinir þig sem sósíalista.
- þú studdir Alþýðubandalagið í denn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ert pólitísk(ur).
- þú hefur einstrengingslegar skoðanir á flestum málum.
- þú ert vinstrivinstrikrati.
- þú ert á móti aðild að ESB.
- þú ert listaspíra.
- þú trúir því að það þurfi að hafa hugsjónir í pólitík.
- þú þolir hreint ekki spillingu og baktjaldamakk.
- þú ert baráttumanneskja fyrir náttúruvernd.
- þú vilt "eitthvað annað" en stóriðju til að efla atvinnulíf.
- þú ert sérstök baráttumanneskja gegn kúgun auðvaldsins.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmum norður og suður:

R-listi: Alþýðufylkingin

Þú kýst Alþýðufylkinguna ef:
- þér finnst VG ekki vera nægilega vinstrisinnaður.
- þú varst félagi í Fylkingunni í den, og vilt bara vera þar ennþá.
- þú telur svona flokk eiga erindi við nútímafólk með síma.
- þú vilt gefa skít í fjórflokkinn, sama hvað.
- þú ert dálítill byltingarsinni í þér.
- þú varst hrifin(n) af liði Fljótsdalshéraðs í Útsvari í fyrra.
- þú þekkir ekki muninn á þessum flokki og Þjóðfylkingunni. Skellir krossinum bara hér.


Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi:

E-listi: Íslenska þjóðfylkingin

Þú kýst Íslensku þjóðfylkinguna ef:
- þú ert á "E"
- formaðurinn hefur ekki verið rekinn úr flokknum.
- þú ert rasisti í þeim skilningi sem lagður er í það orð á samfélagsmiðlum.
- þú vilt loka landamærum.
- þú hefur andúð á múslimum.
- þú ert á móti mosku.
- þú varst einu sinni Hægri græn(n), en þurftir að samþykkja að aðhyllast skoðanir Þjóðfylkingarinnar til að lifa af.
- þú hlustar á útvarp Sögu allan daginn.....alla daga.
- þú varst einusinni í Fylkingunni og fyrir þér er fylking bara fylking.
- þú uppfyllir ofangreind skilyrði og ert á kjörská í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi og setur krossinn ekki óvart á Alþýðufylkinguna.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Reykjavíkurkjördæmi suður:

H-listi: Húmanistaflokkurinn

Þú kýst Húmanistaflokkinn ef þú ert á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður og ef:
- þú telur þig vera meiri húmanista en annað fólk.
- þér finnst mikilvægt að flækja málin.
- þér finnst mikilvægt að hafa langan aðdraganda að inntaki stefnu flokksins.
- þú vilt að fjölmiðlun virki eins og um 1960.
- þér finnst formaðurinn ljúfur og staðfastur karl.

------------------------------------------------------------
Þá er komið að niðurstöðunni.
Nú er ég búinn að taka fyrir öll framboð til Alþingis í komandi kosningum. Nálgun mín af verkefninu felst að stórum hluta með því að skella einhverjum merkimiðum á framboðin, sem taka mið af tvennu:
- einhverjum þeirra stefnumála sem ég hef séð fljóta framhjá þar sem ég hef hlustað með öðru eyranu og horft með öðru auganu.
- alhæfingum, sem byggja að stærstum hluta á myndum (misskýrum) sem koma í hugann þegar ég leiði hugann að viðkomandi framboði.
Þetta er ein leiðin til að velja sér fulltrúa á Alþingi.

Það eru til fleiri leiðir.
Ég finn sjálfur engan flokk sem hefur allt það sem mér finnst að minn flokkur þurfi að hafa. Ég ætla samt að kjósa, að sjálfsögðu, því ef ég hefði ekki rétt til að taka þátt í að kjósa til Alþingis eða sveitarstjórnar, hver væri staða mín þá?
Svona set ég dæmið upp:
1. Hverjar eru lífsskoðanir mínar? Hvernig samfélag vil ég?  Hver er ég? Ég byrja á að svara þessum spurningum. Þetta eru engar smá spurningar.
2. Búinn að svara spurningunum. Þá spyr ég: Hverjum þessara flokka sem bjóða fram TREYSTI ég best (reynslan) til að vinna að óskum mínum?  Það getur vel verið að þá komi ekki nema einn flokkur til greina, en þeir geta einnig orði einir fjórir eða fimm. hvað geri ég þá?
3. Hver þessara flokka er líklegur til að koma manni á þing? Það er nú heldur lítið gagn í því að kjósa einhvern flokk sem mun ekki eiga fulltrúa á Alþingi eftir kosningar, er það? þarna get ég verið búinn að þrengja valkostina talsvert mikið.
4. Nú er komið að lokaatrennunni og það gerist með því að bera saman valkostina sem eftir standa.  Þar kann eitthvað að koma fram sem hljómar betur en annað og leysir þannig málið.
5. Ef enn er vandi með valið, þá er bara að bíð þar til í kjörklefanum. 

Ég hef eiginlega bar eitt megin ráð til kjósenda: "Ekki kjósa bara "af því bara". Það er ábyrgðarleysi. Þú ættir að reyna að sjá fyrir þér hvernig samfélag þú vilt og kjósa að því búnu. Þá hefur þú kosið rétt.
________________________


Svona rétt í lokin, til að bjarga mannorðinu, ef það er þá til staðar.  
Ef einhver ykkar hafa ekki húmor fyrir kosningaleiðbeiningum mínum í þessum skrifum, þá bið ég þá að láta bara vera að kíkja á bloggskrif mín yfirleitt og leita fanga frekar þar sem þeim líður betur með málflutninginn. 
Megum við öll kjósa rétt.



22 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (1)

"Svona rétt áður en ég held á kjörstað", kallaði ég pistil sem ég lét frá mér fara rétt fyrir síðustu kosningar. Þar var um að ræða pælingar mínar í aðdragandanum, þar sem ég reyndi að binda endahnútinn á ákvörðuðnarferli. 
Nú hefur fólk komið að máli við mig og farið þess á leit að ég sendi frá mér leiðbeiningar um hvernig atkvæði þess verður best varið; hvernig það eigi að kjósa. Mér er ljúft og skylt að verða við þessum óskum, eins og nærri má geta. 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti, en þessir tveir þættir fleyta mér ansi langt við að ljúka þessu verki.
Ég mun hér á eftir  og í næstu færslu, taka fyrir flokkana sem bjóða fram og sé til hvort mér tekst að fjalla um þá alla, en hér er um að ræða meiri vinnu en flestir geta ímyndað sér. 
Ég tek flokkana fyrir í stafrófsröð listabókstafanna.

Hefst þá leikurinn:

Eftirfarandi listar hafa verið boðnir fram í öllum kjördæmum:

A-listi: Björt framtíð

Þú kýst Bjarta framtíð ef:
- þú elur í brjósti vonina um bjarta framtíð þessarar þjóðar.
- þú hefur sömu skoðun á helstu þjóðþrifamálum og frambjóðendur þessa flokks halda á lofti.
- ef það skiptir þig máli að stjórnmálaumræða verði hófstilltari
- þú býrð á Torfastöðum.
- þér finnst sniðugt að einn frambjóðandinn heitir einmitt eins og flokkurinn.
- þú ert dálítill pönkari inn við beinið.
- þú átt erfitt með að skilgreina þig sem Vinstri græna(n).
- þú hefur orðið fyrir vonbrigðum með Samfylkinguna.
- ef þú er til í að skoða aðild að ESB.

B-listi: Framsóknarflokkur

Þú kýst Framsóknarflokkinn ef:
- þú ert bóndi sem kýst ekki Sjálfstæðisflokkinn.
- þú er andstæðingur ESB aðildar.
- þú ert Skagfirðingur.
- þú býrð í Hrunamannahreppi.
- þú átt(ir) digran sjóð á aflandseyju.
- þú væntir þess að nú sé gamla framsókn mætt aftur á svæðið.
- þú telur að flokkurinn hafi staðið sig vel í ríkisstjórn.
- þú hefur grætt á því persónulega að flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.
- þú er aðdáandi mest áberandi flokksmannanna á kjörtímabilinu.
- þú ert bara framsóknarmaður í hjarta þínu og það breytir þig engu til eða frá hvað gert er í nafni hans.
- þú átt auðvelt með að gleyma. Gast t.d. aldrei lært margföldunartöfluna.
- þú ert frekar mikill tréhaus.
- þú ert ekki pólitískur, að eigin sögn.
- þú hlustar á útvarp sögu daglega.
- þú hefur notið þess umfram stuðningsmenn annarra flokka (að undanskildum sjálfstæðismönnum, að sjálfsögðu), að vera framsóknarmaður.

C-listi: Viðreisn

Þú kýst Viðreisn ef:
- þú ert kona úr Sjálfstæðisflokknum.
- þú rekur eigið fyrirtæki.
- þú trúir á frelsi einstaklingsins til orða og athafna.
- þú er jákvæður fyrir því að ganga í ESB.
- þú hefur ekki fengið að njóta þín þrátt fyrir að hafa alltaf kosið sjálfstæðisflokkinn.
- þú vilt gæta hagsmuna þeirra sem meira mega sín.
- þú ímyndar þér að flokkurinn sé tilraun til að brjótast undan valdi fjórflokksins.
- þú telur að þú munir standast freistinguna að henda krossinum á gamla flokkinn þegar þú mætir í kjörklefann.
- þú ert jafnaðarmaður sem telur víst að flokkurinn sé nær miðjunni en sjálfstæðisflokkurinn.
- þú telur forystumenn flokksins vera hugsjónafólk, sem mun berjast fyrir bættum heimi.
- þú studdir samfylkinguna þegar hún hallaði sér til hægri.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en finnst hann nú vera að færast of lang til vinstri.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við brotthvarf SDG úr forystu hans.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við spillinguna sem grasserar hvar sem hann kemur niður fæti.
- þú studdir sjálfstæðisflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við spillinguna sem grasserar hvar sem hann nær að stíga niður fæti.

D-listi: Sjálfstæðisflokkur 

Þú kýst Sjálfstæðisflokkinn ef:

- þú ert alþýðumaður þeirrar gerðar, að fyrirmenni af einhverju tagi höfða til litla þín.
- þú ert af flokksættum.
- þú átt fyrirtæki.
- þú er ópólitísk(ur).
- þú þolir í rauninni ekki eitthvað samfélags/samneyslukjaftæði, þó þú talir ekki þannig.
- þú lítur á flokkinn sem Flokkinn.
- þér tekst ekki að bakka út úr því að telja þig vera sjálfstæðismann.
- þú ert "HOT".
- þú ert miðaldra, hvítur karl í góðri stöðu.
- þú ert lögfræðingur eða með sambærilega tegund menntunar.
- þú ert bóndi sem kýst ekki framsóknarflokkinn.
- þú þráir stöðugleika samfélags þar sem hinir ríku og valdamiklu fá óáreittir að vera áfram ríkir og valdamiklir.
- þú hefur litlar tekjur en trúir því að það sé í rauninni þinn hagur að auðmenn og fyrirtæki verið sem öflugust. Þú trúir því að þá komi að því að þessir aðila geta ekki notað allan gróðann sinn og það sem afgangs verður muni koma þér til góða. (brauðmolakenningin).
 - þú hefur notið þess umfram stuðningsmenn annarra flokka (að undanskildum framsóknarmönnum að sjálfsögðu), að vera sjálfstæðismaður.
- þú trúir á íslenska drauminn, þar sem þú rétt skrimtir af örorkubótunum þínum eða ellilífeyrinum.
- þú átt auðvelt með að gleyma. Gast t.d. aldrei lært stafrófið.

F-listi: Flokkur fólksins

Þú kýst Flokk fólksins ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú ert Sæland. Þér rennur blóðið til skyldunnar.
- þú ruglast. Ætlaðir að kjósa Dögun, en blandaðir þessum flokkum óvart saman.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert eitilhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.

----------------------------
Þá leyfi ég ykkur, lesendur góðir, að athuga hvort þið finnið ykkur sjálf í stuðningsliði einhverra þeirra flokka sem ég er búinn að gera grein fyrir. Ef ekki, þá er bara að bíða eftir síðari skammtinum, en hann kemur vonandi með kvöldinu.
Ef einhver ykkar verða fyrir því að hitna í hamsi við lesturinn, bendi ég á þessar aðferðir til slökunar:
1. Beittu þindaröndun.
2. Núvitundarsession er góð hugmynd.
3. Slakaðu á vöðvum líkamans með því að spenna þá og slaka á þeim á víxl.
4. Farðu út að ganga eða skokka. Því æstari sem þú ert, því hraðar skaltu hlaupa.
5. Gældu við gæludýrið þitt. Ef þú átt ekkert slíkt, er mögulegt að strjúka bara húsdýrunum. Það róar, sannaðu til.
6. Borðaðu gulrót eða drekktu eitt glas af rauðrófusafa (minnkar blóðþrýsting)
7. Forðastu fyrir alla muni að fá þér kaffi, sígarettu, bjór eða vodka.
8. Dreifðu huganum með því að fara út að taka myndir af haustlaufum.
9. Hringdu í flokksfélaga.
10. Teldu upp að 2016.
11. Skrifaðu þig frá þessu.
12. Taktu ákvörðun um að vera jákvæð(ur)
13. Kynntu þér hugræna atferlismeðferð.
14. Fáðu þér eina róandi.

Vonandi duga þessi ráð fram að seini hluta þessara leiðbeininga um hvernig þú ættir að kjósa laugardaginn 29. október, næstkomandi.


20 október, 2016

Hvað á maður að segja?

Ég hef nú hingað til reynst geta tekið fyrir hin ólíklegustu viðfangsefni á þessum síðum mínum, bæði umfangsmikil og alvarleg og lítilvæg og léttúðug. Nú bregður svo við að ég á í vandræðum með að finna rétta flötinn á því að segja frá, eða fjalla um síðustu helgi í lífi okkar Kvisthyltinga. Þetta var helgin þegar fD tók sig til og blés til fyrstu einkasýningar á verkum sínum. Yfirlýstur tilgangur var að þetta væri eitthvað sem þyrfti að gera, fyrr eða síðar.  Í því efni var ég alveg sammála, enda stefndi í að ég yrði að gefa eftir mitt vinnusvæði í húsinu þar sem stöðugt bættist í myndverk af ýmsu tagi í dyngju hennar og þau voru byrjuð að vætla inn til mín með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þarna varð eitthvað að koma til.
Við tókum Skálholtsbúðir á leigu, bjuggum til viðburð(i) á samfélagsmiðlum, auglýstum í Bláskógafréttum og reyndum að kynna í sunnlenskum prentmiðlum. Þarna átti að vera um að ræða tvo viðburði, annan opinn öllum með kynningu á sýningu sem yrði opin laugardag og sunnudag, undir heitinu "Myndlist og meira", hinn, sem var lokaður og beint að tilteknum markhópi vinnufélaga, kórfélaga, ættingja og vina, fékk heitið "Myndlist og meira - á tímamótum".

Sýninguna settum við upp á föstudegi með ómetanlegri aðstoð annarra Kvisthyltinga. Þar var mikið pælt í hvað skyldi vera hvar og um það urðu engin veruleg átök. Allt var klárt fyrir opnun á hádegi á laugardeginum. Eitthvað virðast tilraunirnar til auglýsingar hafa skilað sér því þó nokkrir lögðu leið sína í Oddsstofu í Skálholtsbúðum.
Á laugardagskvöldinu tóku gestir að streyma að, á viðburðinn "Myndlist og meira - á tímamótum" um kl. 18. "Á tímamótum" að þrennu leyti: 1. Fyrsta einkasýning fD, 2. stórafmæli fD fyrr á árinu og 3. nýtt æviskeið hjá mér. Úr þessu varð hin ágætasta kvöldstund þar sem tókst, eftir því sem best er vitað að skapa harla óþvingað og létt andrúmsloft með öruggum veislustjóranum, einkadótturinni, úthugsuðu inngangserindi fD, fádæma löngu, en innihaldsríku uppistandi þess sem þetta ritar og ekki síst yndisfögrum tónlistarflutningi Þóru Gylfadóttur (sópran), Egils Árna, Kvisthyltings (tenór) og Jóns Bjarnasonar, píanósnillings.

Það verður að segjast eins og er: okkur Kvisthyltingum var mikill heiður sýndur um þessa helgi og þakkir okkar til gestanna sem kíktu til okkar eru getum við ekki sett í einhver almenn orð.  Ætli sé ekki bara áhrifaríkast að segja einfaldlega" takk".

Síðustu daga hefur fD tekið í að jafna sig og freista þess að átta sig á bókhaldinu, sem var víst ekki alveg hannað fyrir það sem gerðist. Allt mun þó koma heima og saman áður en langt um líður.


13 október, 2016

PR í molum


Það er, eins og hver maður getur ímyndað sér, óskaplega mikilvægt, þegar maður þarf að koma einhverju á framfæri, og renna yfir þá möguleika sem í boði eru, og sem geta leitt til þess að markhópur manns viti yfirleitt af því sem maður ætlar að fara að gera og sem maður vill að sem flestir viti af.
Ég er búinn að vera í hlutverki PR-manns, sem kallast á íslensku "almannatengill", undanfarnar vikur. Ég hef þurft að koma fram með hugmyndir að myndefni og texta sem þykir við hæfi og ég hef haf með höndum að koma þessu efni á framfæri með slíkum hætti að enginn gæti sagt síðar að hann hafi ekki vitað af viðburðinum.
Þetta hefur gengið svona fyrir sig:


1. Ég bjó til samsetningu sem ég skellti sem forsíðumynd á viðburðarsíðu á samfélagsmiðlinum Facebook. Ég deildi þeim viðburði síðan og þannig hafa þeir sem teljast til fina (facebookvina) minna fengið veður af viðburðinum.

2. Ég útbjó auglýsingu í Bláskógafréttir vel tímanlega og hún birtist síðan með pomp og prakt í nýjasta eintaki. Ágætur miðill, Bláskógafréttir, þar sem auglýsingar kosta ekkert og öll heimili í Bláskógabyggð fá eintak.

3. Ég óskaði eftir því við tvö helstu héraðsfréttablöðin á Suðurlandi að þau birtu fréttatilkynningu fyrir mig, með mynd og litlum texta.
Þessi þáttur fór alveg í vaskinn, utan það að fréttatilkynningin birtist í morgun á Sunnlenska.is.
  a. Ég svo sem skil það alveg að annar sunnlenski prentmiðillinn sem ég hafði samband við, sem byggir tilveru sína á auglýsingatekjum alfarið, birti ekki fréttatilkynningar si svona, enda gerði hann það ekki. Mér hefði þótt vænt um að vita af höfnuninni svo ég gæti þá leitað annarra leiða.
  b. Ég þykist hafa vissu fyrir því að fréttatilkynningin kemur í hinum prentmiðlinum, en þar er sá hængur á, að það vill svo til að póstur er ekki borinn út í Biskupstungum á föstudegi í þessari viku og þar með kemur það blað ekki fyrr en eftir helgi.

Textinn sem átti að birtast í prentmiðlunum er svohljóðandi:


Dröfn Þorvaldsdóttir, Kvistholti í Laugarási, heldur fyrstu einkasýningu á verkum sínum í Oddsstofu í Skálholtsbúðum helgina 15. – 16. október, næstkomandi. Sýningin verður opin frá kl. 12:00 til 16:00 báða dagana.

Á sýningunni eru verk sem Dröfn hefur unnið að frá árinu 2010, að stærstum hluta akrylmyndir, en einnig verk unnin í leir og á bolla. Hrosshár koma talsvert við sögu í verkunum. Dröfn er að mestu sjálfmenntuð í listsköpun en hefur sótt námskeið bæði hérlendis og Danmörku.

Dröfn, sem er leikskólakennari að mennt, fagnar stórafmæli á þessu ári og eru þau tímamót ekki síst tilefni sýningarinnar. Hún hefur búið í Biskupstungum frá 1979, þar af í Laugarási frá 1984.

Hér situr almannatengillinn og fær fáar hugmyndir til viðbótar til að koma sýningu frúarinnar á framfæri. Hann gæti auðvitað hringt inn í símatíma á útvarpsstöðvum, skellt inn einhverjum kveikjum á Twitter (sem hann hefur nú ekki komist upp á lag með að nota), beitt sér á Instagram eða Snapchat, eða einhverju öðru slíku, sem hann á langt í land með að tileinka sér svo vel.

Hugmyndaflug mitt við þessar aðstæður leiðir mig bara að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að leita til velviljaðra vina minna um að deila viðburðasíðunni þar sem greint er frá því sem þarna er um að ræða.   Nú velti ég því fyrir mér hvort það er vel gert.


11 október, 2016

Ég, hálfvitinn

"Ertu þá hálfviti?" spurði einn starfsfélaginn mig í dag. Að sjálfsögðu játti ég því til þess að komast hjá því að svara spurningum um mál sem ég vissi ekkert sérstaklega mikið um.

Gegnum tíðina hafa orðið til ótal, ágæt, íslensk orð yfir ýmiss konar ástand á fólki; orð sem voru bara ágæt til síns brúks þegar þau urðu til. Þessi orð eiga það sameiginlegt að hafa síðan umbreyst smám saman og orðið að örgustu skammaryrðum og horfið út úr orðaforða siðaðs fólks.

Ég er nú í þeirri stöðu að vera að stíga, hægt og hægt út úr starfi sem ég hef gegnt lengi, þar sem ég hef safnað í höfuðið heilmiklu viti um flest það sem lýtur að stofnuninni sem ég vinn við. Með þessari breytingu gerist það smám saman að ég veit æ minna um það sem gerist nýtt og hef því meiri tíma til að velta mér upp úr því sem var. Það sem var myndar síðan grunninn sem ég byggi á hæfileika mína til ráðgjafar af ýmsu tagi, eftir því sem eftir er leitað og þörf er fyrir. Mér kemur alltaf í huga þegar gamla tíma ber á góma, þegar Hreinn heitinn Ragnarsson hóf mál sitt á kennarafundum með þessum orðum: "Í Héraðsskólanum........". Samstundis skynjaði maður það í hópnum að fólkið var ekkert sérstaklega tilbúið að leggja við hlustir, eða taka mark á einhverju sem gert hafði verið í Héraðsskólanum fyrir áratugum.  Allt á sinn tíma og nútíminn er ekkert sérstaklega ginnkeyptur fyrir því að gapa við vísdómsorðum, sem geta jafnvel einfaldað mörg mál og stuðlað að farsælli niðurstöðu. Menn telja sig oft vita betur.

Ég held að ég sé ekki kominn á sama stað og Hreinn að þessu leyti, ekki enn. Enn finn ég augu samstarfsmanna beinast að mér þegar spurning liggur í loftinu og bíður svars. Nú er ég stundum farinn að segja: "Ég veit það ekki!" og nýt þess jafnvel stundum. Ef ég veit svörin, svara ég auðvitað og ég vona að þeim skiptum fari ekki mjög hratt fjölgandi þegar ég veit ekki. Við sjáum til með það.

Hvað um það. Hér er ég búinn að finna ágæta leið, að eigin mati til að endurnýta gömul orð sem hafa hlotið þau örlög að verða ónothæf.
Þetta virkar einfaldlega þannig, að þegar starfsmaður stofnunar eða fyrirtækis er byrjaður að draga saman seglin og veit jafnvel ekki lengur nema helming þess sem hann vissi þegar hann var upp á sitt besta, myndi samkvæmt þessu teljast vera hálfviti.  Þegar lengra líður síðan gæti hann orðið kvartviti, með um það bil fjórðung hámarks vits á innviðunum, þá örviti, sem veit örlítð, sem væri svona um það bil sem hann er endanlega að kveðja vinnustaðinn og loks óviti, sem myndi gerast við það að hann hætti störfum.

Eftir á að hyggja er ég ekki orðinn hálfviti ennþá, ef miðað er við ofangreinda skilgreiningu. Ætli ég sé ekki nær því að teljast vera ofviti, sem stefnir í að verða bara viti, áður en ég verð trekvartviti og síðan hálfviti og svo fram eftir götunum.

Já, þetta er aldeilis ekki búið enn.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...